Skáld
í skugga
stríðsins
Dreifibréfsmálið: Jóhannes fer inn á þing
Það var við sögulegar aðstæður sem Jóhannes skáld úr Kötlum tók sæti á Alþingi Íslendinga sumarið 1941. Landið hafði verið hernumið af Bretum árið áður og fjölmargir Íslendingar unnu í kjölfarið við störf tengd hersetu Breta, meðal annars við flugvallargerð á Reykjavíkurflugvelli. Þrjú verkalýðsfélög, Dagsbrún, Iðja og Múrarafélagið stóðu í verkfalli í upphafi ársins og þegar á leið, án þess að samningar væru í sjónmáli, hótaði breska herstjórnin því að íslenskir verkamenn sem höfðu unnið fyrir setuliðið yrðu ekki ráðnir framar í vinnu heldur yrðu breskir hermenn látnir ganga í störf þeirra.
Það svarf síðan til stáls þegar uppvíst varð að á meðal bresku hermannanna hafði verið dreift fjölrituðu bréfi á ensku þar sem útskýrð var staða hinna íslensku verkamanna og hermennirnir hvattir til að sýna þeim samstöðu í verkfallinu með því að ganga ekki í störf þeirra.
Dreifibréfið
Vísir birti þýðingu á dreifibréfinu þann 6. janúar 1941 en þá hafði breska setuliðið handtekið þá Harald Bjarnason og Helga Guðmundsson verkamenn;
„Upplýsingar um verkfallið. Brezkir hermenn. Þrjú af aðal verkalýðsfélögum Íslands hafa gert verkfall. Félög þessi eru Iðja, félag verksmiðjufólks, múrarafélagið og Dagsbrún, stærsta verkalýðsfélag okkar, á borð við enska sambandið Transport & General Workers sem Mr. Bevin er fyrir. Við höfnina, í verksmiðjunum og á brezku vinnustöðvunum er verkfallið algert (100%).
Við erum neyddir til að gera verkfall því það er eina leiðin til þess, að við fáum að sporna við því, að hinir íslenzku vinnuveitendur lækki lífsskilyrði okkar í þeim tilgangi að auka gróða sinn. Þessir vinnuveitendur standa gegn réttlátum kröfum okkar af hundruð íslenzkra heimila og þúsundir íslendinga. Hún lætur sjálf ótvírætt með ýmsu móti í ljós við Íslendinga sína skoðun á málunum.
Þjóðstjórnarblöðin hér bera þess gleggstan vottinn hvernig brezka herstjórnin skipuleggur starfið fyrir hinn „brezka málstað“, þar sem sum blöðin beinlínis lýsa sig opinberlega fylgjandi honum. Og svo ætti Íslendingum að vera óheimilt að láta brezku hermennina vita sannleikann um verkfallið, sem nú stendur yfir.
Manni verður á að spyrja: Er þetta skoðanafrelsið sem brezka herstjórnin er að berjast fyrir? Er þetta „verndin“ sem hún hét að veita? Eru þetta efndirnar á loforðunum um að blanda sér ekki í okkar innanlandsmál? En fram úr hófi keyrir þó svívirðingin hjá þjóðstjórnarblöðunum íslenzku, þessum þýlyndu málpípum milljónamæringanna og brezku heryfirvaldanna. Í stað þess að mótmæla kröftuglega hinum nýja, ósvífna yfirgangi brezku heryfirvaldanna, er þau nú enn einu sinni handtaka Íslendinga, þá leggjast þau hundflöt fyrir ofbeldinu.
Alþýðublaðið skrifar enn einu sinni sem væri það einkamálgagn brezku herstjórnarinnar og dirfist að tala um „undirröður kommúnista” meðal brezku hermannanna. Hjá „Vísi” verður þó tilfinningin með Kveldúlfi og milljónamæringunum öllu yfirsterkari, og gerist það blað svo bíræfið að ljúga því upp að verkfallsmenn séu að biðja brezka herinn hjálpar! — einmitt þegar sýnilegt er að íslenzkir menn eru að reyna að brjóta verkfallið á bak aftur með aðstoð brezks hervalds. Svo lágt leggst þetta blað, er til skiptis hefur rekið erindi þýzka nazismans og enskuheims valdastefnunnar, að það heimtar að íslenzk lögregla gerist sporhundar fyrir brezku heryfirvöldin, en minnist ekki með einu orði á þá kröfu allra heiðarlegra Íslendinga að þessum heryfirvöldum beri að sleppa öllum Íslendingum úr vardhaldi sínu tafarlaust. Því að þeir vona að brezka herstjórnin beiti hermönnunum til þess að brjóta verkfallið á bak aftur. Af þessum sökum verða brezku hermennirnir að kynnast staðreyndunum um verkfall það, sem nú stendur yfir.
Um hvað er verkfallið? Eftir brezka hernámið hefur kaupgjald á Íslandi verið lögfest með bráðabirgðalögum eins og það var í apríl 1938, að viðbættum 3/4 hlutum þeirrar verðhækkunar, sem verða kann. Vinnudagurinn var ákveðinn 10 stundir. Lögin gengu úr gildi 31. desember 1940. Verkalýðsfélögin og Vinnuveitendafélagið hafa ekki orðið ásátt um nýtt kaupgjald og vinnutíma. Síðan styrjöldin hófst hefur verið áætlað, að verðlag hér hafi hækkað um 60%. Verð á kjöti hefur hækkað um 67%, mjólk 50%, fiski 150%. Við förum fram á að vinnudagurinn á Íslandi verdi 9 stundir í stað 10, þar sem það er ranglátt að vinna þurfi 10 stundir til þess að fá eftirvinnu. Við förum fram á að kaupgjaldið sé ákveðið nákvæmlega i samræmi við verðlagið og að tímakaupið verði 1 shilling og 9 pence fyrir klukkustund í stað 1/5. Í Englandi, þar sem verðlag er ekki eins hátt og hér, fá verkamenn, sem vinna í þjónustu ríkisins, 2 shillings um tímann og þar yfir.
Íslenzku vinnuveitendurnir eru vel færir að verða við kröfum okkar, því að þeir græða milljónir á styrjöldinni. Svo að eitt dæmi sé nefnt, hafa stóru íslenzku togarafélögin, sem eru harðvítugustu andstæðingar verkalýðsins grætt 1 1/2 milljón sterlingspunda árið sem leið, að miklu leyti á brezka markaðnum. Ólafur Thors íslenzki verkamálaráðherrann, er aðalhluthafinn í stærsta togarafélaginu. Við getum ekki lengur þolað þann ránsskap, að í hvert sinn sem verðlag hækkar, skuli kaupgjaldið aðeins fylgja að nokkrum hluta og mismuninum síðan vera fleytt niður í vasa íslenzku auðmannanna.
Við berjumst sömu baráttunni og þið. Ykkur mun verða sagt, að verkfallinu sé stefnt að hernaði Breta. Ef þið lesið þetta flugrit vandlega, munuð þið sannfærast um að þetta er ekki satt. Verkfallinu er beint að stríðsgróðamönnum Íslands, sem vilja nota styrjöldina, og ef gerlegt er, brezku hermennina, til þess að knýja niður kaup verkalýðs okkar. Það eru sömu stríðsgróðamennirnir, er svíkja (swindle) brezku hermennina og heimta óhóflegt verð fyrir vörurnar, er hermennirnir kaupa. Nú þegar sjást merki þess að nota eigi ykkur til þess að brjóta verkfallið. Brezka herstjórnin hefur hótað, að leyfa verkfalls-mönnum ekki að snúa aftur til vinnu sinnar. Hermönnunum hefur verið skipað að dreifa með byssustingjum hópi verkamanna á friðsamlegum verkfallsverði.
Ef verkfallið heldur áfram verður ykkur sennilega skipað að vinna það verk, sem verkfallsmennirnir unnu áður. Maður sem tekur að sér verk starfsbróður, sem gert hefur verkfall, er einhver fyrirlitlegasta mannskepna. Hann er kláðagemsi, verkfallsbrjótur (svartleggur). Margir ykkar eru í verkalýðsfélögum. Þið komið frá landi, sem er heimkynni verkalýðsfélaganna. Vissulega verðið þið ekki til þess að gerast svartleggir gagnvart bræðrum ykkar í íslenzku verkalýðsfélögunum.
Hvað getið þið gert? Ef ykkur er skipað að framkvæma verk í herbúðunum eða við höfnina, sem þið teljið að íslenzkir verkamenn hafi áður unnið, eða ef ykkur er skipað ,að skerast í leikinn við verkfallsmenn á einhvern hátt, eigið þið að neita sem einn maður. Sendið undirforingja ykkar til yfirforingjanna með þau skilaboð, að þið teljið ekki slík afskipti skyldu ykkar sem hermanna. Bendið á að þið séuð í hernum til þess að berjast gegn fasisma, ekki til þess að berjast gegn íslenzku þjóðinni er gerir nákvæmlega það sama, sem þið munduð gera í hennar sporum. Hermenn, ef þið standið fastir er sigur okkar vís og þið munuð öðlast vináttu og þakklæti þjóðar okkar. Talið djarflega við yfirmenn ykkar. Talið djarflega upp í opið geðið á Ólafi Thors og ágirndarpúkunum vinum hans.
„Við erum hermenn, ekki verkfallsbrjótar“.
Þjóðviljinn studdi baráttu verkamannanna með afgerandi hætti á síðum blaðsins;
„Brezku heryfirvöldin óskapast nú yfir flugblaði þessu og beita refsiaðgerðum, taka enn einu sinni Íslendinga fasta án þess að íslenzk yfirvöld fái þar nokkuð nærri að koma. Ofbeldi þessarar herstjórnar gengur nú svo langt að líkast virðist því að hún stefni að því að hrifsa til sín öll völd hér, brjóta borgararéttindi Íslendinga gersamlega á bak aftur. Málgögn brezku herstjórnarinnar hér halda því fram að hún líti á flugmiða þennan sem undirróður meðal hermannanna. Eru það undarleg rök. Þessi herstjórn hefur óskað eftir sem nánustum kynnum milli Íslendinga og brezku hermannanna.“
Þjóðviljinn 7. janúar 1941. Bls. 4.
Í varðhald og dóm
Þann 10. janúar seldi herstjórnin brezka íslenzkum yfirvöldum í hendur fimm menn, sem hún hafði þá látið fanga, þá Harald Bjarnason, Helga Guðlaugsson, Eggert H. Þorbjarnarson, Eðvarð K. Sigurðsson og Guðbrand Guðmundsson.
Dómsmálaráðuneytið höfðaði í kjölfarið mál gegn 8 verkamönnum þann 5. febrúar 1941 og vísaði þar til 10. kafla hegningarlaganna sem fjallar um landráð.
Ráðuneytið höfðaði einnig mál gegn ritstjórum Þjóðviljans og vísaði þar til 2. málsgreinar 121. greinar hegningarlaganna;
„Hver, sem opinberlega og greinilega fellst á eitthvert þeirra brota, er í X. og XI kafla laga þessara getur, sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 1 ári.“
Þann 15. febrúar var síðan í Sakadómi kveðinn upp dómur yfir fjórum af þeim átta verkamönnum sem málið var upphaflega höfðað gegn, tveir fengu 18 mánaða fangelsi og hinir tveir fjögurra mánaða fangelsi. Allir voru þeir sviptir borgaralegum réttindum, kosningarétti og kjörgengi til opinberra starfa. Ritstjórar Þjóðviljans voru dæmdir í þriggja mánaða varðhald hvor.
Bæði verkamennirnir og ritstjórar Þjóðviljans ákváðu að skjóta málinu til Hæstaréttar.
Hæstiréttur kveður upp dóm
Hinn 17. mars kvað Hæstiréttur síðan upp úrskurð í málinu og daginn eftir birti Þjóðviljinn þessa umfjöllun á forsíðu;
„Hæstiréttur kvað í gær upp dóm í hinu svokallaða dreifibréfsmáli, og staðfesti hinn svívirðilega pólitíska stéttardóm sakadómarans Jónatans Hallvarðssonar, að mestu leyti. Breytingar eru þær einar að 18 mánaða fangelsi þeirra Eggerts Þorbjarnarsonar og Hallgríms Hallgrímssonar er breytt í 15 mánaða fangelsi og að þeir Eðvarð Sigurðsson og Ásgeir Pétursson skuli ekki missa almenn borgaraleg réttindi.
Forsendur Hæstaréttar fyrir þessum svívirðilegasta dómi, sem hann hefur kveðið upp, eru birtar hér á eftir, því þær sýna bezt hve gjörsamlega órökstuddur dómurinn er, og að hann er aðeins innlegg í stéttar- og stjórmnálabaráttu þá, sem háð er hér um þessar mundir.
Það er sérstaklega eftirtektarvert að rétturinn tekur ekki til meðferðar eitt einasta atriði í ræðum verjanda né sækjanda. Hinum skörpu rökum verjendanna er hvergi mótmælt, jafnvel röksemdir eins hins allra kunnasta og færasta lögfræðings þjóðarinnar, Péturs Magnússonar, eru ekki virtar svars, enda eru allar líkur til þess, að dómurinn hafi verið ákveðinn áður en sókn og vörn fór fram.
Refsingar þær, sem hinir ákærðu eru dæmdir til eru þessar:
- Hallgrímur Hallgrímsson og Eggert Þorbjarnarson eru dæmdir í 15 mánaða fangelsi og sviptir borgaralegum réttindum.
- Eðvarð Sigurðsson og Ásgeir Pétursson eru dæmdir í 4 mánaða fangelsi.
- Einar Olgeirsson og Sigfús Sigurhjartarson eru dæmdir í 3 mánaða varðhald.
Það virðist augljóst, að tilgangurinn með dómi þeim, er ritstjórar Þjóðviljans hafa fengið, sé sá, að hindra þá frá þátttöku í stjórnmálabaráttunni fyrir kosningarnar í vor, og verður sá tilgangur sennilega undirstrikaður með því að láta þá sitja í varðhaldi um kosningarnar. Allt verður þetta mál rakið nánar í næstu blöðum. Dómurinn með forsendum er svohljóðandi;
„Þegar brezkur her steig á land á Íslandi þann 10. maí síðastliðið ár, var lýst yfir því af hálfu brezka ríkisins, að ekki mundi verða hlutazt til um stjórn landsins af hálfu Breta umfram það, sem nauðsyn bæri til vegna hernámsins. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu var það ljóst, að hætta á afskiptum erlends valds af íslenzkum málefnum jókst mjög vegna hernámsins. Og var af þeim sökum og oft síðar af opinberri hálfu brýnt fyrir íslenzkum þegnum að gæta allrar varúðar í umgengni við hernámsliðið, svo að Íslendingar veittu engin efni til frekari íhlutunar þess um íslenzk mál.
Takmarkið með útgáfu dreifibréfsins og útbýtingu þess meðal brezkra hermanna var það að afstýra því, að hermennirnir ynnu þau verk í þarfir herliðsins er íslenzkir verkamenn höfðu áður innt af hendi. Til þess að ná þessu markmiði er í dreifibréfinu skorað á brezku hermennina að neita allir sem einn (refuse in a body) að hlýða skipunum yfirmanna sinna um framkvæmd slíkra verka.
Upphafsmenn dreifibréfsins gáfu það út fjölritað og nafnlaust og reyndu að dylja eftir mætti hvar það var vélritað og fjölritað og með hvaða tækjum, og kveðast hinir ákærðu Eggert Halldór og Hallgrímur Baldi, sem lengi þrættu fyrir verknað sinn, hafa gert það til þess að torvelda rannsókn á uppruna bréfsins, með því að þeir hafi talið, að „setuliðsstjórnin mundi taka miðann illa upp og mundi reyna að komast fyrir, hverjir væru höfundar hans og jafnvel beita fangelsunum í sambandi við það, eins og raun varð á”. Þeim hefur því verið ljóst eins og hverjum manni hlaut að vera, að verknaður þeirra gæti leitt til þess að, ; brezku heryfirvöldin tækju fastan ótiltekinn fjölda manna, þar á meðal saklausa menn, meðan verið væri að rannsaka málið.
Einnig hlaut þeim að vera ljóst, að skapazt gæti agaleysi í hernum ef einhverjir hermanna yrðu við áskorun þeirra um óhlýðni við yfirmenn sína. En agalaus her í landinu stefnir bæði einkahagsmunum og opinberum, í brýna hættu. Þá var og mikil hætta á íhlutun heryfirvaldanna um íslenzk málefni og óþægilegum tak mörkunum þeirra á athafnafrelsi almennings, einkanlega ef ekki hefði náðst til upphafsmanna dreifibréfsins.
Verknaður hinna ákærðu Eggerts Halldórs og HalIgríms Balda varðar því við 88. gr. hinna almennu hegningarlaga nr. 19 frá 1940, og þykir refsing þeirra hvors um sig hæfilega ákveðin 15 mánaða fangelsi auk réttindasviptingar svo sem í héraðsdómi segir.
Þá hafa hinir ákærðu Eðvarð Kristinn og Ásgeir, sem vissu um efni bréfsins og áttu þann þátt í dreifingu þess, sem lýst er í héraðsdóminum, bakað sér með því refsingu samkvæmt 88. gr. hegningarlaganna og er refsing þeirra hæfilega ákveðin í héraðsdómi, en ekki er næg ástæða til þess að svipta þá réttindum samkvæmt 68. gr. sömu laga.
Með skýrskotun til forsenda héraðsdómsins má staðfesta ákvæði hans um refsingu hinna ákærðu Einars Baldvins og Sigfúsar Annesar, svo og ákvæði hans um sýknu hinina ákærðu Haralds, Helga, Guðbrands og Guðmundar.
Því dæmist rétt vera:
Héraðsdómurinn á að vera óraskaður að öðru en því, að fangelsisvist ákærðu Eggerts Halldórs Þorbjarnarsonar og Hallgrims Balda Hallgrímssonar hvors um sig sé 15 mánuðir og niður falli ákvæði um réttindasviptingu ákærðu Eðvarðs Kristins Sigurðssonar og Ásgeirs Péturssonar.
Ákærðu Eggert Halldór og Ásgeir greiði in solidum skipuðum verjanda sínum fyrir hæstarétti, Pétri Magnússyni hæstaréttarmálaflutningsmanni, málaflutningslaun kr. 150,00. Ákærðu Hallgrímur Baldi, Eðvarð Kristinn, Einar Baldvin Olgeirsson og Sigfús Annes Sigurhjartarson greiði in solidum skipuðum verjanda sínum fyrir hæstarétti, Agli Sigurgeirssyni cand. jur., málflutningslaun kr. 200,00. Allan annan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar á meðal málflutningslaun skipaðs sækjanda fyrir hæstarétti, Sigurgeirs Sigurjónsaonar cand. jur., kr. 250,00, greiði hinir dómfelldu allir in solidum.
Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.“
Þjóðviljinn gagnrýndi einnig harðlega framgang ríkisstjórninnar í þessu máli, sagði hana draga taum Breta þegar í raun væri um innanríkismál að ræða. Blaðið taldi dóm Hæstaréttar í alla staði fáránlegan og á engan hátt væri hægt að saka þessa einstaklinga um landráð af nokkru tagi.
Fluttir í járnum til Bretlands
Síðla kvölds þann 26. apríl 1941 voru þeir Einar Olgeirsson, 5. þingmaður Reykvíkinga, formaður Sósíalistaflokksins og ritstjóri Þjóðviljans, Sigfús Sigurhjartarson, varaformaður Sósíalistaflokksins og ritstjóri Þjóðviljans og Sigurður Guðmundsson blaðamaður hjá Þjóðviljanum allir teknir fastir af herstjórn Breta. Þeir voru fluttir í járnum til Bretlands þar sem þeir sátu í varðhaldi í um það bil þrjá mánuði, fyrir að stunda svokallaðan „andbreskan áróður“. Í kjölfarið var útgáfa Þjóðviljans bönnuð og Bretar gáfu út opinbera tilkynningu um að hér eftir yrði hverskyns útgáfa og mótmæli sem bæru keim af „andbreskum áróðri“ stöðvuð í fæðingu.
Alþingi Íslendinga samþykkti einróma mótmæli gegn þessum aðgerðum og tilskipunum Breta. Rithöfundasamband Íslands mótmælti einnig auk fjölmargra aðila úr verkalýðshreyfingunni.
Jóhannes úr Kötlum, sem varamaður Einars Olgeirssonar á Alþingi, sat þessvegna seinni hluta þingsins 1941 og sumarþingið í júlí sama ár sem þingmaður Reykvíkinga, meðan Einari var haldið föngnum í Bretlandi.
Frestun alþingiskosninga
Síðasta verk reglulegs Alþingis árið 1941 var að samþykkja þingsályktunartillögu, þess efnis, að kosningum til Alþingis skyldi fresta um óákveðinn tíma og allt til stríðsloka ef þurfa þætti. Jafnframt ákvað þingið að framlengja umboð þeirra þingmanna, sem þá áttu sæti á Alþingi um óákveðinn tíma.
Ríkisstjórnin, sem bar þessa tillögu fram, viðurkenndi að með þessari ákvörðun væri stjórnarskrá Íslands „lögð til hliðar“. Samkvæmt stjórnarskránni áttu að fara fram kosningar til Alþingis fjórða hvert ár og enginn gæti endumýjað umboð þingmanna nema kjósendur, samkvæmt þeim reglum sem kosningalögin mæltu fyrir um.
Brynjólfur Bjarnason fjallar um málið í Innlendri víðsjá í tímaritinu Rétti, 2. hefti 1941;
„…ríkisstjórnin rökstuddi þessa ráðstöfun meö því að nauðsyn bryti lög, en kosningar væru óframkvæmanlegar, eins og sakir standa, vegna loftárásarhættu, siglingaerfiðleika og óvissrar framtíðar. Þetta munu vera einna bjánalegustu ástæður, sem sögur fara af að fram hafi verið bornar til að réttlæta stjórnlagarof. Um loftárásahættuna er það að segja, að engar samkomur voru bannaðar, um sama leyti komu þúsundir manna saman til að horfa á íþróttakappleiki og samstundis eftir þinglausnir boðuðu stjórnarflokkarnir til stjórnmálafunda víðsvegar um landið og kepptust við að safna þangað sem mestu fjölmenni.
Erfiðast var þó að skilja, hvernig siglingaerfiðleikar til annarra landa gátu meinað íslendingum, að kjósa sér þingmenn. Um hina óvissu framtíð er það að segja, að hingað til hefur þjóðunum þótt því meiri nauðsyn til bera að velja hæfa menn í trúnaðarstöður sem framtíðin er óvissari og tvísýnni.“
Þingsályktunartillagan um frestun kosninga var samþykkt með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna nema fjögurra, sem greiddu atkvæði á móti. Það voru þingmenn Sósíalistaflokksins, Jóhannes úr Kötlum, Brynjólfur Bjarnason og Ísleifur Högnason og Páll Zóphóníasson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Brynjólfur Bjarnason heldur áfram;
„Þingmenn Sósíalistaflokksins lýstu þvi yfir, að hér eftir væri ekkert löglegt þing og engin lögleg stjórn í landinu. Öll þau lög, sem hið umboðslausa þing samþykkti væri markleysa og sömuleiðis allir þeir dómar, sem felldir yrðu og allar þær stjórnarráðstafanir, sem framkvæmdar yrðu á grundvelli þeirra „laga”. Hér eftir væru ráðherrarnir og þeir gerfiþingmenn, sem þeir styðja sig við, ekki annað en flokkur valdránsmanna, þar til nýjar kosningar hafa bundið enda á þetta lögleysisástand.“
En brátt dró til annarra stórra tíðinda vegna styrjaldarinnar sem áttu eftir að hafa langvarandi áhrif á stjórnmál landsins.
Bandaríkin hernema Ísland
Síðari hluta dags 8. júlí kom allstór bandarísk flotadeild til Reykjavíkur. Forsætisráðherra hélt útvarpsræðu um kvöldið og tilkynnti landsmönnum að Bandaríkin hefðu tekið að sér hervernd Íslands samkvæmt ósk ríkisstjórnarinnar og las ráðherra upp orðsendingar, sem farið höfðu milli hans og Bandaríkjaforseta um þessi mál.
Sama kvöld tilkynnti BBC að hið nýja hernám hefði farið fram, samkvæmt samkomulagi milli Bretlands og Bandaríkjanna.
Daginn eftir var Alþingi kallað saman (Sumarþingið 1941). Alþingismenn höfðu fyrst fengið að vita ástæðuna kvöldið áður þegar forsætisráðherra flutti útvarpsræðu sína. Stjórnin lagði fyrir þingið tillögu til þingsályktunar, þess efnis að þingið staðfesti samkomulag það, sem stjórnir Bandaríkjanna og Íslands höfðu gert með sér. Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar var samþykkt með 39 atkvæðum gegn 3.
Þingmenn Sósíalistaflokksins greiddu atkvæði á móti og færðu fram eftirfarandi ástæður:
1. Samkomulag þetta er gert bak við þing og þjóð af ríkisstjórn, sem er umboðslaus frá þjóðinni.
2. Með samkomulagi þessu er erlendu herveldi selt sjálfdæmi um örlög íslands í nútíð og framtíð. Engin tilraun hefur verið gerð til þess að fá sameiginlega tryggingu Bandamanna fyrir frelsi, fullveldi og friðhelgi Íslands að ófriðnum loknum.
3. Ríkisstjórnin notaði ekki hið einstæða tækifæri til þess að sjá hagsmunum Íslands borgið með ítarlegum og ákveðnum samningum við Bretland og Bandaríkin. Flest skilyrðin, sem sett voru af Íslands hálfu, voru mjög almenns efnis, loðin og óákveðin. Engin ákvæði voru um það, hvað verða skyldi um eignir Bandaríkjanna, er þau hverfa héðan með herlið sitt, hvort þær skyldu afhentar Íslendingum eða hvort Bandaríkin ættu að eiga til frambúðar mannvirki á Íslandi, sem kunna að verða margfalt verðmætari en allur þjóðarauður Íslendinga. Bandaríkjunum var ekki gert að skyldu að koma hér upp sprengjuheldum loftvarnabyrgjum og engin skýr ákvæði eru í samningnum um, að þeim beri að bæta Íslendingum það tjón, sem verða kunni af loftárásum. Almenn og óákveðin loforð um hagkvæma viðskiptasamninga við Bretland og Bandaríkin eru auðvitað harla lítilsvirði, eins og nú er komið á daginn og síðar mun verða nánar að vikið. Þar lítur hver sínum augum, á silfrið. Hér var vitaskuld um einstakt tækifæri að ræða, að gera hagkvæma viðskiptasamninga við Bandaríkin og Bretland, áður en samið var um herverndina.
Í sambandi við þetta mál báru þingmenn Sósíalistaflokksins fram þingsályktunartillögu þess efnis, að
1. Ríkisstjómin fari þess á leit við Bandaríkin, Bretland og Sovétríkin, að þau gefi sameiginlega yfirlýsingu um, aö þau skuldbindi sig til að viðurkenna algert frelsi, fullveldi og friðhelgi Íslands að styrjöldinni lokinni og taki ábyrgð á því, að það fái að njóta þess sjálfstæðis og að ekki verði gengið á rétt þess á nokkurn hátt — og
2. Að nú þegar verði tekið upp stjórnmálasamband við Sovétríkin.
Alþingi felldi að taka þessa tillögu á dagskrá.
Sumarþingið stóð aðeins í einn dag og eina málið á dagskrá var herverndarsamningurinn við Bandaríkjamenn. Þetta var síðasti dagur Jóhannesar úr Kötlum á þingi.
Bretar leysa Íslendinga úr haldi
Þrátt fyrir að Bretar hefðu stöðvað og lagt bann við útgáfu Þjóðviljans reis blaðið upp úr öskustónni þann fyrsta júlí 1941 undir nafninu „Nýtt dagblað“.
Þann 10. júlí birtist eftirfarandi frétt á forsíðu blaðsins:
„Brezka ríkisstjórnin hefur ákveðið, samkvæmt samningum við íslenzku ríkisstjórnina er fram fóru um að Bandaríkin hernæmu Ísland, að láta lausa alla þá íslenzka fanga, sem fluttir hafa verið til Englands, en þeir munu vera tíu, þrír blaðamenn Þjóðviljans og sjö frá Ísafirði og Reykjavík, sem fluttir voru út vegna hjálpar við þýzkan flóttamann. Samkvæmt yfirlýsingu um þetta mál á Alþingi í gær, má þvi vænta þess, að þeim Einari Olgeirssyni, Sigfúsi Sigurhjartarsyni og Sigurði Guðmundssyni og öðrum íslenzkum föngum, hafi verið sleppt úr fangelsi, og að þeir séu væntanlegir hingað á næstunni.
Nýju dagblaði er þó ekki kunnugt um, hvenær má vænta þeirra hingað heim.“
Þeir félagar Einar Olgeirsson, Sigfús Sigurhjartarson og Sigurður Guðmundsson komu síðan til landsins þann 5. ágúst 1941.
Dvölin í Bretlandi
Þremenningarnir höfðu dvalið fyrst í um fimm vikur í Royal Victoria Patriotic School í London en þar voru skilríkjalausir einstaklingar og innflytjendur geymdir þar til gengið var frá málum þeirra. Þeir voru síðan fluttir í Brixton-fangelsið þann 6. júní og voru þar í haldi til 18. júlí.
Aðbúnaður Íslendinganna í Brixton-fangelsinu
Skonsuklefar, 10 fet á lengd og 5–6 fet á breidd. Tréfleki og hálmdýna til að sofa á. Aldrei í 6 vikur var skipt um rúmföt. 2 ullarteppi, lak og lítill svæfill, samanrekið borð, lítið og ómálað, stóll eins, vaskafat og vatnskanna og koppur með fangamarki kóngsins, en konunglegt merki sást ekki á öðrum hlutum. Glerungshúðaður blikkdiskur og leirkanna, skeiðargeifla og hnífbreddi. Annað: 200 klefar í byggingunni. Fangar lokaðir inni í klefum 19 tíma á sólarhring. Morgunmatur: Hafragrautur, 3 brauðsneiðar og smjörlíki. Teblanda.
Páll og Svanur
Feðgarnir Páll Svansson og Svanur Jóhannesson söfnuðu heimildum og settu þessa grein saman um þær sögulegu aðstæður þegar Jóhannes úr Kötlum tók sæti á Alþingi Íslendinga. Svanur er sonur Jóhannesar úr Kötlum og Páll er sonur Svans.
Roðasteinninn
og ritfrelsið
Hér verður fjallað um bók sem olli umtalsverðu fjaðrafoki í íslensku menningarlífi og var tilefni mikilla blaðaskrifa árið 1957. Lögregluembættið hafði afskipti af henni og andans menn fordæmdu hana. Sumir töldu bókina upploginn þvætting og argasta klám en aðrir vegsömuðu hana fyrir löngu tímabæra hreinskilni í hvatalífslýsingum. Öll þessi umræða er ekki síst merkileg í ljósi þess að umrædd bók kom aldrei út, í þessum þætti verður því rætt um bók sem var í raun aldrei til nema í umræðunni. Hér er átt við íslenska þýðingu Jóhannesar úr Kötlum á skáldsögunni Sangen om den röde rubin sem átti að fá nafnið Söngurinn um roðasteininn á íslensku. Hér verður rakin saga þessarar umdeildu skáldsögu, bæði hérlendis og erlendis og litið aðeins yfir bókmenntalandslag tímabilsins á Íslandi í leiðinni.
Sangen om den röde rubin eftir norska rithöfundinn Agnar Mykle kom út í Noregi árið 1956 og var önnur bókin í fyrirhuguðum þríleik um hinn unga Ask Burlefot en höfundurinn lauk þó aldrei við þríleikinn. Fyrsta bókin í þríleiknum, Frú Lúna í snörunni, kom út á íslensku árið 1958. Askur er ungur námsmaður á árunum fyrir seinni heimstyrjöld og er þroskasaga hans sögð í þessum bókum. Í upphafi Söngsins um roðasteininn er hann rúmlega tvítugur og er á leiðinni til náms við viðskiptaháskóla, hann er í ákveðnum skilningi að hefja nýtt líf. Hann hefur nefnilega marga fjöruna sopið og fjölmörg feilsporin stigið á sinni stuttu ævi og stefnir nú á endurreisn. Jóhannes úr Kötlum skrifaði bók sem kom út árið 1958 sem heitir Roðasteininn og ritfrelsið en þar rekur hann sögu þessa umdeilda skáldverks. Í bókinni birtir hann þýðingu sína á öðrum kafla bókarinnar þar sem söguhetjan rifjar upp fortíð sína:
„Hann var ungur maður sem átti fortíð, ungur maður sem hafði heldur en ekki hrasað í fyrstu lotu lífs síns og sem beit nú á jaxlinn og bjó sig undir næstu lotu. Hann var ekki lengur neitt sindrandi hamingjusamt ungmenni, því hann var hniginn til þeirrar þunglamalegu íhugunar sem er upphaf sektarvitundarinnar. Hann var alglataður sonur sem með einbeitingu allrar sinnar orku hafði risið upp og afneitað glötun sinni.
Sjá, ári eftir stúdentspróf, þegar þessum unga erni var boðin óháð forstöðumannsstaða við verslunarskóla úti á landi, hafði hann horfið frá námi við Oslóarháskóla og flaksast hugfanginn af stað út í það sem hann hugði vera hið mikla æfintýri lífsins: vel launað starf með eigin skrifstofu og eigin íbúð, á ókunnum stað þar sem hann var laus við umsjárharðstjórn foreldra sinna. Hann útvegaði sér þegar í stað eldfjöruga, sneglulega ástmey með sítt gljáandi tjörusvart hár (ef það var þá ekki hún sem útvegaði sér hann), hún hét Gunnhildur og var blóðsuga staðarins og sex árum eldri en hann. Eftir nokkurra mánaða ástir, svo ofsalegar að hann hafði hvað eftir annað orðið að gera við víxlaða fæturna á legubekknum, hafði hann gert kvenmanninn óléttan (ef það hefur þá ekki verið hún sem annaðist getnaðinn). Eftir þetta ljómuðu dádýrsaugu hans ekki jafn blíðlega og áður og hlátur hans var ekki lengur eins saklaus og hreinn. Hann fékk ekki talið neinn lækni á að framkvæma fóstureyðingu; í örvæntingu flýði hann til smábæjar í grennd við hinn fyrri, þar sem honum hafði verið boðin forstaða fyrir nýjum skóla; þar komst hann í tigi við litla fráskilda frú, 37 ára gamla, sem hét Sif, hún var með línhár og dapurlegan munn og hlýjar hendur, hún var svo smávaxin að hún náði honum ekki nema í geirvörtu. Hún auðsýndi honum móðurlega umhyggju og hann umbunaði mildi hennar og dekur með því að barna hana einnig þegar í stað. (Ef það hefur þá ekki verið hún sem annaðist getnaðinn.) Þá lá við að hann sturlaðist, og eina nóttina stóð hann og hvatti rakhníf sinn í þeim fúlmannlega ásetningi að sníða af sér serðilinn. Það var um nóttina sem hann varð tuttugu og eins árs gamall.“
Askur hefur engan áhuga á að giftast þessum konum og fara mál þannig að önnur gefur barnið frá sér en hin kýs að ala barn sitt upp ein. Askur er brotinn maður eftir þessi ævintýri og dirfist í upphafi bókar ekki einu sinn að líta á ungar stúlkur, hvað þá meira og er aftur horfinn til gleðisnauðari og fátæklegri ásta sem stundaðar eru í einrúmi svo vitnað sé í orðalag þýðingarinnar. En hann er einnig uppreisnarmaður og afneitar því í raun að hann hafi á nokkurn hátt hagað sér ósæmilega í siðferðislegum skilningi. Hann lítur á sig sem sósíalista en stefnir engu að síður að því fullum fetum að verða ríkur, í þeim tilgangi fer hann í viðskiptaháskólann en hefur jafnframt áhuga á því að gerast tónlistarmaður. Þannig takast andstæðurnar á í lífi Asks og þessi þroskasaga fjallar fyrst og fremst um þessa innri baráttu hans sem birtist með ýmsu móti. Jafnframt lýsir höfundurinn leit þessa unga manns að ástinni sem hann reyndar finnur í lok bókarinnar eftir mikla tilraunastarfsemi sem hefur ekki síst farið fram á sviði líkamlegra ásta og það voru einmitt einkar raunsæislegar samfaralýsingar sem urðu til þess að vekja áhuga yfirvalda í Noregi á Söngnum um roðasteininn.
Nokkru eftir að bókin kom út var athygli Ríkissaksóknara í Noregi vakin á henni og í beinu framhaldi voru höfundurinn og Harald Grieg, forstjóri Gyldendalsútgáfunnar sem gaf bókina út ákærðir fyrir brot á hegningarlögum en samkvæmt þeim var hægt að dæma menn í allt að því tveggja ára fangelsi fyrir að gefa út og dreifa efni sem gæti talist ósiðlegt. Jafnframt var farið fram á það að bókin yrði gerð upptæk. Meðan verið var að rannsaka málið spruttu upp miklar deilur vegna þess, á milli rithöfunda og heittrúaðra, en félagsmenn tveggja rithöfundasambanda í Noregi sem fram að því höfðu eldað grátt silfur sameinuðust í baráttu sinni fyrir tjáningarfrelsinu. Eftir vitnaleiðslur um haustið 1957 komust menn að þeirri niðurstöðu að Agnar Mykle og Harald Grieg skyldu sýknaðir, en hinsvegar skyldu óseld eintök af Söngnum um roðasteininn gerð upptæk. Það má því segja að ákveðin mótsögn hafi birst í þessari niðurstöðu þar sem tilraun virðist hafa verið gerð til að taka tillit til beggja sjónarmiða, það er að segja viðhorfa þeirra sem stóðu vörð um tjáningarfrelsið og þeirra sem verja kristileg siðferðisgildi. Eitthvað skrifaði Mykle eftir þetta en það má þó líklegast segja að hann hafi að vissu leyti gefist upp á skáldskapnum eftir þessar hremmingar. Þess má hinsvegar geta að hann er talinn einn af merkilegri frumkvöðlum í norsku brúðuleikhúsi en hann stofnaði Norsk Dukketeater ásamt Jane konu sinni en þau skrifuðu einnig grundvallarrit um efnið.
Nú verður sögunni vikið til Íslands. Á meðan umræður um bókina stóðu sem hæst í Noregi tryggði íslenskur útgefandi, Gísli Ólafsson, sér útgáfuréttinn að skáldsagnaflokki Agnars Mykle. Hann ákveður skiljanlega að notfæra sér athyglina sem Söngurinn um roðasteininn hefur fengið í Noregi og byrja á því að gefa hana út þó að hún sé önnur bókin í væntanlegum þríleik. Hann biður Jóhannes úr Kötlum um að þýða bókina en Jóhannes tekur það að sér eftir að hafa lesið hana og virðist hann hafa heillast þónokkuð af henni ef marka má varnarritið Roðasteinninn og ritfrelsið þó að ekki telji hann hana gallalausa. Sumarið 1957 taka fréttir af væntanlegri þýðingu að kvisast um bæinn og sýnist sitt hverjum eins og búast mátti við. Daginn eftir dómsuppkvaðningu borgararéttarins í Osló birtist opið bréf til lögreglustjórans í Reykjavík frá Kristjáni Albertssyni rithöfundi í Morgunblaðinu. Kristján biður lögreglustjórann um að kanna hvort að væntanleg þýðing brjóti ekki í bága við bann á útgáfu kláms og segir meðal annars:
„Ef þessi bók yrði leyfð á Íslandi, þá hafa yfirvöld landsins þar með afsalað sér réttinum til að beita lögum nokkru sinni framar gegn sölu klámrita og klámmynda. Þá hefðu dyrnar verið opnaðar upp á gátt fyrir hverjum þeim, sem vildi gera sér slíkan varning að féþúfu.
Því að blygðunarlausara og fram úr öllu hófi ósmekklegra klám er vart hægt að hugsa sér, en margendurteknar lýsingar Mykles á dýrslegum aðförum – upploginn þvættingur, með plebejískum munnsöfnuði. Ungt fólk er ekki svona.
Mykle er stórgáfaður höfundur, og saga hans að langmestu leyti bæði fallleg og alvarleg bók. En því miður skiptir það engu þegar dæma skal, hvort leyfa beri bókina. Ekki fremur en það skiptir máli, hvort vökvinn í glasi er að níu tíundu hlutum kampavín, kókakóla eða sýrublanda – ef hrært hefur verið ólyfjan eða saur saman við drykkinn. Þá verður að henda honum.
Málsóknin gegn Mykle og útgefenda hans á vonandi eftir að reynast einn markverðasti og afdrifaríkasti atburður í norrænu menningarlífi á síðari tímum – sem sterk mótmæli gegn vaxandi tilhneiging nútímahöfunda að krydda skáldskap sinn með lýsingum líkustum þeim sem apar og svín gætu skrifað – en til dæmis kettir aldrei. Því kötturinn er þrifið dýr, og hefur andstyggð á vondri lykt.“
Kristján fer mikinn í þessu bréfi, hann leggur meðal annars til að bóksalar í Reykjavík geri með sér samþykkt um það að selja ekki klámbækur og bendir á að í Ameríku hafi komið upp sú hugmynd að brennimekja P, sem stendur fyrir Pornografi, á enni þeirra sem hafa klámrit til sölu. Því miður getur Kristján ekki um heimildir þessari áhugaverðu hugmynd til stuðnings. En hann er ekki einn um að vekja athygli á væntanlegri þýðingu, séra Sigurbjörn Einarsson þáverandi guðfræðiprófessor leggur orð í belg í grein sem hann nefnir Lifi listin í dagblaðinu Vísi. Hann tekur nokkuð annan pól í hæðina og er spar á vandlætingartóninn en þeim mun örlátari á kaldhæðni. Þýðing á slíku klámriti er að mati Sigurbjörns ekki síst móðgun við tungumálið sem á ekki að afhjúpa berstrípaðan klúrleika heldur að klæða ástina í skáldlegan búning, hvers eðlis sem hún kann að vera. Hann bendir á að jafnvel fínustu listamenn og atvinnuritdómarar myndi ekki þykja það veislubót að upphefjan klúrlegan talsmáta, hvað þá að “ganga þarfenda sinna fyrir allra augum eða kasta klæðum og bera blygðan sína” svo vitnað sé beint í greinina. Prósi sem afhjúpar of mikið er að mati Sigurbjörns nakinn, þvalur og slepjulegur. Hann hefur miklar áhyggjur af tilhneigingu samtímans og segir meðal annars:
„Burt með alla rómantík, allar hömlur, alla feimni um svonefnd feimnismál! Er það ekki einmitt þetta, sem við eigum að gera og erum að gera: opna Paradís upp á gátt og vaða inn, klæmandisk og gerandi öll okkar stykki, eins og hverjum er gefið að láta og mæla af innblæstri holdsins hömlulausa og andalausa? Að ekki sé minnst á fíkjuviðarblöð og þessháttar gamalt og ótískulegt dót. Og ef sælan kemur ekki blaðskellandi í fangið á slíkri dirfsku, svo hugumstóru, blygðunarlausu og óskammfeilnu mannkyni, þá er bara að gera betur, skrifa betur, kveða enn fastar að – það eru sjálfsagt m.a. til óteljandi tegundir af perversiteti, ótæmandi verkefni og úrræði fyrir ritlistina og lífskonstina. Og ef tilfinningarnar skyldu taka að sýna einhver merki þess, að þær ætli að fara að verða ónæmar vegna of mikillar ertingar og spenningurinn ætli að fara að dofna og orðin að glata æsimagni sakir ofnotkunar, – vegna þess að allir klæmast alls staðar og hver keppist við að ganga fram af öðrum í óbljúgu tepruleysi og listilegum óeðlisbrögðum, bæði í orði og verki, – þá er ekki annað en að skora á listamennina að gera ennþá betur við mannkynið, finna nýjar leiðir, ný orð, nýjar, örvandi aðferðir. Þeim er sannarlega til trúandi. Snilligáfunni eru lítil takmörk sett. Og stofnum til nýrri og hærri og enn frægilegri verðlauna handa þeim, sem duga best. Ofan á allt annað eru svo líka til læknar og sprautur og allur þremillinn! Mannkynið þarf ekki að kvíða.
Það verður gaman að lifa í framtíðarheimi snlldarinnar, þegar menningarfrömuðirnir eru búnir að kveða niður alla uppdagaða paragrafa, alla feimni, alla blygðun og ÁSTIN leikur klúr og berstrípuð með öllum mögulegum og ómögulegum tilburðum í köldu kastljósi raunsæisins.“
Þessi skrif og önnur slík sem birtust í fjölmiðlum þegar orðrómur um útgáfu Söngsins um roðasteininn tók að berast urðu til þess að útgefandinn spurðist fyrir um það hjá yfirvöldum hvernig brugðist yrði við væntanlegri útgáfu. Og viðbrögð yfirvalda létu ekki á sér standa. Skömmu síðar barst prentsmiðjustjórum á höfuðborgarsvæðinu bréf frá lögreglustjóranum í Reykjavík þar sem þeim er uppálagt að tilkynna lögregluyfirvöldum hið snarasta ef beiðni um prentun á bók Agnars Mykle berst þeim. Jafnframt er tekið fram að ákvörðun hafi þegar verið tekin um að stöðva útgáfu bókarinnar, ef úr henni verði, og málið muni sent til dómstóla. Þetta bréf varð tilefni mikilla umræðna í dagblöðum, viðtöl birtust bæði við lögreglustjóra og ráðuneytisstjóra í Dómsmálaráðaneytinu, sem telja sig fyrst og fremst vera að verja ungmenni landsins fyrir kláminu. Í rauninni virðast yfirvöld telja að þau séu að gera útgefanda mikinn greiða með því að vara hann við fyrirfram og spara honum þannig kostnað við útgáfu bókar sem aldrei fengist seld í bókaverslunum eða lánuð út í bókasöfnum. Hinsvegar bentu ýmsir á að hér væru yfirvöld mögulega að fara út fyrir valdsvið sitt, meðal annars var bent á það í Þjóðviljanum að bannið við óútkominni þýðingu á bók Mykles gæti talist stjórnarskrárbrot, þar sem afskipti yfirvalda af riti komi ekki til greina fyrr en það hefur verið prentað, en þá megi kæra ritið fyrir dómstólum sé ástæða talin til. Niðurstaðan varð engu að síður sú að útgefandinn treysti sér ekki til að ráðast í útgáfu Söngsins um roðasteininn og því reyndi aldrei á það hvort íslenskir dómstólar færu að fordæmi hinna norsku.
Söngurinn um roðasteininn seldist ágætlega á hinum ýmsu norðurlandatungumálum í bókaverslunum í Reykjavík og hefur dönskukennsla barnaskólanna eflaust komið mörgu óhörðnuðu ungmenninu vel þegar kom að því að stauta sig fram úr kláminu eins og Jóhannes úr Kötlum bendir á í ritinu Roðasteinninn og ritfrelsið. Þetta er í raun stórmerkilegt rit þar sem hinn fyrrverandi tilvonandi þýðandi að verkinu fer í gegnum málið og vegur og metur röksemdirnar sem settar hafa verið fram í fjölmiðlamoldrokinu sem fór reyndar fljótt yfir. Gagnrýni hans á viðbrögð við bókinni er í raun býsna margþætt. Fyrir það fyrsta efast hann um gildi þess að vernda ungmenni fyrir meintu klámi í heimsbókmenntum á meðan ómerkileg dægurmenning veður uppi með ótakmarkað aðgengi að þessum hópi. Listin er einmitt til þess fallin að uppfræða ungmenni um leyndardóma lífsins, og þar á meðal kynlífsins á uppbyggjandi hátt. Um þetta viðhorf segir Jóhannes meðal annars:
„Svo virðist sem herrarnir hyggist vernda unglinga sem komnir eru á kynþroskaskeiðið með því að umgangast þá eins og dauða trjádrumba á sævarströndu – í stað þess að fara að dæmi Borssona og skapa úr þeim lifandi fólk. Ég leyfi mér að fullvissa alla velsæmispostula Íslands um það, að sá hluti æskulýðsins sem þeir eru ekki sjálfir búnir að eyðileggja með rangsnúnum félagsháttum og teprulegri skinhelgi, sá hluti æskulýðsins sem menning vor og framtíð veltur á, þolir vel að horfast í augu við skapara sinn og skapnað, kann vel að greina milli ruddaskapar og hæversku, kláms og listar, er þúsund sinnum prúðari, sannari og mannlegri en þessir kristmenn-krossmenn sem þykjast vera að varðveita hann ýmist fyrir freistingum holdsins eða eilífum logum helvítis.
Hvernig væri að herrarnir skyggndust betur um í sinni sveit? Það væri áreiðanlega hægt að skrifa væna bók um það, hvernig jafnt ríki sem einstaklingar leggja allskonar tálsnörur fyrir æskulýðinn bæði leynt og ljóst. Hér skal það mál ekki rætt að neinu ráði – aðeins drepið á nokkur augljós dæmi. Þegar unglingurinn úr sveitinni sest að í höfuðstaðnum til náms, er iðulega það fyrsta sem hann verður að gera að undirrita falsaðan húsaleigusamning – verður raunverulega að greiða miklu hærri leigu en í samningnum segir. Setjum þar næst svo að fyrsta kvöldið bregði hann sér á „sirkus” sem eitthvert menningarfyrirtækið hefur pantað utan úr heimi. Dáðasti sýningargripurinn þar er vasaþjófur, sem blöðin syngja samróma lof og segja að sé góður vasaþjófur, því hann skili öllum hinum stolnu munum aftur! Sem sagt: kennslustund í þjófnaði!
Og jafnt og þétt fjölgar ungu þjófunum í bænum og herra lögreglustjórinn veit ekki sitt rjúkandi ráð!
Eða hvernig væri að hin hneyksluðu máttarvöld kynntu sér það sálardrepandi sorpritaflóð sem samviskulausir menningarníðingar hella látlaust yfir æskulýðinn í gróðaskyni? Hvernig væri að þau athuguðu betur kvikmyndahlandforirnar sem beinlínis ala unglingana upp í aðdáun á skefjalausri glæparómantík allt niður í kvalalosta og morð? Hvernig væri að þau tempruðu bununa úr þeim símjólkandi áfengisspena sem ríkið blátt áfram stingur upp í ungt fólk á kynþroskaskeiði? Hvernig væri að þau reyndu að fjarlægja hersveitir dauðans af Reykjanesskaga áður en stórveldin brenna æskulýð vorn upp í helvítiseldi kjarnorkuflugskeytanna – og þar með alla þá hreinu áru sem postularnir boða?“
Líkt og heyra má fléttast skoðanir höfundarsins á trúmálum og stjórnmálum allrækilega inn í röksemdafærslu hans á köflum, eins og búast má við. En hann bendir einnig á ákveðinn tvískinnung í umræðunni, til dæmis furðar hann sig á afturhaldsömu viðhorfi Kristjáns Albertssonar en eins og margir kannast eflaust við tók hann Vefaranum mikla frá Kasmír, einni umdeildustu skáldsögu tuttugustu aldarinnar á Íslandi fagnandi, og er oft vitnað í ritdóm hans um bókina í Vöku þar sem hann segir: „Loksins, loksins tilkomumikið skáldverk, sem rís einsog hamraborg upp úr flatneskju íslenskrar ljóða- og sagnagerðar síðustu ára!”. Jóhannes bendir réttilega á að finna megi kafla í Vefaranum sem séu ekki síður opinskáir hvað varðar kynferðistjáningu, þar er bent á að svölun kynferðishvatarinnar sé æðsta gleði mannsins og kynvillan sé jafnframt æðsta stig kynferðislegrar fullnægingar þar sem hún leiði ekki til getnaðar, svona svo dæmi sé tekið. Sigurbjörn Einarsson afgreiðir Jóhannes á svipaðan hátt með tilvitnunum í Biblíuna.
Sárast þykir honum þó að kollegar hans í rithöfundastétt hafi ekki tekið þetta mál upp á arma sína eins og starfsbræður þeirra í Noregi gerðu. Lítið heyrðist opinberlega frá listamönnum um þetta mál, sem verður að teljast nokkuð einkennilegt í ljósi mikilvægis tjáningarfrelsisins fyrir listsköpun. Það er því ekki úr vegi að huga aðeins að því sem var að gerast í bókmenntum á Íslandi á þessum tíma.
Þó að íslenskir rithöfundar hafi ekki brugðist harkalega við ofangreindri atlögu að tjáningarfrelsinu voru þeir þó duglegir við að tjá sig um það sem betur mátti fara á þessum tíma. Margt hafði breyst í íslensku samfélagi, vera bandaríska hersins hafði til dæmis mikil áhrif á menninguna og rithöfundar höfðu áhyggjur af þessum erlendu áhrifum og meðfylgjandi fjöldamenningu sem hlaut að vera á allan hátt forheimskandi og letjandi. Ungir rithöfundar skáru upp herör gegn þessum bandarísku menningaráhrifum og tjáðu sig opinskátt um þessi mál í verkum sínum. Á þessum tíma voru skrifaðar skáldsögur sem ollu fjaðrafoki þó að þær hafi ekki verið bannaðar eins og Söngurinn um roðasteininn. Árið 1965 komu út tvær umdeildar skáldsögur eftir unga menn hjá bókaútgáfunni Helgafelli en það eru skáldsögurnar Borgarlíf eftir Ingimar Erlend Sigurðsson og Svört messa eftir Jóhannes Helga. Í Borgarlífi segir frá blaðamanninum Loga sem ræður sig til starfa hjá Blaðinu sem oftast svipar afskaplega mikið til Morgunblaðsins og var almennt talið að höfundurinn væri að skrifa um það og starfsfólk þess. Logi er vinstrisinnaður andstæðingur bandarísku herstöðvarinnar en þegar hann er inntur eftir því afhverju hann hafi þá valið sér hið íhaldssama og tækifærissinnaða Blað sem vettvang fyrir skrif síns segir hann eitthvað á þá leið að hann ætli sér að breyta viðhorfum innanfrá og lítur þannig á sig sem einhverskonar Trójuhest. Það er athyglisvert að Askur í Söngnum um roðasteininn notar einmitt svipaða skýringu á fyrirhugaðri inngöngu sinni sem sósíalista í viðskiptaháskóla hinna ríku.
Blaðamaðurinn Logi er einnig skáld og á það, ásamt ýmsu öðru sameiginlegt með aðalpersónunni Murti í Svartri messu Jóhannesar Helga. Þessar aðalpersónur eru reyndar svo líkar að mörgu leyti að þær hafa oft verið spyrtar saman í bókmenntasögunni. Murtur er kominn til Lyngeyjar til að sinna ritstörfum en Lyngey er táknmynd fyrir Ísland þess tíma, þar sem spilling og hórerí þrífst í skugga erlendrar herstöðvar og hann er í hlutverki samfélagsgreinandans. Ekki gefst rúmi hér til að rifja þessar skáldsögur upp efnislega en látið nægja að velta aðeins upp þeirra á kynlíf og kynfrelsi.
Aðalpersónur beggja bóka njóta mikillar kvenhylli, svona rétt eins og Askur í Söngnum um roðasteininn. En þeir eiga það þó sameiginlegt að hafa nokkuð mótsagnakennda sýn á konur og kynfrelsi. Eins og bent var á í umfjöllun um bók Agnars Mykle er Askur í sjálfu sér mótsagnakennd persóna, sagan fjallar beinlínis um það hvernig hann tekst á við þessar mótsagnir í þeim tilgangi að finna konuna sem hann getur elskað bæði líkamlega og andlega, en hún er vandfundin í frumskógi tálkvendanna sem leggja snörur fyrir hann í gríð og erg. Tálkvendin vantar ekki í sögur þeirra Ingimars Erlends og Jóhannesar Helga, þeir Logi og Murtur vekja aðdáun og áhuga kvenna hvar sem þeir fara en þeir halda þó fast í ímynd hreinleikans og eignast báðir að lokum konur sem skera sig úr af þeim sökum. Í dagblaðsauglýsingu um Svarta messu er Úlfhildi Björk, sem Murtur fellur fyrir lýst sem svo að hún sé fersk og sönn, full af forvitni um lífið, en sterk, sjálfstæð og umfram allt kvenleg.
Lauslæti er hinsvegar klámfengið og klám er táknrænt fyrir íslensku þjóðina sem hefur selt sig bandarískum stjórnvöldum fyrir slikk og skammtíma fullnægingu. Og oftar en ekki verður konan táknmynd þessa ófremdarástands eins og kemur berlega í ljós í eftirfarandi samtali sem blaðamaðurinn Logi í Borgarlífi á við samstarfskonu sína sem honum finnst ekki mikið til koma. Talið berst að kynbombudagatali sem prýðir skrifstofuveggi Blaðsins:
„Hvernig lízt þér á þessa?” spurði hann og benti á stóra mynd af kynbombu með dagatal milli fótanna. Brjóstin voru eins og tveir gervihnettir á sömu sporbraut. Einhver hafði límt þessa altaristöflu á súlu – sem náði víst gegnum húsið eins og kyntákn.
„Hvernig lízt þér á hana?” sagði hún en horfði hvorki á myndina né hann.
„Ég spurði fyrst.”
„En þú ert karlmaður,” sagði hún og skotraði augum á hann eins og hann væri nakinn.
„Mér finnst ég vera síðasti karlmaðurinn í heiminum þegar ég horfi á hana.”
„Ég skil þig ekki,” sagði hún og leit þjófsaugum á vangann á honum.
Hann snéri sér að henni og sagði:
„Þú skilur það kannski betur ef ég bæti við: hvar eru allir hinir?”
Hún reyndi að horfa framan í hann en augnaráðið varð eins og flækt band sem hendurnar niður með kjöltunni gátu ekki greitt.
Logi virti myndina fyrir sér:
„Mér geðjast betur að brjóstum sem höfða til handanna – en ekki fótanna.”
Hún einblíndi á myndina eins og hún sæi hana í fyrsta sinn.
Hann hélt áfram:
„Svo hef ég lumskan grun um að þessi brjóst séu ofvaxin á kostnað heilans. Þau eru eins og æxli – þar sem mjólkin er orðin að geislavirkum greftri. Afi minn í torfbænum hefði ekki einu sinni gefið flækingsketti mjólk úr svona júgrum.”
Önnur hönd hennar var aftur komin upp að hálsmálinu en hin hékk eins og ekkja niður með síðunni. „Það er maður í kjallaranum sem betrekkir herbergið sitt með svona myndum,” sagði hún í trúnaðartón og roðnaði. „Hann þvær sér aldrei.”
Hann hafði ekki augun af myndinni:
„Þetta er kynleysistákn nútímans – María mey stálmannsins.”
Í Söngnum um roðasteininn er litið á kynferðislega ævintýramennsku sem nauðsynlegan undanfara heilsteypts sambands, en í íslensku bókunum sem hér um ræðir er kynlífsnautnin einungis þrándur í hinni þyrnum stráðu götu, sem leiðir á endanum til andlegra stórvirkja og sannra listrænna afreka. Í Svartri messu er sýnin á nútímamanninn býsna dökk og helgast hún ekki síst af tilhneigingum hans til nautna:
„Nútímamanninum nægir ekki ein kona. Hefur honum nokkurn tíma nægt það? Nægir þér það – alltaf? Meðan lífsbaráttan var eitilhörð þurftu tvær manneskjur að smíða hárbeitt vopn úr veikleik sínum, standa fast saman, sameinuð í einum takti, einni hugsun. Og þreytan að kvöldi gerði sitt og dugði þó ekki alltaf til. Nú horfa giftir menn í kringum sig og gefa sér góðan tíma og konur horfa í kringum sig og gefa sér enn betri tíma. Hver og einn og hver og ein er á hnotskógi í turni líkama síns bak við slikju augnanna. Hanastélssamkoman er skrautblað á því lífstré og jarðlýsnar láta greipar sópa um afrakstur félagsbúsins til að geta skartað sem skærast þar á blaði. Heldurðu kannski að það sé tilviljun að samkoman dregur nafn af stéli hanans. Hefurðu séð hvernig það rís þegar haninn galar á hænuhól. Hefurðu heyrt varphljóðið í hænunum. Hvað á fólk líka að gera við umframorkuna og öll vítamínin. Hver og einn hefur sína nautnaþörf. Reyndu að taka vínið frá honum og leggist hann ekki í tóbaksreykingar fer hann hraðar enn auga á festir að taka á konum. Taktu tóbakið frá reykingarmanni og hann fer að drekka. Taktu hvort tveggja frá honum og hann verður skelfir hjónabanda. Nema! Nema hvað? Nema hann heillist af einhverju sem er stærra en hann sjálfur. Bróðir, þú sem verður bráðum faðir, systir, þú sem verður bráðum móðir. Væri ekki ráð að skóla börnin í æðri nautn, list og þjóðernismetnaði og hvers kyns íþróttum, og sameinuð í einum takti einni hugsun, verður fjölskyldan á norðurslóð mikil og garðurinn frægur um víða veröld.”
Þessi viðhorf til ólíkra eiginleika kynjanna eru auðvitað býsna kunnugleg, varla þarf að fjölhæfa um þá hefðbundnu hugmynd að andinn og vistmunirnir séu karllægir en náttúra og tilfinningar kvenlæg fyrirbæri. Það er þó býsna merkilegt að þessar skáldsögur, sem um margt þóttu nýstárlegar og hugmyndaríkar, skuli vera jafn niðurnjörvaðar í hefðbundinni sýn á kynin og raun ber vitni. Dagný Kristjánsdóttir bendir á í Íslenskri bókmenntasögu að báðar þessar skáldsögur taki afdráttarlausa afstöðu á móti fóstureyðingum en hún segir um Svarta messu:
„Viðhorfið til kvenna sem birtist í bókinni er mjög áþekkt viðhorfinu sem birtist í Borgarlífi: sama skilyrðislausa krafa um að konur taki móðurhlutverkið fram yfir öll önnur hlutverk; sama afdráttarlausa fordæmingin á fóstureyðingum, sem gegnir sama yfirskilyrta hlutverki og þar, og sami hrollur gagnvart frumkvæði kvenna í kynlífi og vímuefnanotkun sem er skoðað sem andstyggilegt. Andstæða vergjarnra kvensnifta er Úlfhildur sem er hrein og óspjölluð og hyggst vera það fram á brúðkaupsnótt. Konur skipta Murt miklu máli sem kynferðisleg viðföng og viðföng siðferðislegrar fordæmingar sem hann getur ekki verið án. Aðeins með því að niðurlægja þær getur hann upphafið sjálfan sig.”
Það kemur fram í þeim eina kafla sem birtist á prenti úr þýðingu Jóhannesar úr Kötlum á Söngnum um Roðasteininn að aðalhetjan Askur er hlynntur fóstureyðingum og virðist styðja lögleiðingu hennar heils hugar. Að vísu má segja að þar komi til sérhagsmunir hans, en hann er þjakaður af samviskubiti vegna barnanna sem hann hefur átt þátt í að koma í heiminn án þess að vilja neitt með þau eða mæður þeirra hafa. En hér er altént um róttækt viðhorf að ræða sem skipti og skiptir enn máli í umræðunni um aukið kyn- og kvenfrelsi. Þessar íslensku bókmenntir eru að vissu leyti nokkuð sérstök blanda af púrítanisma og nautnahyggju en þær eru í raun afar íhaldssamar í grunninn, ekki aðeins vegna viðhorfsins til kvenna heldur einkennast skrifin af mikilli fortíðarþrá, sveitirnar eru hreinar en borgin skítugt og mannskemmandi lastabæli, hinir hefðbundu grundvallaratvinnuvegir til sjávar og sveita eru göfugir, sem er meira en hægt er að segja um störf á borð við blaðamennsku og stjórnun ýmisskonar. Göfugast er þó að vera skáld.
Jóhannes úr Kötlum bendir á í áðurnefndu riti um sínu um Sönginn um Roðasteininn að það sé meðal annars hlutverk listamanna að tjá sig af hispursleysi um kynhvötina og birtingarmyndir hennar. Hann ver rétt listamanna til slíkrar tjáningar og kýs að draga skýr mörk milli slíkrar tjáningar sem sé til þess fallin að leiða ungt fólk í sannleikann um unað og afleiðingar kynlífsins og kláms sem eigi ekkert skilið við list heldur lítilmótlega dægurmenningu sem skrumskæli ástina og margbreytileika hennar. Það er kannski ekki skrýtið að ungir íslenskir rithöfundar hafi átt í erfiðleikum með að vinna úr öllum þeim misvísandi skilaboðum sem virðast á stundum berast úr ólíklegustu skúmaskotum. Við ræðum enn í dag fjálglega um það hvaða birtingarmyndir kynlífsins séu ákjósanlegar og margar slíkar umræður ber að lokum að sama skilgreiningabrunninum, við getum nefnilega ekki, frekar en embættismenn og listamenn á sjötta og sjöunda áratugnum, komið okkur saman um það hvað sé erótík og hvað sé klám, hvað sé hollt og gott og hvað sé niðurlægjandi og mannskemmandi. Átakalínurnar eru að vísu ekki jafn skýrar og þær voru þá þar sem klám er í margra augum ekki kynlífstjáning heldur ofbeldi og rökin með tjáningarfrelsi mega sín ekki alltaf mikils þegar slíkar túlkanir eru annars vegar. En eitt er víst, óskin um mannbætandi kynlífstjáningu í menningarlegu samhengi er langt, meira að segja afar langt frá því að vera skýrari nú, áratugum seinna.
Þórdís og Þorgerður
Í þættinum Úlfaldar og mýflugur á RÁS 1 þann 1. júlí 2007 fjölluðu þær Þórdís Gísladóttir og Þorgerður E. Sigurðardóttir um bókina Söngurinn um roðasteininn eftir norska rithöfundinn Agnar Mykle – sem Jóhannes úr Kötlum þýddi. Umfjöllunin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfunda.
Birtist fyrst í þættinum Úlfaldar og mýflugur á RÁS 1 þann 1. júlí 2007.
Að elska
jörðina
og ljóðið
Hugleiðing á hundrað ára afmæli Jóhannesar úr Kötlum
Einn af vinum Jóhannesar úr Kötlum, Ólafur Jóhann Sigurðsson, lýsti honum í minningargrein svo vel að betur verður ekki gert í örfáum orðum:
Jóhannes úr Kötlum var í senn stórlyndur og óvenju blíðlyndur, einlægur maður og heilsteyptur, tryggur vinum sínum og hreinskiptinn, öldungis laus við hverskonar undirhyggju.
Já, svona var hann, – allir sem þekktu hann geta staðfest það – og þessir skapgerðareiginleikar hans móta líka fjölskrúðugan skáldskap hans allan. Ég ætla ekki að rekja nákvæmlega æviferil Jóhannesar enda er hann eflaust flestum okkar kunnur. Hann var sveitamaður vestan úr Dölum, fæddist fyrir hundrað árum, ólst upp á heiðarkoti við 19. aldar aðstæður, eins og sjá má í kvæðum hans, ekki síst í bálknum „Karl faðir minn“ sem er tilfinningarík raunsæislýsing á lífsbaráttu í örbirgð en slíkt var hlutskipti flestra Íslendinga allt fram á þessa öld. Þetta skrumlausa, fallega kvæði fór fyrir brjóstið á sumum, einkum Jónasi frá Hriflu sem skrifaði í Tímann að Jóhannes hefði „ort hraklegt ádeilukvæði um föður sinn.“ Og undir ævilok Jónasar er þetta kvæði enn að angra hann; í grein sem heitir „Áhrif bolsivismans á íslenskar bókmenntir“ segir hann um þetta kvæði Jóhannesar: „Hann þurrkar út sonarlegar tilfinningar, til að sýna fortíðinni nægilega fyrirlitningu.“
Jóhannes lauk námi í Kennaraskólanum 1921, hann varð síðan kennari í Dölum vestra í tólf ár, fluttist til Reykjavíkur á öndverðum kreppuárum, gerðist kennari við Austurbæjarskólann en varð að hætta eftir tvö ár sökum heilsubrests og sneri sér þá að ritstörfum eingöngu. Jóhannes bjó ásamt fjölskyldu sinni í Hveragerði frá 1940 og í hartnær tvo áratugi en síðan í Reykjavík til dauðadags 1972.
Skáldskapur Jóhannesar úr Kötlum er mikill að vöxtum og fjölbreytilegur. Frá hans hendi komu 15 ljóðabækur, 5 skáldsögur, fimm ljóðakver fyrir börn og auk þess smásögur og leikrit fyrir börn. Gefið var út úrval ritgerða hans og greina, Vinaspegill, 1965. Í viðbót við allt þetta vann Jóhannes mikið að þýðingum og einnig að útgáfu á verkum annarra. Ég mun að þessu sinni nær eingöngu beina sjónum að ljóðum Jóhannesar. Vissulega væri ástæða til að minnast nánar á önnur verk hans, t.d. barnabækurnar og Litlu skólaljóðin. Jóhannes er eitt örfárra íslenskra skálda sem hefur látið svo lítið að yrkja ljóð sérstaklega fyrir börn, en slíkt er vissulega vandaverk. Gerð er ágæt grein fyrir öllum barnabókum Jóhannesar í riti Silju Aðalsteinsdóttur um sögu íslenskra barnabóka.
Tvær fyrstu kvæðabækur Jóhannesar, Bí bí og blaka 1926 og Álftirnar kvaka 1929, bera þess glögg merki að skáldið hefur á unga aldri drukkið í sig arf hefðarinnar og alist upp við nýrómantískt viðurværi. En úr því fer hann að tileinka sér nýjar aðferðir og aðra hugmyndastrauma.
Ég hef áður bent á það í grein að ljóðum Jóhannesar megi með nokkurri einföldun skipta í tvo flokka, harla ólíka, þegar við erum að reyna að átta okkur á kveðskap hans í heild. Annarsvegar eru það þjóðfélagsleg baráttukvæði og ádeiluljóð, sem framanaf voru stundum stóryrt og beinskeytt. Og hinsvegar ljóðræn náttúru- og tilfinningaljóð, en þann streng sló hann alla tíð en þó einkum í fyrstu og síðustu bókum sínum þótt með ólíkum hætti væri.
Hinum þjóðfélagslegu kvæðum hans má með sömu aðferð skipta í tvo flokka: annarsvegar eru þá pólitísk baráttukvæði í anda sósíalrealisma og hinsvegar módernísk ljóð, flest í óbundnu formi, um þjóðmálavanda samtímans og pólitísk hugðarefni, en engin vígreif heróp. Jóhannes hafði vakandi áhuga á þjóðmálum og var virkur þátttakandi í stjórnmála- og hugsjónabaráttu sósíalista. Mörg kvæða hans frá árunum 1932 til 1945 bera fram þrumandi ádeilu og opinskáan boðskap. Flest eru þau lotulöng og kveðin af upphafinni mælsku enda er boðskap þeirra ætlað að komast til skila vafningalaust. Mörg eru lofsöngvar um menn og þjóðfélagshópa en reyndar einnig um dýr, svo sem “Stjörnufákur” sem er 40 erindi og á fjórða hundrað ljóðlínur.
Í kvæðinu „Öreigaminning“ er fjallað um hina pólitísku baráttumenn alþýðunnar sem eru skriðnir úr eggi tímans „með aðra sjón en hinir / og alla hluti gátu.“ „[…] augu þeirra brunnu / af ofstækinu mikla / að endurleysa heiminn.“
Úr slíkum hópi talar og yrkir Jóhannes úr Kötlum í baráttukvæðum sínum og hvikar aldrei. Í einhverri snjöllustu deilugrein sem skrifuð hefur verið fyrr og síðar lætur Jóhannes svo um mælt:
Það hefur löngum verið árátta mín að yrkja lofsöngva. Ég hef ort lofsöngva um guð almáttugan, móður náttúru, land míns föður. Ég hef ort lofsöngva um átthagana og moldina, fjöll og dali, ár og vötn. Ég hef ort lofsöngva um fuglana og blómin, hestinn og kúna, hundinn og köttinn, laxinn og hornsílið. Ég hef jafnvel ort lofsöngva um músina og mosann. En fyrst og síðast hef ég þó ort lofsöngva um fólk. Ég hef ort lofsöngva um heimasætur. Ég hef ort lofsöngva um börn og gamalmenni. Ég hef ort lofsöngva um söguhetjur Íslands og þegna þagnarinnar. Ég hef ort lofsöngva um nafngreinda menn, innlenda og erlenda: Helga Péturss og Georgi Dimitroff, Magnús Helgason og Mao Tse-tung, Einar Olgeirsson og Kai Munk, Halldór Laxness og Nordahl Grieg. Og ég orti lofsönginn um Stalín. Það er eini lofsöngurinn sem hefur gert verulega lukku.
Þetta er úr greininni „Fagurt galaði fuglinn sá“ frá árinu 1956 en þar svarar Jóhannes með fádæma rökfimi pólitískum ásökunum fornvinar síns séra Sigurðar Einarssonar. Orð Jóhannesar vitna um það að hann gerir sér glögga grein fyrir eigin skáldskap. Hann notar lofsöngs-hugtakið í víðtækri merkingu, þ.e. einnig yfir þá samhygð eða samlíðan, þá einlægu innsýn sem býr í ljóðum hans um fólk og um gjörvallt náttúrunnar ríki. þessi lofsöngs-tilhneiging felur að sjálfsögðu í sér hættu fyrir skáldið, – hættu á að búa til mýtu um einstakling og jafnvel ala á persónudýrkun að hætti trúarbragða. Fáir trúa því núna að Stalín hafi verið „mannsins besti vin“ eða að séra Jón Steingrímsson hafi viljað „bjarga sinni hjörð“ og hafi gert það með kraftaverki, því að sjálfur taldi presturinn syndugan og iðrunarlausan lýðinn verðskulda þessa refsingu guðs – eldinn, móðuna og harðindin.
Margt athyglisvert var kveðið á þeim hugsjónaárum þegar heimsbyltingin var á næsta leiti þótt okkur hætti til núna, löngu eftirá, að telja þær væntingar barnaskap og blekkingu. Menn biðu með óþreyju eftir byltingunni og það var engu líkara en að byltingin biði líka með óþreyju við dyrnar. En enginn opnaði.
Dagurinn kemur! þið heyrið herbresti nú
af hugsunum þeirra, sem boða tíðindin góðu.
sagði Sigurður Einarsson í kvæði um byltinguna í bókinni Hamar og sigð 1930. Það var einungis dagaspursmál hvenær byltingin skylli á, „þá rennur ykkar dagur! Hinir rauðu hanar gala!“ segir séra Sigurður í þekktasta kvæði sínu, „Sordava“, sem hann síðar baðst opinberlega afsökunar á. Byltingaróþolið birtist með miklu skáldlegra hætti í „Sovét-Íslandi“ Jóhannesar úr Kötlum, en engu íslensku kvæði hefur verið úthúðað jafn rækilega og þessu vonsæla og vel kveðna ljóði. Þetta er einlægur útópíu-kveðskapur til handa þjóð sem hefur mátt hýrast í þúsund ára fátækt, – draumurinn um að „umbreyta / í æsku / öllu hinu þreytta og sjúka og vonlausa“, eins og þar stendur – „[. . .] óskalandið, / hvenær kemur þú?“ Og aldrei hefur verið kveðið betur um byltinguna langþráðu en gert er í lok þessa kvæðis:
. . .En hvort sem þú vilt eða ekki,
kemur það nær og nær,
þetta, sem grætur blóði,
þangað til upp úr rauðum sporunum
grær
líf, sem ljómar og hlær. –
þó það kæmi ekki í gær,
þó það komi ekki í dag,
það kemur – – –
Á morgun?
Hvenær? Hvenær?
Þessi skapheitu brýningarljóð eru skörulegt framlag í stéttabaráttu kreppuáranna og heimsstyrjaldarinnar. þeim var ætlað að efla stéttarvitund og baráttuhug, en þau fluttu líka mótmæli gegn viðtekinni söguskoðun og báru fram kröfu um nýtt mat á sögu þjóðarinnar. Í kvæðinu „Vér öreigar“ er sýnt fram á að það eru ekki persónur og afrek stórmenna og valdamanna sem í raun móta og þróa sögu þjóðarinnar. Sagan er skilgreind frá marxísku sjónarmiði á mjög svipaðan máta og samtíðarmaður Jóhannesar, Bertolt Brecht, gerði (og þetta þýska skáld orti líka marga lofsöngva í líkum anda og Jóhannes). Í kvæði Jóhannesar mæla íslenskir öreigar allra alda, þeir eiga sér samfellda þjáningarsögu en með vinnu sinni hafa þeir skapað verðmætin og mannvirkin, – og nú er orðið tímabært að þeir grípi völdin. Landnámsmennirnir voru ræningjar, klæddir guðvefjarkyrtlum og skarlatsskikkjum, og þeir „slógu eign sinni á allt“ og kúguðu öreigana miskunnarlaust. Síðar skráðu munkar hetjusögur um höfðingjana. Íslendingasögurnar eru „dulbúin lofgjörð kristinna kögursveina / um ræningjana ríku“. Og ræningjarnir, valdsmennirnir, böðlarnir eiga sér líka óslitna sögu allt til okkar daga, – stéttaandstæðurnar hafa alltaf verið ósættanlegar, og nú eru þeir hræddir því að vér öreigar krefjumst réttar vors, við vitum „. . .að fylling tímans er komin,/ að hlutverki hins þarfa þræls er lokið, að vort eigið hlutverk er eftir, / og það eitt. – – “ Um þetta ljóð segir Jónas frá Hriflu í áðurnefndri grein: „Hann svívirðir þá, sem fyrstir byggðu landið og gerðu garðinn frægan.“
Jóhannes gat hæglega gerst ábúðarmikið hátíðarljóðaskáld og hann var verðlaunaður af opinberum aðilum fyrir hátíðaljóð sín á Alþingishátíðinni 1930 og aftur við lýðveldisstofnunina 1944. Af slíku tilefni klæðist hann blátt áfram trúarkyrtli og þjóðernisskikkju hins hefðbundna ættjarðarljóðakveðskapar sem tíðkast hafði í heila öld, enda ljóst að ekki þýddi að taka þátt í kvæðakeppninni í öðrum ham. Við hljótum að taka eftir því að í þessum kvæðum er ekki minnst á „ræningjana ríku“. þar heita landnámsmennirnir „Hávadróttin bjarta“ og „Austmenn, vermdir frelsisglóð“. það er engu líkara en að Jóhannes hafi tekið þátt í hátíðarkveðskapnum af einskærum keppnismóði, þetta er einskonar leikrit þar sem efnisþættirnir eru fyrirfram gefnir: ættjörðin, forfeðurnir, menningararfurinn – og hin dugmikla framsækna þjóð. Jóhannes vissi að hann gat leikið sér að þessu hlutverki og skákað öðrum og hann stóðst ekki mátið. En eftir verðlaunaveitingarnar fékk hann vonda samvisku og þurfti að stökkva útundan sér, eins og hann segir sjálfur í Birtingsviðtali við Einar Braga 1957. Eftir verðlaunin 1930 sagði hann skilið við nýrómantíkina og eftir 1944 gjörbreytti hann ljóðstíl sínum og tók að nálgast módernismann í tjáningu.
Og þá verða straumhvörf á skáldskaparferli Jóhannesar. Oft er talað um að formbylting hafi orðið í íslenskri ljóðagerð um miðja öldina. En það varð líka formbylting í ljóðagerð þessa eina skálds, Jóhannesar úr Kötlum. Ekkert íslenskt skáld hefur endurskoðað skáldskaparviðhorf sín og skáldskapartjáningu á jafn gagngerðan hátt og hann. Síðasta bók hans í hefðbundna stílnum, Sól tér sortna 1945, fékk harða dóma, einkum frá Magnúsi Kjartanssyni sem taldi Jóhannes „of hefðbundinn í framsetningu sinni og túlkun.“ Þetta var Jóhannesi sjálfum ljóst og hann hafði þá þegar hafið endurskoðun sína og var tekinn að birta nýstárleg ljóð undir höfundarnafninu Anonymus. Það gerði hann í tíu ár án þess að út kvisaðist hver nafnleysinginn væri. Sigfús Daðason segir í hinni merku grein sinni „Til varnar skáldskapnum“ árið 1952: „Ég verð að kalla Anonymus ungt skáld, því hann er ungt afl í bókmenntunum hvort sem hann er tvítugur eða tíræður í holdinu.“ Reyndar má sjá í Sól tér sortna að skáldið er farið að efast um að ljóðagerð af þesu tagi eigi nokkurt erindi lengur. Síðasta kvæði bókarinnar lýkur með þessum orðum:
Og kvæðin mín – þau dæmast til að deyja
sem daprir vottar þess, er hefur skeð.
– Í stríði þessu létu margir lífið,
og lof sé guði, ef þau teljast með.
Það er ekki fyrr en Sjödægra kemur út 1955 að lýðum verður ljóst að skáldið að baki Anonymusar var Jóhannes úr Kötlum. Þessi róttæka breyting hans á stíl og allri formgerð þeirra ljóða, sem hann yrkir, er einsdæmi á skáldaþingi. Einar Bragi spurði hann síðar hversvegna hann hefði byrjað að yrkja nafnleysingaljóðin, og Jóhannes svaraði: „Ég byrjaði á því af svipuðum ástæðum og ég fór á sínum tíma að yrkja byltingarkvæði: ég var orðinn ósáttur við sjálfan mig og ljóðagerð mína – fannst sem ég væri farinn að haltra á eftir. [. . .] mig langaði til að freista nýrra leiða í skáldskapnum – heyja mér ferskara ljóðmál, ná tökum á nýju sniði líkinga og mynda sem kannski gæti síðar meir yngt upp hina rímuðu ljóðagerð.“
Og það er einmitt nákvæmlega þetta sem Jóhannes gerir í skáldskap sínum. Þetta er ekki heiglum hent eftir tuttugu ára vist í hefðinni og átta kvæðabækur ásamt ýmsu fleira. En þessa leið gekk Jóhannes ótrauður í átt til módernismans. Hann varð ekki róttækur módernisti enda ætlaði hann sér það ekki, en hann lærði ýmislegt af módernismanum af því að hann vildi tileinka sér nýjungar og fannst hann þurfa að leita að nýjum tjáningarleiðum í skáldskapnum. Honum tókst að glæða ljóð sín nýjum myndum og líkingum, einkum lagði hann rækt við myndhverfingar að hætti módernista. Orðfærið, breyttist ekki ýkja mikið, það var enn sem fyrr gjarnan nokkuð upphafið og rómantískt þótt stundum nálgaðist það vandað hverdagsmálfar en hann beitti ljóðmálinu á allt annan hátt en áður, forðaðist margtuggin og útjöskuð orð, tempraði mælskuna – og útkoman var ferskur stíll. Þáttur í endurnýjuninni voru þýðingar Jóhannesar á erlendum ljóðum frá ýmsum heimshornum en þær birtust í bókinni Annarlegar tungur undir nafni Anonymusar árið 1948.
Jóhannes kærði sig ekki um að dragast afturúr, eins og hann sagði sjálfur, og hann orti meira að segja eftirminnanlega um byltingarþörf sína á skáldskaparsviðinu. Á bókmenntafundi í tilefni sextugsafmælis hans fyrir 40 árum flutti hann sjálfur kvæðið Ég finn ég verð sem byrjar svo:
Hér sit ég enn í sömu vanans skorðum
hve sárt og djúpt sem tímans þyrnar stinga
og leita skjóls í löngu dauðum orðum
– ó lífsins kjarni: nær á ég að springa?
Og kvæðinu líkur með þessum vísuorðum:
ég finn ég verð – ég finn ég verð að springa
og fæða að nýju alla veröld mína.
Í Sjödægru og seinni ljóðabókum Jóhannesar eru mörg sömu yrkisefni og fyrr en allt er með öðrum rómi og öðrum blæ. Skáldið heldur áfram að yrkja um þjóðfélagsmál, en nú er sjónarsviðið stærra og víðara en áður og í ljóðunum er skyggnst í hin dýpri rök tilverunnar og þróun alls mannkyns. Heimsstyrjöldin og atómsprengjan breyttu heimsmyndinni; – eyðing og nýjar ógnir blöstu við; kalt stríð var skollið á. Og byltingin beið ekki lengur við dyrnar. Skáldinu er ljóst að tími hins háværa, stóryrta áróðursskáldskapar var liðinn. Nýir tímar og breyttur heimur kröfðust nýrra forma eins og fjórar síðustu ljóðabækur hans bera vitni um. Mörg hinna beinskeyttu, háttsterku kvæða Jóhannesar munu eigi að síður lifa lengi, t.d. „Eiður vor“ því að skorinorður boðskapur þess á líka heima hér og nú þegar vald peninga og gróðahyggju stjórnar á flestum sviðum og ógnar réttlætiskennd og umhverfi:
þótt særi oss silfur og gull
þótt sæki að oss vá eða grand
vér neitum að sættast á svik
og selja vort land[. . .]
Þetta kvæði á uppruna sinn í baráttunni gegn erlendri hersetu á Íslandi, en þeirri baráttu lagði Jóhannes margfalt lið ekki síst með ljóðaflokknum „Sóleyjarkvæði“ þar sem hann nýtir þjóðkvæðastíl þegar hann lýsir fegurð landsins, mótmælir erlendri ásælni og deilir á valdsmennina. Í þessu sambandi má minna á að Jóhannes samdi fyrstu skáldsöguna um erlent hernám á Íslandi, Verndarenglana, en hún kom út þegar á þriðja ári hernámsins 1943.
Smákvæðið „Framtíð“ er háttbundin ógnarspá um yfirvofandi atómstríð; – þar er gjöreyðingunni lýst stóryrðalaust í meitluðum orðum og skýrum myndum:
Og dauðageislar við daggir rjá
og dansa á kornum sandsins
er hverfur hann undir sól að sjá
hinn síðasti maður landsins.
Ljóðið „Næturróður“ í Sjödægru fjallar um blóðuga þjáningarsögu alþýðu í öllum heimi, hrakninga hennar í hlekkjum ánauðar og myrkri vanþekkingar. Þetta er óbundið módernískt ljóð þótt minni þess eigi skyldleika í gömlum islenskum kveðskap:
Grár nökkvi mjakast yfir hið botnlausa djúp
gegnum endalausa nóttina:
vér kóngsþrælar vér krossþrælar dýfum árunum sem í bik
– þungur er vor róður.
Fróðlegt er að bera þetta ljóð saman við ljóðið Oss öreiga sem fjallar að hluta um samskonar þræla í séríslenskri sögu – en með gjörólíkri tjáningu.
Formbylting Jóhannesar nær ekki einungis til forms og stíls, – það verður einnig áherslubreyting í viðhorfum hans þótt hann hviki hvergi frá hugsjónum sínum. Hann prédikar ekki lengur, heldur býr um boðskapinn í listrænu myndmáli sem stundum getur orðið allt að því torrætt eins og í „Næturróðri“. En þótt herópin séu þögnuð er framtíðarlandið ekki horfið hugarsjónum en það er fjær en áður fyrr. Sóknin til betra og fegurra lífs heldur áfram:
Látum hina dauðu grafa sína dauðu
meðan stormurinn geisar í heila vorum
eldurinn í hjarta voru
og lyftum þessum glóandi knetti
vorri jörð
upp mót endalausum víðernum nýs dags.
Hann missti aldrei trúna á pólitísk markmið og hann orti líka um vonbrigði og ósigra í þeim efnum af hreinskilni og eindrægni. Í síðustu bók sinni Nýjum og niðum horfir hann enn yfir svið hugsjónanna í bálkinum „Óðurinn um oss og börn vor“ – og treystir nýjum kynslóðum til að halda baráttunni áfram.
Því sérhver ný kynslóð verður að frelsa heiminn
Með því að skapa hann í sinni mynd
Náttúran á sterk og litrík ítök í kvæðum Jóhannesar eins og flestra annarra íslenskra skálda. Í ljóðum hans er náttúran oft nátengd tilfinningum og lífsviðhorfum. Æ og aftur hverfur hann vestur í Dali eða í aðrar áttir á vit náttúrunnar; einnig á tímum átaka og ádeilu er stutt í rómantíska náttúrukennd. Í næsta kvæði á undan „Sovét-Íslandi“ situr hann
í grænum dal við fegurð blárra fjalla
og fuglakvak um stjörnur, sól og mána [. . .]
eins og segir í kvæðinu „Á þeirri stund“ í Samt mun ég vaka. Í þeirri bók er líka bálkurinn „Móðir náttúra“ þar sem skáldið ávarpar þessa móður sem er máttug og fögur, drifkraftur lífs og gleðigjafi. Hún á að efla jarðarbúann til meistaraverka og verða bandamaður hans.
Náttúrukenndin er oft tengd átthögum og ættjörð og einnig hugsjónum. Fjöllin standa af sér öll veður:
Mín fjöll Mín fjöll standa
eru sannleikans fjöll þegar lygin hrynur
blátt grjót mín bláu fjöll
hvítur snjór mín hvítu fjöll.
En náttúruljóðin búa líka gjarnan yfir ljóðrænum hugblæ ævintýra, ástar og trega og í þeim tengjast einnig fegurð, ást, náttúra og ættjörð og í æskuljóðum Jóhannesar er guð einnig í þessum félagsskap. Fallegasta rómantíska náttúrukvæðið er „Fyrsta jurt vorsins“, – eitt erindið er svona:
Augasteinn vorsins, lambagrasið litla,
löngum í draumi sá ég þig í vetur.
Guði sé lof, að líf þitt blómstrar aftur,
líkt þeirri von, sem aldrei dáið getur.
Samkenndin með náttúrinni verður jafnvel að samruna við náttúruna eins og í smáljóðinu „Augnabliksmynd“:
þegar sólin skín á mig nakinn
í grænni brekku
og tært bergvatnið líður hjá
þá er sólskinið í mér
og ég í sólskininu
grasið í mér
og ég í grasinu
vatnið í mér
og ég í vatninu
og dauðinn er ekki til:
í óviti alvitundarinnar
skín ég og græ og líð fram
frá eilífð til eilífðar.
Þannig tengist náttútan sjálfri lífshamingjunni sem verður mun áleitnara yrkisefni í hinum seinni bókum skáldsins. Í þeim fyrri er það „ástin, trúin, eldurinn, krafturinn“ og álíka stefnuskrárorð úr viðteknum skáldskap sem móta hamingjuhugmyndina. Í Sjödægru eru hinsvegar komnar í ljóðin tilvistarlegar hugleiðingar um tilgang lífs og hverfulleik þess og um hamingjuna í heimi hér. Ljóðið „Örlög“ er vel kveðin áminning um afdrif okkar allra. Í því standa þessar línur:
Við munum öll gleymast:
[. . . ]
Líf okkar er sviptónn í ófullgerðri hljómkviðu:
fýkur brátt sem neisti veg allrar veraldar
– eftir liggur aska.
Einungis hugrakkir menn og æðrulausir kveða svona um dauðann. þetta ljóð er í nábýli við ljóðið sem ég las áðan þar sem segir að í okkur búi sólskinið, grasið og vatnið og dauðinn sé ekki til. Lífið heldur áfram þótt við hverfum og gleymumst. Duftið rís upp. Áhrifamesta ljóð Jóhannesar um rök lífsins er „Jarðerni“ í bókinni Tregaslag. Þar ríkja þrjú meginstef, en þótt í þeim megi þekkja óbeinar vísanir, þá er hér um að ræða annarskonar jörð en í Biblíunni og upprisan er jarðnesk eins og fæðing og dauði:
Af þér er ég kominn undursamlega jörð:
[. . .]
Að þér mun ég verða undursamlega jörð:
Eins og sveipur mun ég hverfast í stormi þínum
eins og dropi mun ég falla í regni þínu
eins og næfur mun ég loga í eldi þínum
eins og duft mun ég sáldrast í þína mold.
Og við munum upp rísa undursamlega jörð.
Eitt af ljóðum Sjödægru heitir blátt áfram „Ljóð um hamingjuna“, – einföld og skýr lífsskoðun í fimm litlum vísum. Hin fyrsta:
Hamingjan er ekki til sölu:
fljúgið of heim allan
gangið búð úr búð
– engin hamingja.
Og hin síðasta: þetta er hamingjan:
að yrkja jörðina
að yrkja ljóðið
að elska jörðina og ljóðið.
Í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum má lesa og rekja bókmenntasögu íslenskrar ljóðagerðar allt frá nýrómantík aldamótanna og til loka módernismatímabilsins um 1970. Og þetta er jafnframt æviskeið skáldsins. Alstaðar var hann þátttakandi og samtímamaður, jafnan einarður í skoðunum og hreinskilinn en jafnframt leitandi, með áhuga á hinu síbreytilega inntaki tilverunnar og túlkunartækjum hennar, ljóðinu og tungumálinu. Hann hóf skáldferil sinn sem nýrómantískt skáld, varð síðan helsta ljóðskáld hins félagslega raunsæis; gerði þar næst sína eigin formbyltingu og tók þátt í formbyltingu annarra með því að nýta sér ýmislegt úr fagurfræði módernismans. Hann var heimsbyltingarsinni á kreppuárunum fyrir heimsstyrjöldina síðari en ljóðbyltingarsinni eftir stríð. Og alla tíð vildi hann bylta kjörum alþýðunnar til betra vegar. Hann var sannur byltingarsinni með skýra og glaðvakandi hugsun og sú hugsun breyttist ekki þótt ljóðstíll hans tæki stakkaskiptum. Ekkert íslenskt skáld hefur verið málsvari alþýðunnar af slíkri eindrægni og ástríðu sem hann. Í erindi sem Njörður Njarðvík hélt 1974 segir hann Jóhannes verðskulda nafngiftina „skáld íslenskrar alþýðu“. Og í afmælisbréfi Halldórs Laxness til Jóhannesar fimmtugs stendur m.a.:„Aðeins fáum skáldum er gefið að finna tóninn sem nær hlustum alþýðunnar. Þú ert einn í hópi þeirra öfundsverðu skálda.“
Víst er að Jóhannes úr Kötlum helgaði alþýðufólki ljóð sín öll og var í raun sverð þess og skjöldur. Hann var nákominn gróandi lífi og stritandi heimi og taldi fráleitt að bregða á annað ráð. Það staðfesti hann ekki einungis í skáldverkum sínum heldur einnig í bókmenntaerindi sem hann flutti árið 196O , en þá sagði hann m.a.:
Einu gildir hversu djúpt skáldið vill grafa í leyndardóma sjálfs sín og tilverunnar – það getur samt ekki sloppið úr mannheimi. Það neyðist til að taka einhverja afstöðu gagnvart umheiminum og gerir það raunar öldungis eins fyrir því þótt það einangri sig í fílabeinsturni. Skáldið getur aldrei orðið hlutlaust gagnvart manninum. Maðurinn eltir það inn í turninn og krefst reikningsskila. Þegar allt kemur til alls eru skáldið og maðurinn tvær hliðar á sama furðuverkinu.
Eysteinn Þorvaldsson
Eysteinn Þorvaldsson hefur kynnt sér manna best módernismann í íslenskri ljóðagerð og skrifaði um það efni bókina Atómskáldin sem kom út 1980. Jafnframt hefur hann fylgst grannt með þeim ungu skáldum sem síðar komu fram á sjónarsviðið undir nýjum straumum og stefnum. Þá hefur Eysteinn átt stóran þátt í að kynna Íslendingum ýmis úrvalsverk evrópskra bókmennta með því að þýða, í samvinnu við Ástráð son sinn, verk skálda eins og Franz Kafka og Max Frisch. Í tilefni af sjötugsafmæli Eysteins sumarið 2002 kom út bókin Ljóðaþing sem hefur að geyma greinar, ritgerðir og erindi hans um íslenska ljóðagerð á 20. öld.
Golli (Kjartan Þorbjörnsson)
Golli er margverðlaunaður ljósmyndari hjá Morgunblaðinu. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga ljósmyndara og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín.
Erindi flutt á hátíðarsamkomu í Þjóðarbókhlöðunni í tilefni 100 ára afmælis Jóhannesar úr Kötlum þann 4. nóvember 1999.
Hugsjónaskáld
og lofgerðasmiður
Hugleiðingar um ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum
þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu hans
Sum skáld eru skáld einnar bókar, jafnvel eins ljóðs. Önnur skáld eiga langan og farsælan feril. Samfylgd þeirra og þjóðarinnar rofnar ekki. Jóhannes úr Kötlum var eitt þessara síðarnefndu skálda. Í umræðum manna um öldina sem senn er að líða eru oftast kallaðar til sögunnar þrjár kynslóðir, aldamótakynslóðin, lýðveldiskynslóðin og ´68 – kynslóðin. Jóhannes úr Kötlum átti samleið með þeim öllum. Hann tilheyrði þeim þó tæplega í tíma. Hann var því nýfæddur þegar 20. öldin gengur í garð og hreint ekki ungur við lýðveldistökuna, hvað þá í upplausninni og andófinu í kringum 1968. En hann gerði hugmyndir og hugsjónir þessara kynslóða að sínum hugsjónum. Svo mjög raunar að í kringum 1970 kölluðu ungir róttæklingar hann „skáldið okkar”. Jóhannes úr Kötlum var fyrst og fremst hugsjónaskáld.
Skáld svo margra hugsjóna á sér óhjákvæmileg mörg líf og segja má að fá skáld spegli betur sögu aldarinnar í kveðskap sínum en Jóhannes. Ekki síst fyrir þá sök að hann fékk að kenna á því líkt og svo margir að það er alltaf nokkur munur á hugsýn og veruleika. Óskir okkar og þrár rætast aldei að fullu. Skáldið úr Kötlum sem átti svo margar háleitar draumsýnir og tjáði þær e. t. v. betur en flestir aðrir varð þó að horfa upp á þær leysast upp þegar veruleikinn barði að dyrum. Þótt léttleiki og rómantísk fegurð væri löngum einkenni ljóða hans var ekki alltaf þegar líða tók á skáldævina létt yfir þeim. Samt kæfði sá þungi aldrei hinn skáldlega neista sem ávallt var aðalsmerki Jóhannesar.
Unga Ísland og Rauðir pennar
Það er unnt að draga upp margar ólíkar myndir af Jóhannesi í Kötlum. Ég hygg þó að fáum hafi betur tekist að lýsa kjarnanum í skáldskapi hans og hugmyndaheimi en honum sjálfum í viðtali við Einar Braga í Birtingi 1957. Þar lýsir hann bernskudraumi sínum svo að hann sé: „rómantísk sveitalífsstefna, komin frá Norðurlöndum, með glaðværa bjartsýni, trú á landið og félagslegar framfarir, gróandi þjóðlíf í skjóli friðsællar náttúru./…/ Í fyrstu bókum mínum blandast þessvegna náttúrudýrkun guðstrú og ungmennafélagsanda jafn eðlilega og efnasamböndin í loftinu sem við öndum að okkur.”
Það er engin tilviljun að Jóhannes velur ljóðlínur úr barnagælum sem titla að fyrstu ljóðabókum sínum, Bíbí og blaka (1926), Álftirnar kvaka (1929), Ég læt sem ég sofi (1932) og Samt mun ég vaka (1935). Þetta eru söngvar sveitadrengsins, e. t. v. smaladrengsins, sem í það minnsta í upphafi er sakleysið uppmálað, umvafinn náttúru, trú og hlýju. En ekki líður á löngu þar til brestur kemur í þá paradísarmynd. Veruleikinn uppfyllir ekki kröfur hugsýnarinnar. Það er einkum tvenns konar gagnrýni sem verður áberandi í þriðju og fjórðu bók Jóhannesar, gagnrýni á hinn „gamla kirkjunnar guð” og kjör fólksins, alþýðunnar.
Um þetta leyti ánetjast Jóhannes sósíalismanum sem átti eftir eiga hug hans allan það sem eftir var ævinnar. Hann verður einn hinna Rauðu penna sem höfðu ekki svo lítil ítök í íslenskum menningarheimi. „Sovét – Ísland / óskalandið / -hvenær kemur þú?”, yrkir hann sem löngum hefur verið vitnað til og gaf þar með tóninn. Í kvæði eftir kvæði heldur hann uppi merki baráttunnar gegn auðvaldi og heimsvaldastefnu en þó ekki síst gegn stríði og fasisma. Á mörgum kvæðunum er nokkur raunsæisblær. Ljóst er þó að oft hefur náttúran, sveitin og rómantíkin togað hann til sín. Í kvæðum hans má sjá átök milli virkni í samfélagslífi og leitar að athvarfi í sveitinni, í náttúrunni. Í kvæðinu Þegar landið fær mál sem birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar 1937 birtast þessi átök glögglega í einhvers konar herhvöt:
Hvað er sólskinið mitt, hvað er söngfuglinn minn
hvað er sumarsins fegursta skart,
hvað er vatnanna glit, hvað er víðigræn kinn,
hvað er vornótt með glóhárið bjart,
hvað er ómfögur lind, hvað er upphafið fjall,
hvað er angan mín tíbrá og þeyr,
ef í gegnum það allt heyrist örmagna kall
þess sem út af í skugganum deyr?
Landið, fólkið og hugsýnin
Það var aldrei erfitt fyrir hina Rauðu penna á borð við Jóhannes úr Kötlum að fylgja flokkslínu Kommúnistaflokksins og síðar Sósíalistaflokksins. Þjóðfylkingarstefnan sem var ráðandi stefna á þessum tíma boðaði samfylkingu verkamanna, bænda og frjálslyndra borgara gegn ógnum fasismans. Rómantísk sveitalífsstefna og ungmennafélagsandi samfara þjóðernisást átti því samleið með verkalýðshyggju og friðarboðskapi sósíalismans. Því má segja að sú blanda hafi hentað skáldunum vel. Í grein um Sjödægru í tímaritinu Svart á hvítu 1978 bendir Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur á það að mörg íslensk skáld hafi andæft á svipaðan hátt. „Í verkum þeirra birtist hugmyndafræði, sem felur í sér rómantíseríngu bændamenningarinnar, vissu um að þar hafi hin sönnu andlegu verðmæti verið, viðbjóð á kapítalismanum (og í tengslum við það syndafalli Íslendinga), og von um frelsun, oft einhvers konar nostalgískt afturhvarf – og er þá vonað að sósíalisminn muni færa Íslendingum aftur hin sönnu gildi bændamenningarinnar.” Þetta telur Halldór ekki einungis vera óraveg frá sögulegri efnishyggju marxismans heldur sé söguskoðun á borð við þetta nær því að vera afsprengi hughyggju. Þótt syndafallskenning þessi tæki fyrst á sig fullveðja mynd eftir herstöðvasamninginn við Bandaríkin var grundvöllur hugmyndafræðinnar þegar fyrir hendi um miðjan fjórða áratuginn. Það sést glöggt í verkum Jóhannesar. Í bókunum Hrímhvíta móðir (1937) og Hart er í heimi (1939) fléttast þessi hugmyndafræði saman í söguljóðum, ljóðum um heimsmálin og ástarljóðum til moldarinnar og landsins. Flest eru kvæði þessi ort á hefðbundinn hátt með rími og stuðlum en í stöku kvæði er þó formið brotið upp í mælskum texta. Segja má þó að einna hæst rísi kveðskapur Jóhannesar á þessu tímabili í bókinni Eilífðar smáblóm (1940). Heimsstyrjöldin er skollin á og frammi fyrir þeim veruleika er fátt um svör. Skáldið ávarpar því sveitina og náttúruna og leitar huggunar hjá henni:
Hvert á flýja meðan allt er ógn,
– einskis að vænta, nema blóðs og társ, –
meðan hið veika kvak eins kvæðamanns
kafnar í sjúkum ópum lygi og dárs?
Blómið í túni, hússins dygga dýr,
dulúðga heiði, sólu roðna fjall:
heyrið nú, meðan maður vopnsins deyr,
mál ykkar vinar, hjartans þreytta kall.
Náttúra, vagga alls og einnig gröf:
yngdu mig, vertu sálar minnar hlíf,
gefðu mér aftur gleði mína og söng,
gefðu mér aftur trúna á þetta líf!
Næsta bók Jóhannesar, Sól tér sortna (1945), er einna þekktust fyrir kvæðið Dagskipan Stalíns sem er lofgerðarkvæði um hinn umdeilda leiðtoga Sovétríkjanna. Í þeirri bók er margt um pólitísk kvæði og fremur dimmt er yfir henni. En eftir á að hyggja eru þó sterkustu átök bókarinnar viðbrögð Jóhannesar við uppflosnun sveitanna. Þau viðbrögð sjást glöggt í kvæðinu Heiman ég fór. Skáldið spyr sig hví það hafi yfirgefið sveitina og svarar því til að hún hafi orðið ambátt auðsins, því hafi hann horfið á braut. En í lok kvæðisins stillir skáldið þó upp þeirri framtíðarsýn í anda Völuspár að einhvern tíman, kannski á tímum nýrra kynslóða, muni sveitin ná sínum fyrri ljóma, „og yfir bárum Breiðafjarðar / mun braga í gulli aldarmorgun nýr.”
Vatnaskil
Næstu árin koma út tveir sjálfstæðir ljóðaflokkar, Sóleyjarkvæði (1952) og Hlið hins himneska friðar. Sóleyjarkvæði fjallaði að mestu leyti um átökin um veru bandaríska hersins hér á landi. Þar stillir Jóhannes upp tákngervingi íslenskrar alþýðu andspænis erlendu auðvaldi og hernaðarhyggju. Þjóðkvæðablær var á ljóðaflokkinum og seinna var hann gefinn út af Æskulýðsfylkingunni á hljómskífu.
Þegar hér er komið sögu er hins vegar komið að vatnaskilum í kveðskapi Jóhannesar. Um þetta leyti fara að birtast eftir hann órímuð ljóð með breyttri myndbyggingu. Að vísu undir nafninu Anonymus. Árið 1948 komu út ljóðþýðingar á ýmsum nútímaljóðum sem nefndust Annarlegar tungur og árið 1955 gefur skáldið út nútímalegt verk undir eigin nafni, Sjödægru.
Sjödægra er eins og önnur verk Jóhannesar barn síns tíma. Að vísu er yfir bókinn blær þjókvæða líkt og í Sóleyjarkvæði og hún speglar öðrum þræðinum kalda stríðið, óvissu og ugg. Óttinn við kjarnorkuvá er áberandi og ekki síður andúðin á andvaraleysi og hugleysi frammi fyrir henni:
Þetta mórauða skólp sem hnígur þyngslalega um æðar vorar
það er ekki mannsblóð
ekki hinn skapandi lífsflaumur kynslóðanna
heldur tóbak og kaffi og brennivín.
…
Verður blóð vort þá fyrst rautt og heitt og lifandi
þegar vér liggjum helsærðir í valnum
og það fossar niður í rúst vorrar glötuðu ættjarðar?
Í kvæðinu Hellisbúa dregur skáldið upp mynd af ljóðsjálfi sem er „skógarmaðurinn / á Sjödægru / líf mitt blaktir / á einni mjórri fífustöng”. Þessi óvissa tilvera er megintónn verksins. Jóhannes hefur einnig tileinkað sér að sumu leyti ný vinnubrögð í bók þessari, lætur fremur myndir tala en mælskan texta. Innra líf og persónulegt fá meira rými á kostnað stéttabaráttu og þjóðfélagsmála þótt þetta tvennt hverfi engan veginn af vettvangi. Mater dolorosa er eftirminnilegt minningarkvæði um móður hans og sum kvæðin í bókinni fá á sig fíngerðan, allt að því austrænan blæ. Eitt þeirra er kvæðið Bernska:
Enn er mér í minni þá ég sat svo lítill
á flauelsgrænni mosaklöpp
og blámi augna minna
og blámi himinsins
mættust í tíbránni
hversu hann iðaði og skalf
þessi fíni gagnsæi silkivefur
sem tilvonandi brúður mín hafði ofið úr draumum móður sinnar
með ósýnilegum geislafingrum.
Óljóð (1962), næsta ljóðabók Jóhannesar, var raunar mun nýstárlegri en Sjödægra, spunnin úr mikilli myndauðgi, leik að orðum, ævintýrum og þjóðsagnaminnum en umfram allt óreiðu samtímans. Kalda stríðið geisaði sem aldrei fyrr. Jóhann Hjálmarsson kallar kveðskap hans „þjóðtrúarsúrrealisma” í bók sinni Íslenzk nútímaljóðlist og nálgast nokkuð vel kjarna verksins. Óljóðum var tekið fremur fálega af sumum samherjum Jóhannesar í pólitík. Í bókinni gætir efasemda um stefnuna, spurt er hví félagi Stalín hafi orðið forherðingu að bráð og persónudýrkun Maós formanns gagnrýnd enda segist höfundurinn vera með „dálitla endurskoðun á heilanum”. En umfram allt er það nýstárleg framsetning efnis sem mætir gagnrýni. Bjarni Benediktsson frá Hofteigi kemst þannig að orði í ritdómi í Frjálsri þjóð að honum sýnist alvara Jóhannesar „ ekki ævinlega njóta sín vegna nýjungagirni hans um myndir og allt orðafar.” Hann kvartar undan því að ginnungagap sé á milli orðanna og þess veruleika sem þeim sé ætlað að túlka og telur það fráleitt að „túlka absúrdan heim í absúrdum skáldskap”.´
En mér er spurn: Er til önnur og betri leið? Ég hygg að hér sé á ferðinni nokkuð vanmat á gildi Óljóða því að í þeim er í raun mögnuð túlkun á veruleika kalda stríðsins. Óreiðan og kjarnorkuógnunin eru bakgrunnurinn, „vor gamli veruleiki er að leysast upp í skothríð / ósýnilegra frumeinda” og kalda stríðið hvílir eins og mara á öllum „og allir sem heyja þetta kalda dauðastríð / eru blaktandi blaktandi strá”. En í forgrunni er sprengikynjaður texti:
Í hjarta mínu er lítill skúti
þar sem mannssonurinn bíður dauðvona
eyðimörk í vestri
frumskógur í austri
það rignir eldi og brennisteini
niður í myrkan dal örvæntingarinnar
yfir lömb ímin og kið
einu sinni trúði ég á réttlætið
suður æðar mínar ríða skapanornirnar
gulnuðum hrífuskaftsbrotum
á flótta undan
rafmagnsljósinu
en norur taugar mínar fljúga geltandi
helsingjar
oddaflug
íleit að réttlætinu
kannski það leynist í dauða skrælingjanum
bak við sykurtoppinn
Lofgerðarskáld
Síðustu bækur Jóhannesar bera vitni þess að hann er öðrum þræðinum að gera upp eilífðarmálin. Raunar má greina myrka tóna í þeim bókum. Hann örvæntir um framgang heimsbyltingarinnar í Tregaslag (1964): „Milli svefns og vöku æpi ég út í myrkrið / heimbyltingin mun aldrei koma / fyrr en við hrökkvum upp af þessu móki / við hreina kristaltóna frelsisins / í okkar eigin hjörtum!” Honum finnst starf sitt sem boðbera lítinn árangur bera og segir að nú sé skylt að sætta sig við það „að bjarnanóttin hljóð sé hnigin að / og máli mínu lokið.” En í Nýjum og niðum (1970) er þó ljóst að hann lætur hvergi deigan síga: „Ofstæki vort er heilagt”, segir þar. En handan glímu þjóðfélagsmálanna er viðleitni Jóhannesar til að „handsama guð”.
Oft er erfitt að greina á milli gamans og alvöru í umfjöllun Jóhannesar um guðdóminn. Í Mannsyninum (1966) sem er ljóðaflokkur að mestu skrifaður á kreppuárunum skoðar hann Krist í alþýðlegu ljósi og gerir hann að jarðneskum byltingarforingja. Víða finnum við Krist sem huggara og mannlegleikans kraft, kristilegrar siðfræði gætir í kvæðum hans og þótt trú Jóhannesar yrði stundum grannur þráður og breytist jafnvel í einhvers konar mannhyggju var hann í eðli sínu lofgerðarskáld sem þurfti á háleitum hugsjónum að halda. Hann hefur raunar sjálfur sagt: „Það hefur löngum verið árátta mín að yrkja lofsöngva”. Hvort sem þeir lofsöngvar fjölluðu um Stalín, Mao eða Dimitroff, Ísland, náttúruna eða guð voru þeir honum eðlileg viðbrögð við tilverunni, hans háttur við að takast á við hana og fagna henni. Í seinustu bókum hans rennur landið og guðdómurinn raunar saman í lofgerðarkvæðum um allífið í einhvers konar algyðistrú. Í Sólarsögu í bókinni Ný og nið segir:„ Ég er í þér og þú ert í mér / og við erum í öllu og allt er í okkur” og í kvæðinu Í guðsfriði segir:
Maðurinn í landinu
landið í manninum
– það er friður guðs.
Í skáldskapi hins fullþroskaða skálds, Jóhannesar úr Kötlum blandast á svipaðan hátt og fyrr náttúrudýrkun og guðstrú og þótt sósíalísk byltingarhyggja og hugmyndafræði taki við af ungmennafélagsandanum er hún ekki alveg laus við að vera rómantísk sveitalífsstefna með trú á landið og félagslegar framfarir, jafnvel þegar dimmir yfir og efinn sækir að. Þannig er hugsýn Jóhannesar og um hana er lofgjörðin fyrst og fremst sem svo mjög setti mark sitt á ljóð hans.
Skafti Þ. Halldórsson
Skafti Þ. Halldórsson hefur verið bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins til fjölda ára.
Greinin birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins þann 30. október 1999.