Jóhannes með augum guðfræðings
Í maímánuði birtum við þrjár greinar eða greinasafn eftir Hjalta Hugason, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, um Jóhannes og ljóðagerð hans.
Fyrsta greinin sem birtist heitir: Kristur og framtíðarlandið – Trúarleg minni í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum 1926-1952 – og fjallar um: „…tvö trúarleg minni í kveðskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) á tímabilinu frá því fyrsta ljóðabók hans Bí, bí og blaka kom út 1926 þar til Sóleyjarkvæði birtist 1952. Þessi minni eru Kristur eða mannssonurinn og eftirvæntingarfull framtíðarsýn Jóhannesar. Því er síðarnefnda þemað talið trúarlegt að vonarrík framtíðarsýn er ríkur þáttur í kristinni trúarhefð og kallast á fagmáli guðfræðinnar eskatólógía (Eschatologie) sem merkir orðræða um hina hinstu tíma. Kristin eskatólógía kemur skýrt fram í lokaorðum trúarjátningarinnar frá Níkeu en þar segir: „Ég … vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“
Grein þessi birtist í tímaritinu Andvara – Nýr flokkur XLVI, 129. ár, 2004.