Afmæliskvæði
Jóhannesar

Til Steingríms frá Miklagarði

Hjónin í Miklagarði hétu Steingrímur Samúelsson (1886-1974) og Steinunn Guðmundsdóttir (1897-1993). Hjá þeim var Steinn Steinarr í fóstri frá sex ára aldri.

Steingrímur Samúelsson 80 ára – 24. maí 1966
(1886-1974)

Þegar ég greini, gamli vinur,
glaða og bjarta svipinn þinn,
sé ég hversu sviflétt hrynur
sólskinið á glókollinn.

Áttatíu ár á kafi
í önnum – hvern má gruna það?
Hér er eins og æskan hafi
eignast fastan samastað.

Það var eðli þitt að storka
þrautum öllum fyrr og síð.
Hvílík festa! Hvílík orka!
Hvílík framsókn alla tíð!

Enn er sem ég fjörið finni
fylla sporin, sem þú tróðst.
Enn ég geymi glöggt í minni
garða og veggi sem þú hlóðst.

Enn þú hamast alla daga
æðrulaus við störfin brýn.
Enn í þínum augum braga
einlægnin og tryggðin þín.

Er við hinir inni tautum
eitthvert víl um þessa jörð,
þú á skíðum, þú á skautum
þýtur yfir dal og fjörð.

Þó að lítið þér ég færi,
það er óskin mín í dag,
að þig blessuð æskan næri
alveg fram á sólarlag.

Laus við strengi í lund og nára
leiftursnar og hjartatrúr,
hlauptu um ísinn hundrað ára
hringinn í kringum allar frúr!

Steingrímur Samúelsson

Steingrímur Samúelsson.

Birtist áður í Sunnudagsblaði Tímans, bls. 492, 1966.

Halldór Kr. Júlíusson — 90 ára

29. október 1967

Heill, háskyggni
hvíti örn,
mikilla sanda,
mikilla sæva.
Njót þess níræður,
er þú norður þar
flaugst með mig forðum
á frjálsum væng.

Þetta ljóð var ritað á aukaeintak af bókinni Mannssonurinn eftir Jóhannes úr Kötlum, en hún var gefin út í 500 tölusettum eintökum. Hafsteinn Guðmundsson gerði teikningu að kápu, uppsetningu og bókbandi. Snær Jóhannesson bókbindari og fornbókasali í Bókinni gaf mér þetta eintak fyrir mörgum árum, en þar hafði bókin hafnað líklega ásamt fleiru úr dánarbúi Halldórs.

Hveragerði, 28. mars 2013.
Svanur Jóhannesson

Halldór Kristján Júlíusson.

Halldór Kristján Júlíusson.

Sigurhans E. Vignir — 50 ára

F. 12. maí 1894 – D. 16. júlí 1974.

Lýðveldisárið 1944 sendi Jóhannes mági sínum eftirfarandi ljóð á fimmtugsafmæli hans áritað á eina af ljóðabókum sínum. Systkinin Hróðný og Sigurhans áttu sama afmælisdag.

Vík ég að þér vinur minn,
vörmu handataki:
einn er liðinn áfanginn,
— öldin hálf að baki.

Manstu okkar unga blóð:
yndi á báðar síður,
ort og málað, elskuð fljóð,
— en hvað tíminn líður!

Okkar þrá svo ærslagjörn
ákaft hugði á frama.
Nú eru okkar eigin börn
að eltast við það sama.

Þó varð ekki þér til neins
þessi skrítna saga:
þú ert reyndar alveg eins
og í gamla daga.

Lifðu áfram lengi og vel
og lyftu þér á tánum:
við skulum fljúga fram í Sel
og fara að smala ánum.

Sigurhans E. Vignir — 75 ára

Þessar vísur voru áritaðar á bók til Sigurhans E. Vignis á sjötíu og fimm ára afmæli hans 1969.

Fremur gerast fætur þungir,
fornvinur — en gaman var
hvað við hlupum eitt sinn ungir
allt í kringum stelpurnar.

Mín er aðalósk að sönnu
að þér veitist rósin blíð
— reyndu samt að elta Önnu
eins og hérna forðum tíð.

Sigurhans E. Vignir.

Halldór Kiljan Laxness — 50 ára

F. 23. apríl 1902 – D. 8. febrúar 1998.

Afmælisstef til Halldórs Laxness fimmtugs.


Einn lítill mansöngur úr Kiljansrímum

Hálfrar aldar huldukóngur helgra inna
vitjar þú nú vina þinna.

Þú ert þetta undraorð með óminn bjarta:
þjóðin liggur þér á hjarta.

Þú ert þetta ljóðaljóð sem lóur sungu:
þjóðin leikur þér á tungu.

Þú ert þessi unga ást sem auðnan sendi:
þjóðin lyftist þér í hendi.

Þú átt þennan dýra dóm sem daggir lauga:
þjóðin ljómar þér í auga.

Hefst svo næst í neistaflugi nýrra tíma
fimmtugasta og fyrsta ríma.

Halldór Kiljan Laxness.

Birtist í Þjóðviljanum 23. apríl 1952.

Einar Olgeirsson — 50 ára

F. 14. ágúst 1902 – D. 3. febrúar 1993.

Afmælisstef til Einars Olgeirssonar fimmtugs 14. ágúst 1952.

Fagur er dagur

Fagur er dagur í grænu grasi
og lindin blá
— heiður er hann sem ljómar
af hálfrar aldar þrá.
Nær var borinn betri Íslendingur?

Sátum vér snauð í svölum skugga
og hann kom þar
— nýja voraldar veröld
í víðu fanginu bar
sá hinn djarfi, ungi Íslendingur.

Eigi þrumuðu öflugri fossar
á tungu manns,
frelsi eilífra fjalla
funaði í augum hans,
hærra stefndi enginn Íslendingur.

Brá hann sigð og sveiflaði hamri
á fjötur og ok,
hverfði lyginnar logni
í leiftrandi sannleiksrok
— fann þá mátt sinn margur Íslendingur.

Risum vér upp og rauður loginn
í hjarta brann
— oft sýndist ókleyft bergið,
en aldrei þreyttist hann
á þeim vanda að vera Íslendingur.

Enn fer hans vilji sem eldingin mikla
er klýfur stein.
Vér hyllum hetjuna og blessum,
en há er krafan og ein:
Stattu á verði, stolti Íslendingur.

Einar Olgeirsson.

Einar Olgeirsson.

Birtist í Þjóðviljanum 16. ágúst 1952.

Brynjólfur Bjarnason — 50 ára

F. 26. maí 1898 – D. 16. apríl 1989.

Afmælisstef til Brynjólfs Bjarnasonar fimmtugs 26. maí 1948.

Vorvísur

Þá sólin jökulinn sveipar
í sindrandi rauðagull
og ský að hamri sig hjúfrar
svo hvítt og mjúkt eins og ull.

þá bíður Billinn ei lengur,
en býr sig af stað í ferð
og hverfur í heiði dagsins
með Hulduljóð fyrir sverð.

Og grasið við il hans gælir
og geislarnir stíga dans
við barn hinna bláu nátta
og bróður hins snauða manns.

Og aldirnar þjóta í þeynum
og þylja sitt leyndarmál
um hann sem eilífðin elskar
í öræfablómsins sál.

Er trunt trunt titrar af ótta
og talar um sekan mann,
ber allt sem Ísland á fegurst
upp óskir sínar við hann.

Og barn hinna bláu nátta
til byggða heldur á ný
í stríðið mikla um manninn
— og maðurinn fagnar því.

Brynjólfur Bjarnason.

Brynjólfur Bjarnason.

Birtist í Þjóðviljanum 30. maí 1948.

Kristinn E. Andrésson — 60 ára

F. 12. júní 1901 – D. 20. ágúst 1973

Ljóðakveðja í afmælisriti til Kristins E. Andréssonar sextugs 12. júní 1961.

Mætumst enn að morgni

Mættumst við einn morgun
menn á götu:
var þá sem öldin öll
um mig færi
— svo var í svip þínum
sár fögnuður —
lágu í augum uppi
óskasteinar.

Rásaði reikistjarna
sem regindjúp
full fyrirheita
en í fylgsni dimmu
óx þar óvættur
til ægivalds
jafnt sem barn og blóm
í blóð hnigu.

Öndverður ánauð
þeirrar óskastjörnu
hóf þinn hugur flug
sem hvítur vængur
blá ör af boga
blæja rauð
— allt var þér að eggjun
og ástríðu.

Rann þér og rann
til rifja ferill
hugurs og hörmunga
á hnetti svo ríkum
— brann þér og brann
bjart log í hjarta
kviknað við kvöl
kalviðar og tinnu.

Jörðin var þér jónsmessa
og jólastjarna
landið lokkandi
ljóð frera og glóðar
þjóðin þúsundeyg
þrá og spá
tungan tónn kynslóða
tárfagur.

Mestur var samt maðurinn
maðurinn sjálfur
allra alda og landa
í álögum
kúgaður kvalinn
kviksettur í gulli
— og þó eldibrandur
eilífrar leitar.

Hátt þú vildir hefja
hamför þess manns:
nema nýja jörð
og nýjan himin
— svífa með syngjandi
svönum á vorfönum
austur í árroða
hins unga dags.

Efld skyldi ástarstjarna
einum vilja:
skyldu sól og sál
í sigurvagni
andstæðum aka
til yndisleiks
fjarri dimmu fylgsni
og fjörráðum.

Stoltur í stríði
stórrar samtíðar
fylgt hefur þú framtíð
fram á dag þenna
— engi var þér aldur
í eðli laginn:
þér er þjóðlíf víst
þóttú deyir.

Mætumst enn að morgni
menn á götu
ungir eirðarlausir
umleiknir bjarma
hamingju og harma
himinfleygrar stjörnu
þeirrar er glaðast glóir
í gátu þyngstri.

Kristinn E. Andrésson.

Kristinn E. Andrésson.

Halldór Stefánsson — 60 ára

F. 1. desember 1892 – D. 5. janúar 1979

Afmælisstef til Halldórs Stefánssonar.

Ferskeytlur

Þegar ég sé þig sextugan
svifar að spurning einni:
veit ég einhvern annan mann
öllu hreinni og beinni?

Heiðið sjálft með hádjúp sitt
hefur ei frá þér vikið
– dæmin sanna að þelið þitt
það er ekki svikið.

Þeir sem báru úr býtum fátt,
bundnir helsi sínu,
hafa löngum athvarf átt
inni í brjósti þínu.

Oft þú rýndir örlög smá
ægiskörpum sjónum:
skænda kviku, kalið strá,
kattarspor í snjónum.

Oft hefur snilld þín yljað mér
– ekki segi ég meira:
fari ég að þakka þér
þú vilt ekkert heyra.

Dagar líða einn og einn
– enginn veit hvað bíður.
Haltu áfram hreinn og beinn
hvað sem öðru líður.

Birt í Þjóðviljanum 30. nóvember 1952.

Sigurður Guðnason — 75 ára

F. 21. júní 1888 – D. 7. desember 1975

Afmælisstef  til Sigurðar Guðnasonar hálfáttræðs, 21. júní 1963.

Öðlingur
Þegar mér er allt til ama
og ekki sé ég neina von,
dreg ég fram þinn svip með sama,
Sigurður minn Guðnason.

Gagnstætt öllum heimsins harmi
hlær þá augum mínum við
bjart og heitt á búmannshvarmi
biskupstungnasólskinið.

Skín það glatt á skallann hvíta
— skilar boðum þeim til mín:
þeir sem alltaf eru að sýta
ættu helst að skammast sín.

Þó að myrkvist þjóðarhættir,
þá er eitt sem bjargar hér:
hvernig Íslands verndarvættir
vaka og syngja í brjósti þér.

Um þig leikur urmull tóna
— allrar skepnu huldumál:
slíkt er gefið þeim sem þjóna
þjóð og landi af hreinni sál.

Öll þig lífsins lögmál snertu
— leitaðir þú rétts og sanns:
dýr og sígild ímynd ertu
íslensks bónda og verkamanns.

Væmnislaust það vottorð gef ég
— vil það gildi ár og síð:
einlægari öðling hef ég
engan þekkt á minni tíð.

Gamli, tryggi fjallafari:
fagurt þykir mér að sjá
hvar þú berð sem ögn af ari
aldarfjórðungana þrjá.

Fremstur allra karla og krakka
klöngrast þú um aldaskil.
Hamingjunni það ég þakka
að þú hefur fæðst og verið til.

Allt í kringum ljúfan laukinn
lifna og dafna blómin enn.
Tökum svo upp tóbaksbaukinn,
treystandi á guð og menn.

Sigurður Guðnason.

Sigurður Guðnason.

Birt í Þjóðviljanum 27. júní 1963.

Theodóra Thoroddsen — 85 ára

F. 1. júlí 1863 – D. 23. febrúar 1954

Sonnetta til Theodóru Thoroddsen hálfníræðrar.


Sú er þulu kvað

Á sumri fæddist sú er þulu kvað
við svein og mey þá köldu vetrardaga.
Og ekkert vermdi hennar þel sem það,
er þytur vorsins fór um dal og skaga.
Vort minnsta frækorn átti hana að
— hvern óskastein hún vildi í búið draga.
Hún lýsti snauðum, leiddi þreytta í hlað
og lék við skel í fjöru og blóm í haga.
Og ungum söngvum blessunar hún bað,
þótt bæri merki hinna gömlu laga.

Hver lagði í annál Íslands hreinna blað?
Hvar átti trúrra brjóst vor frelsissaga?

Þitt nafn, þín mynd skal ofar stund og stað
í stoltu ljósi norðurhvelsins braga.

Theodóra Thoroddsen.

Theodóra Thoroddsen.

Birt í Þjóðviljanum 1. júlí 1948.

Lárus J. Rist — 80 ára

F. 19. júní 1879 – D. 9. október 1964

Flutt við afhjúpun minnisvarða um Lárus J. Rist við sundlaugina í Hveragerði á áttræðisafmæli hans 19. júní 1959.

Hálfhneppt dróttkvæði

Stendur þú sem stolt mynd
stórleikans í fjallkór:
skyndiheit og skær lund
skipar dráttum heiðan svip,
hrynur eins og hrönn ein
hreggbarið silfurskegg,
augun grípa eldflug
yfir hin bröttu klif.

Þér var snemma í þjóðför
þekkast að brjóta hlekk
deyfðar og hrinda hefð
hokurs und askloki:
efstu vötn þú köld klaufst,
kunnir á bláa unn,
hafgúa herti drif
hvítt — en þú mæddist lítt.

Sást þú við sjónbaug yzt
sannleikans ármann
skerpa egg og kotkarp
kljúfa í margan stúf
— sóttir þú suður brátt,
sveinn ærið markbeinn,
andans í óskalund,
öðlaður morgunröðli.

Sinntir þú símennt,
sögustraums namstu lög,
svall blóðsins sókn holl
svinnan um líkam þinn,
sást þú glöggt að sviflist
sálar er búið tál
ef’ún eigi hreint hof
hérvistar býr sér.

Villiat og ofmet,
aflrekið vöðvatafl,
ferlegt kapp án forsjár,
frægð er skortir vits gnægð
sýndist þér ei sönn reynd
sigurs né drengilig
— vildir um kyrr kvöld
kveikja hinn mjúka leik.

Norðan komstu kjörferð,
kynngi hlóðst suðurþing,
hézt þar á hugi fast:
hefja skyldi nýtt stef
manndóms við máttarbrunn,
mynda við heita lind
vígi um vorn hag
— varð af nýtt Laugaskarð.

Áttræðum er þér sett
eirlíki er hylla þeir
sem þinn heyra orðs óm
enn brýna vorsins menn
— rís það við landsins ljós,
líður inn í framtíð,
minnir á málsins sann:
merk eru þín verk.

Héðan berist há tíð,
hér skal æ steypa sér
andi þinn á þolsund,
þreyta hina djörfu leit,
vekja hin vörmu tök
viljans er kannar hylji
— gleðin sem göfgar þjóð
gisti þig, Lárus Rist.

Lárus J. Rist.

Lárus J. Rist.

Birt í Þjóðviljanum 16. okt. 1964.

Magnús Helgason — 80 ára

F. 12. október 1857 – D. 21. október 1940

Ljóðakveðja færð Magnúsi Helgasyni skólastjóra áttræðum af Sambandi íslenskra barnakennara.

Lærifaðirinn

Þú heyrðir ungur heilagt kall
frá háborg lands og þjóðar
og óskum þínum orka svall
við arin fornrar glóðar.
Og upp á lærdómslista fjall
þig leiddu dísir góðar.

Og þangað eldföng andans brýn
þeir ungu sóttu á vetri
og héldu einn dag með dýpri sýn
frá dýru menntasetri.
— Það almælt var um augu þín
að engin fyndust betri.

Á milli skauta skyggn þú sást
um skrúðheim sögu og ljóða.
Og aldrei samúð brjóstsins brást
í böli manna og þjóða. —
Og hreinni lagði enginn ást
á allt það fagra og góða.

Þeim tungan reynist forði í för,
sem fræðabrautir ryður.
Og málið lá þér létt á vör
sem ljúfra vatna niður
— og stundum lék þar straumsins fjör,
en stundum djúpsins friður.

Nær var því trausti takmörk sett
er tengist þér til handa?
Hve lengi býr vor litla stétt
að lífi þínu og anda?
Á meðan æskan á sinn rétt
mun æviverk þitt standa.

Er áttatugi áraskeiðs
þú átt að tignu baki,
vér blessum lim þíns mikla meiðs
í mildu handartaki.
Og hjörtun slá í yl þess eiðs
að ást um nafn þitt vaki.

Magnús Helgason.

Magnús Helgason.

Birtist í Menntamál okt. – des. 1937 og í Vinaspegli 1965.

Hallgrímur Jónasson — 70 ára

F. 30. október 1894 – D. 24. október 1991

Til Hallgríms Jónassonar sjötugs, 30. 10. 1964

Þú sem á fjalli stóðst með stolt í augum
og stuðlabergið lagðir í þitt mál
og fannst í blænum þjóðar þinnar sál
er þögnin mikla draup í gullnum baugum.

Þú átt þann eld sem hitar hjarta mínu
því — hver var ástfangnari af landi sínu ?

Ingvar sonur Hallgríms sendi mér þetta ljóð í nóvember 1999 á hundruðustu ártíð föður míns.

Svanur Jóhannesson

 

Aðalsteinn Eiríksson — 60 ára

F. 30. október 1901 – D. 27. janúar 1990

Ljóðabréf til Aðalsteins Eiríkssonar 60 ára
30. okt. 1961.

Já — allt fer það svona á sama veg,
þó síst ætti því að flíka
að þú ert ástfanginn eins og ég
og orðinn sextugur líka.

Um ýmsa launfundi enginn veit
— en ósköp fannst manni gaman
að skreppa með upp í Mosfellssveit
og mega pukra þar saman.

Þú veist um lögmálið, vinur kær,
þó vart því stundum ég eiri:
að óminnið færist æ því nær
sem ár okkar verði fleiri.

Ég vona samt að ég eldist ei
svo illa í þessum heimi,
þó veikur sé andinn og holdið hey,
að hjarta þínu ég gleymi.

Ég man þau kynni, ég man þá tíð,
ég man þig búinn til varnar
við hlið mér þegar ég háði stríð
við helvítis kerlingarnar.

Þá súgaði oft um svip og rödd,
þá svall þér íslenskur móður.
— Ef einhver vera var illa stödd,
þá átti hún þig að bróður.

En ef þér veitist sú auðnugjöf
í ellinni — að skreppa héðan
um sumarmálin suður um höf,
þá sé ég um Veigu á meðan.

Ef leitar hinsvegar lundin glúp
að ljúfum dögum og heiðum,
þá siglum við út á sextugt djúp
og seli og hnísur veiðum.

Og ef okkur hrekur amaský
frá æfintýrunum glöðum,
þá gerum við bara gott úr því
og gistum á Kinnarstöðum.

Og þannig líður hin tæpa tíð
— við tökum brýnu á kveldin
og þreytum svolítið sálarstríð
og sendum þá sprek á eldinn.

Að morgni erum við aðrir menn,
því allt er að hlýna og lægja:
þó situr eitthvað í svipnum enn
— en svo förum við að hlæja.

Já, heldur betur það hlægir mann
að horfa á þig svona ungan
og beinvaxinn eins og askinn þann
sem aldrei bognar við þungann.

Og víst er að Hróðný virðist oft
fá vængi sem lítt ég þekki
og hverfa út í hið hreina loft,
en hvert — það veit ég nú ekki.

En nú er það okkar beggja bæn
að björt verði öll þín saga
og barnabörnin og grösin græn
þig gleðji um sólríka daga.

Aðalsteinn Eiríksson.

Aðalsteinn Eiríksson.

Einar Þorkelsson — 90 ára

F. 20. apríl 1858 – D. 7. febrúar 1958

Einars ríma Þorkelssonar

Jæja, elsku Einar minn:
enn vill tengdasonur þinn
ná til þín í ylinn inn
orðaleikinn meður sinn.

Dóttir þín er digur frú —
(dýrð sé þeirri hringabrú)
— annars var mín ætlun sú
allur að skreppa til þín nú.

Þó mín lund sé heldur hrjúf,
henni finnst það skylda ljúf,
þegar þú fyllir þennan kúf,
þér að senda rímustúf.

Sá má vera svei mér þrár,
sömuleiðis orðinn hár,
sem um heiminn fleygur, frár,
fór í níutíu ár.

Eitthvað, sem er haldgott hér,
hlýtur nú að vera í þér,
hitt er gátan: hvað það er,
og hún mun vefjast fyrir mér.

Kannski er það höndin hraust,
hnúaber, en jafnframt traust,
sem í gegnum björgin braust,
bætti og prýddi endalaust.

Kannski er það seinþreytt sál
sveitamanns — í ætt við stál,
skyggn á landsins leyndarmál,
laus við þetta svikna prjál.

Kannski er það hjartað hlýtt,
hreinsað oft við loftið nýtt,
falin eins og blómið blítt
bak við hversdagsþraukið strítt.

Kannski líka á kaldri slóð
kveikt þér hafi drýgsta glóð,
söngvum borin, sæl og góð,
sú er lengst við hlið þér stóð.

Öll vor speki er eins og reyr,
enda skal ei geta meir.
Eitt er víst: að þér í þreyr
það, er síst af öllu deyr.

Fátt mitt vermir þel sem það,
þegar ég sé þig hlaupa af stað
eins og pílu út á hlað,
ungan, gamlan — sitt á hvað.

Þá er eins og allt, sem var
yndislegast, sprikli þar:
lífið, sem við barm sinn bar
blessaðar heimasæturnar.

Ennþá logar upp í mér:
einni náði ég frá þér
uppi á Bjalla hérna hér
— ég hef það ekki meira vér.

Manstu þennan mjúka brag:
mildan, bláan sunnudag
sóley, angan, erlu, flag, —
allir hlógu og tóku lag.

Hyggjan á þeim hýra bæ
hafði við sig einhvern blæ,
sem ég aldrei oftar fæ
upplifað um jörð né sæ.

Þegar í brjósti beljar hríð,
byltingar og dauðastríð,
ljúfan þyt í hugans hlíð
heyri ég frá þeirri tíð.

Fari um andann ofsarok,
uppblástur og malarfok,
flý ég heim í fagurt mok:
fjallastör og hringabrok.

Stendur þú þar sterkur, beinn,
stuðlar vísu hvergi seinn,
sveiflar þínu orfi einn:
orðið frjálst og skárinn hreinn.

Horfir þá í hárri sýn
hingað niður, glöð og fín,
orpin birtu, er aldrei dvín,
Ingiríður drottning þín.

Þegar þú fleygir þreyttur skálm,
þá er hvíldin ekkert fálm:
líkt og barn þinn litla sálm
leggur þú í jötuhálm.

Þó að hrörni heyrn og sjón,
hetjum er það lítið tjón:
gerr en hrokans háu flón
heyra þær lífsins dýpsta tón.

Þannig ljær þér nóttin nú
níræðum í hreinni trú
nýjan draum um blómlegt bú
— björt mér þykir vonin sú.

Hvort þú lifir heila öld,
hæfir ekki að ræða í kvöld.
Ilma þó við óskafjöld
ævi þinnar töðugjöld.

Blessun mesta búi í,
börnin með sitt ljósa strý,
senda eins og ársól ný
afa sínum brosin hlý.

Hróðný sendir þakkir þér
og þetta, sem í henni er,
— á því ríman endar hér
eins og koss frá sjálfum mér.

Einar Þorkelsson.

Einar Þorkelsson.

Guðbrandur Jónasson — 70 ára

F. 29. maí 1890 – D. 24. september 1981.


Ljóðabréf
í gamni og alvöru

til Guðbrands frá Sólheimum

Kæri frændi af fornum Þrændum kominn
minn var skændur þanki og þur
þegar þú sprændir sjötugur.

Nú er hreint og næstum beint mitt sinni
betra seint en aldrei er
— en skal reynt að bjarga sér.

Þú ert allur orðinn kall að vísu
— samt er varla þrotinn þinn
þúsund fjalla hljómurinn.

Er ég minnist okkar kynna, vinur,
alltaf finn ég þelið þitt
þræði spinna um hjarta mitt.

Þú varst glaður, þú varst maður reifur
— draums síns stað og stundu á
stefndir hvað sem dundi á.

Eggjar tróðstu, innri hlóðstu vígi,
djúpan óðstu Íslandssnjó
— aldrei stóðstu hokinn þó.

Oft var fátt um auðsins dráttu fína
en hversu smátt sem happ þú hlaust
hlóstu dátt og fölskvalaust.

Lífsins gróður gaf þér sjóðinn besta
örugg stóð sem almættið
elskan góða þér við hlið.

Silkiþiljan sú mér ylja náði
— hana gilja gerðir þú
(góður vilji ei stoðar nú).

Um það fikt má eitt í dikti segja.
Fljóðsins þykkt varð þumg um sinn
þú fékkst gikt í mjóhrygginn.

Börnin fluttu fjöll með puttum smáum,
ósköp stutt sér tylltu á tá
trítluðu, duttu, flugust á.

Þá var sæla og söngvagæla í ranni
öllum hælið opið var
enginn skæla mátti þar.

Þannig heið en harðsótt leið þín æfi,
fórnarmeiður fagur varð
fyllti breiðan ættargarð.

Þess ég óska að áfram þrjóskan herði
allt þitt brjósk og beinasnarl
— blessuð gróskan vermi karl.

Lifðu á rjóma og líka blóma úr úr eggi
dalaljóminn lýsi þér
lands á sómann vísi þér.

Hljóttu þökk frá heldur frökkum drjóla
sem að skökkum skáldajó
skellir á stökk um vísnamó.

Kipptu í lokk á ljúfu okkar beggja
láttu fokka fyrir oss
fremur þokkalegan koss.

Berðu þínum börnum mína kveðju
— allt mun hlýna og yngja sig
ef þau skína í kringum þig.

Höfuðból í heimum sólarinnar
sé þitt skjól og heimahlað
— hætt skal góli upp á það.

Jónas Guðbrandsson — 75 ára

F. 18. október 1863 – D. 12. júní 1949

Til Jónasar í Sólheimum á 75 ára afmælinu, 18. október 1938

Gaman væri að taka taki
traustu í þín hárin grá,
er í dag þú átt að baki
aldarfjórðungana þrjá.

Fyrst þú hefur þremur þokað
þröngt í gegnum tímans hlið,
ekki finnst mér útilokað
að sá fjórði bætist við.

Þú hefur aldrei orðið hissa
eða heykst við skellina,
þannig muntu — það er vissa
þreyta leik við ellina.

Mörgu leynir lífs þíns saga,
lituð spor um grýttan stig.
Þú hefur ekki alla daga
í anganrósum baðað þig.

Hagl og sandur sárt þig hitti
suma vegarkaflana.
Stundum óðstu upp í mitti
örðugleikaskaflana.

Aldrei þó á ævi þinni
alveg léstu hugfallast,
— hönd og fótur, hjarta og sinni
heimtuðu að þverskallast.

Illan vegg þó örlög reisi,
ekki er vert að fást um það.
Hvað er blinda og heyrnarleysi
ef hjartað er á réttum stað ?

Það sem ósk þín eftir mændi
út í vetrarélin myrk,
gæfudísin, — gamli frændi
greiði þér í ellistyrk

Með innilegri kveðju
Jóhannes úr Kötlum

Guðjón Guðmundsson — 85 ára

F. 1. ágúst 1867 – D. 1. janúar 1954

Afmælisvísur til Guðjóns Guðmundssonar á Ljótunnarstöðum 85 ára

Snemma gafst þér björg í bú,
búsæld þín ei fyrnist, —
hálfníræður hleypur þú
hvert sem andinn girnist.

Að sjá þig svona ungan enn
yljar mínu geði.
Varla eiga margir menn
meira en þú af gleði.

Örlaganna ójöfnuð
yfrið vel þú leystir.
Það hefur verið góður guð
guðinn, sem þú treystir.

Þér ég áfram auðnu bið
uns þú héðan gengur.
Síðast út í sólskinið
svífðu eins og drengur.

Gísli Jóhannsson frá Pálsseli 80 ára

F. 2. júní 1875 – D. 15. apríl 1961

Afmælisvísur til Gísla Jóhannssonar frá Pálsseli, 2. júní 1955

Lindir dalsins leita inn,
ljóði hugann fylla,
einn hinn mesta öðling sinn
áttræðan að hylla.

Pálsselsmoldin ástrík er,
— ekki síst á vorin,
hín er enn að þakka þér
þögul tryggðasporin.

Einnig þessi unaðsdýr,
er þú jafnan mundir:
— rakki, fákur, kind og kýr
kveðjuna taka undir.

Svo er það hún systir mín,
sönn til munns og handa,
hún mun bera heilt til þín
hjarta sitt að vanda.

Eins þín dóttir leynt og ljóst
lyfta mun þeim arfi,
er hún fyrst við föðurbrjóst
fann í leik og starfi.

Sjálfur bið ég sólskinið
að signa þína vegi,
og gefa þér hinn gullna sjóð
guðs — á hverjum degi.

Gísli Jóhannsson

Auðbjörg Sigurðardóttir — 75 ára

F. 1. maí 1873 – D. 24. febrúar 1956

Til Auðbjargar 1. maí 1948

Það er eitthvað, Auðbjörg mín,
okkar tveggja í milli,
sem er betra en brennivín
og betra en magafylli.

Ef þú kemur í minn bæ
allt vill fara að gróa
— þú hefur með þér þennan blæ,
sem þíðir alla snjóa.

Mér finnst opið eins og haf
undir brúnum þínum
allt það bezta, er Ísland gaf
augasteinum sínum.

Alúð þín fer oft um mig
eins og fyrirheiti
— mér finnst vor að vita þig
vera á næsta leiti.

Meðan eðli eins og þitt
ógnum heims má bifa
og senda skáldum skinið sitt,
skal ég glaður lifa.

Auðbjörg Sigurðardóttir.

Auðbjörg Sigurðardóttir.

Jón Sumarliðason — 70 ára

F. 13. september 1889 – D. 20. maí 1971

Til Jóns Sumarliðasonar
13. september 1959

Þegar tekzt úr tímans firrð
töfra forna að seiða,
hvergi man ég hlýrri kyrrð
heldur en á Breiða.

Allt sem hafði hreinan tón,
hver einn gróðurblettur,
þreifst í skjóli þínu, Jón
— þú varst eins og klettur.

Birtir enn í brjósti mér
af brosi þínu og orðum
þegar ég var í vist hjá þér
vetrartímann forðum.

Í þeim ljúfa anda skal
ósk mín vera þessi:
sólskinið úr Sökkólfsdal
sjötugan þig blessi.

Þorleifur Erlendsson — 70 ára

F. 5. mars 1876 – D. 14. júlí 1968

Þorleifs ríma Erlendssonar

Ort í tilefni af sjötugsafmæli hans.

Þegar ég sé hann Þorleif minn,
þá er eins og himinninn
beri allan blámann sinn
beina leið í hjartað inn.

Hæpið er að hitta þann
heimslystugan yngismann,
söngvaglaðan, sjötugan
sem er skemmtilegri en hann.

Þjóðlegt var á þeirri tíð,
þegar hann sat og reykti í gríð,
andríkur með augu blíð,
en þó til í hógvært stríð.

Stýrimannaskólans skar
skein sem höll við lygnan mar,
þegar afturenda þar
að oss sneru nunnurnar.

Kippir fóru um Þorleif þá,
— þó varð honum sjaldan á
út um ljórans gler að gá,
— glotti og þóttist ekkert sjá.

Alltaf reis hans eðla dyggð
upp á móti heimsins fryggð:
kenndi hann þef af kvennabyggð,
kom að honum nokkur styggð.

Til að hita hold og blóð
honum fannst — og við það stóð —
jafnast á við jagsöm fljóð
Jarðlangsstaðamoldin góð.

Íslendingur inn í bein,
ást hann batt við þúfu og stein.
Eins og ljósið lund hans skein,
laus við þetta rauða mein.

Þankinn, sem ei þekkti svik,
þurfti ekki að nota prik,
— þar var hvorki hop né hik,
heldur beint og einfalt strik.

Hirt ei skal um horfin tvenn:
hvort hann notar skrokkinn enn
eða bara andann senn,
— ekki deyja svona menn.

Hvort sem verður, ósk mín er,
eins og líka vera ber,
hrein og einlæg: Heill sé þér,
höfðingi sem skemmtir mér!

Jóhannes Ásgeirsson — 70 ára

F. 26. júlí 1896 – D. 27. maí 1983

Afmælisvísur til Jóhannesar Ásgeirssonar

26. júlí 1966

Alltaf hækkar aldurinn:
ekki vil ég nefna minn,
bezt er líka að þegja um þinn
— þá fá báðir vilja sinn.

Hitt sé yrkisefnið nú,
að við höfum, ég og þú,
blandað geði í góðri trú
— gjarnan yljar vitund sú.

Stef og sögu, stórt og smátt,
stráið grænt og vatnið blátt,
heiðardalsins hjartaslátt,
höfum við löngum saman átt.

Okkar kæra æskubyggð,
æfintýraljóma skyggð,
gaf þér forðum forna dyggð:
fölskvalausa og hljóða tryggð.

Þessa staðreynd þakka ber
— þó að tíminn bylti sér,
hæli fast í huga þér
hefur þú jafnan búið mér.

Allt mitt þel er þér í hag
— það sem bezt á við í dag
er að taka lítið lag,
lyfta glasi og kveða brag.

Gyðja ein, sem getur allt,
geri þér sitt yndi falt,
vermi þig, ef þér er kalt
— þú á hana treysta skalt.
ósk mín vera þessi:
sólskinið úr Sökkólfsdal
sjötugan þig blessi.

Jóhannes Ásgeirsson.

Jóhannes Ásgeirsson.

Eyjólfur Jónasson í Sólheimum — 50 ára

F. 15. mars 1889 – D. 19. desember 1989

Skál Eyjólfs í Sólheimum 50 ára
15. mars 1939

Svo ríddu þá með mér í Sólheimasal
svifléttum fáki um grösugan dal
og gefðu mér örlítið glitrandi tár
sem geymt var í sál þinni í fimmtíu ár.

Og við skulum faðmast þar, fullir af synd
og fara af baki við uppsprettulind
og yrkja þar vísu um viðkvæma rós
sem vakir og biður um himinsins ljós.

Og við skulum sitja um sólskinið hvítt
og sjá, hvernig allt verður fallegt og nýtt
er geislarnir skjótast í góðviðrisblæ
með gullið í himninum inn í þinn bæ.

Og þú ferð að syngja um þúfuna og mig
og þá kemur lóan og segir við þig
,,Við fuglarnir elskum þig, Eyjólfur minn
og ætlum að taka undir lofsönginn þinn.”

Og svoleiðis gengur það dag eftir dag
að draumarnir rætast og tekið er lag
og síðast við löbbum um túnið þitt tveir
og tökum í nefið og svo ekki meir.

Eyjólfur Jónasson í Sólheimum — 70 ára

Eyjólfs-bragur í Sólheimum
70 ára, 15. mars 1959

Ó hve hollvættirnar hlógu
þegar Herrann seint á góu
var í skáldaskapi frjóu
og skóp þig, Eyjólfur.

Þá var betri landsins líðan
þá skein ljós um geiminn víðan
en það er nú all-langt síðan
þú ert orðinn sjötugur.

Þannig veikjast blómin vallar
— æ, við erum orðnir kallar:
það er illt um bjargir allar
og oft er góan köld.

Mér er horfin hreysti að framan,
— en það hefði verið gaman
að mega svalla saman
og syngja hátt í kvöld.

Því þó þú sért skakkur skröggur
ertu skrattans ári snöggur,
— það er ennþá í þér töggur
ef þú eignast brennivín.

Oft í heimsins hornaskvoli
ertu hrekkjóttur sem foli,
— þá er hafnað víli og voli
og valið hraustlegt grín.

Oft þá vilja frúrnar fá þig
eins og fjallahryssur dá þig
og sækja ólmar á þig
í allri sinni dýrð.

Því hvern ham sem helst ég bý þér
og hvernig sem ég sný þér
það er einhver spenna í þér
sem ekki verður skýrð.

Æ, ég man þá miklu daga:
það var mögnuð Íslandssaga
þegar umdi aldýr baga
á okkar þeysireið.

Þú á fákinn farnað spenntir
og flenntir allt og glenntir
og öllum hömlum hentir
í hund og kött um leið.

Og er gneistar hrukku úr grjóti
flaug þitt gneistaregn á móti:
eitt eldsnöggt orð kom róti
á allan þennan heim.

Okkar land varð stærra og stærra
okkar stríð varð smærra og smærra
okkar loft varð hærra og hærra
á heilladögum þeim.

Og við börðum utan bæinn
og við buðum góðan daginn
og svo hófstu hetjubraginn
uns húsin skulfu af þrá.

Þegar karlar kverkar mýktu
þegar kerlingarnar skríktu
hinir réttu straumar ríktu
frá rasi niðrí tá.

En þér glottið lék um granir
þegar gæsir þóttust svanir
og þær hristu hræsnisfanir
gegn hlátri fátæks manns.

Og þá ýfðist ennisrúnin
og þá yggldist sneglibrúnin
ef þeir stóru hreyfðu húninn
á hurðu andskotans.

En þú varst nú líka ljúfur
eins og lamb við steina og þúfur,
— hver bjartur blóðbergsskúfur
sem bróður leit á þig.

Og er Sólheimarnir sungu
sína sálma á eigin tungu
þú varst einn af þessum ungu
sem aldrei láta sig.

Og nú bið ég hilmi hæða
þann er hverja und má græða
þér á góðri elli að gæða
minn gamli frændi og vin.

Og hans kærleiksfaðmur fríður
verði fljót á miðjar síður
þegar heim til hans þú ríður
við himneskt aftanskin.

Syngist 15. mars 1959.
Lag: Þegar hnígur húm að þorra…

Með kærum kveðjum,
Jóhannes úr Kötlum

Sigurjóna Jónsdóttir — 60 ára

Til Sigurjónu Jónsdóttur
4. október 1954

Þér til sæmdar þennan dag
það skal stuðlum bundið:
öllu hreinna hjartalag
hef ég ekki fundið.

Fágað sérhvert orð þitt er,
alúð mild þar hljómar
— alla stund í augum þér
innri birta ljómar.

Gakktu enn þinn góða veg:
greiddu öðrum haginn
hógvær, ung og elskuleg
eins og fyrri daginn.

Ólafur Pálsson — 60 ára

F. 3. júlí 1899 – D. 3. janúar 1996

Ólafur Pálsson sextugur

Fegins urðu fundir
þá er fyrst við hittumst
ungir á einu hausti:
annar kom úr vestri,
en úr austri hinn
— tókst þar tryggð með áttum.

Bjartur kom að austan,
blakkur að vestan,
léku sefum saman:
komst þú sem bjarmi
af Kötluloga
yfir myrkvið minn.

Hlógu þér í augum
heiðar sýnir,
blá ljós í brjósti
— sá ég þar fornan
sveitunga minn:
ítran Ólaf pá.

Gengum við glaðir
til gamanmála
margan dýran dag:
ljúfur varstu og heitur,
þá er Lofn kynti
undir æskudraumum.

Allt man ég enn,
þótt ár hafi grafið
víkur milli vina:
aldrei mér gleymist
ástúð þín
og hennar sem þá söng.

Óðum dofnar ilmur
okkar beggja
— bjartur jafnt sem blakkur
svo í austri
sem í vestri
fær hinn fölva lit.

Svífum þó sextugir
svo sem forðum
skæran vorsins veg:
tak í hönd mína,
hugumkæri,
og gakk með mér á glóðum.

Hvísla vil ég hlýtt
í hlust þína:
lifðu í sama ljósi
og þá er sólharpan
signdi tónum
okkar hjörtu ung.

Ólafur Pálsson.

Ólafur Pálsson.

Jón Rafnsson — 50 ára

F. 6. mars 1899 – D. 28. febrúar 1980

Afmælisríma til Jóns Rafnssonar 6. mars 1949

Mansöngur

Þessi ríma birtist í bókinni Rímnavaka eftir Sveinbjörn Beinteinsson á Draghálsi og var gefin út 1959. Þar er einnig ríman Jóhannesarríma Katlaskálds eftir Jón Rafnsson en þeir Jóhannes voru jafnaldrar. Í skjalasafni Jóhannesar eru tvö uppköst af rímunni en ekkert endanlegt handrit.  Það virðist hafa hafnað hjá Sveinbirni og hefur ríman ekki annarsstaðar birst enn í bók hans.

Armi spenna gullhlaðsgrund
garma brenna heitri lund,
barminn kenna á hringahrund,
harmi og penna fleygja um stund.

Sætan teyga Suttungsmjöð,
saman eiga stefin glöð,
leggja mega í Lofnar kvöð,
lótussveiga og ennishlöð.

Slík er okkar aukaþrá
utanflokkamaður þá
sæll á stokknum henni hjá
horfir lokkasafnið á.

Ríman

Rekkur heitir Rafnsson Jón,
rauðan skreytir bolsatrón.
Íhaldssveitar svarin flón
segj’ann eitrað bölvað grjón.

Löngum sá á landi og sjó
logum bláum um sig sló
og frá gráum hrammi hjó
hvergi smáa arðránskló.

Hann ei dauða hræddist þá:
honum sauð og kraumaði á,
þegar auðvaldshræsnin hrá
hugðist snauðan mann að flá.

Augu ljónsins urðu smeyk,
öfugsónsins hrygla veik,
mútuþjónsins þjótta bleik,
þegar Jónsi fór á kreik.

Saup hann hveljur, svöldi blóð,
sviptiéljum lundin hlóð,
ef í Heljar opinn sjóð
átti að selja land og þjóð.

Fjallið gnata gerði bratt,
gífur rata tóku hratt;
margur kratinn fór þá flatt
feigur í matarpottinn datt.

Hreint var valið hugarmið:
hjartakalið þjófalið
svart og galið fékk ei frið.
Félagi Stalín glotti við.

Þessi maður meginknár,
mjög svo glaður, alltaf klár,
vopnahraður, hvergi sár,
hefur staðist fimmtíu ár.

Fólkið: krakkar, kerlingar,
karlar skakkir hér og þar,
honum þakka að hann þeim var
hlífðarstakkur þeygi spar.

Aðra hálfa öld hann skal
auðvaldsbjálfum steypa í val,
stinga kálfum krata í mal,
kefla sjálfan Hannibal.

Lárus H. Blöndal — 50 ára

Lárus H. Blöndal

4. nóv. 1955

Fyrir þinn draum:
fegurð og göfgi, —
eins þótt tíð væri
yfrið köld,
hefur þitt milda
hjarta slegið
flestum heitar
í hálfa öld.

Helgi Einarsson — 50 ára

F. 25. júlí 1905 – D. 28. september 1995

Til Helga Einarssonar

25. júlí 1955

Ekki tókst að þjarma að þér
á þessum degi
þegar hálfnuð öld þín er
á ævivegi.

Víst þó átti að vitja þín
með vési og masi
og við þorsta þamba vín
úr þínu glasi.

En við erum föst á frægri mörk
við fljót sem duna,
silfurmuru, silkibjörk
og sólskríkjuna.

(Þar að auki er svo það
sem ei má hrópa:
að ég er veill á vissum stað
og verð að skrópa).

Samt má reyna að senda þér
í sumarblænum
ástarkveðjur okkar hér
með ótal bænum.

Einu um leið ég að þér sting
með orðaglingri:
þú skalt bera þennan hring
á þínum fingri.

Hann á að tjá þér tær og hreinn
það táknið bjarta
að okkar gull og eðalsteinn
— það er þitt hjarta.

Hann á að reyna að halda sér
frá heimsins ryki
og allt hið liðna þakka þér
með þöglu bliki.

Vinur og bróðir! Vaktu í kvöld
við veisluljóma
og hlauptu svo aðra hálfa öld
með heiðri og sóma.

(Systir og mágur)

Helgi Einarsson.

Helgi Einarsson.

Höskuldur Björnsson — 50 ára

F. 26. júlí 1907 – D. 2. nóvember 1963

Þórsmerkurkveðja til Höskuldar Björnssonar

26. júlí 1957

Til þíns heima, Höskuldur, af háu plani
fjaðralaus á fullu spani
flýg ég eins og rauður hani.

Nú mun drukkið dátt og fast í dagsins ranni
— hossað ofar hverju banni
hálfrar aldar gömlum manni.

Mér er sem ég sjái þig í sælli vímu
líða um við glasaglímu
— gaula síðan þessa rímu.

Líka muntu kunna að kanna kvennablómann.
— Þó stóð tæpt með þjóðarsómann
þegar þú vildir ekki rjómann.

Nú skal eilíft augnaljósið á þig skína.
Mannstu hvernig mærin Stína
mændi inn í sálu þína?

Hló þá mörkin firna fríð og fræg í ritum,
þögnin brann í þúsund litum,
þægan ilminn lagði að vitum.

Enginn reitur unaðslegri enn er skaptur:
hjartað styrkir henmnar kraftur
— hún vill fá þig til sín aftur.

Sendi hún því vísu vona vini sínum
— veit að dögg í dropum fínum
dettur oft úr pensli þínum.

Hér er einnig hrund í ætt við huldudróttir
sem þú heim í húmi sóttir
Hróðný nokkur Einarsdóttir.

Sú í draumi höndum hlýtt um háls þér vefur
— afmælis í gjöf þér gefur
gullkórónu er þú sefur.

Fimmtugum þér færa skyldi fagurt minni
— mun þó jafnan mér í sinni
myndin gleggst af konu þinni.

Hana á reiki um hljóðan skóg ég helst vil muna
þar sem felur bláleit buna,
blessaða elsku kerlinguna.

Áhyggjurnar að henni nú eflaust hrúgast:
kringum þig hún þarf að snúast
— því er ei við góðu að búast.

Koss ég henni sendi samt með sólskinsþræði.
Við erum ósköp indæl bæði
— okkur vantar bara næði.

Síðast bið ég sigurglaðan sólnastýri
að uppljóma þitt æfintýri,
ástarklessuþundur dýri.

Láti hann þig leiftra, sindra, loga og bála,
er við kúnst þú kýst að rjála:
krota, rissa, teikna og mála.

Geri’ann þig að gömlum og þó góðum hjassa,
uppblásnum af æskugassa
— ætti mörkin þá að passa.

Þess að lendir þú svo undir þeirra möttlum
sem eru ekki í öðrum pjötlum
óskar Jóhannes úr Kötlum.

Höskuldur Björnsson.

Höskuldur Björnsson.

Hafsteinn Guðmundsson — 50 ára

F. 7. apríl 1912 – D. 1. september 1999

Hafsteinn Guðmundsson prentsmiðjustjóri í Hólum 50 ára

Til Hafsteins 7. apríl 1962

Sem steinn úr hafi stendur þú í dag
og stormar heimsins gnauða um fleti þína:
þeir sverfa þig — þeir fægja letrið fína
sem flytur gegnum aldir sögu og brag.

Því þó að mjög á allt hið ytra reyni
á ódauðleikinn heima í þessum steini.

Er fimmtugt djúpið flæðir þér um brá
þess fyrsta bylgja lyfti þínu hjarta
til stefnumóts við geislagyðju þá
sem glóir ætíð bak við myrkvann svarta.

Hún brenni í þína vitund stóra stafi
sem standast hverja raun á tímans hafi.

Hafsteinn Guðmundsson.

Hafsteinn Guðmundsson.

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2025