F. 11. október 1887 – D. 7. mars 1933.
Stefán Sigurðsson skáld frá Hvítadal
I.
Þér skáld, — nú húmar um hópinn;
en hvað er að fást um það. —
Því það eitt bliknar og blánar,
sem bundið er tíma´og stað.
II.
Mér berst nú frá Bessatungu
barna og lækjahjal,
um stjörnur, sem fyrrum störðu
á Stefán frá Hvítadal.
Hann barðist við banameinið
í brjóstinu — allt sitt líf.
En alltaf var söngurinn sami
um sólina og fögur víf.
Alltaf var álfaseiður
í öreigans björtu raust:
ilmandi óður að vori,
en angurblítt kvak um haust.
III.
Þá er nú Stefán þrotinn,
— ég þekkt hefi engan mann
brosa við þjáningu og basli
með beiskara spotti en hann.
Hann vildi — hann vildi lifa
og vera kóngur í höll.
Hásætið var hans harpa
og hirðin var þjóðin öll.
Í förumannsflíkum hann birtist,
hann fór í einyrkjans stakk
og settist að sumbli — og ljósið
með Sólheimabræðrum drakk.
Um háloft helsingjar flugu,
með heilga kirkju undir væng. —
En skínandi geislar skutust
að skáldsins blóðstokknu sæng.
Hann hlustaði á vorsins hlátra
og horfði upp í blámans þak,
með Maríu mey við sitt hjarta,
en moldina og grasið við bak.
IV.
Á hlaðinu stóð hann haltur
og hélt þar í fákinn sinn.
— Í Saurbæ var logn og suddi,
á Svínadal gola stinn.
Hann hristi hár sitt frá enni
og horfð´i upp úr dalsins þröng. —
Svo hljóp ´ann á bak og hleypti
— og heimurinn allur söng.
Á skjálfandi tölti og skeiði
í skímunni riðið var.
— Þeir héldu til Hofmannaflatar
og hurfu inn í ljósið þar.
V.
Hann kvað sín fegurstu kvæði,
er kom hann dauðanum næst.
Og ægst er heimsgengið lagðist
sté ljómi snillinnar hæst.
En aldrei varð brögum bundið
hans bjartasta skáldamál. —
Það lá, eins og formlaus logi,
í líkama hans og sál.
Það birtist í blossandi leiftrum
við brjóst hans og augastein,
er lifandi orðið lyftist
og lék sér við hversdagsmein.
Og þegar fylgjur hans flugu
til fundar við trú og ást,
varð persónan öll sá eldur,
sem aldrei á prenti sást.
Þannig var þessi maður.
— og þannig er lífið sjálft.
Það lofar ljósinu heilu,
en lætur það bara hálft.
VI.
Við vorum ei alltaf vinir,
— og vinir til dauðans þó.
Ég elskaði hjartahitann
og hörpuna sem hann sló.
Og fyndist mér eitthvað öfugt
á ytra byrði hans rist,
hann söng mitt hjarta til sátta
með sinni töfrandi list.
Og svo er nú góður hver genginn,
— þá grátum við stundum öll,
og gerum karlinn í koti
að konungi í sinni höll.
VII.
Þér konur, — lýsið nú leiði
hins langþreytta förumanns,
því yður var helguð sú óðsnilld,
sem afplánar dauða hans.