Í dag kl 13.00 verður fluttur þátturinn ,,Hermdu mér Þjóðunn Þjóðansdóttir” á Rás 1. Þetta er þáttur um Sóleyjarkvæði eftir Pétur Pálsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum og útgáfu þeirra á plötu. Umsjón hefur Ingibjörg Hjartardóttir. (Frá 1997)
Hægt er að hlusta á þáttinn hér gegnum vefvarp RÚV næstu tvær vikurnar.

Fleiri vísur hafa nú bæst við í „Lausavísnaþáttinn“ og koma úr mörgum áttum. Ólafur Guðbrandsson frá Kambsnesi í Dölum sendi mér þrjár vísur úr Dölunum. Ein er um móður hans, önnur um Einar afa minn á Hróðnýjarstöðum og þriðja um séra Ólaf á Kvennabrekku. Það er reyndar vafamál að síðast talda vísan sé eftir föður minn en ég birti hana samt. – Ármann Jóhannsson rafvirkjameistari á Stöðvarfirði sendi mér nokkrar vísur í fyrra og ein þeirra er um Jóhannes Þorsteinsson í Ásum í Hveragerði og birtist hún nú með Hveragerðisvísunum. – Þá koma tvær vísur úr Þórsmörk og eru hafðar eftir Guðmundi Guðna Guðmundssyni, en þær birtust í grein eftir hann í Tímanum 1961.

Það má með sanni segja að ferskeytlan lifir enn góðu lífi á Fróni. Í lausavísnaþættinum birtast nú vísur sem endur fyrir löngu urðu til í kaffistofu Máls og menningar að Laugavegi 18 og hafa geymst í minni Önnu Einarsdóttur fv. verslunarstjóra í Bókabúð Máls og menningar. Birtast þær í framhaldi af vísunni um Ester undir titlinum: Vísur úr Máli og menningu.

Þá kemur vísa um Línu á Reykjum „Hér sit ég hjá sólinni rjóðu“ undir titlinum: Vísur úr Hveragerði, sem við fengum hjá Þórði Snæbjörnssyni í Hveragerði.

Í dag var bætt við nokkrum vísum í þáttinn „Lausavísur“. Vísurnar eru undir titlinum „Vísur úr Dölunum“ og eru um sr. Jón Guðnason skjalavörð, sr. Ólaf Ólafsson á Kvennabrekku, Eyjólf bónda Jónasson í Sólheimum, Skúla bónda Jóhannesson á Dönustöðum og um köttinn hennar Hugrúnar Þorkelsdóttur á Hróðnýjarstöðum. Vísurnar fékk ég hjá Ásu Gísladóttur á Hornstöðum í Laxárdal í Dalasýslu.
Svanur Jóhannesson