Ljóðaúrval gefið út
Forlagið/Mál og Menning hefur gefið út nýtt safn ljóða Jóhannesar úr Kötlum sem ber einfaldlega heitið Ljóðaúrval.
Í þessu úrvali má finna ljóð úr öllum bókum Jóhannesar fyrir fullorðna, bæði frumsamin og þýdd, sem gefa breiða mynd af margslungnum ljóðheimi skáldsins. Silja Aðalsteinsdóttir sá um útgáfuna og ritar inngang um Jóhannes og verk hans en þar segir meðal annars:
[pullquote]Ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldar á Íslandi yrði það nærri því óhjákvæmilega Jóhannes úr Kötlum. Hann lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum og um engan samtímamann hans í skáldahópi verður sagt með jafnmiklum sanni að hann hafi fundið til í stormum sinnar tíðar.[/pullquote] Enginn fylgir heldur eins nákvæmlega þróun ljóðlistarinnar á öldinni. Hann hóf feril sinn sem nýrómantískt skáld á þriðja áratugnum, innblásinn af löngun til að efla hag landsins og ást þegnanna á því. Hann var líka einlægur trúmaður og þó að hann yrði síðar gagnrýninn á guð almáttugan hélt hann alla tíð vinskap sínum við Jesú Krist, eins og launkímni ljóðaflokkurinn Mannssonurinn (1966) er dæmi um. Á kreppuárum fjórða áratugarins var hann í broddi fylkingar róttækra skálda, knúinn áfram af löngun til að efla sjálfstraust alþýðunnar og örva hana til að berjast fyrir bættum kjörum.
Í umróti og tilvistarkreppu stríðsára og eftirstríðsára fór hann að þýða erlend skáld sem ortu myrk ljóð undir frjálsum háttum og gera eigin tilraunir með slíkt, endurnýjaði kveðskap sinn af frumleika og listfengi. Á sjötta áratugnum varð hann öflugur vörslumaður þjóðlegra gilda í baráttu gegn hersetu Bandaríkjamanna á Íslandi. Loks náði hann í nýja alþjóðlega róttæka bylgju á sjöunda áratugnum, og þegar hann lést, á áttræðisaldri, fannst róttæku ungu fólki sem mótmælti stríðsrekstri heimsvaldasinna í Víetnam og víðar í þriðja heiminum hann yngstur og bestur allra skálda.