Milli steins
og sleggju
1969 á RÚV: Samtalsþáttur Matthíasar Johannessens: Jóhannes úr Kötlum
Unnið upp úr þætti Ríkissjónvarpsins 1969
Víða er komið við í samtalinu. Rætt um skáldskap Jóhannesar, tíðarandann og framtíðina sem Jóhannes segist ekki bjartsýnn á. Þykir honum sem frumsmiðurinn standi við lúbarið grettistak og reiði til höggs og mennirnir sitji ósjálfbjarga í lausu lofti milli steins og sleggju:
Því miður er mér satt að segja heldur dimmt fyrir augum, hvort heldur sem ég lít til okkar eigin þjóðar ellegar umheimsins. Þegar þær fáu hræður sem búa í þessu landi verða orðnar, hvað eigum við að segja, einhvers konar hersetin stóriðjupeð, þá mega þær sannarlega gæta sín betur hér eftir en hingað til.
Jóhannes úr Kötlum er Dalamaður í húð og hár. Fæddur rétt fyrir síðustu aldamót og hefur komið mikið við sögu íslenskra bókmennta síðastliðna fjóra áratugi. M.a. hefur hann sent frá sér 15 frumsamdar ljóðabækur af ýmsu tagi. Hann hefur ekki alltaf verið jafn mildur í máli og í þeim ljóðum sem flutt verða hér í kvöld, því að lengi hefur verið litið á hann sem einhvern blóðrauðasta bolsann í bókmenntum þessa tímabils. Því hefur þótt við hæfi að yngri skáldbróðir hans, eins og Jóhannes hefur komizt að orði, og pólitískur andstæðingur eða öngþveitismaður, eins og Þórbergur mundi sagt hafa, heimsækti hann hér að heimili hans að Kleppsvegi 44 og yrti hann orðum.
Fyrsta spurningin sem ég vildi spyrja þig, Jóhannes, er þessi: Bar mikið á ljóðlistaráhuga í heimahögum þínum?
„Ég er alinn upp í afskekktu heiðarkoti þar sem bókakostur var nú af æði skornum skammti en hins vegar voru tvær mjög ljóðelskar konur á heimilinu, móðir mín og sambýliskona okkar, og það var fyrst og fremst af þeirra vörum sem ég drakk í mig þessa óviðráðanlegu skáldskaparástríðu sem hefur loðað við mig síðan.”
„Ég minnist hins skemmtileg kvæðis þíns, Karl faðir minn, raunsönn lýsing á æskuumhverfi þínu, kjörum fólksins þar og því sem þú sást í æsku. Hver urðu viðbrögð föður þíns við ljóðum þínum?”
„Það kvæði er nú að mestu leyti reist á staðreyndum enda þótt það um leið feli í sér almenn sannindi um lífskjör kotbóndans á þeirri tíð. En í rauninni er það öðrum þræði harkaleg uppreisn gegn þeirri sveitarómantík sem hafði einkennt tvær fyrstu bækur mínar. Í rauninni er þetta eitt raunsæjasta kvæði sem ég hef ort og vitanlega vakti bersögli þess töluverðan úlfaþyt. M.a. var haft á orði að þarna væri um föðurníð að ræða en þó að faðir minn blessaður væri nú ekki mikið upp á bókaramennt þá var það samt svo að hann tók kvæðinu af þessum eðlislæga skilningi sem óbrotnu alþýðufólki er oft svo eiginlegur.”
Í fyrstu bókum þínum ber mikið á trúhneigð, Jóhannes, var það heimafenginn arfur?
„Vissulega var móðir mín mikil trúkona en auk þess hélt ég áfram að samlagast vissum kristilegum þenkimáta í kynnum mínum af ungmennafélagshreyfingunni og svo síðar við veru mína í Kennaraskólanum undir handarjaðri sr. Magnúsar Helgasonar. Annars hefur mér alltaf fundizt vera mjótt á milli trúhneigðar og skáldhneigðar enda þótt trú eins geti komið fram í mismunandi myndum.”
Já, víst hefur það sannazt á þér því seinna gerðist þú trúarskáld með annan boðskap. Hverjum tókst að spilla þér þannig, þessum saklausa sveitapilti?
„Ja, það raunverulega spillingarafl var náttúrulega sjálft auðvaldsskipulagið, heimskreppa þess og fasismi. En sá einstaklingur sem í þann tíð af allra mestum fídónskrafti prédikaði fyrir mér kommúnisma var enginn annar en sjálft átrúnaðargoð þitt, Steinn Steinar. Hann hafði verið nemandi minn fyrir vestan og orðið mér mjög kær og handgenginn. Svo þegar ég fluttist hingað til bæjarins var hann kominn þangað á undan mér og þá þegar orðinn eldheitur byltingarsinni. Og nú var það hann sem fór að kenna mér.”
Já, nú minnist ég afmælisgreinar Jóhannes, sem Steinn Steinar skrifaði um þig fimmtugan. Hann sagðist hafa pínt inná þig kommúnisma og orðrétt segir hann að hann hafi verið þessum fyrsta og einasta læriföður sínum baldinn nokkuð. Er frásögn hans af viðskiptum ykkar sannleikanum samkvæmt?
„Ja, sú grein er náttúrulega skrifuð af þeim skemmtilega tvískinnungi alvöru og skáldaleyfis sem var Steini alla jafnan svo tiltækur. En sannleikurinn er nú sá að þó að á milli okkar Steins lægi alla tíð römm taug, þá vorum við í raun og veru mjög ólíkir að eðlisfari. Það var aftur á móti margt líkara með Steini og Stefáni heitnum frá Hvítadal, sem var okkur samtíða þarna í suðurbænum. Og ég hygg að þaðan hafi hann einmitt haft fordæmið að þessari hárbeittu og sefjandi samtalslist sem hann iðkaði jafnan síðan allt fram í andlátið.”
Já, ég kynntist henni og svo hélduð þið áfram að berja rauðu bumburnar?
„Jú, jú víst var svo um skeið. Að vísu fór nú Steinn bráðlega að hneigjast svona til heimspekilegrar efahyggju og almennrar heimsádeilu. Trú hans á byltinguna endaði nú með því, eins og þú kannski manst, að hann jós bölmóði sínum yfir Kreml og allt það hafurtask en ég hélt áfram að þruma minn heittrúaða boðskap í anda verkalýðsbaráttu og fólksins.”
Og hefur þér aldrei fundizt þú hafa hlaupið á þig þegar þú á þessu tímabili ortir svo frumleg ljóð í andanum sem “Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú” og lofkvæðið um Stalín.
„Ja, vegna nafnsins á fyrra kvæðinu sem þú nefndir hafa nú kannski sumir haldið – og þá sérstaklega þeir sem aldrei lásu kvæðið – að ég væri þar að biðja blessaða Rússana að koma og taka okkur, en ég held nú endilega að mér sé óhætt að fullyrða það að rússnesk herseta hefði orðið engu sársaukaminni fleinn í mínu holdi en sú ameríska. Hins vegar var það sannfæring mín að sameignarskipulag væri framtíðarlausnin og mér fannst hreint engin goðgá að spurja eins og gert er í kvæðinu, hvenær kemur þú lífsviljans land með ljóma strætanna, hljómfall vélanna, blóm og söng, hvenær kemurðu með kraft lífsins, eld áhugans, innileik bróðurþelsins. Hvenær! Hvenær!
Og svo er það þá lofsöngurinn um Stalín. Í því kvæði er náttúrulega fyrst og fremst um að ræða einskonar persónugerving minnar eigin óskhyggju í ljósi þeirrar goðsagnar sem hafði myndazt í kringum þennan son skógarans. Svona fannst mér þá endilega að hinn mikli sigurvegari í stríðinu gegn nazismanum ætti að vera. Og síðari uppljóstranir í sambandi við framferði þessa stálmanns þarna frá Grúsíu segja svo sem hvorki til né frá um listgildi þessarar myndar, út af fyrir sig. Þetta veit ég að þú, sálmaskáld á atómöld, skilur allra manna bezt. Annars finnst mér nú að þið morgunblaðsmenn mættuð vera mér öllum öðrum þakklátari fyrir þessi tvö kvæði svo oft og lengi sem þið hafið notazt við þau eins og nokkurs konar kórónu á kommúnistagrýluna.”
Ja, við höfum nú ekki búið til þá grýlu, Jóhannes, og þarf ég ekki annað en að vitna í orð Krúsjefs sjálfs til þess að minna þig á að hann staðfesti alla morgunblaðslygina. En gaman þykir mér að minna þig einnig á það að þú hefur nú sjálfur ort ljóð um þessa grýlu og lýst henni betur en allir aðrir: Grýla hét tröllkerling, leið og ljót, með ferlega hönd og haltan fót. En hvernig stendur svo á þeirri hógværð og hlédrægni sem einkenna flest kvæðin þín í Eilífðar smáblómum.
„Áður en ég svara því þá langar mig til þess að lýsa því yfir hvað vænt mér þykir um það að þú skulir ennþá kunna grýlukvæði mitt sem ég veit að þú hefur lært þegar þú varst svo lítið og gott barn að grýla gamla lagðist í bólið og dó. En svo ég víki nú aftur að spurningu þinni um Eilífðar smáblóm, þá er það nú svo að samhliða baráttukvæðunum í öllum mínum bókum hafði verið að finna ljóð um landið og náttúru þess og fólk. En orsökin til þess að þarna kom heil bók um einföldustu lífsgildi okkar þúsund ára sveitamennsku var m.a. sú að ég hafði um þær mundir, á upphafsárum seinni heimsstyrjaldarinnar, dvalizt tvö sumur uppá öræfum og þá komizt eins og í nánari snertingu við sjálfan mig og uppruna minn en oftast endranær.”
Á menntaskólaárum mínum tóku að birtast ljóð eftir Anonimus sem vöktu athygli. Þegar það kom í ljós að þú værir höfundur þeirra veltu menn því fyrir sér og ekki sízt við sem þá vorum ung að þessi mikli rímari fór að yrkja svo lausbeislað form. Tókstu þetta dulnefni til að móðga ekki neinn af þínum gömlu aðdáendum?
„Í sem fæstum orðum get ég sagt að ég þóttist finna að mitt hefðbundna form væri að hafna í stöðnun og að ljóðagerð mín þarfnaðist aukins svigrúms og endurnýjunar. Dulnefnið tók ég ekki upp af varúðarástæðum heldur til þess að leita meira hlutleysis, hlutlausra viðbragða við þessum tilraunum mínum á meðan ég væri að átta mig á árangri þeirra og gildi.”
Og 1962 komu svo Óljóð þar sem þú hættir þér enn lengra í upplausn formsins og raunar innihaldsins líka og sumir höfðu á orði að nú lægju loksins á borðinu sannanir fyrir því að þú værir orðinn geggjaður.
„Já, vissulega gat virzt svo að gömlum kennara og háttalykilsmanni væri ekki aldæla að koma þarna með heila bók þar sem hvorki fyrirfannst upphafsstafur né lestrarmerki, að maður tali ekki um sjálft orðbragðið þar sem t.d. þessar ljóðlínur eru: {dbcomma}Hvað segir mogginn hvað segir pravda / mogginn það þýðir morgunblaðið / eigum vér þá að segja upp morgunblaðinu / pravda það þýðir sannleikurinn / eigum vér þá að hætta að leita sannleikans.”
En hvað sem skáldskapargildi þessarar bókar annars líður, þá er það eitt víst að í henni er að finna einhver óvægilegustu reikningsskil mín við samtíðina og vel að merkja ekki sízt við einmitt kommúnismann. Það hélt maður nú satt að segja að ráðsettir góðborgarar mundu síðast af öllu flokka undir geggjun.”
Nei, en svo við höldum áfram Jóhannes, vil ég minna þig á að tveimur árum seinna birtist svo bókin Tregaslagur, sem lesið verður úr hér á eftir, þar sem þú velur þér aftur hógværari eða hóglátari tjáningu og ferð að föndra við ný afbrigði af rími. Hvað olli því afturhvarfi?
„Það er nú kannski rétt að benda á það að á milli þeirra bóka sem hér eru kynntar í kvöld liggur hvorki meira né minna en aldarfjórðungsskeið. En eins og bækurnar Hart er í heimi og Eilífðar smáblóm urðu til svo að segja samtímis, svo ólíkar sem þær annars að ýmsu leyti eru, þá er þetta eins um Óljóð og Tregaslag. Í báðum tilfellunum eru þær síðarnefndu einskonar persónubundin frávik frá þessu sífellda samfélagslega umróti sem hafði sótt svo fast á mig. Sem sagt baráttuhlé. Hitt er svo aftur rétt að nýju rímafbrigðin í síðasta hluta Tregaslags, þetta sem ég kalla “Stef úr glataðri bók”, er að nokkru leyti afturhvarf en þó um leið tilraunir til sem allra mestrar einföldunar á strangri ljóðrænni háttbindingu.”
Og hvað viltu svo helzt segja um íslenzka nútímaljóðlist og þá sérstaklega yngstu skáldin. Ég á ekki við að þú gefir hverjum einstökum einkunn, það er nóg af því, heldur þróunina?
„Slíkri spurningu er nú ekki hægt að gera viðhlítandi skil í stuttu máli en það eitt er víst að hlutur ljóðsins hefur gerbreytzt við þá miklu þjóðlífsbyltingu sem hér hefur átt sér stað að undanförnu. Ljóðið er ekki lengur það meginafl sem það var í þjóðernisbaráttu og alþýðumenningu þeirrar snauðu en skáldlegu bændaþjóðar sem hér sótti fram fyrir og eftir aldamótin, heldur virðist nútímaljóðið, eins og raunar aðrar listgreinir og menningarlíf okkar yfirhöfuð, stefna til sífellt innhverfari sérhæfingar. Gamli opinskái hugsjónaboðskapurinn virðist ekki lengur gjaldgengur, heldur leitar þróunin æ meir yfir í einhvers konar margræðar sálarflækjur og myndgátur, náttúrulega í samræmi við upplausn og ringulreið samfélagsandans. Það er þess vegna ekkert undarlegt þó að einföld og alþýðleg lífstjáning, sem hér er verið að kynna, láti í eyrum róttækra framúrstefnumanna eins og hvert annað innantómt hjal sem á ekkert erindi til nútímans.”
Og að lokum, Jóhannes. Nú höfum við báðir lifað vargöld. Hvernig segir þér hugur um framtíðina? Telurðu að nokkur von sé til þess að þessum illdeilum og hjaðningavígum milli einstaklinga og þjóða linni?
„Því miður er mér satt að segja heldur dimmt fyrir augum, hvort heldur sem ég lít til okkar eigin þjóðar ellegar umheimsins. Þegar þær fáu hræður sem búa í þessu landi verða orðnar, hvað eigum við að segja, einhvers konar hersetin stóriðjupeð, þá mega þær sannarlega gæta sín betur hér eftir en hingað til, ef þær ætla ekki að glata sjálfsvirðingu sinni og frumburðarrétti. Sprengiöflin í heimsmálunum yfirleitt virðast mér slík að þar megi hvenær sem vera skal búast við hverju sem verða skal nema því að einu að maður reyni að fela sig á bak við einhverja óraunhæfa bjartsýni sem gæti þá og þegar snúizt upp í örlagaríkt andvaraleysi. Það er satt að segja ekkert björgulegt að öll þessi undursamlegu tæknivísindi nútímans skuli fyrst og fremst miða við síaukið vígbúnaðarkapphlaup og síaukið geimskotakapphlaup á sama tíma sem sá mikli meirihluti mannkynsins sem berst við hungurvofuna stækkar með hverjum deginum sem líður. Kannski lýsi ég núverandi hugarástandi mínu ekki betur en með óprentuðu smáljóði sem þannig hljóðar:
Frumsmiðurinn stendur
við lúbarið grettistak,
reiðir til höggs
í lausu lofti titrum við ósjálfbjarga
milli steins og sleggju.
Matthías Johannessen
Matthías Johannessen (f. 3. janúar 1930) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram háskólanámi og síðar ritstjóri þess á árunum 1959–2000. Fyrsta ljóðabók Matthíasar Borgin hló kom út árið 1958 og vakti töluverða athygli. Síðan hefur hann gefið út tugi ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita og viðtalsbóka.
Kristinn Ingvarsson
Kristinn Ingvarsson hefur starfað sem ljósmyndari hjá Morgunblaðinu allt frá árinu 1992. Hann er hvað þekktastur fyrir portrettmyndir sínar og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir ljósmyndir sínar gegnum árin en hróður hans nær einnig út fyrir landsteinana; National Portrait Gallery í London á sem dæmi þrjár myndir eftir Kristin.
Viðtalið birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins þann 30. október 1999 en Ríkissjónvarpið sýndi fyrst sjónvarpsupptökuna árið 1969.
Skáld lífs
og lands
Jóhannes úr Kötlum 4. nóvember 1899 / 4. nóvember 1999
Þegar hann kom fram ungt skáld árið 1926 með sína fyrstu bók virtist hann aðeins ætla að verða enn ein bakröddin í nýrómantískri hljómsveit þeirra Davíð Stefánssonar og Stefáns frá Hvítadal. Bókin hét Bí bí og blaka og stóð vel undir nafninu sem fengið var að láni úr alþekktri vögguvísu. En vísan leynir á sér og það gerði skáldið unga líka. Hann hélt áfram að nota hendingarnar í bókarnöfn: Álftirnar kvaka (1929), Ég læt sem ég sofi (1932)
. . . Og þegar Samt mun ég vaka kom út, 1935, var draumhuginn úr fyrstu bókinni orðinn byltingarsinni. Sú bók varð, splunkuný, guðspjall dagsins hjá verkfallsvörðum á jólanótt, eins og Jón úr Vör segir frá í viðtali í Birtingi 1957.
Skáldið sem lét vísuna góðu leiða sig áfram til róttæks sósíalisma var Jóhannes úr Kötlum og í dag eru nákvæmlega hundrað ár síðan hann fæddist að Goddastöðum í Dölum. Hann lauk prófi frá Kennaraskólanum 1921 og kenndi nokkur ár á eftir en vann lengst af fyrir sér með ritstörfum og ritstjórn.
Hann var geysilega afkastamikið skáld, gaf út fimmtán frumsamdar ljóðabækur, flestar efnismiklar, og eitt frægt safn af þýddum ljóðum, Annarlegar tungur (1948), fimm bækur með barnaljóðum, fimm skáldsögur og eitt safn af barnasögum, þýddi mikið, skrifaði greinar og ritdóma.
Jóhannes var í fyrstu borinn fram af hinni sterku og áhrifamiklu ungmennafélagshreyfingu sem setti svo mikinn svip á fyrstu áratugi aldarinnar. Í fyrstu bókunum er hann gagntekinn af trú á landið, þjóðina og guð og orti mörg innblásin ljóð um átrúnaðargoð sín. En fljótlega fer honum að sárna óréttlætið í heiminum og misskipting lífsins gæða. Strax í Álftirnar kvaka birtir hann ljóðið ,,Mannsbarnamóður³ sem lagt er í munn örsnauðri konu sem kveður vögguljóð við barn sitt og eins og títt er um íslensk vögguljóð er það fullt af óhugnaði. En óhugnaðurinn stafar ekki af draugum og forynjum næturinnar heldur af veðurhamnum úti fyrir og örbirgðinni innan dyra ‹ og endirinn gefur í skyn að barnið sé dáið.
Ætla má að einkum tvö bókmenntaverk hafi snúið Jóhannesi til sósíalisma, Alþýðubókin eftir Halldór Laxness (1929) og ljóðabókin Hamar og sigð eftir Sigurð Einarsson í Holti (1930) sem varð eins konar hugmyndabanki fyrir róttæk skáld á kreppuárunum. Í fyrsta kvæðinu í Ég læt sem ég sofi (1932) segir Jóhannes:
Ég orti áður fyrri
um ástir, vor og blóm.
En nú er harpan hörðnuð
og hefur skipt um róm.
Hún breytist, eins og annað,
við örlaganna dóm.
Þegar hér var komið sögu var kreppan gengin í garð með sínum síharðnandi andstæðum milli þeirra sem máttu sín einhvers og einskis. Jóhannes horfir hneykslaður á misréttið og yrkir “Opið bréf³ til guðs þar sem hann ber þetta fyrrverandi átrúnaðargoð sitt þungum sökum ‹ en hlýtur þó að þakka honum skáldskapargáfuna, rétt eins og Egill þakkaði Óðni forðum. Þetta er á köflum máttugt kvæði í tilkomumiklu orðskrúði sínu.
Sama árið, 1932, kom út sú bók Jóhannesar sem langvinsælust hefur orðið, prentuð ótal sinnum og kennir öllum íslenskum börnum að þekkja nafnið hans: Jólin koma. Hvaða íslenskt barn á hvaða aldri sem er hefur ekki sungið þessa vísu:
Bráðum koma blessuð jólin,
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt,
í það minnsta kerti og spil.
Í bókinni eru kvæðin alþekktu um Grýlu, jólasveinana og jólaköttinn sem öllu öðru fræðslu- og skemmtiefni fremur hafa haldið lífi í þessum vættum í minni þjóðarinnar.
Jóhannes vann gjarnan að nokkrum ljóðabókum í senn og skipti svo efninu á milli þeirra af eðlislægri smekkvísi. Til dæmis vann hann að fjórum ljóðabókum á árunum 1935-40 svo ólíkum að vel mætti trúa því að þær væru eftir fjóra menn. Í Hrímhvítu móður (1937) er gerð tilraun til að yrkja nýja Íslandssögu í lotulöngum kvæðum. Í Hart er í heimi (1939) er samtíminn tekinn fyrir, lið fyrir lið, í hörðum pólitískum kvæðum. Jóhannes nær meira að segja að yrkja um nýbyrjaða heimsstyrjöld. Í Eilífðar smáblóm (1940) eru stutt og persónuleg ljóð á flótta frá stríði og dauða, mörg undurfalleg. Fjórða bókin, Mannssonurinn, var ort á þessu skeiði en kom ekki út fyrr en 1966. Þar er saga Jesú Krists rakin í hlýlegum smákvæðum.
Eftir stríðið varð baráttan gegn erlendri hersetu á Íslandi brýnni en baráttan fyrir bættum kjörum, en þó að mörg skáld hafi lagt hönd á plóg gegn her í landi á Jóhannes langfrumlegasta verkið. Sóleyjarkvæði (1952) er langur epískur bálkur, ortur undir léttum þjóðkvæðaháttum, harður og nístandi og fagur og leikandi til skiptis. Þar segir frá Sóleyju sólufegri sem verður fyrir því óláni að elskhugi hennar, hinn frækni frelsissöngvari, er stunginn svefnþorni og hún getur ekki vakið hann. Öll náttúran lamast þegar söngvarinn þagnar og Sóley sjálf verður fyrir ofsóknum illþýða þegar hún reynir að vekja hann. Í heild sinni er þessi bálkur óviðjafnanlegur og hefur ásamt barnaljóðunum öðru fremur haldið nafni Jóhannesar lifandi meðal almennings. Pétur Pálsson gerði lög við mörg ljóða flokksins og hann hefur tvisvar verið tekinn upp á hljómplötu, í fyrra skiptið af hópi listamanna á vegum herstöðvaandstæðinga, í seinna skiptið af Háskólakórnum. Sú kynslóð sem nú er á fertugsaldri ‹ börn 68-kynslóðarinnar sem Jóhannes hafði svo mikla trú á kann þessi ljóð síðan í bernsku og syngur þau, kannski án þess að vita eftir hvern þau eru.
Jóhannes var ,,mesti forkur að ríma” eins og hann segir um sjálfan sig í ,,Æviágripi” í Sól tér sortna (1945) og þegar órímuð ljóð fóru að birtast árið 1945 í Tímariti Máls og menningar eftir skáld sem kallaði sig Anonymus datt ekki nokkrum manni í hug að þar færi sjálfur Jóhannes úr Kötlum.
Sjálfur sagðist hann í Birtingsviðtali 1957 ævinlega fá vonda samvisku þegar máttarstólpar þjóðfélagsins verðlaunuðu skáldskap hans ‹ þá stökkvi hann út undan sér! Eftir verðlaunin sem hann fékk árið 1930 fyrir Alþingishátíðarkvæði varð hann sósíalisti. Eftir að hann deildi fyrstu verðlaunum með Huldu fyrir lýðveldishátíðarljóð 1944 fór hann að yrkja óhefðbundið.
Enginn hefur útskýrt það betur en Jóhannes sjálfur í ljóðinu ,,Rímþjóð” hvers vegna bragbreytingin varð einmitt á þessum tíma, eftir síðari heimsstyrjöld en ekki fyrr eins og í grannlöndum okkar. Við þurftum fyrst að verða fullvalda fólk í öllum skilningi:
Í sléttubönd vatnsfelld og stöguð
hún þrautpíndan metnað sinn lagði
í stuðla hún klauf sína þrá
við höfuðstaf gekk hún til sauða.
Því rýrari verður í aski
því dýrari háttur á tungu:
við neistann frá eddunnar glóð
hún smíðaði lykil úr hlekknum.
Loks opnaðist veröldin mikla
og huldan steig frjáls út úr dalnum
þá sökk hennar rím eins og steinn
með okinu niður í hafið.
Þessi gagnorða íslenska bókmenntasaga birtist fyrst 1947 og síðan í Sjödægru, ljóðabókinni þar sem Jóhannes kom fram sem nýtt skáld árið 1955, þótt kominn væri hátt á sextugsaldur.
Sjödægra er í sjö hlutum. Í þeim fyrsta eru hefðbundin ljóð, í öðrum hluta órímuð og óstuðluð ljóð með háttbundinni hrynjandi, eins og ,,Rímþjóð”, eftir það taka við ljóð í frjálsu formi. Alltaf notaði Jóhannes þó hefðbundin brageinkenni þegar honum hentaði í kveðskap sínum, en eftir bragbyltingu hans verður myndmálið markvissara og bygging ljóðanna hnitmiðaðri en fyrr.
Efnið er áfram blanda af ljóðrænum náttúruljóðum, þjóðernislegum ljóðum og pólitískum skáldskap, og sem fyrr yrkir hann um sársaukafulla samtímaviðburði, fjöldamorð á Gyðingum og frelsisbaráttu Keníubúa, en hér bætast við móderískari ljóð, þrungin tilvistarangist, eins og “Hellisbúi³ sem endar á þessu erindi:
Ég er skógarmaðurinn
á Sjödægru:
líf mitt blaktir
á einni mjórri fífustöng
Aldrei náði þó svartsýnin yfirhöndinni í ljóðum Jóhannesar, til þess hafði hann of mikla samúð með manninum og baráttu hans fyrir brauðinu.
Á árunum eftir að Sjödægra kom út fóru ung skáld, Ari Jósefsson, og Dagur Sigurðarson að ýfast við innhverfri svartsýni módernistanna og heimta hið skorinorða ljóð aftur til að andæfa köldu stríði sem gerði sig líklegt til að tortíma öllu mannkyni. Jóhannes kunni vel við þann brag og í Óljóðum (1962) skipar hann sér í þá sveit og yrkir kjaftfor og uppreisnargjörn ljóð sem helmingi yngra fólk hefði verið fullsæmt af:
kannski er hægt að ríma saman já og nei
kannski er hægt að skapa myndheild úr ringulreið
kannski er hægt að gæða djöfullegustu pyndingar
ljúfri hrynjandi
en hvern gleður hin sjálfumnæga verund ljóðsins
þegar sprengjan hefur breytt jörð og mannkyni í
einn logandi hvell
Þegar Jóhannes úr Kötlum lést, 1972, stóð hann enn í eldlínunni í róttækri uppsveiflu, dáður af ungum skáldum og ungu róttæku fólki í landinu. Þegar sú sem þetta ritar kenndi íslenskar bókmenntir við Háskóla Íslands á áttunda áratugnum vildu nemendur helst ekki lesa neitt annað skáld. Hann trúði því, eins og fram kemur í síðustu bók hans, Ný og nið (1971), að þetta unga fólk myndi standa sig betur í baráttunni fyrir betri heimi en hans kynslóð hafði gert. Hann óskaði þess sjálfur að hann hefði fremur barist með hnúum og hnefum en í ljóðum sínum, en þá hefðu þau ekki verið til taks áfram handa þeim sem vilja nota þau í þeirri baráttu sem var honum svo hugstæð.
Silja Aðalsteinsdóttir
Silja Aðalsteinsdóttir – rithöfundur, þýðandi og bókmenntafræðingur, er þekkt nafn í íslenskum bókmenntaheimi. Síðustu árin hefur Silja starfað sem ritstjóri hjá Forlaginu.
Jóhann Páll Valdimarsson
Jóhann Páll Valdimarsson er bókaútgefandi og liðtækur ljósmyndari.
Greinin birtist áður í Dagblaðinu Vísi þann 4. nóvember 1999 í tilefni 100 ára afmælis Jóhannesar úr Kötlum.
Kristur
og fram-
tíðarlandið
Trúarleg minni úr ljóðum Jóhannesar úr Kötlum 1926–1952
Í þessari grein verður fjallað um tvö trúarleg minni í kveðskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) á tímabilinu frá því fyrsta ljóðabók hans Bí, bí og blaka kom út 1926 þar til Sóleyjarkvæði birtist 1952. Þessi minni eru Kristur eða mannssonurinn og eftirvæntingarfull framtíðarsýn Jóhannesar. Því er síðarnefnda þemað talið trúarlegt að vonarrík framtíðarsýn er ríkur þáttur í kristinni trúarhefð og kallast á fagmáli guðfræðinnar eskatólógía (Eschatologie) sem merkir orðræða um hina hinstu tíma. Kristin eskatólógía kemur skýrt fram í lokaorðum trúarjátningarinnar frá Níkeu en þar segir: „Ég … vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“1Níkeujátningin. Sjá t.d. Sálmabók íslensku kirkjunnar 1997: kápusíða aftast. Hjá Jóhannesi liggur áherslan á síðari liðnum og kemur hún víða fram.
Ljóð eru heill heimur útaf fyrir sig þar sem form og inntak haldast í hendur svo vart verður sundur skilið. Merking ljóðs liggur enda oft á tíðum í samspili forms og inntaks. Á þetta benti Einar Bragi í ritdómi um eina af bókum Jóhannesar. þar segir hann: „Veruleiki ljóðs er ekki yrkisefnið sjálft, heldur mynd þess. Í góðu ljóði hverfur yrkisefnið í mynd sína, verður hún.“2Einar Bragi 1955: 38. Í þessari grein verður að mestu horft framhjá þessum sannindum og grafist fyrir um inntak eða boðskap ljóðanna jafnvel óháð mynd þeirra og formi. Mörgum kann að virðast þessi vinnuaðferð ljóðfjandsamleg. Hér er þó ýmislegt til málsbóta.
Mikinn hluta ferils síns var Jóhannes úr Kötlum boðandi baráttuskáld.3Kristinn E. Andrésson 1965: xii-xiii. Kristinn E. Andrésson 1979: 81. Þessi staðreynd veldur því að í mörgum ljóðum hans drottnar boðskapurinn yfir formi og ljóðmáli svo að vart getur talist misþyrming að draga boðskapinn fram. Má benda á að í einu ljóða sinna gefur Jóhannes í skyn að mat hans sé að inntak ljóðanna sé forminu æðra eða eins og hann segir:
Eins og ljóð vort er einfalt og auðskilið
og hirðir ekki um rósfjötra rímsins
né fjólublá faguryrði,
heldur sannleikann sjálfan,
eins munum vér berjast til þrautar…4Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 125-126. Um afstöðu Jóhannesar til ljóðforms og formbyltingar sjá og Jóhannes úr Kötlum 1965: 99, 100, 101-102, 176-180, 184-185, 201, 254-255, 288-289. (Leturbreyting HH)
Hér gefur Jóhannes út eins konar veiðileyfi á ljóð sín við vinnu af því tagi sem hér er gerð tilraun til. þá veita listfræðileg viðhorf Jóhannesar fullgilda ástæðu til að fjallað sé um kveðskap hans út frá inntaki og boðskap. Hann taldi að listinni bæri að þjóna ýmist trúarlegum, siðferðislegum eða þjóðfélagslegum markmiðum, vera „…vopn til eflingar ákveðnum hugsjónum, ákveðinni lífsstefnu“ þegar samfélagsaðstæður krefðust slíks. Má finna þeirri skoðun stað a.m.k. frá 1947. Á einum stað ræðir hann t.d. um „tilgangslist“ og má segja að drjúgur hluti að kveðskap hans falli undir þann flokk.5Jóhannes úr Kötlum 1965: 6-7. Sjá og sömu heimild 5, 150-154, 201 (tilgangslist), 288. Sjá Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 139. Jóhann Hjálmarsson 1971a: 56-57, 63-64. Jón Sigurðsson 1999: 27, 38, 40, 41. þrátt fyrir þetta ræðir Jóhannes líka um listina í sínu hreinasta formi sem „einskonar áslátt(ur) á undirvitundina, dularfullt samspil milli leyndardómsins í náttúrunni og manninum, skapandi leik(ur)“. Sama heimild 7 sjá og 83, 51, 200 (þar ræðir Jóhannnes tengsl skáldskapar og galdurs). Hann telur þó þjóðfélagsaðstæður krefjast þess að skáldið afsali sér því frelsi að stunda þennan leik ótruflað og iðka þannig listina hennar sjálfrar vegna. Kristinn E. Andrésson (1949: 138) telur Jóhannes þó jafnvel hafa iðrað þess að hafa ekki goldið listinni það sem henni bar. Meginmarkmið skáldskapar taldi Jóhannes vera að „…bjarga manninum frá andlegri tortímingu“ eða frelsa hann á máli trúarinnar.6Jóhannes úr Kötlum 1965: 211. Kristinn E. Andrésson (1949: 138, 139) nefndi Jóhannes réttilega „hugsjónaskáld“.
Áður en skilið er að fullu við ljóðformið skal minnt á að þar gætti mikillar togstreitu hjá Jóhannesi en hann var það skáld af sinni kynslóð sem hvað mestan þátt tók í formbyltingu ljóðsins á 20. öld.7Jóhann Hjálmarsson 1971a: 52-53, 57-66. Kristinn E. Andrésson 1979: 78-83. Jón Sigurðsson 1999: 33, 34, 37. Í tilvitnuðum ritdómi sínum telur Einar Bragi hann þó hálfvolgan í trú sinni á hið nýja ljóðform.8Einar Bragi 1955: 38. Hér geta þó önnur og ytri atriði komið til álita, þ.e. a.s. tvíbent afstaða hinnar vinstrisinnuðu bókmenntastofnunar til formbyltingarinnar. Hún taldi alþýðuna móttækilegri fyrir hefðbundnum kveðskap en atómkveðskap. þá gætti einnig vaxandi þjóðernishyggju í kringum lýðveldisstofnunina og inngöngu Íslands í NATO. Allt kann þetta að hafa haft áhrif á það ljóðform sem Jóhannes valdi sér hverju sinni. Sjá m.a. Örn Ólafsson 1990:125-129. Jóhannes var því baráttuskáld í mörgu tilliti, pólitískt, trúarlega og hvað ljóðform snertir og var togstreita í viðhorfum hans á öllum þessum sviðum.9Jón Sigurðsson 1999: 30, 31, 41-42.
Á trúarlega sviðinu gætti mikilla átaka hjá Jóhannesi sem þó verður ekki verulega vikið að hér.10Jóhann Hjálmarsson 1971a: 52, 67-68. Þess ber þó að geta að hann virðist hafa gengið í gegnum sinnaskipti á öndverðum höfundarferli sínum en undir öfugum formerkjum af sjónarhorni trúarinnar séð. Hann sýnist sem sé snúa baki við hefðbundinni kristinni trú sem hann var uppfræddur í á ungum aldri til afneitunar á hefðbundnum skilningi kirkjunnar á Guði.11Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 127, 139. Sjá og Kristinn E. Andrésson 1971:23. Jón Sigurðsson 1999: 31-32, 33. Stefán Einarsson (1961: 402) tímasetur sinnaskiptin fyrir 1932 eða áður en Ég læt sem ég sofi kom út. Líklegt er þó að þau eigi sér lengri aðdraganda. Þó má leiða að því rök að þessi afneitun hafi ekki orðið þess megnug að mynda grunn að nýrri og sjálfri sér samkvæmri lífsskoðun. Gerir það kveðskap Jóhannesar að áhugaverðu umfjöllunarefni fyrir guðfræðing.
Trúarafstöðu Jóhannesar hefur verið lýst svo að hann hafi alla tíð, einnig eftir sinnaskiptin, verið „mjög trúhneigður og brennandi í trúaranda“ og einkum hafi trú hans á skaparann og Krist lifað af allar efasemdir.12Jón Sigurðsson 1999: 32. Undir þessa lýsingu má vissulega taka. þó verður að líta svo á að þessi trú skáldsins hafi verið mjög frábrugðin hefðbundnum kenningum kirkjunnar.13Jón Sigurðsson 1999: 31-32. Trúarjátningu Jóhannesar má að einhverju leyti lesa út úr lokaerindi ljóðsins
Sálmur heiðingjans í upphafi Mannssonarins. þar segir hann hjarta sitt „heiðið“ og lýkur erindinu með þessum orðum:
þinn dýrlegi óður varð ekki
mín endurlausn – því er nú ver.14Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 10.
Þarna setur Jóhannes sig út af „sakramentinu“ en þó á þann hátt að trúhneigðin leynir sér ekki.
Hér verður byggt á Ljóðasafni Jóhannesar úr Kötlum sem gefið var út af Heimskringlu á 8. áratug 20. aldar og koma fimm fyrstu bindin einkum til álita.15Bí, bí og blaka 1926, Álftirnar kvaka 1929, Ég læt sem ég sofi 1932, Samt mun ég vaka 1935, Hrímhvíta móðir 1937, Hart er í heimi 1939, Mannsssonurinn 1966 (sjá þó nmgr. 20), Eilífðar smáblóm 1940, Sól tér sortna 1945, Sóleyjarkvæði 1952 og auk þess eitt ljóð (Jesús Maríuson) úr Sjödægru 1955. Þetta leiðir til þess að ekki er grafist fyrir um aldur eða fyrstu birtingu einstakra ljóða. Ekki má því draga harðar ályktanir um þróun í tíma af því sem hér verður sagt enda skipta nákvæmar aldursgreiningar í fæstum tilvikum verulegu máli. Hér verður meiri áhersla lögð á heildarlínur.
Mesta skáld þessa heims
Í eldri kveðskap Jóhannesar kveður ekki mikið að Kristi fyrir utan hugljúfar íhuganir hans um Jesúbarnið sem einkum koma fram í jólaljóðum í fyrstu bókum hans.
Í Níunda nóvember, einu af lokakvæðunum í Hrímhvítu móður sem ort er um Gúttóslaginn (1932) kemur fram snörp ádeila á hefðbundinn kristindóm sem var algeng í ljóðum Jóhannesar um þessar mundir. Í ljóðinu er kveðið um hina öru uppbyggingu Reykjavíkur og teflt fram andstæðum, nýjum og góðum húsum er reist höfðu verið við nýjar götur og köldum hjöllum sem „hrörna í ryki og fúa“ þar sem verkalýðurinn haldinn „skorti, gremju, gigt og lúa,/guð sinn eiga … að finna…“16Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 99. (Leturbreyting HH) Síðan kemur hástig ljóðsins þar sem ranglætið lýkst upp fyrir alþýðunni:
Góðu húsin voru ætluð öðrum:
æðri stétt, sem rændi lýðsins fjöðrum,
– þessum hreyknu höggormum og nöðrum
heims, sem Jesús Kristur barðist við.
Starfsins þjóð er ýtt að yztu jöðrum
eða í kjallarann – að skransins hlið.17Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 100. (Leturbreyting HH)
Þarna örlar á nýjum tóni í kveðskap Jóhannesar, hinn pólitíski Kristur, bróðir öreigans, sem barðist við valdhafa þessa heims stígur fram á sviðið. Frá guðfræðilegu sjónarhorni er því um tímamótaljóð að ræða.18Í ljóðinu Biðjið og yður mun veitast í Hart er í heimi (1939) kemur Kristur skýrt fram sem bróðir öreigans. Þar brást hann þó traustinu. Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 170-171.
Kvæðabálkurinn Mannssonurinn er frá svipuðum tíma og bendir nafnið til þess að þar megi finna mikilvæga uppistöðu í kristsfræði Jóhannesar á þessu skeiði, en bálkurinn einkennist af fyrrnefndum sinnaskiptum hans.19Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 133. Fyrsta ljóð bálksins, Sálmur heiðingjans, myndar eins konar inngang að honum öllum og varpar ljósi á trúarbaráttu skáldsins eins og á var bent.20Ætlunin er að fjalla um trúarlega þróun Jóhannesar úr Kötlum, trúarbaráttu hans og sinnaskipti í annarri grein þar sem þessi stef rúmast ekki hér. Í næstsíðasta erindi „sálmsins“ er hins vegar að finna mikilvæga vísbendingu um hvernig Jóhannes leit á Krist á þessum tíma:21Sálmur heiðingjans mun hafa verið ortur á árum heimsstyrjaldarinnar síðari en aðrir hlutar Mannssonarins eru lítið eitt eldri eða frá kreppuárunum. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 133.
Og ennþá berast mér boð frá þér,
minn bernskuvinurinn góði,
handan úr hliðskjálfi geims
og alltaf fer þá að ólga í mér
sú uppreisn þín fullum móði
gegn seiðskröttum valds og seims,
sem gerði þig mennskastan manna
og mesta skáld þessa heims.22Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 10.
Hér er Kristi lýst sem uppreisnarmanni gegn valdhöfum þessa heims og því auðvaldi sem þeir ráða yfir og nota til að kúga alþýðuna.
Nokkrum erindum framar kvað Jóhannes:
Víst ertu Jesús kóngur klár
krossfestur alla daga
á minni andlausu öld
af þeim sem í krafti frægðar og fjár,
með falskross á brjósti og maga,
keppa um svikráð köld.
– því vil ég hitta þig, herra,
hinumegin í kvöld.23Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 9. Hér gæti kross á brjósti merkt það krossmark sem gert er á brjóst skírnarbarns og því átt við alla kristna menn. Kross á maga gæti hins vegar vísað til biskupskrossins og þá átt við valdhafa kirkjunnar. Leikir og lærðir eru því samsekir um hina látlausu krossfestingu Krists. Hér gætir þá þeirrar kirkjuádeilu sem kemur fram svo víða í ljóðum Jóhannesar.
Það er einmitt þessi uppreisn hans fyrir réttlætið sem gerir hann að því sem hann er: „mennskastan manna“ og „mesta skáld þessa heims“.
Hugmyndin um Krist sem þann sem verið hefur sannastur maður eða „mennskastur“ manna“ kemur einnig skýrt fram í Jesú Maríusyni, einu þekktasta kristskvæði Jóhannesar sem hér kemur lítið við sögu af þeirri einföldu ástæðu að það birtist ekki á bók fyrr en í Sjödægru og fellur því utan þess tímaramma sem hér er settur. þar er Kristur sagður „mannlegleikans kraftur“.24Jóhannes úr Kötlum 1976(7): 24. Um þá staðhæfingu verður fjallað síðar. Hér skal aftur á móti staldrað við þá líkingu að Kristur hafi verið „mesta skáld þessa heims“.
Hjá Jóhannesi er skáld ekki aðeins maður sem yrkir ljóð heldur miklu fremur sjáandi, spámaður – sá sem hefur öðlast skilning á leyndardómum lífsins og lifir í samræmi við þá. Má segja að Jóhannes fylgi þar eldfornum hugmyndum um tengsl skáldskapar og visku sem rekja má allt aftur til sagna af Óðni en koma einnig víðar fram. Í þessu sambandi er athyglisvert að skáldið segir í tilvitnuðu erindi að sér berist boð frá Kristi „handan úr hliðskjálfi geims“ en það tengir hann beint við Óðin.
Sami skilningur á hlutverki skáldsins kemur fram í hinum umdeilda lofsöng Jóhannesar um Jósef Stalín þar sem segir að meira ævintýri hafi átt sér stað í Sovétríkjunum en „…nokkurt skáld/gat fram í tímann séð.“25Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 53. (Leturbreyting HH)
Í ljóðinu Syndafall (Hart er í heimi) varð ljóðmælandinn skáld er hann kyssti fyrsta kossinn og uppgötvaði þannig dýpsta leyndardóm, hamingju og þrá mannsins.26Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 146. Í Heyönnum (Eilífðar smáblóm) öðlast bóndinn hlutdeild í skáldlegri gleði hins fyrsta mannns við að finna töðuilminn. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 81. þá er öll þjóðin sögð skáld í ljóðinu Mitt fólk (upphafsljóð sömu bókar) þar sem hún vekur ljóðmælandann til vitundar um samstöðu sína með henni í þjáningu hennar og gerir hann þar með að skáldi.27Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 110. Svipuð hugsun kemur fram í Hvað nú, ungi maður (Hart er í heimi) þar sem skáldið er rödd alþýðunnar. Jóhannes úr Kötlum 1973(3). 207. Loks má benda á að í Söngvara Noregs (Sól tér sortna) kemur skáldið fram sem sá er leitar hinna réttlátu skuldaskila í ranglæti stríðsins. Þar skiptir þó máli að ljóðið fjallar um Nordahl Grieg sem var ekki aðeins andspyrnumaður heldur einnig skáld í venjulegri merkingu orðsins.28Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 98.
Víða í Sálmi heiðingjans koma fram vísanir til Krists sem skálds í þessari merkingu. Hann var sá sem „fólki ráðlagði að trúa/á síungan sannleikann“. Honum og boðskap hans, sem oft eru óaðskiljanlegir þættir í kristinni trúarhefð, er lýst sem hinni „ungu gleði“ og í orðum hans felst „hin eilífa list“. Fagnaðarerindi hans er loks nefnt hinn „dýrðlegi óður“.29Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 7-10. Hugsunin um Krist sem skáld liggur því eins og rauður þráður í gegnum allt ljóðið.
Í „sálminum“ gætir þungra pólitískra undirtóna. þeir sem smána „líf sitt og land og þjóð“ en eta þó og drekka „án afláts hans (þ.e. Krists) hold og blóð“ eru hinir eiginlegu andstæðingar Krists, sem svíkja hann og krossfesta allt til þessa dags:
Höfðingjar þessa heims í dag
helvítis logum rauðum
varpa á himins hlið,
breyta ódáins akri í flag,
auðgast á stríði og nauðum
og kalla það kristinn sið
– hafa þannig að háði
hann, sem boðaði frið.30Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 9.
Verk Krists fólst í því að gera uppreisn gegn þessum „seiðskröttum valds og seims“ og vekur samhljóm í tilfinningalífi skáldsins. Uppreisnin fólst ekki síst í því að Kristur stóð í hlíð fjallsins (sbr. Fjallræðuna) og ráðlagði fólki að „…trúa/á síungan sannleikann,/unz drottinvaldið hann dæmdi/ til dauða sem glæpamann“.31Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 7, 10. Sama hugsun kemur og fram í næstsíðasta erindi ljóðsins Í kofanum. þar er Kristi lýst sem framtíðarvon þeirra sem svelta. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 15. Hér mætum við því hinum pólitíska Kristi, uppreisnarmanninum Kristi, spámanninum Kristi, Kristi sem barðist gegn valdhöfunum við hlið hinna snauðu og kúguðu.
Í Mannssyninum eru lykilatburðir Nýja testamentisins og biblíusagnanna síðan raktir í sextán sjálfstæðum ljóðum. Framan af er Kristi lýst sem manni sem er ómeðvitaður um hlutverk sitt og það sem beið hans. Í sjötta ljóði, Heimsríkinu, sem rekur freistingarsöguna, verða ákveðin hvörf:
En vitið þið hvað?
Okkar vinur bað:
Vík frá mér, Satan! – og rölti af stað.
(Sitt heimsríki að fá
þannig hnjánum á,
eins og helvítis þræll – slíkt var af og frá!).32Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 21.
Þá var það (hór-)konan sem þvoði fætur Krists með tárum sínum og þurrkaði það höfuðhári sínu (Lúkasarguðspjall 7: 36 og áfram) sú sem fyrst skynjaði hlutverk Krists eins og kemur fram í Nardus (10. ljóði):
Ég þekki marga hetju. Hann er mestur.
Hans hvíti armur dauðans lögmál brýtur.
Hans frelsisrödd er gullinn þeyr sem þýtur.
Ég þekki margan öðling. Hann er beztur.
Ég undrast Hann. Í öllum mínum taugum
er eitthvað, sem Hans þögla valdi lýtur.
Nú geng ég inn og heilsa. Hann er setztur.33Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 28-29.
Í þessu var hún fremri nánustu lærisveinum Krists, ekki síst Júdasi sem sagður er hafa selt „..eitt spámannstetur/ á sextíu og sjö krónur danskar/að sögn – og þó hálfri betur–.“ 34Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 33. 13. ljóðið Blóðakur.
Í Klettinum (12 ljóði) sem fjallar um afneitun og iðrun Péturs segir loks að hann hafi iðrast vegna þess að „guðsaugað hafði þá ratað á snöggasta blettinn.“35Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 32. [Leturbreyting HH] Skilja má orðin svo að um auga Krists sé að ræða og hann hafi því enn á kreppuárunum verið meira en maður að skilningi Jóhannesar. Hér getur þó líka verið um myndræna vísun að ræða og þá til samviskubits Péturs vegna svika sinna við manninn Jesúm.
Í öllum ljóðaflokknum er áhersla lögð á mennsku Krists og samstöðu hans með öðrum mönnum. Dæmi um það er að finna í þriðja síðasta ljóðinu, Guðlastari, en þar er Kristur ætíð kallaður Maðurinn.36Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 35-36. Kann hér að leynast vísun til Ecce homo mótífsins, þ. e. hins þjáða, þyrnikrýnda Krists. Í næstsíðasta ljóði: þrír krossar er lokum og tilgangsleysi kristsatburðarins (með því er átt við líf, starf og boðun Krists) lýst:
Byltingin var fyrir bí.
Baðaðir ljósi á ný
Jórsalir hófu til hæða
hauskúpu stirðnaðra fræða.
Útvalin guðsþjóðin enn
aðhylltist skriftlærða menn.
Lofkesti lýðsins þeir fengu.
Líkin á krossunum héngu.37Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 39.
Enn ljósara er þó tilgangsleysið í síðasta ljóðinu, Móðirin. þar segir frá ferð Maríanna þriggja frá Jerúsalem hinsta sinni. María móðir Jesú verður þar persónugervingur fyrir mæður allra „…sem rísa og líka hinna sem falla…“ fyrir góðan málstað. Lokaerindi og þar með ályktun alls ljóðabálksins hljóðar svo:
Hún var ei guðsmóðir, heldur sú fávísa kona,
heilög í anda, sem trúði og vonaði á alla.
en pínu og dauða síns ljúflings að launum fékk.38Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 41.
Í Mannssyninum er með öðrum orðum ekki um neina upprisu né páska að ræða. þrátt fyrir allt hafði þó eitthvað mikilvægt átt sér stað í kristsatburðinum. Eitthvað sem skáldið setur aðeins fram í spurnarformi:
Til hvers var himinsins lifandi ljós að kvikna
– loga svo skært, að jörð yrði höfug og frjó?
Barst það úr fjarskanum inn í hinn eyðandi storm
einungis til þess að blakta um stund – og slokkna?
Hversvegna urðu hin litríku blóm að blikna
– bróðerni og líknsemd að týnast í hatur og róg?
Hvervegna voru sannleikans fegurstu form
færð í purpuraskikkjuna blóði stokkna?39 Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 40.
Þrátt fyrir allt hafði því koma Krists í þennan heim, hver sem hann var, tvímælalaust og endurleysandi gildi. Í Mannssyninum gætir því ekki von og tilgangsleysis og þar með beinnar afneitunar, heldur miklu fremur sterkrar efahyggju í bland við framtíðartrú. Tímabilið sem fæddi af sér ljóðabálkinn, kreppu- og stríðsárin, var ekki heldur tími sem glæddi fölskvalausar vonir eða bauð upp á einfaldar lausnir.
Of langt er gengið að segja að í Mannssyninum sé sett fram íslensk umhverfisbundin (kontextuell) guðfræði, en með því er átt við guðfræði sem miðast við menningar- og félagslegt umhverfi þess sem setur hana fram. Í þessu tilviki íslenskan veruleika á kreppu- og stríðsárunum. Sögusviðið er t.d. ætíð Palestína um daga Krists. Myndir og líkingar sem brugðið er upp eru á hinn bóginn mótaðar af íslensku sveitamálfari og að nokkru leyti sveitaveruleika. það, sem og hinar persónulegu túlkanir skáldsins, gera Mannssoninn að frumlegu skáldverki en ekki ljóðrænni endursögn biblíurita eins og löng hefð var fyrir hér á landi.
Ljóðið Hvað nú, ungi maður?, annað síðasta í Hart er í heimi, varpar einnig mikilvægu ljósi á kristsfræði Jóhannesar úr Kötlum. þar rekur hann í grófum dráttum þróunarsögu mannsandans og myndar kaflinn um Krist þungamiðju sem ljóðið hverfist um. Í fyrri hluta ljóðsins er þróunin rakin frá dögum hellisbúans fram til daga Krists. Eftir það er tekið að rekja raunir nútímamannsins. Í kaflanum um Krist er staldrað við þar sem hann hélt Fjallræðuna í flokki fiskimanna. Honum er lýst sem mildum, mögrum smiði þorpsins með jarpa lokka og í hvítri skikkju og var þakklátur fyrir hvern þann geisla sem vildi skína á hann.40Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206. Starf Krists og boðun sem „flæddi eins og kliður himinvatna inn í sálir smælingjanna“ kallaði þó á andstöðu:41Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206.
En þrælar gulls og bókstafs voru óvinir þíns anda,
því orð þitt kveikti frelsisþrá í barmi hinna ungu.
þeir tóku þig og hæddu þig og hræktu á þig í bræði,
– þeir hræddust þessa alþýðunnar rödd á skáldsins tungu.
Og fiskimannabrjóstin urðu full af sorg og kvíða,
– það sló fölva á rauðblá sundin milli lands og eyja,
og liljurnar og rósirnar í hálfrökkri sig hneigðu
og hvísluðu: Á vinur allra manna þá að deyja? 42Jóhannes úr Kötlum 1973 (3): 207. (Leturbreyting HH)
Hér kemur skýrt fram að Kristur var málsvari öreiganna og í þjáningu hans speglaðist þjáning þeirra eins og segir í næsta erindi:
Á kross einn varstu negldur, þorpsins mildi, magri smiður,
og hún móðir þín stóð álengdar í smæð sinni og tárum.
Í augum þínum speglaðist öll öreiganna þjáning,
– um andlitið rann blóð undan þyrnikransi sárum.
Og skordýrin þig stungu og naglarnir þig nístu,
og nöturhrollur sektarinnar fór um menn og konur.
Loks hneigðir þú þitt höfuð, þungt og gljúpt,
og gafst upp andann.
Og guðssonurinn hékk þar: hinn dáni mannsins sonur.43Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 207.
Lokahending erindisins er áhugaverð frá guðfræðilegu sjónarhorni þar sem þar kann að gæta hinnar hefðbundnu tvíeðliskenningar kirkjunnar sem felur í sér að Kristur hafi verið sannur Guð og sannur maður eins og m.a. kemur fram í Níkeujátningunni. Lokahending þriðja síðasta erindis ljóðsins gerir þá túlkun þó ólíklega þar sem því er haldið fram að maðurinn í merkingunni mannkynið hafi verið krossfest fyrir 1900 árum vegna þess hversu skammt það hafði náð á þroskaferli sínum.44Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 208. Hér ber því fyrst og fremt að líta á Krist sem fulltrúa mannkyns eða þann sem var „mennskastur manna“ og kraftur „mannlegleikans“.
Í tengslum við þá þróunarsögu sem rakin er í Hvað nú, ungi maður? er áhugavert að Jóhannes úr Kötlum leit svo á að guðstrú væri liður í þróun mannsins og afleiðing af þrá hans eftir fullkomnun. Af þessari þrá var guðsmynd mannsins sprottin. Jóhannes skipaði sér því í sveit þeirra sem álíta að maðurinn hafði skapað guð en ekki öfugt. Listina tengdi Jóhannes síðan á órofa hátt við þessa hugmyndafræði þar sem hann áleit að frá upphafi hafi listin verið tengd trúarlífi og sprottin beint upp úr guðsdýrkun. Með þessu tvennu, hugmyndinni um guð og listsköpuninni, tók tegundin „heljarstökk frá dýri til manns“45Jóhannes úr Kötlum 1965: 150-151. Fyrri hluti þessarar lýsingar samræmist vel róttækum samfélagshugmyndum skáldsins en er í andstöðu við kristna trúarhefð. Ekki er unnt að staðhæfa að þessi sýn búi alfarið að baki allra þeirra ljóða sem hér hefur verið vikið að. Þvert á móti skal því haldið fram að áhrifa hefðbundins og kristilegs uppeldis Jóhannesar hafi gætt í ljóðum hans löngu eftir sinnaskipti hans til sósíalismans.
Þegar skýra skal þá mikilvægu stöðu sem Kristur hafði í ljóðum Jóhannesar, ekki síst eftir sinnaskipti hans, er mikilvægt að hafa í huga ummæli frá 1956 þar sem hann varði lofkvæði sitt um Jósef Stalín. þar segir hann það löngum hafa verið áráttu sína að yrkja lofsöngva enda hafi hann ort slíka söngva um guð almáttugan, móður náttúru, landið en ekki síst fólk, bæði nafngreinda einstaklinga, e. k. mikilmenni, og alþýðuna eða „þegna þagnarinnar“.46Jóhannes úr Kötlum 1965: 46 Í þessum kveðskap, einkum um einstaklinga, telur hann sig oft hafa tekið áhættu þar sem trúin á manninn sé „áhættusamari en nokkuð annað“ og sér hafi hætt til að mála sterkum litum, „skapa hetjur og jafnvel dýrlinga.“
Þessa afstöðu telur skáldið þó áhættunnar virði vegna þess að það sé einmitt trúin á manninn „sem hnikað hefur homo sapiens nokkuð á leið og þeim mun lengra sem hún hefur verið heitari og einlægari.“ 47Jóhannes úr Kötlum 1965: 47. Sjá og um gildi þess að „trúa á lífið“ og „elska mennina“. Sama heimild 56. Er Jóhannes hér samkvæmur þeirri þróunarhyggju sem fram kom í guðsmynd hans. Af fyrrgreindum ástæðum leit hann ekki á kveðskap sinn af þessu tagi sem raunsæjar lýsingar á sögupersónunum „heldur öllu fremur sem óskmyndir, hugsjónalega persónugervinga“.48Jóhannes úr Kötlum 1965: 47-48. þá einstaklinga sem hann orti um leit hann því fyrst og fremst á sem dæmi um „framtíðarmanninn“ sem hann treysti sér ekki til að skynja né skýra nema gegnum ákveðna einstaklinga.49Jóhannes úr Kötlum 1965: 47. Líta má svo á að Kristur hafi verið hinsta „óskmynd“ hans og hinn fullkomni „hugsjónalegi persónugervingur“ mannsins eða mennskunnar. Með öðrum orðum má segja að Kristur hafi verið frummynd mannsins eða „erkitypisk“ mynd hans, svo vísað sé til orðaforða djúpsálarfræðingsins C. G. Jungs.50Hark 1999: 29. Hinn mannlegi eða holdtekni Kristur verður því mikilvæg uppistaða í þeirri viðleitni Jóhannesar að kveðja samtímamenn sína til dáða, bjarga manninum þannig frá „andlegri tortímingu“ (sjá hér að framan).
Kristur var þó ekki aðeins slík óskmynd í huga Jóhannesar, heldur byggði hann líka á siðaboðaskap hans þó það væri gert með fyrirvara róttæklingsins. Í greiningu sinni á íslenskum samtímaveruleika 1955 sagði hann t. d.: „Maður getur stundum meira að segja orðið dálítið guðhræddur og tekið undir með trésmiðssyninum fræga: maðurinn lifir ekki á einu saman brauði – og: að hvaða gagni kemur það manninum þótt hann eignist allan heiminn ef hann bíður tjón á sálu sinni?“51Jóhannes úr Kötlum 1965: 255.
Framtíðarsýnin
Jóhann Hjálmarsson skáld hefur látið svo um mælt að Jóhannes úr Kötlum hafi dreymt um „nýjan heim, nýja menningu, og eru þar komin sósíalísk lífsviðhorf“.52Jóhann Hjálmarsson 1971b: 69. Þá lætur hann að því liggja að Jóhannes hafi haft þá trú „að mannlegt vald“ gæti komið þessari nýju framtíð til leiðar. Lítur hann því svo á að skáldið hafi haft „einfalda lífsmynd“.53Jóhann Hjálmarsson 1971b: 70. Hér skal þessu mati mótmælt. Aftur á móti skal því haldið fram að vissulega hafi Jóhannes haft sterka framtíðarsýn, en hún hafi verið blæbrigðarík og langt frá því að vera einföld eða í þá veru að það stæði í mannlegu valdi að skapa það framtíðarland sem hann þráði. þá virðist ljóst að hugsýnir hans um framtíðina byggðust ekki aðeins á hugsjón sósíalismans heldur voru slungnar fleiri þáttum. Hér að framan var látið að því liggja að trúaruppeldi Jóhannesar hafi mótað hugmyndir hans um Krist lengi eftir sinnaskiptin. Á líkan hátt hefur Kristinn E. Andrésson fært rök fyrir því að framtíðarsýn hans hafi einnig átt rætur í uppeldisaðstæðum hans, þ. e. í ungmennafélagsandanum, en orðið pólitískt róttæk við sinnaskiptin líkt og kristsmyndin.54Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 126.
Hér er því haldið fram að það sé réttlætanlegt að nota hugtakið eskatólógía (sjá hér að framan) um framtíðarsýnina í kveðskap Jóhannesar úr Kötlum. Jafnframt skal viðurkennt að oft er þessi framtíðarsýn aðeins líkt og veikur undirtónn í ljóðunum, nánast almenn bjartsýni og jákvæð lífssýn, stundum er hún stríðari, veraldlegri og sósíalískari, einstaka sinnum virðist þó mega líta svo á að um raunverulega kristna eskatólógíu sé að ræða. Kemur það sterkast fram í upphafi og lok þess tímabils sem hér er fjallað um. Þrjú síðustu erindin í kvæðinu Dagur í Álftirnar kvaka verða t. d. ekki skilin öðru vísi en í ljósi kristinna hugmynda um efsta dag, enda var ljóðið ort fyrir sinnaskipti skáldsins. Í Sóleyjarkvæði gætir svipaðra áherslna. Framsetningin þar er þó algerlega veraldleg.
Í jafn saklausu tilefni og 25 ára afmæli UMFÍ (1932) orti Jóhannes Kveðju sem birtist sama ár í Ég læt sem ég sofi.55Einar Laxness 1995: 98-100. Í þriðja kafla þess brýst sterk framtíðarsýn og framtíðarþrá fram og hún er hápólitísk. Þar hvetur hann æskulýðinn til að binda enda á „þetta grimma, gráa stríð“ þannig að hver fái sitt og „hyljist grænu grasi sporin rauð.“56Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 111. Hæst rís eskatólógían þó í erindinu:
Þann dag, er sérhver hefur heimt sinn rétt
og hlotið sína ríku lífsins gjöf,
og mannkyn allt er orðið sama stétt,
sem eykur lífsins gildi jafnt og þétt,
– þann dag mun andinn halda lengra á höf.
Sú öld, sem ber sín börn á hjarnið snauða,
er blind – og felur í sér gröf og dauða.57Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 111.
Framtíðarsýn skáldsins kemur þó enn sterkar fram í kvæðinu Vér öreigar (Samt mun ég vaka) sem líta má á sem samfellda sósíalíska túlkun á þjóðarsögunni frá landnámi til samtímans. Þar kemur fram að alþýðan vaknaði og sá „hinn sorglega feril“ sem saga hennar hafði einkennst af. Í stað þjóðfrelsisbaráttunnar kom stéttabarátta.58Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 123. Í ljóðinu nær framtíðarsýnin hámarki í tveimur síðastu erindunum og í lokin heitir skáldið því að öreigarnir muni berjast til þrautar „í bróðurlegri, einfaldri alvöru uns þeir fái frelsað „hið fyrirheitna land.“59Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 126. [Leturbreyting HH] Þar grípur skáldið til Gyðing-kristins orðalags um land fyrirheitsins sem ekki er staðleysa (útópía) í þeirri trúarhefð, heldur felur í sér bjargfasta vissu um komu „öðru vísi framtíðar“ þar sem hinir fjötruðu muni njóta frelsis. Í Brúnu höndinni (sama bók) sem ort er vegna framrásar nasismans í álfunni kemur framtíðarvonin einnig sterkt fram í lokaerindinu.60Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 178.
Hvergi kemur pólitísk eskatólógía Jóhannesar þó fram í eins hreinræktaðri mynd og í ljóðinu Sovét-Ísland (sama bók) sem hefst með hendingunni:
Sovét-Ísland,
óskalandið,
– hvenær kemur þú?61Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 208.
Ljóðið endar á fullvissunni um að „lýðviljans land“ undir stjórn verkamanna, sem einkennist af krafti viljans, eldi áhugans og innileik bróðurþelsins, muni verða að veruleika.62Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 208-210. Í ljóðinu væntir Jóhannes þess að mannkynið muni ná nýju þroskastigi æðri en hinni núverandi mennsku og er forsendu þess að finna í hugsjón sósíalismans. Sama heimild: 208. Hin sósíalíska eskatólógía kemur einnig fram í Sorgarmarsinum(Hart er í heimi 1939). Sósíalískrar framtíðarsýnar gætir og í ljóðinu Stalíngrad(Sól tér sortna1945) sem fjallar um orrustuna um borgina. Þar segir hvernig ótti grefur um sig með umsátursliðinu og spurning vaknar um það hvort þeir sem verjast innan borginnar séu í raun mennskir menn. Jóhannes úr Kötlum 1973 (3): 210-211. Jóhannes úr Kötlum 1974 (5): 27-28.
Næsta bók Jóhannesar, Hrímvíta móðir, einkennist af söguljóðum sem flest fjalla um „stórmenni sögunnar“. Í Hinn hvíti ás sem fjallar um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna brýst framtíðarsýnin þó fram: „– Úr fortíð hann byggir upp sókndjarfa samtíð/með sjónirnar hvesstar á volduga framtíð.“63 Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 69. Þrjú síðustu ljóðin skera sig frá fyrri ljóðunum í því að þar er fjallað um alþýðuna. Sprengja tvö þau síðustu af sér hin sögulegu efnistök og beina sjónum fram á við.64Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 102,106.
Í Hart er í heimi gætir eskatólógíunnar í ýmsum ljóðanna. Í Og þó – – vaknar óvænt „draumur kær um nýja, betri tíð“ í hjarta bóndasonar sem „veit ei hót um sigursöngva heimsins:/að sjálfur fyrsti maí er í dag.“65Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 136. Þannig leitar kenndin um hina nýju framtíð jafnvel á þá sem enn eru sér ómeðvitaðir um stöðu sína í þjóðfélaginu og gang sögunnar. Í Grát þú ei gætir hins vegar bölsýni er Jóhannes segir að draumur æskumannsins um „sumarlandið“ sé að deyja „í dölum þessa lands.“66Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 200. Í lokaerindinu kemur þó huggun, von eskatólógíunnar fram:
Grát þú ei, barn mitt! þú átt þessa framtíð,
sem þeyrinn boðar hér.
Hin mikla bylting vorsins vofir yfir,
– hún væntir liðs af mér,
og kanski verð ég fallinn, þegar fólkið
sitt frelsi dáir hæst.
En ég er sæll, ef sumarglaðar óskir
míns sonar geta rætzt.67Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 201.
Í báðum þessum ljóðum setur skáldið fram framtíðarþrá sína í samræmi við uppruna sinn í íslenskri sveit. Hér má því ræða um umhverfisbundna (kontextuela) eskatólógíu. Hin vonarríka framtíð er samslungin íslenska vorinu og mun bresta á líkt og það. það er síður en svo að framtíðin og framtíðarlandið sé í huga Jóhannesar einfalt mannanna verk eins og Jóhann Hjálmarsson gaf í skyn. Þvert á móti er framtíðarlandið fastmótaður þáttur í (díalektískum) gangi sögunnar og mun því verða að veruleika þrátt fyrir veikleika og vonbrigði þeirra sem bíða.68Svipaður skilningur kemur fram í Systir alþýða (Eilífðar smáblóm). Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 86. Einnig í þú sem vinnur (Sól tér sortna). Jóhannes úr Kötlum 1974(5):15.
Hitt er síðan annað mál að öll eskatólógía er skuldbindandi og skáldið skynjar skyldur sínar við framtíðina.69Í Heiman ég fór (Sól tér sortna) er t.d. að finna réttlætingu Jóhannesar fyrir því að hafa ekki unnið heimabyggð sinni, Dölum, heldur leitað á önnur mið. Í ljóðinu gerir hann ráð fyrir að athöfn þurfi að koma til ef hin nýja framtíð eigi að verða að veruleika. Hinir hrjáðu þurfa að smíða „nýtt sannleiksssverð“ úr „fornum hlekkjum“ og heimta jafnan rétt til auðlinda heimabyggðarinnar og þar með landsins. Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 29-33. Við svipaðan tón kveður í Húsinu í sömu bók þar sem Jóhannesi þykir hann greinilega hafa brugðist hugsjón sinni. Jóhannes úr Kötlum 1974(5):69. Í Dagskipan Stalíns (Sól tér sortna) er t. d. ljóst að bylting er forsenda hinnar nýju framtíðar (sjá ekki síst 4. erindi og lokaerindið).70Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 52-58. Sama hugsun kemur fram í Öreigaminningu (sama bók) þar sem skáldið lýsir þeirri sannfæringu sinni að öreigarnir muni ekki öðlast völd á grunni bræðralags sem fæst með því að makka við „burgeisana“ og biður um „…minna af veizluhöldum,/en meira af byltingunni!“71Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 87.
Hin trúarlega framtíðarsýn Jóhannesar er æði tvíræð og vitnar um trúarlega glímu hans. Hvað óþreyjufyllstur er hann í ljóðinu Opið bréf (Ég læt sem ég sofi) sem kom út fyrir sinnaskipti hans en ber þeim þó vitni. þar segir m.a:
Ó, ungi, ókunni guð!
þú sem æskuna gefur og enn ert að skapast,
og aldrei vilt hörfa, hve mikið sem tapast,
þú sem enn ekki hefur til almættis hafizt,
– ég óttast það mest, hvað þú hefur tafizt!
Hinir friðlausu bíða eftir frelsi þínu,
– þeir finna eitthvað byltast í hjarta sínu,
er deilir á blekkingu dauðra orða
í draumi þess lýðs, sem varð hungurmorða.
Ert það þú?72Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 106. Varðandi hinn unga ókunna guð og lokaspurninguna má minna á þá þróunarhyggju sem kemur fram í sumum kvæðum skáldsins og þá hugmynd hans að maðurinn hafi skapað guð(smyndina) í stað þess að Guð hafi skapað manninn.
Í hinum mikla söguljóði Hvað nú, ungi maður? (Hart er í heimi) segir í lok einnar hendingarinnar um Krist:
Og þú sást í fögrum hillingum úr vorsins gullnu gluggum
inn í guðssonarins fyrirheitnu veröld, stóra og bjarta.73Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206.
Þarna byrjar eskatólógía Jóhannesar að verða trúarleg eftir sinnaskiptin. Í þessu ljóði sér hann framtíðarlandið þó enn sem lið í þróunarferli mannsins. Ljóðinu lýkur svo í mannhyggju þar sem maðurinn verður sjálfur herra og guðum æðri.74Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 209.
Trúarlegri er framtíðarvonin einnig í ljóðinu Kom til mín (Sól tér sortna) þar gerist skáldið persónugervingur alls þess sem þráir og þjáist og ákallar „móður allra þjóða“ og biður hana stíga upp úr logum heimsófriðarins. Auk þess ákallar Jóhannes þessa frelsis- og friðargyðju sem „móður guðs og manna“ og í næstsíðasta erindinu segir:
Norðar, norðar lát þú renna
frelsissól.
Gef að sóley vaxi í mínu
túni næstu jól.
Kom til mín með lausnarann í fangi.75Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 63.
Vart verður framhjá því litið að náin tengsl séu milli þeirrar friðargyðja sem ljóðmælandinn ákallar og Maríu guðsmóður. Fleiri kristnar vísanir leynast í ljóðinu eins og „smyrsl á hörpudiski“, „munablóm frá hinni fornu Róm“ auk stjarnanna sem eru þekkt tákn Maríu.76Dahlby 1963: 57a.
Í lofkvæðunum um Kaj Munk og Nordahl Grieg (Sól tér sortna) kemur loks greinilega fram að hið illa er tímanlegt en hið góða eilíft þar sem framtíðin er falin í því.(Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 21, 97 og áfram. Sem hliðstæðu við óskasteininn má nefna sannleikssverðið sem Jóhannes nefnir a.m.k. í tveimur ljóða sinna.))
Framtíðarsýnin, Jesúútburðurinn og smiðurinn
Í Sóleyjarkvæði ófust kristsmynd og framtíðarsýn Jóhannesar úr Kötlum saman á hvað nánastan hátt og þar með þau tvö stef sem hér er fjallað um. Kvæðið er ort í andófi við herverndarsamninginn við Bandaríkin og endurkomu erlends herliðs til landsins (1951) sem aldrei skyldi hersetið á friðartímum samkvæmt þeirri stefnu sem ríkt hafði.77Sjá Jóhannes úr Kötlum 1965: 97. Hefur verkið að þessu leyti hliðstæða stöðu og Atómstöð Halldórs Laxness (1948) sem andæfði Keflavíkursamningnum (1946). Hér verður ekki fjallað um tilurð og gerð Sóleyjarkvæðis fremur en annarra ljóða sem um er vélt í greininni. þess skal þó getið að hér er um langan kvæðabálk að ræða (44 bls.) sem skiptist í 25 kafla. Líta má á verkið sem eins konar rhapsódíu í orðum þar sem höfundurinn leitar víða fanga í minni, sagnir, sagnadansa, ritningarstaði og stefjabrot sem hann vefur saman í samfelldan óð. Kveðskapur Jóhannesar hefur e.t.v. hvergi verið nær galdri og því er sérlega erfitt að greina röklega þau tvö minni sem hér er unnið með. Einkum á þetta þó við um kristsmyndina.
Það er hugmynd mín að kvæðið hefði ekki getað legið fyrir fullort af þeirri snilld sem raun ber vitni á jafnskömmum tíma, ef skáldið hefði ekki áður fengist við sömu hugmyndir og birtast í kvæðinu á náskyldan hátt. Þannig má líta á ljóðin þegar landið fær mál, Tröllið á glugganum (Hart er í heimi), Brúðurin blárra fjalla, Fjallkonan og Kom til mín (Sól tér sortna) sem upptakt eða aðfara Sóleyjarkvæðis. Á ytra borði eru þessi ljóð þó ólík innbyrðis og frábrugðin Sóleyjarkvæði.78Þ0ess má og geta að sóleyin var Jóhannesi hugstæð bæði sem blóm og sem myndlíking sem kemur víða fyrir í kvæðum hans. þrátt fyrir þetta er kvæðið einstakt í sinni röð og í því takast á kvöl og húmor sem er undirstrikað í tónlist sem Pétur Pálsson (1931-1979) gerði við kvæðið og gefin hefur verið út hljóðrituð, fyrst 1967.79Sóleyjarkvæði 2001. Varð kvæðið í þeirri mynd n.k. þjóðsöngur hernámsandstæðinga.
Kvæðið gerist í tveimur sögusniðum, á riddaratíma miðaldanna og þeim tíma sem það er ort á. Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að „Sóley sólufegri“ og brúðgumi hennar, tákn og baráttuöfl þjóðfrelsis og friðar, sitja í höll sinni. Brúðguminn átti sér fagra fortíð sem baráttumaður góðs málstaðar – en var stunginn svefnþorni er ill öfl úr vestri sóttu að landinu með svikum og í samvinnu við innlend stjórnvöld. Kemur þarna fram flökt kvæðisins milli tímasviða. Sóley barst þá sú vitrun að valan Þjóðunn Þjóðansdóttir (þ.e. þjóðin) gæti ein vakið riddarann og þannig endurheimt landið. Þjóðunn reyndist þó snúin á band hins vestræna valds. Hófst þá mikil þrautaganga Sóleyjar um „stíg stíga“ og „ál ála“ er hún leitaði hjálpar bónda, fiskimanns og verkamanns, fulltrúa alþýðunnar, til að snúast til varnar, en enginn vogaði að fórna tímanlegum hagsmunum fyrir frelsi þjóðarinnar. Loks tókst óvinunum að slá hring um Sóleyju, fjötra hana og fangelsa. Undir lok ljóðsins rekur hún raunir sínar fyrir umkomulausri mús sem vanið hafði komur sínar í varðhaldið. Músin svaraði með augnaráði sem enginn veit hvort hafði að geyma „örvænting ellegar fyrirheit“. Í millitíðinni hafði riddarann þó dreymt draum sem fól í sér von um nýtt upphaf, um að allt yrði eins og fyrr. Í lok ljóðsins sefur brúðguminn þó enn og Sóley er enn í fjötrum.80Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 117-160. Kvæðinu lýkur því með herhvöt til þjóðarinnar:
Hermdu mér Þjóðunn Þjóðansdóttir,
vísust af völum:
ætlarðu að lifa alla tíð
ambátt í feigðarsölum
á blóðkrónum einum
og betlidölum?
Er ekki nær að ganga
í ósýnilegan rann [kastala Sóleyjar og riddarans],
bera fagnandi þann
sem brúðurin heitast ann
út í vorið á veginum
og vekja hann?81Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 160-161.
Þjóðin á valið og ber þannig ábyrgð á örlögum sínum og frelsi.
Í kvæðinu er m. a. vísað í ritninguna og kristinn trúararf auk þess sem ýmis meginstef trúarinnar koma fram í ljóðinu og eru að sumu leyti örlagaþættir sem skipta sköpum í framvindunni. Sóleyjarkvæði er því trúarlegt, sósíalískt baráttukvæði fyrir þjóðfrelsi og friði.
Meðal þeirra vísana í kristna trúarhefð sem finna má er að búningi Sóleyjar er svo lýst að við linda hennar leiki „lykill frá Róm“.82Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 117. Róm kann hér að vera rímorð (á móti kóralskóm). Tákngildi orðanna er þó einnig ótvírætt og vísar það til miðalda, bæði hvað varðar búnað húsfreyju og þeirrar rómversku kristni sem þá var hér við lýði en í henni er lykillinn merkingarþrungið tákn (sbr. Lykla-Pétur) og lyklavaldið gegnir þar mikilvægu hlutverki eins og kunnugt er. Í fimmta kafla kvæðisins er ástandi landsins lýst um það leyti sem það var selt í ræningjahendur. þar segir m. a.:
Yfir myrkviði æ
álagavindar gnauða,
leitt er til slátrunar alla daga
lamb hins snauða83Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 124.
Lambið er sem kunnugt er þekkt kriststákn (sbr. Agnus Dei, lamb Guðs sem ber burt syndir heimsins og kemur m.a. við sögu í helgisiðum kvöldmáltíðarinnar og Opinberunarbók Jóhannesar). þá vísa orðin óbeint til Spádómsbókar Jesaja (53. kap.) þar sem rætt er um hinn líðandi þjón Drottins sem „…lauk eigi upp munni sínum, eins og lamb, sem leitt er til slátrunar…“. Loks má benda á ýmsar dæmisögur Nýja testamentisins um ranglæti þessa heims þar sem sagt er að tekið verði af þeim sem ekkert hefur en hinn ríki látinn ósnortinn í auðlegð sinni. Í sjötta kafla segir af svikum völunnar Þjóðunnar (tákngervings þjóðarinnar) sem lögst var á „glámbekk“ og hafnar beiðni Sóleyjar að vekja riddarann og frelsishetjuna. Um hana er sagt að flís hafi sést í auga hennar. Er það óbein vísun í guðspjöll Matteusar (7. kap.) og Lúkasar (6. kap.).84Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 126. Þá koma beinar vísanir í Nýja testamentið fyrir í kvæðinu. Í 20. kafla kvæðisins er Sóley hneppt í fjötra. Næsti kafli á eftir er hvatningarræða lögð í munn riddara er hleypir hesti í tónsetningu Pétur Pálssonar.85Sóleyjarkvæði 2001. Hún hefst með þessum erindum:
Þér eruð salt jarðar,
ó hjartahreinu
sem gangið í guðs eigin her
og gefizt ekki upp fyrir neinu
– hafið þér séð vorn tórgrím
með stjörnuna einu?
Þér eruð ljós heimsins,
ó hetjur nær og fjær
sem skiljið svo vel að rauða hjartað
er skotmark hvar sem það slær
– hafið þér séð vorn þórvald
með stjörnunar tvær?86 Jóhannes úr Kötlum 1974(5).
Hér er byggt á orðum Krists í Fjallræðunni í 5. kap. Matteusarguðspjalls.
Í kvæðinu stendur náttúran, gróður og dýr, með Sóleyju og á einum stað segir að „hvít lilja“ hvísli að henni boðum um að óvinirnir sætu nú fyrir henni.87Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 134. Í kristinni táknfræði er liljan margræð. Hún getur vísað til Maríu meyjar en jafnframt forgengileika lífsins og hinsta dóms (en þá ásamt sverði).88Dahlby 1963: 56, 58a, 59a, 252, 301 Í 11. kafla er ástandinu erlendis lýst. þar er m. a. vísað í Passíusálma Hallgríms Péturssonar (lokahending 1. erindis er sótt í 27. Passíusálm 9. vers), forna þulu þar sem þurfandi maður biður Krist að ljá sér kyrtil sinn og loks klykkt út með vísun í lok bænarversins Vertu nú yfir og allt um kring, þ. e. „sitji Guðs englar saman í hring/sænginni yfir minni“.89Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 135-136. Hallgrímur Pétursson 1977:168. Í 16. kafla segir frá því er Sóley leitaði fulltingis fiskimanns sem eins og aðrir daufheyrðist við bón hennar. Áður en hún lagði úr vör bað hún sjóferðabænar þar sem hún fól „kerúbum og seröfum“ kænu sína en það eru þekktar verur úr kristinni mytólógíu.90Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 143. Auk þessa má svo nefna að Sóley var svikin í hendur óvina sinna á drottinsdegi. þá er einnig rætt um „friðarpáska“ og „stríðsjól“ en allar þessar hátíðir tengjast kirkjuárinu en eru hér settar í hróplegt mótvægi við stöðu sína þar.91Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 152, 157. Í lokin er Þjóðunn spurð þeirrar áleitnu spurningar hvort hún ætli alla tíð að lifa „á blóðkrónum einum og betlidölum“.92Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 160. Er hún, persónugervingur þjóðarinnar, þar með orðin að Júdasi sem svikið hefur land sitt fyrir fé. Fleiri smærri vísanir í kristinn trúararf og orðfæri mætti jafnvel nefna.
Segja má að 19. og 22. kafli marki ákveðin hvörf í kvæðinu. Í 19. kafla hefur þjóðin í gervi Þjóðunnar, bónda, fiskimanns og verkamanns, daufheyrst við herhvöt Sóleyjar og hún stendur ein gegn ofurefli hins svikula valds. Í tónsetningunni myndar 19. kaflinn eins konar sorgarkór sem lýsir myrku ástandi þar sem „heljarþögn …hríslast um …steina.93Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 150. Upphafs- og tvö lokaerindi kaflans eru á þessa leið:
Myrkur er yfir útskögum
– hvað er að:
vera liggur í snjónum
vafin innan í blað
– er þetta kannski jesúbarnið
eða hvað?
– – –
Útburðurinn skreiðist
undan mogganum sínum,
vappar um skaflinn næturlangt
og gólar í gnýnum:
faðir vor, ég heimta að þú skilir
handleggnum mínum.
Myrk er heiðin á miðju nesi,
en kátt er í kanabý;
þar er lífið þurrkað út
með kurt og pí
– ég var lífið ó móðir mín
í kví kví.94Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 150-151.
Hér er Jesúbarnið því persónugervingur hins hersetna lands um leið og það er gengið inn í hlutverk barnsins í einni þekktustu útburðarsögu þjóðarinnar.95Jón Árnason 1961(1): 217-218.
Í 22. kafla segir frá draumi riddarans sem bendir til þess að ekki sé öll nótt úti ef hann og þjóðin ná að vakna, samanber síðasta erindi kaflans og herhvötina í lokakafla ljóðsins (sjá hér að framan). Það eykur enn á hvörfin í kvæðinu að riddarann dreymir drauminn við sólhvörf.96Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 155. Draumurinn nær hámarki í þessum erindum:
Dreymdi hann sig syngjandi
dýran frelsissöng,
fólkið sat og hlýddi á
und himinblárri spöng
– þá var ei til hjartastaða
leiðin löng.
Sté af rauðum kvalakrossi
á græna jörð niður
ungur smiður,
ungur, fátækur smiður
– fuglar kvökuðu á flugi sínu:
friður friður.
Blóði drifin vopnin
bráðnuðu eins og hjóm,
dýflissurnar opnuðust
við lúðurhljóm
og þar kom Sóley sólufegri
svífandi á kóralskóm.97Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 156-157.
Vopnin sem bráðna minna á þau orð spámannsins Jesaja (2. kap. 4. v.) að þjóðirnar muni „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum“ og upp muni renna friðaröld. Hinar opnu dýflissur minna aftur á móti á stórmerkin sem urðu við dauða Krists samkvæmt Mattesuarguðspjalli (27. kap.) og lúðurhljómurinn vísar til Opinberunarbókar Jóhannesar og hinna hinstu daga (8. kap.).
Framtíðarvonina, friðinn og þjóðfrelsið byggir Jóhannes í þessum kafla á Kristi og verki hans. Hin nýja framtíð og þau stórmerki sem henni fylgja byggist þó ekki á upprisu Krist eins og játað er í kristinni trú, heldur á því að hinn mennski Kristur – ungi, fátæki smiðurinn – stígi niður af krossinum og gerist sú þjóðfrelsishetja sem ýmsir samtímamenn hans höfðu vænst. Framtíðarvon Jóhannesar úr Kötlum var því ekki bundin manninum einum, einstaklingunum eða heildinni – heldur var Kristur í þeirri mennsku og pólitísku mynd sem skáldið gaf honum, mikilvæg forsenda hennar. Framtíðarsýn Jóhannesar var því alls ekki eins einföld og algerlega komin undir valdi mannsins og Jóhann Hjálmarsson vildi vera láta.
Sóleyjarkvæði getur þannig talist mikill trúaróður, þó ekki sé í þröngri kirkjulegri merkingu, en jafnframt gætir í því snarprar ádeilu á kirkjuna og ýmsa þá sem játa kristni með vörunum. Kemur hún glöggt fram í áttunda kafla. þar víkur sögunni vestur til Bandaríkjanna – „guðs eigin lands“ – þar sem forsetinn leggur á ráðin með marskálki sínum um það hvernig koma mætti í veg fyrir að Sóley næði að vekja riddarann og hann mætti að nýju hefja að ærumeiða Bandaríkjamenn með „ódáinssöngvum“ sínum:
Sámur Bolason
í hvítu húsi þar ríkir,
framliðnir honum þjóna
fordæmdum líkir,
meiri trúmann ei veröldin veit
– vopnin góð eiga slíkir.
Kristilegur voðaskelfir
kallaði á marskálk sinn:
Hér með í jesú nafni,
herra minn,
vil ég nú eitt vandamál bera
undir vísdóm þinn.98Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 130.
Um framtíðarsýn sína í Sóleyjarkvæði og annars staðar lét Jóhannes þau orð falla (1956) að hann væri þrátt fyrir öll áföll undangenginna ára enn sannfærður um að þjóðfélagshugsjón sín yrði „með einhverjum hætti að veruleika framtíðarinnar – jafnvel þótt þar kunni að fara eitthvað svipað og um guðsríkið að gegnum margar þjáningar og þrengingar beri oss inn að ganga“.99Jóhannes úr Kötlum 1965: 50-51. Þó afstaða Jóhannesar úr Kötlum til trúarinnar væri ekki einföld eftir sinnaskipti hans var honum engan veginn dulið þau tengsl sem hér hefur verið bent á milli framtíðarsýnar hans sjálfs og kristinnar eskatólógíu.100Framtíðarsýnin er nátengd tímahugtakinu. Í þessu sambandi má því geta þess að 1964 lét skáldið þau orð falla að í ljósi þeirrar heimsmyndar sem þá var að ryðja sér til rúms hljómaði hin „forna trúspeki að einn dagur sé hjá drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur ekki –lengur sem nein fjarstæða“. Jóhannes úr Kötlum 1965: 205.
Lokaorð
Hér hefur verið fjallað um tvö trúarleg minni sem voru áberandi í kveðskap Jóhannesar úr Kötlum allt það tímabil sem fjallað er um í greininni, þ. e. kristsmyndina og framtíðarsýnina. Um hvort tveggja má segja að hann sæki það í æskumótun sína á heimili og í heimabyggð. Þótt hann gangi í gegnum gagnger sinnaskipti frá hefðbundinni „barnatrú“ til róttækrar lífsskoðunar hurfu þessi stef ekki úr ljóðum hans. Þvert á móti má segja að þau ágerist og verði bæði ágengari og blæbrigðaríkari.
Eins og í kristinni trúarhefð voru þessi stef rækilega samofin í kveðskap Jóhannesar eins og best kemur fram í Sóleyjarkvæði. Hjá Jóhannesi er framsetning stefjanna þó ætíð veraldleg. Bæði skáldið og sá Kristur sem hann kvað um stóðu með báða fætur á jörðunni í félagslegum veruleika hvors um sig.
Sjálfur leit Jóhannes úr Kötlum ugglaust á sig sem trúlausan mann í kirkjulegum skilningi lengst af skáldferils síns. þá sjálfsmynd hans er sjálfsagt að virða. það kemur þó ekki í veg fyrir að líta megi á hann sem trúarlegt skáld sem lagði mikið af mörkum við að kveða hinn kristna trúararf inn í þjóðmálaumræðu og þjóðmálabaráttu samtíðar sinnar og gera hann þannig að nokkru leyti umhverfisbundinn (kontextuelan).
Þess má að lokum geta að Jóhannes hefur fengið formlega viðurkenningu sem trúarlegt skáld á þann hátt að hann á eitt vers í nýjustu útgáfu íslensku sálmabókarinnar. Er það viðbótarerindi við þjóðvísuna Hátíð fer að höndum ein og hljóðar svo:
Heimsins þagna harma kvein
hörðum linnir stríðum.
Læknast og þá hin leyndu mein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.101Sálmabók íslensku kirkjunnar 1997, sálmur 722:3. Í þessu sambandi er athyglisverð sögn sem studd er af Sigfúsi Daðasyni sem var nákunnugur Jóhannesi, að hann hafi ekki viljað eiga texta í sálmabókinni. Jón Sigurðsson 1999: 32.
Af þessu má ráða að skáldinu finnist sér hafa orðið að von sinni, a.m.k. um hríð. Hætt er þó við að ástríðuskáldinu fyndist sótt í hið fyrra farið ef hann kvæði nú á okkar tvísýnu tíð þegar heimskringlan er að nýju mörkuð víglínum.
Hjalti Hugason
Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Árni Svanur Daníelsson
Árni Svanur Daníelsson starfaði sem verkefnisstjóri og sérþjónustuprestur á Biskupsstofu en þjónar nú sókninni í Reynisvallaprestakalli. Hann er líka ansi góður ljósmyndari.
Tilvísanir
[ + ]
1. | ↩ | Níkeujátningin. Sjá t.d. Sálmabók íslensku kirkjunnar 1997: kápusíða aftast. |
2. | ↩ | Einar Bragi 1955: 38. |
3. | ↩ | Kristinn E. Andrésson 1965: xii-xiii. Kristinn E. Andrésson 1979: 81. |
4. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 125-126. Um afstöðu Jóhannesar til ljóðforms og formbyltingar sjá og Jóhannes úr Kötlum 1965: 99, 100, 101-102, 176-180, 184-185, 201, 254-255, 288-289. |
5. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 6-7. Sjá og sömu heimild 5, 150-154, 201 (tilgangslist), 288. Sjá Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 139. Jóhann Hjálmarsson 1971a: 56-57, 63-64. Jón Sigurðsson 1999: 27, 38, 40, 41. þrátt fyrir þetta ræðir Jóhannes líka um listina í sínu hreinasta formi sem „einskonar áslátt(ur) á undirvitundina, dularfullt samspil milli leyndardómsins í náttúrunni og manninum, skapandi leik(ur)“. Sama heimild 7 sjá og 83, 51, 200 (þar ræðir Jóhannnes tengsl skáldskapar og galdurs). Hann telur þó þjóðfélagsaðstæður krefjast þess að skáldið afsali sér því frelsi að stunda þennan leik ótruflað og iðka þannig listina hennar sjálfrar vegna. Kristinn E. Andrésson (1949: 138) telur Jóhannes þó jafnvel hafa iðrað þess að hafa ekki goldið listinni það sem henni bar. |
6. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 211. Kristinn E. Andrésson (1949: 138, 139) nefndi Jóhannes réttilega „hugsjónaskáld“. |
7. | ↩ | Jóhann Hjálmarsson 1971a: 52-53, 57-66. Kristinn E. Andrésson 1979: 78-83. Jón Sigurðsson 1999: 33, 34, 37. |
8. | ↩ | Einar Bragi 1955: 38. Hér geta þó önnur og ytri atriði komið til álita, þ.e. a.s. tvíbent afstaða hinnar vinstrisinnuðu bókmenntastofnunar til formbyltingarinnar. Hún taldi alþýðuna móttækilegri fyrir hefðbundnum kveðskap en atómkveðskap. þá gætti einnig vaxandi þjóðernishyggju í kringum lýðveldisstofnunina og inngöngu Íslands í NATO. Allt kann þetta að hafa haft áhrif á það ljóðform sem Jóhannes valdi sér hverju sinni. Sjá m.a. Örn Ólafsson 1990:125-129. |
9. | ↩ | Jón Sigurðsson 1999: 30, 31, 41-42. |
10. | ↩ | Jóhann Hjálmarsson 1971a: 52, 67-68. |
11. | ↩ | Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 127, 139. Sjá og Kristinn E. Andrésson 1971:23. Jón Sigurðsson 1999: 31-32, 33. Stefán Einarsson (1961: 402) tímasetur sinnaskiptin fyrir 1932 eða áður en Ég læt sem ég sofi kom út. Líklegt er þó að þau eigi sér lengri aðdraganda. |
12. | ↩ | Jón Sigurðsson 1999: 32. |
13. | ↩ | Jón Sigurðsson 1999: 31-32. |
14. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 10. |
15. | ↩ | Bí, bí og blaka 1926, Álftirnar kvaka 1929, Ég læt sem ég sofi 1932, Samt mun ég vaka 1935, Hrímhvíta móðir 1937, Hart er í heimi 1939, Mannsssonurinn 1966 (sjá þó nmgr. 20), Eilífðar smáblóm 1940, Sól tér sortna 1945, Sóleyjarkvæði 1952 og auk þess eitt ljóð (Jesús Maríuson) úr Sjödægru 1955. |
16. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 99. |
17. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 100. |
18. | ↩ | Í ljóðinu Biðjið og yður mun veitast í Hart er í heimi (1939) kemur Kristur skýrt fram sem bróðir öreigans. Þar brást hann þó traustinu. Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 170-171. |
19. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 133. |
20. | ↩ | Ætlunin er að fjalla um trúarlega þróun Jóhannesar úr Kötlum, trúarbaráttu hans og sinnaskipti í annarri grein þar sem þessi stef rúmast ekki hér. |
21. | ↩ | Sálmur heiðingjans mun hafa verið ortur á árum heimsstyrjaldarinnar síðari en aðrir hlutar Mannssonarins eru lítið eitt eldri eða frá kreppuárunum. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 133. |
22. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 10. |
23. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 9. Hér gæti kross á brjósti merkt það krossmark sem gert er á brjóst skírnarbarns og því átt við alla kristna menn. Kross á maga gæti hins vegar vísað til biskupskrossins og þá átt við valdhafa kirkjunnar. Leikir og lærðir eru því samsekir um hina látlausu krossfestingu Krists. Hér gætir þá þeirrar kirkjuádeilu sem kemur fram svo víða í ljóðum Jóhannesar. |
24. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976(7): 24. |
25. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 53. |
26. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 146. Í Heyönnum (Eilífðar smáblóm) öðlast bóndinn hlutdeild í skáldlegri gleði hins fyrsta mannns við að finna töðuilminn. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 81. |
27. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 110. Svipuð hugsun kemur fram í Hvað nú, ungi maður (Hart er í heimi) þar sem skáldið er rödd alþýðunnar. Jóhannes úr Kötlum 1973(3). 207. |
28. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 98. |
29. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 7-10. |
30. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 9. |
31. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 7, 10. Sama hugsun kemur og fram í næstsíðasta erindi ljóðsins Í kofanum. þar er Kristi lýst sem framtíðarvon þeirra sem svelta. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 15. |
32. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 21. |
33. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 28-29. |
34. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 33. 13. ljóðið Blóðakur. |
35. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 32. |
36. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 35-36. Kann hér að leynast vísun til Ecce homo mótífsins, þ. e. hins þjáða, þyrnikrýnda Krists. |
37. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 39. |
38. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 41. |
39. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 40. |
40. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206. |
41. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206. |
42. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973 (3): 207. |
43. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 207. |
44. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 208. |
45. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 150-151. |
46. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 46 |
47. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 47. Sjá og um gildi þess að „trúa á lífið“ og „elska mennina“. Sama heimild 56. |
48. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 47-48. |
49. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 47. |
50. | ↩ | Hark 1999: 29. |
51. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 255. |
52. | ↩ | Jóhann Hjálmarsson 1971b: 69. |
53. | ↩ | Jóhann Hjálmarsson 1971b: 70. |
54. | ↩ | Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 126. |
55. | ↩ | Einar Laxness 1995: 98-100. |
56. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 111. |
57. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 111. |
58. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 123. |
59. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 126. |
60. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 178. |
61. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 208. |
62. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 208-210. Í ljóðinu væntir Jóhannes þess að mannkynið muni ná nýju þroskastigi æðri en hinni núverandi mennsku og er forsendu þess að finna í hugsjón sósíalismans. Sama heimild: 208. Hin sósíalíska eskatólógía kemur einnig fram í Sorgarmarsinum(Hart er í heimi 1939). Sósíalískrar framtíðarsýnar gætir og í ljóðinu Stalíngrad(Sól tér sortna1945) sem fjallar um orrustuna um borgina. Þar segir hvernig ótti grefur um sig með umsátursliðinu og spurning vaknar um það hvort þeir sem verjast innan borginnar séu í raun mennskir menn. Jóhannes úr Kötlum 1973 (3): 210-211. Jóhannes úr Kötlum 1974 (5): 27-28. |
63. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 69. |
64. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 102,106. |
65. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 136. |
66. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 200. |
67. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 201. |
68. | ↩ | Svipaður skilningur kemur fram í Systir alþýða (Eilífðar smáblóm). Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 86. Einnig í þú sem vinnur (Sól tér sortna). Jóhannes úr Kötlum 1974(5):15. |
69. | ↩ | Í Heiman ég fór (Sól tér sortna) er t.d. að finna réttlætingu Jóhannesar fyrir því að hafa ekki unnið heimabyggð sinni, Dölum, heldur leitað á önnur mið. Í ljóðinu gerir hann ráð fyrir að athöfn þurfi að koma til ef hin nýja framtíð eigi að verða að veruleika. Hinir hrjáðu þurfa að smíða „nýtt sannleiksssverð“ úr „fornum hlekkjum“ og heimta jafnan rétt til auðlinda heimabyggðarinnar og þar með landsins. Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 29-33. Við svipaðan tón kveður í Húsinu í sömu bók þar sem Jóhannesi þykir hann greinilega hafa brugðist hugsjón sinni. Jóhannes úr Kötlum 1974(5):69. |
70. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 52-58. |
71. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 87. |
72. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 106. Varðandi hinn unga ókunna guð og lokaspurninguna má minna á þá þróunarhyggju sem kemur fram í sumum kvæðum skáldsins og þá hugmynd hans að maðurinn hafi skapað guð(smyndina) í stað þess að Guð hafi skapað manninn. |
73. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206. |
74. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 209. |
75. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 63. |
76. | ↩ | Dahlby 1963: 57a. |
77. | ↩ | Sjá Jóhannes úr Kötlum 1965: 97. |
78. | ↩ | Þ0ess má og geta að sóleyin var Jóhannesi hugstæð bæði sem blóm og sem myndlíking sem kemur víða fyrir í kvæðum hans. |
79. | ↩ | Sóleyjarkvæði 2001. |
80. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 117-160. |
81. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 160-161. |
82. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 117. |
83. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 124. |
84. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 126. |
85. | ↩ | Sóleyjarkvæði 2001. |
86. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5). |
87. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 134. |
88. | ↩ | Dahlby 1963: 56, 58a, 59a, 252, 301 |
89. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 135-136. Hallgrímur Pétursson 1977:168. |
90. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 143. |
91. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 152, 157. |
92. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 160. |
93. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 150. |
94. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 150-151. |
95. | ↩ | Jón Árnason 1961(1): 217-218. |
96. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 155. |
97. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 156-157. |
98. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 130. |
99. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 50-51. |
100. | ↩ | Framtíðarsýnin er nátengd tímahugtakinu. Í þessu sambandi má því geta þess að 1964 lét skáldið þau orð falla að í ljósi þeirrar heimsmyndar sem þá var að ryðja sér til rúms hljómaði hin „forna trúspeki að einn dagur sé hjá drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur ekki –lengur sem nein fjarstæða“. Jóhannes úr Kötlum 1965: 205. |
101. | ↩ | Sálmabók íslensku kirkjunnar 1997, sálmur 722:3. Í þessu sambandi er athyglisverð sögn sem studd er af Sigfúsi Daðasyni sem var nákunnugur Jóhannesi, að hann hafi ekki viljað eiga texta í sálmabókinni. Jón Sigurðsson 1999: 32. |
Heimildir & hjálpargögn
Dahlby, Fritiof, 1963: De heliga teckens hemlighet. Om symboler och attribut. 6. útg. Stokkhólmi, Verbum, Håkan Ohlssons.
Einar Bragi, 1955: „Sjödægra.“ Birtingur. 4. h. 1955. Reykjavík. Bls. 38-39.
Einar Laxness, 1995: Íslandssaga. 3. b. S – Ö. (Alfræði Vöku-Helgafells.) Reykjavík, Vaka-Helgafell.
Hallgrímur Pétursson, 1977: Passíusálmar. 70. prentun. Reykjavík, Stafafell.
Hark, Helmut, 1999: „Arketyp.“ Jungianska grundbegrepp från A till Ö. Med originaltexter av C. G. Jung. Stokkhólmi, Natur och kultur. Bls. 29-33.
Jóhann Hjálmarsson, 1971a: „Fyrirheitna landið. Jóhannes úr Kötlum.“ Íslenzk nútímaljóðlist. Reykjavík, Almenna bókafélagið. Bls. 52-68.
Jóhann Hjálmarsson, 1971b: „Án takmarks og tilgangs. Steinn Steinarr.“ Íslenzk nútímaljóðlist. Reykjavík, Almenna bókafélagið. Bls. 69-94.
Jóhannes úr Kötlum, 1965: Vinaspegill. Reykjavík, Heimskringla.
Jóhannes úr Kötlum, 1972-1974, 1976: Ljóðasafn. 1.-5. og 7. b. Reykjavík, Heimskringla.
Jón Árnason, 1961. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 1. b. Árni Böðvarsson o.a. önnuðust útgáfuna. Reykjavík, Bókaútgáfan þjóðsaga, Prentsmiðjan Hólar.
Jón Sigurðsson, 1999: „„– Ég finn ég verð að springa…“ Að boða og iðka af einlægni.“ Tímarit Máls og menningar. 60. árg. 4. hefti. Reykjavík. Bls. 25-50.
Kristinn E. Andrésson, 1949: Íslenzkar nútímabókmenntir 1918-1948. Reykjavík, Mál og menning.
Kristinn E. Andrésson, 1965: „Inngangsorð.“ Í: Jóhannes úr Kötlum, 1965: Vinaspegill. Reykjavík, Heimskringla. Bls. xi-xvi.
Kristinn E. Andrésson, 1971: Enginn er eyland. Tímar rauðra penna. Reykjavík, Mál og menning.
Kristinn E. Andrésson, 1979: „Jóhannes úr Kötlum. Sjödægra 1955.“ Um íslenzkar bókmenntir. 2.b. Reykjavík, Mál og menning. Bls. 78-83.
Sálmabók íslensku kirkjunnar, 1997. Reykjavík, Skálholtsútgáfan í umboði kirkjuráðs.
Sóleyjarkvæði, 2001. Reykjavík, Samtök herstöðvaandstæðinga. (Geisladiskur ásamt texta).
Stefán Einarsson, 1961: Íslensk bókmenntasaga 874-1960. Reykjavík, Snæbjörn Jónsson & Co. h. f.
Örn Ólafsson, 1990: Rauðu pennarnir. Bókmenntahreyfing á 2. fjórðungi 20. aldar. Reykjavík, Mál og menning.
Hátíð fer að
höndum ein
Um kveðskap Jóhannesar úr Kötlum um jólin
Í skáldskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) tvinnuðust saman tveir þættir sem í hugum margra eru andstæðir: Róttæk vinstristefna og kristin trúarhugsun. Hér verður brugðið ljósi á kveðskap Jóhannesar um jólahátíðina og kannað hvernig þessi stef endurspeglast í henni.
Jólaljóð Jóhannesar eru mjög fjölbreytt allt frá hinu stórkarlalega barnakvæði Grýla hét tröllkerling leið og ljót til lágstemmdra erinda sem hann orti út frá þjóðvísunni Hátíð fer að höndum ein.
Grýlukvæði og leiðsluljóð
Framan af einkenndu barna- og það sem kalla mætti leiðslu- eða íhugunarljóð kveðskap Jóhannesar um jólin. Með leiðslubókmenntum er átt við frásagnir eða annars konar texta af því sem borið hefur fyrir höfund í draumsýn.1Jakob Benediktsson 1989: 158-159. Hér er gengið út frá að sá „draumur“ geti hafa borið fyrir mann í vöku.
Það sem flestir kannast við af þessum ljóðum eru ugglaust kvæðin í kverinu Jólin koma sem birst hefur í á annan tug prentana frá 1932. Hafa Grýlukvæði og kvæðin um jólasveinana þrettán og jólaköttinn átt hvað drýgstan hlut í að halda minningu þessara furðuvera þjóðsagnanna á lofti og skila henni til nýrra kynslóða allt til upphafs 21. aldar. Kverinu lýkur svo á angurblíðu ljóði, Jólabarnið, þar sem jólahald í íslenskri baðstofu færist um set út að fjárhúsjötu þar sem nýfætt Jesúbarnið liggur og foreldrar þess bíða eftir betra skýli „í fátækt og miklum vanda.“2Ljóðasafn 1984(9): 27.
Þá kemur þú með þín kerti,
kveikir við jötuna lágu,
og réttir fram, hreina og hlýja,
höndina þína smáu.
Og bláeyga jólabarnið
þú berð inn í vöggu þína.
Og allir englarnir syngja,
og allar stjörnurnar skína.3Ljóðasafn 1984(9): 27.
Ljóðið er íhugunarkvæði börnum til huggunar sem staðið hefur stuggur af ókindunum sem ort var um í fyrri kvæðunum og er ætlað að gera þau að virkum hluttakendum í jólaatburðinum. Í því verður fæðing Krists einnig sístæð og nálæg þar sem hún gerist hvert aðfangadagskvöld. Jólanóttin er þar með hafin yfir tíma og rúm en er ekki aðeins aðfaranótt 25. desember.
Í fyrstu ljóðabók Jóhannesar, Bí, bí og blaka (1926), birtist áþekkt leiðsluljóð, Nóttin helga. þar fylgist ljóðmælandinn með kertisstubb sínum brenna upp og í loganum opnast honum heill heimur. Hann verður vitni að atburðum hinnar fyrstu jólanætur og öðlast persónulegt samband við Jesúbarnið og móður þess:
Móður milda ég sé, –
mig hún nálgast skjótt,
blessað barnið sitt
ber til mín í nótt.
Jesúbarnið blítt
brosir ljúft við mér.
Ástaralda guðs
yfir heiminn fer.
Barnið brosir við,
– bendir mér til sín.
Klökk við móðurkné
krýpur sála mín.
Grætur móðir glöð:
„Guð á drenginn minn.
Horfðu í augu hans,
– hann er bróðir þinn!“4Ljóðasafn 1972(1): 124-125.
Skáldið lýkur ljóði sínu í bæn:
Blíða Jesúbarn!
Beint í ríki þitt
láttu lýsa mér
litla kertið mitt!5Ljóðasafn 1972(1): 127.
Í næstu bók, Álftirnar kvaka (1929), er að finna ljóðið Jólin okkar þar sem enn gætir íhugunar út frá jólaljósi. þar má þó greina nýjan tón, samstöðu með þeim sem þjást. Sá tónn átti eftir að harðna og skerpast því harðar sem varð í heimi:
Hann markið eilífa minnir á.
Og móti öllum, sem ljósið þrá,
hann bróðurfaðminn sinn breiðir,
og börnin við hönd sér leiðir.
Hann blessar alla, sem biðja af ást,
– hann blessar alla, sem lifa og þjást,
og smælingjans götu greiðir.6Ljóðasafn 1972(1): 259.
Meðal leiðsluljóða Jóhannesar með vísun til jóla má loks nefna Vökunótt (Eilífðar smáblóm 1940). þrátt fyrir að þar sé kveðið um sumarnótt er höfðað til gjafa vitringanna og þar með þrettánda dags jóla í síðasta erindinu:
Júníljós sig hjúfra um skóg og hraun,
– hér er gull og reykelsi og myrra.
Jesúbarnið lék hérna á laun
lengi nætur einu sinni í fyrra.7Ljóðasafn 1973(4): 59.
Kreppu- og stríðsjól
Með kreppunni, uppgangi fasisma og nasisma, borgarastyrjöldinni á Spáni og loks heimsstyrjöldinni síðari óx róttækni Jóhannesar og tónninn í skáldskap hans varð harðari og óvægnari. Litið hefur verið svo á að þá hafi hann tekið sinnaskiptum frá kristinni bernskutrú til kommúnisma.8Hjalti Hugason 2004: 78. Sjálfur virðist hann ekki hafa litið svo á heldur skynjað trúarhugsun sína og þjóðfélagsviðhorf sem samfellda heild er þróast hafi án stórvægilegra straumhvarfa. þá leit hann svo á að félagsleg réttlætiskennd sín væri fremur móðurarfur en áhrif stjórnmálastefna er hann kynntist síðar á lífsleiðinni.9Hjalti Hugason án árt.: 12.
Sonur götunnar í Ég læt sem ég sofi (1932) er að sönnu ekki jólaljóð heldur miskunnarlaus lýsing á kjörum ellefu ára götubarns sem elst upp á strætum stórborgar á tímum kreppunnar og „sýgur hvern fingur til blóðs“.10Ljóðasafn 1972(2): 32. Aðstæðum hans er lýst svo: „–Hann á engan föður og enga móður/og engan guð eða jól“.11Ljóðasafn 1972(2): 30. Við svipaðan tón kveður í Biðjið og yður mun veitast (Hart er í heimi 1939). þar er sögusviðið íslensk sveit en ljóðmælandinn er ungur dregur sem í örvæntingu bíður þess á aðfangadag að það verði heilagt vitandi þó að hans bíður „ekkert kerti, ekkert ljós“:
Í örvæntingu blítt ég bað
minn bróður, Jesúm Krist,
að búa kóngakerti til
og koma því sem fyrst.12Ljóðasafn 1973(3): 170.
Síðan bíður drengurinn uns hulin hönd dregur gaddaða frostrós á döggvaðan gluggann „í grimmmúðlegri ró“:
Hið kalda svar við sárri bæn
ég sá í þeirri rós:
Vor himinn gefur héluvönd,
er hjartað þráir ljós.
… Og jólin flýðu fátækt barn,
– en fannst þér, Jesús minn,
þá ekkert ljótt að leika á
svo lítinn bróður þinn?13Ljóðasafn 1973(3): 171.
Hér tekst skáldið á við Jesú í nokkurs konar Jakobsglímu út af óréttlæti heimsins og nálgast þannig eitt áleitnasta vandamál kristinnar guðfræði: Hvernig saman fari trú á algóðan, réttlátan Guð og ranglæti heimsins (oft nefnt guðvörn).
Í Himnahymnum (Sól tér sortna 1945) er enn vikið að hlutskipti hins fátæka um hátíðarnar. Ljóðið er annars gamansöm lýsing á hátíð í höll himnakonungsins sem drekkur jól að fornum sið með tveimur nafntoguðustu guðsmönnum þjóðarinnar, sr. Hallgrími Péturssyni og meistara Vídalín. Á borðum eru magálar, lambatungur, laufabrauð og Rínarvín. Þegar gleðin stendur sem hæst lætur jólabarnið til sín heyra:
Rís þá Jesúbarn
sem rós við hjarn:
skimar augnablik
sem skynji svik,
bendir á jarðardyr
í bobba – og spyr
guðlegt ektapar:
Hver grætur þar?14Ljóðasafn 1974(5): 84.
Kemur þar fram samstaða skáldsins og Krists með öllum sem líða. Trufluninni er þó ekki jafnvel tekið af öllum:
Drottinn vill nú frið
og dokar við;
vitur Máríá
sér víkur frá;
myrkvast Hallgríms sjón,
– en meistari Jón
svarar, vanur baksi:
O – sofðu lagsi!15Ljóðasafn 1974(5): 84.
Í þessu hálfkæringslega ljóði leynast þó vísanir í jólaboðskapinn í þeirri mynd sem var Jóhannesi töm, sem sé að á hverjum jólum sé heiminum frelsari fæddur:
Sæl er Máríá
og segir þá:
Fætt þann hef ég enn,
sem frelsar menn.
Svífa kerúbar
og serafar;
lamb sefur í ró
við ljónsins kló.16Ljóðasafn 1974(5): 81.
Lok erindisins er tilvísun í einn af þeim ritningarstöðum sem lesinn er á öðrum sunnudegi í aðventu þ. e. 11. kapítula. Spádómsbókar Jesaja þar sem lýst er því allsherjarjafnvægi sem muni ríkja þegar friðarhöfðingi framtíðarinnar hefur sest að völdum.
Á kreppuárunum orti Jóhannes ljóðabálkinn Mannssoninn sem birtist þó fyrst í heild 1966. Almennt er þar dregin upp mjög mennsk mynd af Kristi. Frá fæðingu hans segir í ljóðinu Í kofanum. þar gætir þó dýpri skilnings er skáldið ályktar:
Því hér var þá fædd þessi framtíðarvon,
sem fólk hafði lifað á, meðan það svalt.
Og móðirin horfði á sinn himneska son:
ó hvað hann var jarðneskur þrátt fyrir allt.17Ljóðasafn 1973(4): 15.
Jól 1936 (Hart er í heimi) er ljóð sem sýnir hvernig Jóhannes brást við samtíma sínum. þar lýsir hann því er sprengju var varpað á hóp barna sem dönsuðu kringum jólatré. Sögusviðið er Madríd á dögum borgarastyrjaldarinnar. Um afdrif barnanna segir: „Og öll þau hurfu úr lífsins leik:/þau leystust upp – þau urðu að reyk“.18Ljóðasafn 1973(3): 161. Í kjölfarið fylgir svo vægðarlaus spurn skáldsins um samband réttlætisins og vilja Guðs:
Og enn vér höldum heilög jól,
– ég horfi í spurn á barnið mitt:
Nær rekst þá vísdómsvilji guðs
á veslings glaða brjóstið þitt
og tætir sundur ögn fyrir ögn?
En enginn svarar: Myrkur. þögn.19Ljóðasafn 1973(3): 162.
Skáldið glímir hér enn við Guð sinn og krefur hann um réttlæti. Þegar bókin Eilífðar smáblóm kom út (1940) var heimsstyrjöldin skollin á. Í ljóðinu Jólanótt er koma Krists sett á svið í umhverfi íslenskrar sveitar. Hér er um að ræða umhverfisbundna guðfræði í líkingu við þá sem átti eftir að ryðja sér til rúms meðal ýmissa undirokaðra hópa sem felldu Krist og boðskap hans að sínum eigin félagslega veruleika. Jesús kemur að sveitabæ, þó ekki í líkingu barns heldur fullvaxinn og ríðandi kannski á ösnu eða brúnum fola. Stef jólanna og fyrsta sunnudags í aðventu, innreiðin í Jerúsalem, renna því saman í eitt. Lausnarinn verður þó að forsmá gestrisnina og brjóta þar með gegn einu af hefðbundnum siðaboðum þjóðarinnar. það var því ekki aðeins lögmál Gyðinga sem Kristur braut í krafti kærleikans þegar neyðin svarf að:
– – –
Herrann brosir, horfir milt á frúna:
hann má ekki vera að slóra núna.
Úti í heimi er allt í grænum sjó,
– andskotinn þar heilum löndum ræður.
Ljóssins fursti finnur aldrei ró,
fyrr en allir verða góðir bærður.
Júðans ríki jóla sinna bíður,
– Jesús Kristur út í myrkrið ríður.20Ljóðasafn 1973(4): 128.
Hér er Kristi lýst sem friðarhetju sem unir sér engrar hvíldar fyrr en friður hefur komist á í stríðandi heimi. Jólafriður og vopnaskak fara ekki saman. Kveðskapur Jóhannesar markaðist oft af pólitískum aðstæðum staðar og stundar. Gegn varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna orti hann til t.d. hina miklu hvöt sína til þjóðfrelsis, Sóleyjarkvæði (1952). þar kemur Kristur mjög við sögu bæði í líkingu Jesúbarnsins og ungs, fátæks smiðs sem sté niður af rauðum kvalakrossi til að koma á friði og frelsi.21Ljóðasafn 1974(5): 156-157.
Lýsingin á Jesúbarninu er nöturleg enda er það tákngervingur þess frelsis sem þjóðin hafði nýverið hafnað eða „borið út“:
Myrkur er yfir útskögum
– og hvað er að:
vera liggur í snjónum
vafin innan í blað
– er þetta kannski jesúbarnið
eða hvað?
_ _ _
útburðurinn skreiðist
undan mogganum sínum,
vappar um skaflinn næturlangt
og gólar í gnýnum:
faðir vor, ég heimta að þú skilir
handleggnum mínum.
Myrk er heiðin á miðju nesi,
en kátt er í kanabý:
þar er lífið þurrkað út
með kurt og pí
– ég var lífið, ó móðir mín
í kví kví.22Ljóðasafn 1974(5): 150-151.
Jesúbarnið er hér ekki aðeins samsamað glötuðu sakleysi nýfrjálsrar þjóðar heldur einnig einni forsmáðustu veru íslenskra þjóðsagna og öllum börnum sem er hafnað eða þau vanrækt.
Að lokinni heimsstyrjöld
Spennan í ljóðum Jóhannesar sem tengjast jólunum slaknar á árunum eftir heimsstyrjöldina. Sýnir það hvaða loftvog kveðskapur hans var á samfélags- og heimsástandið hverju sinni. Í miklu harmljóði eða elegíu sem skáldið orti eftir móður sína (Halldóru Guðbrandsdóttur d. 1945), Mater dolorosa (Sjödægra 1955), rifjar það upp kirkjuferð á jólum:
Manstu á jólunum
þegar við fórum til kirkju
og þú hvíslaðir við dyrnar:
hér er guð.
Manstu undrandi kertaljósin
sem blöktu á hjálminum:
gjafir hinna fátæku
hinna þreyttu.
Manstu spurula tónana
sem flögruðu um hvelfinguna:
bænir hinna syndugu
hinna auðmjúku.
Og manstu þegar maður
með kross á baki
sneri sér að okkur og söng
drottinn sé með yður
hvernig ég skimaði titrandi
um allt hið mikla hús
greip í skúfinn þinn og stundi:
hvar er guð?23Ljóðasafn 1976(7): 67-68.
Hér einkenna spurn, undrun og leit hughrif skáldsins, kenndir sem yfirgáfu Jóhannes aldrei: Hvar er Guð að finnaþ Sumum kann að finnast lýsing Jóhannesar á íslenskri sveitakirkju yfirdrifin þar sem hann ræðir um mikið hús með hvelfingu. Þó kunna hér að vera gildar forsendur fyrir hrifningunni.
Sóknarkirkja fjölskyldunnar var að Hjarðarholti en þar stóð fyrsta krosskirkja Rögnvaldar Ólafssonar (1874-1917) húsagerðarmeistara í rómantískum ný-gotneskum stíl.24Hörður Ágústsson 2000: 261-266. Hefur hún án efa orkað sterkt á fegurðarskyn margra, ekki síst lítils verðandi skálds.
Jóhannes var það skáld kynslóðar sinnar sem gekk hvað lengst í formtilraunum. Í Tregaslagi (1964) er að finna órímað jólaljóð í tveimur erindum, Jólasnjó:
1
Sannleikurinn er ótrúlegur –
svífandi mjöll kyssti
varir mínar í dag
– vöktu mér furðu
undarlegar þrár
andhverfra veralda:
leitaði dautt snjókorn
að lifandi blóðkorni?
2
Nú er mér allur harmur úr hug
því hvíta gyðjan
sníður mér kufl úr snjó
snýr strengi
blárra geisla á boga
barnsins sem fæðist í kvöld
– allt er nú hreint: íslandið ég
og ástin mín.25Ljóðasafn 1976(8): 31.
Ljóðið boðar frið vegna þess sístæða jólaundurs að Jesús fæðist um hver jól og endurnýjar þannig mann og heim, skapar forsendur friðar og réttlætis. þá leiðir hinn hvíti jólasnjór til hreinsunar – karþasis – í huga skáldsins. Áleitinnar tómhyggju gætir hins vegar í aðventuljóðinu Jólaföstu (Ný og nið 1970):
Hægt silast skammdegið áfram
með grýlukerti sín
hangandi í ufsum myrkursins.
Þegar búið er að kveikja
vitrast mér tvennskonar stórmerki:
gestaspjót kattarins
og hringsól gestaflugunnar.
Ég hlusta og bíð í ofvæni
en það kemur enginn…26Ljóðasafn 1976(8): 153.
Hátíð fer að höndum ein
Í jólakveðskap Jóhannesar fléttast saman gaman og alvara, trú og tómhyggja, þjóðfélagsádeila og draumkennd íhugun. Sums staðar er tónninn hvass en sums staðar angurblíður og á hið síðarnefnda ekki síst við um elstu ljóðin og æskuminninguna í Mater dolorosa.
Hinn lágstemdi tónn íhugunarinnar kemur þó e.t.v. hvergi betur fram en í fjórum erindum sem Jóhannes orti við fornt viðlag úr fórum Grunnavíkur-Jóns (1705-1779), Hátíð fer að höndum ein:27Silja Aðalsteinsdóttir 1984: 156.
Gerast mun nú brautin bein,
bjart í geiminum víðum,
ljómandi kerti á lágri grein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.
Sæl mun dilla silkirein
syninum undurfríðum,
leið ei verður þá lundin nein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.
Stjarnan á sinn augastein,
anda mun geislum blíðum,
loga fyrir hinn litla svein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.
Heimsins þagna harmakvein,
hörðum er linnir stríðum,
læknast og þá hin leyndu mein,
líður að tíðum,
líður að helgum tíðum.28Ljóðasafn 1984(9): 138-139.
Er fyrsta og síðasta erindið að finna í sálmabók þjóðkirkjunnar.29Sálmabók 1997 sálmur 722.
Í fyrsta erindi Jóhannesar í þessum „sálmi“ gætir hugrenningatengsla við þau orð sem sótt eru til Spádómsbókar Jesaja (40: 3) og heimfærð upp á Jóhannes skírara m.a. í Matteusarguðspjalli (3:3):
Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni:
Rödd hrópanda í eyðimörk:
Greiðið veg Drottins,
gjörið beinar brautir hans.
Eru þessi orð Jesaja þekktur aðventutexti sem lesinn er á 3. sunnudegi í jólaföstu.30Handbók 1981: 64. Lokaerindið verður aðeins skilið í ljósi þeirrar framtíðarvonar sem víða kemur fram í kveðskap Jóhannsear og felur í sér hugsjón um endurnýjun gjörvalls mannlegs samfélags og er samantvinnuð úr róttækri byltingarhugsjón og kristnum hugmyndum um guðsríkið.31Hjalti Hugason 2004: 86-90.
Lokaorð
Jólakveðskapur Jóhannesar úr Kötlum er athyglisverður aldarspegill og sýnir hver opin kvika tilfinningalíf skáldsins var fyrir aðstæðum heimsmála á hverjum tíma. Hinn stríði tónn sem fram kemur á kreppu- og stríðsárunum sýnir það best.
Þá takast á gaman og alvara í þessum kveðskap sem og trú og tómhyggja. Andstæðurnar sem fram koma eru miklar allt frá góli útburðarins á Miðnesheiði til fölskvalausrar framtíðarsýnar um að hulin mein muni læknast við komu Krists.
Víðast má segja að róttæknin og trúarhugsunin í jólaljóðunum skerpi hvor aðra fremur en að önnur brjóti brodd af hinni.
Hjalti Hugason
Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Árni Svanur Daníelsson
Árni Svanur Daníelsson starfaði sem verkefnisstjóri og sérþjónustuprestur á Biskupsstofu en þjónar nú sókninni í Reynisvallaprestakalli. Hann er líka ansi góður ljósmyndari.
Tilvísanir
[ + ]
1. | ↩ | Níkeujátningin. Sjá t.d. Sálmabók íslensku kirkjunnar 1997: kápusíða aftast. |
2. | ↩ | Einar Bragi 1955: 38. |
3. | ↩ | Kristinn E. Andrésson 1965: xii-xiii. Kristinn E. Andrésson 1979: 81. |
4. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 125-126. Um afstöðu Jóhannesar til ljóðforms og formbyltingar sjá og Jóhannes úr Kötlum 1965: 99, 100, 101-102, 176-180, 184-185, 201, 254-255, 288-289. |
5. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 6-7. Sjá og sömu heimild 5, 150-154, 201 (tilgangslist), 288. Sjá Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 139. Jóhann Hjálmarsson 1971a: 56-57, 63-64. Jón Sigurðsson 1999: 27, 38, 40, 41. þrátt fyrir þetta ræðir Jóhannes líka um listina í sínu hreinasta formi sem „einskonar áslátt(ur) á undirvitundina, dularfullt samspil milli leyndardómsins í náttúrunni og manninum, skapandi leik(ur)“. Sama heimild 7 sjá og 83, 51, 200 (þar ræðir Jóhannnes tengsl skáldskapar og galdurs). Hann telur þó þjóðfélagsaðstæður krefjast þess að skáldið afsali sér því frelsi að stunda þennan leik ótruflað og iðka þannig listina hennar sjálfrar vegna. Kristinn E. Andrésson (1949: 138) telur Jóhannes þó jafnvel hafa iðrað þess að hafa ekki goldið listinni það sem henni bar. |
6. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 211. Kristinn E. Andrésson (1949: 138, 139) nefndi Jóhannes réttilega „hugsjónaskáld“. |
7. | ↩ | Jóhann Hjálmarsson 1971a: 52-53, 57-66. Kristinn E. Andrésson 1979: 78-83. Jón Sigurðsson 1999: 33, 34, 37. |
8. | ↩ | Einar Bragi 1955: 38. Hér geta þó önnur og ytri atriði komið til álita, þ.e. a.s. tvíbent afstaða hinnar vinstrisinnuðu bókmenntastofnunar til formbyltingarinnar. Hún taldi alþýðuna móttækilegri fyrir hefðbundnum kveðskap en atómkveðskap. þá gætti einnig vaxandi þjóðernishyggju í kringum lýðveldisstofnunina og inngöngu Íslands í NATO. Allt kann þetta að hafa haft áhrif á það ljóðform sem Jóhannes valdi sér hverju sinni. Sjá m.a. Örn Ólafsson 1990:125-129. |
9. | ↩ | Jón Sigurðsson 1999: 30, 31, 41-42. |
10. | ↩ | Jóhann Hjálmarsson 1971a: 52, 67-68. |
11. | ↩ | Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 127, 139. Sjá og Kristinn E. Andrésson 1971:23. Jón Sigurðsson 1999: 31-32, 33. Stefán Einarsson (1961: 402) tímasetur sinnaskiptin fyrir 1932 eða áður en Ég læt sem ég sofi kom út. Líklegt er þó að þau eigi sér lengri aðdraganda. |
12. | ↩ | Jón Sigurðsson 1999: 32. |
13. | ↩ | Jón Sigurðsson 1999: 31-32. |
14. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 10. |
15. | ↩ | Bí, bí og blaka 1926, Álftirnar kvaka 1929, Ég læt sem ég sofi 1932, Samt mun ég vaka 1935, Hrímhvíta móðir 1937, Hart er í heimi 1939, Mannsssonurinn 1966 (sjá þó nmgr. 20), Eilífðar smáblóm 1940, Sól tér sortna 1945, Sóleyjarkvæði 1952 og auk þess eitt ljóð (Jesús Maríuson) úr Sjödægru 1955. |
16. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 99. |
17. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 100. |
18. | ↩ | Í ljóðinu Biðjið og yður mun veitast í Hart er í heimi (1939) kemur Kristur skýrt fram sem bróðir öreigans. Þar brást hann þó traustinu. Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 170-171. |
19. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 133. |
20. | ↩ | Ætlunin er að fjalla um trúarlega þróun Jóhannesar úr Kötlum, trúarbaráttu hans og sinnaskipti í annarri grein þar sem þessi stef rúmast ekki hér. |
21. | ↩ | Sálmur heiðingjans mun hafa verið ortur á árum heimsstyrjaldarinnar síðari en aðrir hlutar Mannssonarins eru lítið eitt eldri eða frá kreppuárunum. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 133. |
22. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 10. |
23. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 9. Hér gæti kross á brjósti merkt það krossmark sem gert er á brjóst skírnarbarns og því átt við alla kristna menn. Kross á maga gæti hins vegar vísað til biskupskrossins og þá átt við valdhafa kirkjunnar. Leikir og lærðir eru því samsekir um hina látlausu krossfestingu Krists. Hér gætir þá þeirrar kirkjuádeilu sem kemur fram svo víða í ljóðum Jóhannesar. |
24. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1976(7): 24. |
25. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 53. |
26. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 146. Í Heyönnum (Eilífðar smáblóm) öðlast bóndinn hlutdeild í skáldlegri gleði hins fyrsta mannns við að finna töðuilminn. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 81. |
27. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 110. Svipuð hugsun kemur fram í Hvað nú, ungi maður (Hart er í heimi) þar sem skáldið er rödd alþýðunnar. Jóhannes úr Kötlum 1973(3). 207. |
28. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 98. |
29. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 7-10. |
30. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 9. |
31. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 7, 10. Sama hugsun kemur og fram í næstsíðasta erindi ljóðsins Í kofanum. þar er Kristi lýst sem framtíðarvon þeirra sem svelta. Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 15. |
32. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 21. |
33. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 28-29. |
34. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 33. 13. ljóðið Blóðakur. |
35. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 32. |
36. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 35-36. Kann hér að leynast vísun til Ecce homo mótífsins, þ. e. hins þjáða, þyrnikrýnda Krists. |
37. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 39. |
38. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 41. |
39. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 40. |
40. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206. |
41. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206. |
42. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973 (3): 207. |
43. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 207. |
44. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 208. |
45. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 150-151. |
46. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 46 |
47. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 47. Sjá og um gildi þess að „trúa á lífið“ og „elska mennina“. Sama heimild 56. |
48. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 47-48. |
49. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 47. |
50. | ↩ | Hark 1999: 29. |
51. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 255. |
52. | ↩ | Jóhann Hjálmarsson 1971b: 69. |
53. | ↩ | Jóhann Hjálmarsson 1971b: 70. |
54. | ↩ | Kristinn E. Andrésson 1949: 125, 126. |
55. | ↩ | Einar Laxness 1995: 98-100. |
56. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 111. |
57. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 111. |
58. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 123. |
59. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 126. |
60. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 178. |
61. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 208. |
62. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 208-210. Í ljóðinu væntir Jóhannes þess að mannkynið muni ná nýju þroskastigi æðri en hinni núverandi mennsku og er forsendu þess að finna í hugsjón sósíalismans. Sama heimild: 208. Hin sósíalíska eskatólógía kemur einnig fram í Sorgarmarsinum(Hart er í heimi 1939). Sósíalískrar framtíðarsýnar gætir og í ljóðinu Stalíngrad(Sól tér sortna1945) sem fjallar um orrustuna um borgina. Þar segir hvernig ótti grefur um sig með umsátursliðinu og spurning vaknar um það hvort þeir sem verjast innan borginnar séu í raun mennskir menn. Jóhannes úr Kötlum 1973 (3): 210-211. Jóhannes úr Kötlum 1974 (5): 27-28. |
63. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 69. |
64. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 102,106. |
65. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 136. |
66. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 200. |
67. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 201. |
68. | ↩ | Svipaður skilningur kemur fram í Systir alþýða (Eilífðar smáblóm). Jóhannes úr Kötlum 1973(4): 86. Einnig í þú sem vinnur (Sól tér sortna). Jóhannes úr Kötlum 1974(5):15. |
69. | ↩ | Í Heiman ég fór (Sól tér sortna) er t.d. að finna réttlætingu Jóhannesar fyrir því að hafa ekki unnið heimabyggð sinni, Dölum, heldur leitað á önnur mið. Í ljóðinu gerir hann ráð fyrir að athöfn þurfi að koma til ef hin nýja framtíð eigi að verða að veruleika. Hinir hrjáðu þurfa að smíða „nýtt sannleiksssverð“ úr „fornum hlekkjum“ og heimta jafnan rétt til auðlinda heimabyggðarinnar og þar með landsins. Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 29-33. Við svipaðan tón kveður í Húsinu í sömu bók þar sem Jóhannesi þykir hann greinilega hafa brugðist hugsjón sinni. Jóhannes úr Kötlum 1974(5):69. |
70. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 52-58. |
71. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 87. |
72. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1972(2): 106. Varðandi hinn unga ókunna guð og lokaspurninguna má minna á þá þróunarhyggju sem kemur fram í sumum kvæðum skáldsins og þá hugmynd hans að maðurinn hafi skapað guð(smyndina) í stað þess að Guð hafi skapað manninn. |
73. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 206. |
74. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1973(3): 209. |
75. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 63. |
76. | ↩ | Dahlby 1963: 57a. |
77. | ↩ | Sjá Jóhannes úr Kötlum 1965: 97. |
78. | ↩ | Þ0ess má og geta að sóleyin var Jóhannesi hugstæð bæði sem blóm og sem myndlíking sem kemur víða fyrir í kvæðum hans. |
79. | ↩ | Sóleyjarkvæði 2001. |
80. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 117-160. |
81. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 160-161. |
82. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 117. |
83. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 124. |
84. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 126. |
85. | ↩ | Sóleyjarkvæði 2001. |
86. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5). |
87. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 134. |
88. | ↩ | Dahlby 1963: 56, 58a, 59a, 252, 301 |
89. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 135-136. Hallgrímur Pétursson 1977:168. |
90. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 143. |
91. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 152, 157. |
92. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 160. |
93. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 150. |
94. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 150-151. |
95. | ↩ | Jón Árnason 1961(1): 217-218. |
96. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 155. |
97. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 156-157. |
98. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1974(5): 130. |
99. | ↩ | Jóhannes úr Kötlum 1965: 50-51. |
100. | ↩ | Framtíðarsýnin er nátengd tímahugtakinu. Í þessu sambandi má því geta þess að 1964 lét skáldið þau orð falla að í ljósi þeirrar heimsmyndar sem þá var að ryðja sér til rúms hljómaði hin „forna trúspeki að einn dagur sé hjá drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur ekki –lengur sem nein fjarstæða“. Jóhannes úr Kötlum 1965: 205. |
101. | ↩ | Sálmabók íslensku kirkjunnar 1997, sálmur 722:3. Í þessu sambandi er athyglisverð sögn sem studd er af Sigfúsi Daðasyni sem var nákunnugur Jóhannesi, að hann hafi ekki viljað eiga texta í sálmabókinni. Jón Sigurðsson 1999: 32. |
102. | ↩ | Jakob Benediktsson 1989: 158-159. |
103. | ↩ | Ljóðasafn 1984(9): 27. |
104. | ↩ | Ljóðasafn 1984(9): 27. |
105. | ↩ | Ljóðasafn 1972(1): 124-125. |
106. | ↩ | Ljóðasafn 1972(1): 127. |
107. | ↩ | Ljóðasafn 1972(1): 259. |
108. | ↩ | Ljóðasafn 1973(4): 59. |
109. | ↩ | Hjalti Hugason 2004: 78. |
110. | ↩ | Hjalti Hugason án árt.: 12. |
111. | ↩ | Ljóðasafn 1972(2): 32. |
112. | ↩ | Ljóðasafn 1972(2): 30. |
113. | ↩ | Ljóðasafn 1973(3): 170. |
114. | ↩ | Ljóðasafn 1973(3): 171. |
115. | ↩ | Ljóðasafn 1974(5): 84. |
116. | ↩ | Ljóðasafn 1974(5): 84. |
117. | ↩ | Ljóðasafn 1974(5): 81. |
118. | ↩ | Ljóðasafn 1973(4): 15. |
119. | ↩ | Ljóðasafn 1973(3): 161. |
120. | ↩ | Ljóðasafn 1973(3): 162. |
121. | ↩ | Ljóðasafn 1973(4): 128. |
122. | ↩ | Ljóðasafn 1974(5): 156-157. |
123. | ↩ | Ljóðasafn 1974(5): 150-151. |
124. | ↩ | Ljóðasafn 1976(7): 67-68. |
125. | ↩ | Hörður Ágústsson 2000: 261-266. |
126. | ↩ | Ljóðasafn 1976(8): 31. |
127. | ↩ | Ljóðasafn 1976(8): 153. |
128. | ↩ | Silja Aðalsteinsdóttir 1984: 156. |
129. | ↩ | Ljóðasafn 1984(9): 138-139. |
130. | ↩ | Sálmabók 1997 sálmur 722. |
131. | ↩ | Handbók 1981: 64. |
132. | ↩ | Hjalti Hugason 2004: 86-90. |
Heimildir & hjálpargögn
Biblían, 1981.
Handbók íslensku kirkjunnar, 1981.
Hjalti Hugason, 2004: „Kristur og framtíðarlandið.“ Andvari. 129. ár.
Hjalti Hugason, án árt.: „Á mótum dulhyggju og félagshyggju.“ (ób. ritg.).
Hörður Ágústsson, 2000: Íslensk byggingararfleifð 1. b.
Jakob Benediktsson, 1989. Hugtök og heiti í bókmenntafræði.
Ljóðasafn, 1972-1984: Jóhannes úr Kötlum: Ljóðasafn. 1.-5. og 7-9. b.
Sálmabók íslensku kirkjunnar, 1997.
Silja Aðalsteinsdóttir, 1984: „Eftirmáli.“ Í Jóhannes úr Kötlum: Ljóðasafn 9. b.