Í þættinum Úr gullkistunni sem var á dagskrá þann 21. janúar síðastliðinn má heyra upptöku frá árinu 1959 þar sem Guðmundur Böðvarsson talar um Jóhannes úr Kötlum á afmælissamkomu í Gamla bíói og Jóhannes flytur tvö kvæði sín.
Hér má heyra upptökuna.
Fyrir þessi jól koma að nýju út jólakort Erlu Sigurðardóttur með myndum við vísur Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana en kortin hafa verið vinsæl í gegnum árin. Þau voru áður gefin út af Blindrafélaginu, en nú hefur fyrirtækið „Laxakort” ákveðið að gefa þau út.
Framan á hverju korti er teikning af einum jólasveini eftir Erlu, en innan í þeim eru svo tvær vísur Jóhannesar um þann jólasvein.
Jólasveinavísur Jóhannesar komu fyrst út árið 1932 í bókinni Jólin koma, sem Þórhallur Bjarnarson prentari gaf út, en hún hefur síðan verið endurútgefin mörgum sinnum og 25. prentun kom út 2008.
Margir hafa spreytt sig á að teikna jólasveinana og eru teikningar Tryggva Magnússonar þeirra þekktastar, en hann teiknaði í bókina Jólin koma.
Þá hafa verið birtar hér á heimasíðunni teikningar Ólafs Péturssonar sem teiknaði fyrir nokkrum árum jólasveinana fyrir Póstinn á sérstaka frímerkjaútgáfu hans í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóhannesar úr Kötlum.
Eftirlifandi eiginkona Jóhannesar, Hróðný Einarsdóttir, lést að morgni sunnudagsins 6. september síðastliðins, 101 árs að aldri.
Hún dvaldi síðustu æviárin á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík.
Hróðný fæddist 12. maí árið 1908 að Hróðnýjarstöðum í Laxárdal, Dalasýslu. Hún kvæntist Jóhannesi þann 24. júní 1930 og eignuðust þau þrjú börn, Svan, Ingu Dóru og Þóru.
Í þættinum Ársól sem var á dagskrá Rásar eitt í morgun ræddi Njörður P. Njarðvík um Jóhannes úr Kötlum og las ljóð eftir hann. Hægt er að hlusta á þáttinn gegnum Vefvarp Ríkisútvarpsins næstu tvær vikur gegnum þennan tengil.