Dýrasaga

Einu sinni var hestur og kýr,
hestur og kýr.
Það voru mestu myndardýr,
myndardýr.

Hann hét Smári og hún hét Rós,
hún hét Rós.
Hann átti hesthús, hún átti fjós,
hún átti fjós.

Þau hittust eitt sinn uppi í dal,
uppi í dal,
og óðara með sér tóku tal,
tóku tal.

Þau töluðu um veðrið hægt og hlýtt,
hægt og hlýtt,
og blessað grasið, svo grænt og nýtt,
grænt og nýtt.

Og kusa varð skotin í klárinum strax,
klárinum strax:
„En hvað þú ert með fallegt fax,
fallegt fax!”

En klárinn ansaði ófeiminn,
ófeiminn:
„Hálfu fegurri er hali þinn,
hali þinn!”

Og kýrin hélt áfram ört með geð,
ört með geð:
„Þvílíka hófa ég hef ei séð,
hef ei séð!”

En klárinn hrærður á kúna leit,
kúna leit:
„Aðrar eins klaufir ég engar veit,
engar veit!”

Og þarna gláptu þau góða stund,
góða stund,
og hældu hvort öðru á alla lund,
alla lund.

Og hétu hvort öðru himinsól,
himinsól,
að hittast í næði um næstu jól,
næstu jól.

Þá skyldu þau gleðjast á góðum stað,
góðum stað.
Svo kysstust þau ánægð upp á það,
upp á það.

Í hesthúsi og fjósi var hlakkað til,
hlakkað til.
Og loks komu jólin með ljós og yl,
ljós og yl.

Þá fengu öll dýrin mikinn mat,
mikinn mat.
Nú borðaði hver sem betur gat,
betur gat.

Og hesturinn Smári hafra sauð,
hafra sauð,
og vinum sínum til veislu bauð,
veislu bauð.

Það var sem allt yrði eintómt ljós,
eintómt ljós,
er kom í hesthúsið kýrin Rós,
kýrin Rós.

Þau heilsuðust eins og fínna fólk,
fínna fólk. –
Hún gaf honum fulla fötu af mjólk,
fötu af mjólk.

En fleira gekk þangað gesta inn,
gesta inn,
bæði hafur og hundurinn,
hundurinn.

Komu þar líka kisa og ær,
kisa og ær,
brosandi og fínar báðar tvær,
báðar tvær.

Og óboðin komu í það hús,
í það hús,
snjótittlingur og mórauð mús,
mórauð mús.

Þau fengu að hýrast í horni þar,
horni þar,
og létu sér nægja leifarnar,
leifarnar.

Nú hófu átið hin heldri dýr,
heldri dýr,
og ærin sagði þeim æfintýr,
æfintýr.

Loks stóð upp klárinn og kusa hans,
kusa hans,
og stungu upp á því að stíga dans,
stíga dans.

En þá vantaði eitthvert undirspil,
undirspil,
svo haninn var sóttur að hjálpa til,
hjálpa til.

Og haninn stóð sperrtur og hóf sitt gal,
hóf sitt gal,
og nú var hoppað í hesthússal,
hesthússal.

Klárinn dansaði kúna við,
kúna við,
aftur á bak og út á hlið,
út á hlið.

Og hafurinn ánni upp þá bauð,
upp þá bauð.
Í hálsi þeirra hláturinn sauð,
hláturinn sauð.

Og seppi á kisu kunni tök,
kunni tök.
Þar hringsnerust þau með bogin bök,
bogin bök.

Og snjótittlingurinn, snar og fús,
snar og fús,
í horninu sveiflaði sinni mús,
sinni mús.

Og nú hömuðust dýrin, sæl og sveitt,
sæl og sveitt,
þangað til öll voru orðin þreytt,
orðin þreytt.

Þá músin hljóð inn í holu smaug,
holu smaug.
Og út um rúðuna fuglinn flaug,
fuglinn flaug.

Og hafurinn leiddi ána út,
ána út.
Hún nartaði í skegg hans niðurlút,
niðurlút.

Og kisa tölti með héppa heim,
héppa heim.
Svoleiðis endar sagan af þeim,
sagan af þeim.

En í húsinu sofnuðu hestur og kýr,
hestur og kýr.
Þau voru hyggin og hófsöm dýr,
hófsöm dýr.

Því hvernig sem veslings haninn gól,
haninn gól,
þau vildu ekki lengur vaka um jól,
vaka um jól.

Svo haninn vakti upp hænurnar,
hænurnar,
og nú voru sungnir sálmar þar,
sálmar þar

Hvort heimurinn batnaði við það væl,
við það væl,
það veit ég ekki.  Og verið þið sæl.
Verið þið sæl!

Myndir eftir Tryggva Magnússon (skoða æviferil Tryggva) ©Þórdís Tryggvadóttir