Hugsjónaskáld
og lofgerðasmiður

Hugleiðingar um ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum
þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu hans

Sum skáld eru skáld einnar bókar, jafnvel eins ljóðs. Önnur skáld eiga langan og farsælan feril. Samfylgd þeirra og þjóðarinnar rofnar ekki. Jóhannes úr Kötlum var eitt þessara síðarnefndu skálda. Í umræðum manna um öldina sem senn er að líða eru oftast kallaðar til sögunnar þrjár kynslóðir, aldamótakynslóðin, lýðveldiskynslóðin og ´68 – kynslóðin. Jóhannes úr Kötlum átti samleið með þeim öllum. Hann tilheyrði þeim þó tæplega í tíma. Hann var því nýfæddur þegar 20. öldin gengur í garð og hreint ekki ungur við lýðveldistökuna, hvað þá í upplausninni og andófinu í kringum 1968. En hann gerði hugmyndir og hugsjónir þessara kynslóða að sínum hugsjónum. Svo mjög raunar að í kringum 1970 kölluðu ungir róttæklingar hann „skáldið okkar“. Jóhannes úr Kötlum var fyrst og fremst hugsjónaskáld.
Skáld svo margra hugsjóna á sér óhjákvæmileg mörg líf og segja má að fá skáld spegli betur sögu aldarinnar í kveðskap sínum en Jóhannes. Ekki síst fyrir þá sök að hann fékk að kenna á því líkt og svo margir að það er alltaf nokkur munur á hugsýn og veruleika. Óskir okkar og þrár rætast aldei að fullu. Skáldið úr Kötlum sem átti svo margar háleitar draumsýnir og tjáði þær e. t. v. betur en flestir aðrir varð þó að horfa upp á þær leysast upp þegar veruleikinn barði að dyrum. Þótt léttleiki og rómantísk fegurð væri löngum einkenni ljóða hans var ekki alltaf þegar líða tók á skáldævina létt yfir þeim. Samt kæfði sá þungi aldrei hinn skáldlega neista sem ávallt var aðalsmerki Jóhannesar.

Unga Ísland og Rauðir pennar

Það er unnt að draga upp margar ólíkar myndir af Jóhannesi í Kötlum. Ég hygg þó að fáum hafi betur tekist að lýsa kjarnanum í skáldskapi hans og hugmyndaheimi en honum sjálfum í viðtali við Einar Braga í Birtingi 1957. Þar lýsir hann bernskudraumi sínum svo að hann sé: „rómantísk sveitalífsstefna, komin frá Norðurlöndum, með glaðværa bjartsýni, trú á landið og félagslegar framfarir, gróandi þjóðlíf í skjóli friðsællar náttúru./…/ Í fyrstu bókum mínum blandast þessvegna náttúrudýrkun guðstrú og ungmennafélagsanda jafn eðlilega og efnasamböndin í loftinu sem við öndum að okkur.“
Það er engin tilviljun að Jóhannes velur ljóðlínur úr barnagælum sem titla að fyrstu ljóðabókum sínum, Bíbí og blaka (1926), Álftirnar kvaka (1929), Ég læt sem ég sofi (1932) og Samt mun ég vaka (1935). Þetta eru söngvar sveitadrengsins, e. t. v. smaladrengsins, sem í það minnsta í upphafi er sakleysið uppmálað, umvafinn náttúru, trú og hlýju. En ekki líður á löngu þar til brestur kemur í þá paradísarmynd. Veruleikinn uppfyllir ekki kröfur hugsýnarinnar. Það er einkum tvenns konar gagnrýni sem verður áberandi í þriðju og fjórðu bók Jóhannesar, gagnrýni á hinn „gamla kirkjunnar guð“ og kjör fólksins, alþýðunnar.
Um þetta leyti ánetjast Jóhannes sósíalismanum sem átti eftir eiga hug hans allan það sem eftir var ævinnar. Hann verður einn hinna Rauðu penna sem höfðu ekki svo lítil ítök í íslenskum menningarheimi. „Sovét – Ísland / óskalandið / -hvenær kemur þú?“, yrkir hann sem löngum hefur verið vitnað til og gaf þar með tóninn. Í kvæði eftir kvæði heldur hann uppi merki baráttunnar gegn auðvaldi og heimsvaldastefnu en þó ekki síst gegn stríði og fasisma. Á mörgum kvæðunum er nokkur raunsæisblær. Ljóst er þó að oft hefur náttúran, sveitin og rómantíkin togað hann til sín. Í kvæðum hans má sjá átök milli virkni í samfélagslífi og leitar að athvarfi í sveitinni, í náttúrunni. Í kvæðinu Þegar landið fær mál sem birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar 1937 birtast þessi átök glögglega í einhvers konar herhvöt:

Hvað er sólskinið mitt, hvað er söngfuglinn minn
hvað er sumarsins fegursta skart,
hvað er vatnanna glit, hvað er víðigræn kinn,
hvað er vornótt með glóhárið bjart,
hvað er ómfögur lind, hvað er upphafið fjall,
hvað er angan mín tíbrá og þeyr,
ef í gegnum það allt heyrist örmagna kall
þess sem út af í skugganum deyr?

Landið, fólkið og hugsýnin

Það var aldrei erfitt fyrir hina Rauðu penna á borð við Jóhannes úr Kötlum að fylgja flokkslínu Kommúnistaflokksins og síðar Sósíalistaflokksins. Þjóðfylkingarstefnan sem var ráðandi stefna á þessum tíma boðaði samfylkingu verkamanna, bænda og frjálslyndra borgara gegn ógnum fasismans. Rómantísk sveitalífsstefna og ungmennafélagsandi samfara þjóðernisást átti því samleið með verkalýðshyggju og friðarboðskapi sósíalismans. Því má segja að sú blanda hafi hentað skáldunum vel. Í grein um Sjödægru í tímaritinu Svart á hvítu 1978 bendir Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur á það að mörg íslensk skáld hafi andæft á svipaðan hátt. „Í verkum þeirra birtist hugmyndafræði, sem felur í sér rómantíseríngu bændamenningarinnar, vissu um að þar hafi hin sönnu andlegu verðmæti verið, viðbjóð á kapítalismanum (og í tengslum við það syndafalli Íslendinga), og von um frelsun, oft einhvers konar nostalgískt afturhvarf – og er þá vonað að sósíalisminn muni færa Íslendingum aftur hin sönnu gildi bændamenningarinnar.“ Þetta telur Halldór ekki einungis vera óraveg frá sögulegri efnishyggju marxismans heldur sé söguskoðun á borð við þetta nær því að vera afsprengi hughyggju. Þótt syndafallskenning þessi tæki fyrst á sig fullveðja mynd eftir herstöðvasamninginn við Bandaríkin var grundvöllur hugmyndafræðinnar þegar fyrir hendi um miðjan fjórða áratuginn. Það sést glöggt í verkum Jóhannesar. Í bókunum Hrímhvíta móðir (1937) og Hart er í heimi (1939) fléttast þessi hugmyndafræði saman í söguljóðum, ljóðum um heimsmálin og ástarljóðum til moldarinnar og landsins. Flest eru kvæði þessi ort á hefðbundinn hátt með rími og stuðlum en í stöku kvæði er þó formið brotið upp í mælskum texta. Segja má þó að einna hæst rísi kveðskapur Jóhannesar á þessu tímabili í bókinni Eilífðar smáblóm (1940). Heimsstyrjöldin er skollin á og frammi fyrir þeim veruleika er fátt um svör. Skáldið ávarpar því sveitina og náttúruna og leitar huggunar hjá henni:

Hvert á flýja meðan allt er ógn,
– einskis að vænta, nema blóðs og társ, –
meðan hið veika kvak eins kvæðamanns
kafnar í sjúkum ópum lygi og dárs?
Blómið í túni, hússins dygga dýr,
dulúðga heiði, sólu roðna fjall:
heyrið nú, meðan maður vopnsins deyr,
mál ykkar vinar, hjartans þreytta kall.
Náttúra, vagga alls og einnig gröf:
yngdu mig, vertu sálar minnar hlíf,
gefðu mér aftur gleði mína og söng,
gefðu mér aftur trúna á þetta líf!

Næsta bók Jóhannesar, Sól tér sortna (1945), er einna þekktust fyrir kvæðið Dagskipan Stalíns sem er lofgerðarkvæði um hinn umdeilda leiðtoga Sovétríkjanna. Í þeirri bók er margt um pólitísk kvæði og fremur dimmt er yfir henni. En eftir á að hyggja eru þó sterkustu átök bókarinnar viðbrögð Jóhannesar við uppflosnun sveitanna. Þau viðbrögð sjást glöggt í kvæðinu Heiman ég fór. Skáldið spyr sig hví það hafi yfirgefið sveitina og svarar því til að hún hafi orðið ambátt auðsins, því hafi hann horfið á braut. En í lok kvæðisins stillir skáldið þó upp þeirri framtíðarsýn í anda Völuspár að einhvern tíman, kannski á tímum nýrra kynslóða, muni sveitin ná sínum fyrri ljóma, „og yfir bárum Breiðafjarðar / mun braga í gulli aldarmorgun nýr.“

Vatnaskil

Næstu árin koma út tveir sjálfstæðir ljóðaflokkar, Sóleyjarkvæði (1952) og Hlið hins himneska friðar. Sóleyjarkvæði fjallaði að mestu leyti um átökin um veru bandaríska hersins hér á landi. Þar stillir Jóhannes upp tákngervingi íslenskrar alþýðu andspænis erlendu auðvaldi og hernaðarhyggju. Þjóðkvæðablær var á ljóðaflokkinum og seinna var hann gefinn út af Æskulýðsfylkingunni á hljómskífu.
Þegar hér er komið sögu er hins vegar komið að vatnaskilum í kveðskapi Jóhannesar. Um þetta leyti fara að birtast eftir hann órímuð ljóð með breyttri myndbyggingu. Að vísu undir nafninu Anonymus. Árið 1948 komu út ljóðþýðingar á ýmsum nútímaljóðum sem nefndust Annarlegar tungur og árið 1955 gefur skáldið út nútímalegt verk undir eigin nafni, Sjödægru.
Sjödægra er eins og önnur verk Jóhannesar barn síns tíma. Að vísu er yfir bókinn blær þjókvæða líkt og í Sóleyjarkvæði og hún speglar öðrum þræðinum kalda stríðið, óvissu og ugg. Óttinn við kjarnorkuvá er áberandi og ekki síður andúðin á andvaraleysi og hugleysi frammi fyrir henni:

Þetta mórauða skólp sem hnígur þyngslalega um æðar vorar
það er ekki mannsblóð
ekki hinn skapandi lífsflaumur kynslóðanna
heldur tóbak og kaffi og brennivín.

Verður blóð vort þá fyrst rautt og heitt og lifandi
þegar vér liggjum helsærðir í valnum
og það fossar niður í rúst vorrar glötuðu ættjarðar?

Í kvæðinu Hellisbúa dregur skáldið upp mynd af ljóðsjálfi sem er „skógarmaðurinn / á Sjödægru / líf mitt blaktir / á einni mjórri fífustöng“. Þessi óvissa tilvera er megintónn verksins. Jóhannes hefur einnig tileinkað sér að sumu leyti ný vinnubrögð í bók þessari, lætur fremur myndir tala en mælskan texta. Innra líf og persónulegt fá meira rými á kostnað stéttabaráttu og þjóðfélagsmála þótt þetta tvennt hverfi engan veginn af vettvangi. Mater dolorosa er eftirminnilegt minningarkvæði um móður hans og sum kvæðin í bókinni fá á sig fíngerðan, allt að því austrænan blæ. Eitt þeirra er kvæðið Bernska:

Enn er mér í minni þá ég sat svo lítill
á flauelsgrænni mosaklöpp
og blámi augna minna
og blámi himinsins
mættust í tíbránni
hversu hann iðaði og skalf
þessi fíni gagnsæi silkivefur
sem tilvonandi brúður mín hafði ofið úr draumum móður sinnar
með ósýnilegum geislafingrum.

Óljóð (1962), næsta ljóðabók Jóhannesar, var raunar mun nýstárlegri en Sjödægra, spunnin úr mikilli myndauðgi, leik að orðum, ævintýrum og þjóðsagnaminnum en umfram allt óreiðu samtímans. Kalda stríðið geisaði sem aldrei fyrr. Jóhann Hjálmarsson kallar kveðskap hans „þjóðtrúarsúrrealisma“ í bók sinni Íslenzk nútímaljóðlist og nálgast nokkuð vel kjarna verksins. Óljóðum var tekið fremur fálega af sumum samherjum Jóhannesar í pólitík. Í bókinni gætir efasemda um stefnuna, spurt er hví félagi Stalín hafi orðið forherðingu að bráð og persónudýrkun Maós formanns gagnrýnd enda segist höfundurinn vera með „dálitla endurskoðun á heilanum“. En umfram allt er það nýstárleg framsetning efnis sem mætir gagnrýni. Bjarni Benediktsson frá Hofteigi kemst þannig að orði í ritdómi í Frjálsri þjóð að honum sýnist alvara Jóhannesar „ ekki ævinlega njóta sín vegna nýjungagirni hans um myndir og allt orðafar.“ Hann kvartar undan því að ginnungagap sé á milli orðanna og þess veruleika sem þeim sé ætlað að túlka og telur það fráleitt að „túlka absúrdan heim í absúrdum skáldskap“.´
En mér er spurn: Er til önnur og betri leið? Ég hygg að hér sé á ferðinni nokkuð vanmat á gildi Óljóða því að í þeim er í raun mögnuð túlkun á veruleika kalda stríðsins. Óreiðan og kjarnorkuógnunin eru bakgrunnurinn, „vor gamli veruleiki er að leysast upp í skothríð / ósýnilegra frumeinda“ og kalda stríðið hvílir eins og mara á öllum „og allir sem heyja þetta kalda dauðastríð / eru blaktandi blaktandi strá“. En í forgrunni er sprengikynjaður texti:

Í hjarta mínu er lítill skúti
þar sem mannssonurinn bíður dauðvona
eyðimörk í vestri
frumskógur í austri
það rignir eldi og brennisteini
niður í myrkan dal örvæntingarinnar
yfir lömb ímin og kið
einu sinni trúði ég á réttlætið
suður æðar mínar ríða skapanornirnar
gulnuðum hrífuskaftsbrotum
á flótta undan
rafmagnsljósinu
en norur taugar mínar fljúga geltandi
helsingjar
oddaflug
íleit að réttlætinu
kannski það leynist í dauða skrælingjanum
bak við sykurtoppinn

Lofgerðarskáld

Síðustu bækur Jóhannesar bera vitni þess að hann er öðrum þræðinum að gera upp eilífðarmálin. Raunar má greina myrka tóna í þeim bókum. Hann örvæntir um framgang heimsbyltingarinnar í Tregaslag (1964): „Milli svefns og vöku æpi ég út í myrkrið / heimbyltingin mun aldrei koma / fyrr en við hrökkvum upp af þessu móki / við hreina kristaltóna frelsisins / í okkar eigin hjörtum!“ Honum finnst starf sitt sem boðbera lítinn árangur bera og segir að nú sé skylt að sætta sig við það „að bjarnanóttin hljóð sé hnigin að / og máli mínu lokið.“ En í Nýjum og niðum (1970) er þó ljóst að hann lætur hvergi deigan síga: „Ofstæki vort er heilagt“, segir þar. En handan glímu þjóðfélagsmálanna er viðleitni Jóhannesar til að „handsama guð“.
Oft er erfitt að greina á milli gamans og alvöru í umfjöllun Jóhannesar um guðdóminn. Í Mannsyninum (1966) sem er ljóðaflokkur að mestu skrifaður á kreppuárunum skoðar hann Krist í alþýðlegu ljósi og gerir hann að jarðneskum byltingarforingja. Víða finnum við Krist sem huggara og mannlegleikans kraft, kristilegrar siðfræði gætir í kvæðum hans og þótt trú Jóhannesar yrði stundum grannur þráður og breytist jafnvel í einhvers konar mannhyggju var hann í eðli sínu lofgerðarskáld sem þurfti á háleitum hugsjónum að halda. Hann hefur raunar sjálfur sagt: „Það hefur löngum verið árátta mín að yrkja lofsöngva“. Hvort sem þeir lofsöngvar fjölluðu um Stalín, Mao eða Dimitroff, Ísland, náttúruna eða guð voru þeir honum eðlileg viðbrögð við tilverunni, hans háttur við að takast á við hana og fagna henni. Í seinustu bókum hans rennur landið og guðdómurinn raunar saman í lofgerðarkvæðum um allífið í einhvers konar algyðistrú. Í Sólarsögu í bókinni Ný og nið segir:„ Ég er í þér og þú ert í mér / og við erum í öllu og allt er í okkur“ og í kvæðinu Í guðsfriði segir:

Maðurinn í landinu
landið í manninum
– það er friður guðs.

Í skáldskapi hins fullþroskaða skálds, Jóhannesar úr Kötlum blandast á svipaðan hátt og fyrr náttúrudýrkun og guðstrú og þótt sósíalísk byltingarhyggja og hugmyndafræði taki við af ungmennafélagsandanum er hún ekki alveg laus við að vera rómantísk sveitalífsstefna með trú á landið og félagslegar framfarir, jafnvel þegar dimmir yfir og efinn sækir að. Þannig er hugsýn Jóhannesar og um hana er lofgjörðin fyrst og fremst sem svo mjög setti mark sitt á ljóð hans.

Skafti Þ. Halldórsson

Skafti Þ. Halldórsson hefur verið bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins til fjölda ára.

Greinin birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins þann 30. október 1999.

 

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2025