Í maímánuði birtum við þrjár greinar eða greinasafn eftir Hjalta Hugason, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, um Jóhannes og ljóðagerð hans.
Fyrsta greinin sem birtist heitir: Kristur og framtíðarlandið – Trúarleg minni í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum 1926-1952 – og fjallar um: „…tvö trúarleg minni í kveðskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) á tímabilinu frá því fyrsta ljóðabók hans Bí, bí og blaka kom út 1926 þar til Sóleyjarkvæði birtist 1952. Þessi minni eru Kristur eða mannssonurinn og eftirvæntingarfull framtíðarsýn Jóhannesar. Því er síðarnefnda þemað talið trúarlegt að vonarrík framtíðarsýn er ríkur þáttur í kristinni trúarhefð og kallast á fagmáli guðfræðinnar eskatólógía (Eschatologie) sem merkir orðræða um hina hinstu tíma. Kristin eskatólógía kemur skýrt fram í lokaorðum trúarjátningarinnar frá Níkeu en þar segir: „Ég … vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“

Grein þessi birtist í tímaritinu Andvara – Nýr flokkur XLVI, 129. ár, 2004.

Í dag kl 13.00 verður fluttur þátturinn ,,Hermdu mér Þjóðunn Þjóðansdóttir“ á Rás 1. Þetta er þáttur um Sóleyjarkvæði eftir Pétur Pálsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum og útgáfu þeirra á plötu. Umsjón hefur Ingibjörg Hjartardóttir. (Frá 1997)
Hægt er að hlusta á þáttinn hér gegnum vefvarp RÚV næstu tvær vikurnar.

Fleiri vísur hafa nú bæst við í „Lausavísnaþáttinn“ og koma úr mörgum áttum. Ólafur Guðbrandsson frá Kambsnesi í Dölum sendi mér þrjár vísur úr Dölunum. Ein er um móður hans, önnur um Einar afa minn á Hróðnýjarstöðum og þriðja um séra Ólaf á Kvennabrekku. Það er reyndar vafamál að síðast talda vísan sé eftir föður minn en ég birti hana samt. – Ármann Jóhannsson rafvirkjameistari á Stöðvarfirði sendi mér nokkrar vísur í fyrra og ein þeirra er um Jóhannes Þorsteinsson í Ásum í Hveragerði og birtist hún nú með Hveragerðisvísunum. – Þá koma tvær vísur úr Þórsmörk og eru hafðar eftir Guðmundi Guðna Guðmundssyni, en þær birtust í grein eftir hann í Tímanum 1961.

Það má með sanni segja að ferskeytlan lifir enn góðu lífi á Fróni. Í lausavísnaþættinum birtast nú vísur sem endur fyrir löngu urðu til í kaffistofu Máls og menningar að Laugavegi 18 og hafa geymst í minni Önnu Einarsdóttur fv. verslunarstjóra í Bókabúð Máls og menningar. Birtast þær í framhaldi af vísunni um Ester undir titlinum: Vísur úr Máli og menningu.

Þá kemur vísa um Línu á Reykjum „Hér sit ég hjá sólinni rjóðu“ undir titlinum: Vísur úr Hveragerði, sem við fengum hjá Þórði Snæbjörnssyni í Hveragerði.