Hátíðardagskrá verður haldin sunnudaginn 9. maí til heiðurs Jóhannesi úr Kötlum í tilefni af útkomu nýrrar bókar með úrvali ljóða hans. Dagskráin fer fram í Bókasal Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu og er öllum opin.
Jóhannes úr Kötlum lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum heimsins og ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldarinnar á Íslandi yrði það næsta óhjákvæmilega hann. Ekkert íslenskt skáld sýnir eins vel þróun ljóðlistarinnar hér á landi og þessi fjölhæfi og afkastamikli höfundur. Næstkomandi sunnudag, kl. 16-18, verður Jóhannesarvaka í Bókasalnum þar sem höfundarverki hans verða gerð skil í tali og tónum. Fram koma meðal annarra Arnar Jónsson, Olga Guðrún Árnadóttir,  Silja Aðalsteinsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Þorsteinn frá Hamri.
Verið velkomin.

Síðastliðinn miðvikudag var Silja Aðalsteinsdóttir, útgáfustjóri Máls og menningar,  gestur Kiljunnar á RÚV. Silja ræddi við Egil Helgason um Ljóðaúrval, bók sem hún ritstýrði og ritar inngang að, en þessi útgáfa er að sögn Silju ætluð nýjum kynslóðum ljóðaunnenda sem aðeins hafa kynnst Jóhannesi að litlu leyti í gegnum sína skólagöngu. Aðrir þekkja Jóhannes helst vegna bókarinnar Jólin koma og kvæðanna þar um Jólasveinana, Grýlu og Jólaköttinn.
Bókin Ljóðaúrval er því kærkomin yfirsýn yfir helstu ljóð Jóhannesar og verður vonandi til þess að kynna hann á nýjan leik fyrir þjóðinni.
Í þættinum heyrist gömul hljóðupptaka í eigu RÚV en þar flytur Jóhannes sjálfur ljóðið Rímþjóð.

Þáttinn má skoða hér.

Þess má geta að myndasafnið hér á  johannes.is kom í góðar þarfir við gerð þáttarins og var veitt góðfúslegt leyfi vegna þess.

Í þætti Torfa Geirmundssonar á Útvarpi Sögu þann 14. apríl síðastliðinn var rætt við Valdimar Tómasson vegna útkomu Ljóðaúrvals Jóhannesar úr Kötlum en Valdimar er manna fróðastur um ljóð og ljóðabækur á Íslandi og á eitt stærsta safn íslenskra ljóðabóka í einkaeigu hér á landi. Valdimar og Torfi fóru yfir þær bækur sem Jóhannes gaf út í gegnum tíðina og ræddu um lífshlaup hans. Þáttinn má heyra hér.

Birt með góðfúslegu leyfi Torfa Geirmundssonar og Útvarps Sögu.

Forlagið/Mál og Menning hefur gefið út nýtt safn ljóða Jóhannesar úr Kötlum sem ber einfaldlega heitið Ljóðaúrval.
Í þessu úrvali má finna ljóð úr öllum bókum Jóhannesar fyrir fullorðna, bæði frumsamin og þýdd, sem gefa breiða mynd af margslungnum ljóðheimi skáldsins. Silja Aðalsteinsdóttir sá um útgáfuna og ritar inngang um Jóhannes og verk hans en þar segir meðal annars:
[pullquote]Ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldar á Íslandi yrði það nærri því óhjákvæmilega Jóhannes úr Kötlum. Hann lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum og um engan samtímamann hans í skáldahópi verður sagt með jafnmiklum sanni að hann hafi fundið til í stormum sinnar tíðar.[/pullquote] Enginn fylgir heldur eins nákvæmlega þróun ljóðlistarinnar á öldinni. Hann hóf feril sinn sem nýrómantískt skáld á þriðja áratugnum, innblásinn af löngun til að efla hag landsins og ást þegnanna á því. Hann var líka einlægur trúmaður og þó að hann yrði síðar gagnrýninn á guð almáttugan hélt hann alla tíð vinskap sínum við Jesú Krist, eins og launkímni ljóðaflokkurinn Mannssonurinn (1966) er dæmi um. Á kreppuárum fjórða áratugarins var hann í broddi fylkingar róttækra skálda, knúinn áfram af löngun til að efla sjálfstraust alþýðunnar og örva hana til að berjast fyrir bættum kjörum.
Í umróti og tilvistarkreppu stríðsára og eftirstríðsára fór hann að þýða erlend skáld sem ortu myrk ljóð undir frjálsum háttum og gera eigin tilraunir með slíkt, endurnýjaði kveðskap sinn af frumleika og listfengi. Á sjötta áratugnum varð hann öflugur vörslumaður þjóðlegra gilda í baráttu gegn hersetu Bandaríkjamanna á Íslandi. Loks náði hann í nýja alþjóðlega róttæka bylgju á sjöunda áratugnum, og þegar hann lést, á áttræðisaldri, fannst róttæku ungu fólki sem mótmælti stríðsrekstri heimsvaldasinna í Víetnam og víðar í þriðja heiminum hann yngstur og bestur allra skálda.