Lítil var hönd og lítill var fótur
á litlu stúlkunni í Hlíð.
Hún var svo góð og hún var svo rjóð
og hún var svo ung og fríð.

Hún átti skeljar, hún átti horn,
hún átti bláan kjól,
og sitt hvað fleira sem segist ekki
– og svo komu loksins jól.

Kökur ilmuðu og kerti brunnu,
– fólk klæddist í allt sitt skart.
Og allt varð svo hlýtt og hátíðlegt
og hamingjusamt og bjart.

Þá krunkaði gamli krummi úti,
– hann krunkaði lengi og hátt,
og auðheyrt var á hans úfnu rödd,
að nú átti hann fjarska bágt.

Litla stúlkan með litla fótinn
og litlu höndina sat
í indælum kjól við indælt borð,
og át sinn jólamat.

En þegar hún heyrði krumma krunka
hún kastaði hnífi og skeið,
og út á hlaðið með hupp og magál
hljóp hún þá beina leið.

Krummi sat þarna, svangur mjög,
í sínum gamaldagskjól,
og átti ekki nokkurn ætan bita,
er aðrir héldu jól.

En litla telpan sá lítinn skafl
og lagði þar matinn sinn
og sagði svo góð og glöð og falleg:
„Í guðsfriði, krummi minn!”

Og hrafninn flaug út í hljóðan geiminn,
með hátíðarfenginn þann. –
Við mánaglætu og mikinn kulda
í matinn kroppaði hann.

Svo krunkaði hann svo fjarska feginn,
– hann fann að nú voru jól, –
og flögraði upp í frosið gil,
– þar fannst honum ágætt skjól . . .

– – –

Og árin liðu – og liðu hratt,
og litla telpan varð stór,
og eignaðist mann og eignaðist börn
– og allt saman vel það fór.

En „allt er í heiminum hverfult” löngum
og hverfulust lukkan þó. –
Loks mætti henni sú mikla sorg,
að maðurinn hennar dó.

Og eftir sat hún með átta börn
svo ung og rjóð og fríð.
Og nú varð lítið um björg og birtu
hjá börnunum þar í Hlíð.

Treginn var þungur og tíminn langur
og tilveran dimm og köld. –
Nú var ekki til neins að hlakka
hið næsta jólakvöld.

Börnin sátu í þungum þönkum,
– þau þráðu ljós og yl,
en vissu að nú var allt svo örðugt
og ekkert kerti til.

Enginn veit hversu allt er snautt,
þar sem enginn fögnuður vex.
Vindur gnauðaði á glugga og þaki,
en gamla klukkan sló sex . . .

Þá heyrðu krakkarnir krunkað úti
og krunkað lengi og hátt,
og enn var krunkað og aftur krunkað,
svo einkennilega dátt.

Húsfreyjan þekkti þá rámu raust
og rölti nú út á hlað,
til að segja krumma,
að hún ætti ekkert,
– hann yrði að hafa það.

En hissa varð hún er hrafnar margir
á hlaðinu sátu þar,
og hver þeirra lítinn,
léttan böggul í langa nefinu bar.

Þeir hneigðu sig allir hæversklega
og hoppuðu í bæinn inn,
og hver þeirra lagði í litla kjöltu
litla böggulinn sinn.

Svo ruku þeir allir aftur til baka
og út í buskann á ný
og krunkuðu hátt og hátíðlega
og hurfu langt upp í ský.

En inni varð heldur handafum,
– það var hlegið og masað og spurt,
því vonleysið fannst ekki framar þar,
– það var flogið með hröfnunum burt.

Sjá, bögglarnir opnuðust allir í senn
og allt varð svo hlýtt og bjart,
því þar voru kerti og þar voru spil
og þar var svo ótalmargt.

Og börnin æptu af undrun og gleði,
er úr einum bögglinum valt
heilmikil skriða af glóandi gulli,
– þau gáfu mömmu það allt.

Og móðirin góða grét og hló,
– því grunur hennar var sá,
að hér hefðu komið hrafnar nokkrir
himninum sjálfum frá.

– – –

En reyndar var þetta krummi karlinn,
með kolsvarta niðja-fjöld,
sem hún hafði forðum hjálpað um björg
á hlaðinu’ – eitt jólakvöld.

Myndir eftir Tryggva Magnússon (skoða æviferil Tryggva) ©Þórdís Tryggvadóttir

Hún amma gamla var gæðablóð,
og kunni ósköpin öll
um börnin karlsins í kotinu
og konungsbörnin í höll,
og margt, margt fleira, svo fallegt og gott,
sem nú er grafið og gleymt.
Sumt af því hafði hún séð eða heyrt,
sumt af því hafði’ana dreymt.

Um jólin var hún einkum svo ör
á sögur og líka ljóð. –
Við börnin hlustuðum hugfangin
og vorum svo glöð og góð.
Við lifðum öll þessi æfintýr
upp aftur og aftur á ný.
– Það var slíkt yndi hjá ömmu þá,
og aldrei gleymum við því.

Hún sat þarna lotin í sínum stól
og horfði út í rökkrið hljótt,
eins og gæti hún þannig á hulinn hátt
efnið í sögurnar sótt. –
Og loftið af töfrum titrandi varð
og þrungið af seiðandi þrá.
Ja, – ef þið vissuð nú eins og var,
um allt, sem ég heyrði og sá.

Inni í hömrunum kváðu með kaldri raust
hin fúlu, ferlegu tröll,
og blésu úr nösunum niður í byggð
svo ógnar ískaldri mjöll. –
En huldufólkið í hólum söng
sitt þýða ljúflingalag.
Það var iðandi fjör og þó undarleg kyrrð
í Álfheimum nótt og dag.

Og dvergarnir læddust um lautirnar,
og stukku í steinana inn,
og smíðuðu þar við gullna glóð
einhvern kynlega kjörgripinn.
Og nykrarnir busluðu um blátær vötn,
með allskonar ærsl og brek.
En hafmær fögur við hafsins brún
að hörpudiskum sér lék.

Svona varð allt svo lifandi og ljóst
við ömmunnar æfintýr,
að maður sá gegnum holt og hæð,
og það sem í þokunni býr.
Ég sat þarna á kistlinum, brosleitt barn,
við gömlu konunnar kné
og hugsaði æði oft um það,
hvernig allt þetta mætti ske.

Amma er nú löngu liðin á burt,
– hún var grafin í djúpa gröf.
En sögurnar hennar ég sumar man,
sem hún gaf mér í jólagjöf.
Og nú skal ég upprifja eitthvað af þeim,
og bjóða ykkur, börnin mín góð,
ef þið hlustið með athygli eina stund
og eruð siðprúð og hljóð.

Myndir eftir Tryggva Magnússon (skoða æviferil Tryggva) ©Þórdís Tryggvadóttir

Einu sinni var hestur og kýr,
hestur og kýr.
Það voru mestu myndardýr,
myndardýr.

Hann hét Smári og hún hét Rós,
hún hét Rós.
Hann átti hesthús, hún átti fjós,
hún átti fjós.

Þau hittust eitt sinn uppi í dal,
uppi í dal,
og óðara með sér tóku tal,
tóku tal.

Þau töluðu um veðrið hægt og hlýtt,
hægt og hlýtt,
og blessað grasið, svo grænt og nýtt,
grænt og nýtt.

Og kusa varð skotin í klárinum strax,
klárinum strax:
„En hvað þú ert með fallegt fax,
fallegt fax!”

En klárinn ansaði ófeiminn,
ófeiminn:
„Hálfu fegurri er hali þinn,
hali þinn!”

Og kýrin hélt áfram ört með geð,
ört með geð:
„Þvílíka hófa ég hef ei séð,
hef ei séð!”

En klárinn hrærður á kúna leit,
kúna leit:
„Aðrar eins klaufir ég engar veit,
engar veit!”

Og þarna gláptu þau góða stund,
góða stund,
og hældu hvort öðru á alla lund,
alla lund.

Og hétu hvort öðru himinsól,
himinsól,
að hittast í næði um næstu jól,
næstu jól.

Þá skyldu þau gleðjast á góðum stað,
góðum stað.
Svo kysstust þau ánægð upp á það,
upp á það.

Í hesthúsi og fjósi var hlakkað til,
hlakkað til.
Og loks komu jólin með ljós og yl,
ljós og yl.

Þá fengu öll dýrin mikinn mat,
mikinn mat.
Nú borðaði hver sem betur gat,
betur gat.

Og hesturinn Smári hafra sauð,
hafra sauð,
og vinum sínum til veislu bauð,
veislu bauð.

Það var sem allt yrði eintómt ljós,
eintómt ljós,
er kom í hesthúsið kýrin Rós,
kýrin Rós.

Þau heilsuðust eins og fínna fólk,
fínna fólk. –
Hún gaf honum fulla fötu af mjólk,
fötu af mjólk.

En fleira gekk þangað gesta inn,
gesta inn,
bæði hafur og hundurinn,
hundurinn.

Komu þar líka kisa og ær,
kisa og ær,
brosandi og fínar báðar tvær,
báðar tvær.

Og óboðin komu í það hús,
í það hús,
snjótittlingur og mórauð mús,
mórauð mús.

Þau fengu að hýrast í horni þar,
horni þar,
og létu sér nægja leifarnar,
leifarnar.

Nú hófu átið hin heldri dýr,
heldri dýr,
og ærin sagði þeim æfintýr,
æfintýr.

Loks stóð upp klárinn og kusa hans,
kusa hans,
og stungu upp á því að stíga dans,
stíga dans.

En þá vantaði eitthvert undirspil,
undirspil,
svo haninn var sóttur að hjálpa til,
hjálpa til.

Og haninn stóð sperrtur og hóf sitt gal,
hóf sitt gal,
og nú var hoppað í hesthússal,
hesthússal.

Klárinn dansaði kúna við,
kúna við,
aftur á bak og út á hlið,
út á hlið.

Og hafurinn ánni upp þá bauð,
upp þá bauð.
Í hálsi þeirra hláturinn sauð,
hláturinn sauð.

Og seppi á kisu kunni tök,
kunni tök.
Þar hringsnerust þau með bogin bök,
bogin bök.

Og snjótittlingurinn, snar og fús,
snar og fús,
í horninu sveiflaði sinni mús,
sinni mús.

Og nú hömuðust dýrin, sæl og sveitt,
sæl og sveitt,
þangað til öll voru orðin þreytt,
orðin þreytt.

Þá músin hljóð inn í holu smaug,
holu smaug.
Og út um rúðuna fuglinn flaug,
fuglinn flaug.

Og hafurinn leiddi ána út,
ána út.
Hún nartaði í skegg hans niðurlút,
niðurlút.

Og kisa tölti með héppa heim,
héppa heim.
Svoleiðis endar sagan af þeim,
sagan af þeim.

En í húsinu sofnuðu hestur og kýr,
hestur og kýr.
Þau voru hyggin og hófsöm dýr,
hófsöm dýr.

Því hvernig sem veslings haninn gól,
haninn gól,
þau vildu ekki lengur vaka um jól,
vaka um jól.

Svo haninn vakti upp hænurnar,
hænurnar,
og nú voru sungnir sálmar þar,
sálmar þar

Hvort heimurinn batnaði við það væl,
við það væl,
það veit ég ekki.  Og verið þið sæl.
Verið þið sæl!

Myndir eftir Tryggva Magnússon (skoða æviferil Tryggva) ©Þórdís Tryggvadóttir

Árið 1932 kom út sú bók Jóhannesar sem langvinsælust hefur orðið, prentuð ótal sinnum og kennir öllum íslenskum börnum að þekkja nafnið hans: Jólin koma. Hvaða íslenskt barn á hvaða aldri sem er hefur ekki sungið þessa vísu:

Bráðum koma blessuð jólin,
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt,
í það minnsta kerti og spil.

Í bókinni eru kvæðin alþekktu um Grýlu, jólasveinana og jólaköttinn sem öllu öðru fræðslu- og skemmtiefni fremur hafa haldið lífi í þessum vættum í minni þjóðarinnar.

Ömmusögur
Sjötíu ár eru síðan Ömmusögur kom fyrst út. Hér er meðal annars að finna kvæðið um stúlkuna sem gaukaði mat að krumma þegar hart var í ári og fékk að launum óvæntan glaðning þegar hún átti sjálf bágt, og Sögu af Suðurnesjum, kvæðið um drenginn sem kemst í kynni við selina á hafsbotni. Eins og hin vinsæla bók Jólin koma eru Ömmusögur sígildur kveðskapur fyrir unga sem aldna.