F. 20. apríl 1858 – D. 7. febrúar 1958
Einars ríma Þorkelssonar
Jæja, elsku Einar minn:
enn vill tengdasonur þinn
ná til þín í ylinn inn
orðaleikinn meður sinn.
Dóttir þín er digur frú —
(dýrð sé þeirri hringabrú)
— annars var mín ætlun sú
allur að skreppa til þín nú.
Þó mín lund sé heldur hrjúf,
henni finnst það skylda ljúf,
þegar þú fyllir þennan kúf,
þér að senda rímustúf.
Sá má vera svei mér þrár,
sömuleiðis orðinn hár,
sem um heiminn fleygur, frár,
fór í níutíu ár.
Eitthvað, sem er haldgott hér,
hlýtur nú að vera í þér,
hitt er gátan: hvað það er,
og hún mun vefjast fyrir mér.
Kannski er það höndin hraust,
hnúaber, en jafnframt traust,
sem í gegnum björgin braust,
bætti og prýddi endalaust.
Kannski er það seinþreytt sál
sveitamanns — í ætt við stál,
skyggn á landsins leyndarmál,
laus við þetta svikna prjál.
Kannski er það hjartað hlýtt,
hreinsað oft við loftið nýtt,
falin eins og blómið blítt
bak við hversdagsþraukið strítt.
Kannski líka á kaldri slóð
kveikt þér hafi drýgsta glóð,
söngvum borin, sæl og góð,
sú er lengst við hlið þér stóð.
Öll vor speki er eins og reyr,
enda skal ei geta meir.
Eitt er víst: að þér í þreyr
það, er síst af öllu deyr.
Fátt mitt vermir þel sem það,
þegar ég sé þig hlaupa af stað
eins og pílu út á hlað,
ungan, gamlan — sitt á hvað.
Þá er eins og allt, sem var
yndislegast, sprikli þar:
lífið, sem við barm sinn bar
blessaðar heimasæturnar.
Ennþá logar upp í mér:
einni náði ég frá þér
uppi á Bjalla hérna hér
— ég hef það ekki meira vér.
Manstu þennan mjúka brag:
mildan, bláan sunnudag
sóley, angan, erlu, flag, —
allir hlógu og tóku lag.
Hyggjan á þeim hýra bæ
hafði við sig einhvern blæ,
sem ég aldrei oftar fæ
upplifað um jörð né sæ.
Þegar í brjósti beljar hríð,
byltingar og dauðastríð,
ljúfan þyt í hugans hlíð
heyri ég frá þeirri tíð.
Fari um andann ofsarok,
uppblástur og malarfok,
flý ég heim í fagurt mok:
fjallastör og hringabrok.
Stendur þú þar sterkur, beinn,
stuðlar vísu hvergi seinn,
sveiflar þínu orfi einn:
orðið frjálst og skárinn hreinn.
Horfir þá í hárri sýn
hingað niður, glöð og fín,
orpin birtu, er aldrei dvín,
Ingiríður drottning þín.
Þegar þú fleygir þreyttur skálm,
þá er hvíldin ekkert fálm:
líkt og barn þinn litla sálm
leggur þú í jötuhálm.
Þó að hrörni heyrn og sjón,
hetjum er það lítið tjón:
gerr en hrokans háu flón
heyra þær lífsins dýpsta tón.
Þannig ljær þér nóttin nú
níræðum í hreinni trú
nýjan draum um blómlegt bú
— björt mér þykir vonin sú.
Hvort þú lifir heila öld,
hæfir ekki að ræða í kvöld.
Ilma þó við óskafjöld
ævi þinnar töðugjöld.
Blessun mesta búi í,
börnin með sitt ljósa strý,
senda eins og ársól ný
afa sínum brosin hlý.
Hróðný sendir þakkir þér
og þetta, sem í henni er,
— á því ríman endar hér
eins og koss frá sjálfum mér.