Módernisti
verður til
Hamskipti Jóhannesar úr Kötlum
Jóhannes úr Kötlum var fæddur á næstseinasta ári bjartsýnisaldar og drakk bjartsýni aldamótakynslóðarinnar með móðurmjólkinni. Tuttugasta öldin varð honum stöðugt syndafall. Í honum fékk öldin spámann og refsivönd sem sá nýjan heim í hugskoti sínu en var um leið glöggskyggn á syndir samtímans. Skáldskapur hans var þversagnakenndur eins og öldin, bjartsýnn og myrkur, innleitinn, útleitinn, hvass, lygn, háttbundinn, frjáls.
Þegar Jóhannes úr Kötlum var á 45. ári varð hann þjóðskáld með ljóðinu sem við köllum oftast Land míns föður. Árið eftir kom áttunda ljóðabók hans út. Fram að því hafði hann verið meðal afkastamestu skálda en nú liðu tíu ár uns næsta ljóðabók undir nafni hans kom út. Á þeim áratug urðu hvörf í skáldskap hans.
Litríkur ferill var að baki. Hann hafði kvatt sér hljóðs sem nýrómantískt skáld. Fáir stóðu honum framar í bragsnilld og ljóðrænu. Síðan varð hann skáld þeirrar byltingar sem í vændum var, kommúnisti í fullu starfi sem setti inntakið ofar öllu öðru. Bæði þessi skeið einkennast af frjósemi og skáldskapargleði en efa gætir lítt. Jóhannes tekur stökk úr rómantík í byltingarkveðskap átakalaust. 1Sjá t.d. Óskar Halldórsson. „… hvernig skal þá ljóð kveða?” Nokkrar athuganir á ljóðformi Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 36 (1975), 124-37, Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta. Nokkrar hugleiðingar um bókmenntalega stöðu Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 39 (1978), 124-42; Njörður P. Njarðvík. Vort er ríkið. Fáein orð um baráttuljóð Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 39 (1978), 143-57..
Skáldfákur hans fetar greiða og beina leið uns hann var orðinn þjóðskáld. Þá gægist fram óánægja með sjálfan sig og eigin stöðu. 2Einar Bragi. Viðtal við Jóhannes úr Kötlum. Birtingur 3,3 (1957), 1-9 (einkum bls. 6-7).
Ljóðabókin Sól tér sortna kom út árið 1945 og ber vitni óvissu skáldsins og upplausn hugmynda hans. Hún er varða á þróun sem hafði hafist þegar Jóhannes breytti sér úr nýrómantískum braglistamanni í lúðraþeytara byltingarinnar. Það nýja í bókinni er efinn sem gægist þar öðru hvoru fram. Í ljóðabókinni Eilífðar smáblómi hafði Jóhannes virst á leið til hnitaðri skáldskapar en nú er sem hann hrökkvi til baka án sérstaks takmarks. 3 Óskar Halldórsson. „… hvernig skal þá ljóð kveða?”, 127-29. Bragstefna Sólarinnar er óreiðukennd og lítill heildarsvipur á, innan um útleitin baráttuljóð eru tregablandin þjóðkvæði. Sjá má nokkur módernísk einkenni en flest ljóðin eru þó rímuð og boðskapurinn skýr eins og áður.
Í þessari ljóðabók er kvæðið Dagskipun Stalíns þar sem dregin er upp helgimynd af manni sem sé „mannsins bezti vin.“ (57) 4 Allar tilvitnanir í Sól tér sortna eru sóttar í: Ljóðasafn V. Rvík 1982. En barnsleg trú er fjarri því að setja svip sinn á bókina sem heild. Þvert á móti segist skáldið í Æviágripi, fremsta ljóði og stefnuyfirlýsingu hennar, vera „oftast í klípu / og óánægður með heiminn, þjóðina og flokkinn.“ (7) Ljóðið er frásagnarkvæði um barn aldamótanna og syndafall þess sem heimsstyrjaldirnar tvær eru gríðarleg tákn fyrir. Þó að formlega sé ljóðið engin nýjung gegnir öðru máli um sjálfsmynd manns sem hafði um hríð verið sannfært baráttuskáld: „Mitt líf hefur mestan part lent í villu og svíma: / í labbi og áti og svefni og þvíumlíku“ (7). Skáldið kennir eigin tilgangsleysis sárt og biðst afsökunar á að hafa ekki fallið í stríði.
Skáldið sem fram kemur í þessari bók er sannfærður sósíalisti og ómyrkur að orða hugsjónir sínar. Hann telur framtíðina þeirra en þó ber á svartsýni og þreytumerkjum. Í stríði er skáldskapur gagnslítið vopn. Fátækt og misrétti verða ekki sigruð með pennanum einum. Hlutskipti baráttuskáldsins er vanþakklátt og óvíst um árangur. Öðru hvoru brýst fram vægðarlaus sjálfsskoðun þar sem skáldið er vegið og léttvægt fundið. Í einu ljóði skrifar ritvél skáldsins ásakanir á hendur þeim sem sat á friðarstóli þegar heimurinn barðist, hafði hæst en situr svo í kyrrðinni (67-69). Vonbrigði með stöðu byltingarinnar eru skýlaust orðuð í kvæðinu Öreigaminning: „En þessi barnaskapur / á þönum eftir frelsi / – hann þekkist ekki lengur.“ (86) Forystumenn sósíalista voru orðnir ráðherrar og teknir að gera málamiðlanir: „sjálfur Billinn makkar / við Ólaf Thors og Hermann“ (86). Veruleikinn er annar en skáldið hafði boðað og skáldið hlífir ekki sjálfum sér og horfist í augu við það. Hann stendur þó við sitt opna ljóð og í lokin kemur herhvöt hans: „Nei, mætti ég þá biðja / um minna af veizluhöldum, / en meira af byltingunni.“ (87)
Stríðið er samt mesta áfallið. Eins og aðrir sósíalistar stóð Jóhannes úr Kötlum með bandamönnum í þessu stríði en fram kemur í þessari stríðsljóðabók að honum finnst erfitt að réttlæta mannfórnir valdhafanna, jafnvel þó að við Hitler sjálfan sé að eiga. Þetta kemur fram í lokaorðum kvæðisins Móðir hermannsins: „Sigur er unninn. Sonur þinn fær orðu. / Svona er lífið. Vertu bara góð.“ (70) Eftirmáli bókarinnar er á sömu lund og upphafið. Skáldið er enn sakbitið yfir að vera á lífi og hafa ekki dáið eins og aðrir: „Og kvæðin mín – þau dæmast til að deyja / sem daprir vottar þess, er hefur skeð. / Í stríði þessu létu margir lífið, / og lof sé guði, ef þau teljast með.“ (110)
Það leynir sér ekki á Sól tér sortna að Jóhannes úr Kötlum er í kreppu. Hann er tekinn að efast um baráttuna en einkum um eigin skáldskap. Sá efi hefur þó enn ekki fengið skýrt form. Jóhannes úr Kötlum var fangi eigin skáldanafns. Ekki aðeins var hann verðlaunaskáld á sigurhæðum þaðan sem engin leið er nema niður á við heldur einnig rauður penni. Hann hafði gerst þjónn byltingar sem nú var orðin að stjórnarmyndunarþrefi. Hún hafði kallað á hið opna form sem fyrst hafði verið sem hressandi bað í köldu vatni en hafði misst endurnýjunarkraftinn.
Sól tér sortna hlaut harða gagnrýni. Harðasta af Magnúsi Kjartanssyni: 5Tímarit Máls og menningar 7 (1946), 65.
Jóhannes úr Kötlum er of hefðbundinn í framsetningu sinni og túlkun. Hann talar miskunnarlaust um frelsi, kúgun, réttlæti o. s. frv., enda þótt þeim orðum hafi verið útjaskað svo af ómerkilegum pissskáldum að þau hafa enga merkingu lengur, nema blásið sé í þau nýju lífi; en það hefur Jóhannesi úr Kötlum ekki tekizt.
Kúvendingin úr nýrómantík í róttækan baráttuskáldskap virðist ekki hafa kostað átök og fórnir. Öðru máli gegndi nú. Staða skáldsins innan bókmenntastofnunarinnar réð þar mestu. Rúmlega þrítugt og stórefnilegt skáld hefur leyfi til að þróast. Sömu reglur gilda ekki um hálffimmtug verðlaunaskáld. Jafnaldri Jóhannesar, Davíð Stefánsson, hafði lent í að verða stofnun þegar með fyrstu ljóðabók sinni. Hann náði aldrei sömu snerpu aftur, Svartar fjaðrir eru enn taldar merkasta ljóðabók hans. Til skálda sem hafa slegið í gegn eru gerðar kröfur. Þau hafa skyldum að gegna. Skyldur Jóhannesar úr Kötlum voru margþættar. Hann var þjóðskáld en einnig byltingarskáld.
Lausn skáldsins var sérstæð og á raunar ekki sinn líka í íslenskri bókmenntasögu. Það klæddist gervi. Jóhannes úr Kötlum hætti að peðra út ljóðabókum. Í stað þess tóku að birtast ljóð eftir Anonymus. Skáldanafnið flæktist fyrir skáldinu. Það gat ekki endurfæðst undir eigin nafni. Nafnleysinu fylgdi frelsið sem skorti.
Tíu ár liðu milli ljóðabókanna Sól tér sortna og Sjödægru. Það var sá tími sem verðlaunaskáldið Jóhannes úr Kötlum þurfti. En skáldið á bak við nafnið hafði þegar í Sól tér sortna sagt sér sjálfum það sem Magnús Kjartansson sagði í ritdómi sínum. Og áður en sá harði dómur féll kom svarið, í 3. hefti Tímarits Máls og menningar árið 1945. Fremst í því hefti er ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum. Það heitir Kliðhenda og er hefðbundið minningarljóð um Sigurð Thorlacius skólastjóra, fagurt og vel ort en ófrumlegt með öllu:
Höfugar daggir brúði þína beygja,
bregður nú húmi á glókollana þína.
Eitt er þó víst: að æskan þekkir sína.
Áfram mun hún þitt stríð til sigurs heyja. 6Tímarit Máls og menningar 6 (1945), 185.
Þannig orti Jóhannes úr Kötlum anno 1945. En aftar í sama hefti eru þrjú ljóð saman undir titlinum „Órímuð ljóð”. Höfundur þeirra er Anonymus. Hrynjandin er regluleg en rími og stuðlum hefur verið kastað. Það var fyrsta skref hins nafnlausa skálds.
Ljóðin heita Tvö augu, Ferskeytlur og Ragnarök. Í því síðastnefnda eru þessar ljóðlínur:
Rís svo hinn næsta dag
handan við sól og tungl
bláhvítu ljósi skyggð,
tárfögur, hrein. 7Tímarit Máls og menningar 6 (1945), 240.
Þetta var nýr tónn á þessum tíma. Ljóðið er ekki rímuð ræða þó að það hafi skýrt erindi; þar er minnst á „vélknúin morð”. Skáldið vill halda baráttunni áfram en leitar nýrra leiða. Og kvæðið Ragnarök er eitthvað nýtt.
Í sama hefti Tímarits Máls og menningar og birti hinn hvassa dóm Magnúsar Kjartanssonar kom annað ljóð eftir Anonymus og árið 1947 birtust fleiri ljóð undir samheitinu Órímuð ljóð. 8Tímarit Máls og menningar 8 (1947), 99-102. Enn er rímleysið höfuðatriði hjá hinu nafnlausa skáldi enda er eitt ljóðanna hið magnaða Rímþjóð sem sameinar bæði fasta hrynjandi og orðgnótt. Það er uppgjör skáldsins við rímið sem á þessum tíma var konungur í íslenskum ljóðheimi og áþjökun ungra skálda. Skáldið er farið að gera tilraunir með hljóm og liti. Miðleitni kemur í stað útleitni. Sjá má áhrif frá framandi álfum og nýstárlega og markvissa notkun lita. Þetta var árið áður en Tíminn og vatnið kom út.
Meginmunurinn á ljóðum Jóhannesar úr Kötlum og ljóðum eftir Anonymus var að ljóð Jóhannesar voru opin og auðskilin. Í þeim var hvorki gáta né galdur. Ljóðin sem Anonymus setti á prent voru myrk og torræð. Það á ekki síst við um ljóðið sem birtist árið 1948 undir heitinu „Eitt órímað ljóð” en skáldið kallaði síðar †skelfi. Þetta hámóderníska ljóð – sem er raunar ekki órímað þrátt fyrir fyrsta heiti sitt heldur rímað á nýjan hátt – er frá sama tíma og atómskáldin eru að koma fram og Steinn yrkir Tímann og vatnið. 9Tímarit Máls og menningar 9 (1948), 84-85. Sama ár gaf Anonymus út ljóðabók með þýðingum á ljóðum erlendra skálda, einkum módernískra. Annarlegar tungur er ein fyrsta móderníska ljóðabókin á íslensku.
Það hefur verið venja að kalla Jóhannes úr Kötlum samherja módernista, skáld sem endurnýjaðist til samræmis við ferska strauma sem yngri skáld báru með sér. Sveinn Skorri Höskuldsson hefur orðað bókmenntalega stöðu Jóhannesar úr Kötlum svo:
Hann verður ekki til að hefja merkið og gengur ekki fram fyrir skjöldu í upphafi en fylgir fast á eftir þeim, er fyrstir fóru. … Í þróun íslenskrar ljóðlistar um hálfa öld þykir mér sem Jóhannes minni á þá hugprýðismenn, er söxin vörðu. Hann var aldrei stafnbúi í þeim skilningi að hann hæfi fyrstur vopnaskipti í sókn nýrrar stefnu, en þegar stafnbúar féllu eða hopuðu í hlé úr bardaganum aftur undir lyftingu veraldargæða, þá stóð óbugaður víkingurinn úr Dölum. 10Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta, 140.
Þessi mynd er skemmtileg en það gleymist að þó að Sjödægra komi ekki út fyrr en árið 1955 fer Anonymus af stað árið 1945 og hefur þegar náð listrænum tindi árin 1947 og 1948, á svipuðum tíma og móderníska stefnan er hér að bresta á. 11Sbr. viðurkennt yfirlitsrit Eysteins Þorvaldssonar (Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Rvík 1980, 84-128) sem leggur áherslu á stöðu fimmmenninga sem voru öllu yngri en skáldið úr Kötlum og hófu störf sem módernistar á eftir Anonymusi.
Um Sjödægru hefur verið fjallað meira en nokkra aðra ljóðabók Jóhannesar úr Kötlum og litlu við það að bæta. 12Sjá m.a. Eysteinn Þorvaldsson. Könnun Sjödægru. B.A. prófs ritgerð í íslenzku vorið 1970. Mímir 17 (1971), 27-54; Halldór Guðmundsson. Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga. Svart á hvítu 2,2 (1978), 3-9. Einnig: Guðni Elísson. Ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum. Mímir 33 (1986), 82-92. Í eftirmála ritsins segir skáldið þetta um verk sitt: 13Jóhannes úr Kötlum. Til lesandanna. Sjödægra. Rvík 1955, 162.
Vera má að einhverjir virði mér til fordildar einnar jafnt form sem efni þessarar bókar. Og einn kann að sakna stuðla, annar stéttabaráttu, hinn þriðji skáldskaparins sjálfs. En hitt er jafnsatt fyrir því, að öðruvísi gat ég ekki ort á þessu stigi málsins – og tjóar því lítt um að sakast.
Hér stígur loksins fram sjálft verðlaunaskáldið Jóhannes úr Kötlum og kastar gervi Anonymusar. Óhætt er að líta á Sjödægru sem sköpunarsögu hans þó að sú sköpun hafi tekið tíu ár en ekki sjö daga. Á orðum skáldsins má marka að hann sé ekki með öllu laus við kvíða þegar hann stígur fram sem módernískt skáld. Þó hafði hann verið módernískt skáld í tíu ár. Jóhannes úr Kötlum hafði verið í löngu fríi sem skáld en Anonymus starfað af krafti. Þáttur hans í að færa módernisma í ljóðagerð til Íslands var ríkur.
Tíu ára skáldskaparferill Anonymusar var merkur. Sérstæðust eru þó hamskipti skáldsins meðan á endurnýjuninni stóð. Verðlaunaskáldið réð ekki við umbyltinguna, það þurfti að kasta skáldanafninu á meðan. Það hafði þau áhrif að á meðan önnur skáld af sömu kynslóð voru föst í skáldskap æsku sinnar varð til nýr Jóhannes úr Kötlum.
Þegar lygin hrynur
Þá er aðeins hálf sagan sögð. Óneitanlega eru mikil umskipti fyrir harðsvíraðan rímara að semja órímuð ljóð. Ljóðið †skelfir eru mikil hvörf frá hinum opnu og auðskildu ljóðum í Sól tér sortna. En kúvendingin varð á fleiri sviðum og ekki er hægt að leiða hjá sér kvæðið Dagskipun Stalíns sem hefur iðulega verið dregið fram skáldinu til háðungar. Þá vill gleymast hvenær það var ort. Þýskaland Hitlers var í árásarstríði gegn heiminum. Skyndilega voru Sovétmenn orðnir bandamenn Breta og Bandaríkjamanna. Á þeim árum ríkti mikil velvild í garð Sovétríkjanna og Stalíns meðal þessara þjóða og þótti jaðra við föðurlandssvik að hallmæla Stalín. Ekkert gerðist á vesturvígstöðvunum en her Stalíns sneri stríðinu við við Stalingrad. Lof um Stalín var ekkert einsdæmi á þessum árum.
Þetta voru góðir tímar fyrir kommúnista á borð við Jóhannes úr Kötlum. Eins og fleiri hafði hann talið Sovétríkin framtíðarríki á þeim árum þegar kreppan virtist geysa alstaðar nema þar. Síðan höfðu ríkt hörð ár Moskvuréttarhalda og griðasamninga við Hitler sem höfðu reynt á þolrif kommúnista. Nú loksins stóðu hið besta og næstbesta saman gegn hinu versta. Þó er Sól tér sortna ein svartsýnasta bók hans til þessa. Efi var tekinn að sækja að baráttuskáldi kommúnismans.
Árið 1956 afhjúpaði Krústjeff misgjörðir Stalíns í ræðu á 20. flokksþingi Kommúnistaflokksins Sovétríkjanna. Þar voru staddir ýmsir kommúnistaleiðtogar á Vesturlöndum, t.d. Aksel Larsen hinn danski sem skömmu síðar yfirgaf flokk sinn og hafnaði Sovéthollustu hans. 14Kurt Jacobsen. Aksel Larsen. En politisk biografi. Valby 1993, 486-649. Íslenskir kommúnistar brugðust öðruvísi við. Þeir höfðu verið í minna sambandi við Sovétríkin. Um átján ára skeið höfðu þeir verið í Sósíalistaflokknum sem hafði tekið þátt í ríkisstjórn og verið breiðari en kommúnistaflokkar Vestur-Evrópu. Þeir gerðu því það sem Aksel Larsen gat ekki, létu sem sér kæmu uppljóstranirnar um Stalín ekki við. Töldu þeir alla umræðu um málið vatn á myllu andstæðinganna. Hægt og hljótt hurfu íslenskir vinstrisósíalistar frá trú á Sovétríkin. Það var ekki fyrr en síðar að Halldór Laxness gerði upp við sinn mikla þátt í hinni röngu sýn á Sovétríki Stalíns.
Jóhannes úr Kötlum tók ekki þátt í þessari allsherjarþögn. Árið 1956 hélt gamall samherji hans, síra Sigurður Einarsson, ræðu hjá Heimdalli, ræddi þar kvæðið Dagskipun Stalíns og lýsti Jóhannes úr Kötlum og fleiri íslenska kommúnista samábyrga á illvirkjum harðstjórans. Málsvörn Jóhannesar er meistaraleg. Hann dregur fram að ekki aðeins Sigurður sjálfur heldur einnig bandaríski sendiherrann í Sovétríkjunum höfðu sagt hið sama um Stalín og hann á þessum tíma: 15Jóhannes úr Kötlum. Fagurt galaði fuglinn sá. Vinaspegill. Rvík 1965, 41-51. Þessi grein birtist fyrst í Þjóðviljanum 26. apríl 1956.
Þegar frá er skilið skáldaflúr um hvítvængjuð englabörn, lítinn geitarost og annað rómantískt glingur, þá fæ ég satt að segja ekki séð ýkja mikinn mun á þessum „lofsöng” og mínum.
En Jóhannes er meira í hug en að verja sig. Uppgjör flestallra umventra kommúnista hefur að lokum tekið að snúast upp í ákærur á hendur öðrum, eins og Sigurður Einarsson varð Jóhannesi að dæmi um í þessari grein. Jóhannes úr Kötlum fór ekki þá leið heldur horfðist í augu við sjálfan sig sem skáld: 16Sama rit, 46.
Það hefur löngum verið árátta mín að yrkja lofsöngva. Ég hef ort lofsöngva um guð almáttugan, móður náttúru, lands míns föður. Ég hef ort lofsöngva um átthagana og moldina, fjöll og dali, ár og vötn. Ég hef ort lofsöngva um fuglana og blómin, hestinn og kúna, hundinn og köttinn, laxinn og hornsílið. Ég hef jafnvel ort lofsöngva um músina og mosann. En fyrst og síðast hef ég þó ort lofsöngva um fólk. Ég hef ort lofsöngva um heimasætur. Ég hef ort lofsöngva um börn og gamalmenni. Ég hef ort lofsöngva um söguhetjur Íslands og þegna þagnarinnar. Ég hef ort lof-söngva um nafngreinda menn, innlenda og erlenda: Helga Péturss og Georgi Dimitroff, Magnús Helgason og Mao Tse-tung, Einar Olgeirsson og Kaj Munk, Halldór Laxness og Nordahl Grieg. Og ég orti lofsönginn um Stalín. Það er eini lofsöngurinn sem hefur gert verulega lukku.
Jóhannes játar hreinskilnislega á sig oftrúna á Stalín en hafnar ekki þeim þætti í eigin fasi sem olli henni: 17Sama rit, 47.
Allt vort líf er áhætta og þó er kannski trúin á manninn áhættusamari en nokkuð annað. Þar er nú eins gott að hafa vaðið fyrir neðan sig ef vel á að fara. Eigi að síður er það þessi trú sem hnikað hefur homo sapiens nokkuð á leið og þeim mun lengra sem hún hefur verið heitari og einlægari. Mér hefur jafnan verið það rík nauðsyn að skynja framtíðarmanninn gegnum ákveðna einstaklinga og tengja þannig hugsjónina lifandi veruleika. Þá getur skáldi orðið gjarnt til að mála sterkum litum – skapa hetjur og jafnvel dýrðlinga.
Þannig hafi verið með lofið um Stalín, það hafi verið óskmynd fremur en raunsæ lýsing. Niðurstaðan er þessi: 18Sama rit, 48.
Uppljóstranirnar í austurvegi virðist ný útgáfa gömlu sögunnar um það hvernig siðblindan nær valdi yfir framkvæmd mikillar hugsjónar í brimróti samfélagsafla sem reynast mannlegu einstaklingseðli ofviða. Þetta eru sorgleg tíðindi … Það er alltaf og alstaðar jafn sorglegt þegar maðurinn stenzt ekki raun sinnar dýrustu skynjunnar.
Skáldið stóð fast við hugsjónir sínar. En um leið sneri hann baki við eigin trú á Stalín í stað þess að afneita þessum miklu og illu tíðindum. Það er engu líkara en að þau hafi ekki komið honum verulega á óvart. Viðhorfsbreyting hans í skáldskap hafði allan tímann verið samofin endurmati hans á stjórnmálunum.
Í sömu ljóðabók og lofið um Stalín var sett á prent velti skáldið vöngum yfir makki „Billans” við Ólaf Thors. Hann horfir á forystumenn Sósíalista af sama efa og tröllríður skáldskap hans almennt. Afstaða hans til heimsmálanna er að flækjast. Fullvissa fyrirstríðsáranna hverfur. Skáldið er sami hugsjónamaður og fyrr en hugsjónin holdgerist ekki í sovétkommúnisma eða Stalín eða íslenskum sósíalistum. Margoft hefur verið bent á ýmis teikn vonbrigða í seinustu verkum skáldsins. 19Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta, 142; Njörður P. Njarðvík. Vort er ríkið, 143. Nýlega hefur Sveinn Skorri Höskuldsson rætt tengsl ljóðsins Næturróður við Samothrake eftir Gunnar Ekelöf. 20Sveinn Skorri Höskuldsson. Lífróður. Skæðagrös. Skrif til heiðurs Sigurjóni Björnssyni sjötugum 25. nóvember 1996. Rvík 1997, 201-26. Munur ljóðanna felst að hans mati í þessu: „Ef til vill lýkur „Samothrake” á von, þrátt fyrir allt, þar sem Næturróður” á enga.” 21Sama rit, 226.
Ekki er hægt að skilja sundur skáldskap Jóhannesar úr Kötlum og stjórnmálastarf. Þegar Anonymus tók til starfa hafði skáldið í rúman áratug verið boðberi nýs heims, byltingar, Sovét-Íslands. Ljóðið Dagskipun Stalíns er lokahnykkur á þeim ferli. Ljóð Anonymusar snerust ekki um slíkar hetjur. Í þeim var ekki skýr boðskapur, annar en þær ályktanir sem hver lesandi fyrir sig getur dregið. Jóhannes úr Kötlum var hættur að vera hirðskáld og var orðið skáld einvörðungu.
Árið áður en Krústjeff fletti ofan af Stalín kom Sjödægra á prent. Í henni er ljóðið Fjöll sem segir allt sem segja þarf um hugsjónir skáldsins á þeirri tíð þegar sannleikurinn var ekki lengur auðþekktur og handhafar hans engir lengur til:
Mín fjöll standa
þegar lygin hrynur
mín bláu fjöll
mín hvítu fjöll. 22Sjödægra, 93.
Módernisti úr skápnum
Jóhannesi úr Kötlum tókst það sem engu öðru skáldi lánaðist, að feta allan veginn frá Svörtum fjöðrum til módernismans. Hamskipti hans voru margþætt. Jóhannes úr Kötlum þróaðist ekki úr vinstrimanni í hægrimann. Pólitískt stökk hans var enn lengra. Hann hætti að vera fylgismaður málstaðar sem var skýr og átti sér holdtekningu í þessum heimi og varð þess í stað maður sem stóð einn með sín bláu og hvítu fjöll, málstað sem stóð eftir þegar guðir féllu af stalli. Hugsjónir hans fóru ekki með í fallinu.
Um leið breytti hann sér úr baráttuskáldi sósíalismans í nútímaskáld. Hann lét fyrir róða rím og stuðla og hinn hreina boðskap. Í staðinn komu ljóðmyndir og margræðni. Í þessu fylgdi hann ekki hinum yngri mönnum heldur var hann leiðsögumaður þeirra. Ljóðbylting hans varð ekki með Sjödægru árið 1955 heldur tíu árum fyrr.
Hamskipti Jóhannesar úr Kötlum eru ekki aðeins athyglisverð fyrir það að þau fóru fram heldur hvernig þau fóru fram. Eins og önnur verðlaunaskáld var Jóhannes úr Kötlum fangi eigin skáldanafns. Ekki aðeins hins íslenska skáldskapararfs með rími sínu og ljóðstöfum heldur einnig þeirrar baráttu sem hann hafði leitt og gefið skáldskap sinn. Honum leyfðist ekki að hlaupa undan sér. Lausn hans var dulargervið. Jóhannes úr Kötlum hélt áfram að vera sá sem menn þekktu. Skáldið undir nafninu kom fram nafnlaust. Hann var hikandi og í felum en ætlan hans virðist þó hafa verið skýr frá upphafi.
Tíu árum síðar sameinuðust þeir Anonymus og Jóhannes úr Kötlum. Módernisti varð orðinn til. Endurfæðingin gerði hann hvorki sjálfumglaðan né sigurvissan og hann dró fyrri lofsöngva ekki til baka. En öðruvísi gat hann ekki ort á þessu stigi málsins.
Greinin birtist áður í Mími, nr. 47 / 1999
Ármann Jakobsson
Ármann Jakobsson er prófessor í íslensku og rithöfundur. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 2003. Frá því í júlí 2011 hefur hann gegnt stöðu prófessors við íslensku- og menningardeild HÍ. Ármann hefur sent frá sér tvær skáldsögur, Vonarstræti og Glæsi. Vorið 2011 kom út í ritröðinni Íslenzk fornrit hjá Hinu íslenska fornritafélagi konungasagnaritið Morkinskinna í tveimur bindum en Ármann sá um útgáfuna ásamt Þórði Inga Guðjónssyni.
Stefán Karlsson
Stefán Karlsson hefur um árabil starfað sem fréttaljósmyndari, síðustu árin hjá Fréttablaðinu og Vísi.is.
Tilvísanir
[ + ]
1. | ↩ | Sjá t.d. Óskar Halldórsson. „… hvernig skal þá ljóð kveða?” Nokkrar athuganir á ljóðformi Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 36 (1975), 124-37, Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta. Nokkrar hugleiðingar um bókmenntalega stöðu Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 39 (1978), 124-42; Njörður P. Njarðvík. Vort er ríkið. Fáein orð um baráttuljóð Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 39 (1978), 143-57.. |
2. | ↩ | Einar Bragi. Viðtal við Jóhannes úr Kötlum. Birtingur 3,3 (1957), 1-9 (einkum bls. 6-7). |
3. | ↩ | Óskar Halldórsson. „… hvernig skal þá ljóð kveða?”, 127-29. |
4. | ↩ | Allar tilvitnanir í Sól tér sortna eru sóttar í: Ljóðasafn V. Rvík 1982. |
5. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 7 (1946), 65. |
6. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 6 (1945), 185. |
7. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 6 (1945), 240. |
8. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 8 (1947), 99-102. |
9. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 9 (1948), 84-85. |
10. | ↩ | Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta, 140. |
11. | ↩ | Sbr. viðurkennt yfirlitsrit Eysteins Þorvaldssonar (Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Rvík 1980, 84-128) sem leggur áherslu á stöðu fimmmenninga sem voru öllu yngri en skáldið úr Kötlum og hófu störf sem módernistar á eftir Anonymusi. |
12. | ↩ | Sjá m.a. Eysteinn Þorvaldsson. Könnun Sjödægru. B.A. prófs ritgerð í íslenzku vorið 1970. Mímir 17 (1971), 27-54; Halldór Guðmundsson. Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga. Svart á hvítu 2,2 (1978), 3-9. Einnig: Guðni Elísson. Ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum. Mímir 33 (1986), 82-92. |
13. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum. Til lesandanna. Sjödægra. Rvík 1955, 162. |
14. | ↩ | Kurt Jacobsen. Aksel Larsen. En politisk biografi. Valby 1993, 486-649. |
15. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum. Fagurt galaði fuglinn sá. Vinaspegill. Rvík 1965, 41-51. Þessi grein birtist fyrst í Þjóðviljanum 26. apríl 1956. |
16. | ↩ | Sama rit, 46. |
17. | ↩ | Sama rit, 47. |
18. | ↩ | Sama rit, 48. |
19. | ↩ | Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta, 142; Njörður P. Njarðvík. Vort er ríkið, 143. |
20. | ↩ | Sveinn Skorri Höskuldsson. Lífróður. Skæðagrös. Skrif til heiðurs Sigurjóni Björnssyni sjötugum 25. nóvember 1996. Rvík 1997, 201-26. |
21. | ↩ | Sama rit, 226. |
22. | ↩ | Sjödægra, 93. |
Endurfæðingin gerði hann hvorki sjálfumglaðan né sigurvissan.
Fáeinir óreiðu-
kenndir kaflar
um Jóhannes úr Kötlum
og brjóstvit alþýðunnar
Skáldið fór hávaðalaust af stað undir vöggusöng og álftakvaki, lét sem hann svæfi, hræddist heiminn og forðaðist borgir… Skáldið úr Kötlum fór ekki af stað með neinum ærslum… En þá fló honum í brjóst hinn ósýnilegi fugl: hugsjónin, og brá birtu á allt, líf sögu og þjóðfélag, og veröldin skein í nýju ljósi, varð víð og björt…“1Kristinn E. Andrésson, „Inngangsorð“. Í Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill. Reykjavík 1965, bls. xi. Þannig lýsir Kristinn E. Andrésson því þegar kommúnisminn nær tökum á Jóhannesi úr Kötlum, og skyldi engan svo sem undra að Kristinn geri mikið úr dýrðum þeirrar hugsjónar. Þar að auki er engu líkara en Jóhannesi hafi vitrast þessi pólitísku tímamót í lífi sínu nokkrum árum áður en þau áttu sér stað, þegar hann ákveður að kalla fyrstu ljóðabókina sína Bí bí og blaka. Henni fylgir hann eftir með Álftirnar kvaka eins og lög gera ráð fyrir, þá kemur Ég læt sem ég sofi– og örlar á fyrirboða í titlinum, hann er bara að þykjast – loks stígur glaðvaknaður bolséviki fram á sjónarsviðið með Samt mun ég vaka. Þetta passar næstum því of vel, enda hafa menn verið óþreytandi að nýta sér þessa líkingu. Í skrifum á borð við þau sem vitnað er í hér að ofan birtist Jóhannes úr Kötlum okkur sem hálfgert puntstrá áður en hann frelsast til rauðu hugsjónarinnar. Hann er bara að leika sér við svani úti í sveit, eins og persóna í drengjabók sem á enn eftir að fara í sollinn. Þó er Jóhannes enginn drengur þegar hann kynnist kommúnismanum. Hann er fæddur árið 1899 en kemur til Reykjavíkur í kringum 1930 eftir að hafa stundað farkennslu í Dölum og Breiðafjarðareyjum í áratug.2www.johannes.is – Æviferill. Það er þá sem ódælum nemanda hans úr Dölunum sem tekið hefur upp nafnið Steinn Steinarr tekst að pranga inn á hann kommúnisma sem honum „hafði einhvers staðar áskotnast fyrir lítið“.3Steinn Steinarr, „Jóhannes úr Kötlum fimmtugur“. Steinn Steinarr. Ævi og skoðanir. Reykjavík 1995, bls. 111. Þar með er lagður grundvöllur að hlutverki Jóhannesar sem eins helsta byltingarskálds íslenskra kommúnista.
II
Það verður að teljast hugmyndafræðilegur hroki af hálfu Kristins E. Andréssonar að láta eins og veröld Jóhannesar hafi ekki verið víð og björt fyrr en hann varð kommúnisti. Löngu áður en hann fór til Reykjavíkur hafði Jóhannes verið virkur þátttakandi í annarri hreyfingu sem ekki var síður hugsjónaþrungin þótt hún hafi ekki verið bundin við stjórnmálaflokk: ungmennafélagshreyfingunni. Jóhannes var félagi í ungmennafélaginu í Saurbæjarhreppi undir forystu þess dygga ungmennafélagsfrömuðar Guðbjörns Jakobssonar, æskuvinar Jóhannesar.4Einar Kristjánsson, „Fallnir stofnar“.. Breiðfirðingur. 41 (1983), bls. 79-89. Sjá bls. 83.
Hinn víðfrægi ungmennafélagsandi bregður upp mynd af þjóðhollu hreystimenni, eitthvað í ætt við myndina frægu af glímukónginum Jóhannesi á Borg vatnsgreiddum og vöðvastæltum með Grettisbeltið um sig miðjan. Íslandi allt, ræktun lýðs og lands, heilbrigð sál í hraustum líkama, hoppaðu hæð þína í fullum herklæðum, þessi slagorð eiga vel við endurreisnaranda ungmennafélaganna. Þau studdu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga af ástríðu og meðal mannbætandi hugðarefna þeirra voru málrækt, heimilisiðnaður, áfengisbindindi, skógrækt og þjóðlegar íþróttir á borð við sund og glímu.5Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands. 1907-1937. Minningarrit. Reykjavík 1938, bls. 359-382. Ungmennafélagarnir trúðu á getu einstaklingsins til að bæta eigið líf en einnig á mátt hinna mörgu og samvinnu á jafnréttisgrundvelli.6Sesselja Guðmunda Magnúsdóttir, Ungmennafélagsandinn. Hver er rót þessa afls sem lifað hefur með þjóðinni nú í 90 ár? . Reykjavík 1997, bls. 49.
Verkefni ungmennafélagsins í Saurbæjarhreppi voru í þessum dúr; gróðursetningar, vefnaður og bygging sundlaugar að Laugum í Sælingsdal. Á fundum var skeggrætt um Íslendingasögur.7Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands., bls. 287-289. Jóhannes tók fullan þátt í þessu starfi. Fyrir ungmennafélagið skrifaði hann dans- og söngvaleikinn „Valkyrjur vorra tíma“ – en Stefán frá Hvítadal málaði leiktjöldin – og hann flutti vígsluljóð er sundlaugin að Laugum var opnuð sumarið 1932.8Einar Kristjánsson, „Fallnir stofnar“, bls. 83-85. Á héraðsmóti Ungmennasambands Dalamanna árið 1930 sté hann í pontu og sagði félagsmönnum frá Alþingishátíðinni sem hann hafði sótt þá um sumarið9Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands. bls. 282., klæddur í litklæði að hætti fornmanna.10www.johannes.is – Ljósmyndir 1915-1932.
III
Ýmislegt í starfi ungmennafélaganna stangast mjög skýrt á við þær kommúnísku hugmyndir sem Jóhannes átti síðar eftir að aðhyllast. Fyrrnefnd för hans á Alþingishátíðina 1930 er gott dæmi. Jóhannes hafði miklar væntingar til hátíðarinnar og skrifaði um hana grein í Iðunni árið 1928. Hann taldi hátíðina geta verið mikla vítamínsprautu fyrir íslenskt þjóðarstolt og leiðarljós fyrir áframhaldandi sjálfstæðisbaráttu. Meðal þess sem hann leggur til er að Íslendingar sameinist um að bera litklæði á hátíðinni. Hann vill ennfremur endurvekja hugmyndir Fjölnismanna um Alþingi á Þingvöllum og heldur því jafnvel fram að ef Jón Sigurðsson væri á lífi árið 1928 væri hann á allt annarri skoðun en hann var meðan hann lifði, og styddi þennan flutning þingsins til Þingvalla fremstur manna.11Jóhannes úr Kötlum, „Alþingishátíðin 1930“. Iðunn. 1928, bls. 200-221. Þetta er auðvitað hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem menn leggja Jóni Sigurðssyni orð í munn, sennilega hafa fáum persónum Íslandssögunnar jafn oft verið gerðar upp skoðanir, en þessi fullyrðing Jóhannesar hlýtur samt að teljast sett fram af töluverðri dirfsku, ef ekki fífldirfsku.
Viðhorf kommúnista til Alþingishátíðarinnar var allt annað. „Hvers er að minnast?“12Einar Olgeirsson, „Hvers er að minnast?“. Réttur 15:2 (1930), bls. 123-138. Sjá bls. 123. spyr Einar Olgeirsson með þjósti í grein í Rétti 1930. „1000 ára saga Alþingis er eymdarsaga alþýðunnar…“13Sama heimild, bls. 128. Kommúnistar halda á lofti þeirri söguskoðun að strax við landnám hafi stéttakúgunin hafist á Íslandi með undirokun landnema á þrælum sínum og staðið óslitið síðan.14Sama heimild, bls. 125. Jóhannes tekur raunar undir þessa túlkun sjálfur nokkrum árum síðar með söguljóðinu Hrímhvíta móðir, sem segir sögu lítilmagnans á Íslandi, þeirra sem ekki áttu sér sögu.15Jóhannes úr Kötlum, Hrímhvíta móðir: söguljóð. Reykjavík 1937.
Þessi umskipti kunna að virðast snörp, frá litklæðaburði og fornaldarrómantík til stéttvísrar söguskoðunar, en þau eru það ekki svo mjög þegar betur er að gáð. Grundvallaratriði í lífsskoðun Jóhannesar úr Kötlum er trú hans á alþýðunni. „Hann fylltist eldmóði“, segir Hannes Sigfússon um samræður þeirra Jóhannesar eitt sinn, „eins og jafnan þegar hann talaði um brjóstvit alþýðunnar.“16Hannes Sigfússon, Framhaldslíf förumanns: endurminningar Hannesar Sigfússonar skálds. Reykjavík 1985, bls. 194. Og kommúnisminn var ekki eina hugmyndastefnan þar sem alþýðan var í aðalhlutverki: starf ungmennafélaganna var mjög miðað við alþýðuna, menntun hennar og uppfræðslu. Sundkennsla, heimilisiðnaður, félagsstarf og bindindisheit, allt miðaði þetta að því að bæta líf alþýðunnar heima í héraði. Geir Jónasson, sem ritaði sögu Ungmennafélags Íslands á þrjátíu ára afmæli þess 1937, túlkar hvötina að stofnun þess sem löngun ungs fólks til að hafa áhrif á þjóðfélagið og bæta hag þeirra verst settu með sjálfshjálp og samstöðu.17Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands, bls. 401-425. Geir notar reyndar ófeiminn hugtök á borð við „auðmagnsfyrirkomulag“ en það skal látið ósagt hér hvort einhverjar ályktanir megi draga af því um pólitískt eðli ungmennafélagshreyfingarinnar; hún var alltént ekki flokkspólitísk í orði. Í ungmennafélagsandanum býr einhver heillandi heiðríkja – og bjargföst trú á brjóstvit alþýðunnar.
IV
Í tilefni af hundrað ára afmæli Jóhannesar úr Kötlum skrifaði Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri einkar fallega minningu um skáldið sem varpar kannski skýrara ljósi á þær óreiðukenndu hugleiðingar sem hér fara á undan.18Jón Sigurðsson, „„- Ég finn ég verð að springa…“ Að boða og iðka af einlægni“. Tímarit Máls og menningar. 60:4 (1999), bls. 25-50. Jón kynntist Jóhannesi þegar sá síðarnefndi var kominn á efri ár og horfði yfir líf sitt og reynslu – og það með nokkrum vonbrigðum. Vonin um sigur sósíalismans varð æ fjarlægari en í staðinn var komið siðlaust neyslusamfélag sem einkenndist af græðgi og heimtufrekju og „drýldinn vélskófluverkalýður sem heldur að sósíalisminn sé bíll og þjóðfrelsisbaráttan íbúð“ eins og Jóhannes orðaði það í bréfi til Einars Olgeirssonar.19Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill. bls. 232.
Jón Sigurðsson útskýrir þessi viðhorf Jóhannesar með skírskotun í það umhverfi sem mótaði viðhorf hans til þjóðfélagsins. „Kjarninn í hugarheimi Jóhannesar“, segir Jón, „var einlæg þjóðleg og alþýðleg mannúðarstefna. … Meðal annars miðast hún við tiltölulega frumstætt mannlíf í skauti náttúrunnar, lágt verktæknistig og sjálfsnægtabúskap.“20Jón Sigurðsson, „„- Ég finn ég verð að springa…““, bls. 50. Þótt ýmsir hafi réttilega bent á hæfileika Jóhannesar til að tjá hugðarefni ólíkra kynslóða með síkvikum yrkingum sínum21Sjá t.d. Skafti Þ. Halldórsson, „Hugsjónaskáld og lofgerðasmiður“. www.johannes.is – Greinar. bar hann uppruna sínum í bændasamfélaginu gamla skýr merki, þar sem nægjusemin var hin mikla dyggð. Sósíalistar eins og Jóhannes ætluðu alþýðunni aldrei nein umfram lífsþægindi. Sérhæft samfélag þar sem verslun og þjónusta voru sérstakir atvinnuvegir var ekki markmiðið, frjáls markaður var blekking. Það skipti ekki máli að græða heldur að hafa nóg fyrir sig og sína, að enginn þyrfti að þræla sér út við ómanneskjulegar aðstæður eða vera upp á aðra kominn. Erfiðleikar kreppuáranna höfð auðvitað sitt að segja um þetta viðhorf. Þannig þjónaði sósíalisminn sem draumur um réttlátt þjóðskipulag, og þegar um leið og herinn kom og peningarnir komu loksins og samfélagið tók kipp inn í neyslusamfélag nútímans tengdu sósíalistar þennan draum sinn við endurreisn hinna gömlu gilda bændasamfélagsins. Eins og Halldór Guðmundsson hefur bent á hefur þetta viðhorf lítið að gera með sögulega efnishyggju marxismans,22Halldór Guðmundsson, „Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga“.Svart á hvítu. 2:2 (1978), bls. 2-9, sjá bls. 9. en er fremur dæmi um birtingarmynd erlendrar stefnu við íslenskar aðstæður.
Athyglisverð er klausa í grein Jóhannesar um mann sem hann dáði mjög, séra Magnús Helgason skólastjóra Kennaraskólans. „Ég hef engan þekkt sem sameinað hefur fornmennt, alþýðumenningu og endurreisn þjóðar sinnar af þvílíku jafnvægi… Og sannari húmanista í víðum skilningi er erfitt að hugsa sér. Hann var í aðra röndina rómantískur hetjudýrkandi, en samúð hans með umkomuleysingjanum risti þó enn dýpra. Hann hélt fast við fornar dygðir, en skilningur hans á nýjum viðhorfum, jafnvel hinum róttækustu, var í senn skarpur og mildur.“23Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill., bls. 138. Sennilega fór Jóhannes úr Kötlum langt með að lýsa sjálfum sér í þeim orðum.
Kristín Svava Tómasdóttir
Kristín Svava hefur sent frá sér ljóðabækurnar Blótgælur (2007) og Skrælingjasýningin (2011). Hún er sagnfræðingur og býr í Reykjavík.
Páll Svansson
Myndina vann Páll upp úr myndbandi á YouTube.
Tilvísanir
[ + ]
1. | ↩ | Sjá t.d. Óskar Halldórsson. „… hvernig skal þá ljóð kveða?” Nokkrar athuganir á ljóðformi Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 36 (1975), 124-37, Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta. Nokkrar hugleiðingar um bókmenntalega stöðu Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 39 (1978), 124-42; Njörður P. Njarðvík. Vort er ríkið. Fáein orð um baráttuljóð Jóhannesar úr Kötlum. Tímarit Máls og menningar 39 (1978), 143-57.. |
2. | ↩ | Einar Bragi. Viðtal við Jóhannes úr Kötlum. Birtingur 3,3 (1957), 1-9 (einkum bls. 6-7). |
3. | ↩ | Óskar Halldórsson. „… hvernig skal þá ljóð kveða?”, 127-29. |
4. | ↩ | Allar tilvitnanir í Sól tér sortna eru sóttar í: Ljóðasafn V. Rvík 1982. |
5. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 7 (1946), 65. |
6. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 6 (1945), 185. |
7. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 6 (1945), 240. |
8. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 8 (1947), 99-102. |
9. | ↩ | Tímarit Máls og menningar 9 (1948), 84-85. |
10. | ↩ | Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta, 140. |
11. | ↩ | Sbr. viðurkennt yfirlitsrit Eysteins Þorvaldssonar (Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Rvík 1980, 84-128) sem leggur áherslu á stöðu fimmmenninga sem voru öllu yngri en skáldið úr Kötlum og hófu störf sem módernistar á eftir Anonymusi. |
12. | ↩ | Sjá m.a. Eysteinn Þorvaldsson. Könnun Sjödægru. B.A. prófs ritgerð í íslenzku vorið 1970. Mímir 17 (1971), 27-54; Halldór Guðmundsson. Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga. Svart á hvítu 2,2 (1978), 3-9. Einnig: Guðni Elísson. Ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum. Mímir 33 (1986), 82-92. |
13. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum. Til lesandanna. Sjödægra. Rvík 1955, 162. |
14. | ↩ | Kurt Jacobsen. Aksel Larsen. En politisk biografi. Valby 1993, 486-649. |
15. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum. Fagurt galaði fuglinn sá. Vinaspegill. Rvík 1965, 41-51. Þessi grein birtist fyrst í Þjóðviljanum 26. apríl 1956. |
16. | ↩ | Sama rit, 46. |
17. | ↩ | Sama rit, 47. |
18. | ↩ | Sama rit, 48. |
19. | ↩ | Sveinn Skorri Höskuldsson. Með barnsins trygga hjarta, 142; Njörður P. Njarðvík. Vort er ríkið, 143. |
20. | ↩ | Sveinn Skorri Höskuldsson. Lífróður. Skæðagrös. Skrif til heiðurs Sigurjóni Björnssyni sjötugum 25. nóvember 1996. Rvík 1997, 201-26. |
21. | ↩ | Sama rit, 226. |
22. | ↩ | Sjödægra, 93. |
23. | ↩ | Kristinn E. Andrésson, „Inngangsorð“. Í Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill. Reykjavík 1965, bls. xi. |
24. | ↩ | www.johannes.is – Æviferill. |
25. | ↩ | Steinn Steinarr, „Jóhannes úr Kötlum fimmtugur“. Steinn Steinarr. Ævi og skoðanir. Reykjavík 1995, bls. 111. |
26. | ↩ | Einar Kristjánsson, „Fallnir stofnar“.. Breiðfirðingur. 41 (1983), bls. 79-89. Sjá bls. 83. |
27. | ↩ | Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands. 1907-1937. Minningarrit. Reykjavík 1938, bls. 359-382. |
28. | ↩ | Sesselja Guðmunda Magnúsdóttir, Ungmennafélagsandinn. Hver er rót þessa afls sem lifað hefur með þjóðinni nú í 90 ár? . Reykjavík 1997, bls. 49. |
29. | ↩ | Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands., bls. 287-289. |
30. | ↩ | Einar Kristjánsson, „Fallnir stofnar“, bls. 83-85. |
31. | ↩ | Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands. bls. 282. |
32. | ↩ | www.johannes.is – Ljósmyndir 1915-1932. |
33. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum, „Alþingishátíðin 1930“. Iðunn. 1928, bls. 200-221. |
34. | ↩ | Einar Olgeirsson, „Hvers er að minnast?“. Réttur 15:2 (1930), bls. 123-138. Sjá bls. 123. |
35. | ↩ | Sama heimild, bls. 128. |
36. | ↩ | Sama heimild, bls. 125. |
37. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum, Hrímhvíta móðir: söguljóð. Reykjavík 1937. |
38. | ↩ | Hannes Sigfússon, Framhaldslíf förumanns: endurminningar Hannesar Sigfússonar skálds. Reykjavík 1985, bls. 194. |
39. | ↩ | Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands, bls. 401-425. Geir notar reyndar ófeiminn hugtök á borð við „auðmagnsfyrirkomulag“ en það skal látið ósagt hér hvort einhverjar ályktanir megi draga af því um pólitískt eðli ungmennafélagshreyfingarinnar; hún var alltént ekki flokkspólitísk í orði. |
40. | ↩ | Jón Sigurðsson, „„- Ég finn ég verð að springa…“ Að boða og iðka af einlægni“. Tímarit Máls og menningar. 60:4 (1999), bls. 25-50. |
41. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill. bls. 232. |
42. | ↩ | Jón Sigurðsson, „„- Ég finn ég verð að springa…““, bls. 50. |
43. | ↩ | Sjá t.d. Skafti Þ. Halldórsson, „Hugsjónaskáld og lofgerðasmiður“. www.johannes.is – Greinar. |
44. | ↩ | Halldór Guðmundsson, „Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga“.Svart á hvítu. 2:2 (1978), bls. 2-9, sjá bls. 9. |
45. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill., bls. 138. |
Endurfæðingin gerði hann hvorki sjálfumglaðan né sigurvissan.
Ég finn
ég verð að
springa
Að boða og iðka af einlægni
Einhverjir lesendur munu kannast við eitthvað úr þeim ljóðlínum sem hér fylgja á eftir:
Hér er fossinn minn fagri,
knúinn feiknstafamætti.
Blandast draumröddin djúpa
léttum dulhörpuslætti.1Bí bí og blaka, bls. 11
Íslensk tunga andans ljósi
yfir tregðu hugans bregður,
varpar ómum helgrar hörpu
huldumála í daufar sálir,2Bí bí og blaka, bls. 40
félagar
eitt sinn hrópuðum vér
öreigar allra landa sameinizt
nú sogumst vér inn í allsnægtaþriðjunginn
sem liggur á meltunni eins og kyrkislanga
meðan hinir tveir þriðjungarnir svelta3Óljóð, bls. 207
Takið eftir, nágrannar: sprengja hefur fallið.
Það er komið gat á glerhimininn.
Jarðskurnin er brostin.
Svitalækir streyma niður hlíðina og blóðvötn
heiðarinnar er að leggja.4Ný og nið, bls. 189
Það gæti vafist fyrir athugulasta áhugamanni að ættfæra þessi ljóðabrot væri honum ekki um það kunnugt að fyrra bragði að þau eru öll eftir Jóhannes úr Kötlum. Fjölbreytnin er með ólíkindum í formi og bragstíl, anda og yfirbragði, skáldskaparmáli og yrkisefnum.
Í því lesmáli sem hér fer á eftir verður reynt að skoða kvæði og nokkur önnur rit Jóhannesar úr Kötlum til að varpa ljósi á viðhorf skáldsins sjálfs til skáldskaparins, en slík athugun getur jafnframt orðið áhugasömum lesanda til hjálpar við að njóta og tileinka sér verk þessa ágæta skálds. Hér verður stuðst við Ljóðasafn I – VIII, heildarútgáfu Heimskringlu á ljóðum Jóhannesar en hún kom út í átta bindum á árunum 1972 til 1976 í umsjón Sigfúsar Daðasonar. Auk þess má nefna Vinaspegil, safn af ræðum og greinum Jóhannesar, sem út kom 1965 undir ritstjórn Kristins E. Andréssonar. Þar sem vísað er í blaðsíðutal er miðað við þessar bækur. Aðalfyrirsögnin er tekin úr kvæðinu „Ég finn ég verð“ í næstsíðustu bók skáldsins Tregaslag, bls. 14. Í heimildaskrá eru nokkur önnur heimildarit nefnd.
Hér verður fyrst og fremst athugað hvernig afstaða skáldsins til skáldskaparins birtist í ljóðum þess og lausamáli. Aftur á móti verður ekki seilst til skáldsagna Jóhannesar, og ekki verður sérstök grein gerð fyrir skoðanaþróun hans. Stjórnmálaafstöðu hans mun óhjákvæmilega bera á góma, en ekki verður sérstök grein gerð fyrir henni heldur og vísast um það til „persónulegrar minningar“ sem fylgir þessu lesmáli sem eftirmáli.
ll.
Margir kannast við hugmyndir um vindhörpuna, „Eólshörpuna“. Þetta hljóðfæri var sett út eða í opinn glugga og hljómaði eftir því sem andvara eða vind gaf og breyttist hljómurinn með veðrinu. Í goðheimum Grikkja fornu var Guð vindanna Aíolos – sem mætti stafsetja Eól – en grunnmerking nafnsins er „skjótur, síbreytilegur, kvikur.“
Að sumu leyti minnir þessi hugmynd á skáldskap Jóhannesar úr Kötlum, og ekki síður á skoðanir hans sjálfs á eigin skáldskap og hlutverki hans. Jóhannes leit svo á að skáldskapurinn ætti umfram allt annað að þjóna mannlífinu, ætti að þjóna „alþýðunni“ eða þjóðinni, og af hálfu skáldsins væri ljóðið og ætti að vera skerfur til mannlífsbaráttu, framlag í þágu „háleitra hugsjóna“, og skáldskapurinn ætti eiginlega að vera fórn sem skáldið færir þessum hugsjónum og þjóð sinni. Eftir því sem breytingar verða í jarðnesku striti og baráttu mannanna á þá skáldskapurinn einnig að breytast og taka umskiptum – eins og hljómur vindhörpunnar.
Mörg dæmi má nefna úr ljóðum Jóhannesar um þessa afstöðu hans til skáldskaparins. Framan af virðist þó sem honum hafi ekki þótt tilefni til að yrkja sérstaklega um slíkt, að honum hafi þótt það svo sjálfsagt mál að ekki þyrfti að taka það fram. Hvert kvæðið af öðru í bókum hans ber með sér fullkomna vissu um hlutverk og áhrif kveðskaparins til þess að breyta og bæta mannheim og samfélag. Yrkisefnin eru ótvíræð og kvæðin full af boðun og boðunarákafa. Á síðari skeiðum fer Jóhannes meira að yrkja beinlínis um skáldskap og kvæðagerð og um tilgang og áhrif skáldsins og þá er það gjarnan í beinum tengslum við vaxandi efasemdir hans, ugg um samtíð og framtíð og eftirsjá eftir liðnum tíma fullvissu og baráttu. Í þeim kvæðum birtist líka vaxandi vafi um áhrif skáldskaparins yfirleitt.
Afstöðu Jóhannesar má sjá t.d. í kvæðinu „Ef ég segði þér allt -“ í Álftirnar kvaka, og í kvæðinu „Samt mun ég vaka“ í samnefndri bók. Kvæðið „Þegar landið fær mál“ í bókinni Hart er í heimi er alþekkt sem innblásin stefnuyfirlýsing skáldsins. Næstfremsta kvæði bókarinnar Samt mun ég vaka frá 1935 er „Vér öreigar“ en það birtist fyrst í tímaritinu Rétti árið áður. Því lýkur á stefnuskrá sem segja má að hafi reynst varanleg í verkum skáldsins í og með öllum umbreytingunum sem áttu eftir að verða á ferli þess. Þar segir og er m.a. skemmtilegt að fylgja eddukvæðatilbrigði í ljóðstöfunum:
…
Eins og ljóð vort er einfalt og auðskilið
og hirðir ekki um rósfjötra rímsins
né fjólublá faguryrði,
heldur sannleikann sjálfan,
eins munum vér berjast til þrautar,
í bróðurlegri, einfaldri alvöru,
unz réttur vor og niðja vorra
til nýs, mannlegs lífs
frelsar
hið fyrirheitna land. (Samt mun ég vaka, bls. 126)
Enn má nefna í Óljóðum upphafskvæði bókarinnar „Á þessari rímlausu skeggöld“ og lokakvæðið „Hver eru þessi óljóð“. Í Tregaslag eru ljóðin „Varúð“ og „Af hjartans lyst“ sem ítreka hvort með sínum hætti mjög breytt viðhorf frá fyrstu bókunum, en í Ný og nið kveður aftur við baráttutóninn gamla í kvæðinu „Það má“. Þar segir:
Skáld þarf ekki að vera frjálst:
það má banna því að skrifa
…
því frá dauðastríði Skáldsins
berast þau einu hljóðmerki
sem skelfa harðstjórana
og vekja hina kúguðu:
andköfin þrjú
sem boða sigur endurfæðingarinnar. (Ný og nið, bls. 171)
Jóhannes lýsti afstöðu sinni margsinnis í lausu máli. Árið 1947 segir hann í tímaritinu Rétti: „Engin spurning er óþarfari en sú, hvort listin eigi erindi til fólksins – það er einmitt listin sem fólkið er að leita að. Þess sælasti draumur – að vísu draumur sem hjá fjölmörgum tekur aldrei á sig ákveðna mynd – er sá að gera allt sitt líf að fagurri list.“ (Vinaspegill, bls. 5). Á bókmenntakynningu árið 1960 kveður hann svo að orði: „Einu gildir hversu djúpt skáldið vill kafa í leyndardóma sjálfs sín og tilverunnar – það getur samt ekki sloppið úr mannheimi. Það neyðist til að taka einhverja afstöðu gagnvart umheiminum og gerir það raunar öldungis eins fyrir því þótt það einangri sig í fílabeinsturni. Skáldið getur aldrei orðið hlutlaust gagnvart manninum. Maðurinn eltir það inn í turninn og krefst reikningsskila.“ (Vinaspegill, bls. 201). Afstaða Jóhannesar kemur einnig fram í umsögn um bókina Ljóð ungra skálda árið 1955. Þá eru fyrstu spurningar hans þessar: „Hvað er þá um þessi tuttugu ungu skáld að segja? Hvernig yrkja þau? Hver er afstaða þeirra til umheimsins? Hvað boða þau?“ (Vinaspegill, bls. 67)
Og til að skýra alveg hvert Jóhannes er að fara má vitna til greinar í Þjóðviljanum haustið 1950: „Allt mannlíf er pólitík. Öll pólitík er í sínu óspilltasta eðli leit að því formi fyrir mannlífið sem gerir það að sem fullkomnustu samfélagi“ (Vinaspegill, bls. 132). Og þessa sér einnig marga staði í kvæðunum. Sem dæmi má taka:
Vort mannkyn færist þéttar saman senn,
því samhyggjan er lífsins mikla raust.
Og til þess eru allir þessir menn
að eiga saman það sem vantar enn:
hið frjóa vor sem vex fram endalaust.
… (Ég læt sem ég sofi, bls. 112)
Það er sígilt sjónarmið að skáldskapur sé eða eigi að vera skerfur, framlag og fórn. Í kristnum anda á skáldskapurinn að vera Guði til dýrðar, „að maiorem Dei gloriam“ og hafa trúarskáld, guðfræðingar og heimspekingar margt um það ritað. Siðfræðingar og siðferðispostular allra tíma hafa hrósað – og þó oftar lastað – skáld og skáldskap frá þessu sama eða svipuðu sjónarmiði. Og í byltingarhreyfingum tuttugustu aldarinnar vantar ekki sambærileg dæmi um skáldskapinn sem vopn í baráttunni. Jóhannes á þar marga samherja í afstöðu. Endurspeglunarkenning Leníns og annarra marxista og þjóðfélagsraunsæi, „Sozial-realismus“, þeirra er nátengt þessum viðhorfum. Í þeim anda skrifaði Georg Lúkaks bókmenntarýni sína og margir aðrir, t.d. Lev Trotskí, Anatolí Lúnatsjarskí o.fl. Á Íslandi fer langmest fyrir Rauðum pennum, tímariti og samnefndum umsvifamiklum rithöfunda- og listamannahópi undir forystu Kristins E. Andréssonar, en þeir munu mest hafa farið eftir þýskum fyrirmyndum á millistríðsárunum. Verk Kristins í bókmenntafræði bera þessum sjónarmiðum skýrt vitni. Um þetta má vísa til frásagnar Kristins sjálfs (Kristinn E. Andrésson, 1971) og til ritverks Arnar Ólafssonar um Rauðu pennana (Örn Ólafsson, 1990).
Ekki þarf reyndar lengi að leita gagna til að fá staðfest hversu andstæð þessi sjónarmið eru og hafa verið öðrum ráðandi nútíma-straumum í bókmenntum síðustu kynslóða. Er óþarft að rekja lengi áhrifamiklar kenningar um „listrænt frelsi“, um „listina fyrir listina“, um að höfundur og listamaður beri aðeins ábyrgð gagnvart eigin samvisku og eigin innblæstri, að list og skáldskapur lúti sínum eigin lögmálum og tengist mannlífinu með allt öðrum hætti og meira eða minna ótengt hugmynda- og hagkerfum, þjóðerni, trúmálum eða stjórnmálabaráttu. Jón Óskar víkur ítrekað að þessum umræðum í endurminningum sínum (Jón Óskar, 1969 – 1979).
lll.
Fjölbreytni og róttækar umbreytingar á ljóðstíl og ljóðformi, tungutaki og skáldskaparmáli, hugsunartúlkun og yrkisefnum eru megineinkenni á skáldferli Jóhannesar úr Kötlum. Þar skiptast á stöðug þróun og skyndileg umbylting, og hann sagði sjálfur oftar en einu sinni að þessi framvinda væri viðbrögð við umbreytingum mannlífsins og samfélagsins – vegna þess að ljóðin ættu að vera hluti þeirrar framvindu og ættu að leika hlutverk í henni, mótast af henni og hafa jafnframt áhrif á hana.
Um þetta má nefna mörg dæmi. Í grein í tímaritinu Rétti 1947, sem áður var vitnað til, segir Jóhannes: „Listamaðurinn á því aðeins um tvennt að velja: annaðhvort að einangra sig frá lífi fólksins með því að láta undan ófrjóum formdýrkunarkröfum … eða gera baráttu fólksins að sinni eigin baráttu … (Vinaspegill, bls. 12). Í ræðu árið 1952 segir hann: „Í innsta eðli sínu hefur listin aldrei verið neitt einkafyrirtæki, þaðan af síður forréttindamunaður, enda þótt versleg og geistleg völd hafi gert hana það, heldur leit mannsandans að meiri fegurð og barátta hans fyrir auðugra lífi.“ (Vinaspegill, bls. 152) Og í erindi sem gefið var út 1959 segir hann um stöðu og þróun ljóðlistarinnar: „Atómkveðskapurinn er öðrum þræði uppreisn gegn þessari hættulegu stöðnun, á svipaðan hátt og uppreisn Jónasar gegn rímnastaglinu á sínum tíma. … Hér við bætist að aðstaða ljóðlistarinnar í þjóðlífinu hefur gerbreytzt. Öldum saman og allt fram á okkar daga var hún meginþráður í andlegri menningu Íslendinga … Hlutverk ljóðlistarinnar hefur því dregizt gífurlega saman og hljóta þær takmarkanir að leiða til mjög aukinnar sérhæfingar. … Ljóðlistin er nú að reyna að hasla sér völl við nýjar aðstæður í gerbreyttum heimi. Mörgum mun mistakast í þeirri viðleitni, aðrir munu sigra. Jafnt viðfangsefni sem búningur munu taka miklum stakkaskiptum: útþensla mannlegrar þekkingar og reynslu krefst jafnt víkkaðrar listsköpunar sem listskynjunar – æ samsettari og flóknari heimsmynd krefst æ hnitmiðaðri og einfaldari túlkunar. … Skáldin verða að reyna að ná til fólksins, beint inn í hug þess og hjarta, án þess þó að slaka á kröfum sínum í glímunni við hið ósegjanlega. Fólkið verður að reyna að ná til skáldsins með því að taka á móti því sem vini sínum og túlkara sem aldrei verður að fullu „skilinn“ – aðeins „fundinn“. Um sjálfan tilgang ljóðlistarinnar ætla ég ekki að ræða. Ég tel sama gilda um hana og allar aðrar listir: að ekkert mannlegt sé henni óviðkomandi – ekkert í allri tilverunni sé henni óviðkomandi. Eins og þær fylgir hún óhjákvæmilega þeim sveiflum sem uppi eru á hverjum tíma í þjóðlífi og umheimi. Það er undir þjónum hennar, skáldunum, komið hvort það atfylgi verður henni til vaxtar eða hrörnunar, upphafningar eða falls. Og það er í annan stað undir þjóðinni komið hvort skáldinu mega vaxa þeir vængir sem því er áskapað.“ (Vinaspegill, bls. 100-101)
Ekki vantar heldur dæmi úr ljóðum Jóhannesar sem sýna ótrúlega fjölbreytni og umskipti í brag, yrkisefnum og framsetningu, auk þeirra sem nefnd eru í upphafi þessa máls. Mætti jafnvel halda því fram að röð slíkra dæma gæfi skýra mynd bæði af skáldskap hans og einnig af ferli hans sem skálds. Er athyglisvert að lesa saman bækurnar Óljóð frá 1962 og Tregaslag frá 1964, en Jóhannes bendir að vísu á það í eftirmálsorðum að meginhluti kvæðanna í seinni bókinni sé að stofni til eldri en fyrri bókin. Eins mætti bera saman innblásna hugsýn í ýmsum kvæðum skáldsins, t.d. í kvæðunum „Við lífsins tré“ í Álftirnar kvaka, „Þegar landið fær mál“ og „Stjörnufákur“ í Hart er í heimi við kvæðin „Óðurinn um oss og börn vor“ og „Fimm hugvekjur úr Dölum“ í Ný og nið. Hér verða aðeins tvö dæmi tekin:
…
Ég tek í hönd þína, heill og djarfur.
Við horfum brosandi út á sæinn.
Við teygum sólheitan sumarblæinn
og sjáum aldanna vald í gegn.
… (Álftirnar kvaka, bls. 162)
Nú stígum við á rauða klæðið, ástin mín.
Það er svo dásamlegt að svífa.
Við tyllum tánum á anconcagua, dhaulagini,
kilimanjaro, hvannadalshnjúk, og
rennum sjónum yfir plánetuna okkar.
… (Ný og nið, bls. 193)
Merkilegt rannsóknarefni er og að lesa saman kvæði Jóhannesar sem víkja að trúarlegum efnum. Hann var alla tíð mjög trúhneigður og brennandi í trúaranda. Lengi framan af gætir innilegrar og barnslegrar trúarafstöðu, en á umbrotaárunum verður Jóhannes mjög uppreistargjarn gegn hefðbundnum trúarsetningum og opinberum kenningum kirkjunnar. Kemur sú afstaða glögglega fram í “Mannssyninum”, kvæðabálki frá kreppuárunum sem ekki var gefinn út fyrr en 1966. Einkum er eftirtektarvert í þessu þegar litið er yfir allan skáldferil og skoðanir Jóhannesar hve sterk og innileg trú hans á Skaparann og Krist varðveitist og lifir áfram þrátt fyrir allar aðrar efasemdir og uppreisnir hans. Einhverju sinni heyrði ég að Jóhannes hefði ekki viljað eiga texta í sálmabók Þjóðkirkjunnar, – hvort sem hann hafði nú verið beðinn um það eða ekki. Ég spurði Sigfús Daðason um þetta og hann kvað það rétt vera. Ég hafði einhver orð um að þetta kæmi mér á óvart því að ýmislegt frá Jóhannesi ætti fullt og gott erindi í þá bók. Sigfús svaraði: „Já, en Jóhannes vill eiga milliliðalaust samband upp. Hann vill ekki að neinar stofnanir komi þar inn á milli“. Margvíða birtist í kvæðum Jóhannesar innileg nánd hans við Krist og nægir að nefna „Jesús Maríuson“ í Sjödægru.
Skáldlega fjölhæfni og fjölbreytni Jóhannesar má skoða frá öðru sjónarmiði. Sum ljóða hans eru bein boðun og liggja eiginlega í einum merkingarfleti boðskaparins og þá jafnvel borin uppi af einni atviksmynd eða atburðalýsingu sem brugðið er upp. Í öðrum ljóðum hans verður myndin meginatriði og merkingin því í tvöföldum fleti. Séu dæmi tekin úr síðustu bók skáldsins, Ný og nið frá 1970, eru myndhvörf mjög ráðandi einkenni og samfelldar raðir sömu myndhvarfa í kvæði, nokkurs konar „nýgervingar“ í nútímaljóði, en viðlíkingar alls ekki áberandi. „Óðurinn um oss og börn vor“ er magnþrungið samspil fárra mynda og beinnar boðunar en myndirnar ráða úrslitum. Í ljóðinu „Tíðabrigði“ er Íslandssagan túlkuð á hápólitískan hátt, en er í raun myndhvörf og nýgverving upprisu sem síðan er hvolft niður um sjálfa sig. Kvæðin „Tunglið tunglið taktu mig“ og „Staðið yfir moldum“ hefjast á myndum sem eru alveg fáránlegar, „absúrd“, en virðast þó augljósar af samhenginu og þar eru margs konar háðslegir orðaleikir þar sem skáldið kveikir nýtt líf í stirðnuðum orðasamböndum. „Grasaferð“ er alveg sjálfstæð og tær mynd. Í ljóðinu eru margs konar grunkveikjur sem vekja hugrenningar út frá myndhvörfunum og plöntuheiti leika við þrjú skaut ljóðsins: tilbeiðsla – lófi – sakleysingi. „Enn um gras“ er alveg skýr umfjöllun en tvö orð í lokin ráða úrslitum: „auðmýktin og uppreisnin“ og bregða nýju merkingarljósi yfir það sem á undan fer. Í ljóðinu „Hvíld“ er nýgerving með umskiptum. Og undir lok í þessari síðustu ljóðabók skáldsins birtist æðsta takmark trúmannsins í himneskri samsömun, „unio mystica“, í ljóðunum „Sólarsagan“ og „Í guðsfriði“. Þar eru orðalag og myndsýn sem alkunn eru úr dulhyggjubókmenntum fyrr og síðar, minna í senn á mörg eldri ljóð Jóhannesar sem eru innblásin voldugri sýn og á upphaf Fegurðar himinsins eftir Halldór Laxness. Síðarnefnda ljóðinu lýkur þannig:
…
Þá verða öll orð tilgangslaus
– þá er nóg að anda
og finna til
og undrast.
Maðurinn í landinu
landið í manninum
– það er friður guðs.
(Ný og nið, bls. 206)
lV.
Elstu dæmin sem vitnað er til í upphafi þessa lesmáls sýna fyrsta skeið á skáldferli Jóhannesar. Ljóðformið er hefðbundið, ljóðstíll og líkingamál bókmenntasögulega íhaldssamt. Þegar líður á þetta skeið magnast og herðist samfélagsboðunin og stjórnmálaefnið í byltingarsinnuðum anda. Í stað ungmennafélagans, þjóðernissinnans og bændavinarsins kemur hér fram verkalýðssinninn, byltingarmaðurinn og bolsévikkinn Jóhannes. En þessir straumar breyta ljóðstílnum og ljóðforminu ekki og þau breyta sannfæringarkraftinum ennþá síður, svo sem sjá má í „Þegar landið fær mál“ og einnig í „Dagskipun Stalíns“ svo að aðeins tvö þekkt dæmi séu nefnd aftur. Dæmi um breyttan ljóðstíl með breyttum boðskap má þó finna frá fyrra skeiði og þau eru lærdómsrík. Má þar nefna t.d. „Sovét-Ísland“ í Samt mun ég vaka og „Tröllið á glugganum“ í Hart er í heimi. Í þessum kvæðum bregður mælskustílnum fyrir, retórískum stíl, sem síðar varð skýrara einkenni á þeim kvæðum Jóhannesar sem eru í frjálsu ljóðformi. Í bókinni Hart er í heimi frá 1939 má lesa þessi ólíku dæmi m.a.:
Og ég sat uppi í hlíð og ég sá út á haf,
og mín sál var á krossgötum stödd.
Fyrir framan mig lá allt, sem lífið mér gaf,
og mitt land varð ein hvíslandi rödd,
… (Hart er í heimi, bls. 111)
…
Fær það þá aldrei oftar að finna
angan blómsins, er fölnaði í haust?
Og aldrei oftar að heyra
ómstef fuglsins, er hvarf því með söngvatrega?
Og aldrei oftar að sjá
þá eygló, er hneig að baki dumbrauðra fjalla?
Og aldrei oftar það ljós,
… (Hart er í heimi, bls. 177)
Á árum heimsstyrjaldarinnar og upp úr því verður bylting í skáldskap Jóhannesar. Og það er athyglisvert að skáldið notar fyrst dulnefni, „Anonymus“: nafnleysa. Innan skamms gengur Jóhannes þó fram undir eigin nafni og er upp úr þessu öðrum þræði eitthvert form-róttækasta skáld þjóðarinnar. Áður hafa verið nefnd nokkur dæmi um eldri ljóð hans í frjálsu formi. Árið 1948 kom ljóðaþýðingasafnið Annarlegar tungur út, en frá 1945 höfðu kvæði verið að birtast frá Jóhannesi undir höfundarnafninu „Anonymus“. Gerir hann stutta grein fyrir þessu í eftirmála við Sjödægru 1955.
Lykilorð í þessari atburðarás er „viðbrögð“. Þetta má lesa bæði í ljóðum og lausamáli Jóhannesar. Hann ætlar sér ekki þá dul að skapa nýjar aðstæður eða móta þær upp úr þurru, heldur bregðast við þeim með viðeigandi hætti. Nýjum aðstæðum hæfir nýtt ljóðform, nýr hugsunarháttur og hugsunartúlkun, ný yrkisefni. Athyglisverð í því efni er ábending Sveins Skorra Höskuldssonar að Jóhannes hafi í formþróun ekki verið „fyrstur til að brjóta ísinn en drýgði síðan sóknina“ og „entist betur“ en ýmis önnur skáld í því að fylgja eftir breyttum aðstæðum og viðhorfum til að tjá hugsanir sínar og ganga á hólm við breytt mannlíf. (Sveinn Skorri Höskuldsson, 1978). Áður hafði Sveinn Skorri fjallað um formbyltinguna í verkum Jóhannesar „sem e.t.v. framar öllum hefur átt það hljómborð, er hvað bezt hefur endurómað áslátt tímans, og einn sinna jafnaldra hefur tekið þeirri myndbreyting frá hefð til óbundins, nútímalegs skáldskapar að við ekkert er jafnandi nema endurfæðing“ (Sveinn Skorri Höskuldsson, 1970, bls. 38). Jón Óskar lýsir æskuhrifningu sinni af ljóðum Jóhannesar í endurminningum sínum og segir m.a.: „Skáldið úr Dölunum var eins og hljóðfæri sem endurómaði allar helztu umbyltingar sem gerðust með þjóðinni á fyrri hluta tuttugustu aldar“ (Jón Óskar, 1969, bls. 139). Ályktun Eysteins Þorvaldssonar er á sömu lund: „Breytingarnar sem Jóhannes gerir á ljóðstíl sínum eru einstæðar í íslenskri ljóðlist. Hann verður að teljast eitt af atkvæðamestu og listfengustu skáldum bragbreytingatímabilsins.“ (Eysteinn Þorvaldsson, 1980, bls. 129).
Um þetta viðhorf má nefna ýmis dæmi sem reyndar falla alveg að hugmyndinni um vindhörpuna og að hugmyndum marxista um endurspeglun og um stöðu listarinnar í samfélaginu. Í umsögn um tvær ljóðabækur ungra skálda árið 1960 segir Jóhannes: „Hver tíð krefst sinnar túlkunar. … En síðustu áratugina hefur ægiþensla heitra og kaldra stríða ekki rúmast í skorðum bundins máls. Ragnarök aldarinnar hafa blátt áfram sprengt af sér allt mærðartimbrið um sinn. … Áköfustu talsmenn yngri kynslóðarinnar telja hinsvegar að gamla ljóðformið sé orðið úreltur skynjanamiðill sem höndli ekki inntak hins nýja tíma, heldur reyni að bjargast á steinrunnu og innantómu háttakerfi.“ (Vinaspegill, bls. 176-177)
Í eftirmála við frumútgáfu Sjödægru 1955 segir Jóhannes: „Vera má að einhverjir virði mér til fordildar einnar jafnt form sem efni þessarar bókar. Og einn kann að sakna stuðla, annar stéttabaráttu, hinn þriðji skáldskaparins sjálfs. En hitt er jafnsatt fyrir því, að öðruvísi gat ég ekki ort á þessu stigi málsins – og tjóar því lítt um að sakast.“ (Ljóðasafn VII, bls. 214). Þeir Eysteinn Þorvaldsson og Halldór Guðmundsson hafa fjallað rækilega um Sjödægru og má að öðru leyti vísa til þeirra (Eysteinn Þorvaldsson, 1971, Halldór Guðmundsson, 1978).
Meðal margra dæma sem nefna má úr ljóðum Jóhannesar skal hér minna á „Rímþjóð“ í Sjödægru:
…
Í sléttubönd vatnsfelld og stöguð
hún þrautpíndan metnað sinn lagði
í stuðla hún klauf sína þrá
við höfuðstaf gekk hún til sauða.
…
– þá sökk hennar rím eins og steinn
með okinu niður í hafið. (Sjödægra, bls. 29-30)
V.
Á ferli Jóhannesar verður þess ekki vart að hann hafi komist í þrot sem skáld, hafi „misst andann“ um eitthvert skeið. Í eftirmálanum við Sjödægru getur hann þess að nokkuð langt sé um liðið frá því að síðasta ljóðabók hafi komið frá hans hendi en þar kemur ekkert fram um erfiðleika í skáldskapnum heldur má þvert á móti lesa af textanum og öðrum heimildum að Jóhannes hafi einfaldlega verið á kafi í áhugafullri leit og vonglöðum tilraunum til að finna nýjan tón í sem bestu samhengi og samræmi við líðandi stundir. Vitað er að hann tók villuspor og afbrot skoðanabræðra sinna í Ráðstjórnarríkjunum og Austur-Evrópu mjög nærri sér, og margs konar efasemdir birtast í ljóðum hans þegar líður á tímabil kalda stríðsins. En ekki er að sjá að neins konar andleg kreppa eða sálarangist hafi knúið hann til breytinga í ljóðstíl, og reyndar ekki heldur hugmyndaleg kreppa, innra uppgjör o.þ.h. Þvert á móti verður ekki annað skynjað en að hefðbundið ljóðform og hugsunartúlkun hafi ævinlega leikið honum á vörum enda beitti hann því áfram samhliða frjálsu formi. Hann var eitthvert hagmæltasta skáld þjóðarinnar eins og t.d. sum barnaljóð hans sýna. Jóhannes úr Kötlum hafði alla hefðbundna íslenska bragfræði á valdi sínu, svo sem „Háttalykill“ hans og mörg önnur kvæði sýna. Hann var sem skáld innblásinn og upptendraður miklu fremur en varkár eða nákvæmlega fágaður í bragvinnubrögðum sínum. Þessa eru mörg þekkt dæmi, meðal annars í þeim kvæðum sem þegar hafa verið nefnd.
Í viðtali í Birtingi 1957 var Jóhannes spurður um formbyltinguna og svaraði: „Ég byrjaði á því af svipuðum ástæðum og ég fór á sínum tíma að yrkja byltingarkvæði – ég var orðinn ósáttur við sjálfan mig og ljóðagerð mína – fannst sem ég væri farinn að haltra á eftir.“ (Vitnað eftir Eysteini Þorvaldssyni, 1980). Þarna kemur einnig fram að eitt megin-áhyggjuefni Jóhannesar hafi verið að ljóðlistin og alþýðan fjarlægðust hvor aðra, að gjá kynni að myndast milli þeirira við þessar nýstárlegu breytingar í skáldskaparmáli og ljóðformi. Áhyggjur hans voru því samfélagslegar ekki síður en persónulegar.
Hugleiðingar hans koma víða fram í ljóðunum. Frægt dæmi skal tekið:
Á þessari rímlausu skeggöld
þegar strútar stinga höfðinu niður í sprengisand
og mörgæsir fljúga gegnum nálaraugað
þegar kyrtilskrýddur fóðurmeistari
vélmjólkar aumingja búkollu gömlu
þegar barnið er framleitt í tilraunaglasi
þegar náðarmeðulin eru orðin togleður og hanastél
sálin þota hjartað kafbátur
hvernig skal þá ljóð kveða
… (Óljóð, bls. 131)
Auk „Háttalykils“ í fyrstu ljóðabók Jóhannesar ber að nefna bragleiki hans í Sjödægru, t.d. „Rauðsendingadans“, „Maður verður úti“, „Rímþjóð“ sem að formi minnir á „Ísland farsælda frón“ Jónasar og er afbrigði af klassískum bragahætti, „Ferskeytlur“, „Ísland í ljóðahætti“ og „Hún sló hörpu“ en tvö síðastnefndu kvæðin fylgja eddukvæðaháttum. Ýmislegt í Sjödægru virðist beinlínis vera nokkurs konar nýr umbyltur háttalykill. Um bragleikina í Sjödægru segir Halldór Guðmundsson að „hljómurinn er enn ofarlega í huga Jóhannesar“ (Halldór Guðmundsson, 1978).
Þegar hafa nokkur dæmi verið nefnd um innblásin kvæði og kvæði sem lýsa upptendrun og hugarsýnum skáldsins. Mælska og innblástur setja mjög greinilegt mark á mjög mörg kvæði Jóhannesar og auðvitað er mælskustíllinn, retóríski stíllinn, virkur þáttur í þessu. Til viðbótar fyrri dæmum má bæta þessum við: „Eiður vor“, „Kalt stríð“ í Sjödægru, og úr Óljóðum má nefna t.d. „Hrakningsrímur“. Mælsku og innblásturs verður einnig vart í ýmsum kvæðum þar sem lýst er vonbrigðum, efasemdum og vafa. Í Tregaslag eru t.d. kvæðin „Gral“, „Eftirvænting“ og „Þér snauðu menn“. Fleiri svipuð dæmi má nefna, ekki síður úr Ný og nið, síðustu ljóðabók skáldsins.
Í nokkrum skemmtilegustu kvæðum sínum vefur Jóhannes saman hagmælsku sína og skáldsnilld. Þessi kvæði eru mjög eftirtektarverð fyrir þá sök m.a. að í þeim setur hann hagmælskunni eiginlega engin mörk og afsannar þá kenningu að hagmælska og skáldskapur geti ekki vel farið saman. Frægt er kvæðið „Karl faðir minn“ í Ég læt sem ég sofi og nefna má „Í Getsemane“ í Mannssyninum og „Dagskipun Stalíns“ í Sól tér sortna. Í síðast nefnda kvæðinu eru þessar hendingar:
Og eins og bylgja um þennan hnött
hins þráða bræðralags
berst voldug skipun óskabarnsins,
– orð hins nýja dags:
Fram, félagar! Til sigurs fram !
Vor sókn er von þess manns
sem bíður enn í myrkri og hlekkjum!
Björgum lífi hans !
… (Sól tér sortna, bls. 58)
Og enn, eins og af handahófi, má minnast ljóðsins „Bernska“ í Tregaslag:
Dýrleg með
djásn við fót
döggvaðra
stráa
vappar um
vorsins land
vinan mín
smáa.
… (Tregaslagur, bls. 9)
Það er sérstaklega athyglisvert að hann víkur sjálfviljugur frá hefðbundnu ljóðformi og upptendruðum innblæstri þegar nýjar aðstæður vekja honum áður ótamar hugsanir. Hann hverfur frá því sem hann þekkir og ræður algerlega yfir með léttum yfirburðum – yfir í gersamlega nýjar og áður ókunnar aðferðir, hugsunartúlkun og stíl. Hann virðist sjálfur hafa tekið frumkvæði þegar hann fór að gera sér grein fyrir nýjum aðstæðum í framvindu mannlífsins. Og þetta var viðbragð við breyttum aðstæðum, sem endurspeglun ytri viðhorfa og þjónusta við stríðandi alþýðu.
Óskar Halldórsson hefur fjallað um ljóðstíl Jóhannesar og bent á hversu mælskur og „úthverfur“ hann var. Óskar nefnir einnig að stíll Jóhannesar verði retórískur og hann taki framförum í myndhverfingum og „sjónvídd“ og „sjóngleði nútímaljóðsins“. Óskar orðar það svo að „skáldið tekur að yrkja fyrir augað“, en eftir sem áður sé „hugblærinn“ á ljóðum Jóhannesar óbreyttur. (Óskar Halldórsson, 1975). Jóhannes úr Kötlum er góður fulltrúi skálda sem eru mælsk, innblásin, tendruð fullvissu eða sækja fast eftir fullvissu og eldmóði. Hann er í hópi með t.d. síra Matthíasi og Matthíasi Johannesen miklu fremur en t.d. Snorra Hjartarsyni, Hannesi Péturssyni eða Þorsteini frá Hamri. Aftur á móti er hann í hópi með Steini Steinar og Þorsteini frá Hamri að því leyti að verk hans einkennast af bragleikni, hefðbundinni hagmælsku ásamt formbyltingu, frjálsu ljóðformi og fjölbreytni í bragstíl.
Athyglisverð eru ummæli Jóhannesar sjálfs sem snerta þetta þótt óbeint sé. Í erindi 1959, sem áður er vitnað til, segir hann m.a.: „Leyfist mér … að láta þá skoðun mína þegar í ljós að ljóðlistin sé í eðli sínu ekki bundin neinum takmörkunum öðrum en þeim sem ófullkomleiki mannlegs tungutaks hlýtur ævinlega að setja. Ég tel hana hvorki þurfa að vera bundna háttum né hrynjandi ef hún þrátt fyrir það getur vakið þau sérstöku áhrif sem eru einkenni ljóðs – en svo örðugt er að skýra. Því fullkomnara sem ljóð er, því óskiljanlegra verður það. Þar með er alls ekki sagt að það þurfi að vera óskiljanlegt í venjulegri merkingu: það getur fjallað um fyrirbrigði, efnisleg eða andleg, sem hvert mannbarn kannast við og með svo einfaldri framsetningu sem verða má. Málið fer fyrst að vandast þegar spurt er: en hversvegna er þetta list? Í hinu fullkomnasta ljóði er tunga þjóðarinnar þanin til hins ítrasta: hún vegur þar salt á egginni milli hins segjanlega og hins ósegjanlega. Því meira af lífi hins ósegjanlega sem skáldinu tekst að blása í ljóð sitt, því dulmagnaðra og um leið óskilgreinanlegra verður það. … Í fögru ljóði verður upphafning tungunnar algerust. Og það virðist yfirleitt fljúga því hærra sem svigrúm þess er meira, hátturinn frjálsari. Raunin hefur ævinlega orðið sú að hvenær sem einhverjar ytri hömlur hafa sveigt að ljóðlistinni hefur vænghaf hennar jafnharðan minnkað og hún hneigzt til stagls og stöðnunar.“ (Vinaspegill, bls. 83-84)
Vl.
Finna má og skilgreina einn samstæðan kjarna í verki og hugmyndum Jóhannesar úr Kötlum. Eins og fram hefur komið er kjarninn þessi: Listin, ljóðið sem fórn og þjónusta, sem framlag eða vopn í baráttu. Skáldskapurinn hefur ekki aðeins eigið innra markmið eitt sér. Hann verður ekki aðeins metinn með eigin innri verðmætum eða gildum. Mestu varðar að hann þjóni mannlífinu og hugsjónum sem lúta að mannlífi, mennsku og líkn manna á meðal og verði aðstoð við þá sem minna mega sín.
Allnokkur kvæði Jóhannesar verða beinlínis talin kennslukvæði, dídaktísk, í boðun og framsetningu efnisins. Örn Ólafsson bendir á að „rökfærslubragur“ sé á mörgum kvæðanna og rekur í því efni kvæðið „Hvað nú, ungi maður?“ sem birtist fyrst í Rauðum pennum 1938 (Hart er í heimi 1939). Mörg þeirra dæma sem nefnd hafa verið hér framar eru í þessum stíl, a.m.k. að einhverju leyti. Segja mætti t.d. að Hrímhvíta móðir frá 1937 sé samfelld tilraun til að setja fram skipulega söguskoðun um íslenska sögu í sósíalískum byltingarsinnuðum anda og Mannssonurinn, sem er frá svipuðum tíma þótt ekki yrði gefinn út fyrr en síðar, er að sínu leyti einnig tilraun til að setja fram eða kenna tiltekin ákvörðuð sjónarmið á sviði trúmálanna. Að því leyti minnir hann jafnvel á samfellda og samstæða ljóðkennslu séra Hallgríms Péturssonar þótt með ólíkum hætti sé. Fróðlegt er að lesa að Jóhannes segir sjálfur í blaðaviðtali við útkomu Hrímhvítu móður að hann hafi valið bragarhætti „til þess að allt mætti verða sem ljósast og aðgengilegast almennum lesanda“ (Vitnað eftir Erni Ólafssyni, 1990, bls. 126). Og áður var Sjödægra nefnd sem nokkurs konar umbyltur háttalykill.
Í verkum Jóhannesar birtist aftur og aftur lykilorðið: „alþýðan“. Baráttukvæði eru reyndar svo mörg í bókum Jóhannesar að nær er að telja þau kvæði sem ekki snerta hugsjónir á einhvern hátt. Mörg þeirra dæma sem þegar hafa verið nefnd fela í sér lykilorðið „alþýða“ en til viðbótar þeim má nefna í Hrímhvítu móður „Þegnar þagnarinnar“ og „Mitt fólk“ í Hart er í heimi. Enn má nefna „Systir alþýða“ í Eilífðar smáblóm, og „Lofsöngur um þá hógværu“ í Sjödægru.
Systir mín, Alþýða! sárt finnst mér enn
að sjá þína nöktu, blóðugu mynd,
er berst þú af grimmd fyrir gullsins menn,
– ó guð í himninum, hvað þú ert blind!
…
Ég elska þig, systir, eins og það lamb,
sem í einfeldni sinni er til slátrunar leitt.
(Eilífðar smáblóm, bls. 86)
Ekkert veit ég yndislegra en fólk:
það fólk sem skarar í eld hampar barni raular stöku
rúmhelginnar fólk með jól og páska í augnaráðinu
alþýðufólkið með allan sinn höfðingskap
… (Sjödægra, bls. 84)
Í erindi árið 1960, sem áður er vitnað til, segir Jóhannes m.a. : „Það væri synd að segja að nú sé hörgull á stórkostlegum yrkisefnum sem kalla á þrotlausar tilraunir í formi. En hið æðsta gildi skáldskapar hefur aldrei verið fólgið í dýrleika hringhendu né dulmáli atómljóðs, heldur þeim ævarandi tilgangi að bjarga manninum frá andlegri tortímingu.“ (Vinaspegill, bls. 211) Þessi afstaða Jóhannesar sést einnig neikvætt á því hversu vonbrigði, efasemdir og ótti um samtíð og framtíð verða áleitin í ljóðum hans þegar líður á ævina. Njörður P. Njarðvík minnir á þetta og að smám saman hafi „óþol yfir seinagangi og uppgjöf“ komið fram í ljóðunum. (Njörður P. Njarðvík, 1978).
Við ber að Jóhannes tjáir þetta í kankvíslegum tóni:
…
nú dönsum vér ekki lengur skottís í gúttó
né heldur foxtrott í iðnó
nei nú spilum vér bingó
rokkum við skvísur í lidó
drekkum púrtara frá frankó
hyllum belgana í kongó
gefum frat í kastró
eflum varnirnar í nató
… (Óljóð, bls. 140)
Framar í þessu lesmáli hefur verið reynt að gera grein fyrir því hvernig innihald og boðskapur tengist ljóðformi og stíl í verkum Jóhannesar. Þetta fellur yfirleitt vel saman í órofa heild og í því sést einmitt snilld skáldsins meðal annars. Áður var líka vikið að umræðum um fagurfræði og hlutverk skáldskapar í samtíma Jóhannesar. Afstaða hans var ævinlega alveg skýr. Hann gekk aldrei í lið með höfundum sem lögðu áherslu á „sjálfstæði“ listarinnar gagnvart samfélagsmálunum. Hann stóð til hliðar frá Sigfúsi Daðasyni og Birtingsmönnum í umræðunum svo að dæmi séu nefnd. Um þetta má margt lesa í endurminningum Jóns Óskars. Í raun og veru var Jóhannes í flokki með Guðmundi G. Hagalín, Jónasi Jónssyni og Jónasi Árnasyni í þeim umræðum sem urðu t.d. um og upp úr 1950 um hlutverk skáldskaparins, um tengsl skáldskapar og siðfræði og um tengsl skáldskapar við stjórnmálabaráttuna. Þótt þeir stæðu á öndverðum meiði, Jónas Jónsson frá Hriflu og Kristinn E. Andrésson, bar þeim að miklu leyti saman um gildi og áhrif skáldskapar og lista og um „skyldu“ skálda og listamanna til að leggja fram „skerf í baráttunni“. Í þessu efni kemur fagurfræði séra Matthíasar upp í hugann og ekki síður samherjanna Þorsteins Erlingssonar og Stephans G. Stephanssonar.
En Jóhannes hefur sérstöðu meðal þeirra sem lögðu áherslu á siðferðilegt hlutverk listarinnar og skyldur skálda og listamanna við samfélagið. Hann var miklu umburðarlyndari og tillitssamari en margir í þeim hópi. Hann tók öllum tilraunum annarra opnum huga og reyndi að setja sig sem best í spor margra þeirra rithöfunda og skálda sem ekki voru á sama máli og hann sjálfur. Hér var áður vitnað til þeirra orða hans að ekkert í mannlegri tilveru sé listinni óviðkomandi. Í erindi á bókmenntakynningu árið 1960 vitnar Jóhannes til nokkurra ungra skálda. Þar segir hann m.a.: „Hvernig á þá íslenzkt nútímaljóð að vera, ekki einungis til þess að geta talizt fullgild list, heldur líka frjóvgari nýrrar alþýðumenningar og hlutgengt blóm í hinum veðrasama garði heimsmenningarinnar?“ (Vinaspegill, bls.208). Síðar í sama erindi segir hann: „En er það ekki keppikefli hvers einasta skálds að ná sambandi við mannssálir og mannshjörtu? Og eigi maðurinn á annað borð sjónskerpuna, skynjunina, sköpunarmáttinn sem gerir hann að skáldi – er þá ekki hjartaþelið sá rauði þráður sem bezt leiðir galdur ljóðsins inn í vitund annarra manna?“ (Vinaspegill, bls. 211). Jóhannes slær hvergi af skoðunum eða kröfum sínum, en hann lastar ekki aðra fyrir önnur sjónarmið og hann gerir ekki lítið úr vanda og viðhorfum ungu skáldanna. Þvert á móti setur hann sig í spor þeirra og rökstyður málstað þeirra á ýmsa lund í þessu erindi og víðar. Í ólíkum sjónarmiðum og bókmenntastraumum sá hann nefnilega vitnisburð um einlæga viðleitni til að mæta breytingum mannfélagsins, endurspegla þær og hafa áhrif á framvinduna.
Guðni Elísson hefur lýst samhengi og þróun í ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum. Hann segir m.a.: „Ef eitthvað er, verður byltinga- og baráttukveðskapur Jóhannesar dýpri og margræðari eftir því sem á líður eða með Sjödægru og þeim bókum sem henni fylgdu“ (Guðni Elísson, 1986). Og Halldór Guðmundsson telur einnig að Jóhannes hafi ævinlega varðveitt og ræktað kjarna fyrri sjónarmiða og ekki gengið til fulls til liðs við módernísk viðhorf. Halldór víkur að gagnrýni Einars Braga um Sjödægru í Birtingi en þar hafði komið fram að Jóhannes yrkir ekki „hrein nútímaljóð“ og heldur áfram að skírskota út fyrir ljóðin til mannfélags og ytri aðstæðna. Væri fróðlegt að bera gagnrýni Einars Braga saman við umfjöllun Bjarna Benediktssonar frá Hofteigi. Halldór Guðmundsson kemst m.a. svo að orði: „Afdráttarlausri sannfæringu sinni um gildi þjóðlegra verðmæta og bændamenningarinnar deilir Jóhannes ekki með módernistum hinna stærri þjóða, gildiskreppa hans er önnur en þeirra“ (Halldór Guðmundsson, 1978). Jóhann Hjálmarsson kemst að sömu niðurstöðu, að Jóhannes hafi verið hefðbundið skáld og um leið gert þróttmiklar tilraunir til að finna listinni nýjan farveg (Jóhann Hjálmarsson, 1971).
Niðurstaða þessara hugleiðinga verður sú að Jóhannes varð aldrei heilshugar módernisti. Hann hvorki vildi né gat nokkru sinni sætt sig við firringu, tómleika og það tilgangsleysi sem gjarna hefur þótt fylgja viðhorfum módernistanna. Hann vildi ekki og gat aldrei sleppt þeirri hugsun að skáldskapurinn hefði – eða ætti að hafa – samfélagslegt og siðferðilegt gildi og áhrif. Og hann vildi aldrei slíta sig frá hugmyndum og skoðunum sem voru annars vegar þjóðlegar og alþýðlegar og hins vegar mótaðar af sósíalisma og róttækni í stjórnmálum. Marxistar álitu að djúpstæður eðlismunur væri á uppreist og byltingu. Jóhannes varð aldrei uppreistarmaður eða stjórnleysingi og tómhyggjumaður heldur allt til síðasta byltingarsinnaður hugsjónamaður. Í kvæðinu „Ég finn ég verð“ segir hann:
…
ég finn ég verð – ég finn ég verð að springa
og fæða af nýju alla veröld mína.
(Tregaslagur, bls. 14)
Í lokaorðum í umfjöllun um Jóhannes í bókmenntasögu sinni segir Kristinn E. Andrésson: „Hann er framar öllu hugsjónaskáld … Í ljóðum hans felst einarðleg skírskotun til samtíðarinnar, þau eru tjáning brennandi áhugamála og sannfæringar“ (Kristinn E. Andrésson, 1949). Og Örn Ólafsson segir: „Öllum stefnusveiflum kommúnista tekst Jóhannesi að fylgja í ljóðagerð, þótt stundum komi í hann ólund vegna málamiðlana … hitt er merkilegra, að hann skuli yrkja góð ljóð eftir hverri stefnu“ (Örn Ólafsson, 1990, bls. 125). Nú geta menn hæglega haldið því fram að marxísk viðhorf til bókmennta og lista séu liðin tíð, ekki aðeins úrelt heldur beinlínis röng, skaðleg eða misskilningur frá upphafi. En hinu verður ekki neitað að þessi sjónarmið höfðu mótandi áhrif á Jóhannes úr Kötlum. Kveðskapur hans er lifandi og markvert vitni um „sósíalrealisma“ eftir því sem slíkt á beinlínis við í ljóðum, um skáldskap sem innblásna kennsluboðun og sem „endurspeglun“ eða viðbragð við breytingum í mannfélagslegum kjörum. Og Jóhannes úr Kötlum iðkaði sjálfur það sem hann boðaði. Með kveðskap sínum færði hann innilega fórn hugsjónum sem hann taldi háleitar. Hann er heilsteyptur og sannur í gegn og stenst sjálfur það próf sem hann hefur sett. Þess vegna getur hugblærinn í verkum hans verið einlægni og heiðríkja. Einlægni og heiðríkja eru þá einnig meginþættir í arfinum sem Jóhannes skildi eftir sig. Eins og hann sagði sjálfur er hjartaþelið rauði þráðurinn.
Persónuleg minning um Jóhannes úr Kötlum
Til viðbótar því lesmáli sem hér er framar um ljóðskáldið Jóhannes úr Kötlum, lífsviðhorf hans og viðhorf til skáldskaparins langar mig að fara nokkrum orðum um þjóðfélags- og stjórnmálaskoðanir hans, en þær skipta augljóslega miklu í skáldskap hans og lífsferli. Mér þykir þetta þeim mun brýnna sem nú hefur kynslóð vaxið upp sem á að ýmsu leyti erfitt með að skilja kreppukommana og sósíalistana á fyrstu árum lýðveldisins. Það hefur svo margt breyst og á svo róttækan hátt að fólki er vorkunn.
Ég átti þess kost að kynnast Jóhannesi nokkuð og einstakt tækifæri fékk ég af tilviljun til að hlusta á hann góða stund lýsa andlegri þróun sinni, baráttu og hugsjónum. Kynni okkar Jóhannesar tókust með þeim hætti að við störfuðum báðir að Laugavegi 18 í Reykjavík, ég hjá Máli og menningu og hann á skrifstofu í húsinu. Um þessar mundir var ég að ljúka BA-prófi í Háskóla Íslands og hafði sest undir árar hjá þeim Kristni E. Andréssyni og Sigfúsi Daðasyni sem starfsmaður bókaútgáfunnar eftir að þeir tóku prófritgerð mína í íslenskum bókmenntum til birtingar í Tímariti Máls og Menningar.
Jóhannes stóð rétt á sjötugu þegar hér var komið sögu, fæddur síðla árs 1899. Hann lést 1972.
Starfsmenn Máls og menningar, forlagsins og verslunarinnar, mynduðu þéttan hóp og var liðsandi mjög góður. Margir aðrir starfsmenn í húsinu voru kunningjar til langs tíma og talsverð samskipti milli hæða. Jóhannes var hvers manns hugljúfi í allri viðkynningu. Dagfar hans var rólegt, vinsamlegt og hlýtt. Hann var ræðinn og fyndinn og ævinlega til í gamanmál. Hann var afskaplega vel látinn og vinsæll. Hann hafði auðvitað haft tengsl við Mál og menningu og starfsmenn fyrirtækisins um langt árabil og var tekinn sem einn úr hópnum og leit þannig á sig sjálfur, að ég held.
Jóhannes átti sem kunnugt er ótrúlega létt um að yrkja og kasta fram stöku. Kom það oft fyrir. Fræg var vísa hans um eina konuna í hópnum:
Yndisleg er Ester
einkum þegar hún sest er,
fallegt á henni flest er
en framhliðin þó best er.
Jóhannes var reyndar ekki vel á sig kominn þegar hér var komið sögu. Hann þjáðist mjög vegna nýrnanna og þurfti að fara upp á Landspítala nokkrum sinnum í viku hverri í einhvers konar blóðskiljuvél. Ég varð var við að þetta hafði áhrif á hann og dró hann niður.
Ekki er að undra að félagslífið var fjörugt á þessum vinnustað í jólaösinni. Um þær mundir bar marga að garði sem boðið var kaffi og rætt var við umfram eiginleg bókabúðarviðskipti. Reyndar var það svo að í kringum Mál og menningu var jafnan sveimur bókamanna og menntamanna sem gerði sér leið þangað inn, og þá var ævinlega eitthvað rætt um heimsins og landsins gagn og nauðsynjar. Þarna var háskóli fyrir unga og forvitna menn. Mér finnst að Kristinn hafi á þessum tíma ekki tekið eins mikinn þátt í þessu og Sigfús gerði, en báðir settu þeir svip á samfélagið, svo ólíkir sem þeir voru. Ásamt þeim setti Einar, bróðir Kristins, mark sitt á hópinn. Ég var mest í verkum hjá Sigfúsi og einhvern veginn náðum við vel saman. Tíminn hjá Sigfúsi varð mér ómetanlegt framhaldsnám í bókmenntafræði og menningarsögu.
Það sem hér fer á eftir er ritað eftir minni, frá því um jól 1969. Nokkru eftir samtal okkar tók ég efnisatriðin saman mér til upprifjunar og lærdóms. En endursögn mín nú er alveg á mína ábyrgð, og ég mun ekki setja ummæli Jóhannesar í tilvitnunarmerki nema um sé að ræða orð og setningar sem greyptust strax í huga minn. Annað sem haft verður eftir Jóhannesi hér er tilraun til að tjá hugsun hans eins og hann birti mér hana.
Einhverju sinni er það í jólaösinni að hópurinn situr að kvöldkaffinu. Ég var ekki bundinn í afgreiðslunni þar eð ég vann á lagernum og sá um pantanir og útsendingar. Þegar aðrir hurfu til sinna starfa atvikaðist það svo að við Jóhannes urðum tveir eftir. Þarna höfðu orðið talsverðar umræður sem fyrri daginn um þjóðfélagsmálin. Rætt var um ný og róttæk viðhorf. Yngra fólkið hélt þeim fast fram en þeir eldri andmæltu. Þetta voru skemmtilegar umræður en þarna mættust þeir sem voru að mótast sem róttæklingar í lok sjöunda áratugarins og hinir sem höfðu sannfærst um mikilvægi sósíalismans áður. Þeir eldri sögðu óhikað að ungu róttæklingarnir væru stjórnleysingjar og skólagengin dekurbörn borgarastéttarinnar og þeir yngri töldu gamlingjana hlýðnispaka hálfstalínista eða staðnaða þjóðernissmáborgara. Ég tók þátt í umræðunum en var reikandi á milli fylkinganna sem endranær á þessum tíma.
Sem við sitjum þarna tveir eftir fer ég að spyrja Jóhannes nánara um hans eigin sjónarmið. Það var altalað hvílíkt áfall uppljóstranirnar um voðaverkin í Ráðstjórnarríkjunum urðu honum og var sagt að þá hafi félagar hans sest að honum kvöld eftir kvöld til þess að fá hann til að herða upp hugann og koma í veg fyrir að hann véki alveg af leið. Einar Olgeirsson hafði sagt frá þessu svo að ég heyrði. Ég vissi líka vel um afstöðu hans til innrásar Rússa í Ungverjaland, til tékkneska vorsins og til innrásar Varsjárbandalagsins í Tékkóslóvakíu.
Þar kemur talinu að ég spyr sem svo: „Já, en hvað var það eiginlega sem klikkaði í þessu ? Hvað var það sem brást og hvenær gerðist það ?“
Jóhannes svaraði alveg viðstöðulaust eins og hann hefði fyrir löngu komist að niðurstöðu: „Hugsjónir okkar brugðust ekki í sjálfu sér. Alþýðan brást. Þegar að því kom að alþýðan gat valið um kosti, þá valdi hún efnaleg gæði og lífsþægindi hér og nú en afneitaði hugsjónunum um framtíðarlandið. Þetta er í hnotskurn það sem gerðist.“
Og Jóhannes hélt áfram og gerði rækilega grein fyrir lífsviðhorfum sínum og þeirrar kynslóðar sem hann mótaðist af.
— — —
Það fyrsta sem Jóhannes nefndi var það sem hann kallaði “grundvöllinn undir hugsjónum okkar”. Það hafði ekki verið aðeins skortur efnalegra gæða sem ýtti á Jóhannes og félaga hans, heldur miklu fremur ósanngjörn skipting þeirra og ósanngjarnt viðhorf manna til almúgans og þeirra vandamála sem alþýðuheimilin voru að berjast við. Það hafði þótt sjálfsagt að kenna fátæklingunum sjálfum um fátæktina; hún stafaði af óráðsíu þeirra sjálfra og ábyrgðarleysi, ef ekki af einhverjum siðferðisbresti sem þeir gætu kennt sjálfum sér um. Jóhannesi og félögum hans sárnaði þetta og blóðið sauð í þeim „við að heyra þessi hindurvitni.“
Í raun og veru höfðu Jóhannes og félagar engan áhuga haft á því að almenningur færi að vaða í lífsþægindum. Þeir höfðu engan áhuga á tækniframförum og í rauninni afarlítið vit eða þekkingu á slíkum hlutum að sögn Jóhannesar. Hann sagðist telja að flestir þeirra hafi lítið hugsað um slíka hluti yfirleitt. Þeir höfðu ekki áhuga á framleiðsluaukningu umfram grundvallarþarfir til lífs og menningar eins og þeir skildu þá hluti, og Jóhannes sagðist telja það „frumstæðan skilning á við það sem nú tíðkast.“
Viðhorf þeirra félaganna til verkaskiptingar í þjóðfélaginu voru andstæð því sem nú tíðkast. Þeim þótti lítil vegsemd í sérhæfingu um fram grófustu drætti. Verslun átti að þjóna fólkinu en ekki öðlast eigið vægi eða sjálfstæði sem sérstakur atvinnuvegur með vald og áhrif. Sjálfsnægtabúskapurinn til sveita og þorpa átti að þróast til samvinnu og samyrkju. Þessi sjónarmið voru alveg miðuð við eiginlegar framleiðslugreinar, en verslunin átti aðeins að þjóna. Verslun og þjónusta átti alls ekki að skipa sjálfstæðan sess. Slíkt töldu þeir „brask, arðrán og afætulifnað.“
Það þýddi lítið að tala um frjálsan markað eða frjálsa samkeppni í hópi þeirra samherjanna. Þeir höfðu ekki þekkt neinn frjálsan markað eða það vöruúrval og kaupmátt sem gæti verið vettvangur samkeppni sem máli skipti fyrir alþýðuheimilin. Í þeirra augum hefði það verið nóg ef til væru sæmilegar matvörur og aðrar nauðþurftir á einhverju því verði sem almenningur gæti ráðið við. Og til að geta verslað yfirleitt þurftu menn að hafa launaða vinnu, og það höfðu alls ekki allir á þessum tíma. Frjáls markaður var í þeirra augum fagurgali til að blekkja almenning. Markaður og samkeppni var ódýr háðsyrði um lífsafkomu alþýðunnar. Þessi „svokallaði frjálsi markaður var arðránstæki“ því að þar var almenningi skammtað naumt. Markaður þar sem almennur skortur ríkir var skömmtunarvél fyrir þá sem eitthvað áttu.
Jóhannes sagði að gott dæmi um hugsunarháttinn hafi verið ráðandi hugmyndir um viðbrögð við kreppu. Þá höfðu einu úrræðin verið að spara, hokra, skera niður, draga úr, og lifa við sjálfsnægtir. Það hafði verið ráðandi á Íslandi á kreppuárunum að menn ættu að reyna að búa að sínu. Þá var mest um vert að fá jarðnæði, rollu og garðholu, eða þá bátskel. Þá urðu menn að bjarga sér sjálfir eða með samvinnu. Það voru einu úrræðin, að hverfa aftur til fyrri atvinnuhátta til að bregðast við kreppunni. Þessu höfðu flestir trúað, þar á meðal verkalýðsforingjarnir.
Jóhannes sagði að margir hefðu hugsað sem svo: Það er atvinnuleysi og kreppa. Það er auðvaldskerfinu að kenna. Þess vegna verður að umbylta því í átt til sósíalisma. Jóhannesi þóttu þessi rök sannfærandi, meðfram vegna þess að fyrir honum vakti þjóðleg samkennd og áhersla á mannúð og menningu fyrir alþýðuna.
Á þessum sama tíma sáu menn svo svörtu og brúnu hættuna, voðann sem öllum þjóðum stafaði af fasisma og nasisma, með þeim hörmungum, hrottaskap og niðurlægingu sem fylgdi. Jóhannes sagði að þeim félögunum hefðu þótt að hin svo nefndu lýðræðisöfl, jafnt til hægri sem jafnaðarmenn, væru mjög aðgerðalaus gegn kreppunni og fasismanum.
„Ég var nú oft kallaður rómantískur, náttúrubarn og hugaróraskáld,“ sagði Jóhannes. Honum hafði þótt margt gott við naum kjör í náttúrulegum lifnaðarháttum í skauti lands og sjávar þótt hann sæi að fátæktin og neyðin væri fylgifiskur ranglætis og þessa frumstæða hagkerfis sem kommúnistarnir vildu losna við. En þeir höfðu haldið að allsnægtaþjóðfélagið yrði allt öðruvísi en nú er orðið og það var hluti af framtíðarsýn kommúnismans.
Jóhannes lagði áherslu á að enginn gæti nú skilið hvað í því fólst að vera niðursetningur, að þiggja af sveit, að verða gamall eða verða fyrir slysi við þær aðstæður sem réðu á kreppuárunum. Og enginn gæti heldur skilið hvað það var að vera jarðnæðislaus bóndasonur með fjölskyldudrauma, eða fáæklingar með ómegð í bæjunum þar sem ekki fékkst mjólk fyrir börnin.
Hann minnti á að á þessum tíma voru málefni atvinnulífsins ekki málefni þjóðarinnar heldur jafn innileg og heilög einkamál eigendanna eins og sjálft fjölskyldulíf þeirra. Kommúnistarnir höfðu ekki alltaf verið að hugsa um mikla framleiðsluaukningu, heldur einfaldlega um að minnka þann auðsjáanlega reginmun sem var á lífskjörum örfárra og fátækt alls fjöldans. Þeir vildu ekki samþykkja hugmyndir sem þá voru almennt viðurkenndar um eðlislægan mismun á mönnum þar sem sumir áttu rétt og eðli til þess að hafa það gott en aðrir ekki. Þeir höfðu verið sannfærðir um að fátækt margra væri ekki persónuleg mistök eða sök fátæklinganna, og reyndar ekki heldur aðeins persónuleg ábyrgð þeirra ríku, heldur sameiginlegt vandamál allra.
„Ég segi að eiginlega hafi það verið alþýðan sem brást,“ sagði Jóhannes, „vegna þess að þegar nýjar aðstæður, framleiðsluaukning og tækni fóru að birtast og móta mannlífið, þá hætti alþýðan alveg að sjá sjálfa sig og hagsmuni sína í því ljósi sem áður hafði verið.“ Þetta hafði allt farið að breytast þegar heimilin gátu farið að velja um matvörur, eiga föt til skiptanna og kaupa sér spariföt, og fólk sá fram á verkamannabústaði og byggingarsamvinnufélög. Sama hafði orðið uppi á teningnum þegar framaleiðir og menntaleiðir opnuðust. Þá hafði alþýðan farið að sjá sjálfa sig og börnin sín í nýju ljósi. Þá var ekki lengur áhugi á því að leggjast á eitt í framtíðarróðri. Fólkið hafði séð lífsgæðin og þægindin rétt fyrir framan sig og vildi fá að njóta þeirra strax. „Auðvitað er ekki hægt að áfellast neinn fyrir þetta,“ sagði hann. „Samt finnst mér eiginlega að með þessu öllu hafi alþýðan leiðst afvega, og þótt mikið hafi áunnist þá hafi mikið glatast eða gleymst um leið.“
Þessi þróun hafði komið öllum að óvörum að mati Jóhannesar. Tæknin, framleiðsluaukningin, þjónustuþróunin, samgöngur, íbúðarhúsnæði, heimilistæki og allar þessar jarðnesku eigur, „allur þessi umsnúningur allra verðmæta,“ eins og Jóhannes orðaði það, þetta hafði allt komið óvænt og umsneri sköpunarverkinu gersamlega. Frammi fyrir þessu hafði alþýðan misst áhuga á því sem áður hafði verið baráttumál og hugsjónir. Sjálfsmynd hennar ruglaðist alveg. „Í þessu er atómtíminn,” sagði Jóhannes.
Hann hafði miklar efasemdir um það sem komið hafði með allsnægtunum og velsældinni. Með þeim hefðu komið firring, streita, rusl, mengun, röskun í náttúru og samfélagi, vaxandi stéttaskipting, efnishyggja og þægindatrú. Þrátt fyrir allt það góða og ánægjulega sem vissulega hafði gerst, vildi hann benda á að samfélagið og mannlífið einkennist líka af óráði, ofneyslu, náttúruspjöllum og rányrkju, og af skammsýni og heimtufrekju um alla hluti, og hann bætti við „af virðingarleysi við margt það sem mér var ungum kennt að meta og virða, fara varlega með og sparlega.“ Hann sagðist sjá þetta þannig að efnahagskerfið núna byggðist alveg á því „að ala á sérhagsmunapoti, á sjálfselsku og tillitsleysi.“
Jóhannes lagði á það áherslu að „hugsjónir okkar stefndu að allt öðru.” Þær hefðu ekki verið háðar ofhlæði veraldlegra hluta. Hugsjónir Jóhannesar og félaga hans um jöfnuð og réttlæti í ráðstjórnar- og samyrkjukerfi hefðu í rauninni ekki brugðist, „heldur þokuðust þær til hliðar,” sagði hann. Þær hefðu gleymst „úti í horni.“ Þær höfðu miðað að samhjálp og samstöðu en alls ekki að þeirri einkaneyslu og samkeppni allra gegn öllum og ásókn í nýjabrum og tísku sem síðar ruddu sér til rúms. Þegar nýjar leiðir opnuðust til að framleiða óendanlegt magn af öllum hlutum, þá hefði mátt segja að flestum hafi þótt þessar hugsjónir óþarfar og úreltar.
Þegar Jóhannes fékk fréttirnar um ógnarverkin á Stalínstímanum og síðar frá Ungverjalandi og enn síðar frá Bæheimi féll honum allur ketill í eld. Í fyrstu vissi hann ekki sitt rjúkandi ráð. Þegar frá leið sá hann að „það var hægt að átta sig á þessum atburðum. Það var hægt að skilgreina þá og skilja hvað hafði gerst,” eins og hann orðaði það. Síðan hefði á þeim grundvelli verið hægt að berjast gegn þeim, fordæma þá, vara við þeim og benda til réttari vegar. En það hefði ekki verið nein leið að brjótast gegn strauminum þegar sjálfsmynd og hugarheimur alþýðunnar fóru að breytast. Það hafði kollvarpað allri þessari viðleitni.
Undir lokið sagði Jóhannes:
Svo mörg voru þau orð eins og þau hafa lifað og vakað í minningunni. Ég ítreka að þetta er skráð eftir minni. Aftur á móti á þessi framsetning að lýsa máli Jóhannesar þessa kvöldstund einnig í því að hann talaði óundirbúið og hafði því ekki raðað efninu í rökvíslega skipulagða kafla. Löngu síðar las ég frásögn Jóns Óskars af mjög líku samtali sem hann hafði átt við Jóhannes um svipað leyti og þar koma sams konar hugleiðingar skáldsins fram (Jón Óskar, 1979, bls. 291 – 293). Reyndar má greina frjókorn þeirra í ræðu sem hann flutti á fundi með ungu fólki árið 1955 (Vinaspegill, bls. 245 – 255). Ég hef borið þessa frásögn undir Önnu Einarsdóttur sem var í samstarfsmannahópnum.
Jóhannes lýsti ráðandi hugmyndum á þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Þá voru hugmyndir um hagvöxt og framleiðsluaukningu ekki með þeim hætti sem síðar hefur orðið, og yfirleitt höfðu menn ekki skilning á hagvexti, einkennum hans, möguleikum eða vandamálum. Hagvöxtur einkennist í fyrstu af mikilli samþjöppun fjármagns á fáar hendur og virðist því mesta ranglæti áður en fjármagninu er aftur veitt út til fjárfestingar og atvinnusköpunar. Framan af virðist þessi samþjöppun alls ekki tengd neinum möguleikum til almennra framfara, nema síður sé.
Hann lýsti einnig ráðandi hugmyndum um að allt samfélagslegt og viðskiptalegt verðmæti ætti uppruna sinn í vinnu og starfi mannlegs hugar og handa. Vinnuvirðiskenningarnar litu ekki á óáþreifanleg verðmæti eins og t.d. viðskiptavild eða verðlag sem miðast við fágæti eða eftirspurn eina saman. Í samræmi við þessar hugmyndir var sú trú t.d. að þróun gæti aðeins orðið við ákvörðun eigenda eða valdhafa um ráðstöfun þekktra verðmæta sem liggja fyrir. Menn væru ævinlega að skipta á milli sín því sem fyrir lá en ekki að auka heildarmagnið öllum til hagsbóta.
Almennt trúðu menn á það að kreppa hlyti að valda samfélagslegu hruni. Kreppa og fjöldaatvinnuleysi lýsti slíkum klofningi og andstæðum í samfélaginu að byggingin hlyti að hrynja öll til grunna. Þetta átti rætur í alþekktum hagfræðikenningum sem John M. Keynes kollvarpaði síðar á fjórða áratugnum.
Grundvöllurinn undir lífsviðhorfum Jóhannesar er um leið lykillinn að „misskilningi“ hans og vonbrigðum. Kjarninn í hugarheimi Jóhannesar var einlæg þjóðleg og alþýðleg mannúðarstefna. Hún liggur til grundvallar öllum öðrum ályktunum og skoðunum hans. Forsendur hennar eru margvíslegar. Meðal annars miðast hún við tiltölulega frumstætt mannlíf í skauti náttúrunnar, lágt verktæknistig og sjálfsnægtabúskap. Samfélagið miðast þá ekki við örar breytingar, tískustrauma eða vöxt og aukningu allra hluta, heldur miklu fremur við mjög takmarkaða möguleika og jafnvel skort.
Hugmyndir Jóhannesar höfðu auðvitað alls enga tengingu við nútíma-neysluþjóðfélag. Neysluþjóðfélagið var jafn lagt frá þessum hugarheimi eins og það er fjarlægt bæði hefðbundnum kapítalisma og kennisetningum kommúnismans. Það hefur mörgum gleymst á seinni árum að neysluþjóðfélagið sem við lifum í nú er álíka ólíkt og fjarlægt hugarheimi kapítalista á fyrri árum aldarinnar yfirleitt eins og það er andstætt viðhorfum gamalla kommúnista.
Ég vona að þessi frásögn sé sannleikanum samkvæm eftir því sem minni mitt leyfir eftir svo langan tíma. Og ég vona að frásögnin varpi ljósi á hugarheim Jóhannesar úr Kötlum.
Nokkrar heimildir sem stuðst er við:
- Jóhannes úr Kötlum. 1972-1976. Ljóðasafn I – VIII. Rvík, Heimskringla. (Umsjón: Sigfús Daðason).
- Jóhannes úr Kötlum. 1965. Vinaspegill. Rvík, Heimskringla. (Umsjón: Kristinn E. Andrésson).
- Árni Sigurjónsson. 1986. Laxness og þjóðlífið. Bókmenntir og bókmenntakenningar á árunum milli stríða. Rvík, Vaka-Helgafell.
- Bjarni Benediktsson frá Hofteigi. 1971. Bókmenntagreinar. Rvík, Heimskringla.
- Eysteinn Þorvaldsson. 1971. “Könnun Sjödægru.” Mímir. Rvík.
- Eysteinn Þorvaldsson. 1980. Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Rvík, Hið ísl. bókmenntafél.
- Guðni Elísson. 1986. “Ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum.” Mímir. Rvík.
- Halldór Guðmundsson. 1978. “Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga.” Svart á hvítu. Rvík.
- Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson. 1973.Skáldatal I-II. Rvík, Bókaútg. Menningarsj.
- Heimir Pálsson. 1982. Straumar og stefnur í íslenskum bókmenntum frá 1550. (2. útg. endursk. og breytt). Rvík, Iðunn.
- Heimir Pálsson. 1998. Sögur, ljóð og líf. Íslenskar bókmenntir á tuttugustu öld. Rvík, Vaka-Helgafell.
- Jóhann Hjálmarsson. 1971. Íslenzk nútímaljóðlist. Rvík, Alm. Bókafélagið.
- Jón Óskar. 1969. Fundnir snillingar. Rvík, Iðunn.
- Jón Óskar. 1979. Týndir snillingar. Rvík, Iðunn.
- Kristinn E. Andrésson. 1949. Íslenskar nútímabókmenntir 1918 – 1948. Rvík, MM.
- Kristinn E. Andrésson. 1965. “Inngangsorð.” Jóhannes úr Kötlum: Vinaspegill. Rvík, Heimskringla.
- Kristinn E. Andrésson. 1971. Enginn er eyland. Tímar rauðra penna. Rvík, MM.
- Njörður P. Njarðvík. 1978. “Vort er ríkið. Fáein orð um baráttuljóð Jóhannesar úr Kötlum.” TMM. Rvík.
- Óskar Halldórsson. 1975. „Hvernig skal þá ljóð kveða?“. TMM. Rvík.
- Sveinn Skorri Höskuldsson. 1970. Að yrkja á atómöld. Rvík, Helgafell.
- Sveinn Skorri Höskuldsson. 1978. “Með barnsins trygga hjarta…. Nokkrar hugleiðingar um bókmenntalega stöðu Jóhannesar úr Kötlum.” TMM. Rvík.
- Örn Ólafsson. 1990. Rauðu pennarnir: bókmenntahreyfing á 2. fjórðungi 20. aldar. Rvík, MM.
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson er rithöfundur, sagnfræðingur, íslenskufræðingur og rekstrarhagfræðingur svo eitthvað sé talið upp. Hann er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og einnig gegndi hann embætti bankastjóra í Seðlabanka Íslands frá 2003–2006.
Þorvaldur Örn Kristmundsson
Þorvaldur Örn Kristmundsson er margverðlaunaður fréttaljósmyndari og starfaði um árabil á DV og Morgunblaðinu.
Greinin birtist áður í 4. hefti tímarits Máls og menningar árið 1999.
Tilvísanir
[ + ]
1. | ↩ | Kristinn E. Andrésson, „Inngangsorð“. Í Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill. Reykjavík 1965, bls. xi. |
2. | ↩ | www.johannes.is – Æviferill. |
3. | ↩ | Steinn Steinarr, „Jóhannes úr Kötlum fimmtugur“. Steinn Steinarr. Ævi og skoðanir. Reykjavík 1995, bls. 111. |
4. | ↩ | Einar Kristjánsson, „Fallnir stofnar“.. Breiðfirðingur. 41 (1983), bls. 79-89. Sjá bls. 83. |
5. | ↩ | Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands. 1907-1937. Minningarrit. Reykjavík 1938, bls. 359-382. |
6. | ↩ | Sesselja Guðmunda Magnúsdóttir, Ungmennafélagsandinn. Hver er rót þessa afls sem lifað hefur með þjóðinni nú í 90 ár? . Reykjavík 1997, bls. 49. |
7. | ↩ | Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands., bls. 287-289. |
8. | ↩ | Einar Kristjánsson, „Fallnir stofnar“, bls. 83-85. |
9. | ↩ | Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands. bls. 282. |
10. | ↩ | www.johannes.is – Ljósmyndir 1915-1932. |
11. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum, „Alþingishátíðin 1930“. Iðunn. 1928, bls. 200-221. |
12. | ↩ | Einar Olgeirsson, „Hvers er að minnast?“. Réttur 15:2 (1930), bls. 123-138. Sjá bls. 123. |
13. | ↩ | Sama heimild, bls. 128. |
14. | ↩ | Sama heimild, bls. 125. |
15. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum, Hrímhvíta móðir: söguljóð. Reykjavík 1937. |
16. | ↩ | Hannes Sigfússon, Framhaldslíf förumanns: endurminningar Hannesar Sigfússonar skálds. Reykjavík 1985, bls. 194. |
17. | ↩ | Geir Jónasson, Ungmennafélög Íslands, bls. 401-425. Geir notar reyndar ófeiminn hugtök á borð við „auðmagnsfyrirkomulag“ en það skal látið ósagt hér hvort einhverjar ályktanir megi draga af því um pólitískt eðli ungmennafélagshreyfingarinnar; hún var alltént ekki flokkspólitísk í orði. |
18. | ↩ | Jón Sigurðsson, „„- Ég finn ég verð að springa…“ Að boða og iðka af einlægni“. Tímarit Máls og menningar. 60:4 (1999), bls. 25-50. |
19. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill. bls. 232. |
20. | ↩ | Jón Sigurðsson, „„- Ég finn ég verð að springa…““, bls. 50. |
21. | ↩ | Sjá t.d. Skafti Þ. Halldórsson, „Hugsjónaskáld og lofgerðasmiður“. www.johannes.is – Greinar. |
22. | ↩ | Halldór Guðmundsson, „Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga“.Svart á hvítu. 2:2 (1978), bls. 2-9, sjá bls. 9. |
23. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum, Vinaspegill., bls. 138. |
24. | ↩ | Bí bí og blaka, bls. 11 |
25. | ↩ | Bí bí og blaka, bls. 40 |
26. | ↩ | Óljóð, bls. 207 |
27. | ↩ | Ný og nið, bls. 189 |
Á mótum
dulhyggju og
félagshyggju
Kristin stef í Sjödægru Jóhannesar úr Kötlum
Fyrir skömmu birti höfundur þessarar greinar athugun á trúarlegum minnum í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) frá því fyrsta ljóðabók hans Bí bí og blaka kom út (1926) og þar til Sóleyjarkvæði birtist (1952).1Hjalti Hugason 2004.
Niðurstöður athugunarinnar voru að vissulega hafi Jóhannes verið róttækur baráttumaður félagslegs réttlætis í anda sósíalisma og síðar þjóðfrelsis á tímum hernáms og hersetu. Lýsir þetta hugsjónum hans frá miðjum fjórða áratugnum eða kreppunni miklu en þá virðist hann taka gagngerum sinnaskiptum frá kristilegu heimilisuppeldi og hefðbundnum ungmennafélagsanda til róttækrar vinstristefnu. Notaði hann kveðskap sinn markvisst sem baráttutæki í þjóðmálabaráttu. Þrátt fyrir þetta voru trúarleg stef, vísanir og minni ríkur þáttur í kveðskap hans allt tímabilið. Má jafnvel segja að hinn trúarlegi þáttur verði bæði tíðari og ágengari eftir sinnaskiptin en verið hafði fyrir þau. Þau stef sem voru sérstaklega áberandi á ofangreindu skeiði voru Kristsímyndin og sú framtíðarsýn sem Jóhannes tjáði í ljóðum sínum og var sett í samband við sambærilegan þátt í kristninni sem kallaður er „eskatólógía“ (Eschatologie) en með því hugtaki er átt við umræðuna um hina síðustu daga og endalok tímans. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við þá lýsingu kunnugs manns að Jóhannes hafi alla tíð verið trúhneigður og jafnvel „brennandi í trúaranda“ einkum hafi trú hans á skaparann og Krist lifað af allar efasemdir. Þó var sú grunsemd látin í ljós fremur af sanngirnisástæðum en að höfundi lægi hún sérstaklega á hjarta að líklega hafi Jóhannes þó litið á sig sem trúlausan mann að kirkjulegum skilningi lengst af skáldferils síns, a.m.k. á síðari hluta þess tímabils sem tekið var til athugunar.
Í þessari ritsmíð er ætlunin að halda áfram þeim guðfræðilega lestri á ljóðum Jóhannesar sem hafinn var í fyrrnefndri könnun. Verður það gert með því að fjalla um ljóðabókina Sjödægru sem kom út 1955.2Á það skal minnt að Sjödægra er ákaflega blandað og misaldra rit. Mörg ljóðanna höfðu birst áður í Tímariti Máls og menningar og öðrum tímaritum allt frá árinu 1945 og eru því eldri en mörg ljóðanna sem fjallað var um í fyrri ritgerð minni. Sjá Jóhannes úr Kötlum 1976: 213-214. Hér verða því engar ályktanir dregnar um þróun hugmynda en vakin athygli á að umfjöllunarefni greinanna skarast í tíma. Greinarnar gefa því fremur svipmyndir af ferli Jóhannesar en heildstæða sýn á höfundarverk hans. Eins og áður verður leitast við að greina trúarleg stef eða vísanir í ljóðunum án þess að loka með öllu augum fyrir öðrum þáttum þeirra enda verður að skilja ljóð heildstæðum skilningi þar sem eitt sjónarhorn kallast á við annað.
Galdurinn í Sjödægru
Við lestur ljóða að ekki sé rætt um túlkun þeirra verður ætíð að gæta þess að í ljóði myndar form og inntak eina samstæða heild sem ekki verður í sundur slitin. Hefur jafnvel verið á það bent að ekki sé mögulegt að endursegja ljóðrænan („lýriskan“) texta þar sem form hans skipti jafnmiklu máli og inntakið eða hinn rauði þráður sem endursögnin leitast við að rekja enda skorti ljóðrænan texta oft slíkan rauðan þráð. Þá sé ómögulegt að skipta út orðum í slíkum texta vegna þess að þá sé ekki lengur um hinn endursagða texta að ræða heldur afbökun hans. Eigi þetta við um ljóðrænan texta almennt sem vissulega getur verið í lausu máli á staðhæfingin áreiðanlega enn frekar við um ljóð sem eru bundnari að formi en ljóðrænn lausamálstexti.
Þessi varnagli á að sumu leyti ekki við mörg ljóðanna sem fjallað var um í fyrrnefndri athugun. Þau voru mörg hver boðunarljóð þar sem skáldinu var svo mikið niðri fyrir að inntak eða boðskapur ljóðanna mótaði form þeirra sem oft verður að líta á líkt og tæki til að koma boðskapnum til skila svo eftir verði tekið. Varnaglinn er hins vegar í fullu gildi þegar Sjödægra á í hlut. Þar kveður við allt annan tón. Mörg kvæða hennar höfðu upphaflega verið birt áratuginn áður en bókin kom út og þá undir heiti Anonymusar en það var höfundarnafn sem Jóhannes tók upp til að skapa sér frjálsari hendur við formtilraunir. Önnur voru ort um svipað leyti þótt þau birtust fyrst í bókinni. Sjödægra gefur því innsýn í þær formtilraunir sem Jóhannes ástundaði á fimmta og sjötta áratugi 20. aldar. Það er því ekki að undra að formið skipti meira máli við lestur, skynjun og skilning á ljóðunum sem þar eru birt en í eldri ljóðabókum skáldsins. Einmitt á þessu skeiði hlýtur Jóhannes að hafa verið sérstaklega upptekinn af forminu og það því orðið mikilvægara en áður. Má ef til vill segja að í Sjödægru gjaldi Jóhannes ljóðlistinni það sem henni bar en ýmsum þótti hann hafa vanrækt á því skeiði er hann gekk lengst í að ástunda þjóðfélagslega nytjalist. Víða í Sjödægru má að minnsta kosti líta svo á að Jóhannes ástundi eins konar „áslátt á undirvitundina“ og „skapandi leik“ svo vísað sé til orða hans sjálfs um eðli og hlutverk skáldskapar. Þetta gerir alla túlkun á ljóðum Jóhannesar í Sjödægru út frá því þrönga sjónarhorni sem hér verður viðhaft æði torvelda.
Er inntaksgreining ljóða réttlætanleg?
Deildar meiningar eru um gildi og aðferðir ljóðatúlkunar. Telja sumir að ljóð eigi einvörðungu að skynja og að lesandinn fái mest út úr lestri ljóðs með því að skilja það út frá eigin tilfinningum og öðrum persónubundnum forsendum. Verst þykir túlkunin aftur á móti þegar hún beinist einvörðungu að leit að ákveðnum fyrirfram skilgreindum fyrirbærum í ljóðum og túlkandi telur sig hafa skilið ljóðið til fulls þegar þessi fyrirbæri hafa verið einangruð, flokkuð og e.t.v. skeytt saman í heildarmynd. það að skilja ljóð og annan ljóðrænan texta getur með öðrum orðum ekki verið í því fólgið að grafa fram sérstök einkenni, boðskap eða hugmyndafræðilegan kjarna.
Gagnrýni af þessu tagi kann að eiga við viðfangsefni þessarar greinar. Tvennt skal þó nefnt aðferðinni til varnar. Annað er það að við túlkun ljóða er oft greint á milli þriggja sniða þeirra: Málsniðs, mynd- og/eða táknsniðs og loks efnissniðs. Við þessa þrískiptingu má svo auðvitað bæta formsniðinu. Hér verður áhersla lögð á efnissniðið sem felur í sér það sem ljóðið fjallar um, efni þess (þema), inntak eða boðskap. Það getur verið fullkomlega eðlilegt að fást við þetta sjónarhorn án þess að hinum sé gert jafnhátt undir höfði. Hins vegar verður þá þess að gæta að ljóðið hefur ekki verið túlkað til fulls og er það síðara atriðið í málsvörn minni. Hér er ekki gerð tilraun til túlka Sjödægru eða ljóð hennar niður í kjölinn og sú áhætta þar með tekin að oftúlka einstök atriði. Í raun má spyrja hvenær ljóð hafi verið túlkað til hlítar.
Greining á kveðskap Jóhannesar úr Kötlum út frá efnissniðinu einu hentar ágætlega meðan hann ástundaði félagspólitískan nytjakveðskap en á síður við ljóðin sem birtust í Sjödægru. Hér skal þó gengið út frá að það sé einnig frjótt að lesa þá bók með efnissniðið í huga. Það getur þó verið nauðsynlegt að beita hinum sniðunum þremur til að ná tökum á inntakinu. Til dæmis er athyglisvert hvernig form og inntak haldast oft í hendur í þeim ljóðum Sjödægru sem vísa til norræns átrúnaðar.
Athugun á ljóðinu Jesús Maríuson með áherslu á málsniðið er t.d. sláandi og setur ljóðið sjálft og allan Krists-atburðinn (líf, starf og persónu Krists) í algerlega nýtt samhengi. Ljóðið hefst á hefðbundinni játningu trúar á Krist þar sem skírskotað er til sálmaversins alkunna „Ó, Jesús, bróðir besti“ sem vísað er til í fleiri ljóðum Jóhannesar. Í tveimur næstu erindum samsamar höfundurinn sig síðan böðlum Krists eins og algengt er í kristinni trúarhefð. Með orðnotkun sinni í lokahendingunni snýr höfundur hefðinni hins vegar á hvolf er hann kveður: „æ vertu ekki að grafa ‘onum gröf mín blinda öld/–hann gengur sífellt aftur“ [leturbr. höf.].3Jóhannes úr Kötlum 1976: 24. Hvað felur það í sér að segja Jesú afturgenginn en ekki upprisinn? Er það afneitun, guðlast eða hótfyndni? Er höfundurinn meðvitað að byggja upp mótsögn milli fyrri og síðari hluta ljóðsins og brjóta þar með broddinn af játningunnni sem fólst í upphafsorðunum? Er hann að rísa gegn játningu kristninnar á hinn upprisna Krist? Eða vakir eitthvað enn annað fyrir skáldinu? Hér verður litið svo á að sú sé raunin eins og nánar verður vikið að síðar. Orðnotkunin er hvernig sem á málið er litið gríðarlega áhrifarík og vekur lesandann til umhugsunar um bæði Krist og ljóðið sjálft. Jóhannes átti hins vegar ekki í erfiðleikum með að yrkja um leyndardóm upprisunnar eins sýnt verður hér á eftir. Hér er því ekki um að kenna að upprisutrú hafi verið framandi í huga skáldsins.
Flokkun ljóðanna í Sjödægru
Í könnun sinni á Sjödægru frá 1971 vakti Eysteinn Þorvaldsson athygli á að bókin í heild sinni væri tilverufræðilegs eðlis þar sem skáldið leitaðist við „… að kanna og skyggna hin dýpri rök tilverunnar og þróunar mannkyns allt frá kviknun lífs í ár alda.“4Eysteinn Þorvaldsson 1971: 33. Eysteinn segir réttilega að Sjödægra sé „… spegilmynd manns og heims, einkum áratuginn 1945-1955.“ Sama heimild: 39. Sjá og sömu heimild: 45, 53. Sjá og Sjá Eysteinn Þorvaldsson 2002: 103, 106. Skal tekið undir þá túlkun. Við þá greiningu á verkinu út frá efnissniði ljóðanna með áherslu á trúarleg og tilverufræðileg þemu sem hér er kynnt vakti þó um helmingur ljóðanna sérstaka athygli. Er þeim hér skipað í fimm flokka. Fyrsti flokkurinn er vissulega á jaðri þess að vera tilverufræðilegur en er tekinn með til að vera trúr þeim (í bókstaflegri merkingu) rauða þræði sem gengið hafði í gegnum kveðskap Jóhannesar sérstaklega frá fjórða áratugnum og kemur einnig fram í Sjödægru. Er þar átt við pólitísk ljóð. Hér eru flokkarnir aðeins settir fram til að skapa yfirsýn yfir efni ljóðanna en þeir eru: (1) Pólitísk ljóð, (2) trúarleg ljóð, (3) ljóð með lauslegum kristnum vísunum, (4) ljóð með trúarlegum stefjum úr öðrum átrúnaði en kristni (t. d. trú á heimssmið, Demiurgus, og ljóð sem vísa í norrænan átrúnað) og loks (5) tilverufræðileg („ontólógísk“) ljóð sem ekki þurfa að fela í sér trúarlega hugsun. þess skal getið að flokkarnir fimm eru ekki gagnkvæmt útilokandi heldur geta einstök ljóð tilheyrt mörgum þeirra.
Af því sem að framan segir um bókina í heild geta t.d. öll ljóðin sem hér er vikið að kallast tilverufræðileg þótt sú leið sé farin að nota orðið sem heiti á undirflokki.
Hér verður lítillega vikið að pólitísku og tilverufræðilegu ljóðunum, fjallað nokkuð ítarlega um trúarlegu ljóðin, drepið á þau með kristnum vísunum en ljóð með tilvísun til annars átrúnaðar en kristni sniðgengin til að halda umfangi greinarinnar í skefjum.
Pólitísk og tilverufræðileg ljóð
Í pólitísku ljóðunum má segja að hrár veruleiki kalda stríðsins og hið viðkvæma fjöregg þjóðarinnar, hið nýstofnaða lýðveldi, séu helstu viðfangsefni höfundar enda eru mörg þeirra ort um miðjan 5. áratug 20. aldar. Hér verður aðeins staldrað við eitt þessara ljóða, Kveðið vestur á Granda. Ljóðið er tímasett „17. júní 1948, kl. 24.“ Ljóðmælandi situr vestur á Granda og virðir fyrir sér umhverfið og „… stúlku sem þorir að/horfa inn í sólina“ og sólin er stærri og rauðari en hann hefur nokkurn tíman séð. Neðan frá Lækjartorgi berst ómur af „lýðræðisdansi“ þjóðarinnar. Lýðveldinu er aftur á móti lýst sem fjögurra ára barni sem grætur úti á (Reykja?)nesi. Þarna leikur hið nýstofnaða lýðveldi því sama hlutverk og Jesúbarnið í 19. kafla Sóleyjarkvæðis, þ.e. hlutverk útburðarins í þjóðsögunni Móðir mín í kví, kví. Boðskapur ljóðsins er að þjóðin sofi á verðinum á viðsjártímum og gæti ekki fjöreggs síns.
Í þeim ljóðum sem hér eru nefnd tilverufræðileg gætir oft spennu milli hreyfingar frá upphafi og til upphafs. Í Börnum Atlantiss er
… allt dáið
allt liðið hjá
og minningin gólar sem útburður í vindinum
Allt um það staðhæfir skáldið aftar í ljóðinu: „Vér erum á leiðinni til upphafs vors: …“5Jóhannes úr Kötlum 1976:104. Sömu tvíátta stefnu er að finna í Homo sapiens þar sem skáldið staðhæfir að tárin og blóðið, allt renni „… til baka þangað sem/frumlindin sprettur upp“.6Jóhannes úr Kötlum 1976: 48. Hér gætir því ákveðinnar ragnarakahugsunar (eitt ljóða bókarinnar heitir einmitt Ragnarök) sem felur í sér að eftir gjöreyðinguna muni að nýju iðjagrænir vellir rísa úr djúpinu. Hugmyndirnar þurfa þó ekki að eiga uppruna sinn í norrænum trúarheimi þótt form og búningur sé oft sótt þangað. Þær geta allt eins byggst á þeirri pólitísku sannfæringu skáldsins að eftir byltinguna sem vissulega er tortímandi afl muni ný framtíð bíða hinna kúguðu eða jafnvel á kristinni trú sem heldur því fram að guðsríkið verði ekki að veruleika án undangenginnar þjáningar. Má þar minna á orð Krists: „Sannlega, sannlega segi eg yður: deyi ekki hveitikornið, sem fellur í jörðina, verður það einsamalt, en deyi það, ber það mikinn ávöxt.“7Jóhannesarguðspjall 12. 24.
Þegar öllu er á botninn hvolft lýsir e.t.v. karþasis-hugmyndin boðskap þessarra ljóða best en í henni felst að maðurinn þurfi á hreinsun (karþasis) að halda til að ná mennsku sinni eða endurheimta sakleysi sitt. Oftar en ekki felst karþasis í þjáningu ef ekki dauða. Karþasishugmyndarinnar gætir mjög í Köldu stríði þar sem skáldið finnur sárt til óhreinleika og glataðs sakleysis samtíðar sinnar og staðhæfir að það sé ekki mannsblóð sem renni um æðar hennar heldur hnígi þar mórautt skólp „… tóbak og kaffi og brennivín“ sem nóg var af í kjölfar stríðsins. Í framhaldinu spyr skáldið:
Þurfum vér þá svipuhögg í andlitið
þarf að brenna land vort
svívirða konur vorar
henda börn vor á byssustingjum
til þess að blóð vort verði rautt og heitt …
— — —
Verður blóð vort þá fyrst rautt og heitt og lifandi
þegar vér liggjum helsærðir í valnum
og það fossar niður í rúst vorrar glötuðu ættjarðar?8Jóhannes úr Kötlum 1976: 58-59. Karþasis-hugsunin virðist líka koma fram í Ragnarökum. Jóhannes úr Kötlum 1976: 36.
Trúarleg ljóð
Þau ljóð sem flokkast beinlínis sem trúarleg þegar rýnt er í efnissnið þeirra eru hið eiginlega viðfangsefni þessarar greinar. Í sambandi við þau verður þó vikið að ljóðum úr öðrum flokkum sem varpað geta frekara ljósi á þau.
Stefin sem fyrir koma í trúarlegum ljóðum Sjödægru eru að sumu leyti ný miðað við tímabilið fram til Sóleyjarkvæðis. Hér eru María mey, Kristur, dauðinn og upprisan í forgrunni. Af þessum stefjum var Kristur mjög fyrirferðarmikill á fyrra tímabilinu en mun síður í Sjödægru. Þegar um Maríu er að ræða væri e.t.v. réttara að segja að það sé móðurímyndin, guðsmóðirin og móðir skáldsins, sem ort sé um og renna þær stundum saman í eina og sömu persónu. Móðurstefið er jafnframt fyrirferðarmest af hinum trúarlega hlöðnu stefjum bókarinnar og verður af þeim sökum fyrst vikið að því.9Móður- og Maríustefin höfðu komið fram áður í kveðskap Jóhannesar, m.a. má benda á tvö mjög ólík ljóð. Í Til mömmu í Bí bí og blaka (1926) hugsar ljóðmælandinn til æsku sinnar og ekki síst þess trúaruppeldis sem það fékk. Þar er þráfaldlega vísað í sálminn Ó, Jesú, bróðir besti. Jóhannes úr Kötlum 1972: 138-189. Í hinu ljóðinu hefur móðurímyndin víðtækari merkingu og nær í senn yfir Maríu guðsmóður og heimsbyltinguna sem leiða mun til friðar og réttlætis. Er hér átt við ljóðið Kom til mín í Sól tér sortna (1945). þar ákallar ljóðmælandinn „móður allra þjóða“ og „móður guðs og manna“ er hann biður að koma til sín „með lausnarann í fangi“. Lokaerindi ljóðsins er mikilvægt.: „Fest þú upp á himin blá/þinn friðarboga/yfir bleikum Kænugarði,/þar sem hjörtun loga./Kom til mín, því ég er allt, sem þjáist.“ Jóhannes úr Kötlum 1974: 63. Í þessu ljóði eins og ýmsum öðrum ljóðum Jóhannesar má greina vísanir í þjóðkvæði og og þulur. Er Sóleyjarkvæði e.t.v eitt besta dæmið um slíkt. Í þessu ljóði biður hann t.d. móður guðs og manna að koma til sín „… að kemba ullu nýja.“ Sama heimild: 61 Tilvísun í þuluna Tunglið, tunglið taktu mig kemur fyrir í fleiri ljóðum Jóhannesar. Kvæðabálkurinn Mannssonurinn er að stofni til frá svipuðum tíma. Þar heitir síðasta ljóðið Móðirin og fjallar um Maríu. Annað síðasta erindi þess er þannig: „Móðirin, upphaf og endir mannanna sona/– allra sem rísa og líka hinna sem falla –/áfram um veg hinna eilífu þjáninga gekk.“ Jóhannes úr Kötlum 1973: 41. Þarna er því ort um Mater dolorosa (sjá síðar). Lokaerindið er einnig athyglisvert í ljósi þess að í Sjödægru ræðir Jóhannes um Maríu guðsmóður: „Hún var ei guðsmóðir, heldur sú fávísa kona,/heilög í anda, sem trúði og vonaði á alla,/en pínu og dauða síns ljúflings að launum fékk.“ Jóhannes úr Kötlum 1973: 41. Sjá og Hjalti Hugason 2004:83. Silja Aðalsteinsdótir (2004:236) hefur bent á að María hafi verið vinsælt viðfangsefni skálda um 1940. það er ugglaust rétt en skýrir þó ekki Maríu-skáldskap Jóhannesar úr Kötlum nema að litlu leyti og alls ekki í ljóði eins og t.d. Mater dolorosa.
María – Móðirin
Í Nóttleysu kveður skáldið um land sitt, fagurey, og lýsir ljóðið landssýn, því andartaki er landið rís úr sæ, og að líkindum úr suðri.10Eysteinn Þorvaldsson 1971: 43. Í upphafserindinu er landinu líkt við Maríu guðsmóður og liggur Maríustefið hér frekar í myndsniði ljóðsins en efnissniði þess:
Hrein eins og jómfrúin móðir guðs
þenur sín hvelfdu brjóst
úr silfurkeri marar
upp í jónsmessunnar himinlind
mín nakta ey.11Jóhannes úr Kötlum 1976: 50.
Það er raunsætt að kalla Ísland hina nöktu eyju. Nekt „fagureyjar“ tengist þó ekki kulda og klæða- eða gróðurleysi enda ríkir náttleysa Jónsmessunnar. Nektin er þvert á móti „sensúell“ en sú kennd kemur oft fram í ljóðum Jóhannesar um Maríu mey. Eitt skýrasta dæmið er að líkindum ljóðið um boðun Maríu í kvæðabálkinum Mannssyninum.12Jóhannes úr Kötlum 1973: 11. Þessi „sensúalismi“ verður þó hvergi það sterkur að hann snúist yfir í andhverfu sína sem er girnd og varpar því ekki skugga á hreinleika jómfrúarinnar.
Þá er athyglisvert að hér kallar skáldið ekki jómfrúna móður Krists eða Jesú (líkt og fram kemur í Jesús Maríuson) heldur nefnir hana guðsmóðurina. Þetta er auðvitað algengt í íslensku máli og byggir á hefð frá fyrstu öldum kristni sem fléttaðist mjög inn í kristsfræðideilur fyrri alda. Vegna þessarar hefðar er ekki mögulegt að lesa neina ákveðna játningu á guðdómi Krists inn í ljóðið en hjá Jóhannesi fær Kristur oftast á sig næsta mennska mynd. Annars kemur sterk náttúrudulhyggja fram í ljóðinu þar sem ljóðmælandinn segir hjarta sitt lítinn fugl sem tístir af gleði, sál sín milda hafrænu og auga sitt þá skuggjá er speglar hamingju landsins. Skáldið samsamar sig þannig landinu og náttúru þess, verður eitt með því.13Sama náttúrudulhyggja kemur fram í Augnabliksmynd. Jóhannes úr Kötlum 1976: 89. Guðsmóðir er á gríska frummálinu theotokos sem stundum var þýtt með guðsgetandi í fornu máli íslensku. Benda má á að í ljóðinu nefnir skáldið bæði hjarta sitt og auga en hvort tveggja voru mikilvæg tákn í Sjödægru. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 41.
Í Góðviðri er aftur á móti enginn vafi á að Maríu-stefið er hluti af efnissniði ljóðsins og gegnir þar lykilhlutverki. Ljóðið hefst á ljóðrænni lýsingu á óttu á sumri þar sem sólin er persónugervingur Maríu meyjar.14Eysteinn Þorvaldsson 1971: 35. Annað erindið einkennist af sama „sensúalisma“ og að framan greinir. Nú er María þó ekki í hlutverki móðurinnar heldur himnadrottingarinnar (Regina coeli):
Og María – sú jómfrú eilífleg –
úr hvílu rís
jafn hrein sem blómið eftir sæla nótt
í faðmi guðs.15Jóhannes úr Kötlum 1976: 33.
Þegar Maríu verður litið út um glugga himinsins til jarðarinnar hverfist ljóðið úr ljúfsárri morgunlýsingu í miskunnarlausan aldarpegil. Hún sér valköst rísa úr hafi blóðs og þekkir þar þjóð sína sem myrt hefur verið af böðlum helfararinnar. Við þessa sjón varpar sjálf María fram spurningunni um þversögnina sem í því felst að hið illa fær leikið lausum hala í veröld sem er bæði sköpuð og endurleyst af Guði að kristnum skilningi. Þessi þversögn er ein sársaukafyllsta gáta kristinnar trúar og kallast á máli guðfræðinnar Theodizeevandamálið eða guðvörn. Felst það í að réttlæta trú á algóðan, almáttugan Guð frammi fyrir hinu illa í tilverunni:
Og sú er forðum upp við krossinn grét
hún hvíslar lágt:
hví gat minn sonur ekki frelsað þig
ó Ísrael?16Jóhannes úr Kötlum 1976: 34.
Síðan dregur hún fyrir gluggann með maríutásum sem spunnar eru úr „… ullu lambs/sem slátrað var“.17Jóhannes úr Kötlum 1976: 34. Myndlíkingin vísar til Lambs Guðs – Agnus Dei – sem m.a. er ákallað í þeim texta kvöldmáltíðarinnar sem farið er með næst á undan því að brauðinu og víninu (holdi og blóði Krists) er veitt viðtaka. Agnus Dei-stefið tengir einnig gyðingdóm og kristni, páskalambið og Krist. Myndar það sterka andstæðu við þá gjá sem helförin og gyðingahatur yfirleitt hafa staðsett milli þessarra trúarbragða.18Eysteinn Þorvaldsson (1971: 36) bendir á hvernig ádeilubroddur ljóðsins skerpist við það að páfastóll lét fjöldamorðin á Gyðingum óátalin meðan á þeim stóð.
Jafndægri á hausti myndar eins konar andstæðu við Nóttleysu. Þar grætur skáldið komu haustsins með „dauðann í gómunum“ og tjáir harm sinn með tilvísun til orða Krists „… sál mín hrygg allt til dauða“.19Matteusarguðspjall 26. 38. Markúsarguðspjall 14. 34. Í síðari hluta lokaerindisins hverfist ljóðið yfir í Maríubæn:
— — —
hugga börn þín sánkti Máría
hugga börnin þín í jarðarskugganum
þú rósan allra ljósa.20Jóhannes úr Kötlum 1976: 52. Rósin er þekkt tákn Maríu og raunar fleiri kvendýrlinga í kristinni táknhefð („íkonógrafíu“). Dahlby 1977: 66-67.
Langviðamesta „móður-ljóðið“ í Sjödægru er Mater dolorosa (hin þjáða móðir) sem höfundurinn orti í minningu móður sinnar, Halldóru Guðbrandsdóttur en hún lést 23. jan. 1945 í hárri elli.21Jóhannes úr Kötlum 1976: 64, 71-72. Hér er litið á þetta ljóð sem vitnisburð um sterkt kristið hugarþel. Eysteinn Þorvaldsson (1971:28) telur það vitna um „tryggð … og trúarkennd gagnvart tilfinningahelgidómi“. Varðandi tengsl skáldsins við móður sína í beinni og yfirfærðri merkingu sjá einnig ljóðið Tvö augu. Jóhannes úr Kötlum 1976: 37. Ljóðið skiptist í 12 mislanga kafla og myndar sérstaka bók en ljóðum Sjödægru er alls skipt í sjö bækur og kann það að ráða nafni hennar.22Eysteinn Þorvaldsson 1971: 39. Mater dolorosa myndar fjórðu bókina og þar með miðhluta og þungamiðju Sjödægru. þegar í heiti ljóðsins og í lokahluta þess samsamar skáldið móður sína við guðsmóðurina.
Við fregnina um móðurmissinn setur skáldið hljótt: „Mín harpa/bærðist ekki það kvöld“ en skáldið grét ekki.23Jóhannes úr Kötlum 1976: 64-65. Í þögn syrgði það móður sína. Æskuminningar vöknuðu til lífs og skáldið hugleiddi stöðu sjálfs sín í heiminum á þessum tímamótum. Frá sjónarhorni djúpsálarfræðinnar kann skáldið að hafa gengið í gegnum ferli sem nefnt er regression. Það fyrirbæri má skilgreina sem afturhvarf til hins bernska æviskeiðs í leit að glötuðum eða ómeðvituðum kjarna eigin sjálfs eða verundar. Oft leiðir ferli af þessu tagi til truflunar á félagslegri færi eintaklings eða veldur honum sálrænum erfiðleikum. Í ljóðinu tekst skáldinu aftur á móti að gefa fyrri æviskeiðum endurnýjaða og dýpkaða merkingu og sættast við orðinn hlut.24Skårderud 2004: 152. Að hyggju djúpsálarfræðingsins C. G. Jungs fól regression í sér afturhvarf einstaklings til róta tilveru sinnar, frumbernskunnar og þeirra kennda sem henni voru samfara, sem og aðlögun að innri veruleika sínum. Slíkt afturhvarf getur að hans hyggju bæði verið neikvætt, þ.e. leitt til félagslegrar hömlunar og sálfræðilegra truflana, og jákvætt, þ.e. haft það í för með sér að einstaklingurinn uppgötvi áður ómeðvitaða afstöðu eða tilfinningar og gefi þeim nýtt gildi. Hark 1999: 197-200. Úr þeim hugrenningum spinnur skáldið síðan ljóðabálk sem víða er skotinn tilvitnunum í helgitexta. Má þar nefna þekktasta útfararsálm þjóðarinnar, sálminn Um dauðans óvissan tíma eða Allt eins og blómstrið eina eins og hann heitir nú á dögum í hugum flestra, Faðir vorið og ritninguna.25Minna vinnubrögðin hér örlítið á Sóleyjarkvæði þótt vart kveði eins rammt að tilvitnunum hér og í því.
Í ljóðinu telur Jóhannes sig hafa þegið af móður sinni frumþætti hugarheims síns og sjálfsmyndar: Trúna, tunguna, sársaukann yfir þeirri fórn sem lífið krefst, fegurðarskynið og loks hugsjónir friðar og frelsis.26Trúin: sjá myndlíkinguna um að móðirin hafi borið hann upp himnastigann. Jóhannes úr Kötlum 1976: 63. Tungan: Sjá ummæli um að tunga móðurinnar hafi verið uppspretta ljóða hans. Sama heimild: 63. Sársaukinn yfir fórninni: Sjá sömu heimild: 67. Fegurðarskynið: Sjá sömu heimild 69-70. það er einkar mikilvægt að Jóhannes skuli líta svo á að hann hafi þegið bæði trú sína og list frá móður sinni þar sem hann var þeirra skoðunar að þetta tvennt gerði manninn að því sem hann er og aðgreindi hann frá öðrum tegundum. Hjalti Hugason 2004: 85. Af móður sinni telur hann sig því hafa þegið mennsku sína. Í 10. kafla bálksins segir skáldið þannig að þegar ungir „bræður“ hans voru allt í einu „… frosin lík/í brunnu grasi“ vegna „stríðsins vitfirrt[a] loga“ hafi móðirin hvatt hann til að stilla hörpu sína upp á nýtt:27Jóhannes úr Kötlum 1976: 70. Sjá og sömu heimild: 72.
— — —
og af rauðum streng
hneig tónaregnið táramjúkt
yfir fjúkandi ösku
hinna föllnu.
Og við snertingu tónanna
flugu hvítar dúfur upp úr valnum:
ást þín á hörpu minni hafði sigrað.28Jóhannes úr Kötlum 1976: 71.
Þetta kemur á óvart þar sem líta má svo á að í róttækum hugsjónum Jóhannesar felist fráhvarf frá þeim gildum sem honum höfðu verið innrætt í bernsku þar á meðal hefðbundinni kristinni trú.29Sjá Hjalti Hugason 2004: 78. Jóhannes virðist ekki hafa verið þeirrar skoðunar sjálfur heldur litið á viðhorfsbreytinguna sem kemur fram í ljóðum hans á styrjaldarárunum sem eðlilegt framhald af æskumótun sinni og áhrif frá móðurinni. Hann virðist ekki meðvitaður um nein róttæk sinnaskipti og kemur þessi sjálfstjáning hans vel saman við þá lýsingu á trúarþeli hans sem vikið var að hér að framan.30Oft er gert of lítið úr hinum trúarlega þætti í kveðskap Jóhannesar og litið á hann sem e.k. uppgerð við hátíðleg tækifæri og sem aðskotahlut í höfundarverkinu. Sjá t. d. Eysteinn Þorvaldsson 2002: 100, 105. Hér skal því aftur á móti haldið fram að um sé að ræða miðlægan þátt í kveðskap Jóhannesar. Þótt Jóhannes virðist ekki hafa litið svo á að hann hafi gengið í gegnum pólitísk sinnaskipti eða gagngera breytingu á lífsviðhorfum kannast hann við djúpstæða ósátt við sjálfan sig og ljóðagerð sína, sem og endurnýjunarþörf er sagt hafi til sín um miðjan 5. áratuginn eða mun síðar en hin meintu sinnaskipti hans hefðu átt sér stað. Sjá Eysteinn Þorvaldsson 1971: 29. Sú ófullnægja kann þó að hafa hrundið af stað víðtækari endurskoðun á lífsviðhorfum þótt Jóhannes hafi e.t.v. sjálfur gengið þess dulinn. Skilja má þessa altæku þakkarskuld sem skáldið telur sig vera í við móður sína út frá kenningum djúpsálarfræðingsins Erik H. Erikson en hann leit svo á að gagnkvæmt samband móður og barns á fyrsta æviskeiði þess væri grundvallandi fyrir tilfinningalíf barnsins og lífsafstöðu síðar á ævinni og legði meðal annars grunn að sjálfsöryggi þess, tengslum þess við umhverfið og guðsmynd þess. Yfir þetta notar hann hugtakið basic trust. Erikson ræðir í framhaldi af því um „heilaga nærveru“ móðurinnar í lífi barnsins sem hann telur leggja grunn að því að barnið sigrist á tilfinningu sinni fyrir að vera yfirgefið og einmana og öðlist um leið vitund fyrir að persónuleg aðgreining þess (frá móðurinni) og sjálfstæð mótun sé viðurkennd. Við þessa reynslu styrkist sjálfsvitund barnsins og samkennd þess með öðrum frammi fyrir hinu altæka „Ég er“ eða hinu fullkomna sjálfi, þ.e. Guði.31Erikson telur „hina heilögu nærveru“ leggja grunn að sérstökum tilfinningalegum tengslum í samspili móður og barns sem varðveitist í huga einstaklingsins eins og numinös (heilagur) þáttur og skapar frumlægasta grunn að upplifun og iðkun hins heilaga. Síðar á ævinni getur þessi reynsla orðið til að styrkja vitund einstaklingsins fyrir eigin sjálfi og samstöðu hans með öðrum t.d. í trúariðkun. Bergstrand 2004: 41- 49. Kann hér að vera komin skýring á hinni ríku samstöðu Jóhannesar með öllu lífi og sérstaklega því lífi sem þjáist. Þessi túlkun kann að renna stoðum undir það að í ljóðinu sé ekki um hina algengu upphafningu syrgjanda á hinum látna að ræða sem oft er gerður heilagur og algóður í sorginni. Ljóðið verður þá vísbending um að tilfinningalegt samband skáldsins við móður sína hafi verið náið og grunnur þess hafi verið lagður á fyrsta æviskeiði þess, að Jóhannes hafi með öðrum orðum búið að því að hafa skynjað hina „heilögu nærveru“ móðurinnar.
Hér og þar í ljóðinu örlar á þeirri mynd sem Jóhannes gerði sér af móður sinni: Hún var sú sól sem hann speglaði sig í, hún elskaði lífið og fegurð þess og innrætti honum þá elsku. Stök erindi úr 5., 6. og 9. kafla endurspegla þetta nánar:
Ásjóna þín ljómaði
var sól dagsins á þeirri stund
austan blakaði laufið á þinn linda.
— — —
Og í þínu hyldjúpa sjáaldri
blikaði á gullinn trega
þeirrar ástar
sem sér í gegnum hóla.
— — —
Þú bentir mér á dýrðina
og ég sá hana endurspeglast
í svip þínum
– loksins varð ég stór.32Jóhannes úr Kötlum 1976: 66, 67, 70.
Fyrsta erindið sem hér er tilfært kann að vísa til einnar fyrstu bernskuminningar Jóhannesar er þau mæðgin sátu úti í sumargrænni náttúrunni. Í kvæðabálkinum eru tveir kaflar sem hafa að geyma yngri æskuminningar Jóhannesar og eru þær af afar ólíkum toga. Í 7. kafla rifjar hann upp kirkjuferð á jólum.33Jólahátíðin virðist hafa verið Jóhannesi afar hugstæð samanber þau mörgu jólaljóð og –kvæði sem hann orti. Kann það að sýna að bernskan og bernskuminningar hafi verið ríkur þáttur í hugarheimi hans en minningar um góð æskujól eru oft meðal helgustu minninga einstaklingsins. Á sama hátt geta dapurlegar minningar um jólahátíðina haft ævilöng neikvæð áhrif. Sjá t. d. Guðrún Friðgeirsdóttir 2002: 105-107. Við kirkjudyrnar hvíslaði móðirin „hér er guð“, barnið hreifst af „undrandi kertaljósunum“, skynjaði bænir hinna auðmjúku sem flögruðu um hvelfinguna, og undraðist manninn með gullkrossinn á bakinu sem söng „drottinn sé með yður“ en „skimaði titrandi“ um allt hið „mikla hús“ í leit að Drottni.34Jóhannes úr Kötlum 1976: 67-68. Þarna var um Hjarðarholtskirkju í Dölum að ræða sem ekki hefur verið stórhýsi á okkar mælikvarða.
Minningin í næsta kafla á eftir er öllu geigvænlegri og tengist ekki jólum heldur páskum þótt ekki komi það fram í þessu ljóði. Hér er um að ræða upprifjun á skelfilegri („trámatískri“) bernskureynslu er hoggið hefur nærri grundvallaröryggi Jóhannesar sem barns og fólst í því að faðir hans, Jónas Jóhannesson (1866-1954), lenti í miklum hrakningum í kaupstaðarferð fyrir hátíðina eins og lýst er í ljóðinu Karl faðir minn (Ég læt sem ég sofi 1932).35Segja má að þetta langa ljóð sé nokkurs konar hliðstæður þakkaróður til föður skáldsins og Mater dolorosa er lofgjörðaróður til móður þess. Í Tímanum 18/1 1940 leit Jónas Jónsson frá Hriflu á þetta ljóð sem háðkvæði. Sjá Eysteinn Þorvaldsson 2002: 96. það er með öllu rangt þar sem í raun er um mikla lofgjörð að ræða bæði um föður Jóhannesar og aðra almúgamenn sem háðu jafnharða lífsbaráttu og hann. Stíll kvæðisins er þó á köflum ákaflega léttur sem myndar andhverfu við þá angist sem það endurspeglar á köflum. Eysteinn Þorvaldsson (2002: 96) telur þetta „tilfinningaríka raunsæislýsingu á lífsbaráttu í örbirgð“ og má fullkomlega taka undir þau orð. Í kaflanum um hrakninga Jónasar föður skáldsins gætir mjög trúarlegra vísana og má þar nefna lokaerindi IV. kafla: „Sá páskadagur var prísund ein,/– ég sá polla af Jesú blóði./ Og þegar hann loksins var liðinn hjá,/ég lofaði guð í hljóði.“ Jóhannes úr Kötlum 1972: 17. Í þessum kafla Mater dolorosa fléttast bænin Faðir vor mjög inn í ljóðið og í málsniði þess fá einmitt orðin „faðir vor“ tvíþætta merkingu þar sem þau ná í senn yfir hinn jarðneska og himneska föður Jóhannesar líkt og María guðsmóðir og Halldóra móðir Jóhannesar renna saman í sumum öðrum hlutum þess.36Jóhannes úr Kötlum 1976: 69. Í 12. og lokakafla ljóðsins fylgir skáldið móður sinni inn í eilífðina og er þar komið að kraftmiklu upprisustefi sem fjallað verður nánar um hér á eftir.
Jesús Maríuson
Þetta er eina kvæðið í bókinni sem fjallar alfarið um Krist en er jafnframt eitt þekktasta ljóð Jóhannesar með trúarlegu ívafi.37Kristur er aftur á móti fyrirferðarmikill í öðrum ljóðabókum Jóhannesar. Hjalti Hugason 2004 Ljóðið einkennist framan af mikilli nánd og dulhyggju en þau fyrirbæri verða ekki sundur skilin þótt þau þurfi auðvitað ekki að birtast bæði í senn eins og hér er raun á. Jesús er besti bróðir ljóðmælandans, býr í hjarta hans og yfirgefur hann aldrei þótt aðrir geri það. Hann er líka eina hlíf ljóðmælanda í hörðum heimi. Í þessu felst nándin og kemur hún fram í efnissniði ljóðsins eða myndar sjálft þema þess. Dulhyggjan kemur aftur á móti fremur fram í mynd- og málsniðinu: Rökkrinu rauða, reykelsinu og austurstjörnunni á sálarglugganum en hún minnir á stjörnuna sem vitringarnir fylgdu að jötu Krists. Nálægð Jesú er því raunveruleg en óræð, huglæg og tilfinningalæg eins og í allri dulhyggju.
Í þriðja erindi samsamar ljóðmælandinn sig Júdasi Ískaríót og böðlum Jesú sem hæddu hann, húðstrýktu og krossfestu. Myndar þetta erindi hvörf í ljóðinu en í tveimur síðustu erindunum glímir skáldið síðan við þverstæðu þess að hinn krossfesti, deyddi Jesús skuli vera svo nálægur þrátt fyrir dauða sinn. Þar gefur skáldið ekkert trúfræðilegt svar sem vísa mundi til upprisunnar heldur bregður fyrir sig dulúð fremur en dulhyggju:38Með dulhyggju er hér átt við trúarlegt fyrirbæri (mystik) sem birtist í því að hið innhverfa og tilfinningalega tekur yfirhönd í trúarlífinu. Með dulúð er aftur á móti vísað til hugmynda um eða tilfinningar fyrir hinu yfirnáttúrulega almennt. Dulúðin þarf því ekki að vera trúarleg heldur getur hún tengist óljósum hugmyndum um einhvern veruleika handan hins efnislega og stundum því sem kallað er hjátrú. „… því hvað oft sem hann deyr þá er eftir eitthvert líf/sem enginn getur drepið“.39Jóhannes úr Kötlum 1976: 23. Þessi orð sýna að þrátt fyrir heiti ljóðsins og þá staðreynd að Kristsheitið er algerlega sniðgengið í ljóðinu er skáldið í raun ekki að yrkja um hinn sögulega Jesú Maríuson heldur „alheimslegan“ eða „kosmískan“ Krist sem stendur utan tíma og rúms, tilheyrir eilífðinni og deyr aftur og aftur, e.t.v. með öllum sem líða og þjást þótt það sé ekki nefnt sérstaklega. Í lokaerindinu bregður skáldið svo á allt annað ráð og talar um Jesú afturgenginn eins og rætt var hér að framan.
Erindið hefst hins vegar á því að ljúka upp tilvistarlegri („exístensískri“) vídd sem bregður í senn upp afdrifaríku andartaki sem skáldið telur að bíði sérhvers manns og varpar ljósi á eðli þess Jesú sem kveðið er um í ljóðinu: „Og Jesús sonur Maríu mætir oss eitt kvöld/sem mannlegleikans kraftur …“.40Jóhannes úr Kötlum 1976: 23. Skáldið væntir þess með öðrum orðum að nálægð Jesú muni skyndilega verða raunverulegri í lífi sérhvers manns en í fyrri hlutanum þar sem nálægðinni er lýst á andlegum nótum dulhyggjunnar. Þá muni eðli Jesú opinberast sem frumkraftur eða frummynd mennskunnar. Hér mætum við e.t.v. dulbúnu endurkomustefi kristninnar sem boðar að við endi aldanna muni Kristur birtast sem almáttkur dómari og „dómstól í skýjum setj[a]“ sinn.41Passíusálmar 27. 11. Er hér um kjarna kristinnar „eskatólógíu“ í hefðbundinni, goðsagnalegri (mytólógískri) mynd að ræða sem kemur hvað best fram í Opinberunarbók Jóhannesar. Í ljóðinu er sjónarhornið þó allt tímanlegra og veraldlegra þar sem ekki er gefið í skyn að um endalok þessa heims verði að ræða heldur miklu fremur að sannleikurinn um mennskuna og skyldur mannsins í heiminum muni renna upp fyrir einstaklingnum en það samræmist útleggingum margra nútímaguðfræðinga á „eskatólógíunni“. Væri því e.t.v ekki úr vegi að skoða ljóðið sem „Opinberunarbók Jóhannesar úr Kötlum“! En hver er sá Jesús sem er besti bróðirinn en mun jafnframt eitt sinn mæta okkur sem frummynd mennskunnar? Í þessu lokaerindi kemur Jesús fyrst og fremst fram sem maður, manneðli hans er í forgrunni, hann er í raun sjálft manneðlið. Hér er holdtekning Guðs í Jesú Kristi því ekki inni í myndinni sem kemur heim og saman við það að Jesús er aldrei nefndur Kristur í ljóðinu. Það liggur líka milli hluta hvort sú María sem hann er kenndur við er María guðsmóðir sem Jóhannesi er svo hugleikin í Sjödægru eða bara María kærastan hans Jósefs.
Jóhannes úr Kötlum var mikill húmanisti í þeirri merkingu að hann trúði á manninn og möguleika hans til góðs. Þessa trú játaði hann í fjölda lofsöngva sem hann kvað um ýmis mikilmenni sögunnar en þó einnig óþekkta alþýðumenn. Þótti hann stundum fara offari í fyrrnefndu ljóðunum ekki síst þegar goðin féllu af stalli sínum. þekktasta dæmið í þessu lofsöngvasafni er lofgjörðin um Jósef Stalín.42Jóhannes úr Kötlum 1974: 52-59 Einn slíkan lofsöng er einmitt að finna í Sjödægru, ljóðið Kveðja til Kína.
Jóhannes kvað sér það hins vegar nauðsyn að tengja lofgjörð sína um mennskuna við ákveðna einstaklinga þótt slíkt hefði hættu í för með sér. Í fyrri athugun minni á ljóðum Jóhannesar komst ég að þeirri niðurstöðu að í Kristi – í þessu tilviki Jesú Maríusyni – hafi Jóhannes fundið hinn fullkomna persónugerving mennskunnar eða frummynd (erkitypu) mannsins og/eða sjálfsins samkvæmt kenningum djúpsálarfræðingsins C. G. Jungs.43Hjalti Hugason 2004: 85-86. Hér skal sú túlkun áréttuð. því má líta á ljóðið Jesú Maríuson sem einn af mörgum lofsöngvum Jóhannesar um mennskuna en það skipar þá sérstöðu í þeim flokki vegna hinna trúarlegu tenginga sinna. Kann þessi túlkun að skýra hvers vegna Jóhannes kaus að tala um það líf sem enginn getur drepið og afturgöngu Jesú fremur en dauða hans og upprisu sem hefði fjarlægt hann mennskunni og staðsett hann á hinu guðlega plani.
Dauði og upprisa
Víða í Sjödægru kveður Jóhannes um dauðann og upprisuna og eru stefin þá oftar en ekki samofin. Þessu máli gegnir t.d. um kvæðabálkinn Mater dolorosa. Áður en lengra er haldið skal það tekið fram að upprisuhugtakið er hér ekki aðeins notað um atburð heldur líka ákveðið ástand, þ.e. þegar hinn látni er hugsaður inn í guðlega vídd eftir dauða sinn. það gerir Jóhannes einmitt í lokakafla Mater dolorosa þegar hann glímir við spurninguna hvar hin látna móðir sé. Er við hæfi að birta kaflann í heild:
Eigi skal framar spyrja
eigi skal framar leita:
steininum hefur verið velt frá
gröfin er tóm.
Og nú veit ég hvar:
í ríkinu sem varð til
er hinn krossfesti gaf upp andann
þar situr þú og spinnur
bláa geisla í sokk.44Sbr. Tunglið, tunglið taktu mig.
Og með hvítt segl við veðri uppi
mun ég stefna til þín einn dag
handan yfir djúp pínu og dauða:
þá skal harpan verða slegin
þá skulu stjörnunar dansa
og þá skal faðir vor dansa
við þig …45Jóhannes úr Kötlum 1976: 72-73.
Kaflinn hefst með tilvísun til upprisufrásagna guðspjallanna um hina tómu gröf (sbr Markúsarguðspjall 16. 3-4.). Því er fullkomlega réttlætanlegt að skoða þessa lýsingu og aðrar hliðstæðar sem upprisustef. Þá kemur sterk kristin játning fram í þeim orðum skáldsins að hann viti móður sína í guðsríkinu, þ.e. því ríki „sem varð til/er hinn krossfesti gaf upp andann.“ Þessi játning er svo eindregin að hún hleypir í uppnám þeirri staðhæfingu sem sett var fram í upphafi þessarar greinar að Jóhannes hafi ekki verið kristinn í kirkjulegri merkingu. Þar var þó aðeins verið að reyna að lesa í sjálfsmynd hans en ekki setja fram neinn dóm um trú hans. Í lokin er brugðið á leik bæði í orði og hugsun þegar fjallað er um tilveru móðurinnar handan grafar og dauða. Það er gert með mynd af dansiballi þar sem móðirin laus við þjáningu stígur dans við „föður vorn“. Þarna hefur móðir skáldsins samsamast Maríu ekki aðeins í þjáningu hennar eins og kemur fram í heiti ljóðsins og fyrri hluta þess heldur einnig í sælu hennar sem himnadrottningar.46Hér getur ekki verið um orðaleik eða tvíræðni að ræða þar sem vísað væri til endurfunda foreldranna þar sem faðir Jóhannesar var enn á lífi.
Stefin dauði og upprisa fléttast einnig saman í ljóðinu Maður verður úti. Þar kveður Jóhannes um örlög ótölulegs fjölda landa sinna gegnum tíðina en hrakningar á heiðarvegum auk sjávardauða hafa krafist flestra fórna af alþýðu þessa lands. Það kemur enda fram í ljóðinu að það er alþýðumaður í sauðaleit sem í hlut á.47Sjá: „… þræði ég feril/feðra minna/allrar skepnu/auðmjúkur þjónn“. Jóhannes úr Kötlum 1976: 19. Ljóðið kallast þannig á við fjölda þjóðsagna, þjóðlegra frásöguþátta og mannlífslýsinga. þá má benda á að t.d. Aðventa Gunnars Gunnarssonar (1. útg. á ísl. 1939) fjallar um sama stef þótt sögupersónan þar lifi af þrátt fyrir mikla hrakninga. Þá heggur Jóhannes nærri eigin reynsluheimi þegar haft er í huga hversu djúp áhrif lífsháski föður hans hafði á hann og rætt hefur verið um hér að framan. Hin trúarlega vídd kemur fram í myndsniði ljóðsins í fimmta erindi þess þar sem húminu er líkt við það að „skyggi af englavængjum“ hátt yfir höfði öngumannsins.48Jóhannes úr Kötlum 1976: 19. Sambærilegt dæmi er að finna í lok 7. erindis þar sem fönnin sem smalinn fellur í er nefnd „helgur dúnn“.
Í lokaerindinu má hins vegar segja að trúarstefið færist úr myndsniðinu yfir í efnissniðið og fái þar dýpra inntak:
Hvíli ég örmagna
í eilífð hvítri:
fönnugir englar
flögra nær
horfa í augu mér
hvísla í eyru mér
– sígur í brjóst mér
svefn vær.49Jóhannes úr Kötlum 1976: 20.
Dauðinn er því ekki ógnvænlegur eða örvæntingarþrunginn heldur sem vær svefn undir vökulum augum fannbarinna engla.
Loks er í Sjödægru eitt ljóð um upprisuna sjálfa sem atburð og ber einfaldlega heitið Upprisa. Þar er ekki átt við hinn einstaka atburð er Kristur reis frá dauðum heldur þá upprisu sem bíður allra manna. Í ljóðinu falla öll þrjú sniðin sem hér hafa verið notuð sem greiningartæki saman þannig að ljóðið ber í sér túlkun sína með sérstökum hætti:
Hinir dánu koma:
í ljósum slæðum
stíga þeir upp úr brúnni moldinni
sem gullin kvika
tindrar í dagmálaskininu
hið eilífa líf
lífið sem þeir létu fyrir oss.50Jóhannes úr Kötlum 1976: 96.
Hér ber aðeins að árétta að Jóhannes leit á allan dauða sem fórnardauða. Þar hafði dauði Krists enga sérstöðu. Helst það í hendur við áherslu hans á Krist sem frummynd mennskunnar og djúpa samkennd hans með öllu lífi í hvaða mynd sem það birtist í ljóðum hans.51Hér má t.d. vísa til þess að í Mater dolorosa er litið á lömbin sem skorin eru í sláturtíð sem fórnarlömb. Jóhannes úr Kötlum 1976: 67. Þá má benda á ýmsa staði þar sem öreigar eða hermenn er falla í baráttu fyrir friði og frelsi eru álitnir deyja n.k. staðgengilsdauða, þ.e. koma fram sem fórnarlömb. Má líta svo á að hér sé um að ræða afleiðingu af hinni ríku félagshyggju og samhyggð hans sem oft verður að samlíðun þegar hann yrkir um lítilmagnann. Hér má þó einnig minna á þá náttúrudulhyggju sem kemur fram í sumum ljóðum Sjödægru og felur í sér þann skilning að hið heilaga búi í gjövallri náttúrunni.
Ljóð með lauslegum kristnum vísunum
Hér er um ósamstæðan flokk ljóða að ræða sem eiga það eitt sammerkt að hafa að geyma kristnar vísanir ýmist í mál- eða myndsniði sínu. Hér verður aðeins brugðið upp nokkrum dæmum til að fylla frekar út í þá mynd sem dregin hefur verið upp af ljóðunum í Sjödægru.
Hann er kominn er eitt þeirra ljóða sem hvað erfiðast er að flokka samkvæmt því kerfi sem hér er viðhaft og sýnir hversu torvelt er að meðhöndla ljóð út frá inntaksgreiningu. Það er pólitískt og í því er að finna kristna vísun. Þá má færa rök fyrir því að það sé trúarlegt og veltur sú röksemdafærsla á því hvernig hið þrungna fyrirbæri „dagur lifendanna“ er túlkað. Þar gætir beinnar vísunar í kristna „eskatólógíu“ en hér er allt eins mikið um félagslega framtíðarsýn að ræða. Í ljóðinu kemur hins vegar fram klár biblíutilvísun í hin þekktu orð Krists: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu“.52Lúkasarguðspjall 9. 60. Í könnun Eysteins Þorvaldssonar á Sjödægru frá 1971 virðist gæta þeirrar missagnar að lokaerindið úr Hann er kominn sé úr Næturróðri. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 51. Þá segir réttilega að Maríuvers sé úr Eilífðar smáblóm (1940). Eysteinn Þorvaldsson 1971: 36. það var þó síðar fellt úr þeirri bók og varð hluti af ljóðabálkinum Mannssonurinn (1966) og er líklega þekktast þaðan.
Eitt ljóðanna með biblíulega tilvísun, Eden, byggist algerlega á mynd syndafallsins og „dramtíserar“ frásögu Biblíunnar til muna. Ljóðið fellur þó best undir þann flokk ljóða sem hér hefur verið nefndur tilverufræðilegur.53Jóhannes úr Kötlum 1976: 105. E.t.v. ber að líta svo á að karþasis-hugsunin komi hér fram þar sem slangan (höggormurinn) varpar „foreldrum hins ókomna“ á bál en í eldinum skírast þeir hlutir sem ekki brenna til ösku.
Í Eitt kvöld á góu rýnir ljóðmælandinn í stjörnuhvelið og hugleiðir lífsgátuna. Talin eru upp ýmis stjörnumerki: Ljónið, örninn, svanurinn, fjósakonurnar og meyjan sem nefnd er jómfrú í ljóðinu.
Fær sú nafnbreyting aukið vægi við það að inn í upptalninguna er skotið verum sem ekki eru stjörnumerki og eru það lambið og „hinir tólf“. Tilkoma þeirra í hópinn breyta tákngildi þeirra stjörnumerkja sem þau standa næst. Síðari hluti annars erindis hljóðar svo: „… á gullnum hæðum birtast lamb og ljón/og leika sér þar dátt að tíma og rúmi“.54Jóhannes úr Kötlum 1976: 13.
Virðist liggja í augum uppi að hér gætir óbeinnar vísunar í draumsýn spámannsins Jesaja er hans segir:
Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardursdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og
smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum; og ljónið mun hey eta sem naut.55Jesaja 11. 6-7.
Þarna brýst því hin vonarríka framtíðasýn Jóhannesar enn einu sinni fram.56Hjalti Hugson 2004: 86 og áfram. Þá er næstsíðasta erindið á þessa leið:
Og hljóðan vörð um upphaf vort og endi
á yztu mörkum standa hinir tólf
en jómfrú svífur sæl um himingólf
og sópar það með norðurljóasvendi.57Jóhannes úr Kötlum 1976: 13.
Standist ofangreind greining liggur nærri að ætla að með hinum tólf sé átt við postulana. Það skýrir nafnbreytinguna á meyjarmerkinu sem breytir því í Maríu-tákn sem samræmist vel því hve hugleikin hún er Jóhannesi í bókinni. Hér minnir orðalag Jóhannnesar annars mjög á alþekka jólavísu og sýnir þá gamansemi sem hann gaf oft lausan taum í kveðskap sínum.
Homo sapiens er eitt hinna tilverufræðilegu ljóða Sjödægru þar sem karþasis-hugmyndin kemur skýrt fram.58Sjá t.d. „… í deiglu skal brenndur úr oss/sorinn …“ Jóhannes úr Kötlum 1976: 48. Þar er vísað í síðari sköpunarsögu I. Mósebókar þar sem ljóðmælandinn kveðst vera „tvífætt leirstytta með anda höfundar síns í nösunum“.59Bent skal á að Mósebækur eru safnrit sem steypt er saman úr misaldra heimildum eða frumritum. Í fyrstu köflum I. Mósebókar (Genesis (sköpun) er að finna tvær sköpunarsögur úr tveimur mismunandi heimildum. Sú fyrri (í fyrsta kap. bókarinnar) segir að Drottinn allsherjar hafi skapað heiminn á sex dögum með orði einu saman. Hin síðari (í öðrum kap.) segir að hann hafi mótað karlinn af leiri jarðar og blásið honum lífsanda í brjóst en síðan skapað konuna úr rifi hans. Síðar í ljóðinu segir skáldið að eftir hreinsunina eða endurnýjunina muni börn sín bera þær skeljar sem hann „forðum braut og týndi“ (þ. e. leikföng bernskunnar og tákn hins glataða sakleysis). „ … inn í ljósríkið sem/kemur… .“60Jóhannes úr Kötlum 1976: 48.
Hér er Jóhannes enn að kveða um framtíðarlandið og í ljósi annarra ljóða í Sjödægru virðist ekki fráleitt að setja jafnaðarmerki milli þess og guðsríkisins „ … sem varð til/er hinn krossfesti gaf upp andann… .“61Jóhannes úr Kötlum 1976: 72.
Í Atómljóði að handan koma fram vísanir í köllunarfrásögu Móse í I. Mósebók er Guð birtist honum í logandi þyrnirunni sem brann þó ekki.62Vera má að í ljóðinu gæti einnig óbeinnar vísunar í lokakapítula Prédikarans þar sem rætt er um „vondu dagana“ þegar silfurþráðurinn slitnar. Prédikarinn 12. 6. Jóhannes úr Kötlum 1976: 109-110. Ljóðið fjallar um aftöku Julius og Ethel Rosenberg sem voru tekin af lífi í rafmagnsstóli í Bandaríkjunum. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 47. Voru þau fyrstu amerísku þegnarnir sem voru teknir af lífi fyrir meintar njósnir á friðartímum en þeim var gefið að sök að hafa veitt Sovétmönnum upplýsingar um Manhattanáætlun Bandaríkjamanna um smíði atómsprengjunnar. Ljóðið er því eitt af pólitískum ljóðum bókarinnar.
Í Lofsögn um þá hógværu gætir trúarlegrar vísunar þar sem sagt er að „eðli þess [hins allslausa fólks sé] fórn“ þó ekki „sú sem lögð er á altari/heldur hin sem er alstaðar nálæg“ sem og í óbeinni biblíutilvísun: „Sannarlega lifir þetta fólk ekki á einu saman brauði … .“63Matteusarguðspjall 4. 4. Jóhannes úr Kötlum 1976:86.
Í hinu mikla lokaljóði bókarinnar Í Hoddmímisholti sem er tilverufræðilegt ljóð með sterkar vísanir í norrænan trúararf eins og heitið gefur til kynna má þó einnig finna kristnar vísanir. Fyrsta erindið hefst þó á óbeinni vísun til brýningarorða Krists til lærisveina sinnar „þér eruð ljós heimsins…“ og ávarpsorða hans til þeirra er hann mætti þeim upprisinn: „Friður sé með yður…“64Matteusarguðspjall 5. 14. Lúkasarguðspjall 24. 36. Jóhannesarguðspjall 20. 19, 21. Jóhannes úr Kötlum 1976: 124.
Lokaorð
Í Sjödægru glímir Jóhannes úr Kötlum við trúarlegar og tilverufræðilegar spurningar í ríkari mæli en nokkurri fyrri ljóðabóka sinna. Í bókinni gætir líka enn hinnar félagspólitísku hugsjónabaráttu (etos) sem einkenndi mjög sumar fyrri bókanna (Hart er í heimi, Sól tér sortna og Sóleyjarkvæði). Þótt hér sé greint á milli þessarra þriggja sviða, trúar, tilverufræði og pólitíkur, er ekkert sem bendir til að Jóhannes hafi sjálfur talið þann greinarmun mikilvægan. Trú hans var pólitísk, pólitík hans var trúarleg og undir formerkjum beggja glímdi hann við spurningar um tilveru manns og heims, ekki síst réttlætið í þeirri tilveru.
Ljóðin í bókinni eru ort í kviku þeirra formtilrauna sem Jóhannes glímdi við á fimmta áratugi aldarinnar og gera það að verkum að form og inntak þeirra spila betur saman og mynda oft sannfærandi og heillandi einingu ólíkt ýmsum eldri ljóðum höfundar þar sem hugsunin, inntakið og boðskapurinn bar formið stundum ofurliði. Til þess að skynja þessa einingu forms og inntaks verður enda að lesa ljóðin sjálf en ekki umfjöllun um þau.
Þann trúarlega þátt sem fram kemur í bókinni ber ekki að skilja sem boðskap. Jóhannes predikar ekki í bókinni. Hér er miklu frekar um umþenkingar, íhuganir, játningar eða afhjúpanir að ræða, sumar e.t.v. ómeðvitaðar. Skáldið opinberar hugarheim sinn í ljóðunum og trú skiptir verulegu máli í þeim hugarheimi sem þar blasir við. Þá ber þess að geta að Jóhannes er í sumu tilliti mun nær hefðbundnum kristnum skilningi í Sjödægru en sumum fyrri bókum sínum. Kemur þetta einkar skýrt í ljós í Mater dolorosa. Fyrir því kunna að vera djúpsálarfræðilegar ástæður, þ. e. að í þeirri úrvinnslu á sorg og trega sem hann fór í gegnum við lát móður sinnar hafi hann horfið til baka til hins bernska æviskeiðs og þar með þeirrar bernskutrúar sem hún innrætti honum.
Mögulegt er að skoða annað ljóð bókarinnar í ljósi djúpsálarfræðinnar og er það Jesús Maríuson. Það er einnig það ljóð bókarinnar sem helst verður kallað boðandi eða predikandi þar sem það höfðar svo sterkt til lesandans með áskorun um að endurskoða afstöðu sína til Jesú óháð því hver hún er.
Í fyrri athugun minni á kveðskap Jóhannesar úr Kötlum var áhersla lögð á að hann hafi gengið í gegnum pólitísk sinnaskipti á árunum milli 1930 og 1940 og þau hafi leitt hann frá hefðbundinni kristinni trú. Sú túlkun á sér langa sögu. Í Sjödægru (sjá Mater dolorosa) virðist Jóhannes sjálfur ekki deila þeim skilningi heldur hafa litið svo á að þróun sín sem skálds og hugsuðar hafi verið samfelld og órofin.
Síðan er það annað mál hvor hafi „á réttu að standa“ skáldið eða túlkendur þess!
Flokkun ljóða í Sjödægru út frá efnissniði
Flokkunin tekur ekki til allra ljóða bókarinnar heldur aðeins þeirra sem koma til álita í þessari grein eða vekja sérstaka athygli séð út frá því sjónarhorni sem efnissniðið felur í sér (þ.e. flytja boðskap eða hafa skýrt þema).
Hvert ljóð getur fallið undir fleiri en einn flokk.
Pólitísk ljóð
Þú leggst í grasið
Ragnarök
Kveðið vestur á Granda
Hann er kominn
Kalt stríð
Kveðja til Kína
Lofsöngur um þá hógværu
Heimur í smíðum
Atómljóð að handan
Trúarleg ljóð
Maður verður úti
Jesús Maríuson
Góðviðri
Nóttleysa
Jafndægri á haust
Hann er kominn
Mater dolorosa
Upprisa
Ljóð með lauslegum kristnum vísunum
Eitt kvöld á góu
Rauðsendingadans
Næturóður
Homo sapiens
Hann er kominn
Kafarar
Lofsöngur um þá hógværu
Eden
Atómljóð að handan
Í Hoddmímisholti
Ljóð með trúarlegum stefjum úr öðrum átrúnaði en kristni
Ragnarök (norrænn átrúnaður)
Augnabilsmynd (náttúrumystík/algyðistrú)
Fuglar tímans (mytologia)
Heimur í smíðum (Demiurgus)
Eden
Baldur hinn góði (norrænn átrúnaður)
Torrek (norrænn átrúnaður)
Í Hoddmímisholti (norrænn átrúnaður o. fl.)
Tilverufræðileg ljóð
Eitt kvöld á góu
Þú leggst í grasið
Ragnarök
Homo sapiens
Auganbilsmynd
Fuglar tímans
Heimur í smíðum
Börn Atlantiss
Eden
Örlög
Í Hoddmímisholti
Hjalti Hugason
Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Árni Svanur Daníelsson
Árni Svanur Daníelsson starfaði sem verkefnisstjóri og sérþjónustuprestur á Biskupsstofu en þjónar nú sókninni í Reynisvallaprestakalli. Hann er líka ansi góður ljósmyndari.
Tilvísanir
[ + ]
1. | ↩ | Bí bí og blaka, bls. 11 |
2. | ↩ | Bí bí og blaka, bls. 40 |
3. | ↩ | Óljóð, bls. 207 |
4. | ↩ | Ný og nið, bls. 189 |
5. | ↩ | Hjalti Hugason 2004. |
6. | ↩ | Á það skal minnt að Sjödægra er ákaflega blandað og misaldra rit. Mörg ljóðanna höfðu birst áður í Tímariti Máls og menningar og öðrum tímaritum allt frá árinu 1945 og eru því eldri en mörg ljóðanna sem fjallað var um í fyrri ritgerð minni. Sjá Jóhannes úr Kötlum 1976: 213-214. Hér verða því engar ályktanir dregnar um þróun hugmynda en vakin athygli á að umfjöllunarefni greinanna skarast í tíma. Greinarnar gefa því fremur svipmyndir af ferli Jóhannesar en heildstæða sýn á höfundarverk hans. |
7. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 24. |
8. | ↩ | Eysteinn Þorvaldsson 1971: 33. Eysteinn segir réttilega að Sjödægra sé „… spegilmynd manns og heims, einkum áratuginn 1945-1955.“ Sama heimild: 39. Sjá og sömu heimild: 45, 53. Sjá og Sjá Eysteinn Þorvaldsson 2002: 103, 106. |
9. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976:104. |
10. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 48. |
11. | ↩ | Jóhannesarguðspjall 12. 24. |
12. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 58-59. Karþasis-hugsunin virðist líka koma fram í Ragnarökum. Jóhannes úr Kötlum 1976: 36. |
13. | ↩ | Móður- og Maríustefin höfðu komið fram áður í kveðskap Jóhannesar, m.a. má benda á tvö mjög ólík ljóð. Í Til mömmu í Bí bí og blaka (1926) hugsar ljóðmælandinn til æsku sinnar og ekki síst þess trúaruppeldis sem það fékk. Þar er þráfaldlega vísað í sálminn Ó, Jesú, bróðir besti. Jóhannes úr Kötlum 1972: 138-189. Í hinu ljóðinu hefur móðurímyndin víðtækari merkingu og nær í senn yfir Maríu guðsmóður og heimsbyltinguna sem leiða mun til friðar og réttlætis. Er hér átt við ljóðið Kom til mín í Sól tér sortna (1945). þar ákallar ljóðmælandinn „móður allra þjóða“ og „móður guðs og manna“ er hann biður að koma til sín „með lausnarann í fangi“. Lokaerindi ljóðsins er mikilvægt.: „Fest þú upp á himin blá/þinn friðarboga/yfir bleikum Kænugarði,/þar sem hjörtun loga./Kom til mín, því ég er allt, sem þjáist.“ Jóhannes úr Kötlum 1974: 63. Í þessu ljóði eins og ýmsum öðrum ljóðum Jóhannesar má greina vísanir í þjóðkvæði og og þulur. Er Sóleyjarkvæði e.t.v eitt besta dæmið um slíkt. Í þessu ljóði biður hann t.d. móður guðs og manna að koma til sín „… að kemba ullu nýja.“ Sama heimild: 61 Tilvísun í þuluna Tunglið, tunglið taktu mig kemur fyrir í fleiri ljóðum Jóhannesar. Kvæðabálkurinn Mannssonurinn er að stofni til frá svipuðum tíma. Þar heitir síðasta ljóðið Móðirin og fjallar um Maríu. Annað síðasta erindi þess er þannig: „Móðirin, upphaf og endir mannanna sona/– allra sem rísa og líka hinna sem falla –/áfram um veg hinna eilífu þjáninga gekk.“ Jóhannes úr Kötlum 1973: 41. Þarna er því ort um Mater dolorosa (sjá síðar). Lokaerindið er einnig athyglisvert í ljósi þess að í Sjödægru ræðir Jóhannes um Maríu guðsmóður: „Hún var ei guðsmóðir, heldur sú fávísa kona,/heilög í anda, sem trúði og vonaði á alla,/en pínu og dauða síns ljúflings að launum fékk.“ Jóhannes úr Kötlum 1973: 41. Sjá og Hjalti Hugason 2004:83. Silja Aðalsteinsdótir (2004:236) hefur bent á að María hafi verið vinsælt viðfangsefni skálda um 1940. það er ugglaust rétt en skýrir þó ekki Maríu-skáldskap Jóhannesar úr Kötlum nema að litlu leyti og alls ekki í ljóði eins og t.d. Mater dolorosa. |
14. | ↩ | Eysteinn Þorvaldsson 1971: 43. |
15. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 50. |
16. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973: 11. |
17. | ↩ | Sama náttúrudulhyggja kemur fram í Augnabliksmynd. Jóhannes úr Kötlum 1976: 89. Guðsmóðir er á gríska frummálinu theotokos sem stundum var þýtt með guðsgetandi í fornu máli íslensku. Benda má á að í ljóðinu nefnir skáldið bæði hjarta sitt og auga en hvort tveggja voru mikilvæg tákn í Sjödægru. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 41. |
18. | ↩ | Eysteinn Þorvaldsson 1971: 35. |
19. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 33. |
20. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 34. |
21. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 34. |
22. | ↩ | Eysteinn Þorvaldsson (1971: 36) bendir á hvernig ádeilubroddur ljóðsins skerpist við það að páfastóll lét fjöldamorðin á Gyðingum óátalin meðan á þeim stóð. |
23. | ↩ | Matteusarguðspjall 26. 38. Markúsarguðspjall 14. 34. |
24. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 52. Rósin er þekkt tákn Maríu og raunar fleiri kvendýrlinga í kristinni táknhefð („íkonógrafíu“). Dahlby 1977: 66-67. |
25. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 64, 71-72. Hér er litið á þetta ljóð sem vitnisburð um sterkt kristið hugarþel. Eysteinn Þorvaldsson (1971:28) telur það vitna um „tryggð … og trúarkennd gagnvart tilfinningahelgidómi“. Varðandi tengsl skáldsins við móður sína í beinni og yfirfærðri merkingu sjá einnig ljóðið Tvö augu. Jóhannes úr Kötlum 1976: 37. |
26. | ↩ | Eysteinn Þorvaldsson 1971: 39. |
27. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 64-65. |
28. | ↩ | Skårderud 2004: 152. Að hyggju djúpsálarfræðingsins C. G. Jungs fól regression í sér afturhvarf einstaklings til róta tilveru sinnar, frumbernskunnar og þeirra kennda sem henni voru samfara, sem og aðlögun að innri veruleika sínum. Slíkt afturhvarf getur að hans hyggju bæði verið neikvætt, þ.e. leitt til félagslegrar hömlunar og sálfræðilegra truflana, og jákvætt, þ.e. haft það í för með sér að einstaklingurinn uppgötvi áður ómeðvitaða afstöðu eða tilfinningar og gefi þeim nýtt gildi. Hark 1999: 197-200. |
29. | ↩ | Minna vinnubrögðin hér örlítið á Sóleyjarkvæði þótt vart kveði eins rammt að tilvitnunum hér og í því. |
30. | ↩ | Trúin: sjá myndlíkinguna um að móðirin hafi borið hann upp himnastigann. Jóhannes úr Kötlum 1976: 63. Tungan: Sjá ummæli um að tunga móðurinnar hafi verið uppspretta ljóða hans. Sama heimild: 63. Sársaukinn yfir fórninni: Sjá sömu heimild: 67. Fegurðarskynið: Sjá sömu heimild 69-70. það er einkar mikilvægt að Jóhannes skuli líta svo á að hann hafi þegið bæði trú sína og list frá móður sinni þar sem hann var þeirra skoðunar að þetta tvennt gerði manninn að því sem hann er og aðgreindi hann frá öðrum tegundum. Hjalti Hugason 2004: 85. Af móður sinni telur hann sig því hafa þegið mennsku sína. |
31. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 70. Sjá og sömu heimild: 72. |
32. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 71. |
33. | ↩ | Sjá Hjalti Hugason 2004: 78. |
34. | ↩ | Oft er gert of lítið úr hinum trúarlega þætti í kveðskap Jóhannesar og litið á hann sem e.k. uppgerð við hátíðleg tækifæri og sem aðskotahlut í höfundarverkinu. Sjá t. d. Eysteinn Þorvaldsson 2002: 100, 105. Hér skal því aftur á móti haldið fram að um sé að ræða miðlægan þátt í kveðskap Jóhannesar. Þótt Jóhannes virðist ekki hafa litið svo á að hann hafi gengið í gegnum pólitísk sinnaskipti eða gagngera breytingu á lífsviðhorfum kannast hann við djúpstæða ósátt við sjálfan sig og ljóðagerð sína, sem og endurnýjunarþörf er sagt hafi til sín um miðjan 5. áratuginn eða mun síðar en hin meintu sinnaskipti hans hefðu átt sér stað. Sjá Eysteinn Þorvaldsson 1971: 29. Sú ófullnægja kann þó að hafa hrundið af stað víðtækari endurskoðun á lífsviðhorfum þótt Jóhannes hafi e.t.v. sjálfur gengið þess dulinn. |
35. | ↩ | Erikson telur „hina heilögu nærveru“ leggja grunn að sérstökum tilfinningalegum tengslum í samspili móður og barns sem varðveitist í huga einstaklingsins eins og numinös (heilagur) þáttur og skapar frumlægasta grunn að upplifun og iðkun hins heilaga. Síðar á ævinni getur þessi reynsla orðið til að styrkja vitund einstaklingsins fyrir eigin sjálfi og samstöðu hans með öðrum t.d. í trúariðkun. Bergstrand 2004: 41- 49. Kann hér að vera komin skýring á hinni ríku samstöðu Jóhannesar með öllu lífi og sérstaklega því lífi sem þjáist. |
36. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 66, 67, 70. |
37. | ↩ | Jólahátíðin virðist hafa verið Jóhannesi afar hugstæð samanber þau mörgu jólaljóð og –kvæði sem hann orti. Kann það að sýna að bernskan og bernskuminningar hafi verið ríkur þáttur í hugarheimi hans en minningar um góð æskujól eru oft meðal helgustu minninga einstaklingsins. Á sama hátt geta dapurlegar minningar um jólahátíðina haft ævilöng neikvæð áhrif. Sjá t. d. Guðrún Friðgeirsdóttir 2002: 105-107. |
38. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 67-68. |
39. | ↩ | Segja má að þetta langa ljóð sé nokkurs konar hliðstæður þakkaróður til föður skáldsins og Mater dolorosa er lofgjörðaróður til móður þess. Í Tímanum 18/1 1940 leit Jónas Jónsson frá Hriflu á þetta ljóð sem háðkvæði. Sjá Eysteinn Þorvaldsson 2002: 96. það er með öllu rangt þar sem í raun er um mikla lofgjörð að ræða bæði um föður Jóhannesar og aðra almúgamenn sem háðu jafnharða lífsbaráttu og hann. Stíll kvæðisins er þó á köflum ákaflega léttur sem myndar andhverfu við þá angist sem það endurspeglar á köflum. Eysteinn Þorvaldsson (2002: 96) telur þetta „tilfinningaríka raunsæislýsingu á lífsbaráttu í örbirgð“ og má fullkomlega taka undir þau orð. Í kaflanum um hrakninga Jónasar föður skáldsins gætir mjög trúarlegra vísana og má þar nefna lokaerindi IV. kafla: „Sá páskadagur var prísund ein,/– ég sá polla af Jesú blóði./ Og þegar hann loksins var liðinn hjá,/ég lofaði guð í hljóði.“ Jóhannes úr Kötlum 1972: 17. |
40. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 69. |
41. | ↩ | Kristur er aftur á móti fyrirferðarmikill í öðrum ljóðabókum Jóhannesar. Hjalti Hugason 2004 |
42. | ↩ | Með dulhyggju er hér átt við trúarlegt fyrirbæri (mystik) sem birtist í því að hið innhverfa og tilfinningalega tekur yfirhönd í trúarlífinu. Með dulúð er aftur á móti vísað til hugmynda um eða tilfinningar fyrir hinu yfirnáttúrulega almennt. Dulúðin þarf því ekki að vera trúarleg heldur getur hún tengist óljósum hugmyndum um einhvern veruleika handan hins efnislega og stundum því sem kallað er hjátrú. |
43. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 23. |
44. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 23. |
45. | ↩ | Passíusálmar 27. 11. |
46. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974: 52-59 |
47. | ↩ | Hjalti Hugason 2004: 85-86. |
48. | ↩ | Sbr. Tunglið, tunglið taktu mig. |
49. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 72-73. |
50. | ↩ | Hér getur ekki verið um orðaleik eða tvíræðni að ræða þar sem vísað væri til endurfunda foreldranna þar sem faðir Jóhannesar var enn á lífi. |
51. | ↩ | Sjá: „… þræði ég feril/feðra minna/allrar skepnu/auðmjúkur þjónn“. Jóhannes úr Kötlum 1976: 19. Ljóðið kallast þannig á við fjölda þjóðsagna, þjóðlegra frásöguþátta og mannlífslýsinga. þá má benda á að t.d. Aðventa Gunnars Gunnarssonar (1. útg. á ísl. 1939) fjallar um sama stef þótt sögupersónan þar lifi af þrátt fyrir mikla hrakninga. |
52. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 19. Sambærilegt dæmi er að finna í lok 7. erindis þar sem fönnin sem smalinn fellur í er nefnd „helgur dúnn“. |
53. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 20. |
54. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 96. |
55. | ↩ | Hér má t.d. vísa til þess að í Mater dolorosa er litið á lömbin sem skorin eru í sláturtíð sem fórnarlömb. Jóhannes úr Kötlum 1976: 67. Þá má benda á ýmsa staði þar sem öreigar eða hermenn er falla í baráttu fyrir friði og frelsi eru álitnir deyja n.k. staðgengilsdauða, þ.e. koma fram sem fórnarlömb. |
56. | ↩ | Lúkasarguðspjall 9. 60. Í könnun Eysteins Þorvaldssonar á Sjödægru frá 1971 virðist gæta þeirrar missagnar að lokaerindið úr Hann er kominn sé úr Næturróðri. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 51. Þá segir réttilega að Maríuvers sé úr Eilífðar smáblóm (1940). Eysteinn Þorvaldsson 1971: 36. það var þó síðar fellt úr þeirri bók og varð hluti af ljóðabálkinum Mannssonurinn (1966) og er líklega þekktast þaðan. |
57. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 105. E.t.v. ber að líta svo á að karþasis-hugsunin komi hér fram þar sem slangan (höggormurinn) varpar „foreldrum hins ókomna“ á bál en í eldinum skírast þeir hlutir sem ekki brenna til ösku. |
58. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 13. |
59. | ↩ | Jesaja 11. 6-7. |
60. | ↩ | Hjalti Hugson 2004: 86 og áfram. |
61. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 13. |
62. | ↩ | Sjá t.d. „… í deiglu skal brenndur úr oss/sorinn …“ Jóhannes úr Kötlum 1976: 48. |
63. | ↩ | Bent skal á að Mósebækur eru safnrit sem steypt er saman úr misaldra heimildum eða frumritum. Í fyrstu köflum I. Mósebókar (Genesis (sköpun) er að finna tvær sköpunarsögur úr tveimur mismunandi heimildum. Sú fyrri (í fyrsta kap. bókarinnar) segir að Drottinn allsherjar hafi skapað heiminn á sex dögum með orði einu saman. Hin síðari (í öðrum kap.) segir að hann hafi mótað karlinn af leiri jarðar og blásið honum lífsanda í brjóst en síðan skapað konuna úr rifi hans. |
64. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 48. |
65. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976: 72. |
66. | ↩ | Vera má að í ljóðinu gæti einnig óbeinnar vísunar í lokakapítula Prédikarans þar sem rætt er um „vondu dagana“ þegar silfurþráðurinn slitnar. Prédikarinn 12. 6. Jóhannes úr Kötlum 1976: 109-110. Ljóðið fjallar um aftöku Julius og Ethel Rosenberg sem voru tekin af lífi í rafmagnsstóli í Bandaríkjunum. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 47. Voru þau fyrstu amerísku þegnarnir sem voru teknir af lífi fyrir meintar njósnir á friðartímum en þeim var gefið að sök að hafa veitt Sovétmönnum upplýsingar um Manhattanáætlun Bandaríkjamanna um smíði atómsprengjunnar. Ljóðið er því eitt af pólitískum ljóðum bókarinnar. |
67. | ↩ | Matteusarguðspjall 4. 4. Jóhannes úr Kötlum 1976:86. |
68. | ↩ | Matteusarguðspjall 5. 14. Lúkasarguðspjall 24. 36. Jóhannesarguðspjall 20. 19, 21. Jóhannes úr Kötlum 1976: 124. |
Heimildir & hjálpargögn
Bergstrand, Göran, 2004: En illusion och dess utveckling om synen på religion i psykoanalytisk teori. 2. endursk. útg. Stokkhólmi, Verbum.
Biblían, Heilög ritning, 1981. Ný útg. Reykjavík, Hið íslenska biblíufélag.
Dahlby, Frithiof, 1977: De heliga tecknens hemlighet. Om symboler och attribut. 6. útg. með viðbótum. Stokkhólmi, Verbum, Håkan Ohlssons.
Eysteinn Þorvaldsson, 1971: „Könnun á Sjödægru. B. A. prófs ritgerð í íslenzku vorið 1970.“ Mímir. Blað stúdenta í íslenzkum fræðum. 10. árg. 1. tbl. maí 1971. Reykjavík. S. 27-54.
Eysteinn Þorvaldsson, 2002: Ljóðaþing. Um íslenska ljóðagerð á 20. öld. Baldur Hafstað og þórður Helgason önnuðust útgáfuna. Reykjavík, Ormstunga.
Guðrún Friðgeirsdóttir, 2002: Norðanstúlkan, –bernskusaga–. Reykjavík, höf. gaf út.
Hark, Helmut, 1999: Jungianska grundbegrepp från A till Ö. Med originaltexter av C. G. Jung. Stokkhólmi, Natur och kultur.
Hedlund, Tom, 2000: Att förstå lyrik. 3. útg. Stokkhólmi, Ordfront förlag.
Hjalti Hugason, 2004: „Kristur og framtíðarlandið. Trúarleg minni í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum 1926-1952.“ Andvari. Nýr flokkur XLVI. 129. ár. Reykjavík, Hið íslenska þjóðvinafélag. S. 77-100.
Jóhannes úr Kötlum, 1965: Vinaspegill. Reykjavík, Heimskringla.
Jóhannes úr Kötlum, 1972, 1973, 1974, 1976: Ljóðasafn. 2., 4., 5. og 7. b. Heimskringla, Reykjavík.
Jón Sigurðsson, 1999: „„– Ég finn ég verð að springa…“ Að boða og iðka af einlægni.“ Tímarit Máls og menningar. 60. árg. 4. h. Reykjavík. S. 25-50.
Kristinn E. Andrésson, 1949: Íslenzkar nútímabókmenntir 1918-1948. Reykjavík, Mál og menning.
Passíusálmar, 1977. Hallgrímur Pétursson. 70. prentun. Helgi Skúli Kjartansson annaðist útgáfuna. Reykjavík, Stafafell.
Sigfús Daðason, 2000: Ritgerðir og pistlar. Þorsteinn Þorsteinsson annaðist útgáfuna. Reykjavík, Forlagið.
Silja Aðalsteinsdóttir, 2004: Skáldið sem sólin kyssti. Ævisaga Guðmundar Böðvarssonar. 2. útg. Reykjavík, Mál og menning.
Skårderud, Finn, 2004: Känslosamma resor. En bok om livet i rörelse. Stokkhólmi, Natur och kultur.