Það er segin saga að verk Jóhannesar úr Kötlum hafa um langa hríð verið vinsæl í skólum landsins. Í leikskólunum hafa barnaljóð hans átt fastan stað í litlum hjörtum og þegar nær dregur jólahátíð trónir hin sívinsæla bók hans Jólin koma efst á sölulistum bókabúða og efni hennar miðlað til nýrra kynslóða ár hvert, frá foreldri til barns.

Á efri stigum menntunar hefur Jóhannes einnig skipað fastan sess fyrir rannsóknar- og ritgerðarefni – enda um margt einstakur meðal skálda landsins.

Vefsíða um Jóhannes úr Kötlum varð fyrst til vegna aldarafmælis skáldsins árið 1999 og stóðu afkomendur hans að gerð hennar. Þá síðu má enn nálgast gegnum vefbókasafnið.

Afkomendur Jóhannesar ákváðu í framhaldi að gera enn betur hér á léninu johannes.is og byggja upp alhliða gagnagrunn og upplýsingaveitu um ævi og skáldskap hans.

Hér mun því sífellt bætast við fróðleikur af ýmsu tagi og í ýmsum myndum – fyrir börn og fullorðna, nemendur og fræðimenn, sem og aðra er áhuga hafa á verkum hans.

tryggvimagnusson.jpg

Tryggvi Magnússon (f. 6. júní 1900 – d. 7. september 1960) listmálari og teiknari fæddist að Bæ í Steingrímsfirði á Ströndum. Hann lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1919 og stundaði því næst nám í Kaupmannahöfn í tvö ár og fór svo til New York í League of Art og var þar 1921–1922 við nám í andlitsmyndagerð. Hann stundaði svo nám í málaralist í Dresden á árunum 1922–1923 og fluttist að námi loknu til Reykjavíkur. Tryggvi var einn af stofnendum Félags íslenskra teiknara.

Stundum er sagt að Tryggvi Magnússon hafi verið fyrsti teiknarinn sem hafði atvinnu af listgrein sinni. Tryggvi myndskreytti margar barnabækur m.a. Jólin koma, Ömmusögur, Bakkabræður og Fuglinn segir eftir Jóhannes úr Kötlum.

Hann teiknaði íslensku fornmannaspilin, drög að öllum sýslumerkjunum fyrir Alþingishátíðina 1930 og skjaldarmerkið íslenska. Tryggvi teiknaði fornmannabúning Jóhannesar úr Kötlum, sem hann var í á Alþingishátíðinni og er búningurinn geymdur í Þjóðminjasafni Íslands.

Tryggvi stofnaði skopritið Spegilinn og var annar aðaleigandi þess. Hann var um árabil aðalteiknarinn fyrir það rit og þekktastur fyrir skopmyndir sínar.