Amma
Hún amma gamla var gæðablóð,
og kunni ósköpin öll
um börnin karlsins í kotinu
og konungsbörnin í höll,
og margt, margt fleira, svo fallegt og gott,
sem nú er grafið og gleymt.
Sumt af því hafði hún séð eða heyrt,
sumt af því hafði’ana dreymt.
Um jólin var hún einkum svo ör
á sögur og líka ljóð. –
Við börnin hlustuðum hugfangin
og vorum svo glöð og góð.
Við lifðum öll þessi æfintýr
upp aftur og aftur á ný.
– Það var slíkt yndi hjá ömmu þá,
og aldrei gleymum við því.
Hún sat þarna lotin í sínum stól
og horfði út í rökkrið hljótt,
eins og gæti hún þannig á hulinn hátt
efnið í sögurnar sótt. –
Og loftið af töfrum titrandi varð
og þrungið af seiðandi þrá.
Ja, – ef þið vissuð nú eins og var,
um allt, sem ég heyrði og sá.
Inni í hömrunum kváðu með kaldri raust
hin fúlu, ferlegu tröll,
og blésu úr nösunum niður í byggð
svo ógnar ískaldri mjöll. –
En huldufólkið í hólum söng
sitt þýða ljúflingalag.
Það var iðandi fjör og þó undarleg kyrrð
í Álfheimum nótt og dag.
Og dvergarnir læddust um lautirnar,
og stukku í steinana inn,
og smíðuðu þar við gullna glóð
einhvern kynlega kjörgripinn.
Og nykrarnir busluðu um blátær vötn,
með allskonar ærsl og brek.
En hafmær fögur við hafsins brún
að hörpudiskum sér lék.
Svona varð allt svo lifandi og ljóst
við ömmunnar æfintýr,
að maður sá gegnum holt og hæð,
og það sem í þokunni býr.
Ég sat þarna á kistlinum, brosleitt barn,
við gömlu konunnar kné
og hugsaði æði oft um það,
hvernig allt þetta mætti ske.
Amma er nú löngu liðin á burt,
– hún var grafin í djúpa gröf.
En sögurnar hennar ég sumar man,
sem hún gaf mér í jólagjöf.
Og nú skal ég upprifja eitthvað af þeim,
og bjóða ykkur, börnin mín góð,
ef þið hlustið með athygli eina stund
og eruð siðprúð og hljóð.
Myndir eftir Tryggva Magnússon (skoða æviferil Tryggva) ©Þórdís Tryggvadóttir