Þriðja og síðasta greinin eftir Hjalta Hugason sem við birtum ber nafnið Hátíð fer að höndum ein og hefst þannig: „Í skáldskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) tvinnuðust saman tveir þættir sem í hugum margra eru andstæðir: Róttæk vinstristefna og kristin trúarhugsun. Hér verður brugðið ljósi á kveðskap Jóhannesar um jólahátíðina og kannað hvernig þessi stef endurspeglast í henni.” Greinin birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins – 24. desember 2005.
Nú birtum við aðra greinina af þremur eftir Hjalta Hugason og nefnist hún: Á mótum dulhyggju og félagshyggju — Kristin stef í Sjödægru Jóhannesar úr Kötlum. Hjalti heldur áfram að greina Jóhannes og ljóð hans með augum guðfræðings eða eins og höfundur segir: „…verður leitast við að greina trúarleg stef eða vísanir í ljóðunum án þess að loka með öllu augum fyrir öðrum þáttum þeirra enda verður að skilja ljóð heildstæðum skilningi þar sem eitt sjónarhorn kallast á við annað.“ Greinin birtist áður í Ritröð Guðfræðistofnunar, Studia theologica islandica 21, Útgefandi: Guðfræðistofnun – Skálholtsútgáfan, Reykjavík. 2005.
Eftirlifandi eiginkona Jóhannesar, Hróðný Einarsdóttir, er 99 ára í dag.
Hróðný dvelur á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík og bar sig vel í dag þegar fjölskyldan heimsótti hana.
Hróðný fæddist þennan dag árið 1908 að Hróðnýjarstöðum í Laxárdalshreppi, Dalasýslu. Hún kvæntist Jóhannesi þann 24. júní 1930 og eignuðust þau þrjú börn: Svan (1929), Ingu Dóru (1940) og Þóru (1948).
Í maímánuði birtum við þrjár greinar eða greinasafn eftir Hjalta Hugason, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, um Jóhannes og ljóðagerð hans.
Fyrsta greinin sem birtist heitir: Kristur og framtíðarlandið – Trúarleg minni í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum 1926-1952 – og fjallar um: „…tvö trúarleg minni í kveðskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) á tímabilinu frá því fyrsta ljóðabók hans Bí, bí og blaka kom út 1926 þar til Sóleyjarkvæði birtist 1952. Þessi minni eru Kristur eða mannssonurinn og eftirvæntingarfull framtíðarsýn Jóhannesar. Því er síðarnefnda þemað talið trúarlegt að vonarrík framtíðarsýn er ríkur þáttur í kristinni trúarhefð og kallast á fagmáli guðfræðinnar eskatólógía (Eschatologie) sem merkir orðræða um hina hinstu tíma. Kristin eskatólógía kemur skýrt fram í lokaorðum trúarjátningarinnar frá Níkeu en þar segir: „Ég … vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“
Grein þessi birtist í tímaritinu Andvara – Nýr flokkur XLVI, 129. ár, 2004.