Jólakötturinn verður á ferli um miðborgina næstu vikur en síðastliðinn laugardag kveikti forseti borgarstjórnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir, á nýrri jólaskreytingu á Lækjartorgi sem er sjálfur Jólakötturinn. Hann er engin smásmíði, um fimm metrar á hæð og sex metrar á breidd og er lýstur upp með 6.500 LED-ljósum.
Við athöfnina söng barnakórinn Graduale Futuri nokkur jólalög og hjónin Grýla og Leppalúði voru á staðnum og veittu viðtöl ásamt jólakettinum.

Fréttatilkynning frá Miðborg Reykjavíkur

Í byrjun sumars, daginn fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní, var haldið upp á 80 ára afmæli Bókmenntafélagsins Máls og menningar í menningarhúsinu Hörpu. Af þessu tilefni gaf félagið út bókina Sóley sólufegri, sem fjallar um Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum og tónstef Péturs Pálssonar.

Í bókinni er ljóðið birt með ítarlegum skýringum Árna Björnssonar. Þórður Helgason fjallar um mál og stíl ljóðsins og Gunnar Guttormsson skrifar um tónsmiðinn Pétur Pálsson og rekur sögu ljóðsins í flutningi og á hljómplötum.

Þetta er fallega út gefin bók, falleg hönnun á bandi og umbroti og allri gerð. Bókinni fylgir diskur með Sóleyjarkvæði í upprunalegum flutningi hóps hernámsandstæðinga en sú upptaka hefur aldrei komið út áður.