Jólasýning Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns var opnuð nú í byrjun desember en tilefni sýningarinnar er 80 ára útgáfuafmæli kvæðakversins Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. Sýningin er haldin í samstarfi við Forlagið sem gefur kverið út í sérstakri hátíðarútgáfu af þessu tilefni. Sýningin stendur fram á þrettándann 2013.
Árið 1932 kom út kvæðakver Jóhannesar úr Kötlum, Jólin koma, með vísum um íslenskar jólavættir. Tryggvi Magnússon myndskreytti bókina, en hann var þá þekktasti teiknari landsins. Bókin er nú sem fyrr ein vinsælasta ljóðabók Íslendinga í desembermánuði og trónir alla jafna í fyrsta sæti sölulista bókabúðanna í sínum flokki.
Bókin kom út á tíma sjálfstæðisbaráttunnar þegar þjóðararfurinn gekk í endurnýjun lífdaga. Þjóðsagnaminni voru færð nær þjóðinni og um leið mörkuð sérstaða íslenskrar menningar.
Á fyrri hluta 20. aldar var litið á íslensku jólasveinana sem tröll en jólasveinar Tryggva minna frekar á bændur. Þeir eru í eðlilegri stærð og klæðaburður þeirra þótti kunnuglegur. Þannig færði Tryggvi íslensku jólasveinana nær börnunum og jafnframt varð smám saman til málamiðlun á milli íslensku tröllanna og ameríska jólasveinsins.
Jólasveinarnir fengu að vera þrettán talsins og heita sínum gömlu nöfnum. Aftur á móti fóru þeir smám saman að klæðast sömu fötum og sá ameríski og gefa gjafir jafnframt því að halda sínum séreinkennum og hrekkjum.
Jóhannes úr Kötlum notaði að mestu sömu nöfn á sveinana og séra Páll Jónsson á Myrká (1812-1889) sjötíu árum fyrr í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar.
Með þessu kvæði sínu má segja að Jóhannes hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna, fjölda þeirra og í hvaða röð þeir halda til byggða.
Landsbókasafn eignaðist árið 1989 frumeintök teikninganna í Jólin koma og er útgáfa Forlagsins í ár byggð á þeim myndum.
Myndir: Helgi Bragason/Landsbókasafn Íslands