Vísur Ingu Dóru og Ljóðið um Labbakút

Ljóðið um Labbakút og Vísur Ingu Dóru komu fyrst út árin 1946 og 1959 en vísnabálkarnir tveir eru löngu orðnir sígildir, rétt eins og svo margt sem Jóhannes úr Kötlum orti. Bækurnar hafa verið ófáanlegar lengi en nærri má geta að eintök af fyrri prentunum hafi gengið kynslóða á milli. Til að varðveita þessa menningu barna enn frekar endurútgefur Mál og menning nú bækurnar í sinni upprunalegu mynd.

Vísur Ingu Dóru eru tíu talsins og fjalla um húsdýrin á bóndabænum; hestinn, kindina, kúna, hundinn, en einnig um rottuna og ógurlega krumma! Glettið orðalag og skemmtilegt rím fellur tvímælalaust í kramið hjá börnum. Gunnar Ek myndskreytti.

Ljóðið um Labbakút er vandað kvæði sem segir frá ímyndunarafli og ævintýraþrá Labbakúts, sem tekur á það ráð einn daginn að labba af stað í leit að einhverju spennandi handan fjallanna og hafsins. Hann lendir í ýmsu en að lokum fer hann að sakna mömmu, pabba og Íslands. Labbakútur kemst að sjálfsögðu heim og allir verða glaðir! Barbara Árnason myndskreytti.