Friðrik Jónsson í Kópavogi sendi okkur vísu sem hann sagði að Jóhannes úr Kötlum hefði sent móður sinni í heillaskeyti á sextugsafmæli hennar. Þetta hefðu verið tvær vísur upphaflega, en skeytið væri nú glatað og hann myndi bara aðra vísuna sem væri svona:

Ásta, þú ert alltaf klár
aldrei ég gleymi hinu
þegar þú beiðst á annað ár
eftir hunanginu.

Móðir Friðriks hét Ástríður Marta Eggertsdóttir og var frá Fremri-Langey á Breiðafirði, en faðir hans var Jón Bergsveinsson erindreki Slysavarnafélags Íslands. Friðrik mundi ekki tildrög vísunnar í fyrra, en nú hringdi hann í dag (17.janúar 2009) og sagðist vera búinn að grafa það upp og segir að þegar foreldrar sínir giftu sig, að þá hefði faðir sinn farið strax eftir giftinguna um borð í norska skipið ,,Krónprinsessa Viktoría” og var hann skipverji þar á annað ár, áður en hann kom aftur til Íslands.