Hugleiðing á hundrað ára afmæli Jóhannesar úr Kötlum
Einn af vinum Jóhannesar úr Kötlum, Ólafur Jóhann Sigurðsson, lýsti honum í minningargrein svo vel að betur verður ekki gert í örfáum orðum:
Jóhannes úr Kötlum var í senn stórlyndur og óvenju blíðlyndur, einlægur maður og heilsteyptur, tryggur vinum sínum og hreinskiptinn, öldungis laus við hverskonar undirhyggju.
Já, svona var hann, – allir sem þekktu hann geta staðfest það – og þessir skapgerðareiginleikar hans móta líka fjölskrúðugan skáldskap hans allan. Ég ætla ekki að rekja nákvæmlega æviferil Jóhannesar enda er hann eflaust flestum okkar kunnur. Hann var sveitamaður vestan úr Dölum, fæddist fyrir hundrað árum, ólst upp á heiðarkoti við 19. aldar aðstæður, eins og sjá má í kvæðum hans, ekki síst í bálknum „Karl faðir minn“ sem er tilfinningarík raunsæislýsing á lífsbaráttu í örbirgð en slíkt var hlutskipti flestra Íslendinga allt fram á þessa öld. Þetta skrumlausa, fallega kvæði fór fyrir brjóstið á sumum, einkum Jónasi frá Hriflu sem skrifaði í Tímann að Jóhannes hefði „ort hraklegt ádeilukvæði um föður sinn.“ Og undir ævilok Jónasar er þetta kvæði enn að angra hann; í grein sem heitir „Áhrif bolsivismans á íslenskar bókmenntir“ segir hann um þetta kvæði Jóhannesar: „Hann þurrkar út sonarlegar tilfinningar, til að sýna fortíðinni nægilega fyrirlitningu.“
Jóhannes lauk námi í Kennaraskólanum 1921, hann varð síðan kennari í Dölum vestra í tólf ár, fluttist til Reykjavíkur á öndverðum kreppuárum, gerðist kennari við Austurbæjarskólann en varð að hætta eftir tvö ár sökum heilsubrests og sneri sér þá að ritstörfum eingöngu. Jóhannes bjó ásamt fjölskyldu sinni í Hveragerði frá 1940 og í hartnær tvo áratugi en síðan í Reykjavík til dauðadags 1972.
Skáldskapur Jóhannesar úr Kötlum er mikill að vöxtum og fjölbreytilegur. Frá hans hendi komu 15 ljóðabækur, 5 skáldsögur, fimm ljóðakver fyrir börn og auk þess smásögur og leikrit fyrir börn. Gefið var út úrval ritgerða hans og greina, Vinaspegill, 1965. Í viðbót við allt þetta vann Jóhannes mikið að þýðingum og einnig að útgáfu á verkum annarra. Ég mun að þessu sinni nær eingöngu beina sjónum að ljóðum Jóhannesar. Vissulega væri ástæða til að minnast nánar á önnur verk hans, t.d. barnabækurnar og Litlu skólaljóðin. Jóhannes er eitt örfárra íslenskra skálda sem hefur látið svo lítið að yrkja ljóð sérstaklega fyrir börn, en slíkt er vissulega vandaverk. Gerð er ágæt grein fyrir öllum barnabókum Jóhannesar í riti Silju Aðalsteinsdóttur um sögu íslenskra barnabóka.
Tvær fyrstu kvæðabækur Jóhannesar, Bí bí og blaka 1926 og Álftirnar kvaka 1929, bera þess glögg merki að skáldið hefur á unga aldri drukkið í sig arf hefðarinnar og alist upp við nýrómantískt viðurværi. En úr því fer hann að tileinka sér nýjar aðferðir og aðra hugmyndastrauma.
Ég hef áður bent á það í grein að ljóðum Jóhannesar megi með nokkurri einföldun skipta í tvo flokka, harla ólíka, þegar við erum að reyna að átta okkur á kveðskap hans í heild. Annarsvegar eru það þjóðfélagsleg baráttukvæði og ádeiluljóð, sem framanaf voru stundum stóryrt og beinskeytt. Og hinsvegar ljóðræn náttúru- og tilfinningaljóð, en þann streng sló hann alla tíð en þó einkum í fyrstu og síðustu bókum sínum þótt með ólíkum hætti væri.
Hinum þjóðfélagslegu kvæðum hans má með sömu aðferð skipta í tvo flokka: annarsvegar eru þá pólitísk baráttukvæði í anda sósíalrealisma og hinsvegar módernísk ljóð, flest í óbundnu formi, um þjóðmálavanda samtímans og pólitísk hugðarefni, en engin vígreif heróp. Jóhannes hafði vakandi áhuga á þjóðmálum og var virkur þátttakandi í stjórnmála- og hugsjónabaráttu sósíalista. Mörg kvæða hans frá árunum 1932 til 1945 bera fram þrumandi ádeilu og opinskáan boðskap. Flest eru þau lotulöng og kveðin af upphafinni mælsku enda er boðskap þeirra ætlað að komast til skila vafningalaust. Mörg eru lofsöngvar um menn og þjóðfélagshópa en reyndar einnig um dýr, svo sem „Stjörnufákur“ sem er 40 erindi og á fjórða hundrað ljóðlínur.
Í kvæðinu „Öreigaminning“ er fjallað um hina pólitísku baráttumenn alþýðunnar sem eru skriðnir úr eggi tímans „með aðra sjón en hinir / og alla hluti gátu.“ „[…] augu þeirra brunnu / af ofstækinu mikla / að endurleysa heiminn.“
Úr slíkum hópi talar og yrkir Jóhannes úr Kötlum í baráttukvæðum sínum og hvikar aldrei. Í einhverri snjöllustu deilugrein sem skrifuð hefur verið fyrr og síðar lætur Jóhannes svo um mælt:
Það hefur löngum verið árátta mín að yrkja lofsöngva. Ég hef ort lofsöngva um guð almáttugan, móður náttúru, land míns föður. Ég hef ort lofsöngva um átthagana og moldina, fjöll og dali, ár og vötn. Ég hef ort lofsöngva um fuglana og blómin, hestinn og kúna, hundinn og köttinn, laxinn og hornsílið. Ég hef jafnvel ort lofsöngva um músina og mosann. En fyrst og síðast hef ég þó ort lofsöngva um fólk. Ég hef ort lofsöngva um heimasætur. Ég hef ort lofsöngva um börn og gamalmenni. Ég hef ort lofsöngva um söguhetjur Íslands og þegna þagnarinnar. Ég hef ort lofsöngva um nafngreinda menn, innlenda og erlenda: Helga Péturss og Georgi Dimitroff, Magnús Helgason og Mao Tse-tung, Einar Olgeirsson og Kai Munk, Halldór Laxness og Nordahl Grieg. Og ég orti lofsönginn um Stalín. Það er eini lofsöngurinn sem hefur gert verulega lukku.
Þetta er úr greininni „Fagurt galaði fuglinn sá“ frá árinu 1956 en þar svarar Jóhannes með fádæma rökfimi pólitískum ásökunum fornvinar síns séra Sigurðar Einarssonar. Orð Jóhannesar vitna um það að hann gerir sér glögga grein fyrir eigin skáldskap. Hann notar lofsöngs-hugtakið í víðtækri merkingu, þ.e. einnig yfir þá samhygð eða samlíðan, þá einlægu innsýn sem býr í ljóðum hans um fólk og um gjörvallt náttúrunnar ríki. þessi lofsöngs-tilhneiging felur að sjálfsögðu í sér hættu fyrir skáldið, – hættu á að búa til mýtu um einstakling og jafnvel ala á persónudýrkun að hætti trúarbragða. Fáir trúa því núna að Stalín hafi verið „mannsins besti vin“ eða að séra Jón Steingrímsson hafi viljað „bjarga sinni hjörð“ og hafi gert það með kraftaverki, því að sjálfur taldi presturinn syndugan og iðrunarlausan lýðinn verðskulda þessa refsingu guðs – eldinn, móðuna og harðindin.
Margt athyglisvert var kveðið á þeim hugsjónaárum þegar heimsbyltingin var á næsta leiti þótt okkur hætti til núna, löngu eftirá, að telja þær væntingar barnaskap og blekkingu. Menn biðu með óþreyju eftir byltingunni og það var engu líkara en að byltingin biði líka með óþreyju við dyrnar. En enginn opnaði.
Dagurinn kemur! þið heyrið herbresti nú
af hugsunum þeirra, sem boða tíðindin góðu.
sagði Sigurður Einarsson í kvæði um byltinguna í bókinni Hamar og sigð 1930. Það var einungis dagaspursmál hvenær byltingin skylli á, „þá rennur ykkar dagur! Hinir rauðu hanar gala!“ segir séra Sigurður í þekktasta kvæði sínu, „Sordava“, sem hann síðar baðst opinberlega afsökunar á. Byltingaróþolið birtist með miklu skáldlegra hætti í „Sovét-Íslandi“ Jóhannesar úr Kötlum, en engu íslensku kvæði hefur verið úthúðað jafn rækilega og þessu vonsæla og vel kveðna ljóði. Þetta er einlægur útópíu-kveðskapur til handa þjóð sem hefur mátt hýrast í þúsund ára fátækt, – draumurinn um að „umbreyta / í æsku / öllu hinu þreytta og sjúka og vonlausa“, eins og þar stendur – „[. . .] óskalandið, / hvenær kemur þú?“ Og aldrei hefur verið kveðið betur um byltinguna langþráðu en gert er í lok þessa kvæðis:
. . .En hvort sem þú vilt eða ekki,
kemur það nær og nær,
þetta, sem grætur blóði,
þangað til upp úr rauðum sporunum
grær
líf, sem ljómar og hlær. –
þó það kæmi ekki í gær,
þó það komi ekki í dag,
það kemur – – –
Á morgun?
Hvenær? Hvenær?
Þessi skapheitu brýningarljóð eru skörulegt framlag í stéttabaráttu kreppuáranna og heimsstyrjaldarinnar. þeim var ætlað að efla stéttarvitund og baráttuhug, en þau fluttu líka mótmæli gegn viðtekinni söguskoðun og báru fram kröfu um nýtt mat á sögu þjóðarinnar. Í kvæðinu „Vér öreigar“ er sýnt fram á að það eru ekki persónur og afrek stórmenna og valdamanna sem í raun móta og þróa sögu þjóðarinnar. Sagan er skilgreind frá marxísku sjónarmiði á mjög svipaðan máta og samtíðarmaður Jóhannesar, Bertolt Brecht, gerði (og þetta þýska skáld orti líka marga lofsöngva í líkum anda og Jóhannes). Í kvæði Jóhannesar mæla íslenskir öreigar allra alda, þeir eiga sér samfellda þjáningarsögu en með vinnu sinni hafa þeir skapað verðmætin og mannvirkin, – og nú er orðið tímabært að þeir grípi völdin. Landnámsmennirnir voru ræningjar, klæddir guðvefjarkyrtlum og skarlatsskikkjum, og þeir „slógu eign sinni á allt“ og kúguðu öreigana miskunnarlaust. Síðar skráðu munkar hetjusögur um höfðingjana. Íslendingasögurnar eru „dulbúin lofgjörð kristinna kögursveina / um ræningjana ríku“. Og ræningjarnir, valdsmennirnir, böðlarnir eiga sér líka óslitna sögu allt til okkar daga, – stéttaandstæðurnar hafa alltaf verið ósættanlegar, og nú eru þeir hræddir því að vér öreigar krefjumst réttar vors, við vitum „. . .að fylling tímans er komin,/ að hlutverki hins þarfa þræls er lokið, að vort eigið hlutverk er eftir, / og það eitt. – – “ Um þetta ljóð segir Jónas frá Hriflu í áðurnefndri grein: „Hann svívirðir þá, sem fyrstir byggðu landið og gerðu garðinn frægan.“
Jóhannes gat hæglega gerst ábúðarmikið hátíðarljóðaskáld og hann var verðlaunaður af opinberum aðilum fyrir hátíðaljóð sín á Alþingishátíðinni 1930 og aftur við lýðveldisstofnunina 1944. Af slíku tilefni klæðist hann blátt áfram trúarkyrtli og þjóðernisskikkju hins hefðbundna ættjarðarljóðakveðskapar sem tíðkast hafði í heila öld, enda ljóst að ekki þýddi að taka þátt í kvæðakeppninni í öðrum ham. Við hljótum að taka eftir því að í þessum kvæðum er ekki minnst á „ræningjana ríku“. þar heita landnámsmennirnir „Hávadróttin bjarta“ og „Austmenn, vermdir frelsisglóð“. það er engu líkara en að Jóhannes hafi tekið þátt í hátíðarkveðskapnum af einskærum keppnismóði, þetta er einskonar leikrit þar sem efnisþættirnir eru fyrirfram gefnir: ættjörðin, forfeðurnir, menningararfurinn – og hin dugmikla framsækna þjóð. Jóhannes vissi að hann gat leikið sér að þessu hlutverki og skákað öðrum og hann stóðst ekki mátið. En eftir verðlaunaveitingarnar fékk hann vonda samvisku og þurfti að stökkva útundan sér, eins og hann segir sjálfur í Birtingsviðtali við Einar Braga 1957. Eftir verðlaunin 1930 sagði hann skilið við nýrómantíkina og eftir 1944 gjörbreytti hann ljóðstíl sínum og tók að nálgast módernismann í tjáningu.
Og þá verða straumhvörf á skáldskaparferli Jóhannesar. Oft er talað um að formbylting hafi orðið í íslenskri ljóðagerð um miðja öldina. En það varð líka formbylting í ljóðagerð þessa eina skálds, Jóhannesar úr Kötlum. Ekkert íslenskt skáld hefur endurskoðað skáldskaparviðhorf sín og skáldskapartjáningu á jafn gagngerðan hátt og hann. Síðasta bók hans í hefðbundna stílnum, Sól tér sortna 1945, fékk harða dóma, einkum frá Magnúsi Kjartanssyni sem taldi Jóhannes „of hefðbundinn í framsetningu sinni og túlkun.“ Þetta var Jóhannesi sjálfum ljóst og hann hafði þá þegar hafið endurskoðun sína og var tekinn að birta nýstárleg ljóð undir höfundarnafninu Anonymus. Það gerði hann í tíu ár án þess að út kvisaðist hver nafnleysinginn væri. Sigfús Daðason segir í hinni merku grein sinni „Til varnar skáldskapnum“ árið 1952: „Ég verð að kalla Anonymus ungt skáld, því hann er ungt afl í bókmenntunum hvort sem hann er tvítugur eða tíræður í holdinu.“ Reyndar má sjá í Sól tér sortna að skáldið er farið að efast um að ljóðagerð af þesu tagi eigi nokkurt erindi lengur. Síðasta kvæði bókarinnar lýkur með þessum orðum:
Og kvæðin mín – þau dæmast til að deyja
sem daprir vottar þess, er hefur skeð.
– Í stríði þessu létu margir lífið,
og lof sé guði, ef þau teljast með.
Það er ekki fyrr en Sjödægra kemur út 1955 að lýðum verður ljóst að skáldið að baki Anonymusar var Jóhannes úr Kötlum. Þessi róttæka breyting hans á stíl og allri formgerð þeirra ljóða, sem hann yrkir, er einsdæmi á skáldaþingi. Einar Bragi spurði hann síðar hversvegna hann hefði byrjað að yrkja nafnleysingaljóðin, og Jóhannes svaraði: „Ég byrjaði á því af svipuðum ástæðum og ég fór á sínum tíma að yrkja byltingarkvæði: ég var orðinn ósáttur við sjálfan mig og ljóðagerð mína – fannst sem ég væri farinn að haltra á eftir. [. . .] mig langaði til að freista nýrra leiða í skáldskapnum – heyja mér ferskara ljóðmál, ná tökum á nýju sniði líkinga og mynda sem kannski gæti síðar meir yngt upp hina rímuðu ljóðagerð.“
Og það er einmitt nákvæmlega þetta sem Jóhannes gerir í skáldskap sínum. Þetta er ekki heiglum hent eftir tuttugu ára vist í hefðinni og átta kvæðabækur ásamt ýmsu fleira. En þessa leið gekk Jóhannes ótrauður í átt til módernismans. Hann varð ekki róttækur módernisti enda ætlaði hann sér það ekki, en hann lærði ýmislegt af módernismanum af því að hann vildi tileinka sér nýjungar og fannst hann þurfa að leita að nýjum tjáningarleiðum í skáldskapnum. Honum tókst að glæða ljóð sín nýjum myndum og líkingum, einkum lagði hann rækt við myndhverfingar að hætti módernista. Orðfærið, breyttist ekki ýkja mikið, það var enn sem fyrr gjarnan nokkuð upphafið og rómantískt þótt stundum nálgaðist það vandað hverdagsmálfar en hann beitti ljóðmálinu á allt annan hátt en áður, forðaðist margtuggin og útjöskuð orð, tempraði mælskuna – og útkoman var ferskur stíll. Þáttur í endurnýjuninni voru þýðingar Jóhannesar á erlendum ljóðum frá ýmsum heimshornum en þær birtust í bókinni Annarlegar tungur undir nafni Anonymusar árið 1948.
Jóhannes kærði sig ekki um að dragast afturúr, eins og hann sagði sjálfur, og hann orti meira að segja eftirminnanlega um byltingarþörf sína á skáldskaparsviðinu. Á bókmenntafundi í tilefni sextugsafmælis hans fyrir 40 árum flutti hann sjálfur kvæðið Ég finn ég verð sem byrjar svo:
Hér sit ég enn í sömu vanans skorðum
hve sárt og djúpt sem tímans þyrnar stinga
og leita skjóls í löngu dauðum orðum
– ó lífsins kjarni: nær á ég að springa?
Og kvæðinu líkur með þessum vísuorðum:
ég finn ég verð – ég finn ég verð að springa
og fæða að nýju alla veröld mína.
Í Sjödægru og seinni ljóðabókum Jóhannesar eru mörg sömu yrkisefni og fyrr en allt er með öðrum rómi og öðrum blæ. Skáldið heldur áfram að yrkja um þjóðfélagsmál, en nú er sjónarsviðið stærra og víðara en áður og í ljóðunum er skyggnst í hin dýpri rök tilverunnar og þróun alls mannkyns. Heimsstyrjöldin og atómsprengjan breyttu heimsmyndinni; – eyðing og nýjar ógnir blöstu við; kalt stríð var skollið á. Og byltingin beið ekki lengur við dyrnar. Skáldinu er ljóst að tími hins háværa, stóryrta áróðursskáldskapar var liðinn. Nýir tímar og breyttur heimur kröfðust nýrra forma eins og fjórar síðustu ljóðabækur hans bera vitni um. Mörg hinna beinskeyttu, háttsterku kvæða Jóhannesar munu eigi að síður lifa lengi, t.d. „Eiður vor“ því að skorinorður boðskapur þess á líka heima hér og nú þegar vald peninga og gróðahyggju stjórnar á flestum sviðum og ógnar réttlætiskennd og umhverfi:
þótt særi oss silfur og gull
þótt sæki að oss vá eða grand
vér neitum að sættast á svik
og selja vort land[. . .]
Þetta kvæði á uppruna sinn í baráttunni gegn erlendri hersetu á Íslandi, en þeirri baráttu lagði Jóhannes margfalt lið ekki síst með ljóðaflokknum „Sóleyjarkvæði“ þar sem hann nýtir þjóðkvæðastíl þegar hann lýsir fegurð landsins, mótmælir erlendri ásælni og deilir á valdsmennina. Í þessu sambandi má minna á að Jóhannes samdi fyrstu skáldsöguna um erlent hernám á Íslandi, Verndarenglana, en hún kom út þegar á þriðja ári hernámsins 1943.
Smákvæðið „Framtíð“ er háttbundin ógnarspá um yfirvofandi atómstríð; – þar er gjöreyðingunni lýst stóryrðalaust í meitluðum orðum og skýrum myndum:
Og dauðageislar við daggir rjá
og dansa á kornum sandsins
er hverfur hann undir sól að sjá
hinn síðasti maður landsins.
Ljóðið „Næturróður“ í Sjödægru fjallar um blóðuga þjáningarsögu alþýðu í öllum heimi, hrakninga hennar í hlekkjum ánauðar og myrkri vanþekkingar. Þetta er óbundið módernískt ljóð þótt minni þess eigi skyldleika í gömlum islenskum kveðskap:
Grár nökkvi mjakast yfir hið botnlausa djúp
gegnum endalausa nóttina:
vér kóngsþrælar vér krossþrælar dýfum árunum sem í bik
– þungur er vor róður.
Fróðlegt er að bera þetta ljóð saman við ljóðið Oss öreiga sem fjallar að hluta um samskonar þræla í séríslenskri sögu – en með gjörólíkri tjáningu.
Formbylting Jóhannesar nær ekki einungis til forms og stíls, – það verður einnig áherslubreyting í viðhorfum hans þótt hann hviki hvergi frá hugsjónum sínum. Hann prédikar ekki lengur, heldur býr um boðskapinn í listrænu myndmáli sem stundum getur orðið allt að því torrætt eins og í „Næturróðri“. En þótt herópin séu þögnuð er framtíðarlandið ekki horfið hugarsjónum en það er fjær en áður fyrr. Sóknin til betra og fegurra lífs heldur áfram:
Látum hina dauðu grafa sína dauðu
meðan stormurinn geisar í heila vorum
eldurinn í hjarta voru
og lyftum þessum glóandi knetti
vorri jörð
upp mót endalausum víðernum nýs dags.
Hann missti aldrei trúna á pólitísk markmið og hann orti líka um vonbrigði og ósigra í þeim efnum af hreinskilni og eindrægni. Í síðustu bók sinni Nýjum og niðum horfir hann enn yfir svið hugsjónanna í bálkinum „Óðurinn um oss og börn vor“ – og treystir nýjum kynslóðum til að halda baráttunni áfram.
Því sérhver ný kynslóð verður að frelsa heiminn
Með því að skapa hann í sinni mynd
Náttúran á sterk og litrík ítök í kvæðum Jóhannesar eins og flestra annarra íslenskra skálda. Í ljóðum hans er náttúran oft nátengd tilfinningum og lífsviðhorfum. Æ og aftur hverfur hann vestur í Dali eða í aðrar áttir á vit náttúrunnar; einnig á tímum átaka og ádeilu er stutt í rómantíska náttúrukennd. Í næsta kvæði á undan „Sovét-Íslandi“ situr hann
í grænum dal við fegurð blárra fjalla
og fuglakvak um stjörnur, sól og mána [. . .]
eins og segir í kvæðinu „Á þeirri stund“ í Samt mun ég vaka. Í þeirri bók er líka bálkurinn „Móðir náttúra“ þar sem skáldið ávarpar þessa móður sem er máttug og fögur, drifkraftur lífs og gleðigjafi. Hún á að efla jarðarbúann til meistaraverka og verða bandamaður hans.
Náttúrukenndin er oft tengd átthögum og ættjörð og einnig hugsjónum. Fjöllin standa af sér öll veður:
Mín fjöll Mín fjöll standa
eru sannleikans fjöll þegar lygin hrynur
blátt grjót mín bláu fjöll
hvítur snjór mín hvítu fjöll.
En náttúruljóðin búa líka gjarnan yfir ljóðrænum hugblæ ævintýra, ástar og trega og í þeim tengjast einnig fegurð, ást, náttúra og ættjörð og í æskuljóðum Jóhannesar er guð einnig í þessum félagsskap. Fallegasta rómantíska náttúrukvæðið er „Fyrsta jurt vorsins“, – eitt erindið er svona:
Augasteinn vorsins, lambagrasið litla,
löngum í draumi sá ég þig í vetur.
Guði sé lof, að líf þitt blómstrar aftur,
líkt þeirri von, sem aldrei dáið getur.
Samkenndin með náttúrinni verður jafnvel að samruna við náttúruna eins og í smáljóðinu „Augnabliksmynd“:
þegar sólin skín á mig nakinn
í grænni brekku
og tært bergvatnið líður hjá
þá er sólskinið í mér
og ég í sólskininu
grasið í mér
og ég í grasinu
vatnið í mér
og ég í vatninu
og dauðinn er ekki til:
í óviti alvitundarinnar
skín ég og græ og líð fram
frá eilífð til eilífðar.
Þannig tengist náttútan sjálfri lífshamingjunni sem verður mun áleitnara yrkisefni í hinum seinni bókum skáldsins. Í þeim fyrri er það „ástin, trúin, eldurinn, krafturinn“ og álíka stefnuskrárorð úr viðteknum skáldskap sem móta hamingjuhugmyndina. Í Sjödægru eru hinsvegar komnar í ljóðin tilvistarlegar hugleiðingar um tilgang lífs og hverfulleik þess og um hamingjuna í heimi hér. Ljóðið „Örlög“ er vel kveðin áminning um afdrif okkar allra. Í því standa þessar línur:
Við munum öll gleymast:
[. . . ]
Líf okkar er sviptónn í ófullgerðri hljómkviðu:
fýkur brátt sem neisti veg allrar veraldar
– eftir liggur aska.
Einungis hugrakkir menn og æðrulausir kveða svona um dauðann. þetta ljóð er í nábýli við ljóðið sem ég las áðan þar sem segir að í okkur búi sólskinið, grasið og vatnið og dauðinn sé ekki til. Lífið heldur áfram þótt við hverfum og gleymumst. Duftið rís upp. Áhrifamesta ljóð Jóhannesar um rök lífsins er „Jarðerni“ í bókinni Tregaslag. Þar ríkja þrjú meginstef, en þótt í þeim megi þekkja óbeinar vísanir, þá er hér um að ræða annarskonar jörð en í Biblíunni og upprisan er jarðnesk eins og fæðing og dauði:
Af þér er ég kominn undursamlega jörð:
[. . .]
Að þér mun ég verða undursamlega jörð:
Eins og sveipur mun ég hverfast í stormi þínum
eins og dropi mun ég falla í regni þínu
eins og næfur mun ég loga í eldi þínum
eins og duft mun ég sáldrast í þína mold.
Og við munum upp rísa undursamlega jörð.
Eitt af ljóðum Sjödægru heitir blátt áfram „Ljóð um hamingjuna“, – einföld og skýr lífsskoðun í fimm litlum vísum. Hin fyrsta:
Hamingjan er ekki til sölu:
fljúgið of heim allan
gangið búð úr búð
– engin hamingja.
Og hin síðasta: þetta er hamingjan:
að yrkja jörðina
að yrkja ljóðið
að elska jörðina og ljóðið.
Í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum má lesa og rekja bókmenntasögu íslenskrar ljóðagerðar allt frá nýrómantík aldamótanna og til loka módernismatímabilsins um 1970. Og þetta er jafnframt æviskeið skáldsins. Alstaðar var hann þátttakandi og samtímamaður, jafnan einarður í skoðunum og hreinskilinn en jafnframt leitandi, með áhuga á hinu síbreytilega inntaki tilverunnar og túlkunartækjum hennar, ljóðinu og tungumálinu. Hann hóf skáldferil sinn sem nýrómantískt skáld, varð síðan helsta ljóðskáld hins félagslega raunsæis; gerði þar næst sína eigin formbyltingu og tók þátt í formbyltingu annarra með því að nýta sér ýmislegt úr fagurfræði módernismans. Hann var heimsbyltingarsinni á kreppuárunum fyrir heimsstyrjöldina síðari en ljóðbyltingarsinni eftir stríð. Og alla tíð vildi hann bylta kjörum alþýðunnar til betra vegar. Hann var sannur byltingarsinni með skýra og glaðvakandi hugsun og sú hugsun breyttist ekki þótt ljóðstíll hans tæki stakkaskiptum. Ekkert íslenskt skáld hefur verið málsvari alþýðunnar af slíkri eindrægni og ástríðu sem hann. Í erindi sem Njörður Njarðvík hélt 1974 segir hann Jóhannes verðskulda nafngiftina „skáld íslenskrar alþýðu“. Og í afmælisbréfi Halldórs Laxness til Jóhannesar fimmtugs stendur m.a.:„Aðeins fáum skáldum er gefið að finna tóninn sem nær hlustum alþýðunnar. Þú ert einn í hópi þeirra öfundsverðu skálda.“
Víst er að Jóhannes úr Kötlum helgaði alþýðufólki ljóð sín öll og var í raun sverð þess og skjöldur. Hann var nákominn gróandi lífi og stritandi heimi og taldi fráleitt að bregða á annað ráð. Það staðfesti hann ekki einungis í skáldverkum sínum heldur einnig í bókmenntaerindi sem hann flutti árið 196O , en þá sagði hann m.a.:
Einu gildir hversu djúpt skáldið vill grafa í leyndardóma sjálfs sín og tilverunnar – það getur samt ekki sloppið úr mannheimi. Það neyðist til að taka einhverja afstöðu gagnvart umheiminum og gerir það raunar öldungis eins fyrir því þótt það einangri sig í fílabeinsturni. Skáldið getur aldrei orðið hlutlaust gagnvart manninum. Maðurinn eltir það inn í turninn og krefst reikningsskila. Þegar allt kemur til alls eru skáldið og maðurinn tvær hliðar á sama furðuverkinu.
Eysteinn Þorvaldsson
Eysteinn Þorvaldsson hefur kynnt sér manna best módernismann í íslenskri ljóðagerð og skrifaði um það efni bókina Atómskáldin sem kom út 1980. Jafnframt hefur hann fylgst grannt með þeim ungu skáldum sem síðar komu fram á sjónarsviðið undir nýjum straumum og stefnum. Þá hefur Eysteinn átt stóran þátt í að kynna Íslendingum ýmis úrvalsverk evrópskra bókmennta með því að þýða, í samvinnu við Ástráð son sinn, verk skálda eins og Franz Kafka og Max Frisch. Í tilefni af sjötugsafmæli Eysteins sumarið 2002 kom út bókin Ljóðaþing sem hefur að geyma greinar, ritgerðir og erindi hans um íslenska ljóðagerð á 20. öld.
Golli (Kjartan Þorbjörnsson)
Golli er margverðlaunaður ljósmyndari hjá Morgunblaðinu. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga ljósmyndara og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín.
Erindi flutt á hátíðarsamkomu í Þjóðarbókhlöðunni í tilefni 100 ára afmælis Jóhannesar úr Kötlum þann 4. nóvember 1999.