Ljárskógasel og Katlarnir
Inni á Gaflfellsheiði neðanverðri, um tíu kílómetra veg frá Ljárskógum í Dölum, liggur hjáleigan Miðsel (Ljárskógasel) sem var í byggð frá árinu 1833–1927. Þar áður höfðu verið selfarir frá Ljárskógum, sennilega um aldir, jafnvel allt frá landnámsöld. Þarna er gott undir bú en vetrarríki talsvert sem von er til, svo langt inni á heiði. Ekki voru þarna háreistar byggingar fremur en á öðrum heiðarbýlum þeirra tíma, útihús byggð úr torfi, baðstofan úr sama efni, en alþiljuð. Á miðju sumri 1899 féll þáverandi bóndi Magnús Kristjánsson frá og fór þá jörðin í eyði til næstu fardaga. Vorið 1900 fluttu þau hjónin Jónas Jóhannesson og Halldóra Guðbrandsdóttir í Selið ásamt tveimur börnum sínum, Guðrúnu sex ára og Jóhannesi Bjarna, (Jóhannesi úr Kötlum) sem var þá sex mánaða gamall. Þarna bjuggu þau næstu 24 ár. Tvíbýli var í Ljárskógaseli mest allan þann tíma sem þau voru þar og var bænum skipt í tvennt með gangi í miðju. Sambýlisfólk þeirra lengst af voru Guðmundur Jónsson og Guðfríður Guðmundsdóttir 1908–1913 og Þorsteinn Gíslason og Alvilda Bogadóttir 1913–1924 en þau bjuggu þar þangað til Ljárskógasel fór í eyði 1927.
Katlarnir
Laxveiðiáin Fáskrúð, sem margir kannast við, á upptök sín langt inni á Gaflfellsheiði og rennur skammt frá Ljárskógaseli. Í grenndinni er eitt fallegasta svæðið við ána, Katlarnir. Þar er fegursti foss árinnar, ásamt tilheyrandi hyljum, stöpum, klettum og gljúfrum. Þetta er friðsæll, fagur og hrífandi staður, ævintýraheimur sem Jóhannes leitaði oft til á sínum uppvaxtarárum. Þegar Jóhannes gaf út sína fyrstu bók Bí, bí og blaka tók hann sér skáldanafnið Jóhannes úr Kötlum eftir þessu örnefni við ána Fáskrúð. Einnig var sú skýring sögð af þessari nafnbreytingu að annað skáld hefði komið fram á þessum tíma með mjög áþekku nafni og hefði Jóhannes viljað auðkenna sig greinilega með þessum hætti.