Ég finn
ég verð að
springa

Að boða og iðka af einlægni

Einhverjir lesendur munu kannast við eitthvað úr þeim ljóðlínum sem hér fylgja á eftir:

Hér er fossinn minn fagri,
knúinn feiknstafamætti.
Blandast draumröddin djúpa
léttum dulhörpuslætti.
1Bí bí og blaka, bls. 11

Íslensk tunga andans ljósi
yfir tregðu hugans bregður,
varpar ómum helgrar hörpu
huldumála í daufar sálir,
2Bí bí og blaka, bls. 40

félagar
eitt sinn hrópuðum vér
öreigar allra landa sameinizt
nú sogumst vér inn í allsnægtaþriðjunginn
sem liggur á meltunni eins og kyrkislanga
meðan hinir tveir þriðjungarnir svelta
3Óljóð, bls. 207

Takið eftir, nágrannar: sprengja hefur fallið.
Það er komið gat á glerhimininn.
Jarðskurnin er brostin.
Svitalækir streyma niður hlíðina og blóðvötn
heiðarinnar er að leggja.
4Ný og nið, bls. 189

Það gæti vafist fyrir athugulasta áhugamanni að ættfæra þessi ljóðabrot væri honum ekki um það kunnugt að fyrra bragði að þau eru öll eftir Jóhannes úr Kötlum. Fjölbreytnin er með ólíkindum í formi og bragstíl, anda og yfirbragði, skáldskaparmáli og yrkisefnum.

Í því lesmáli sem hér fer á eftir verður reynt að skoða kvæði og nokkur önnur rit Jóhannesar úr Kötlum til að varpa ljósi á viðhorf skáldsins sjálfs til skáldskaparins, en slík athugun getur jafnframt orðið áhugasömum lesanda til hjálpar við að njóta og tileinka sér verk þessa ágæta skálds. Hér verður stuðst við Ljóðasafn I – VIII, heildarútgáfu Heimskringlu á ljóðum Jóhannesar en hún kom út í átta bindum á árunum 1972 til 1976 í umsjón Sigfúsar Daðasonar. Auk þess má nefna Vinaspegil, safn af ræðum og greinum Jóhannesar, sem út kom 1965 undir ritstjórn Kristins E. Andréssonar. Þar sem vísað er í blaðsíðutal er miðað við þessar bækur. Aðalfyrirsögnin er tekin úr kvæðinu „Ég finn ég verð“ í næstsíðustu bók skáldsins Tregaslag, bls. 14. Í heimildaskrá eru nokkur önnur heimildarit nefnd.

Hér verður fyrst og fremst athugað hvernig afstaða skáldsins til skáldskaparins birtist í ljóðum þess og lausamáli. Aftur á móti verður ekki seilst til skáldsagna Jóhannesar, og ekki verður sérstök grein gerð fyrir skoðanaþróun hans. Stjórnmálaafstöðu hans mun óhjákvæmilega bera á góma, en ekki verður sérstök grein gerð fyrir henni heldur og vísast um það til „persónulegrar minningar“ sem fylgir þessu lesmáli sem eftirmáli.

ll.
Margir kannast við hugmyndir um vindhörpuna, „Eólshörpuna“. Þetta hljóðfæri var sett út eða í opinn glugga og hljómaði eftir því sem andvara eða vind gaf og breyttist hljómurinn með veðrinu. Í goðheimum Grikkja fornu var Guð vindanna Aíolos – sem mætti stafsetja Eól – en grunnmerking nafnsins er „skjótur, síbreytilegur, kvikur.“

Að sumu leyti minnir þessi hugmynd á skáldskap Jóhannesar úr Kötlum, og ekki síður á skoðanir hans sjálfs á eigin skáldskap og hlutverki hans. Jóhannes leit svo á að skáldskapurinn ætti umfram allt annað að þjóna mannlífinu, ætti að þjóna „alþýðunni“ eða þjóðinni, og af hálfu skáldsins væri ljóðið og ætti að vera skerfur til mannlífsbaráttu, framlag í þágu „háleitra hugsjóna“, og skáldskapurinn ætti eiginlega að vera fórn sem skáldið færir þessum hugsjónum og þjóð sinni. Eftir því sem breytingar verða í jarðnesku striti og baráttu mannanna á þá skáldskapurinn einnig að breytast og taka umskiptum – eins og hljómur vindhörpunnar.

Mörg dæmi má nefna úr ljóðum Jóhannesar um þessa afstöðu hans til skáldskaparins. Framan af virðist þó sem honum hafi ekki þótt tilefni til að yrkja sérstaklega um slíkt, að honum hafi þótt það svo sjálfsagt mál að ekki þyrfti að taka það fram. Hvert kvæðið af öðru í bókum hans ber með sér fullkomna vissu um hlutverk og áhrif kveðskaparins til þess að breyta og bæta mannheim og samfélag. Yrkisefnin eru ótvíræð og kvæðin full af boðun og boðunarákafa. Á síðari skeiðum fer Jóhannes meira að yrkja beinlínis um skáldskap og kvæðagerð og um tilgang og áhrif skáldsins og þá er það gjarnan í beinum tengslum við vaxandi efasemdir hans, ugg um samtíð og framtíð og eftirsjá eftir liðnum tíma fullvissu og baráttu. Í þeim kvæðum birtist líka vaxandi vafi um áhrif skáldskaparins yfirleitt.

Afstöðu Jóhannesar má sjá t.d. í kvæðinu „Ef ég segði þér allt -“ í Álftirnar kvaka, og í kvæðinu „Samt mun ég vaka“ í samnefndri bók. Kvæðið „Þegar landið fær mál“ í bókinni Hart er í heimi er alþekkt sem innblásin stefnuyfirlýsing skáldsins. Næstfremsta kvæði bókarinnar Samt mun ég vaka frá 1935 er „Vér öreigar“ en það birtist fyrst í tímaritinu Rétti árið áður. Því lýkur á stefnuskrá sem segja má að hafi reynst varanleg í verkum skáldsins í og með öllum umbreytingunum sem áttu eftir að verða á ferli þess. Þar segir og er m.a. skemmtilegt að fylgja eddukvæðatilbrigði í ljóðstöfunum:


Eins og ljóð vort er einfalt og auðskilið
og hirðir ekki um rósfjötra rímsins
né fjólublá faguryrði,
heldur sannleikann sjálfan,
eins munum vér berjast til þrautar,
í bróðurlegri, einfaldri alvöru,
unz réttur vor og niðja vorra
til nýs, mannlegs lífs
frelsar
hið fyrirheitna land.
(Samt mun ég vaka, bls. 126)

Enn má nefna í Óljóðum upphafskvæði bókarinnar „Á þessari rímlausu skeggöld“ og lokakvæðið „Hver eru þessi óljóð“. Í Tregaslag eru ljóðin „Varúð“ og „Af hjartans lyst“ sem ítreka hvort með sínum hætti mjög breytt viðhorf frá fyrstu bókunum, en í Ný og nið kveður aftur við baráttutóninn gamla í kvæðinu „Það má“. Þar segir:

Skáld þarf ekki að vera frjálst:
það má banna því að skrifa

því frá dauðastríði Skáldsins
berast þau einu hljóðmerki
sem skelfa harðstjórana
og vekja hina kúguðu:

andköfin þrjú
sem boða sigur endurfæðingarinnar.
(Ný og nið, bls. 171)

Jóhannes lýsti afstöðu sinni margsinnis í lausu máli. Árið 1947 segir hann í tímaritinu Rétti: „Engin spurning er óþarfari en sú, hvort listin eigi erindi til fólksins – það er einmitt listin sem fólkið er að leita að. Þess sælasti draumur – að vísu draumur sem hjá fjölmörgum tekur aldrei á sig ákveðna mynd – er sá að gera allt sitt líf að fagurri list.“ (Vinaspegill, bls. 5). Á bókmenntakynningu árið 1960 kveður hann svo að orði: „Einu gildir hversu djúpt skáldið vill kafa í leyndardóma sjálfs sín og tilverunnar – það getur samt ekki sloppið úr mannheimi. Það neyðist til að taka einhverja afstöðu gagnvart umheiminum og gerir það raunar öldungis eins fyrir því þótt það einangri sig í fílabeinsturni. Skáldið getur aldrei orðið hlutlaust gagnvart manninum. Maðurinn eltir það inn í turninn og krefst reikningsskila.“ (Vinaspegill, bls. 201). Afstaða Jóhannesar kemur einnig fram í umsögn um bókina Ljóð ungra skálda árið 1955. Þá eru fyrstu spurningar hans þessar: „Hvað er þá um þessi tuttugu ungu skáld að segja? Hvernig yrkja þau? Hver er afstaða þeirra til umheimsins? Hvað boða þau?“ (Vinaspegill, bls. 67)

Og til að skýra alveg hvert Jóhannes er að fara má vitna til greinar í Þjóðviljanum haustið 1950: „Allt mannlíf er pólitík. Öll pólitík er í sínu óspilltasta eðli leit að því formi fyrir mannlífið sem gerir það að sem fullkomnustu samfélagi“ (Vinaspegill, bls. 132). Og þessa sér einnig marga staði í kvæðunum. Sem dæmi má taka:

Vort mannkyn færist þéttar saman senn,
því samhyggjan er lífsins mikla raust.
Og til þess eru allir þessir menn
að eiga saman það sem vantar enn:
hið frjóa vor sem vex fram endalaust.

… (Ég læt sem ég sofi, bls. 112)

Það er sígilt sjónarmið að skáldskapur sé eða eigi að vera skerfur, framlag og fórn. Í kristnum anda á skáldskapurinn að vera Guði til dýrðar, „að maiorem Dei gloriam“ og hafa trúarskáld, guðfræðingar og heimspekingar margt um það ritað. Siðfræðingar og siðferðispostular allra tíma hafa hrósað – og þó oftar lastað – skáld og skáldskap frá þessu sama eða svipuðu sjónarmiði. Og í byltingarhreyfingum tuttugustu aldarinnar vantar ekki sambærileg dæmi um skáldskapinn sem vopn í baráttunni. Jóhannes á þar marga samherja í afstöðu. Endurspeglunarkenning Leníns og annarra marxista og þjóðfélagsraunsæi, „Sozial-realismus“, þeirra er nátengt þessum viðhorfum. Í þeim anda skrifaði Georg Lúkaks bókmenntarýni sína og margir aðrir, t.d. Lev Trotskí, Anatolí Lúnatsjarskí o.fl. Á Íslandi fer langmest fyrir Rauðum pennum, tímariti og samnefndum umsvifamiklum rithöfunda- og listamannahópi undir forystu Kristins E. Andréssonar, en þeir munu mest hafa farið eftir þýskum fyrirmyndum á millistríðsárunum. Verk Kristins í bókmenntafræði bera þessum sjónarmiðum skýrt vitni. Um þetta má vísa til frásagnar Kristins sjálfs (Kristinn E. Andrésson, 1971) og til ritverks Arnar Ólafssonar um Rauðu pennana (Örn Ólafsson, 1990).

Ekki þarf reyndar lengi að leita gagna til að fá staðfest hversu andstæð þessi sjónarmið eru og hafa verið öðrum ráðandi nútíma-straumum í bókmenntum síðustu kynslóða. Er óþarft að rekja lengi áhrifamiklar kenningar um „listrænt frelsi“, um „listina fyrir listina“, um að höfundur og listamaður beri aðeins ábyrgð gagnvart eigin samvisku og eigin innblæstri, að list og skáldskapur lúti sínum eigin lögmálum og tengist mannlífinu með allt öðrum hætti og meira eða minna ótengt hugmynda- og hagkerfum, þjóðerni, trúmálum eða stjórnmálabaráttu. Jón Óskar víkur ítrekað að þessum umræðum í endurminningum sínum (Jón Óskar, 1969 – 1979).

lll.
Fjölbreytni og róttækar umbreytingar á ljóðstíl og ljóðformi, tungutaki og skáldskaparmáli, hugsunartúlkun og yrkisefnum eru megineinkenni á skáldferli Jóhannesar úr Kötlum. Þar skiptast á stöðug þróun og skyndileg umbylting, og hann sagði sjálfur oftar en einu sinni að þessi framvinda væri viðbrögð við umbreytingum mannlífsins og samfélagsins – vegna þess að ljóðin ættu að vera hluti þeirrar framvindu og ættu að leika hlutverk í henni, mótast af henni og hafa jafnframt áhrif á hana.

Um þetta má nefna mörg dæmi. Í grein í tímaritinu Rétti 1947, sem áður var vitnað til, segir Jóhannes: „Listamaðurinn á því aðeins um tvennt að velja: annaðhvort að einangra sig frá lífi fólksins með því að láta undan ófrjóum formdýrkunarkröfum … eða gera baráttu fólksins að sinni eigin baráttu … (Vinaspegill, bls. 12). Í ræðu árið 1952 segir hann: „Í innsta eðli sínu hefur listin aldrei verið neitt einkafyrirtæki, þaðan af síður forréttindamunaður, enda þótt versleg og geistleg völd hafi gert hana það, heldur leit mannsandans að meiri fegurð og barátta hans fyrir auðugra lífi.“ (Vinaspegill, bls. 152) Og í erindi sem gefið var út 1959 segir hann um stöðu og þróun ljóðlistarinnar: „Atómkveðskapurinn er öðrum þræði uppreisn gegn þessari hættulegu stöðnun, á svipaðan hátt og uppreisn Jónasar gegn rímnastaglinu á sínum tíma. … Hér við bætist að aðstaða ljóðlistarinnar í þjóðlífinu hefur gerbreytzt. Öldum saman og allt fram á okkar daga var hún meginþráður í andlegri menningu Íslendinga … Hlutverk ljóðlistarinnar hefur því dregizt gífurlega saman og hljóta þær takmarkanir að leiða til mjög aukinnar sérhæfingar. … Ljóðlistin er nú að reyna að hasla sér völl við nýjar aðstæður í gerbreyttum heimi. Mörgum mun mistakast í þeirri viðleitni, aðrir munu sigra. Jafnt viðfangsefni sem búningur munu taka miklum stakkaskiptum: útþensla mannlegrar þekkingar og reynslu krefst jafnt víkkaðrar listsköpunar sem listskynjunar – æ samsettari og flóknari heimsmynd krefst æ hnitmiðaðri og einfaldari túlkunar. … Skáldin verða að reyna að ná til fólksins, beint inn í hug þess og hjarta, án þess þó að slaka á kröfum sínum í glímunni við hið ósegjanlega. Fólkið verður að reyna að ná til skáldsins með því að taka á móti því sem vini sínum og túlkara sem aldrei verður að fullu „skilinn“ – aðeins „fundinn“. Um sjálfan tilgang ljóðlistarinnar ætla ég ekki að ræða. Ég tel sama gilda um hana og allar aðrar listir: að ekkert mannlegt sé henni óviðkomandi – ekkert í allri tilverunni sé henni óviðkomandi. Eins og þær fylgir hún óhjákvæmilega þeim sveiflum sem uppi eru á hverjum tíma í þjóðlífi og umheimi. Það er undir þjónum hennar, skáldunum, komið hvort það atfylgi verður henni til vaxtar eða hrörnunar, upphafningar eða falls. Og það er í annan stað undir þjóðinni komið hvort skáldinu mega vaxa þeir vængir sem því er áskapað.“ (Vinaspegill, bls. 100-101)

Ekki vantar heldur dæmi úr ljóðum Jóhannesar sem sýna ótrúlega fjölbreytni og umskipti í brag, yrkisefnum og framsetningu, auk þeirra sem nefnd eru í upphafi þessa máls. Mætti jafnvel halda því fram að röð slíkra dæma gæfi skýra mynd bæði af skáldskap hans og einnig af ferli hans sem skálds. Er athyglisvert að lesa saman bækurnar Óljóð frá 1962 og Tregaslag frá 1964, en Jóhannes bendir að vísu á það í eftirmálsorðum að meginhluti kvæðanna í seinni bókinni sé að stofni til eldri en fyrri bókin. Eins mætti bera saman innblásna hugsýn í ýmsum kvæðum skáldsins, t.d. í kvæðunum „Við lífsins tré“ í Álftirnar kvaka, „Þegar landið fær mál“ og „Stjörnufákur“ í Hart er í heimi við kvæðin „Óðurinn um oss og börn vor“ og „Fimm hugvekjur úr Dölum“ í Ný og nið. Hér verða aðeins tvö dæmi tekin:


Ég tek í hönd þína, heill og djarfur.
Við horfum brosandi út á sæinn.
Við teygum sólheitan sumarblæinn
og sjáum aldanna vald í gegn.

… (Álftirnar kvaka, bls. 162)

Nú stígum við á rauða klæðið, ástin mín.
Það er svo dásamlegt að svífa.
Við tyllum tánum á anconcagua, dhaulagini,
kilimanjaro, hvannadalshnjúk, og
rennum sjónum yfir plánetuna okkar.

… (Ný og nið, bls. 193)

Merkilegt rannsóknarefni er og að lesa saman kvæði Jóhannesar sem víkja að trúarlegum efnum. Hann var alla tíð mjög trúhneigður og brennandi í trúaranda. Lengi framan af gætir innilegrar og barnslegrar trúarafstöðu, en á umbrotaárunum verður Jóhannes mjög uppreistargjarn gegn hefðbundnum trúarsetningum og opinberum kenningum kirkjunnar. Kemur sú afstaða glögglega fram í “Mannssyninum”, kvæðabálki frá kreppuárunum sem ekki var gefinn út fyrr en 1966. Einkum er eftirtektarvert í þessu þegar litið er yfir allan skáldferil og skoðanir Jóhannesar hve sterk og innileg trú hans á Skaparann og Krist varðveitist og lifir áfram þrátt fyrir allar aðrar efasemdir og uppreisnir hans. Einhverju sinni heyrði ég að Jóhannes hefði ekki viljað eiga texta í sálmabók Þjóðkirkjunnar, – hvort sem hann hafði nú verið beðinn um það eða ekki. Ég spurði Sigfús Daðason um þetta og hann kvað það rétt vera. Ég hafði einhver orð um að þetta kæmi mér á óvart því að ýmislegt frá Jóhannesi ætti fullt og gott erindi í þá bók. Sigfús svaraði: „Já, en Jóhannes vill eiga milliliðalaust samband upp. Hann vill ekki að neinar stofnanir komi þar inn á milli“. Margvíða birtist í kvæðum Jóhannesar innileg nánd hans við Krist og nægir að nefna „Jesús Maríuson“ í Sjödægru.

Skáldlega fjölhæfni og fjölbreytni Jóhannesar má skoða frá öðru sjónarmiði. Sum ljóða hans eru bein boðun og liggja eiginlega í einum merkingarfleti boðskaparins og þá jafnvel borin uppi af einni atviksmynd eða atburðalýsingu sem brugðið er upp. Í öðrum ljóðum hans verður myndin meginatriði og merkingin því í tvöföldum fleti. Séu dæmi tekin úr síðustu bók skáldsins, Ný og nið frá 1970, eru myndhvörf mjög ráðandi einkenni og samfelldar raðir sömu myndhvarfa í kvæði, nokkurs konar „nýgervingar“ í nútímaljóði, en viðlíkingar alls ekki áberandi. „Óðurinn um oss og börn vor“ er magnþrungið samspil fárra mynda og beinnar boðunar en myndirnar ráða úrslitum. Í ljóðinu „Tíðabrigði“ er Íslandssagan túlkuð á hápólitískan hátt, en er í raun myndhvörf og nýgverving upprisu sem síðan er hvolft niður um sjálfa sig. Kvæðin „Tunglið tunglið taktu mig“ og „Staðið yfir moldum“ hefjast á myndum sem eru alveg fáránlegar, „absúrd“, en virðast þó augljósar af samhenginu og þar eru margs konar háðslegir orðaleikir þar sem skáldið kveikir nýtt líf í stirðnuðum orðasamböndum. „Grasaferð“ er alveg sjálfstæð og tær mynd. Í ljóðinu eru margs konar grunkveikjur sem vekja hugrenningar út frá myndhvörfunum og plöntuheiti leika við þrjú skaut ljóðsins: tilbeiðsla – lófi – sakleysingi. „Enn um gras“ er alveg skýr umfjöllun en tvö orð í lokin ráða úrslitum: „auðmýktin og uppreisnin“ og bregða nýju merkingarljósi yfir það sem á undan fer. Í ljóðinu „Hvíld“ er nýgerving með umskiptum. Og undir lok í þessari síðustu ljóðabók skáldsins birtist æðsta takmark trúmannsins í himneskri samsömun, „unio mystica“, í ljóðunum „Sólarsagan“ og „Í guðsfriði“. Þar eru orðalag og myndsýn sem alkunn eru úr dulhyggjubókmenntum fyrr og síðar, minna í senn á mörg eldri ljóð Jóhannesar sem eru innblásin voldugri sýn og á upphaf Fegurðar himinsins eftir Halldór Laxness. Síðarnefnda ljóðinu lýkur þannig:


Þá verða öll orð tilgangslaus
– þá er nóg að anda
og finna til
og undrast.

Maðurinn í landinu
landið í manninum
– það er friður guðs.

(Ný og nið, bls. 206)

lV.
Elstu dæmin sem vitnað er til í upphafi þessa lesmáls sýna fyrsta skeið á skáldferli Jóhannesar. Ljóðformið er hefðbundið, ljóðstíll og líkingamál bókmenntasögulega íhaldssamt. Þegar líður á þetta skeið magnast og herðist samfélagsboðunin og stjórnmálaefnið í byltingarsinnuðum anda. Í stað ungmennafélagans, þjóðernissinnans og bændavinarsins kemur hér fram verkalýðssinninn, byltingarmaðurinn og bolsévikkinn Jóhannes. En þessir straumar breyta ljóðstílnum og ljóðforminu ekki og þau breyta sannfæringarkraftinum ennþá síður, svo sem sjá má í „Þegar landið fær mál“ og einnig í „Dagskipun Stalíns“ svo að aðeins tvö þekkt dæmi séu nefnd aftur. Dæmi um breyttan ljóðstíl með breyttum boðskap má þó finna frá fyrra skeiði og þau eru lærdómsrík. Má þar nefna t.d. „Sovét-Ísland“ í Samt mun ég vaka og „Tröllið á glugganum“ í Hart er í heimi. Í þessum kvæðum bregður mælskustílnum fyrir, retórískum stíl, sem síðar varð skýrara einkenni á þeim kvæðum Jóhannesar sem eru í frjálsu ljóðformi. Í bókinni Hart er í heimi frá 1939 má lesa þessi ólíku dæmi m.a.:

Og ég sat uppi í hlíð og ég sá út á haf,
og mín sál var á krossgötum stödd.
Fyrir framan mig lá allt, sem lífið mér gaf,
og mitt land varð ein hvíslandi rödd,

… (Hart er í heimi, bls. 111)


Fær það þá aldrei oftar að finna
angan blómsins, er fölnaði í haust?
Og aldrei oftar að heyra
ómstef fuglsins, er hvarf því með söngvatrega?
Og aldrei oftar að sjá
þá eygló, er hneig að baki dumbrauðra fjalla?
Og aldrei oftar það ljós,

… (Hart er í heimi, bls. 177)

Á árum heimsstyrjaldarinnar og upp úr því verður bylting í skáldskap Jóhannesar. Og það er athyglisvert að skáldið notar fyrst dulnefni, „Anonymus“: nafnleysa. Innan skamms gengur Jóhannes þó fram undir eigin nafni og er upp úr þessu öðrum þræði eitthvert form-róttækasta skáld þjóðarinnar. Áður hafa verið nefnd nokkur dæmi um eldri ljóð hans í frjálsu formi. Árið 1948 kom ljóðaþýðingasafnið Annarlegar tungur út, en frá 1945 höfðu kvæði verið að birtast frá Jóhannesi undir höfundarnafninu „Anonymus“. Gerir hann stutta grein fyrir þessu í eftirmála við Sjödægru 1955.

Lykilorð í þessari atburðarás er „viðbrögð“. Þetta má lesa bæði í ljóðum og lausamáli Jóhannesar. Hann ætlar sér ekki þá dul að skapa nýjar aðstæður eða móta þær upp úr þurru, heldur bregðast við þeim með viðeigandi hætti. Nýjum aðstæðum hæfir nýtt ljóðform, nýr hugsunarháttur og hugsunartúlkun, ný yrkisefni. Athyglisverð í því efni er ábending Sveins Skorra Höskuldssonar að Jóhannes hafi í formþróun ekki verið „fyrstur til að brjóta ísinn en drýgði síðan sóknina“ og „entist betur“ en ýmis önnur skáld í því að fylgja eftir breyttum aðstæðum og viðhorfum til að tjá hugsanir sínar og ganga á hólm við breytt mannlíf. (Sveinn Skorri Höskuldsson, 1978). Áður hafði Sveinn Skorri fjallað um formbyltinguna í verkum Jóhannesar „sem e.t.v. framar öllum hefur átt það hljómborð, er hvað bezt hefur endurómað áslátt tímans, og einn sinna jafnaldra hefur tekið þeirri myndbreyting frá hefð til óbundins, nútímalegs skáldskapar að við ekkert er jafnandi nema endurfæðing“ (Sveinn Skorri Höskuldsson, 1970, bls. 38). Jón Óskar lýsir æskuhrifningu sinni af ljóðum Jóhannesar í endurminningum sínum og segir m.a.: „Skáldið úr Dölunum var eins og hljóðfæri sem endurómaði allar helztu umbyltingar sem gerðust með þjóðinni á fyrri hluta tuttugustu aldar“ (Jón Óskar, 1969, bls. 139). Ályktun Eysteins Þorvaldssonar er á sömu lund: „Breytingarnar sem Jóhannes gerir á ljóðstíl sínum eru einstæðar í íslenskri ljóðlist. Hann verður að teljast eitt af atkvæðamestu og listfengustu skáldum bragbreytingatímabilsins.“ (Eysteinn Þorvaldsson, 1980, bls. 129).

Um þetta viðhorf má nefna ýmis dæmi sem reyndar falla alveg að hugmyndinni um vindhörpuna og að hugmyndum marxista um endurspeglun og um stöðu listarinnar í samfélaginu. Í umsögn um tvær ljóðabækur ungra skálda árið 1960 segir Jóhannes: „Hver tíð krefst sinnar túlkunar. … En síðustu áratugina hefur ægiþensla heitra og kaldra stríða ekki rúmast í skorðum bundins máls. Ragnarök aldarinnar hafa blátt áfram sprengt af sér allt mærðartimbrið um sinn. … Áköfustu talsmenn yngri kynslóðarinnar telja hinsvegar að gamla ljóðformið sé orðið úreltur skynjanamiðill sem höndli ekki inntak hins nýja tíma, heldur reyni að bjargast á steinrunnu og innantómu háttakerfi.“ (Vinaspegill, bls. 176-177)

Í eftirmála við frumútgáfu Sjödægru 1955 segir Jóhannes: „Vera má að einhverjir virði mér til fordildar einnar jafnt form sem efni þessarar bókar. Og einn kann að sakna stuðla, annar stéttabaráttu, hinn þriðji skáldskaparins sjálfs. En hitt er jafnsatt fyrir því, að öðruvísi gat ég ekki ort á þessu stigi málsins – og tjóar því lítt um að sakast.“ (Ljóðasafn VII, bls. 214). Þeir Eysteinn Þorvaldsson og Halldór Guðmundsson hafa fjallað rækilega um Sjödægru og má að öðru leyti vísa til þeirra (Eysteinn Þorvaldsson, 1971, Halldór Guðmundsson, 1978).

Meðal margra dæma sem nefna má úr ljóðum Jóhannesar skal hér minna á „Rímþjóð“ í Sjödægru:


Í sléttubönd vatnsfelld og stöguð
hún þrautpíndan metnað sinn lagði
í stuðla hún klauf sína þrá
við höfuðstaf gekk hún til sauða.

– þá sökk hennar rím eins og steinn
með okinu niður í hafið.
(Sjödægra, bls. 29-30)

V.
Á ferli Jóhannesar verður þess ekki vart að hann hafi komist í þrot sem skáld, hafi „misst andann“ um eitthvert skeið. Í eftirmálanum við Sjödægru getur hann þess að nokkuð langt sé um liðið frá því að síðasta ljóðabók hafi komið frá hans hendi en þar kemur ekkert fram um erfiðleika í skáldskapnum heldur má þvert á móti lesa af textanum og öðrum heimildum að Jóhannes hafi einfaldlega verið á kafi í áhugafullri leit og vonglöðum tilraunum til að finna nýjan tón í sem bestu samhengi og samræmi við líðandi stundir. Vitað er að hann tók villuspor og afbrot skoðanabræðra sinna í Ráðstjórnarríkjunum og Austur-Evrópu mjög nærri sér, og margs konar efasemdir birtast í ljóðum hans þegar líður á tímabil kalda stríðsins. En ekki er að sjá að neins konar andleg kreppa eða sálarangist hafi knúið hann til breytinga í ljóðstíl, og reyndar ekki heldur hugmyndaleg kreppa, innra uppgjör o.þ.h. Þvert á móti verður ekki annað skynjað en að hefðbundið ljóðform og hugsunartúlkun hafi ævinlega leikið honum á vörum enda beitti hann því áfram samhliða frjálsu formi. Hann var eitthvert hagmæltasta skáld þjóðarinnar eins og t.d. sum barnaljóð hans sýna. Jóhannes úr Kötlum hafði alla hefðbundna íslenska bragfræði á valdi sínu, svo sem „Háttalykill“ hans og mörg önnur kvæði sýna. Hann var sem skáld innblásinn og upptendraður miklu fremur en varkár eða nákvæmlega fágaður í bragvinnubrögðum sínum. Þessa eru mörg þekkt dæmi, meðal annars í þeim kvæðum sem þegar hafa verið nefnd.

Í viðtali í Birtingi 1957 var Jóhannes spurður um formbyltinguna og svaraði: „Ég byrjaði á því af svipuðum ástæðum og ég fór á sínum tíma að yrkja byltingarkvæði – ég var orðinn ósáttur við sjálfan mig og ljóðagerð mína – fannst sem ég væri farinn að haltra á eftir.“ (Vitnað eftir Eysteini Þorvaldssyni, 1980). Þarna kemur einnig fram að eitt megin-áhyggjuefni Jóhannesar hafi verið að ljóðlistin og alþýðan fjarlægðust hvor aðra, að gjá kynni að myndast milli þeirira við þessar nýstárlegu breytingar í skáldskaparmáli og ljóðformi. Áhyggjur hans voru því samfélagslegar ekki síður en persónulegar.

Hugleiðingar hans koma víða fram í ljóðunum. Frægt dæmi skal tekið:

Á þessari rímlausu skeggöld
þegar strútar stinga höfðinu niður í sprengisand
og mörgæsir fljúga gegnum nálaraugað
þegar kyrtilskrýddur fóðurmeistari
vélmjólkar aumingja búkollu gömlu
þegar barnið er framleitt í tilraunaglasi
þegar náðarmeðulin eru orðin togleður og hanastél
sálin þota hjartað kafbátur
hvernig skal þá ljóð kveða

… (Óljóð, bls. 131)

Auk „Háttalykils“ í fyrstu ljóðabók Jóhannesar ber að nefna bragleiki hans í Sjödægru, t.d. „Rauðsendingadans“, „Maður verður úti“, „Rímþjóð“ sem að formi minnir á „Ísland farsælda frón“ Jónasar og er afbrigði af klassískum bragahætti, „Ferskeytlur“, „Ísland í ljóðahætti“ og „Hún sló hörpu“ en tvö síðastnefndu kvæðin fylgja eddukvæðaháttum. Ýmislegt í Sjödægru virðist beinlínis vera nokkurs konar nýr umbyltur háttalykill. Um bragleikina í Sjödægru segir Halldór Guðmundsson að „hljómurinn er enn ofarlega í huga Jóhannesar“ (Halldór Guðmundsson, 1978).

Þegar hafa nokkur dæmi verið nefnd um innblásin kvæði og kvæði sem lýsa upptendrun og hugarsýnum skáldsins. Mælska og innblástur setja mjög greinilegt mark á mjög mörg kvæði Jóhannesar og auðvitað er mælskustíllinn, retóríski stíllinn, virkur þáttur í þessu. Til viðbótar fyrri dæmum má bæta þessum við: „Eiður vor“, „Kalt stríð“ í Sjödægru, og úr Óljóðum má nefna t.d. „Hrakningsrímur“. Mælsku og innblásturs verður einnig vart í ýmsum kvæðum þar sem lýst er vonbrigðum, efasemdum og vafa. Í Tregaslag eru t.d. kvæðin „Gral“, „Eftirvænting“ og „Þér snauðu menn“. Fleiri svipuð dæmi má nefna, ekki síður úr Ný og nið, síðustu ljóðabók skáldsins.

Í nokkrum skemmtilegustu kvæðum sínum vefur Jóhannes saman hagmælsku sína og skáldsnilld. Þessi kvæði eru mjög eftirtektarverð fyrir þá sök m.a. að í þeim setur hann hagmælskunni eiginlega engin mörk og afsannar þá kenningu að hagmælska og skáldskapur geti ekki vel farið saman. Frægt er kvæðið „Karl faðir minn“ í Ég læt sem ég sofi og nefna má „Í Getsemane“ í Mannssyninum og „Dagskipun Stalíns“ í Sól tér sortna. Í síðast nefnda kvæðinu eru þessar hendingar:

Og eins og bylgja um þennan hnött
hins þráða bræðralags
berst voldug skipun óskabarnsins,
– orð hins nýja dags:
Fram, félagar! Til sigurs fram !
Vor sókn er von þess manns
sem bíður enn í myrkri og hlekkjum!
Björgum lífi hans !

… (Sól tér sortna, bls. 58)

Og enn, eins og af handahófi, má minnast ljóðsins „Bernska“ í Tregaslag:

Dýrleg með
djásn við fót
döggvaðra
stráa
vappar um
vorsins land
vinan mín
smáa.

… (Tregaslagur, bls. 9)

Það er sérstaklega athyglisvert að hann víkur sjálfviljugur frá hefðbundnu ljóðformi og upptendruðum innblæstri þegar nýjar aðstæður vekja honum áður ótamar hugsanir. Hann hverfur frá því sem hann þekkir og ræður algerlega yfir með léttum yfirburðum – yfir í gersamlega nýjar og áður ókunnar aðferðir, hugsunartúlkun og stíl. Hann virðist sjálfur hafa tekið frumkvæði þegar hann fór að gera sér grein fyrir nýjum aðstæðum í framvindu mannlífsins. Og þetta var viðbragð við breyttum aðstæðum, sem endurspeglun ytri viðhorfa og þjónusta við stríðandi alþýðu.

Óskar Halldórsson hefur fjallað um ljóðstíl Jóhannesar og bent á hversu mælskur og „úthverfur“ hann var. Óskar nefnir einnig að stíll Jóhannesar verði retórískur og hann taki framförum í myndhverfingum og „sjónvídd“ og „sjóngleði nútímaljóðsins“. Óskar orðar það svo að „skáldið tekur að yrkja fyrir augað“, en eftir sem áður sé „hugblærinn“ á ljóðum Jóhannesar óbreyttur. (Óskar Halldórsson, 1975). Jóhannes úr Kötlum er góður fulltrúi skálda sem eru mælsk, innblásin, tendruð fullvissu eða sækja fast eftir fullvissu og eldmóði. Hann er í hópi með t.d. síra Matthíasi og Matthíasi Johannesen miklu fremur en t.d. Snorra Hjartarsyni, Hannesi Péturssyni eða Þorsteini frá Hamri. Aftur á móti er hann í hópi með Steini Steinar og Þorsteini frá Hamri að því leyti að verk hans einkennast af bragleikni, hefðbundinni hagmælsku ásamt formbyltingu, frjálsu ljóðformi og fjölbreytni í bragstíl.

Athyglisverð eru ummæli Jóhannesar sjálfs sem snerta þetta þótt óbeint sé. Í erindi 1959, sem áður er vitnað til, segir hann m.a.: „Leyfist mér … að láta þá skoðun mína þegar í ljós að ljóðlistin sé í eðli sínu ekki bundin neinum takmörkunum öðrum en þeim sem ófullkomleiki mannlegs tungutaks hlýtur ævinlega að setja. Ég tel hana hvorki þurfa að vera bundna háttum né hrynjandi ef hún þrátt fyrir það getur vakið þau sérstöku áhrif sem eru einkenni ljóðs – en svo örðugt er að skýra. Því fullkomnara sem ljóð er, því óskiljanlegra verður það. Þar með er alls ekki sagt að það þurfi að vera óskiljanlegt í venjulegri merkingu: það getur fjallað um fyrirbrigði, efnisleg eða andleg, sem hvert mannbarn kannast við og með svo einfaldri framsetningu sem verða má. Málið fer fyrst að vandast þegar spurt er: en hversvegna er þetta list? Í hinu fullkomnasta ljóði er tunga þjóðarinnar þanin til hins ítrasta: hún vegur þar salt á egginni milli hins segjanlega og hins ósegjanlega. Því meira af lífi hins ósegjanlega sem skáldinu tekst að blása í ljóð sitt, því dulmagnaðra og um leið óskilgreinanlegra verður það. … Í fögru ljóði verður upphafning tungunnar algerust. Og það virðist yfirleitt fljúga því hærra sem svigrúm þess er meira, hátturinn frjálsari. Raunin hefur ævinlega orðið sú að hvenær sem einhverjar ytri hömlur hafa sveigt að ljóðlistinni hefur vænghaf hennar jafnharðan minnkað og hún hneigzt til stagls og stöðnunar.“ (Vinaspegill, bls. 83-84)

Vl.
Finna má og skilgreina einn samstæðan kjarna í verki og hugmyndum Jóhannesar úr Kötlum. Eins og fram hefur komið er kjarninn þessi: Listin, ljóðið sem fórn og þjónusta, sem framlag eða vopn í baráttu. Skáldskapurinn hefur ekki aðeins eigið innra markmið eitt sér. Hann verður ekki aðeins metinn með eigin innri verðmætum eða gildum. Mestu varðar að hann þjóni mannlífinu og hugsjónum sem lúta að mannlífi, mennsku og líkn manna á meðal og verði aðstoð við þá sem minna mega sín.

Allnokkur kvæði Jóhannesar verða beinlínis talin kennslukvæði, dídaktísk, í boðun og framsetningu efnisins. Örn Ólafsson bendir á að „rökfærslubragur“ sé á mörgum kvæðanna og rekur í því efni kvæðið „Hvað nú, ungi maður?“ sem birtist fyrst í Rauðum pennum 1938 (Hart er í heimi 1939). Mörg þeirra dæma sem nefnd hafa verið hér framar eru í þessum stíl, a.m.k. að einhverju leyti. Segja mætti t.d. að Hrímhvíta móðir frá 1937 sé samfelld tilraun til að setja fram skipulega söguskoðun um íslenska sögu í sósíalískum byltingarsinnuðum anda og Mannssonurinn, sem er frá svipuðum tíma þótt ekki yrði gefinn út fyrr en síðar, er að sínu leyti einnig tilraun til að setja fram eða kenna tiltekin ákvörðuð sjónarmið á sviði trúmálanna. Að því leyti minnir hann jafnvel á samfellda og samstæða ljóðkennslu séra Hallgríms Péturssonar þótt með ólíkum hætti sé. Fróðlegt er að lesa að Jóhannes segir sjálfur í blaðaviðtali við útkomu Hrímhvítu móður að hann hafi valið bragarhætti „til þess að allt mætti verða sem ljósast og aðgengilegast almennum lesanda“ (Vitnað eftir Erni Ólafssyni, 1990, bls. 126). Og áður var Sjödægra nefnd sem nokkurs konar umbyltur háttalykill.

Í verkum Jóhannesar birtist aftur og aftur lykilorðið: „alþýðan“. Baráttukvæði eru reyndar svo mörg í bókum Jóhannesar að nær er að telja þau kvæði sem ekki snerta hugsjónir á einhvern hátt. Mörg þeirra dæma sem þegar hafa verið nefnd fela í sér lykilorðið „alþýða“ en til viðbótar þeim má nefna í Hrímhvítu móður „Þegnar þagnarinnar“ og „Mitt fólk“ í Hart er í heimi. Enn má nefna „Systir alþýða“ í Eilífðar smáblóm, og „Lofsöngur um þá hógværu“ í Sjödægru.

Systir mín, Alþýða! sárt finnst mér enn
að sjá þína nöktu, blóðugu mynd,
er berst þú af grimmd fyrir gullsins menn,
– ó guð í himninum, hvað þú ert blind!

Ég elska þig, systir, eins og það lamb,
sem í einfeldni sinni er til slátrunar leitt.

(Eilífðar smáblóm, bls. 86)

Ekkert veit ég yndislegra en fólk:
það fólk sem skarar í eld hampar barni raular stöku
rúmhelginnar fólk með jól og páska í augnaráðinu
alþýðufólkið með allan sinn höfðingskap

… (Sjödægra, bls. 84)

Í erindi árið 1960, sem áður er vitnað til, segir Jóhannes m.a. : „Það væri synd að segja að nú sé hörgull á stórkostlegum yrkisefnum sem kalla á þrotlausar tilraunir í formi. En hið æðsta gildi skáldskapar hefur aldrei verið fólgið í dýrleika hringhendu né dulmáli atómljóðs, heldur þeim ævarandi tilgangi að bjarga manninum frá andlegri tortímingu.“ (Vinaspegill, bls. 211) Þessi afstaða Jóhannesar sést einnig neikvætt á því hversu vonbrigði, efasemdir og ótti um samtíð og framtíð verða áleitin í ljóðum hans þegar líður á ævina. Njörður P. Njarðvík minnir á þetta og að smám saman hafi „óþol yfir seinagangi og uppgjöf“ komið fram í ljóðunum. (Njörður P. Njarðvík, 1978).

Við ber að Jóhannes tjáir þetta í kankvíslegum tóni:


nú dönsum vér ekki lengur skottís í gúttó
né heldur foxtrott í iðnó
nei nú spilum vér bingó
rokkum við skvísur í lidó
drekkum púrtara frá frankó
hyllum belgana í kongó
gefum frat í kastró
eflum varnirnar í nató

… (Óljóð, bls. 140)

Framar í þessu lesmáli hefur verið reynt að gera grein fyrir því hvernig innihald og boðskapur tengist ljóðformi og stíl í verkum Jóhannesar. Þetta fellur yfirleitt vel saman í órofa heild og í því sést einmitt snilld skáldsins meðal annars. Áður var líka vikið að umræðum um fagurfræði og hlutverk skáldskapar í samtíma Jóhannesar. Afstaða hans var ævinlega alveg skýr. Hann gekk aldrei í lið með höfundum sem lögðu áherslu á „sjálfstæði“ listarinnar gagnvart samfélagsmálunum. Hann stóð til hliðar frá Sigfúsi Daðasyni og Birtingsmönnum í umræðunum svo að dæmi séu nefnd. Um þetta má margt lesa í endurminningum Jóns Óskars. Í raun og veru var Jóhannes í flokki með Guðmundi G. Hagalín, Jónasi Jónssyni og Jónasi Árnasyni í þeim umræðum sem urðu t.d. um og upp úr 1950 um hlutverk skáldskaparins, um tengsl skáldskapar og siðfræði og um tengsl skáldskapar við stjórnmálabaráttuna. Þótt þeir stæðu á öndverðum meiði, Jónas Jónsson frá Hriflu og Kristinn E. Andrésson, bar þeim að miklu leyti saman um gildi og áhrif skáldskapar og lista og um „skyldu“ skálda og listamanna til að leggja fram „skerf í baráttunni“. Í þessu efni kemur fagurfræði séra Matthíasar upp í hugann og ekki síður samherjanna Þorsteins Erlingssonar og Stephans G. Stephanssonar.

En Jóhannes hefur sérstöðu meðal þeirra sem lögðu áherslu á siðferðilegt hlutverk listarinnar og skyldur skálda og listamanna við samfélagið. Hann var miklu umburðarlyndari og tillitssamari en margir í þeim hópi. Hann tók öllum tilraunum annarra opnum huga og reyndi að setja sig sem best í spor margra þeirra rithöfunda og skálda sem ekki voru á sama máli og hann sjálfur. Hér var áður vitnað til þeirra orða hans að ekkert í mannlegri tilveru sé listinni óviðkomandi. Í erindi á bókmenntakynningu árið 1960 vitnar Jóhannes til nokkurra ungra skálda. Þar segir hann m.a.: „Hvernig á þá íslenzkt nútímaljóð að vera, ekki einungis til þess að geta talizt fullgild list, heldur líka frjóvgari nýrrar alþýðumenningar og hlutgengt blóm í hinum veðrasama garði heimsmenningarinnar?“ (Vinaspegill, bls.208). Síðar í sama erindi segir hann: „En er það ekki keppikefli hvers einasta skálds að ná sambandi við mannssálir og mannshjörtu? Og eigi maðurinn á annað borð sjónskerpuna, skynjunina, sköpunarmáttinn sem gerir hann að skáldi – er þá ekki hjartaþelið sá rauði þráður sem bezt leiðir galdur ljóðsins inn í vitund annarra manna?“ (Vinaspegill, bls. 211). Jóhannes slær hvergi af skoðunum eða kröfum sínum, en hann lastar ekki aðra fyrir önnur sjónarmið og hann gerir ekki lítið úr vanda og viðhorfum ungu skáldanna. Þvert á móti setur hann sig í spor þeirra og rökstyður málstað þeirra á ýmsa lund í þessu erindi og víðar. Í ólíkum sjónarmiðum og bókmenntastraumum sá hann nefnilega vitnisburð um einlæga viðleitni til að mæta breytingum mannfélagsins, endurspegla þær og hafa áhrif á framvinduna.

Guðni Elísson hefur lýst samhengi og þróun í ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum. Hann segir m.a.: „Ef eitthvað er, verður byltinga- og baráttukveðskapur Jóhannesar dýpri og margræðari eftir því sem á líður eða með Sjödægru og þeim bókum sem henni fylgdu“ (Guðni Elísson, 1986). Og Halldór Guðmundsson telur einnig að Jóhannes hafi ævinlega varðveitt og ræktað kjarna fyrri sjónarmiða og ekki gengið til fulls til liðs við módernísk viðhorf. Halldór víkur að gagnrýni Einars Braga um Sjödægru í Birtingi en þar hafði komið fram að Jóhannes yrkir ekki „hrein nútímaljóð“ og heldur áfram að skírskota út fyrir ljóðin til mannfélags og ytri aðstæðna. Væri fróðlegt að bera gagnrýni Einars Braga saman við umfjöllun Bjarna Benediktssonar frá Hofteigi. Halldór Guðmundsson kemst m.a. svo að orði: „Afdráttarlausri sannfæringu sinni um gildi þjóðlegra verðmæta og bændamenningarinnar deilir Jóhannes ekki með módernistum hinna stærri þjóða, gildiskreppa hans er önnur en þeirra“ (Halldór Guðmundsson, 1978). Jóhann Hjálmarsson kemst að sömu niðurstöðu, að Jóhannes hafi verið hefðbundið skáld og um leið gert þróttmiklar tilraunir til að finna listinni nýjan farveg (Jóhann Hjálmarsson, 1971).

Niðurstaða þessara hugleiðinga verður sú að Jóhannes varð aldrei heilshugar módernisti. Hann hvorki vildi né gat nokkru sinni sætt sig við firringu, tómleika og það tilgangsleysi sem gjarna hefur þótt fylgja viðhorfum módernistanna. Hann vildi ekki og gat aldrei sleppt þeirri hugsun að skáldskapurinn hefði – eða ætti að hafa – samfélagslegt og siðferðilegt gildi og áhrif. Og hann vildi aldrei slíta sig frá hugmyndum og skoðunum sem voru annars vegar þjóðlegar og alþýðlegar og hins vegar mótaðar af sósíalisma og róttækni í stjórnmálum. Marxistar álitu að djúpstæður eðlismunur væri á uppreist og byltingu. Jóhannes varð aldrei uppreistarmaður eða stjórnleysingi og tómhyggjumaður heldur allt til síðasta byltingarsinnaður hugsjónamaður. Í kvæðinu „Ég finn ég verð“ segir hann:


ég finn ég verð – ég finn ég verð að springa
og fæða af nýju alla veröld mína.

(Tregaslagur, bls. 14)

Í lokaorðum í umfjöllun um Jóhannes í bókmenntasögu sinni segir Kristinn E. Andrésson: „Hann er framar öllu hugsjónaskáld … Í ljóðum hans felst einarðleg skírskotun til samtíðarinnar, þau eru tjáning brennandi áhugamála og sannfæringar“ (Kristinn E. Andrésson, 1949). Og Örn Ólafsson segir: „Öllum stefnusveiflum kommúnista tekst Jóhannesi að fylgja í ljóðagerð, þótt stundum komi í hann ólund vegna málamiðlana … hitt er merkilegra, að hann skuli yrkja góð ljóð eftir hverri stefnu“ (Örn Ólafsson, 1990, bls. 125). Nú geta menn hæglega haldið því fram að marxísk viðhorf til bókmennta og lista séu liðin tíð, ekki aðeins úrelt heldur beinlínis röng, skaðleg eða misskilningur frá upphafi. En hinu verður ekki neitað að þessi sjónarmið höfðu mótandi áhrif á Jóhannes úr Kötlum. Kveðskapur hans er lifandi og markvert vitni um „sósíalrealisma“ eftir því sem slíkt á beinlínis við í ljóðum, um skáldskap sem innblásna kennsluboðun og sem „endurspeglun“ eða viðbragð við breytingum í mannfélagslegum kjörum. Og Jóhannes úr Kötlum iðkaði sjálfur það sem hann boðaði. Með kveðskap sínum færði hann innilega fórn hugsjónum sem hann taldi háleitar. Hann er heilsteyptur og sannur í gegn og stenst sjálfur það próf sem hann hefur sett. Þess vegna getur hugblærinn í verkum hans verið einlægni og heiðríkja. Einlægni og heiðríkja eru þá einnig meginþættir í arfinum sem Jóhannes skildi eftir sig. Eins og hann sagði sjálfur er hjartaþelið rauði þráðurinn.

Persónuleg minning um Jóhannes úr Kötlum
Til viðbótar því lesmáli sem hér er framar um ljóðskáldið Jóhannes úr Kötlum, lífsviðhorf hans og viðhorf til skáldskaparins langar mig að fara nokkrum orðum um þjóðfélags- og stjórnmálaskoðanir hans, en þær skipta augljóslega miklu í skáldskap hans og lífsferli. Mér þykir þetta þeim mun brýnna sem nú hefur kynslóð vaxið upp sem á að ýmsu leyti erfitt með að skilja kreppukommana og sósíalistana á fyrstu árum lýðveldisins. Það hefur svo margt breyst og á svo róttækan hátt að fólki er vorkunn.

Ég átti þess kost að kynnast Jóhannesi nokkuð og einstakt tækifæri fékk ég af tilviljun til að hlusta á hann góða stund lýsa andlegri þróun sinni, baráttu og hugsjónum. Kynni okkar Jóhannesar tókust með þeim hætti að við störfuðum báðir að Laugavegi 18 í Reykjavík, ég hjá Máli og menningu og hann á skrifstofu í húsinu. Um þessar mundir var ég að ljúka BA-prófi í Háskóla Íslands og hafði sest undir árar hjá þeim Kristni E. Andréssyni og Sigfúsi Daðasyni sem starfsmaður bókaútgáfunnar eftir að þeir tóku prófritgerð mína í íslenskum bókmenntum til birtingar í Tímariti Máls og Menningar.

Jóhannes stóð rétt á sjötugu þegar hér var komið sögu, fæddur síðla árs 1899. Hann lést 1972.

Starfsmenn Máls og menningar, forlagsins og verslunarinnar, mynduðu þéttan hóp og var liðsandi mjög góður. Margir aðrir starfsmenn í húsinu voru kunningjar til langs tíma og talsverð samskipti milli hæða. Jóhannes var hvers manns hugljúfi í allri viðkynningu. Dagfar hans var rólegt, vinsamlegt og hlýtt. Hann var ræðinn og fyndinn og ævinlega til í gamanmál. Hann var afskaplega vel látinn og vinsæll. Hann hafði auðvitað haft tengsl við Mál og menningu og starfsmenn fyrirtækisins um langt árabil og var tekinn sem einn úr hópnum og leit þannig á sig sjálfur, að ég held.

Jóhannes átti sem kunnugt er ótrúlega létt um að yrkja og kasta fram stöku. Kom það oft fyrir. Fræg var vísa hans um eina konuna í hópnum:

Yndisleg er Ester
einkum þegar hún sest er,
fallegt á henni flest er
en framhliðin þó best er.

Jóhannes var reyndar ekki vel á sig kominn þegar hér var komið sögu. Hann þjáðist mjög vegna nýrnanna og þurfti að fara upp á Landspítala nokkrum sinnum í viku hverri í einhvers konar blóðskiljuvél. Ég varð var við að þetta hafði áhrif á hann og dró hann niður.

Ekki er að undra að félagslífið var fjörugt á þessum vinnustað í jólaösinni. Um þær mundir bar marga að garði sem boðið var kaffi og rætt var við umfram eiginleg bókabúðarviðskipti. Reyndar var það svo að í kringum Mál og menningu var jafnan sveimur bókamanna og menntamanna sem gerði sér leið þangað inn, og þá var ævinlega eitthvað rætt um heimsins og landsins gagn og nauðsynjar. Þarna var háskóli fyrir unga og forvitna menn. Mér finnst að Kristinn hafi á þessum tíma ekki tekið eins mikinn þátt í þessu og Sigfús gerði, en báðir settu þeir svip á samfélagið, svo ólíkir sem þeir voru. Ásamt þeim setti Einar, bróðir Kristins, mark sitt á hópinn. Ég var mest í verkum hjá Sigfúsi og einhvern veginn náðum við vel saman. Tíminn hjá Sigfúsi varð mér ómetanlegt framhaldsnám í bókmenntafræði og menningarsögu.

Það sem hér fer á eftir er ritað eftir minni, frá því um jól 1969. Nokkru eftir samtal okkar tók ég efnisatriðin saman mér til upprifjunar og lærdóms. En endursögn mín nú er alveg á mína ábyrgð, og ég mun ekki setja ummæli Jóhannesar í tilvitnunarmerki nema um sé að ræða orð og setningar sem greyptust strax í huga minn. Annað sem haft verður eftir Jóhannesi hér er tilraun til að tjá hugsun hans eins og hann birti mér hana.

Einhverju sinni er það í jólaösinni að hópurinn situr að kvöldkaffinu. Ég var ekki bundinn í afgreiðslunni þar eð ég vann á lagernum og sá um pantanir og útsendingar. Þegar aðrir hurfu til sinna starfa atvikaðist það svo að við Jóhannes urðum tveir eftir. Þarna höfðu orðið talsverðar umræður sem fyrri daginn um þjóðfélagsmálin. Rætt var um ný og róttæk viðhorf. Yngra fólkið hélt þeim fast fram en þeir eldri andmæltu. Þetta voru skemmtilegar umræður en þarna mættust þeir sem voru að mótast sem róttæklingar í lok sjöunda áratugarins og hinir sem höfðu sannfærst um mikilvægi sósíalismans áður. Þeir eldri sögðu óhikað að ungu róttæklingarnir væru stjórnleysingjar og skólagengin dekurbörn borgarastéttarinnar og þeir yngri töldu gamlingjana hlýðnispaka hálfstalínista eða staðnaða þjóðernissmáborgara. Ég tók þátt í umræðunum en var reikandi á milli fylkinganna sem endranær á þessum tíma.

Sem við sitjum þarna tveir eftir fer ég að spyrja Jóhannes nánara um hans eigin sjónarmið. Það var altalað hvílíkt áfall uppljóstranirnar um voðaverkin í Ráðstjórnarríkjunum urðu honum og var sagt að þá hafi félagar hans sest að honum kvöld eftir kvöld til þess að fá hann til að herða upp hugann og koma í veg fyrir að hann véki alveg af leið. Einar Olgeirsson hafði sagt frá þessu svo að ég heyrði. Ég vissi líka vel um afstöðu hans til innrásar Rússa í Ungverjaland, til tékkneska vorsins og til innrásar Varsjárbandalagsins í Tékkóslóvakíu.

Þar kemur talinu að ég spyr sem svo: „Já, en hvað var það eiginlega sem klikkaði í þessu ? Hvað var það sem brást og hvenær gerðist það ?“

Jóhannes svaraði alveg viðstöðulaust eins og hann hefði fyrir löngu komist að niðurstöðu: „Hugsjónir okkar brugðust ekki í sjálfu sér. Alþýðan brást. Þegar að því kom að alþýðan gat valið um kosti, þá valdi hún efnaleg gæði og lífsþægindi hér og nú en afneitaði hugsjónunum um framtíðarlandið. Þetta er í hnotskurn það sem gerðist.“

Og Jóhannes hélt áfram og gerði rækilega grein fyrir lífsviðhorfum sínum og þeirrar kynslóðar sem hann mótaðist af.

— — —

Það fyrsta sem Jóhannes nefndi var það sem hann kallaði “grundvöllinn undir hugsjónum okkar”. Það hafði ekki verið aðeins skortur efnalegra gæða sem ýtti á Jóhannes og félaga hans, heldur miklu fremur ósanngjörn skipting þeirra og ósanngjarnt viðhorf manna til almúgans og þeirra vandamála sem alþýðuheimilin voru að berjast við. Það hafði þótt sjálfsagt að kenna fátæklingunum sjálfum um fátæktina; hún stafaði af óráðsíu þeirra sjálfra og ábyrgðarleysi, ef ekki af einhverjum siðferðisbresti sem þeir gætu kennt sjálfum sér um. Jóhannesi og félögum hans sárnaði þetta og blóðið sauð í þeim „við að heyra þessi hindurvitni.“

Í raun og veru höfðu Jóhannes og félagar engan áhuga haft á því að almenningur færi að vaða í lífsþægindum. Þeir höfðu engan áhuga á tækniframförum og í rauninni afarlítið vit eða þekkingu á slíkum hlutum að sögn Jóhannesar. Hann sagðist telja að flestir þeirra hafi lítið hugsað um slíka hluti yfirleitt. Þeir höfðu ekki áhuga á framleiðsluaukningu umfram grundvallarþarfir til lífs og menningar eins og þeir skildu þá hluti, og Jóhannes sagðist telja það „frumstæðan skilning á við það sem nú tíðkast.“

Viðhorf þeirra félaganna til verkaskiptingar í þjóðfélaginu voru andstæð því sem nú tíðkast. Þeim þótti lítil vegsemd í sérhæfingu um fram grófustu drætti. Verslun átti að þjóna fólkinu en ekki öðlast eigið vægi eða sjálfstæði sem sérstakur atvinnuvegur með vald og áhrif. Sjálfsnægtabúskapurinn til sveita og þorpa átti að þróast til samvinnu og samyrkju. Þessi sjónarmið voru alveg miðuð við eiginlegar framleiðslugreinar, en verslunin átti aðeins að þjóna. Verslun og þjónusta átti alls ekki að skipa sjálfstæðan sess. Slíkt töldu þeir „brask, arðrán og afætulifnað.“

Það þýddi lítið að tala um frjálsan markað eða frjálsa samkeppni í hópi þeirra samherjanna. Þeir höfðu ekki þekkt neinn frjálsan markað eða það vöruúrval og kaupmátt sem gæti verið vettvangur samkeppni sem máli skipti fyrir alþýðuheimilin. Í þeirra augum hefði það verið nóg ef til væru sæmilegar matvörur og aðrar nauðþurftir á einhverju því verði sem almenningur gæti ráðið við. Og til að geta verslað yfirleitt þurftu menn að hafa launaða vinnu, og það höfðu alls ekki allir á þessum tíma. Frjáls markaður var í þeirra augum fagurgali til að blekkja almenning. Markaður og samkeppni var ódýr háðsyrði um lífsafkomu alþýðunnar. Þessi „svokallaði frjálsi markaður var arðránstæki“ því að þar var almenningi skammtað naumt. Markaður þar sem almennur skortur ríkir var skömmtunarvél fyrir þá sem eitthvað áttu.

Jóhannes sagði að gott dæmi um hugsunarháttinn hafi verið ráðandi hugmyndir um viðbrögð við kreppu. Þá höfðu einu úrræðin verið að spara, hokra, skera niður, draga úr, og lifa við sjálfsnægtir. Það hafði verið ráðandi á Íslandi á kreppuárunum að menn ættu að reyna að búa að sínu. Þá var mest um vert að fá jarðnæði, rollu og garðholu, eða þá bátskel. Þá urðu menn að bjarga sér sjálfir eða með samvinnu. Það voru einu úrræðin, að hverfa aftur til fyrri atvinnuhátta til að bregðast við kreppunni. Þessu höfðu flestir trúað, þar á meðal verkalýðsforingjarnir.

Jóhannes sagði að margir hefðu hugsað sem svo: Það er atvinnuleysi og kreppa. Það er auðvaldskerfinu að kenna. Þess vegna verður að umbylta því í átt til sósíalisma. Jóhannesi þóttu þessi rök sannfærandi, meðfram vegna þess að fyrir honum vakti þjóðleg samkennd og áhersla á mannúð og menningu fyrir alþýðuna.

Á þessum sama tíma sáu menn svo svörtu og brúnu hættuna, voðann sem öllum þjóðum stafaði af fasisma og nasisma, með þeim hörmungum, hrottaskap og niðurlægingu sem fylgdi. Jóhannes sagði að þeim félögunum hefðu þótt að hin svo nefndu lýðræðisöfl, jafnt til hægri sem jafnaðarmenn, væru mjög aðgerðalaus gegn kreppunni og fasismanum.

„Ég var nú oft kallaður rómantískur, náttúrubarn og hugaróraskáld,“ sagði Jóhannes. Honum hafði þótt margt gott við naum kjör í náttúrulegum lifnaðarháttum í skauti lands og sjávar þótt hann sæi að fátæktin og neyðin væri fylgifiskur ranglætis og þessa frumstæða hagkerfis sem kommúnistarnir vildu losna við. En þeir höfðu haldið að allsnægtaþjóðfélagið yrði allt öðruvísi en nú er orðið og það var hluti af framtíðarsýn kommúnismans.

Jóhannes lagði áherslu á að enginn gæti nú skilið hvað í því fólst að vera niðursetningur, að þiggja af sveit, að verða gamall eða verða fyrir slysi við þær aðstæður sem réðu á kreppuárunum. Og enginn gæti heldur skilið hvað það var að vera jarðnæðislaus bóndasonur með fjölskyldudrauma, eða fáæklingar með ómegð í bæjunum þar sem ekki fékkst mjólk fyrir börnin.

Hann minnti á að á þessum tíma voru málefni atvinnulífsins ekki málefni þjóðarinnar heldur jafn innileg og heilög einkamál eigendanna eins og sjálft fjölskyldulíf þeirra. Kommúnistarnir höfðu ekki alltaf verið að hugsa um mikla framleiðsluaukningu, heldur einfaldlega um að minnka þann auðsjáanlega reginmun sem var á lífskjörum örfárra og fátækt alls fjöldans. Þeir vildu ekki samþykkja hugmyndir sem þá voru almennt viðurkenndar um eðlislægan mismun á mönnum þar sem sumir áttu rétt og eðli til þess að hafa það gott en aðrir ekki. Þeir höfðu verið sannfærðir um að fátækt margra væri ekki persónuleg mistök eða sök fátæklinganna, og reyndar ekki heldur aðeins persónuleg ábyrgð þeirra ríku, heldur sameiginlegt vandamál allra.

„Ég segi að eiginlega hafi það verið alþýðan sem brást,“ sagði Jóhannes, „vegna þess að þegar nýjar aðstæður, framleiðsluaukning og tækni fóru að birtast og móta mannlífið, þá hætti alþýðan alveg að sjá sjálfa sig og hagsmuni sína í því ljósi sem áður hafði verið.“ Þetta hafði allt farið að breytast þegar heimilin gátu farið að velja um matvörur, eiga föt til skiptanna og kaupa sér spariföt, og fólk sá fram á verkamannabústaði og byggingarsamvinnufélög. Sama hafði orðið uppi á teningnum þegar framaleiðir og menntaleiðir opnuðust. Þá hafði alþýðan farið að sjá sjálfa sig og börnin sín í nýju ljósi. Þá var ekki lengur áhugi á því að leggjast á eitt í framtíðarróðri. Fólkið hafði séð lífsgæðin og þægindin rétt fyrir framan sig og vildi fá að njóta þeirra strax. „Auðvitað er ekki hægt að áfellast neinn fyrir þetta,“ sagði hann. „Samt finnst mér eiginlega að með þessu öllu hafi alþýðan leiðst afvega, og þótt mikið hafi áunnist þá hafi mikið glatast eða gleymst um leið.“

Þessi þróun hafði komið öllum að óvörum að mati Jóhannesar. Tæknin, framleiðsluaukningin, þjónustuþróunin, samgöngur, íbúðarhúsnæði, heimilistæki og allar þessar jarðnesku eigur, „allur þessi umsnúningur allra verðmæta,“ eins og Jóhannes orðaði það, þetta hafði allt komið óvænt og umsneri sköpunarverkinu gersamlega. Frammi fyrir þessu hafði alþýðan misst áhuga á því sem áður hafði verið baráttumál og hugsjónir. Sjálfsmynd hennar ruglaðist alveg. „Í þessu er atómtíminn,” sagði Jóhannes.

Hann hafði miklar efasemdir um það sem komið hafði með allsnægtunum og velsældinni. Með þeim hefðu komið firring, streita, rusl, mengun, röskun í náttúru og samfélagi, vaxandi stéttaskipting, efnishyggja og þægindatrú. Þrátt fyrir allt það góða og ánægjulega sem vissulega hafði gerst, vildi hann benda á að samfélagið og mannlífið einkennist líka af óráði, ofneyslu, náttúruspjöllum og rányrkju, og af skammsýni og heimtufrekju um alla hluti, og hann bætti við „af virðingarleysi við margt það sem mér var ungum kennt að meta og virða, fara varlega með og sparlega.“ Hann sagðist sjá þetta þannig að efnahagskerfið núna byggðist alveg á því „að ala á sérhagsmunapoti, á sjálfselsku og tillitsleysi.“

Jóhannes lagði á það áherslu að „hugsjónir okkar stefndu að allt öðru.” Þær hefðu ekki verið háðar ofhlæði veraldlegra hluta. Hugsjónir Jóhannesar og félaga hans um jöfnuð og réttlæti í ráðstjórnar- og samyrkjukerfi hefðu í rauninni ekki brugðist, „heldur þokuðust þær til hliðar,” sagði hann. Þær hefðu gleymst „úti í horni.“ Þær höfðu miðað að samhjálp og samstöðu en alls ekki að þeirri einkaneyslu og samkeppni allra gegn öllum og ásókn í nýjabrum og tísku sem síðar ruddu sér til rúms. Þegar nýjar leiðir opnuðust til að framleiða óendanlegt magn af öllum hlutum, þá hefði mátt segja að flestum hafi þótt þessar hugsjónir óþarfar og úreltar.

Þegar Jóhannes fékk fréttirnar um ógnarverkin á Stalínstímanum og síðar frá Ungverjalandi og enn síðar frá Bæheimi féll honum allur ketill í eld. Í fyrstu vissi hann ekki sitt rjúkandi ráð. Þegar frá leið sá hann að „það var hægt að átta sig á þessum atburðum. Það var hægt að skilgreina þá og skilja hvað hafði gerst,” eins og hann orðaði það. Síðan hefði á þeim grundvelli verið hægt að berjast gegn þeim, fordæma þá, vara við þeim og benda til réttari vegar. En það hefði ekki verið nein leið að brjótast gegn strauminum þegar sjálfsmynd og hugarheimur alþýðunnar fóru að breytast. Það hafði kollvarpað allri þessari viðleitni.

Undir lokið sagði Jóhannes:

Við vorum einlægir og okkur fannst þetta fjarskalega einfalt. Og það er svo fjarri sanni sem nokkuð getur verið að í hugarheimi okkar hafi verið gert ráð fyrir leynilögreglu, andlegri kúgun, þrælabúðum eða misþyrmingum. Það var þvert á móti liður í andstöðunni gegn fasisma og nasisma að berjast gegn slíku. Mig svíður afskaplega undan ásökunum um þetta.

Svo mörg voru þau orð eins og þau hafa lifað og vakað í minningunni. Ég ítreka að þetta er skráð eftir minni. Aftur á móti á þessi framsetning að lýsa máli Jóhannesar þessa kvöldstund einnig í því að hann talaði óundirbúið og hafði því ekki raðað efninu í rökvíslega skipulagða kafla. Löngu síðar las ég frásögn Jóns Óskars af mjög líku samtali sem hann hafði átt við Jóhannes um svipað leyti og þar koma sams konar hugleiðingar skáldsins fram (Jón Óskar, 1979, bls. 291 – 293). Reyndar má greina frjókorn þeirra í ræðu sem hann flutti á fundi með ungu fólki árið 1955 (Vinaspegill, bls. 245 – 255). Ég hef borið þessa frásögn undir Önnu Einarsdóttur sem var í samstarfsmannahópnum.

Jóhannes lýsti ráðandi hugmyndum á þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Þá voru hugmyndir um hagvöxt og framleiðsluaukningu ekki með þeim hætti sem síðar hefur orðið, og yfirleitt höfðu menn ekki skilning á hagvexti, einkennum hans, möguleikum eða vandamálum. Hagvöxtur einkennist í fyrstu af mikilli samþjöppun fjármagns á fáar hendur og virðist því mesta ranglæti áður en fjármagninu er aftur veitt út til fjárfestingar og atvinnusköpunar. Framan af virðist þessi samþjöppun alls ekki tengd neinum möguleikum til almennra framfara, nema síður sé.

Hann lýsti einnig ráðandi hugmyndum um að allt samfélagslegt og viðskiptalegt verðmæti ætti uppruna sinn í vinnu og starfi mannlegs hugar og handa. Vinnuvirðiskenningarnar litu ekki á óáþreifanleg verðmæti eins og t.d. viðskiptavild eða verðlag sem miðast við fágæti eða eftirspurn eina saman. Í samræmi við þessar hugmyndir var sú trú t.d. að þróun gæti aðeins orðið við ákvörðun eigenda eða valdhafa um ráðstöfun þekktra verðmæta sem liggja fyrir. Menn væru ævinlega að skipta á milli sín því sem fyrir lá en ekki að auka heildarmagnið öllum til hagsbóta.

Almennt trúðu menn á það að kreppa hlyti að valda samfélagslegu hruni. Kreppa og fjöldaatvinnuleysi lýsti slíkum klofningi og andstæðum í samfélaginu að byggingin hlyti að hrynja öll til grunna. Þetta átti rætur í alþekktum hagfræðikenningum sem John M. Keynes kollvarpaði síðar á fjórða áratugnum.

Grundvöllurinn undir lífsviðhorfum Jóhannesar er um leið lykillinn að „misskilningi“ hans og vonbrigðum. Kjarninn í hugarheimi Jóhannesar var einlæg þjóðleg og alþýðleg mannúðarstefna. Hún liggur til grundvallar öllum öðrum ályktunum og skoðunum hans. Forsendur hennar eru margvíslegar. Meðal annars miðast hún við tiltölulega frumstætt mannlíf í skauti náttúrunnar, lágt verktæknistig og sjálfsnægtabúskap. Samfélagið miðast þá ekki við örar breytingar, tískustrauma eða vöxt og aukningu allra hluta, heldur miklu fremur við mjög takmarkaða möguleika og jafnvel skort.

Hugmyndir Jóhannesar höfðu auðvitað alls enga tengingu við nútíma-neysluþjóðfélag. Neysluþjóðfélagið var jafn lagt frá þessum hugarheimi eins og það er fjarlægt bæði hefðbundnum kapítalisma og kennisetningum kommúnismans. Það hefur mörgum gleymst á seinni árum að neysluþjóðfélagið sem við lifum í nú er álíka ólíkt og fjarlægt hugarheimi kapítalista á fyrri árum aldarinnar yfirleitt eins og það er andstætt viðhorfum gamalla kommúnista.

Ég vona að þessi frásögn sé sannleikanum samkvæm eftir því sem minni mitt leyfir eftir svo langan tíma. Og ég vona að frásögnin varpi ljósi á hugarheim Jóhannesar úr Kötlum.

Nokkrar heimildir sem stuðst er við:

  1. Jóhannes úr Kötlum. 1972-1976. Ljóðasafn I – VIII. Rvík, Heimskringla. (Umsjón: Sigfús Daðason).
  2. Jóhannes úr Kötlum. 1965. Vinaspegill. Rvík, Heimskringla. (Umsjón: Kristinn E. Andrésson).
  3. Árni Sigurjónsson. 1986. Laxness og þjóðlífið. Bókmenntir og bókmenntakenningar á árunum milli stríða. Rvík, Vaka-Helgafell.
  4. Bjarni Benediktsson frá Hofteigi. 1971. Bókmenntagreinar. Rvík, Heimskringla.
  5. Eysteinn Þorvaldsson. 1971. “Könnun Sjödægru.” Mímir. Rvík.
  6. Eysteinn Þorvaldsson. 1980. Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Rvík, Hið ísl. bókmenntafél.
  7. Guðni Elísson. 1986. “Ljóðagerð Jóhannesar úr Kötlum.” Mímir. Rvík.
  8. Halldór Guðmundsson. 1978. “Sjödægra, módernisminn og syndafall Íslendinga.” Svart á hvítu. Rvík.
  9. Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson. 1973.Skáldatal I-II. Rvík, Bókaútg. Menningarsj.
  10. Heimir Pálsson. 1982. Straumar og stefnur í íslenskum bókmenntum frá 1550. (2. útg. endursk. og breytt). Rvík, Iðunn.
  11. Heimir Pálsson. 1998. Sögur, ljóð og líf. Íslenskar bókmenntir á tuttugustu öld. Rvík, Vaka-Helgafell.
  12. Jóhann Hjálmarsson. 1971. Íslenzk nútímaljóðlist. Rvík, Alm. Bókafélagið.
  13. Jón Óskar. 1969. Fundnir snillingar. Rvík, Iðunn.
  14. Jón Óskar. 1979. Týndir snillingar. Rvík, Iðunn.
  15. Kristinn E. Andrésson. 1949. Íslenskar nútímabókmenntir 1918 – 1948. Rvík, MM.
  16. Kristinn E. Andrésson. 1965. “Inngangsorð.” Jóhannes úr Kötlum: Vinaspegill. Rvík, Heimskringla.
  17. Kristinn E. Andrésson. 1971. Enginn er eyland. Tímar rauðra penna. Rvík, MM.
  18. Njörður P. Njarðvík. 1978. “Vort er ríkið. Fáein orð um baráttuljóð Jóhannesar úr Kötlum.” TMM. Rvík.
  19. Óskar Halldórsson. 1975. „Hvernig skal þá ljóð kveða?“. TMM. Rvík.
  20. Sveinn Skorri Höskuldsson. 1970. Að yrkja á atómöld. Rvík, Helgafell.
  21. Sveinn Skorri Höskuldsson. 1978. “Með barnsins trygga hjarta…. Nokkrar hugleiðingar um bókmenntalega stöðu Jóhannesar úr Kötlum.” TMM. Rvík.
  22. Örn Ólafsson. 1990. Rauðu pennarnir: bókmenntahreyfing á 2. fjórðungi 20. aldar. Rvík, MM.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson er rithöfundur, sagnfræðingur, íslenskufræðingur og rekstrarhagfræðingur svo eitthvað sé talið upp. Hann er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og einnig gegndi hann embætti bankastjóra í Seðlabanka Íslands frá 2003–2006.

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þorvaldur Örn Kristmundsson er margverðlaunaður fréttaljósmyndari og starfaði um árabil á DV og Morgunblaðinu.

Greinin birtist áður í 4. hefti tímarits Máls og menningar árið 1999.

Tilvísanir

   [ + ]

1. Bí bí og blaka, bls. 11
2. Bí bí og blaka, bls. 40
3. Óljóð, bls. 207
4. Ný og nið, bls. 189
| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2025