Minningarljóð
Jóhannesar

Jón frá Ljárskógum

F. 28. mars 1914 – D. 7. október 1945.


Ungt skáld í hvítu húsi

Mildi ljóðmaður
ljúfi ástmaður
barns og blóms
og blárra linda,
hárra tinda
og hljóms!

Hví liggur þú hér,
ljúflingur dalsins,
brúðguminn frjálsi
frá í vor?
Manstu —
manstu þau spor?

Manstu þau spor,
er hin mjúkláta gekk
hljóð og fögur
við hlið þér,
blóm las
og brosti við þér?

Hví vill hinn hvíti
huldumaður
bergja svo ört
af blóði þínu?
Þolir hann eigi
þeyinn mjúka
í lífi þínu
og ljóði þínu?

Manstu þinn son,
sumarbarnið,
engil þinn
og ástvin?
Manstu þann söng,
— það sólskin?

Hví vill hinn hvíti
huldumaður
bera þig inn
í hið bleika haust,
— þig, sem átti
að þrá og ljóða,
elska og syngja
endalaust?

En beri hann þig burt,
okkar beggja dalur
geymir í þey sínum
þína raust…

Minningarljóð um Jón frá Ljárskógum. Birt í Þjóðviljanum 16. október 1945.

Álfheiður Sigurðardóttir

F. 25. mars 1856 – D. 1. febrúar 1946.

Minning um móður

Í hjarta mínu er lítið ljós,
sem logar svo skært og rótt.
Í gegnum torleiði tíma og rúms
það tindrar þar hverja nótt.

Það ljósið kveiktir þú, móðir mín,
Af mildi, sem hljóðlát var.
Það hefur lifað í öll þessi ár,
þótt annað slokknaði þar.

Og þó þú sért horfin héðan burt
og hönd þín sé dauðakyrr,
í ljósi þessu er líf þitt geymt,
— það logar þar eins og fyrr.

Í skini þess sífellt sé ég þig
þá sömu og þú forðum varst,
er eins og ljósið hvern lífsins kross
með ljúfu geði þú barst.

Af fátækt þinni þú gafst það glöð,
— þess geislar vermdu mig strax
og fátækt minni það litla ljós
mun lýsa til hinsta dags.

Í nafni Pálínu Benediktsdóttur

J. (Jóhannes úr Kötlum)

Álfheiður Sigurðardóttir

Minningarljóð um Álfheiði Sigurðardóttur, sem bjó að Viðborði á Mýrum eystra og seinna að Einholti í sömu sveit. Maður hennar var Benedikt Kristjánsson. Ljóðið kom frá Heiðdísi Gunnarsdóttur á Selfossi, dóttur Gunnars Benediktssonar rithöfundar í Hveragerði, en Gunnar var sonur Álfheiðar og því bróðir Pálínu Benediktsdóttur í Helli í Ölfusi sem kvæðið er ort fyrir. Þeirra systkini voru m.a, Unnar og Jónína í Hveragerði og Sigurður á Gljúfri í Ölfusi, auk fleiri systkina sem getið er um í ævisögu Gunnars; „Í flaumi lífsins fljóta“.

Árni J. Árnason

F. 9. maí 1896 – D. 24. apríl 1949.

Árni J. Árnason húsgagnasmíðameistari

Líf vort er tónn; á hörpu ljóss og húms
það hljómar skammt,
grætur og hlær við hliðskjálf tíma og rúms,
en hljómar samt;
síðan einn dag — þann dag veit engin spá —
er dauðaþögn og tónninn liðinn hjá.

Vinur í raun: hér hvílir þú svo hljótt,
en hjarta nær
ómar þitt líf sem lýsi gegnum nótt
einn logi skær.
Traust var þín hönd og trú við hlutverk sitt,
en tónsins djúp var góða hjartað þitt.

Þökk sé þér vin: Við lifum lítil börn
og líðum burt.
Vor tónn er sár, við eigum enga vörn
— um allt er spurt.
Líf þitt er svar: á bak við skúr og skin
við skynjum þig, hinn liðna trygga vin.

Árni J. Árnason

Bogi Th. Steingrímsson

F. 8. júní 1922 – D. 12. júlí 1963.


Drúpir gras

Man ég enn þá tíð
í Miklagarði
— ljúfar stundir
ljósaskipta:
sastu mér á kné
svafstu mér í fangi,
glókollur bláeygur,
guðs barn.

Ungur var ég þá
og óbrynjaður:
líf fann ég streyma
frá litlu hjarta,
fann aflið vaxa
í fingrum smám,
mildina ylja
mjúkan vanga.

Síðan hef ég vandlega
í sál minni geymt
ljós þinnar veru,
þótt leiðir skildu
— skín það enn skærar
er skapadómur
berst mér að vestan
um blóð á stráum.

Liðinn ert þú inn
í ljóma bjartrar
júlínætur,
jafnhreinn sem forðum
— drýpur dögg,
drúpir gras,
brosir í draumi
barn sem ég unni.

Ástvinum þínum
öllum ég sendi
blóm fagurrautt
úr brjósti mínu,
legg það við sárin,
læt tárin
seytla í þess krónu,
uns sorgin ljómar.

Ekkert fær dáið
af eðli þínu,
ekkert skyggt
ástúð þína.
Sofðu í fangi ljóðs míns,
sofðu í fangi lands þíns,
glókollur bláeygur,
guðs barn.

Bogi Th. Steingrímsson

Minningarstef um Boga Th. Steingrímsson frá Miklagarði. Birtist í Tímanum 20. júlí 1963. Bogi fórst af slysförum í Búðardal. Hann var giftur Unu Jóhannsdóttur, Bjarnasonar í Búðardal.

Daði Skúlason

F. 29. júní 1928 – D. 23. ágúst 1953.

Daði Skúlason frá Dönustöðum

Velkominn heim, þú ungi Íslands meiður,
til upphafs þíns í ljúfum dalafriðnum.
Að taka við þér langt að komnum, liðnum,
sem lífs þú værir — slíkur er nú heiður
hins græna vallar, blóms og blárra dagga.
Hér býður þér nú skjól þín gamla vagga.

Að vísu er sloknuð vonarstjarna — bundin
við væringjann er kæmi heill af sævi
og gleddist hér við ávöxt langrar ævi
— en enginn veit nær kemur skapastundin
og því skal héðan æðruorð ei falla:
við ungs manns leiði nýjar skyldur kalla.

Þó sortni ský við hnjúk er himinn yfir
sem helgar rót í moldu og spörr á flugi
og sendir ljós í systra þinna hugi
— hinn sanni kjarni allrar veru lifir
og enn mun sólin björt á bæinn skína
og blessa föður þinn og móður þína.

Daði Skúlason

Daníel Tómasson frá Kollsá

F. 7. mars 1888 – D. 8. október 1959.

Augað greinir unaðsmyndir,
angurtóna hlustin nemur
— það er eins og allar lindir
opnist þegar dauðinn kemur.

Þú ert liðinn, ljúfi vinur
— lifir þó í draumi björtum:
ekkert glatast, ekkert hrynur,
allt er geymt í vorum hjörtum.

Líf þitt var sem ljós á vegi
— ljós er býr í trúu starfi
það mun lifa þótt það deyi,
það er hluti af lífsins arfi.

Því skal minning þakklát skína,
því skal blessa liðið gengi:
að hafa öðlast alla þína
ást og fegurð svona lengi.

Hér þó foldin fölni að sinni,
falli dropar regns á veginn,
sæl mun reynast sálu þinni
sólskinsströndin hinumegin.

Daníel Tómasson

Davíð Stefánsson

F. 21. janúar 1895 – D. 1. mars 1964.

Hjörturinn

Fjallkrýndi ljóðhjörtur
Fagraskógar,
sonur Sólarfjalla,
sifji Kaldbaks:
hníg heill að laufum
til hindar þinnar.

Komst þú með sönginn
úr sönghellum landsins,
komst þú með eldinn
úr eldfjöllum landsins,
söngst inn í sálirnar,
brenndir inn í brjóstin
tóna og gneista
tíðar hinnar nýju.

Ómaði Ísland mjög:
hátt léstu hjörtun loga,
hjörtur Fagraskógar.

Áttum við í inni þínu
örskotsstund
síðustu samfunda:
árnuðum hvor öðrum
— í augu horfðumst —
blessunar þeirrar,
þá er boginn spenntur gylli,
að falla fullum móði
og fölvskalaust.

Hniginn ertu tiginn
— hjartað lostið öru —
umleikinn ást þeirra
er þig undruðust:
sé ég svanaflug
yfir Sólarfjöllum,
kórónu geislandi
á Kaldbaki,
hind hvíta rísa
og með hirti prúðum
líða á skáldhörpu skærri
inn í skógardrauminn,
inn í eld fjallanna,
inn í söng hellanna,
inn í sál og brjóst þjóðarinnar,
inn í sögu landsins.

Lengi munu horn þín hljóma,
hjörtur Fagraskógar.

Davíð Stefánsson

Minningarstef um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Birt í Þjóðviljanum 8. mars 1964.

Einar Þorkelsson

F. 20. apríl 1858 – D. 7. febrúar 1958.

Einar Þorkelsson frá Hróðnýjarstöðum í Laxárdal

Dalirnir signa háran höld,
hulin er snævi jörðin köld,
drúpa nú þögul þorrakvöld
— þau eru að kveðja heila öld.

Styrkur var þessi stofn og beinn,
stóð þar fastur og viljahreinn,
stundum með öðrum, stundum einn,
stríðið hið innra vissi ei neinn.

Heilagar moldir heimaranns
hlógu við augum þessa manns
— eftir stendur nú óðal hans,
arfur og saga fullhugans.

Löng var með sanni sókn og vörn,
sigrar tengdir við konu og börn,
lengi hugarins hvíti örn
hélt í við tímans þungu kvörn.

Þakkir vorar skal helga hér
hendinni er aldrei dró af sér
— starf það sem grómlaust unnið er
ávöxt hjá næstu kynslóð ber.

Í voru hjarta stofninn stár
styrkur og beinn, þótt sé hann nár:
gróa þar hundrað gjöful ár,
græn er þar jörð og himinn blár.

Það sem oss hefur dýrast dreymt
deyr ekki, heldur verður geymt;
eigi skal harma, engu er gleymt
— allt mun að lokum verða heimt.

Einar Þorkelsson

Friðmey Guðmundsdóttir

F. 26. september 1909 – D. 23. febrúar 1969.

Minningarljóð

Eins og gullhörpuljóð,
eins og geislandi blær,
eins og fiðrildi og blóm,
eins og fjallalind tær,
eins og jólaljós blítt,
eins og jörðin sem grær,
lifir sál þín í mér,
ó þú systir mín kær.

Þú varst mildi og ást
og þitt móðerni bar
við sinn líknsama barm
dagsins lifandi svar:
allt sem grét, allt sem hló,
átti griðastað þar
— jafnvel nálægð þín ein
sérstök náðargjöf var.

Hversu þreytt sem þú varst,
hvað sem þrautin var sár,
þá var hugur þinn samt
eins og himinninn blár:
eins og birta og dögg
voru bros þín og tár.
Og nú ljómar þín sól
bak við lokaðar brár.

Friðmey Guðmundsdóttir

Georg litli

F. 6. desember 1921 – D. 1. mars 1937.

Minning

Mamma og pabbi döpur eftir drengnum sínum bíða,
— í dag kemur hann heim.
Í dag kemur hann heim úr sínu hinsta stríði, — ennþá
er hvíldin best hjá þeim.
Hann kemur ekki hlæjandi með heiðursmerki á brjósti
né hefðartitil neinn,
en kemur þó sem hetja, ung og fátæk, fallin hetja.
Hann féll í kyrrþey — einn.

Þið hefðuð átt að sjá hann, hvað hann barðist heilum huga
gegn hljóðri dauðans sigð.
Hans stríð var langt og erfitt, þó sást aldrei nokkur vottur
um undanslátt né hryggð.
Í gegnum dýpstu þjáningu skein lífsins sterki ljómi
og lýsti um sjúkrarann.
— Einn krossriddari þaut á fáki um þúsundáraríkið,
og það var — sjálfur hann.

Hann vildi fá að þroskast, gleðjast, – verða stór og sterkur
og standa fremst í sveit.
Hann vildi sjá þau rætast öll í roða júníkveldsins,
hin ríku fyrirheit.
Hann vildi teyga hreysti og kjark úr storms og strauma lindum,
— það var stærsta óskin hans
að berjast fyrir mömmu og pabba, Ísland, allan heiminn,
í ást hins vaxna manns.

Og alveg fram í andlátið hann var svo viss um sigur,
að viljinn braust sem gos
úr djúpum brjóstsins, nær sem honum lítilsháttar létti,
og lék sem dulrætt bros
um varirnar, svo tærðar, að þær máttu naumast mæla,
— svona máttug var hans þrá.
Ég man það bros, því furðulegra afl ég aldrei fyrri
né ódauðlegra sá.

Og síðast, þegar rökkva tók og ekkert hold var eftir,
en aðeins skinn og bein,
Og sonur jarðar virtist dáinn, allur nema augun,
— hans augu mild og hrein, —
Þá störðu augun, mild og hrein, í hljóðri spurn og kveiktu
í hjörtum vorum yl.
— Hví fæ ég ekki að lifa, spurðu augun, full af undrun,
— en ekkert svar var til.

Svo féll hann, eins og hetja, sem ei hopar fyrir neinu,
og hönd að vanga bar.
En engir fánar hafnir voru í hálfa stöng í bænum,
og hringt ei klukkum var.
— Það voru aðeins fáein hjörtu hér og þar, sem slógu
í hljóði um mannsbarn þreytt.
Þau fundu, að nú var merkisberi, ótal óska fallinn,
— en aðrir vissu ei neitt.

Og hetjan unga fer nú aftur heim til mömmu og pabba,
með hreinan skjöld í dag.
— Ég veit, að heldur hefði ´ann kosið sólskin yfir sveitum
en sorgargöngulag.
Því bið ég mömmu og pabba að tengja söguna um soninn
við sólskin heimaranns
og verma hjartans blómin sín, öll börnin hin, sem lifa, —
með brosi og draumum hans.

Georg Kristmundsson

Georg litli eins og stendur í heiti ljóðsins var sonur hjónanna Kristmundar Eggertssonar og Salóme Einarsdóttur í Rauðbarðaholti í Hvammssveit í Dölum. Kristmundur og Jóhannes voru svilar. Salóme var elst barna Einars Þorkelssonar og Ingiríðar Hansdóttur á Hróðnýjarstöðum, en Hróðný kona Jóhannesar var þeirra yngst. Ljóðið kom frá Eggerti Kristmundssyni í Reykjavík, bróður Georgs.

Gísli Jóhannsson

F. 3. júní 1875 – D. 15. apríl 1961.

Lag: Enn í trausti elsku þinnar.

Gísli Jóhannsson frá Pálsseli

Þó að þreyttar litlar lóur
leiti norður bláan geim,
enn er kalt — því vorið virðist
vera langt á eftir þeim.
— Þú varst líka þreyttur, vinur,
þráðir mjög að komast heim.

Eins og þær þín önd er flogin
yfir torsótt reginhaf
— hún í gegnum hylji blámans
hefur einnig komist af.
Lofuð veri himnesk hátign
hans, sem líf þitt tók og gaf.

Margt er hér að muna og þakka
— mjúklát þögnin geymir allt.
Innst og dýpst í okkar vitund
áfram heill þú lifa skalt.
Vorið kemur — lóuljóðin
lifna brátt, þó enn sé kalt.

Seinna, þegar sólin bjarta
sumarblómið fagurlitt
vefur örmum yndislegum,
eins og móðir barnið sitt,
þá mun enn sem gullið glóa
góða, trygga hjartað þitt.

Þá mun ástrík öðlingshöndin
eins og geisli strjúka um kinn,
fjallablær þíns heiða hugar
hljóður leita í brjóstið inn,
augun horfa af hæðum nýjum
heim í gamla dalinn sinn.

Gísli Jóhannsson

Guðbjörg Hafstað

F. 25. júní 1928 – D. 2. júlí 1966.

Við miðnætursól

Við sjáumst ekki í sumar — og
þó sé ég þig:
er blómin horfa himins til
og hneigja sig
þá yfir í þinn huliðsheim
þú heillar mig.

Því vetrarstríð á enda er
nú undrumst við
hve dauðinn veitir dýra hvíld
og djúpan frið
og heyrum lífið líða hjá
sem lækjarnið.

Og allt það sem var auður þinn
og yndi þitt
það leitar eins og lóukvak
í ljóðið mitt
er signir þig hin breiða byggð
við brjóstið sitt.

Og allir þeir sem unnir þú
og unnu þér
þeir sjá hvar logi lífs þíns rís
og lyftir sér
í þessa lygnu líknarnótt
sem ljómar hér.

Er birtan sendir bláan draum
í bæinn inn
og geislaflugið fellur létt
á fagurkinn
það vermir litlar ljúfur þrjár
sem lófi þinn.

Guðbjörg Hafstað

Guðmundur Guðbrandsson

F. 5. ágúst 1886 – D. 4. október 1960.

Litverp er Laxá,
Leiðólfsstaðahlíðin
föl er á vanga — þær vikna nú:
lóan er brottu,
lauffall af víði
og handan fjalla hniginn þú.

Allt sem þú unnir
á þeim fornu slóðum
kemur og minnist þín meðal vor:
steinninn í holti,
stráið í lautu
— allt hyllir nú þín hljóðu spor.

Einnig þinn andblær.
öðlingurinn prúði,
svífur hér yfir sem ekkert sé
— skín þar af neista
sköpunarviljans:
að miðla sál í málm og tré.

Hjartað þitt hreina,
hvítir snillingsfingur,
eilífðarþráin í augans glóð,
ljá eigi framar
lífstrénu fegurð
— en þögul hvíld er þreyttum góð.

Öllum er ætlað
eina skuld að gjalda
— höndin sem krefur er heil og sterk.
Þetta er dauðinn
þá fær ei tekið
er falslaus minning, vandað verk.

Ástvinir þínir
eiga sér í brjósti
hljóminn sem kveikti þín hjartans tryggð.
Brúður þín leiðir
börnin í anda
með þér um helga heimabyggð.

Vertu sæll, vinur.
vertu margblessaður.
Hljóður er dalur því haust er nú.
Þér verður eigi
þakkað með orðum.
En bak við fjöllin brosir þú.

Guðmundur Guðbrandsson

Guðrún Jakobsdóttir

F. 24. júní 1906 – D. 17. júlí 1964.

Ljósið flæðir enn um ásýnd þína:
yfir þínum luktu hvörmum skína
sólir þær er sálu þinni frá
sínum geislum stráðu veginn á.

Myrkur dauðans megnar ekki að hylja
mannlund þína, tryggð og fórnarvilja
— eftir því sem hryggðin harðar slær
hjarta þitt er brjóstum okkar nær.

Innstu sveiflur óskastunda þinna
ennþá má í húsi þínu finna —
þangað mun hann sækja sálarró
sá er lengst að fegurð þeirra bjó.

Börnin sem þú blessun vafðir þinni
búa þér nú stað í vitund sinni:
alla sína ævi geyma þar
auðlegðina sem þeim gefin var.

Þú ert áfram líf af okkar lífi:
líkt og morgunblær um hugann svífi
ilmi og svölun andar minning hver
— athvarfið var stórt og bjart hjá þér.

Allir sem þér unnu þakkir gjalda.
Ástúð þinni handan blárra tjalda
opið standi ódauðleikans svið.
Andinn mikli gefi þér sinn frið.

Guðrún Jakobsdóttir og Pálmi Jónsson

Haakon Malvin Andreas Nilsen

F. 31. mars 1914 – D. 28. maí 1935.

In memoriam

Þig dreymdi um óskanna ókunnu lönd,
er ungur þú starðir í bálið. —
Svo braust þú í norður með hamar í hönd
og hugann við eldinn og stálið.
— En snemma féll ísgeimsins eyðandi dögg
á aflinn þinn, glóandi rauðan.
— Og nú eru þögnuð þín hiklausu högg,
— þitt heimsstríð við lífið og dauðann.

Við gröf þína hrynja´ engin hefðbundin tár,
— þau hæfa ekki minningu þinni,
því til þess er öreigans útlegð of sár,
að athvarf hjá sorginni  ´ún finni.
… Þó brostinn sé stálharði strengurinn þinn,
skal stilla á framtíðarhaginn,
og kveðja þig, félagi, í síðasta sinn
með söng — og með þökk fyrir daginn.

Haakon Malvin Andreas Nilsen

Haakon var fæddur í Melboe í Noregi, 31. mars 1914 og því aðeins 21 árs er hann andaðist. Hann kom til Íslands 1929 og var nú við járnsmíðanám, en las jafnframt undir framhaldsnám í iðnskóla í Noregi. Haakon var einlægur og stéttvís verkamaður og barðist ótrauður fyrir hugsjón verkalýðsins. Hann starfaði í Karlakór verkamanna í tvö ár og var formaður kórsins um ársskeið. Þetta ljóð birtist síðar í söngbók Karlakórs verkamanna, „Vakna þú Ísland“, sem kom út árið 1936.

Hróðmar Sigurðsson

F. 14. maí 1912 – D. 28. nóvember 1957.

Ingunn Bjarnadóttir
F. 25. mars 1905 – D. 29. apríl 1972.


Kveðja til Hróðmars frá Ingu

Dauðinn er þungur sem þangið í sjó
og þó
gaf lífið þér aldrei svo ljúfa ró.
Mér heyrist eins og hjarta slá í draumi.

Feimin og titrandi feta ég inn
og finn
að nú ertu vaknaður, vinur minn.
Það blikar ljós — það blikar ljós á Mýrum.

Sit ég í myrkri, þitt sorgarvíf,
og svíf
á klæði sem ástin gaf eilíft líf.
Við hittumst þá í Hornafirði á morgun.

Hróðmar Sigurðsson

Jóhannes orti þetta ljóð í orðastað Ingunnar þegar Hróðmar lést. Hróðmar kallaði Ingunni alltaf Ingu og hún var líka kölluð það af vinum og kunningjum.

Höskuldur Björnsson

F. 26. júlí 1907 – D. 2. nóvember 1963.

Við tínumst burt

Að loknu stríði lít ég veru þína
við litabylgjur haustsins saman renna:
hér sé ég ljós í lyngi rauðu brenna,
á lygnum himni sé ég stjörnu skína

Og næturfrostið fer um vitund mína,
uns flögra undir skörum kristalslinda
blikin af dýrum draumi þinna mynda
— dagar svo enn og loftin blána og hlýna.

Hógláti vinur: hugir fylgja þér
— hve hljótt er nú um fugla þína alla
og ástarblómsins andvarp þungt og heitt.

Hverful er jörðin. Stopul stundin er.
Stigin af sviði okkar gömlu fjalla
tínumst við burt úr leiknum eitt og eitt.

Höskuldur Björnsson

Minningarstef um Höskuld Björnsson listmálara. Birt í Þjóðviljanum 17. nóvember 1963.

Ingibjörg Benediktsdóttir

F. 11. ágúst 1885 – D. 9. október 1953.

Þitt orð var heitt

Hve ljúft og gott að sofna í sælli trú
á sigur þess er firrir lífið grandi.
Ég veit að einmitt þannig kvaddir þú
— þín þrá var eins og morgunn yfir landi.
Og ég sé best í húmi haustsins nú
hve heiðríkur og fagur var þinn andi.

Þitt orð var heitt — því hjartað sló þar með
sem harpa stillt á gleði allra tíða.
Í bliki augans bjó þitt mikla geð
og brann af kvöl með öllum þeim sem líða.
Og þinni ást það yfirbragð var léð
sem Íslands bestu dætur þykir prýða.

Ég kveð þig eins og frjálsa söngvasveit
á sumardaginn fyrsta úti í haga.
Hvert vorsins fuglar fljúga enginn veit
— en framtíðin er þeirra mikla saga.
Þú bæði komst og fórst sem fyrirheit
og fyrirheitið lifir alla daga.

Minningarstef um Ingibjörgu Benediktsdóttur.
Birt í Þjóðviljanum þann 20. október 1953.

Ingibjörg J. Dahlmann

F. 12. apríl 1875 – D. 13. júní 1940.

Af tregaslóð tímans
án tafar gekkst þú,
jafn djarfleg til dauðans,
jafn dáðrökk og trú. —
Og alein og óstudd
á eilífðar braut
hvarf sál þín með sigri
frá sorgum og þraut.
Hið mjúka milda vor
sín blóm á þig breiði
og blessi þín spor.

Í konunnar kalli
var kyrrlát þín tign,
en ótrúleg orkan
og umhyggjan skyggn.
Ei máttugri móðir
við mannsbarni leit,
— hið óræða undur
var óskin þín heit.
Hið mjúka milda vor
sín blóm á þig breiði
og blessi þín spor.

Þótt hröð væri höndin,
var hjartað svo þreytt,
þitt hugprúða hjarta,
sem hyllti það eitt
að færa þær fórnir,
er fegurstar sjást,
og vaka og vinna
í von sinni og ást.
Hið mjúka milda vor
sín blóm á þig breiði
og blessi þín spor.

Sof, ástríka auga,
sof, yndisrödd þýð,
hvíl, hlýjasta hjarta,
hvíl, höndin svo blíð!
Það hverfur ei héðan,
sem helgast oss var:
vor brjóst eiga bústað,
— þú býrð alltaf þar.
Hið mjúka milda vor
sín blóm á þig breiði
og blessi þín spor.

Ingibjörg J. Dahlmann

Þetta ljóð er í skjalasafni Jóhannesar í sálmaskrá Ingibjargar. Hún var kona Jóns J. Dahlmanns ljósmyndara í Reykjavík, en þau áttu húsið að Laugavegi 46, þar sem Jóhannes leigði ásamt fjölskyldu sinni 1936-1940. Myndina af Ingibjörgu tók Jón J. Dahlmann.

Ingigerður Sigtryggsdóttir

F. 27. október 1849 – D. 15. febrúar 1941.

Er heimsins styrjöld skekur lönd og láð
og loftið skelfur rauðum logum stráð.
Hver heyrir þá, þótt hnígi þreytt í gröf
ein hógvær kona, er treysti á Drottins náð?

En mun þá lýsa hærra af hetjum þeim
sem harmi og kvölum dreifa um jarðargeim.
En þeim, sem finna í fátækt sinni og smæð
þann frið, er græðir okkar særða heim?

Ein þvílík hetja kveður nú í kyrrð
og kærleikurinn svarar, ef þú spyrð.
Um hennar dáðir, jafnt í þrá sem þraut
jú, þessi kona var í minni hirð.

Vér skiljum lítt hve hlutskiptið var hart
að heyja þögult stríð við myrkrið svart.
En áratugum saman sat hún blind
við sína iðju: að gera hlýtt og bjart.

Vér munum öll, hve hátt og skært hún hló
og hvernig æskuroða á vangann sló.
Er níræð breiddi ´ún varman vinarfaðm
mót vorsins geisla, er inn til hennar smó.

En hvernig stóð á öllum þessum yl
sem endalaust í myrkrinu varð til.
Ég þekki svar: hún átti innra ljós
þótt augað sæi ei dags og nætur skil.

Það innra ljós mun fylgja oss fram á leið
þótt fallið sé nú það, er hvíldar beið.
Hver hetjudáð í lífi jafnt sem list
mun lýsa og verma um nýrra alda skeið.

Og dóttur ljóssins kveðjum við í kyrrð
og kærleikurinn svarar ef þú spyrð.
Hvort fallinn líka í dvala sálin sé:
Það sofnar aldrei neinn í minni hirð.

Þetta minningarljóð orti Jóhannes um móður Eyjólfs Jónassonar í Sólheimum og er það tekið af heimasíðu Sólheima. Ingigerður varð blind um fimmtugt, en sinnti störfum fram í háa elli segir í Dalamönnum.

Ingiríður H. Hansdóttir

F. 20. febrúar 1864 – D. 18. desember 1938.

Ingiríður Hansína Hansdóttir frá Hróðnýjarstöðum í Laxárdal

I.
Andar um óskareit
úrsvalur blær.
Dapur í dimmri sveit
drúpir þinn bær.
Horfið er hjartaskjól,
— hljóð urðu þessi jól:
heimilis hnigin sól,
hugljúf og kær.

Minningin björt og blíð
blasir þó við,
— minning um manndómsstríð
makans við hlið,
minning um milda önd,
móðurlæeg vonalönd,
ástríka hjálparhönd,
hógværð og frið.

Hugar við himin þinn
hvergi bar ský.
Áttræði elskhuginn,
— einherji á ný, —
veit, að þín æskuást
aldrei til dauðans brást;
æ hennar sólskin sást
svip þínum í.

Áttræður elskhuginn,
ylhýr á brá,
breiðir nú söknuð sinn
sæng þína á,
bindur í bænarós
bros þitt og æfihrós,
hugar síns lætur ljós
loga þér hjá.

Berast um bæinn þinn
bernskunnar ljóð,
— streymir hér út og inn
ástúð þín hljóð.
Oss er í hjarta heitt,
— huggum oss þó við eitt:
hold þitt var hrjáð og þreytt,
— hvíld er því góð.

II.
Ertu sofnuð, elsku móðir,
– auðn og rökkur „heims um ból“?
Kemur æskan aldrei framar,
— aldrei framar mömmu jól?
Er það hjarta um eilífð brostið,
er af ljósi gaf oss mestr?
Eru nú þau augu slokknuð,
er oss fylgdu lengst og best?

Kaldur gustur sárrar sorgar
súgar nú um hópinn þinn:
Það er sárt að koma – koma
og kveðja þig í hinsta sinn,
einnig sárt að sitja í fjarska
og senda tregans andvarp heim.
Þó er fólgið eilíft yndi
undir niðri í harmi þeim.

Börn, er sína móður missa,
mæna fyrst á dauðans sigð.
Samt vér ættum síst að gráta
svona helga móðurtryggð.
Væri ekki betra að blessa
brjóstið mædda, er friðinn hlaut,
syngja og þakka í ljúfu ljóði
lífsins sigra í gleði og þraut?

Innsti hugur, hjartans móðir,
hefir aldrei fengið mál.
Börn þín innar gráti og gleði
gull þitt vernda í hljóðri sál,
því af lífsins góðu gjöfum,
— gildir jafnt um kóng sem þræl, —
ein var best: að eiga móður.
Elsku móðir! Vertu sæl!

Ingiríður H. Hansdóttir

Ísleifur Högnason

F. 30. nóvember 1895 – D. 12. júní 1967.

Minningarljóð

Hrynja höfug tár,
hrynur sviti og blóð
yfir öld og lýð,
yfir jörð og sæ.
Ein í gegnum ym
eilífs dauðastríðs
hringir klukka hrein:
hjarta göfugs manns.

Hringir hjarta þitt
hljómi sínum enn
inn í okkar hug,
eins þótt brostið sé.
Loga vonaljós
lífsins kringum þig,
eins þótt augu þín
eigi skínir meir.

Borin vorsins væng
vakir hugsjón þín
eins og eldlegt tákn
ofar dægursmæð,
bendir fagurfleyg
fram á sigurleið,
bregður æskuást
yfir þína mynd.

Hiklaus hyggjan var,
heit í sókn og vörn,
yljað sérhvert orð
einlægninnar glóð
— innsta eðlið tært
eins og svalalind,
þar sem brjóstsins blóm
bikar fylltu sinn.

Megi minning þín,
miðla dýpri sjón,
hefja markið hátt,
heimta stærri fórn,
slíta banvæn bönd
— bera litla þjóð
með sinn aldna arf
inn í betri heim.

Biður brúður þín,
barna og vinafjöld,
að hin sæla sól
signi hvert þitt spor,
að þín stóra ósk
ilmi í vorsins dýrð
ung og ódauðleg
yfir þinni gröf.

Ísleifur Högnason

Minningarljóð um Ísleif Högnason.

Jón Jónasson

F. 22. ágúst 1851 – D. 13. mars 1940.

Nú húmi slær á hópinn þinn,
nú hljóðnar allur dalurinn
og það, sem greri á þinni leið
um því nær heillar aldar skeið.

Vor héraðsprýði horfin er:
öll heiðríkjan, sem fylgdi þér.
Og allt er grárra en áður var
og opnar vakir hér og þar.

Þér kær var þessi bændabyggð,
þú battst við hana ævitryggð.
Til árs og friðar — ekki í stríð —
á undan gekkstu í háa tíð.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý
og hógvær göfgi svipnum í.
Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt
og hugardjúpið bjart og stillt.

En styrrinn aldrei stóð um þig,
— hver stormur varð að lægja sig,
er sólskin þinnar sálar skein
á satt og rétt í hverri grein.

Loks beygði þreytan þína dáð,
hið þýða fjör og augnaráð;
sú þraut var hörð — en hljóður nú
í hinsta draumi brosir þú.

Svo hvíl þig, vinur, hvíld er góð,
— vor hjörtu blessa þína slóð
og Laxárdalur þrýstir þér
í þægum friði að brjósti sér.

Jón Jónasson

Þetta erfiljóð sem Jóhannes orti um föður Sigtryggs á Hrappsstöðum sendi Sigurður Markússon. Hann fékk það hjá fóstru sinni Guðríði Guðbrandsdóttur.

Kristján Ó. Skagfjörð

F. 11. október 1883 – D. 26. september 1951.

Kristján Skagfjörð stóð á tindi og leit yfir land:
jökulbungu, eyðiheiði, apalhraun og sand.
Glitrar minning göfugs manns á laufi.

Sál hans átti fundi jafnt við sólskin og hríð
— stundum voru augun hvöss og stundum ljúf og blíð.

Landið skein af brosi hans í birtu og tign.
Þegar hann stóð á Valahnjúki þá var hann skyggn.

Ofar sorg og gleði reis hið eilífa frón,
þúsundáraríkið hans — og það var fögur sjón.

Kristján Skagfjörð stendur enn á fjallinu frjáls
— lifir þar í sælum draumi lands vors og máls.
Glitrar minning göfugs manns á laufi.

Kristján Ó. Skagfjörð

Loftur Þorsteinsson, járnsmiður

F. 16. febrúar 1894 – D. 2. janúar 1938.

Hér hvílist þú nú, vinur, í hátíðlegri ró,
með heiðríkjunnar vökula yfirbragð sem fyr.
— En stirðnuð er nú vörin, sem hjartanlegast hló,
og hljóður er vor þanki — hann staldrar við og spyr.
Svo var það jafnan áður, er eldur lífsins dó,
og enn er sama þögnin við grafarhúmsins dyr.

Vér vildum eiga með þér svo langtum lengri för,
— til landnáms stóð þinn hugur og kveikti táp og þor.
Vér getum varla trúað, að flætt sé burt þitt fjör,
sem fyrir nokkrum dögum hér gekkst á meðal vor,
með æskukraft í fasi og augun djörf og snör,
og áhugann sem leiftrandi neista um sérhvert spor.

Vér þráum ætíð sólskin og sumargróin lönd.
og samleið við hinn glaða og æðrulausa mann,
er rís úr djúpi tímans sem reiðubúin hönd
og reiðubúinn andi, — vér setjum traust á hann.
Og þú varst slíkur maður: Þú stýrðir heill að strönd,
og stefndir á þann vita, sem hæst og fegurst brann.

Þú ungur sást þá hugsjón, er manninn göfgar mest:
að miða allt við sannleika og bróðurlegan rétt.
Af auðvaldi né bókstaf þú aldrei blekkjast lést,
en orka þín til dauðans var helguð þinni stétt.
Og viss varst þú um sigur og barðist jafnan best,
er blóði þínu örðugust takmörk voru sett.

Með völundarins lægni þú hertir hug og mund,
— og hvort heldur þú gáðir í bláan logann inn,
eða beindir þinni hugsjón á hálfvegjunnar fund,
eða handlékst bara í rökkrinu gítarstrenginn þinn,
var alltaf eitthvert fagnandi ljóð í þinni lund,
sem lék í mjúkum bylgjum um enni þitt og kinn.

Og bjartur var þinn hamar og barði niður tröll,
er brautina þú ruddir á öreiganna leið. —
Með brúði þinni gekkst þú á framsýninnar fjöll,
og fyrirheitna landið í rauðu mistri beið…
Nú kveður þig þín brúður, nú kveðjum vér þig öll,
— en kraftur þinn mun verka um nýrra alda skeið.

Í friði hvíl þú, vinur. — Þig verndar móðir jörð,
— hún vefur þig í dag í sitt grófa, kalda lín.
en þegar vorið kemur og frelsar dal og fjörð,
að fótum þinna óska hún leggur blómin sín.
— Og þegar vorið kemur og sólin vermir svörð,
skal sál vor faðma blómin eitt kvöld — og minnast þín.

Loftur Þorsteinsson

Ólafía Stephensen

F. 22. desember 1912 – D. 14.  febrúar 1968.

Nálægð þín

Nálægð þín vakti bjartar sveiflur:
andrúmsloft hetju
með fagrahvel undir brámána
sem skoraði sjálfa þjáninguna á hólm.

Fingur þínir voru heitir líknstafir
er slævðu svaleggjar Dauðans
í krafti þess æðruleysis
sem helst veitir buguðum styrk og fró.

Nú glóir skyndilega ný fastastjarna
í bládjúpi næturhiminsins:
ástgjöf liðinna stunda
sem geislar frá sér lífi minninga.

Ólafía Stephensen

Pálmi Jónsson

F. 3. desember 1900 – D. 30. júní 1968.

Horfinn ertu héðan, vinur,
hjartaprúður, stór í raun,
þú sem fyrir þelsins varma
þáðir oft hin dýrstu laun,
þú sem unnir, þú sem kunnir
þraut að sigra, veita skjól,
þú sem bljúgu barnsins hjarta
bjóst svo tíðum innri jól.

Æðrulaus þú gekkst um garða,
gerðir traustan heimareit:
þangað fró í fátækt sinni
fleiri sóttu en nokkur veit.
Börn þín muna — börn þín una
bjartri mynd af föðurhönd
sem þau leiddi, sem þeim greiddi
seint og snemma málin vönd.

Langt úr fjarska ber nú blærinn
blómailm og daggir heim
— það er kveðjan hljóð að handan:
hinztu bros og tár frá þeim
sem þú unnir, sem þú kunnir
sorg að firra, rétta hönd
ástúðlega eins og vorið
yfir bæði höf og lönd.

Öll við þökkum þína ævi,
þína sterku, tryggu lund
— sjáum þig úr hörðum heimi
halda á mildan gleðifund:
hún sem ann þér, hún sem fann þér
helgan stað í brjósti sér,
bak við tímatjaldið bláa
tekur sæl á móti þér.

Guðrún Jakobsdóttir og Pálmi Jónsson

Sigfús Sigurhjartarson

F. 6. febrúar 1902 – D. 15. mars 1952.

Kveðja til Sigfúsar

Það springa út blóm í sporum þínum,
það spretta upp lindir úr orðum þínum,
það vaxa upp stofnar af verkum þínum,
það vorar og birtir af anda þínum
— og þó er nú hljótt í huga mínum.

Og eigi er kyn þótt hugur sé hljóður:
ég hugsa til okkar særðu móður –
þú varst henni, Sigfús, sonur góður,
sannur og göfugur lífs þíns óður,
og því fer nú kvíði um kalinn gróður

— ég kveð þig í fylgsni vors minnsta bróður.

Sigfús Sigurhjartarson

Minningarstef um Sigfús Sigurhjartarson. Birtist í Þjóðviljanum, 22. mars 1952 og í bókinni Vinaspegill sem kom út 1965.

Sigurbjörn Magnússon og Lárus Jónsson

Sigurbjörn Magnússon, Glerárskógum í Hvammssveit
F. 12. júní 1871 – D. 7. desember 1925.

Lárus Jónsson, Hömrum í Laxárdal
F. 5. júlí 1886 – D. 7. desember 1925.

Guð. — Allra feðra faðir.
Vér flýjum nú til þín.
Um allar aldaraðir
þín ástarsólin skín.
Ó, gef oss geisla bjarta,
svo glitri öll vor tár,
og þíddu þér við hjarta
vor þungu kuldasár.

Vér elskum vorsins óma
og eigum sumarþrá.
Vér elskum lífsins ljóma
og loftin fagurblá.
Þó löngun vor því lága
oft lúti á jörðu hér,
við hjartastað þess háa
vort himnaríki er.

Vér hræðumst húmsins ríki
og hafsins myrkurdjúp,
hvert land í skuggalíki
og lágnættisins hjúp.
Vér hræðumst harðan dauða
og harm og þraut og kvöl
og allt það yndissnauða
og allt sem vekur böl.

Er vetrarveðrin spillast,
og vindar bylja á skjá,
þá strengir vorir stillast
og stynja af hjálparþrá,
og hjörtun hrolli fyllast
og hika við að slá,
ef einhver er að villast,
sem ætlar heim að ná.

Og víst er sárt að vita
sinn vin í hinstu þraut,
er dauðans rúnir rita
sín ráð á kalda braut,
uns fram hann lætur fallast
í faðm á vetrarnótt,
og liðið holdið hallast
að hjarnsins barmi rótt.

En yfir honum hvelfast
þó himindjúpin víð.
Því skyldi enginn skelfast
í skammdegisins hríð.
Þó duft í dauðann villist,
er dýrð í boðskap þeim,
að ekkert af því spillist,
sem á að komast heim.

Hver máttur mun því valda,
að mildi sorgin ljær?
Er stormakyljan kalda
þá kalinn himinblær?
Hver máttur mun því valda
að mannleg græðast sár?
Er feigðarfjúkið kalda
þá frosin kærleikstár?

Og á vor sál í sárum
að sigra frost og snæ
og þíða úr þessum tárum
og þessum dauðablæ
þá ást, sem reynist hlíf,
þá ást, sem eyðir dauða,
þá ást, sem skapar líf?

Vér skiljum færra, færra
en fýsir vora sál.
Guðs ljós er stærra, stærra
en stuðlað fær vort mál,
það ljómar skærra, skærra
en skynjar andi vor,
uns stefna hærra, hærra
til himins öll vor spor.

Guð. — Allra feðra faðir.
Vér finnum hjá þér skjól.
Vér getum verið glaðir,
þú gafst oss heilög jól.
Vér þökkum þínum syni
hans þátt í lífsins bók,
hann geymir vora vini,
sem vetrarhríðin tók.

Sigurbjörn Magnússon

Lárus Jónsson

Eftirfarandi ljóð var flutt af Jóhannesi úr Kötlum við líkbörur þeirra Sigurbjörns Magnússonar í Glerárskógum og Lárusar Jónssonar á Hömrum þann 30. desember 1925, en báðir þessir menn urðu úti í mannskaðaveðri þann 7. sama mánaðar.

Sigurður Thorlacius

F. 4. júlí 1900 – D. 17. ágúst 1945.

Kliðhenda

Hljóður varð ég, sem heyrði blæinn segja
hvarf þitt úr leiknum mitt í sumarskini:
fer nú að verða fátt um kæra vini,
forsæla í dal og nokkur raun að þreyja.

Svo var það líka okkar fagra eyja
— öll hennar grös og lömb og börn að vori
hver mun nú fremstur leita að litlu spori,
lyfta undir þrá er hærra vill sig teygja,

Vaka yfir þeim sem hnuggnum kolli hneigja,
hugljúfur bera, þegar styttir daginn,
ilminn úr sjálfu Búlandsnesi í bæinn,
brákaðan reyr mót nýju ljósi sveigja?

Höfugar daggir brúði þína beygja,
bregður nú húmi á glókollana þína.
Eitt er þó víst: að æskan þekkir sína.
Áfram mun hún þitt stríð til sigurs heyja.

Gullhamrar yfir góðum manni þegja
— grætur í hjarta lítil rós úr blóði.
Líf þitt var stef úr Íslands unga ljóði,
ástríkur tónn sem skírðist við að deyja.

Sigurður Thorlacius

Minningarstef um Sigurð Thorlacius skólastjóra. Birt í TMM, 2. hefti, 1945

Sigvaldi Thordarson

F. 27. desember 1911 – D. 16. apríl 1964.

Síðasta full Sigvalda

Hljómfagurt stál,
heiðríkur blær
— tigin sál
og tær.

Listin sjálf var þitt mál.

Og þó syrti í ál
og skjálfi bikarinn skær:

skál!

Sigvaldi Thordarson

Minningarstef um Sigvalda Thordarson. Birt í TMM. 2. h. 1964.

Stefán frá Hvítadal

F. 11. október 1887 – D. 7. mars 1933.

Stefán Sigurðsson skáld frá Hvítadal

I.
Þér skáld, — nú húmar um hópinn;
en hvað er að fást um það. —
Því það eitt bliknar og blánar,
sem bundið er tíma´og stað.

II.
Mér berst nú frá Bessatungu
barna og lækjahjal,
um stjörnur, sem fyrrum störðu
á Stefán frá Hvítadal.

Hann barðist við banameinið
í brjóstinu — allt sitt líf.
En alltaf var söngurinn sami
um sólina og fögur víf.

Alltaf var álfaseiður
í öreigans björtu raust:
ilmandi óður að vori,
en angurblítt kvak um haust.

III.
Þá er nú Stefán þrotinn,
— ég þekkt hefi engan mann
brosa við þjáningu og basli
með beiskara spotti en hann.

Hann vildi — hann vildi lifa
og vera kóngur í höll.
Hásætið var hans harpa
og hirðin var þjóðin öll.

Í förumannsflíkum hann birtist,
hann fór í einyrkjans stakk
og settist að sumbli — og ljósið
með Sólheimabræðrum drakk.

Um háloft helsingjar flugu,
með heilga kirkju undir væng. —
En skínandi geislar skutust
að skáldsins blóðstokknu sæng.

Hann hlustaði á vorsins hlátra
og horfði upp í blámans þak,
með Maríu mey við sitt hjarta,
en moldina og grasið við bak.

IV.
Á hlaðinu stóð hann haltur
og hélt þar í fákinn sinn.
— Í Saurbæ var logn og suddi,
á Svínadal gola stinn.

Hann hristi hár sitt frá enni
og horfð´i upp úr dalsins þröng. —
Svo hljóp ´ann á bak og hleypti
— og heimurinn allur söng.

Á skjálfandi tölti og skeiði
í skímunni riðið var.
— Þeir héldu til Hofmannaflatar
og hurfu inn í ljósið þar.

V.
Hann kvað sín fegurstu kvæði,
er kom hann dauðanum næst.
Og ægst er heimsgengið lagðist
sté ljómi snillinnar hæst.

En aldrei varð brögum bundið
hans bjartasta skáldamál. —
Það lá, eins og formlaus logi,
í líkama hans og sál.

Það birtist í blossandi leiftrum
við brjóst hans og augastein,
er lifandi orðið lyftist
og lék sér við hversdagsmein.

Og þegar fylgjur hans flugu
til fundar við trú og ást,
varð persónan öll sá eldur,
sem aldrei á prenti sást.

Þannig var þessi maður.
— og þannig er lífið sjálft.
Það lofar ljósinu heilu,
en lætur það bara hálft.

VI.
Við vorum ei alltaf vinir,
— og vinir til dauðans þó.
Ég elskaði hjartahitann
og hörpuna sem hann sló.

Og fyndist mér eitthvað öfugt
á ytra byrði hans rist,
hann söng mitt hjarta til sátta
með sinni töfrandi list.

Og svo er nú góður hver genginn,
— þá grátum við stundum öll,
og gerum karlinn í koti
að konungi í sinni höll.

VII.
Þér konur, — lýsið nú leiði
hins langþreytta förumanns,
því yður var helguð sú óðsnilld,
sem afplánar dauða hans.

Stefán frá Hvítadal

Minningarstef um Stefán Sigurðsson skáld frá Hvítadal. (Eftir skrifuðu handriti í skjalasafni)

Sveinn Steindórsson

F. 7. desember 1913 – D. 3. febrúar 1944.

Lag: Lýs milda ljós

Kveðja frá ástvinum

Víst er það sárt, er hverfur hinzta von
í húmið inn,
ó vinur kær! ó bjarti, blíði son!
ó bróðir minn!
Allt er nú breytt — og önnur jörð en var,
og undarlegir skuggar flögra þar.

En — okkar skjól, þá ógna veðrin ströng,
er ástin þín.
Hún kemur enn og syngur okkur söng,
unz sólin skín.
Allt, sem er hreint, er hafið yfir grand:
þín hjartablóm, þitt fagra draumaland.

Hver er sú nótt, er hljómin svæfa má
í hjarta manns?
Hvert er það bál, er eytt fær æðstu þrá
í eðli hans?
Lífið er sterkt, þótt standi á yztu nöf,
— það stendur af sér jafnvel dauða og gröf.

Hvíl þú í ró við lands þíns ljósa barm,
ó ljúfi vin!
Bros þitt er geymt — og bak við þyngstan harm
er bjartast skin.
Þakklát og bljúg sem blóm, er hneigja sig,
við breiðum krónu lífsins yfir þig.
Jóhannes úr Kötlum

Sveinn Steindórsson

Þetta erfiljóð orti Jóhannes fyrir ástvini Sveins Steindórssonar í Hveragerði, sem fórst í Hótel Íslands-brunanum í Reykjavík í febrúar 1944.

Unnar Haraldur

F. 8. nóvember 1953 – D. 6. október 1958.

Kveðja frá Halla til ömmu og afa

Ég er hérna hjá þér, amma mín,
horfi beint í góðu augun þín,
kyssi þína þreyttu, votu brá
þegar sorgin fellur hana á,
lífið sem var lagt í brjóstið mitt
leitar nú síns skjóls við hjarta þitt,
yndið sem þér eitt sinn gefið var
einmitt kýs að vaxa og blómgast þar,
blær sem strýkur þýtt um vanga þinn
það er, sjáðu, einmitt lófinn minn,
geislinn sem vill gera nýjan veg
gegnum myrkrið — það er einmitt ég.

Ég er hérna hjá þér, afi minn,
hjúfra mig að þinni fölu kinn,
tek í þína hrjúfu, mildu hönd
hvenær sem þú varpar mæddri önd,
enn ég geng við þína hægri hlið,
hjarta þínu vil ég gefa frið,
ég vil geyma þar minn unga arf,
ylja þína hvíld og daglegt starf,
allt sem skærast hló í huga mér
hverja stund ég vil að fylgi þér,
geislinn sem vill gera nýjan veg
gegnum myrkrið — það er einmitt ég.

Ég er hérna ömmu og afa hjá
eins þó lokuð virðist nú mín brá,
dauðans fortjald er mér engin töf,
yfir það ég kem sem morgungjöf,
látið ykkar hreinu, hljóðu sorg
hljóma fagra vekja í sinnisborg,
það er ósk mín að þið séuð glöð,
að þið berið lífsins þumgu kvöð
eins og hörpu fyrir mömmu og mig,
munið er þið fetið dimman stig:
geislinn sem vill gera nýjan veg
gegnum myrkrið — það er einmitt ég.

Unnar Haraldur

Unnar Haraldur, sem ávallt var kallaður Halli af sínum nánustu, drukknaði ungur við leik í Hveralæknum í Hveragerði. Halli litli átti heima í húsinu Þórshamri við Bröttugötu í næsta húsi við Jóhannes úr Kötlum og Hróðnýju konu hans. Móðir hans var Elsa Auðbjörg Unnarsdóttir, nú búsett í Þorlákshöfn, en amma hans og afi voru Valgerður Elíasdóttir og Unnar Benediktsson.

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2025