Í skjölum föður míns að honum látnum fann ég eftirfarandi kveðskap sem ég vissi ekki fyrir víst hvort væri eftir hann. Taldi það samt líklegt. Nú hefur Ingólfur Ólafsson fv. kaupfélagsstjóri sagt mér, að þessi vísa sé eftir Sigurð V. Friðþjófsson fv. blaðamann á Þjóðviljanum. Það getur vel passað því vísan er prentuð í „Glundroðanum“ starfsmannablaði Þjóðviljans, en án höfundarnafns.
Sem frelsandi engill var Franzson til okkar sendur
því freistarinn Mykle æsti upp holdsins þrár.
Á siðgæðisvakt hann stæltur á verði stendur
með stork milli fóta og ljósgullið englahár.
Það er víst að þarna er átt við Björn Franzson, en hann tengdist Mykle-málinu þannig, að hann var í umræðuþætti í útvarpinu ásamt Jóhannesi, Kristmanni Guðmundssyni og Aðalbjörgu Sigurðardóttur. Þetta var árið 1958 og faðir minn var byrjaður að þýða Rauða rúbíninn eftir norska rithöfundinn Agnar Mykle fyrir Gísla Ólafsson í Bláfellsútgáfunni. Yfir stóðu einstæð málaferli í Noregi um þessa bók og andstæðingar ritfrelsisins hér á landi fengu því áorkað að hætt var við að gefa bókina út á Íslandi. Samt sem áður gaf Jóhannes út bækling um málið og birti kafla úr bókinni sem hann var búinn að þýða. Björn og hann voru miklir vinir og Björn og Ragna kona hans dvöldu með foreldrum mínum bæði að Laugum í Hvammssveit sumarið 1936 og í Svíþjóð 1946-1947.