Afhjúpun á fyrsta stuðlinum um jólasveinana í Dölum 27. apríl 2025
Á dagskrá voru nokkur erindi, m.a. frá Árna Björnssyni, þjóðháttafræðingi og sérlegum áhugamanni um jólasveina.
Einar Svansson, afabarn Jóhannesar úr Kötlum sagði lítillega frá afa sínum og jólasveinunum.
Sönghópurinn Kvika flutti nokkur lög við ljóð Jóhannesar.
Þorgrímur Einar Guðbjartsson, gerði grein fyrir verkefninu, tilurð þess og framkvæmd.
Guðbjörg María Ívarsdóttir, myndlistarkona, sagði frá aðkomu sinni að verkinu.
Að dagskrá lokinni var boðið uppá léttar veitingar að hætti heimamanna. Kynnir var Björn Þór Sigbjörnsson, útvarpsmaður.
Jólin koma hefur nú komið út í rúmlega 30 útgáfum síðan hún var fyrst gefin út 1932. Síðast var hún útgefin 2021 og var það talið 30. prentun. En við vitum að hún hefur komið út a.m.k. einu sinni oftar, því fyrir nokkrum árum fannst eintak í Hveragerði sem var merkt sem 3. útgáfa og var ekki vitað um þá prentun áður. Það var prentað í Félagsprentsmiðjunni 1943.
Árið 2015 var Jólin koma gefin út á ensku í þýðingu Hallbergs Hallmundssonar. Það er bókaútgáfan Griffla sem stóð að því og er nú verið að prenta 2. prentun af þeirri útgáfu sem kemur á markað fyrir þessi jól.
Nú á 90 ára afmælisári Jólin koma hefur bókin nú verið þýdd á pólsku og þýðandinn er pólsk og heitir Nina Slowinska.
Það var fyrir milligöngu Margrétar Blöndal fjölmiðlakonu og verkefnisstjóra fyrir rúmu ári síðan að þetta samstarf hófst og Bókaútgáfa Forlagsins tók að sér að gefa bókina út. Margrét fékk styrk úr Samfélagssjóði Krónunnar til þýðingarinnar og verkið hófst. Af hálfu Forlagsins var það Úa – Hólmfríður Matthíasdóttir sem sá um að koma bókinni í gegnum verkferilinn: þýðingu, umbrot, prentun og bókband og nú er bókin komin út í sama formi og 80 ára afmælisútgáfan 2012.
Bókin fæst einnig sem hljóðbók á vef Forlagsins og á Storytel.
Jólakötturinn verður á ferli um miðborgina næstu vikur en síðastliðinn laugardag kveikti forseti borgarstjórnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir, á nýrri jólaskreytingu á Lækjartorgi sem er sjálfur Jólakötturinn. Hann er engin smásmíði, um fimm metrar á hæð og sex metrar á breidd og er lýstur upp með 6.500 LED-ljósum.
Við athöfnina söng barnakórinn Graduale Futuri nokkur jólalög og hjónin Grýla og Leppalúði voru á staðnum og veittu viðtöl ásamt jólakettinum.
Í byrjun sumars, daginn fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní, var haldið upp á 80 ára afmæli Bókmenntafélagsins Máls og menningar í menningarhúsinu Hörpu. Af þessu tilefni gaf félagið út bókina Sóley sólufegri, sem fjallar um Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum og tónstef Péturs Pálssonar.
Í bókinni er ljóðið birt með ítarlegum skýringum Árna Björnssonar. Þórður Helgason fjallar um mál og stíl ljóðsins og Gunnar Guttormsson skrifar um tónsmiðinn Pétur Pálsson og rekur sögu ljóðsins í flutningi og á hljómplötum.
Þetta er fallega út gefin bók, falleg hönnun á bandi og umbroti og allri gerð. Bókinni fylgir diskur með Sóleyjarkvæði í upprunalegum flutningi hóps hernámsandstæðinga en sú upptaka hefur aldrei komið út áður.