Saga af Suðurnesjum
Einu sinni var lítill drengur
suður með sjó. –
Hann varð feginn og fjarska glaður
þegar faðir hans ýsu dró,
– hann hló, –
því þá fékk hann í magann nóg.
– En svo grét hann líka svo lengi,
þegar Lóa systir hans dó.
Litli drengurinn átti bát,
lítinn, bikaðan bát. –
Hann hratt honum oft út á hafið,
en hafði þó á því gát,
að báran bæri ‘ann að landi, –
svo beið hann í fjörusandi
og bjargaði bátnum frá strandi,
– þá dugði ekki fum eða fát.
Stundum var lítið um fiskinn
þar suður með sjó. –
Oft sat faðir hans allan daginn
og ekkert dró,
– og var hann þó orðlögð aflakló.
Og þegar hann kom að landi
voru allir svo ósköp daprir,
en enginn hló.
Svoleiðis var það einn vetur,
– nú versnar það betur, –
að ei fékkst einn einasti fiskur,
það var öldungis tómur hver diskur,
rétt fyrir jólin,
þegar rauðust var skammdegissólin.
Svo var það einn dag,
þegar pabbi var ekki heima,
en mamma að bera inn mó,
að litli drengurinn labbaði
niður að sjó,
og litla, bikaða bátinn
á eftir sér dró,
og ýtti ‘onum fimlega á flot
út á freyðandi öldubrot,
og hló. –
Og báturinn skreið út á djúpið
af sjálfu sér. –
Ekki hvarf hann í öldurnar
og ekki rak hann á sker.
– Allt var víst fullt af fiski
í hafinu hér,
en diskarnir tómir heima,
– því var nú ver, –
og jólin alveg að koma,
– guð hjálpi mér!
Drengurinn átti dálítið færi
og öngul við.
Nú fleygði hann önglinum fyrir borð
að sjómannasið,
því hér voru fiskimið.
– Svo beið hann, loppinn og leiður,
því löng og köld var sú bið.
Loks kippti eitthvað í öngulinn
þar suður í sjó. –
Þá kom nú fum á fiskidrenginn,
hann dró og dró
og hló og hló,
og lagðist út fyrir borðstokkinn,
sú litla aflakló.
Þá fór nú heldur að hallast,
börnin góð,
því hetjan steyptist á höfuðið
í hafsins flóð.
En flóandi í tárum
hans móðir á ströndinni stóð.
Nú haldið þið kannske,
að hann hafi drukknað,
því djúpur er saltur sjór. –
En það var nú ekki aldeilis,
sem betur fór.
Í djúpið hvarf hann að vísu
og drakk það eins og bjór
og varð svo votur og sljór.
– En þá kom þar einhver skepna,
svo skrýtin og gríðarstór,
sem heilsaði og bauð hann velkominn
í hafsins kór.
Og skepnan talaði mannamál
þar suður í sjó.
„Ég heiti Kobbi”, sagði ‘ún,
„minn faðir hét Faraó.
Hann átti Egyptaland,
– þar var óttalegt vanda-stand.
Þú mannst kannske um hann Móse,
sem stafnum í steininn sló,
og rétti hönd yfir hafið,
svo fólkið hans föður míns dó”.
Þá skyrpti saltinu út úr sér
hin unga aflakló,
kinkaði kolli og hló.
En Kobbi hélt áfram sögunni,
sem var nokkuð snjöll:
„Ég er nú einn af þessu fólki,
– selir urðum við öll.
Hérna niðri á hafsbotni
á ég fína, fallega höll.
Þar eru þaraskógar
og þar eru kóralfjöll,
og þar á ég fallega stúlku,
sem er hvít eins og vetrarmjöll”.
Og Kobbi þreif nú í drenginn
og lofti í hans lungu blés,
og synti með hann af stað,
– ég segi nú bara það.
En þá var komið kvöld
og koldimmt um Suðurnes.
Loks komu þeir að höllinni,
þar sem herra Kobbi bjó,
þar suður í sjó.
Fallegt var þar í kring
og af fiskinum var þar nóg.
Bráðum opnuðust dyrnar
og bjarma á móti þeim sló.
Dýrðlegt var þarna og heitt,
en drengurinn sagði ekki neitt,
því fámáll var hann löngum,
síðan Lóa systir hans dó.
Og drengurinn gekk í höllina,
en herra Kobbi skreið.
Það vildi til að ekki var það
löng leið.
Og hallarfrúin kom
í himinbláum kjól,
björt eins og sól,
brosfögur og heið.
En Kobbi lagði hreifana
um háls hennar og kyssti hana,
en fiskidrengurinn fölnaði,
fölnaði og beið.
Nú hrundi skepnuhamurinn
af herra Kobba strax,
og þar stóð fríður kóngssonur,
með mjúkt og fagurt hár
og mikið eins og fax,
sem hrópaði hárri raustu:
„Hjartað mitt! Sjóddu lax!”
En frúin og fiskidrengurinn
horfðust í augu um stund.
Svo rétti hún sína litlu
og ljómandi mund:
„Sæll vertu, elsku bróðir minn,
og velkominn á minn fund!”
En litli drengurinn grét af gleði,
um leið og hann hló,
og hallarfrúna að brjósti sínu
himinfeginn dró,
því þetta var þá hún systir hans
sem týndist suður með sjó,
svo enginn vissi um hana meir,
annað en það að hún – dó.
Nú varð kátt í höllinni
og meira en það,
því nú fóru allir selirnir
í sjónum af stað, og hópuðust saman,
– já, hvað það var gaman.
Þeir dönsuðu og sungu
um systkynin ungu,
– en kóngssonur mansöngva kvað.
Þetta gekk fram á jólakvöld,
– langt fram á jólakvöld.
Þá fór herra Kobbi í haminn aftur,
– en úti reis aldan köld, –
og með systkynin synti að landi
í svona líka ágætu standi.
Í fallegum fjörusandi
lék buslandi bárufjöld.
Og frúin og fiskidrengurinn
löbbuðu í kotið heim,
með lax í skinnbelgjum tveim.
En á malarrifi lá Kobbi
og mændi á eftir þeim.
En sú undrun í kotinu
þegar þau komu inn.
Karlinn missti tóbakið niður
og kerlingin askinn sinn.
Þau voru orðin svo þreytt af að gráta,
þessi gömlu skinn.
Nú var potturinn settur á hlóðir,
– þó það væri nú þó.
Öll settust niður og átu laxinn
og öll fengu meir en nóg,
stúlkan, sem dó,
drengurinn, sem hló,
karlinn, sem ekkert dró,
og kerlingin, sem bar mó.
– En nú voru líka jólin
þar suður með sjó.
En brátt varð litla hallarfrúin
hljóð og þungbúin,
auminginn.
Með tár í augum stóð hún upp
og kyssti á allra kinn,
og fór svo niður í fjöru
til að finna Kobba sinn.
– – –
Vakti á himni jólastjarna,
vindur af hafi blés.
Fallega syntu selirnir
við Suðurnes.
Myndir eftir Tryggva Magnússon (skoða æviferil Tryggva) ©Þórdís Tryggvadóttir