Er sú spurning áleitin

Fleiri vísur hafa nú bæst við í „Lausavísnaþáttinn“ og koma úr mörgum áttum. Ólafur Guðbrandsson frá Kambsnesi í Dölum sendi mér þrjár vísur úr Dölunum. Ein er um móður hans, önnur um Einar afa minn á Hróðnýjarstöðum og þriðja um séra Ólaf á Kvennabrekku. Það er reyndar vafamál að síðast talda vísan sé eftir föður minn en ég birti hana samt. – Ármann Jóhannsson rafvirkjameistari á Stöðvarfirði sendi mér nokkrar vísur í fyrra og ein þeirra er um Jóhannes Þorsteinsson í Ásum í Hveragerði og birtist hún nú með Hveragerðisvísunum. – Þá koma tvær vísur úr Þórsmörk og eru hafðar eftir Guðmundi Guðna Guðmundssyni, en þær birtust í grein eftir hann í Tímanum 1961.