Í þættinum Úlfaldar og mýflugur á Rás eitt í gærmorgun mátti heyra fjallað um… „bók sem olli umtalsverðu fjaðrafoki í íslensku menningarlífi og varð tilefni mikilla blaðaskrifa árið 1957. Lögregluembættið hafði afskipti af henni og andans menn fordæmdu hana. Sumir töldu bókina upploginn þvætting og argasta klám en aðrir vegsömuðu hana fyrir löngu tímabæra hreinskilni í hvatalífs-lýsingum. Öll þessi umræða er ekki síst merkileg í ljósi þess að umrædd bók kom aldrei út á íslensku. Í þessum þætti verður því rætt um bók sem var í raun aldrei til nema í umræðunni. Hér er átt við íslenska þýðingu Jóhannesar úr Kötlum á skáldsögunni Sangen om den röde rubin, eftir Agnar Mykle, sem átti að fá nafnið: Söngurinn um roðasteininn á íslensku. Hér verður rakin saga þessarar umdeildu skáldsögu bæði hérlendis og erlendis og litið aðeins á bókmenntalandslag tímabilsins á Íslandi í leiðinni.“
Þáttinn má hlýða á hér í gegnum Vefvarp RÚV næstu tvær vikurnar.
Þriðja og síðasta greinin eftir Hjalta Hugason sem við birtum ber nafnið Hátíð fer að höndum ein og hefst þannig: „Í skáldskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) tvinnuðust saman tveir þættir sem í hugum margra eru andstæðir: Róttæk vinstristefna og kristin trúarhugsun. Hér verður brugðið ljósi á kveðskap Jóhannesar um jólahátíðina og kannað hvernig þessi stef endurspeglast í henni.” Greinin birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins – 24. desember 2005.
Nú birtum við aðra greinina af þremur eftir Hjalta Hugason og nefnist hún: Á mótum dulhyggju og félagshyggju — Kristin stef í Sjödægru Jóhannesar úr Kötlum. Hjalti heldur áfram að greina Jóhannes og ljóð hans með augum guðfræðings eða eins og höfundur segir: „…verður leitast við að greina trúarleg stef eða vísanir í ljóðunum án þess að loka með öllu augum fyrir öðrum þáttum þeirra enda verður að skilja ljóð heildstæðum skilningi þar sem eitt sjónarhorn kallast á við annað.“ Greinin birtist áður í Ritröð Guðfræðistofnunar, Studia theologica islandica 21, Útgefandi: Guðfræðistofnun – Skálholtsútgáfan, Reykjavík. 2005.
Eftirlifandi eiginkona Jóhannesar, Hróðný Einarsdóttir, er 99 ára í dag.
Hróðný dvelur á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík og bar sig vel í dag þegar fjölskyldan heimsótti hana.
Hróðný fæddist þennan dag árið 1908 að Hróðnýjarstöðum í Laxárdalshreppi, Dalasýslu. Hún kvæntist Jóhannesi þann 24. júní 1930 og eignuðust þau þrjú börn: Svan (1929), Ingu Dóru (1940) og Þóru (1948).