[dropcaps]J[/dropcaps]óhannes úr Kötlum gaf út bókina Jólin koma, árið 1932, með teikningum Tryggva Magnússonar listmálara. Jóhannes og Tryggvi komu báðir vestan úr Dölum þar sem rík jólasveinahefð hafði ríkt um aldir.
Jólin koma hafði ekki einungis að geyma vísurnar um jólasveinana heldur einnig Grýlukvæði, vísurnar um Jólaköttinn og Jólin koma; kvæðið sem hefst á ljóðlínunni „Bráðum koma blessuð jólin.“ Varð bókin brátt eins og helgidómur á íslenskum heimilum, dregin fram þegar líða tók að jólum, lesin og skoðuð í krók og kring. Má segja að Jóhannesi og Tryggva hafi tekist öðrum fremur að halda lífi í þessum vættum meðal íslensku þjóðarinnar og móta einnig hugmyndir hennar um Grýlu, Leppalúða og Jólaköttinn. Til marks um vinsældir þessa gamla kvers sem enn er gefið út í upprunalegri mynd hefur það verið endurprentað 27 sinnum og trónar á toppi bóksölulista yfir mest seldu ljóðabækurnar enn þann dag í dag.
Við birtum hvern jólasvein þann dag sem hann kemur til byggða.
Myndir/Tryggvi Magnússon/Landsbókasafn Íslands
Höfundarréttur mynda: Sigríður Egilsdóttir