„Þegar ég var barn að aldri, var hann til þess fenginn að troða inn í mig einhvers konar undirstöðuatriðum menntunarinnar. Þetta gekk ekki mjög vel og varð okkur báðum til sárra leiðinda. En þá voru að öðru leyti skemmtilegir tímar í Dölum vestur og skemmtilegt fólk, sem lifði lífi sínu í löngum, söngrænum draumi, slungnum ástsjúkri dulúð, yndislegu framhjáhaldi og margs konar geðþekkri vitleysu.“
Þannig kemst Steinn Steinarr að orði í afmælisgrein í Þjóðviljanum í tilefni af fimmtugsafmæli læriföður síns. Afmælisgrein Steins og minningarorð Jóhannesar um Stein árið 1958 má lesa hér: Jóhannes og Steinn Steinarr.
Mörgum er kunnugt um að Jóhannes úr Kötlum kenndi Steini á unga aldri vestur í Dölum, en Jóhannes var þá farkennari og ferðaðist á milli bæja í sveitum Dalasýslu og í Breiðafjarðareyjum. Síðar lágu leiðir þeirra saman í höfuðborginni og vinskapur þeirra entist öll þau ár sem Steinn átti ólifuð. Var hann í mörg ár heimagangur á heimili Jóhannesar. Báðir voru óhræddir við að gagnrýna skáldskap og skoðanir hins, en þótti einnig undurvænt hvorum um annan, eins og lesa má út úr eftirfarandi greinum. Skrifar þar Steinn fyrst árið 1949 þegar Jóhannes varð fimmtugur en síðari greinin eru minningarorð um Stein sem Jóhannes skrifaði árið 1958.
Jóhannes úr Kötlum fimmtugur
[dropcaps]J[/dropcaps]óhannes skáld úr Kötlum er fimmtugur í dag. Öðrum fremur bæri mér skylda til að minnast hans á þessum tyllidegi – en ég á bágt með að skrifa, eins og margir vita, og þar að auki hafa viðskipti okkar stundum verið dálítið hæpin.
Þegar ég var barn að aldri, var hann til þess fenginn að troða inn í mig einhvers konar undirstöðuatriðum menntunarinnar. Þetta gekk ekki mjög vel og varð okkur báðum til sárra leiðinda. En þá voru að öðru leyti skemmtilegir tímar í Dölum vestur og skemmtilegt fólk, sem lifði lífi sínu í löngum, söngrænum draumi, slungnum ástsjúkri dulúð, yndislegu framhjáhaldi og margs konar geðþekkri vitleysu. Þarna hófst hinn mikli skáldferill Jóhannesar. Þarna sóaði hann andríki sínu á „guð og hvurn mann“. Óð í skýjum eins og fullur máni á haustkvöldi – en sól Stefáns frá Hvítadal var hnigin vestur.
Löngu seinna gat ég hefnt mín lítils háttar með því að pína inn á hann ögn af kommúnisma, sem mér hafði einhvers staðar áskotnast fyrir lítið. – Og yfirleitt hef ég lengst af verið þessum fyrsta og einasta læriföður mínum baldinn nokkuð. Árum saman veittist ég að honum með alls konar óviðurkvæmilegu tali, reyndi að sproksetja hann á ýmsar lundir, reif í sundur hans eigin skáldskap og fór jafnvel tvíræðum orðum um þá pólitísku hugsjón, er ég sjálfur í upphafi hélt fastast að honum. Það gekk meira að segja svo langt, að ég barði hann eitt sinn í ölæði, með priki, fyrir að hafa kennt mér að lesa. Slík eru laun heimsins. Og vitanlega iðrast ég þessa framferðis nú, en veit þó, að það er löngu fyrirgefið.
Og nú er Jóhannes úr Kötlum orðinn þjóðskáldið okkar, ef til vill seinasta skáldið, sem við eignumst í þeim stíl. Hann yrkir á stundum eins og hann væri brúðgumi þessarar þjóðar – og kannski er hann það. Hann er að minnsta kosti meira skáld en hinir, vegna þess að hann hefur ekki glatað því, sem máli skiptir, ekki réttlætis- og ábyrgðartilfinningu mannsins, ekki einlægni barnsins, ekki sjálfum sér. – Og um langa framtíð munu ljóð hans geymast sem tákn og ímynd eins hins bezta og göfugasta manns.
Þjóðviljinn, 4. nóvember 1949. Steinn Steinarr
Þegar klukkan stansaði
[dropcaps]B[/dropcaps]ærinn hans hét Mikligarður. Hann stóð sunnan í Staðarhólsdal miðjum, fallegum dal og veðursælum – og þó vanalega afspyrna þegar hvessti. Fóstran Kristín var völva heimilisins, trölltrygg fornkona. Annars var þarna bergmál í mannanöfnum: hjónin hétu Steinunn og Steingrímur og sjálfur hét pilturinn Aðalsteinn. Þegar hann síðar á ævi lagði í ljóðvíkingu þótti honum vissara að herða enn hljóminn – og þannig kom Steinn Steinarr til sögunnar.
Hann var nær fermingaraldri þegar ég kom kennari á þennan ágæta bæ og gerðist lærifaðir hans. Hann var níu árum yngri en ég, bjartur mjög yfirlitum, hárið sem glóandi silki. Nokkurs andófs kenndi í svipnum meðan hann var að þreifa fyrir sér um tilverurök þessa ókunna manns – stundum skutust gráglettnir demónar um augu og nef. En strax að kvöldi fyrsta dags vorum við orðnir mátar.
Hann var smár vexti og ekki fallinn til líkamlegra stórræða, en því meiri virtist andlegur þroski hans, því enda þótt hann bæri ekki nema hæfilega virðingu fyrir barnaskólastagli og bókakostur væri annars af skornum skammti var skynjun hans undarlega fersk og forvitin, maður gat strax talað við hann um alla heima og geima, það var eins og hann hefði veraldarregistrið einhvernveginn á tilfinningunni.
Ég var nú svo sem ekki orðinn neitt „verðlaunaskáld“ þá, en þó mun hann hafa grunað að ég setti saman vísur, því ekki leið á löngu þar til hann lét talið berast að ljóðagerð og var hann ætíð ákaflega ljúfur og innilegur þegar slík mál bar á góma. En heldur þótti mér lítið fara fyrir hagmælsku hans; hann var ruglaður í ríminu – skorti brageyrað góða. Ég efaðist því um að hann yrði nokkurntíma skáld. Hinsvegar vissi ég strax að hann myndi verða bæði mikill og skrýtinn spekingur. Upp á þetta urðum við fjarska samrýmdir og hvorugan óraði fyrir því sem síðar skyldi fram koma. Samt sendi hann mér kvæði eftir sig nokkru eftir að ég hvarf þaðan úr sveitinni. Það hét Hinn fordæmdi og var ekki björgulegt: einhver óskiljanlegur bölmóður, snarvitlaust rímaður. Ég bað guð að hjálpa okkur báðum.
Þetta vill hvarfla í hugann nú þegar glókollurinn er allur.
2
Að loknum „lestrartímunum“ í Saurbænum skildu leiðir okkar í heilan áratug eða þangað til að ég flutti til Reykjavíkur. Þá var hann þar fyrir fulltíða maður, blásnauður og búinn að mæðast í mörgu, orðinn blóðrauður bolsi – og skáld. Urðu nú miklir fagnaðarfundir og héldust eftir það stöðug samskipti, oft daglega, alla þá stund sem ég hélzt við í höfuðstaðnum. Er þar skemmst af að segja að báðir gerðust nú kreppuskáld, öreigaskáld, byltingarskáld, um sinn. En þessir tveir dalamenn voru harla ólíkir um flest, enda vildi þróunin ganga nokkuð á misvíxl. Útkoman varð sú að meðan nokkur hljómgrunnur fannst hélt ég áfram að „bjarga alþýðunni“ í gamaldags stíl, en er kreppu tók að linna snéri hann sér æ meir að því að „bjarga ljóðlistinni“ í nýmóðins stíl. Og loks kom þar að kveðskapur læriföðurins gamla var orðinn einskonar samnefnari alls þess vanabundna og tímabundna sem víkja þurfti úr vegi. Eða var þar kannski ekki að finna allt það sem hinn nýi skáldaskóli hans fordæmdi hvað harðast: sjálfvirka rímið, þjóðfélagspredikunina, hugsjónaglamrið, tilfinningasemina, andvaraleysið í hinu heilaga musteri listarinnar? Víst horfðust menn nú í augu yfir járntjald snöggra tímamóta, enda þótt aldrei skærist beinlínis í odda um minn kveðskap sérstaklega á opinberum vettvangi – og gæti ég bezt trúað að ég hefði þar að einhverju leyti notið foringjans.
En á einkafundum okkar dalamannanna var annað uppi á teningnum. Þar var ég fyrr en varði orðinn ásmundur karl á bjargi og lét nú grettir sonur kambinn ganga heldur ómjúklega niður bakið og má vera að kengála hafi stokkið hrygglengjulaus til húss. Nú dugði engin sveitahagmælska lengur, engin verkalýðsbylting, engin verðlaun: skrýtni spekingurinn minn var orðinn tímatákn hins eina sanna skáldskapar. En aldrei bar skugga á vináttu okkar hversu öndverðir sem við klóuðumst; ég kunni vel hreinskilninni, þessu ópersónulega hugrekki leitandans, og vissi að á breiðfirzka vísu var hann verstur þegar hann unni mest.
Það var löngum vandi hans þegar hann var búinn að útlista lengur eða skemur fyrir mér hvílíkt dauðans vandræðaskáld ég væri að snúa sér að konu minni eða börnum af þvílíkri ástúð og ljúfmennsku að þau vissu engan meiri dýrðarmann, hversu sárt sem heimilisfaðirinn átti um að binda. Því þó það sé kannski ekki fyrst og fremst spurt um hjartaþel í skáldskap, þá er stundum spurt um það í daglegu lífi. Síðan kvaddi hann og gekk hljóður að nýju út á öræfi götunnar.
Og þegar hann var sjálfur búinn að eignast yndislega konu og ég gerðist gestur þeirra brá svo við að nú var enginn kambur á lofti, heldur sá sjálfgefni höfðingsskapur sem maður átti að venjast á hinum fátækustu sveitaheimilum í gamla daga. Þá urðum við aftur ungir fyrir vestan. Og sama blessuð veðursældin þar undir fjallinu.
3
Með Steini Steinari er í valinn hniginn einn sérstæðasti snillingur íslenzkrar ljóðlistar. Hann var í eðli sínu persónugervingur þeirrar tragísku lífsvitundar sem efast um allt og reynir að brjóta niður hverja hömlu í umkomulausum sjálfsþótta. Það var ekki einungis harmleikur hans eigin þjóðar sem speglaðist í veru hans og tungutaki, heldur hinn eilífi harmleikur mannkynsins alls. Hann var útlaginn á jörðinni, einstæðingurinn, umrenningurinn: Grettir og Hamlet og Sjaplín áttu allir heima í geði hans; og Bjartur með alla þrjózkuna. Hann gat að vísu hrifizt af voldugri hugsjón um stund, en óðar en hugsjónin tók á sig veruleikaform var hún orðin að blekkingu. Hann var skilyrðislaus hatursmaður alls valds, stjórnleysingi. Meðan hann orti hlutlægt og „skiljanlega“ beindist öll viðleitni hans að því að afhjúpa og spotta máttarvöldin – sýna keisarann allsnakinn. Afstaða hans til smælingjans mótaðist ekki af félagslegri nauðsyn, heldur lögbundinni samþjáningu.
Sí og æ leitaði hann að kjarna hlutanna, veruleikanum að baki þeirra – eða hvað maður vill nú kalla það. Það var því ekki ófyrirsynju að hann í list sinni reyndi að gera jafnvel efann og blekkinguna að sjálfstæðum höfuðskepnum, óháðum, óhagganlegum, ofar þjáningu. Uppreisn hans gegn hefðbundinni ljóðlist var því síður en svo fólgin í formbreytingu einni, nýju viðhorfi til tungunnar, líkinganna, skyntenglsanna, heldur átti hún sér ákveðið hugmyndalegt markmið: að losa skáldskapinn af klafa hins ytri veruleika.
[pullquote]Og ég var aðeins til í mínu ljóði.[/pullquote]
Um stefnur og aðferðir má deila, en um hitt verður ekki deilt að með lífsverki sínu í heild hafi Steinn Steinarr orðið djúptækur endurnýjunarkraftur í íslenzkri ljóðagerð.
En þótt skáldið væri magnað var maðurinn, persónuleikinn, sízt áhrifaminni. Árum saman var hann einskonar Sókrates á strætum og gatnamótum höfuðstaðarins og síðan yfirbóhem gildaskálanna þegar batnaði í ári. Enginn átti fleiri málkunningja en þessi mikli einstæðingur. Alþýðlegt viðmót og óvenju slyng og hárbeitt samtalsgáfa staðfestu svo sem verða mátti vald skáldskapar hans. Á víðsjárverðum tímum kreppu og stríðsgróða þegar öll lífsgildi virtust í upplausn eða deiglu gat þessi huldurödd líkzt opinberun, þar sem hún sveiflaðist milli einlægni og spotts, samúðar og fyrirlitningar, umkomuleysis og miskunnarleysis. Hann var holdi klædd ímynd þess margslungna andófs, sem hrikaleg, óráðin heimsmynd hlaut að vekja í hverju ærlegu brjósti – og svigrúmið var margfalt meira í viðræðunni en ljóðinu. Það var ekki aldeilis ónýtt að hlusta á þennan annarlega galdrameistara sem í einu vetfangi gat tætt heiminn í sundur og skapað hann aftur í sinni mynd.
Ég get hugsað að ýmsum kunni að virðast öræfi götunnar nokkuð grá og hljóð nú þegar röddin er þögnuð.
4
Já, fyrir kom að í þessum óbilgjarna uppreisnarsegg sæi gamli lærifaðirinn sitt enfant terrible. En hver kennari veit að það getur líka komið fyrir að honum þyki vænzt um óstýrilátasta barnið. Og þegar öllu er á botninn hvolft hygg ég að fáir hafi staðið mér nær en hann. Það sem hér hefur verið drepið á er sízt til þess ætlað að gera upp á milli manna og kenninga á kveðjustund – hinsvegar gat ég ekki minnzt þessa fornvinar míns án þess að geta að nokkru þess sannasta sem okkur fór á milli.
Þegar ég hitti hann síðast – eftir að sýnt var að hverju fór – sá ég og heyrði að honum var í engu brugðið: hann hélt til móts við gátu dauðans með sama æðruleysinu og hann hafði glímt við gátu lífsins. Þegar ég frétti svo lát hans þótti mér sem dálítið kenjótt dýrindisklukka stanzaði. Og mér fannst einna ankannalegast að mín klukka skyldi ekki verða fyrri til að stanza.
Þjóðviljinn, 3. júní 1958. Jóhannes úr Kötlum
Bókin Ljóðaúrval, nýtt safn ljóða Jóhannesar úr Kötlum, sem gefin var út af Forlaginu/Mál og menningu, hefur selst vel undanfarnar vikur. Bókin er nú í þriðja sæti á lista yfir mest seldu bækur Forlagsins og á metsölulista Eymundsson hefur hún hertekið sjötta sætið. Þetta verður að teljast góður árangur fyrir ljóðabók og vonandi merki um aukinn áhuga yngri kynslóða á Jóhannesi.
Hátíðardagskrá verður haldin sunnudaginn 9. maí til heiðurs Jóhannesi úr Kötlum í tilefni af útkomu nýrrar bókar með úrvali ljóða hans. Dagskráin fer fram í Bókasal Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu og er öllum opin.
Jóhannes úr Kötlum lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum heimsins og ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldarinnar á Íslandi yrði það næsta óhjákvæmilega hann. Ekkert íslenskt skáld sýnir eins vel þróun ljóðlistarinnar hér á landi og þessi fjölhæfi og afkastamikli höfundur. Næstkomandi sunnudag, kl. 16-18, verður Jóhannesarvaka í Bókasalnum þar sem höfundarverki hans verða gerð skil í tali og tónum. Fram koma meðal annarra Arnar Jónsson, Olga Guðrún Árnadóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Þorsteinn frá Hamri.
Verið velkomin.