Jóhannesarvaka

Hátíðardagskrá verður haldin sunnudaginn 9. maí til heiðurs Jóhannesi úr Kötlum í tilefni af útkomu nýrrar bókar með úrvali ljóða hans. Dagskráin fer fram í Bókasal Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu og er öllum opin.
Jóhannes úr Kötlum lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum heimsins og ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldarinnar á Íslandi yrði það næsta óhjákvæmilega hann. Ekkert íslenskt skáld sýnir eins vel þróun ljóðlistarinnar hér á landi og þessi fjölhæfi og afkastamikli höfundur. Næstkomandi sunnudag, kl. 16-18, verður Jóhannesarvaka í Bókasalnum þar sem höfundarverki hans verða gerð skil í tali og tónum. Fram koma meðal annarra Arnar Jónsson, Olga Guðrún Árnadóttir,  Silja Aðalsteinsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Þorsteinn frá Hamri.
Verið velkomin.