Á mótum
dulhyggju og
félagshyggju

Kristin stef í Sjödægru Jóhannesar úr Kötlum

Fyrir skömmu birti höfundur þessarar greinar athugun á trúarlegum minnum í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) frá því fyrsta ljóðabók hans Bí bí og blaka kom út (1926) og þar til Sóleyjarkvæði birtist (1952).1Hjalti Hugason 2004.

Niðurstöður athugunarinnar voru að vissulega hafi Jóhannes verið róttækur baráttumaður félagslegs réttlætis í anda sósíalisma og síðar þjóðfrelsis á tímum hernáms og hersetu. Lýsir þetta hugsjónum hans frá miðjum fjórða áratugnum eða kreppunni miklu en þá virðist hann taka gagngerum sinnaskiptum frá kristilegu heimilisuppeldi og hefðbundnum ungmennafélagsanda til róttækrar vinstristefnu. Notaði hann kveðskap sinn markvisst sem baráttutæki í þjóðmálabaráttu. Þrátt fyrir þetta voru trúarleg stef, vísanir og minni ríkur þáttur í kveðskap hans allt tímabilið. Má jafnvel segja að hinn trúarlegi þáttur verði bæði tíðari og ágengari eftir sinnaskiptin en verið hafði fyrir þau. Þau stef sem voru sérstaklega áberandi á ofangreindu skeiði voru Kristsímyndin og sú framtíðarsýn sem Jóhannes tjáði í ljóðum sínum og var sett í samband við sambærilegan þátt í kristninni sem kallaður er „eskatólógía“ (Eschatologie) en með því hugtaki er átt við umræðuna um hina síðustu daga og endalok tímans. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við þá lýsingu kunnugs manns að Jóhannes hafi alla tíð verið trúhneigður og jafnvel „brennandi í trúaranda“ einkum hafi trú hans á skaparann og Krist lifað af allar efasemdir. Þó var sú grunsemd látin í ljós fremur af sanngirnisástæðum en að höfundi lægi hún sérstaklega á hjarta að líklega hafi Jóhannes þó litið á sig sem trúlausan mann að kirkjulegum skilningi lengst af skáldferils síns, a.m.k. á síðari hluta þess tímabils sem tekið var til athugunar.

Í þessari ritsmíð er ætlunin að halda áfram þeim guðfræðilega lestri á ljóðum Jóhannesar sem hafinn var í fyrrnefndri könnun. Verður það gert með því að fjalla um ljóðabókina Sjödægru sem kom út 1955.2Á það skal minnt að Sjödægra er ákaflega blandað og misaldra rit. Mörg ljóðanna höfðu birst áður í Tímariti Máls og menningar og öðrum tímaritum allt frá árinu 1945 og eru því eldri en mörg ljóðanna sem fjallað var um í fyrri ritgerð minni. Sjá Jóhannes úr Kötlum 1976: 213-214. Hér verða því engar ályktanir dregnar um þróun hugmynda en vakin athygli á að umfjöllunarefni greinanna skarast í tíma. Greinarnar gefa því fremur svipmyndir af ferli Jóhannesar en heildstæða sýn á höfundarverk hans. Eins og áður verður leitast við að greina trúarleg stef eða vísanir í ljóðunum án þess að loka með öllu augum fyrir öðrum þáttum þeirra enda verður að skilja ljóð heildstæðum skilningi þar sem eitt sjónarhorn kallast á við annað.

Galdurinn í Sjödægru

Við lestur ljóða að ekki sé rætt um túlkun þeirra verður ætíð að gæta þess að í ljóði myndar form og inntak eina samstæða heild sem ekki verður í sundur slitin. Hefur jafnvel verið á það bent að ekki sé mögulegt að endursegja ljóðrænan („lýriskan“) texta þar sem form hans skipti jafnmiklu máli og inntakið eða hinn rauði þráður sem endursögnin leitast við að rekja enda skorti ljóðrænan texta oft slíkan rauðan þráð. Þá sé ómögulegt að skipta út orðum í slíkum texta vegna þess að þá sé ekki lengur um hinn endursagða texta að ræða heldur afbökun hans. Eigi þetta við um ljóðrænan texta almennt sem vissulega getur verið í lausu máli á staðhæfingin áreiðanlega enn frekar við um ljóð sem eru bundnari að formi en ljóðrænn lausamálstexti.

Þessi varnagli á að sumu leyti ekki við mörg ljóðanna sem fjallað var um í fyrrnefndri athugun. Þau voru mörg hver boðunarljóð þar sem skáldinu var svo mikið niðri fyrir að inntak eða boðskapur ljóðanna mótaði form þeirra sem oft verður að líta á líkt og tæki til að koma boðskapnum til skila svo eftir verði tekið. Varnaglinn er hins vegar í fullu gildi þegar Sjödægra á í hlut. Þar kveður við allt annan tón. Mörg kvæða hennar höfðu upphaflega verið birt áratuginn áður en bókin kom út og þá undir heiti Anonymusar en það var höfundarnafn sem Jóhannes tók upp til að skapa sér frjálsari hendur við formtilraunir. Önnur voru ort um svipað leyti þótt þau birtust fyrst í bókinni. Sjödægra gefur því innsýn í þær formtilraunir sem Jóhannes ástundaði á fimmta og sjötta áratugi 20. aldar. Það er því ekki að undra að formið skipti meira máli við lestur, skynjun og skilning á ljóðunum sem þar eru birt en í eldri ljóðabókum skáldsins. Einmitt á þessu skeiði hlýtur Jóhannes að hafa verið sérstaklega upptekinn af forminu og það því orðið mikilvægara en áður. Má ef til vill segja að í Sjödægru gjaldi Jóhannes ljóðlistinni það sem henni bar en ýmsum þótti hann hafa vanrækt á því skeiði er hann gekk lengst í að ástunda þjóðfélagslega nytjalist. Víða í Sjödægru má að minnsta kosti líta svo á að Jóhannes ástundi eins konar „áslátt á undirvitundina“ og „skapandi leik“ svo vísað sé til orða hans sjálfs um eðli og hlutverk skáldskapar. Þetta gerir alla túlkun á ljóðum Jóhannesar í Sjödægru út frá því þrönga sjónarhorni sem hér verður viðhaft æði torvelda.

Er inntaksgreining ljóða réttlætanleg?

Deildar meiningar eru um gildi og aðferðir ljóðatúlkunar. Telja sumir að ljóð eigi einvörðungu að skynja og að lesandinn fái mest út úr lestri ljóðs með því að skilja það út frá eigin tilfinningum og öðrum persónubundnum forsendum. Verst þykir túlkunin aftur á móti þegar hún beinist einvörðungu að leit að ákveðnum fyrirfram skilgreindum fyrirbærum í ljóðum og túlkandi telur sig hafa skilið ljóðið til fulls þegar þessi fyrirbæri hafa verið einangruð, flokkuð og e.t.v. skeytt saman í heildarmynd. það að skilja ljóð og annan ljóðrænan texta getur með öðrum orðum ekki verið í því fólgið að grafa fram sérstök einkenni, boðskap eða hugmyndafræðilegan kjarna.

Gagnrýni af þessu tagi kann að eiga við viðfangsefni þessarar greinar. Tvennt skal þó nefnt aðferðinni til varnar. Annað er það að við túlkun ljóða er oft greint á milli þriggja sniða þeirra: Málsniðs, mynd- og/eða táknsniðs og loks efnissniðs. Við þessa þrískiptingu má svo auðvitað bæta formsniðinu. Hér verður áhersla lögð á efnissniðið sem felur í sér það sem ljóðið fjallar um, efni þess (þema), inntak eða boðskap. Það getur verið fullkomlega eðlilegt að fást við þetta sjónarhorn án þess að hinum sé gert jafnhátt undir höfði. Hins vegar verður þá þess að gæta að ljóðið hefur ekki verið túlkað til fulls og er það síðara atriðið í málsvörn minni. Hér er ekki gerð tilraun til túlka Sjödægru eða ljóð hennar niður í kjölinn og sú áhætta þar með tekin að oftúlka einstök atriði. Í raun má spyrja hvenær ljóð hafi verið túlkað til hlítar.

Greining á kveðskap Jóhannesar úr Kötlum út frá efnissniðinu einu hentar ágætlega meðan hann ástundaði félagspólitískan nytjakveðskap en á síður við ljóðin sem birtust í Sjödægru. Hér skal þó gengið út frá að það sé einnig frjótt að lesa þá bók með efnissniðið í huga. Það getur þó verið nauðsynlegt að beita hinum sniðunum þremur til að ná tökum á inntakinu. Til dæmis er athyglisvert hvernig form og inntak haldast oft í hendur í þeim ljóðum Sjödægru sem vísa til norræns átrúnaðar.

Athugun á ljóðinu Jesús Maríuson með áherslu á málsniðið er t.d. sláandi og setur ljóðið sjálft og allan Krists-atburðinn (líf, starf og persónu Krists) í algerlega nýtt samhengi. Ljóðið hefst á hefðbundinni játningu trúar á Krist þar sem skírskotað er til sálmaversins alkunna „Ó, Jesús, bróðir besti“ sem vísað er til í fleiri ljóðum Jóhannesar. Í tveimur næstu erindum samsamar höfundurinn sig síðan böðlum Krists eins og algengt er í kristinni trúarhefð. Með orðnotkun sinni í lokahendingunni snýr höfundur hefðinni hins vegar á hvolf er hann kveður: „æ vertu ekki að grafa ‘onum gröf mín blinda öld/–hann gengur sífellt aftur“ [leturbr. höf.].3Jóhannes úr Kötlum 1976: 24. Hvað felur það í sér að segja Jesú afturgenginn en ekki upprisinn? Er það afneitun, guðlast eða hótfyndni? Er höfundurinn meðvitað að byggja upp mótsögn milli fyrri og síðari hluta ljóðsins og brjóta þar með broddinn af játningunnni sem fólst í upphafsorðunum? Er hann að rísa gegn játningu kristninnar á hinn upprisna Krist? Eða vakir eitthvað enn annað fyrir skáldinu? Hér verður litið svo á að sú sé raunin eins og nánar verður vikið að síðar. Orðnotkunin er hvernig sem á málið er litið gríðarlega áhrifarík og vekur lesandann til umhugsunar um bæði Krist og ljóðið sjálft. Jóhannes átti hins vegar ekki í erfiðleikum með að yrkja um leyndardóm upprisunnar eins sýnt verður hér á eftir. Hér er því ekki um að kenna að upprisutrú hafi verið framandi í huga skáldsins.

Flokkun ljóðanna í Sjödægru

Í könnun sinni á Sjödægru frá 1971 vakti Eysteinn Þorvaldsson athygli á að bókin í heild sinni væri tilverufræðilegs eðlis þar sem skáldið leitaðist við „… að kanna og skyggna hin dýpri rök tilverunnar og þróunar mannkyns allt frá kviknun lífs í ár alda.“4Eysteinn Þorvaldsson 1971: 33. Eysteinn segir réttilega að Sjödægra sé „… spegilmynd manns og heims, einkum áratuginn 1945-1955.“ Sama heimild: 39. Sjá og sömu heimild: 45, 53. Sjá og Sjá Eysteinn Þorvaldsson 2002: 103, 106. Skal tekið undir þá túlkun. Við þá greiningu á verkinu út frá efnissniði ljóðanna með áherslu á trúarleg og tilverufræðileg þemu sem hér er kynnt vakti þó um helmingur ljóðanna sérstaka athygli. Er þeim hér skipað í fimm flokka. Fyrsti flokkurinn er vissulega á jaðri þess að vera tilverufræðilegur en er tekinn með til að vera trúr þeim (í bókstaflegri merkingu) rauða þræði sem gengið hafði í gegnum kveðskap Jóhannesar sérstaklega frá fjórða áratugnum og kemur einnig fram í Sjödægru. Er þar átt við pólitísk ljóð. Hér eru flokkarnir aðeins settir fram til að skapa yfirsýn yfir efni ljóðanna en þeir eru: (1) Pólitísk ljóð, (2) trúarleg ljóð, (3) ljóð með lauslegum kristnum vísunum, (4) ljóð með trúarlegum stefjum úr öðrum átrúnaði en kristni (t. d. trú á heimssmið, Demiurgus, og ljóð sem vísa í norrænan átrúnað) og loks (5) tilverufræðileg („ontólógísk“) ljóð sem ekki þurfa að fela í sér trúarlega hugsun. þess skal getið að flokkarnir fimm eru ekki gagnkvæmt útilokandi heldur geta einstök ljóð tilheyrt mörgum þeirra.

Af því sem að framan segir um bókina í heild geta t.d. öll ljóðin sem hér er vikið að kallast tilverufræðileg þótt sú leið sé farin að nota orðið sem heiti á undirflokki.

Hér verður lítillega vikið að pólitísku og tilverufræðilegu ljóðunum, fjallað nokkuð ítarlega um trúarlegu ljóðin, drepið á þau með kristnum vísunum en ljóð með tilvísun til annars átrúnaðar en kristni sniðgengin til að halda umfangi greinarinnar í skefjum.

Pólitísk og tilverufræðileg ljóð

Í pólitísku ljóðunum má segja að hrár veruleiki kalda stríðsins og hið viðkvæma fjöregg þjóðarinnar, hið nýstofnaða lýðveldi, séu helstu viðfangsefni höfundar enda eru mörg þeirra ort um miðjan 5. áratug 20. aldar. Hér verður aðeins staldrað við eitt þessara ljóða, Kveðið vestur á Granda. Ljóðið er tímasett „17. júní 1948, kl. 24.“ Ljóðmælandi situr vestur á Granda og virðir fyrir sér umhverfið og „… stúlku sem þorir að/horfa inn í sólina“ og sólin er stærri og rauðari en hann hefur nokkurn tíman séð. Neðan frá Lækjartorgi berst ómur af „lýðræðisdansi“ þjóðarinnar. Lýðveldinu er aftur á móti lýst sem fjögurra ára barni sem grætur úti á (Reykja?)nesi. Þarna leikur hið nýstofnaða lýðveldi því sama hlutverk og Jesúbarnið í 19. kafla Sóleyjarkvæðis, þ.e. hlutverk útburðarins í þjóðsögunni Móðir mín í kví, kví. Boðskapur ljóðsins er að þjóðin sofi á verðinum á viðsjártímum og gæti ekki fjöreggs síns.

Í þeim ljóðum sem hér eru nefnd tilverufræðileg gætir oft spennu milli hreyfingar frá upphafi og til upphafs. Í Börnum Atlantiss er

… allt dáið
allt liðið hjá
og minningin gólar sem útburður í vindinum

Allt um það staðhæfir skáldið aftar í ljóðinu: „Vér erum á leiðinni til upphafs vors: …“5Jóhannes úr Kötlum 1976:104. Sömu tvíátta stefnu er að finna í Homo sapiens þar sem skáldið staðhæfir að tárin og blóðið, allt renni „… til baka þangað sem/frumlindin sprettur upp“.6Jóhannes úr Kötlum 1976: 48. Hér gætir því ákveðinnar ragnarakahugsunar (eitt ljóða bókarinnar heitir einmitt Ragnarök) sem felur í sér að eftir gjöreyðinguna muni að nýju iðjagrænir vellir rísa úr djúpinu. Hugmyndirnar þurfa þó ekki að eiga uppruna sinn í norrænum trúarheimi þótt form og búningur sé oft sótt þangað. Þær geta allt eins byggst á þeirri pólitísku sannfæringu skáldsins að eftir byltinguna sem vissulega er tortímandi afl muni ný framtíð bíða hinna kúguðu eða jafnvel á kristinni trú sem heldur því fram að guðsríkið verði ekki að veruleika án undangenginnar þjáningar. Má þar minna á orð Krists: „Sannlega, sannlega segi eg yður: deyi ekki hveitikornið, sem fellur í jörðina, verður það einsamalt, en deyi það, ber það mikinn ávöxt.“7Jóhannesarguðspjall 12. 24.

Þegar öllu er á botninn hvolft lýsir e.t.v. karþasis-hugmyndin boðskap þessarra ljóða best en í henni felst að maðurinn þurfi á hreinsun (karþasis) að halda til að ná mennsku sinni eða endurheimta sakleysi sitt. Oftar en ekki felst karþasis í þjáningu ef ekki dauða. Karþasishugmyndarinnar gætir mjög í Köldu stríði þar sem skáldið finnur sárt til óhreinleika og glataðs sakleysis samtíðar sinnar og staðhæfir að það sé ekki mannsblóð sem renni um æðar hennar heldur hnígi þar mórautt skólp „… tóbak og kaffi og brennivín“ sem nóg var af í kjölfar stríðsins. Í framhaldinu spyr skáldið:

Þurfum vér þá svipuhögg í andlitið
þarf að brenna land vort
svívirða konur vorar
henda börn vor á byssustingjum
til þess að blóð vort verði rautt og heitt …

— — —

Verður blóð vort þá fyrst rautt og heitt og lifandi
þegar vér liggjum helsærðir í valnum
og það fossar niður í rúst vorrar glötuðu ættjarðar?8Jóhannes úr Kötlum 1976: 58-59. Karþasis-hugsunin virðist líka koma fram í Ragnarökum. Jóhannes úr Kötlum 1976: 36.

Trúarleg ljóð

Þau ljóð sem flokkast beinlínis sem trúarleg þegar rýnt er í efnissnið þeirra eru hið eiginlega viðfangsefni þessarar greinar. Í sambandi við þau verður þó vikið að ljóðum úr öðrum flokkum sem varpað geta frekara ljósi á þau.

Stefin sem fyrir koma í trúarlegum ljóðum Sjödægru eru að sumu leyti ný miðað við tímabilið fram til Sóleyjarkvæðis. Hér eru María mey, Kristur, dauðinn og upprisan í forgrunni. Af þessum stefjum var Kristur mjög fyrirferðarmikill á fyrra tímabilinu en mun síður í Sjödægru. Þegar um Maríu er að ræða væri e.t.v. réttara að segja að það sé móðurímyndin, guðsmóðirin og móðir skáldsins, sem ort sé um og renna þær stundum saman í eina og sömu persónu. Móðurstefið er jafnframt fyrirferðarmest af hinum trúarlega hlöðnu stefjum bókarinnar og verður af þeim sökum fyrst vikið að því.9Móður- og Maríustefin höfðu komið fram áður í kveðskap Jóhannesar, m.a. má benda á tvö mjög ólík ljóð. Í Til mömmu í Bí bí og blaka (1926) hugsar ljóðmælandinn til æsku sinnar og ekki síst þess trúaruppeldis sem það fékk. Þar er þráfaldlega vísað í sálminn Ó, Jesú, bróðir besti. Jóhannes úr Kötlum 1972: 138-189. Í hinu ljóðinu hefur móðurímyndin víðtækari merkingu og nær í senn yfir Maríu guðsmóður og heimsbyltinguna sem leiða mun til friðar og réttlætis. Er hér átt við ljóðið Kom til mín í Sól tér sortna (1945). þar ákallar ljóðmælandinn „móður allra þjóða“ og „móður guðs og manna“ er hann biður að koma til sín „með lausnarann í fangi“. Lokaerindi ljóðsins er mikilvægt.: „Fest þú upp á himin blá/þinn friðarboga/yfir bleikum Kænugarði,/þar sem hjörtun loga./Kom til mín, því ég er allt, sem þjáist.“ Jóhannes úr Kötlum 1974: 63. Í þessu ljóði eins og ýmsum öðrum ljóðum Jóhannesar má greina vísanir í þjóðkvæði og og þulur. Er Sóleyjarkvæði e.t.v eitt besta dæmið um slíkt. Í þessu ljóði biður hann t.d. móður guðs og manna að koma til sín „… að kemba ullu nýja.“ Sama heimild: 61 Tilvísun í þuluna Tunglið, tunglið taktu mig kemur fyrir í fleiri ljóðum Jóhannesar. Kvæðabálkurinn Mannssonurinn er að stofni til frá svipuðum tíma. Þar heitir síðasta ljóðið Móðirin og fjallar um Maríu. Annað síðasta erindi þess er þannig: „Móðirin, upphaf og endir mannanna sona/– allra sem rísa og líka hinna sem falla –/áfram um veg hinna eilífu þjáninga gekk.“ Jóhannes úr Kötlum 1973: 41. Þarna er því ort um Mater dolorosa (sjá síðar). Lokaerindið er einnig athyglisvert í ljósi þess að í Sjödægru ræðir Jóhannes um Maríu guðsmóður: „Hún var ei guðsmóðir, heldur sú fávísa kona,/heilög í anda, sem trúði og vonaði á alla,/en pínu og dauða síns ljúflings að launum fékk.“ Jóhannes úr Kötlum 1973: 41. Sjá og Hjalti Hugason 2004:83. Silja Aðalsteinsdótir (2004:236) hefur bent á að María hafi verið vinsælt viðfangsefni skálda um 1940. það er ugglaust rétt en skýrir þó ekki Maríu-skáldskap Jóhannesar úr Kötlum nema að litlu leyti og alls ekki í ljóði eins og t.d. Mater dolorosa.

María – Móðirin

Í Nóttleysu kveður skáldið um land sitt, fagurey, og lýsir ljóðið landssýn, því andartaki er landið rís úr sæ, og að líkindum úr suðri.10Eysteinn Þorvaldsson 1971: 43. Í upphafserindinu er landinu líkt við Maríu guðsmóður og liggur Maríustefið hér frekar í myndsniði ljóðsins en efnissniði þess:

Hrein eins og jómfrúin móðir guðs
þenur sín hvelfdu brjóst
úr silfurkeri marar
upp í jónsmessunnar himinlind
mín nakta ey.11Jóhannes úr Kötlum 1976: 50.

Það er raunsætt að kalla Ísland hina nöktu eyju. Nekt „fagureyjar“ tengist þó ekki kulda og klæða- eða gróðurleysi enda ríkir náttleysa Jónsmessunnar. Nektin er þvert á móti „sensúell“ en sú kennd kemur oft fram í ljóðum Jóhannesar um Maríu mey. Eitt skýrasta dæmið er að líkindum ljóðið um boðun Maríu í kvæðabálkinum Mannssyninum.12Jóhannes úr Kötlum 1973: 11. Þessi „sensúalismi“ verður þó hvergi það sterkur að hann snúist yfir í andhverfu sína sem er girnd og varpar því ekki skugga á hreinleika jómfrúarinnar.

Þá er athyglisvert að hér kallar skáldið ekki jómfrúna móður Krists eða Jesú (líkt og fram kemur í Jesús Maríuson) heldur nefnir hana guðsmóðurina. Þetta er auðvitað algengt í íslensku máli og byggir á hefð frá fyrstu öldum kristni sem fléttaðist mjög inn í kristsfræðideilur fyrri alda. Vegna þessarar hefðar er ekki mögulegt að lesa neina ákveðna játningu á guðdómi Krists inn í ljóðið en hjá Jóhannesi fær Kristur oftast á sig næsta mennska mynd. Annars kemur sterk náttúrudulhyggja fram í ljóðinu þar sem ljóðmælandinn segir hjarta sitt lítinn fugl sem tístir af gleði, sál sín milda hafrænu og auga sitt þá skuggjá er speglar hamingju landsins. Skáldið samsamar sig þannig landinu og náttúru þess, verður eitt með því.13Sama náttúrudulhyggja kemur fram í Augnabliksmynd. Jóhannes úr Kötlum 1976: 89. Guðsmóðir er á gríska frummálinu theotokos sem stundum var þýtt með guðsgetandi í fornu máli íslensku. Benda má á að í ljóðinu nefnir skáldið bæði hjarta sitt og auga en hvort tveggja voru mikilvæg tákn í Sjödægru. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 41.

Í Góðviðri er aftur á móti enginn vafi á að Maríu-stefið er hluti af efnissniði ljóðsins og gegnir þar lykilhlutverki. Ljóðið hefst á ljóðrænni lýsingu á óttu á sumri þar sem sólin er persónugervingur Maríu meyjar.14Eysteinn Þorvaldsson 1971: 35. Annað erindið einkennist af sama „sensúalisma“ og að framan greinir. Nú er María þó ekki í hlutverki móðurinnar heldur himnadrottingarinnar (Regina coeli):

Og María – sú jómfrú eilífleg –
úr hvílu rís
jafn hrein sem blómið eftir sæla nótt
í faðmi guðs.15Jóhannes úr Kötlum 1976: 33.

Þegar Maríu verður litið út um glugga himinsins til jarðarinnar hverfist ljóðið úr ljúfsárri morgunlýsingu í miskunnarlausan aldarpegil. Hún sér valköst rísa úr hafi blóðs og þekkir þar þjóð sína sem myrt hefur verið af böðlum helfararinnar. Við þessa sjón varpar sjálf María fram spurningunni um þversögnina sem í því felst að hið illa fær leikið lausum hala í veröld sem er bæði sköpuð og endurleyst af Guði að kristnum skilningi. Þessi þversögn er ein sársaukafyllsta gáta kristinnar trúar og kallast á máli guðfræðinnar Theodizeevandamálið eða guðvörn. Felst það í að réttlæta trú á algóðan, almáttugan Guð frammi fyrir hinu illa í tilverunni:

Og sú er forðum upp við krossinn grét
hún hvíslar lágt:
hví gat minn sonur ekki frelsað þig
ó Ísrael?16Jóhannes úr Kötlum 1976: 34.

Síðan dregur hún fyrir gluggann með maríutásum sem spunnar eru úr „… ullu lambs/sem slátrað var“.17Jóhannes úr Kötlum 1976: 34. Myndlíkingin vísar til Lambs Guðs – Agnus Dei – sem m.a. er ákallað í þeim texta kvöldmáltíðarinnar sem farið er með næst á undan því að brauðinu og víninu (holdi og blóði Krists) er veitt viðtaka. Agnus Dei-stefið tengir einnig gyðingdóm og kristni, páskalambið og Krist. Myndar það sterka andstæðu við þá gjá sem helförin og gyðingahatur yfirleitt hafa staðsett milli þessarra trúarbragða.18Eysteinn Þorvaldsson (1971: 36) bendir á hvernig ádeilubroddur ljóðsins skerpist við það að páfastóll lét fjöldamorðin á Gyðingum óátalin meðan á þeim stóð.
Jafndægri á hausti myndar eins konar andstæðu við Nóttleysu. Þar grætur skáldið komu haustsins með „dauðann í gómunum“ og tjáir harm sinn með tilvísun til orða Krists „… sál mín hrygg allt til dauða“.19Matteusarguðspjall 26. 38. Markúsarguðspjall 14. 34. Í síðari hluta lokaerindisins hverfist ljóðið yfir í Maríubæn:

— — —

hugga börn þín sánkti Máría
hugga börnin þín í jarðarskugganum
þú rósan allra ljósa.20Jóhannes úr Kötlum 1976: 52. Rósin er þekkt tákn Maríu og raunar fleiri kvendýrlinga í kristinni táknhefð („íkonógrafíu“). Dahlby 1977: 66-67.

Langviðamesta „móður-ljóðið“ í Sjödægru er Mater dolorosa (hin þjáða móðir) sem höfundurinn orti í minningu móður sinnar, Halldóru Guðbrandsdóttur en hún lést 23. jan. 1945 í hárri elli.21Jóhannes úr Kötlum 1976: 64, 71-72. Hér er litið á þetta ljóð sem vitnisburð um sterkt kristið hugarþel. Eysteinn Þorvaldsson (1971:28) telur það vitna um „tryggð … og trúarkennd gagnvart tilfinningahelgidómi“. Varðandi tengsl skáldsins við móður sína í beinni og yfirfærðri merkingu sjá einnig ljóðið Tvö augu. Jóhannes úr Kötlum 1976: 37. Ljóðið skiptist í 12 mislanga kafla og myndar sérstaka bók en ljóðum Sjödægru er alls skipt í sjö bækur og kann það að ráða nafni hennar.22Eysteinn Þorvaldsson 1971: 39. Mater dolorosa myndar fjórðu bókina og þar með miðhluta og þungamiðju Sjödægru. þegar í heiti ljóðsins og í lokahluta þess samsamar skáldið móður sína við guðsmóðurina.

Við fregnina um móðurmissinn setur skáldið hljótt: „Mín harpa/bærðist ekki það kvöld“ en skáldið grét ekki.23Jóhannes úr Kötlum 1976: 64-65. Í þögn syrgði það móður sína. Æskuminningar vöknuðu til lífs og skáldið hugleiddi stöðu sjálfs sín í heiminum á þessum tímamótum. Frá sjónarhorni djúpsálarfræðinnar kann skáldið að hafa gengið í gegnum ferli sem nefnt er regression. Það fyrirbæri má skilgreina sem afturhvarf til hins bernska æviskeiðs í leit að glötuðum eða ómeðvituðum kjarna eigin sjálfs eða verundar. Oft leiðir ferli af þessu tagi til truflunar á félagslegri færi eintaklings eða veldur honum sálrænum erfiðleikum. Í ljóðinu tekst skáldinu aftur á móti að gefa fyrri æviskeiðum endurnýjaða og dýpkaða merkingu og sættast við orðinn hlut.24Skårderud 2004: 152. Að hyggju djúpsálarfræðingsins C. G. Jungs fól regression í sér afturhvarf einstaklings til róta tilveru sinnar, frumbernskunnar og þeirra kennda sem henni voru samfara, sem og aðlögun að innri veruleika sínum. Slíkt afturhvarf getur að hans hyggju bæði verið neikvætt, þ.e. leitt til félagslegrar hömlunar og sálfræðilegra truflana, og jákvætt, þ.e. haft það í för með sér að einstaklingurinn uppgötvi áður ómeðvitaða afstöðu eða tilfinningar og gefi þeim nýtt gildi. Hark 1999: 197-200. Úr þeim hugrenningum spinnur skáldið síðan ljóðabálk sem víða er skotinn tilvitnunum í helgitexta. Má þar nefna þekktasta útfararsálm þjóðarinnar, sálminn Um dauðans óvissan tíma eða Allt eins og blómstrið eina eins og hann heitir nú á dögum í hugum flestra, Faðir vorið og ritninguna.25Minna vinnubrögðin hér örlítið á Sóleyjarkvæði þótt vart kveði eins rammt að tilvitnunum hér og í því.

Í ljóðinu telur Jóhannes sig hafa þegið af móður sinni frumþætti hugarheims síns og sjálfsmyndar: Trúna, tunguna, sársaukann yfir þeirri fórn sem lífið krefst, fegurðarskynið og loks hugsjónir friðar og frelsis.26Trúin: sjá myndlíkinguna um að móðirin hafi borið hann upp himnastigann. Jóhannes úr Kötlum 1976: 63. Tungan: Sjá ummæli um að tunga móðurinnar hafi verið uppspretta ljóða hans. Sama heimild: 63. Sársaukinn yfir fórninni: Sjá sömu heimild: 67. Fegurðarskynið: Sjá sömu heimild 69-70. það er einkar mikilvægt að Jóhannes skuli líta svo á að hann hafi þegið bæði trú sína og list frá móður sinni þar sem hann var þeirra skoðunar að þetta tvennt gerði manninn að því sem hann er og aðgreindi hann frá öðrum tegundum. Hjalti Hugason 2004: 85. Af móður sinni telur hann sig því hafa þegið mennsku sína. Í 10. kafla bálksins segir skáldið þannig að þegar ungir „bræður“ hans voru allt í einu „… frosin lík/í brunnu grasi“ vegna „stríðsins vitfirrt[a] loga“ hafi móðirin hvatt hann til að stilla hörpu sína upp á nýtt:27Jóhannes úr Kötlum 1976: 70. Sjá og sömu heimild: 72.

— — —

og af rauðum streng
hneig tónaregnið táramjúkt
yfir fjúkandi ösku
hinna föllnu.
Og við snertingu tónanna
flugu hvítar dúfur upp úr valnum:
ást þín á hörpu minni hafði sigrað.28Jóhannes úr Kötlum 1976: 71.

Þetta kemur á óvart þar sem líta má svo á að í róttækum hugsjónum Jóhannesar felist fráhvarf frá þeim gildum sem honum höfðu verið innrætt í bernsku þar á meðal hefðbundinni kristinni trú.29Sjá Hjalti Hugason 2004: 78. Jóhannes virðist ekki hafa verið þeirrar skoðunar sjálfur heldur litið á viðhorfsbreytinguna sem kemur fram í ljóðum hans á styrjaldarárunum sem eðlilegt framhald af æskumótun sinni og áhrif frá móðurinni. Hann virðist ekki meðvitaður um nein róttæk sinnaskipti og kemur þessi sjálfstjáning hans vel saman við þá lýsingu á trúarþeli hans sem vikið var að hér að framan.30Oft er gert of lítið úr hinum trúarlega þætti í kveðskap Jóhannesar og litið á hann sem e.k. uppgerð við hátíðleg tækifæri og sem aðskotahlut í höfundarverkinu. Sjá t. d. Eysteinn Þorvaldsson 2002: 100, 105. Hér skal því aftur á móti haldið fram að um sé að ræða miðlægan þátt í kveðskap Jóhannesar. Þótt Jóhannes virðist ekki hafa litið svo á að hann hafi gengið í gegnum pólitísk sinnaskipti eða gagngera breytingu á lífsviðhorfum kannast hann við djúpstæða ósátt við sjálfan sig og ljóðagerð sína, sem og endurnýjunarþörf er sagt hafi til sín um miðjan 5. áratuginn eða mun síðar en hin meintu sinnaskipti hans hefðu átt sér stað. Sjá Eysteinn Þorvaldsson 1971: 29. Sú ófullnægja kann þó að hafa hrundið af stað víðtækari endurskoðun á lífsviðhorfum þótt Jóhannes hafi e.t.v. sjálfur gengið þess dulinn. Skilja má þessa altæku þakkarskuld sem skáldið telur sig vera í við móður sína út frá kenningum djúpsálarfræðingsins Erik H. Erikson en hann leit svo á að gagnkvæmt samband móður og barns á fyrsta æviskeiði þess væri grundvallandi fyrir tilfinningalíf barnsins og lífsafstöðu síðar á ævinni og legði meðal annars grunn að sjálfsöryggi þess, tengslum þess við umhverfið og guðsmynd þess. Yfir þetta notar hann hugtakið basic trust. Erikson ræðir í framhaldi af því um „heilaga nærveru“ móðurinnar í lífi barnsins sem hann telur leggja grunn að því að barnið sigrist á tilfinningu sinni fyrir að vera yfirgefið og einmana og öðlist um leið vitund fyrir að persónuleg aðgreining þess (frá móðurinni) og sjálfstæð mótun sé viðurkennd. Við þessa reynslu styrkist sjálfsvitund barnsins og samkennd þess með öðrum frammi fyrir hinu altæka „Ég er“ eða hinu fullkomna sjálfi, þ.e. Guði.31Erikson telur „hina heilögu nærveru“ leggja grunn að sérstökum tilfinningalegum tengslum í samspili móður og barns sem varðveitist í huga einstaklingsins eins og numinös (heilagur) þáttur og skapar frumlægasta grunn að upplifun og iðkun hins heilaga. Síðar á ævinni getur þessi reynsla orðið til að styrkja vitund einstaklingsins fyrir eigin sjálfi og samstöðu hans með öðrum t.d. í trúariðkun. Bergstrand 2004: 41- 49. Kann hér að vera komin skýring á hinni ríku samstöðu Jóhannesar með öllu lífi og sérstaklega því lífi sem þjáist. Þessi túlkun kann að renna stoðum undir það að í ljóðinu sé ekki um hina algengu upphafningu syrgjanda á hinum látna að ræða sem oft er gerður heilagur og algóður í sorginni. Ljóðið verður þá vísbending um að tilfinningalegt samband skáldsins við móður sína hafi verið náið og grunnur þess hafi verið lagður á fyrsta æviskeiði þess, að Jóhannes hafi með öðrum orðum búið að því að hafa skynjað hina „heilögu nærveru“ móðurinnar.

Hér og þar í ljóðinu örlar á þeirri mynd sem Jóhannes gerði sér af móður sinni: Hún var sú sól sem hann speglaði sig í, hún elskaði lífið og fegurð þess og innrætti honum þá elsku. Stök erindi úr 5., 6. og 9. kafla endurspegla þetta nánar:

Ásjóna þín ljómaði
var sól dagsins á þeirri stund
austan blakaði laufið á þinn linda.

— — —

Og í þínu hyldjúpa sjáaldri
blikaði á gullinn trega
þeirrar ástar
sem sér í gegnum hóla.

— — —

Þú bentir mér á dýrðina
og ég sá hana endurspeglast
í svip þínum
– loksins varð ég stór.32Jóhannes úr Kötlum 1976: 66, 67, 70.

Fyrsta erindið sem hér er tilfært kann að vísa til einnar fyrstu bernskuminningar Jóhannesar er þau mæðgin sátu úti í sumargrænni náttúrunni. Í kvæðabálkinum eru tveir kaflar sem hafa að geyma yngri æskuminningar Jóhannesar og eru þær af afar ólíkum toga. Í 7. kafla rifjar hann upp kirkjuferð á jólum.33Jólahátíðin virðist hafa verið Jóhannesi afar hugstæð samanber þau mörgu jólaljóð og –kvæði sem hann orti. Kann það að sýna að bernskan og bernskuminningar hafi verið ríkur þáttur í hugarheimi hans en minningar um góð æskujól eru oft meðal helgustu minninga einstaklingsins. Á sama hátt geta dapurlegar minningar um jólahátíðina haft ævilöng neikvæð áhrif. Sjá t. d. Guðrún Friðgeirsdóttir 2002: 105-107. Við kirkjudyrnar hvíslaði móðirin „hér er guð“, barnið hreifst af „undrandi kertaljósunum“, skynjaði bænir hinna auðmjúku sem flögruðu um hvelfinguna, og undraðist manninn með gullkrossinn á bakinu sem söng „drottinn sé með yður“ en „skimaði titrandi“ um allt hið „mikla hús“ í leit að Drottni.34Jóhannes úr Kötlum 1976: 67-68. Þarna var um Hjarðarholtskirkju í Dölum að ræða sem ekki hefur verið stórhýsi á okkar mælikvarða.

Minningin í næsta kafla á eftir er öllu geigvænlegri og tengist ekki jólum heldur páskum þótt ekki komi það fram í þessu ljóði. Hér er um að ræða upprifjun á skelfilegri („trámatískri“) bernskureynslu er hoggið hefur nærri grundvallaröryggi Jóhannesar sem barns og fólst í því að faðir hans, Jónas Jóhannesson (1866-1954), lenti í miklum hrakningum í kaupstaðarferð fyrir hátíðina eins og lýst er í ljóðinu Karl faðir minn (Ég læt sem ég sofi 1932).35Segja má að þetta langa ljóð sé nokkurs konar hliðstæður þakkaróður til föður skáldsins og Mater dolorosa er lofgjörðaróður til móður þess. Í Tímanum 18/1 1940 leit Jónas Jónsson frá Hriflu á þetta ljóð sem háðkvæði. Sjá Eysteinn Þorvaldsson 2002: 96. það er með öllu rangt þar sem í raun er um mikla lofgjörð að ræða bæði um föður Jóhannesar og aðra almúgamenn sem háðu jafnharða lífsbaráttu og hann. Stíll kvæðisins er þó á köflum ákaflega léttur sem myndar andhverfu við þá angist sem það endurspeglar á köflum. Eysteinn Þorvaldsson (2002: 96) telur þetta „tilfinningaríka raunsæislýsingu á lífsbaráttu í örbirgð“ og má fullkomlega taka undir þau orð. Í kaflanum um hrakninga Jónasar föður skáldsins gætir mjög trúarlegra vísana og má þar nefna lokaerindi IV. kafla: „Sá páskadagur var prísund ein,/– ég sá polla af Jesú blóði./ Og þegar hann loksins var liðinn hjá,/ég lofaði guð í hljóði.“ Jóhannes úr Kötlum 1972: 17. Í þessum kafla Mater dolorosa fléttast bænin Faðir vor mjög inn í ljóðið og í málsniði þess fá einmitt orðin „faðir vor“ tvíþætta merkingu þar sem þau ná í senn yfir hinn jarðneska og himneska föður Jóhannesar líkt og María guðsmóðir og Halldóra móðir Jóhannesar renna saman í sumum öðrum hlutum þess.36Jóhannes úr Kötlum 1976: 69. Í 12. og lokakafla ljóðsins fylgir skáldið móður sinni inn í eilífðina og er þar komið að kraftmiklu upprisustefi sem fjallað verður nánar um hér á eftir.

Jesús Maríuson

Þetta er eina kvæðið í bókinni sem fjallar alfarið um Krist en er jafnframt eitt þekktasta ljóð Jóhannesar með trúarlegu ívafi.37Kristur er aftur á móti fyrirferðarmikill í öðrum ljóðabókum Jóhannesar. Hjalti Hugason 2004 Ljóðið einkennist framan af mikilli nánd og dulhyggju en þau fyrirbæri verða ekki sundur skilin þótt þau þurfi auðvitað ekki að birtast bæði í senn eins og hér er raun á. Jesús er besti bróðir ljóðmælandans, býr í hjarta hans og yfirgefur hann aldrei þótt aðrir geri það. Hann er líka eina hlíf ljóðmælanda í hörðum heimi. Í þessu felst nándin og kemur hún fram í efnissniði ljóðsins eða myndar sjálft þema þess. Dulhyggjan kemur aftur á móti fremur fram í mynd- og málsniðinu: Rökkrinu rauða, reykelsinu og austurstjörnunni á sálarglugganum en hún minnir á stjörnuna sem vitringarnir fylgdu að jötu Krists. Nálægð Jesú er því raunveruleg en óræð, huglæg og tilfinningalæg eins og í allri dulhyggju.

Í þriðja erindi samsamar ljóðmælandinn sig Júdasi Ískaríót og böðlum Jesú sem hæddu hann, húðstrýktu og krossfestu. Myndar þetta erindi hvörf í ljóðinu en í tveimur síðustu erindunum glímir skáldið síðan við þverstæðu þess að hinn krossfesti, deyddi Jesús skuli vera svo nálægur þrátt fyrir dauða sinn. Þar gefur skáldið ekkert trúfræðilegt svar sem vísa mundi til upprisunnar heldur bregður fyrir sig dulúð fremur en dulhyggju:38Með dulhyggju er hér átt við trúarlegt fyrirbæri (mystik) sem birtist í því að hið innhverfa og tilfinningalega tekur yfirhönd í trúarlífinu. Með dulúð er aftur á móti vísað til hugmynda um eða tilfinningar fyrir hinu yfirnáttúrulega almennt. Dulúðin þarf því ekki að vera trúarleg heldur getur hún tengist óljósum hugmyndum um einhvern veruleika handan hins efnislega og stundum því sem kallað er hjátrú. „… því hvað oft sem hann deyr þá er eftir eitthvert líf/sem enginn getur drepið“.39Jóhannes úr Kötlum 1976: 23. Þessi orð sýna að þrátt fyrir heiti ljóðsins og þá staðreynd að Kristsheitið er algerlega sniðgengið í ljóðinu er skáldið í raun ekki að yrkja um hinn sögulega Jesú Maríuson heldur „alheimslegan“ eða „kosmískan“ Krist sem stendur utan tíma og rúms, tilheyrir eilífðinni og deyr aftur og aftur, e.t.v. með öllum sem líða og þjást þótt það sé ekki nefnt sérstaklega. Í lokaerindinu bregður skáldið svo á allt annað ráð og talar um Jesú afturgenginn eins og rætt var hér að framan.

Erindið hefst hins vegar á því að ljúka upp tilvistarlegri („exístensískri“) vídd sem bregður í senn upp afdrifaríku andartaki sem skáldið telur að bíði sérhvers manns og varpar ljósi á eðli þess Jesú sem kveðið er um í ljóðinu: „Og Jesús sonur Maríu mætir oss eitt kvöld/sem mannlegleikans kraftur …“.40Jóhannes úr Kötlum 1976: 23. Skáldið væntir þess með öðrum orðum að nálægð Jesú muni skyndilega verða raunverulegri í lífi sérhvers manns en í fyrri hlutanum þar sem nálægðinni er lýst á andlegum nótum dulhyggjunnar. Þá muni eðli Jesú opinberast sem frumkraftur eða frummynd mennskunnar. Hér mætum við e.t.v. dulbúnu endurkomustefi kristninnar sem boðar að við endi aldanna muni Kristur birtast sem almáttkur dómari og „dómstól í skýjum setj[a]“ sinn.41Passíusálmar 27. 11. Er hér um kjarna kristinnar „eskatólógíuí hefðbundinni, goðsagnalegri (mytólógískri) mynd að ræða sem kemur hvað best fram í Opinberunarbók Jóhannesar. Í ljóðinu er sjónarhornið þó allt tímanlegra og veraldlegra þar sem ekki er gefið í skyn að um endalok þessa heims verði að ræða heldur miklu fremur að sannleikurinn um mennskuna og skyldur mannsins í heiminum muni renna upp fyrir einstaklingnum en það samræmist útleggingum margra nútímaguðfræðinga á „eskatólógíunni“. Væri því e.t.v ekki úr vegi að skoða ljóðið sem „Opinberunarbók Jóhannesar úr Kötlum“! En hver er sá Jesús sem er besti bróðirinn en mun jafnframt eitt sinn mæta okkur sem frummynd mennskunnar? Í þessu lokaerindi kemur Jesús fyrst og fremst fram sem maður, manneðli hans er í forgrunni, hann er í raun sjálft manneðlið. Hér er holdtekning Guðs í Jesú Kristi því ekki inni í myndinni sem kemur heim og saman við það að Jesús er aldrei nefndur Kristur í ljóðinu. Það liggur líka milli hluta hvort sú María sem hann er kenndur við er María guðsmóðir sem Jóhannesi er svo hugleikin í Sjödægru eða bara María kærastan hans Jósefs.

Jóhannes úr Kötlum var mikill húmanisti í þeirri merkingu að hann trúði á manninn og möguleika hans til góðs. Þessa trú játaði hann í fjölda lofsöngva sem hann kvað um ýmis mikilmenni sögunnar en þó einnig óþekkta alþýðumenn. Þótti hann stundum fara offari í fyrrnefndu ljóðunum ekki síst þegar goðin féllu af stalli sínum. þekktasta dæmið í þessu lofsöngvasafni er lofgjörðin um Jósef Stalín.42Jóhannes úr Kötlum 1974: 52-59 Einn slíkan lofsöng er einmitt að finna í Sjödægru, ljóðið Kveðja til Kína.

Jóhannes kvað sér það hins vegar nauðsyn að tengja lofgjörð sína um mennskuna við ákveðna einstaklinga þótt slíkt hefði hættu í för með sér. Í fyrri athugun minni á ljóðum Jóhannesar komst ég að þeirri niðurstöðu að í Kristi – í þessu tilviki Jesú Maríusyni – hafi Jóhannes fundið hinn fullkomna persónugerving mennskunnar eða frummynd (erkitypu) mannsins og/eða sjálfsins samkvæmt kenningum djúpsálarfræðingsins C. G. Jungs.43Hjalti Hugason 2004: 85-86. Hér skal sú túlkun áréttuð. því má líta á ljóðið Jesú Maríuson sem einn af mörgum lofsöngvum Jóhannesar um mennskuna en það skipar þá sérstöðu í þeim flokki vegna hinna trúarlegu tenginga sinna. Kann þessi túlkun að skýra hvers vegna Jóhannes kaus að tala um það líf sem enginn getur drepið og afturgöngu Jesú fremur en dauða hans og upprisu sem hefði fjarlægt hann mennskunni og staðsett hann á hinu guðlega plani.

Dauði og upprisa

Víða í Sjödægru kveður Jóhannes um dauðann og upprisuna og eru stefin þá oftar en ekki samofin. Þessu máli gegnir t.d. um kvæðabálkinn Mater dolorosa. Áður en lengra er haldið skal það tekið fram að upprisuhugtakið er hér ekki aðeins notað um atburð heldur líka ákveðið ástand, þ.e. þegar hinn látni er hugsaður inn í guðlega vídd eftir dauða sinn. það gerir Jóhannes einmitt í lokakafla Mater dolorosa þegar hann glímir við spurninguna hvar hin látna móðir sé. Er við hæfi að birta kaflann í heild:

Eigi skal framar spyrja
eigi skal framar leita:
steininum hefur verið velt frá
gröfin er tóm.
Og nú veit ég hvar:
í ríkinu sem varð til
er hinn krossfesti gaf upp andann
þar situr þú og spinnur
bláa geisla í sokk.44Sbr. Tunglið, tunglið taktu mig.

Og með hvítt segl við veðri uppi
mun ég stefna til þín einn dag
handan yfir djúp pínu og dauða:
þá skal harpan verða slegin
þá skulu stjörnunar dansa
og þá skal faðir vor dansa
við þig …45Jóhannes úr Kötlum 1976: 72-73.

Kaflinn hefst með tilvísun til upprisufrásagna guðspjallanna um hina tómu gröf (sbr Markúsarguðspjall 16. 3-4.). Því er fullkomlega réttlætanlegt að skoða þessa lýsingu og aðrar hliðstæðar sem upprisustef. Þá kemur sterk kristin játning fram í þeim orðum skáldsins að hann viti móður sína í guðsríkinu, þ.e. því ríki „sem varð til/er hinn krossfesti gaf upp andann.“ Þessi játning er svo eindregin að hún hleypir í uppnám þeirri staðhæfingu sem sett var fram í upphafi þessarar greinar að Jóhannes hafi ekki verið kristinn í kirkjulegri merkingu. Þar var þó aðeins verið að reyna að lesa í sjálfsmynd hans en ekki setja fram neinn dóm um trú hans. Í lokin er brugðið á leik bæði í orði og hugsun þegar fjallað er um tilveru móðurinnar handan grafar og dauða. Það er gert með mynd af dansiballi þar sem móðirin laus við þjáningu stígur dans við „föður vorn“. Þarna hefur móðir skáldsins samsamast Maríu ekki aðeins í þjáningu hennar eins og kemur fram í heiti ljóðsins og fyrri hluta þess heldur einnig í sælu hennar sem himnadrottningar.46Hér getur ekki verið um orðaleik eða tvíræðni að ræða þar sem vísað væri til endurfunda foreldranna þar sem faðir Jóhannesar var enn á lífi.

Stefin dauði og upprisa fléttast einnig saman í ljóðinu Maður verður úti. Þar kveður Jóhannes um örlög ótölulegs fjölda landa sinna gegnum tíðina en hrakningar á heiðarvegum auk sjávardauða hafa krafist flestra fórna af alþýðu þessa lands. Það kemur enda fram í ljóðinu að það er alþýðumaður í sauðaleit sem í hlut á.47Sjá: „… þræði ég feril/feðra minna/allrar skepnu/auðmjúkur þjónn“. Jóhannes úr Kötlum 1976: 19. Ljóðið kallast þannig á við fjölda þjóðsagna, þjóðlegra frásöguþátta og mannlífslýsinga. þá má benda á að t.d. Aðventa Gunnars Gunnarssonar (1. útg. á ísl. 1939) fjallar um sama stef þótt sögupersónan þar lifi af þrátt fyrir mikla hrakninga. Þá heggur Jóhannes nærri eigin reynsluheimi þegar haft er í huga hversu djúp áhrif lífsháski föður hans hafði á hann og rætt hefur verið um hér að framan. Hin trúarlega vídd kemur fram í myndsniði ljóðsins í fimmta erindi þess þar sem húminu er líkt við það að „skyggi af englavængjum“ hátt yfir höfði öngumannsins.48Jóhannes úr Kötlum 1976: 19. Sambærilegt dæmi er að finna í lok 7. erindis þar sem fönnin sem smalinn fellur í er nefnd „helgur dúnn“.

Í lokaerindinu má hins vegar segja að trúarstefið færist úr myndsniðinu yfir í efnissniðið og fái þar dýpra inntak:

Hvíli ég örmagna
í eilífð hvítri:
fönnugir englar
flögra nær
horfa í augu mér
hvísla í eyru mér
– sígur í brjóst mér
svefn vær.49Jóhannes úr Kötlum 1976: 20.

Dauðinn er því ekki ógnvænlegur eða örvæntingarþrunginn heldur sem vær svefn undir vökulum augum fannbarinna engla.

Loks er í Sjödægru eitt ljóð um upprisuna sjálfa sem atburð og ber einfaldlega heitið Upprisa. Þar er ekki átt við hinn einstaka atburð er Kristur reis frá dauðum heldur þá upprisu sem bíður allra manna. Í ljóðinu falla öll þrjú sniðin sem hér hafa verið notuð sem greiningartæki saman þannig að ljóðið ber í sér túlkun sína með sérstökum hætti:

Hinir dánu koma:
í ljósum slæðum
stíga þeir upp úr brúnni moldinni
sem gullin kvika
tindrar í dagmálaskininu
hið eilífa líf
lífið sem þeir létu fyrir oss.50Jóhannes úr Kötlum 1976: 96.

Hér ber aðeins að árétta að Jóhannes leit á allan dauða sem fórnardauða. Þar hafði dauði Krists enga sérstöðu. Helst það í hendur við áherslu hans á Krist sem frummynd mennskunnar og djúpa samkennd hans með öllu lífi í hvaða mynd sem það birtist í ljóðum hans.51Hér má t.d. vísa til þess að í Mater dolorosa er litið á lömbin sem skorin eru í sláturtíð sem fórnarlömb. Jóhannes úr Kötlum 1976: 67. Þá má benda á ýmsa staði þar sem öreigar eða hermenn er falla í baráttu fyrir friði og frelsi eru álitnir deyja n.k. staðgengilsdauða, þ.e. koma fram sem fórnarlömb. Má líta svo á að hér sé um að ræða afleiðingu af hinni ríku félagshyggju og samhyggð hans sem oft verður að samlíðun þegar hann yrkir um lítilmagnann. Hér má þó einnig minna á þá náttúrudulhyggju sem kemur fram í sumum ljóðum Sjödægru og felur í sér þann skilning að hið heilaga búi í gjövallri náttúrunni.

Ljóð með lauslegum kristnum vísunum

Hér er um ósamstæðan flokk ljóða að ræða sem eiga það eitt sammerkt að hafa að geyma kristnar vísanir ýmist í mál- eða myndsniði sínu. Hér verður aðeins brugðið upp nokkrum dæmum til að fylla frekar út í þá mynd sem dregin hefur verið upp af ljóðunum í Sjödægru.

Hann er kominn er eitt þeirra ljóða sem hvað erfiðast er að flokka samkvæmt því kerfi sem hér er viðhaft og sýnir hversu torvelt er að meðhöndla ljóð út frá inntaksgreiningu. Það er pólitískt og í því er að finna kristna vísun. Þá má færa rök fyrir því að það sé trúarlegt og veltur sú röksemdafærsla á því hvernig hið þrungna fyrirbæri „dagur lifendanna“ er túlkað. Þar gætir beinnar vísunar í kristna „eskatólógíu“ en hér er allt eins mikið um félagslega framtíðarsýn að ræða. Í ljóðinu kemur hins vegar fram klár biblíutilvísun í hin þekktu orð Krists: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu“.52Lúkasarguðspjall 9. 60. Í könnun Eysteins Þorvaldssonar á Sjödægru frá 1971 virðist gæta þeirrar missagnar að lokaerindið úr Hann er kominn sé úr Næturróðri. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 51. Þá segir réttilega að Maríuvers sé úr Eilífðar smáblóm (1940). Eysteinn Þorvaldsson 1971: 36. það var þó síðar fellt úr þeirri bók og varð hluti af ljóðabálkinum Mannssonurinn (1966) og er líklega þekktast þaðan.

Eitt ljóðanna með biblíulega tilvísun, Eden, byggist algerlega á mynd syndafallsins og „dramtíserar“ frásögu Biblíunnar til muna. Ljóðið fellur þó best undir þann flokk ljóða sem hér hefur verið nefndur tilverufræðilegur.53Jóhannes úr Kötlum 1976: 105. E.t.v. ber að líta svo á að karþasis-hugsunin komi hér fram þar sem slangan (höggormurinn) varpar „foreldrum hins ókomna“ á bál en í eldinum skírast þeir hlutir sem ekki brenna til ösku.

Í Eitt kvöld á góu rýnir ljóðmælandinn í stjörnuhvelið og hugleiðir lífsgátuna. Talin eru upp ýmis stjörnumerki: Ljónið, örninn, svanurinn, fjósakonurnar og meyjan sem nefnd er jómfrú í ljóðinu.

Fær sú nafnbreyting aukið vægi við það að inn í upptalninguna er skotið verum sem ekki eru stjörnumerki og eru það lambið og „hinir tólf“. Tilkoma þeirra í hópinn breyta tákngildi þeirra stjörnumerkja sem þau standa næst. Síðari hluti annars erindis hljóðar svo: „… á gullnum hæðum birtast lamb og ljón/og leika sér þar dátt að tíma og rúmi“.54Jóhannes úr Kötlum 1976: 13.

Virðist liggja í augum uppi að hér gætir óbeinnar vísunar í draumsýn spámannsins Jesaja er hans segir:

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardursdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og
smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum; og ljónið mun hey eta sem naut.55Jesaja 11. 6-7.

Þarna brýst því hin vonarríka framtíðasýn Jóhannesar enn einu sinni fram.56Hjalti Hugson 2004: 86 og áfram. Þá er næstsíðasta erindið á þessa leið:

Og hljóðan vörð um upphaf vort og endi
á yztu mörkum standa hinir tólf
en jómfrú svífur sæl um himingólf
og sópar það með norðurljóasvendi.57Jóhannes úr Kötlum 1976: 13.

Standist ofangreind greining liggur nærri að ætla að með hinum tólf sé átt við postulana. Það skýrir nafnbreytinguna á meyjarmerkinu sem breytir því í Maríu-tákn sem samræmist vel því hve hugleikin hún er Jóhannesi í bókinni. Hér minnir orðalag Jóhannnesar annars mjög á alþekka jólavísu og sýnir þá gamansemi sem hann gaf oft lausan taum í kveðskap sínum.

Homo sapiens er eitt hinna tilverufræðilegu ljóða Sjödægru þar sem karþasis-hugmyndin kemur skýrt fram.58Sjá t.d. „… í deiglu skal brenndur úr oss/sorinn …“ Jóhannes úr Kötlum 1976: 48. Þar er vísað í síðari sköpunarsögu I. Mósebókar þar sem ljóðmælandinn kveðst vera „tvífætt leirstytta með anda höfundar síns í nösunum“.59Bent skal á að Mósebækur eru safnrit sem steypt er saman úr misaldra heimildum eða frumritum. Í fyrstu köflum I. Mósebókar (Genesis (sköpun) er að finna tvær sköpunarsögur úr tveimur mismunandi heimildum. Sú fyrri (í fyrsta kap. bókarinnar) segir að Drottinn allsherjar hafi skapað heiminn á sex dögum með orði einu saman. Hin síðari (í öðrum kap.) segir að hann hafi mótað karlinn af leiri jarðar og blásið honum lífsanda í brjóst en síðan skapað konuna úr rifi hans. Síðar í ljóðinu segir skáldið að eftir hreinsunina eða endurnýjunina muni börn sín bera þær skeljar sem hann „forðum braut og týndi“ (þ. e. leikföng bernskunnar og tákn hins glataða sakleysis). „ … inn í ljósríkið sem/kemur… .“60Jóhannes úr Kötlum 1976: 48.

Hér er Jóhannes enn að kveða um framtíðarlandið og í ljósi annarra ljóða í Sjödægru virðist ekki fráleitt að setja jafnaðarmerki milli þess og guðsríkisins „ … sem varð til/er hinn krossfesti gaf upp andann… .“61Jóhannes úr Kötlum 1976: 72.

Í Atómljóði að handan koma fram vísanir í köllunarfrásögu Móse í I. Mósebók er Guð birtist honum í logandi þyrnirunni sem brann þó ekki.62Vera má að í ljóðinu gæti einnig óbeinnar vísunar í lokakapítula Prédikarans þar sem rætt er um „vondu dagana“ þegar silfurþráðurinn slitnar. Prédikarinn 12. 6. Jóhannes úr Kötlum 1976: 109-110. Ljóðið fjallar um aftöku Julius og Ethel Rosenberg sem voru tekin af lífi í rafmagnsstóli í Bandaríkjunum. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 47. Voru þau fyrstu amerísku þegnarnir sem voru teknir af lífi fyrir meintar njósnir á friðartímum en þeim var gefið að sök að hafa veitt Sovétmönnum upplýsingar um Manhattanáætlun Bandaríkjamanna um smíði atómsprengjunnar. Ljóðið er því eitt af pólitískum ljóðum bókarinnar.

Í Lofsögn um þá hógværu gætir trúarlegrar vísunar þar sem sagt er að „eðli þess [hins allslausa fólks sé] fórn“ þó ekki „sú sem lögð er á altari/heldur hin sem er alstaðar nálæg“ sem og í óbeinni biblíutilvísun: „Sannarlega lifir þetta fólk ekki á einu saman brauði … .“63Matteusarguðspjall 4. 4. Jóhannes úr Kötlum 1976:86.

Í hinu mikla lokaljóði bókarinnar Í Hoddmímisholti sem er tilverufræðilegt ljóð með sterkar vísanir í norrænan trúararf eins og heitið gefur til kynna má þó einnig finna kristnar vísanir. Fyrsta erindið hefst þó á óbeinni vísun til brýningarorða Krists til lærisveina sinnar „þér eruð ljós heimsins…“ og ávarpsorða hans til þeirra er hann mætti þeim upprisinn: „Friður sé með yður…“64Matteusarguðspjall 5. 14. Lúkasarguðspjall 24. 36. Jóhannesarguðspjall 20. 19, 21. Jóhannes úr Kötlum 1976: 124.

Lokaorð

Í Sjödægru glímir Jóhannes úr Kötlum við trúarlegar og tilverufræðilegar spurningar í ríkari mæli en nokkurri fyrri ljóðabóka sinna. Í bókinni gætir líka enn hinnar félagspólitísku hugsjónabaráttu (etos) sem einkenndi mjög sumar fyrri bókanna (Hart er í heimi, Sól tér sortna og Sóleyjarkvæði). Þótt hér sé greint á milli þessarra þriggja sviða, trúar, tilverufræði og pólitíkur, er ekkert sem bendir til að Jóhannes hafi sjálfur talið þann greinarmun mikilvægan. Trú hans var pólitísk, pólitík hans var trúarleg og undir formerkjum beggja glímdi hann við spurningar um tilveru manns og heims, ekki síst réttlætið í þeirri tilveru.

Ljóðin í bókinni eru ort í kviku þeirra formtilrauna sem Jóhannes glímdi við á fimmta áratugi aldarinnar og gera það að verkum að form og inntak þeirra spila betur saman og mynda oft sannfærandi og heillandi einingu ólíkt ýmsum eldri ljóðum höfundar þar sem hugsunin, inntakið og boðskapurinn bar formið stundum ofurliði. Til þess að skynja þessa einingu forms og inntaks verður enda að lesa ljóðin sjálf en ekki umfjöllun um þau.

Þann trúarlega þátt sem fram kemur í bókinni ber ekki að skilja sem boðskap. Jóhannes predikar ekki í bókinni. Hér er miklu frekar um umþenkingar, íhuganir, játningar eða afhjúpanir að ræða, sumar e.t.v. ómeðvitaðar. Skáldið opinberar hugarheim sinn í ljóðunum og trú skiptir verulegu máli í þeim hugarheimi sem þar blasir við. Þá ber þess að geta að Jóhannes er í sumu tilliti mun nær hefðbundnum kristnum skilningi í Sjödægru en sumum fyrri bókum sínum. Kemur þetta einkar skýrt í ljós í Mater dolorosa. Fyrir því kunna að vera djúpsálarfræðilegar ástæður, þ. e. að í þeirri úrvinnslu á sorg og trega sem hann fór í gegnum við lát móður sinnar hafi hann horfið til baka til hins bernska æviskeiðs og þar með þeirrar bernskutrúar sem hún innrætti honum.

Mögulegt er að skoða annað ljóð bókarinnar í ljósi djúpsálarfræðinnar og er það Jesús Maríuson. Það er einnig það ljóð bókarinnar sem helst verður kallað boðandi eða predikandi þar sem það höfðar svo sterkt til lesandans með áskorun um að endurskoða afstöðu sína til Jesú óháð því hver hún er.

Í fyrri athugun minni á kveðskap Jóhannesar úr Kötlum var áhersla lögð á að hann hafi gengið í gegnum pólitísk sinnaskipti á árunum milli 1930 og 1940 og þau hafi leitt hann frá hefðbundinni kristinni trú. Sú túlkun á sér langa sögu. Í Sjödægru (sjá Mater dolorosa) virðist Jóhannes sjálfur ekki deila þeim skilningi heldur hafa litið svo á að þróun sín sem skálds og hugsuðar hafi verið samfelld og órofin.

Síðan er það annað mál hvor hafi „á réttu að standa“ skáldið eða túlkendur þess!

Flokkun ljóða í Sjödægru út frá efnissniði

Flokkunin tekur ekki til allra ljóða bókarinnar heldur aðeins þeirra sem koma til álita í þessari grein eða vekja sérstaka athygli séð út frá því sjónarhorni sem efnissniðið felur í sér (þ.e. flytja boðskap eða hafa skýrt þema).

Hvert ljóð getur fallið undir fleiri en einn flokk.

Pólitísk ljóð
Þú leggst í grasið
Ragnarök
Kveðið vestur á Granda
Hann er kominn
Kalt stríð
Kveðja til Kína
Lofsöngur um þá hógværu
Heimur í smíðum
Atómljóð að handan

Trúarleg ljóð
Maður verður úti
Jesús Maríuson
Góðviðri
Nóttleysa
Jafndægri á haust
Hann er kominn
Mater dolorosa
Upprisa

Ljóð með lauslegum kristnum vísunum
Eitt kvöld á góu
Rauðsendingadans
Næturóður
Homo sapiens
Hann er kominn
Kafarar
Lofsöngur um þá hógværu
Eden
Atómljóð að handan
Í Hoddmímisholti

Ljóð með trúarlegum stefjum úr öðrum átrúnaði en kristni
Ragnarök (norrænn átrúnaður)
Augnabilsmynd (náttúrumystík/algyðistrú)
Fuglar tímans (mytologia)
Heimur í smíðum (Demiurgus)
Eden
Baldur hinn góði (norrænn átrúnaður)
Torrek (norrænn átrúnaður)
Í Hoddmímisholti (norrænn átrúnaður o. fl.)

Tilverufræðileg ljóð
Eitt kvöld á góu
Þú leggst í grasið
Ragnarök
Homo sapiens
Auganbilsmynd
Fuglar tímans
Heimur í smíðum
Börn Atlantiss
Eden
Örlög
Í Hoddmímisholti

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Árni Svanur Daníelsson

Árni Svanur Daníelsson starfaði sem verkefnisstjóri og sérþjónustuprestur á Biskupsstofu en þjónar nú sókninni í Reynisvallaprestakalli. Hann er líka ansi góður ljósmyndari.

Tilvísanir

   [ + ]

1. Hjalti Hugason 2004.
2. Á það skal minnt að Sjödægra er ákaflega blandað og misaldra rit. Mörg ljóðanna höfðu birst áður í Tímariti Máls og menningar og öðrum tímaritum allt frá árinu 1945 og eru því eldri en mörg ljóðanna sem fjallað var um í fyrri ritgerð minni. Sjá Jóhannes úr Kötlum 1976: 213-214. Hér verða því engar ályktanir dregnar um þróun hugmynda en vakin athygli á að umfjöllunarefni greinanna skarast í tíma. Greinarnar gefa því fremur svipmyndir af ferli Jóhannesar en heildstæða sýn á höfundarverk hans.
3. Jóhannes úr Kötlum 1976: 24.
4. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 33. Eysteinn segir réttilega að Sjödægra sé „… spegilmynd manns og heims, einkum áratuginn 1945-1955.“ Sama heimild: 39. Sjá og sömu heimild: 45, 53. Sjá og Sjá Eysteinn Þorvaldsson 2002: 103, 106.
5. Jóhannes úr Kötlum 1976:104.
6. Jóhannes úr Kötlum 1976: 48.
7. Jóhannesarguðspjall 12. 24.
8. Jóhannes úr Kötlum 1976: 58-59. Karþasis-hugsunin virðist líka koma fram í Ragnarökum. Jóhannes úr Kötlum 1976: 36.
9. Móður- og Maríustefin höfðu komið fram áður í kveðskap Jóhannesar, m.a. má benda á tvö mjög ólík ljóð. Í Til mömmu í Bí bí og blaka (1926) hugsar ljóðmælandinn til æsku sinnar og ekki síst þess trúaruppeldis sem það fékk. Þar er þráfaldlega vísað í sálminn Ó, Jesú, bróðir besti. Jóhannes úr Kötlum 1972: 138-189. Í hinu ljóðinu hefur móðurímyndin víðtækari merkingu og nær í senn yfir Maríu guðsmóður og heimsbyltinguna sem leiða mun til friðar og réttlætis. Er hér átt við ljóðið Kom til mín í Sól tér sortna (1945). þar ákallar ljóðmælandinn „móður allra þjóða“ og „móður guðs og manna“ er hann biður að koma til sín „með lausnarann í fangi“. Lokaerindi ljóðsins er mikilvægt.: „Fest þú upp á himin blá/þinn friðarboga/yfir bleikum Kænugarði,/þar sem hjörtun loga./Kom til mín, því ég er allt, sem þjáist.“ Jóhannes úr Kötlum 1974: 63. Í þessu ljóði eins og ýmsum öðrum ljóðum Jóhannesar má greina vísanir í þjóðkvæði og og þulur. Er Sóleyjarkvæði e.t.v eitt besta dæmið um slíkt. Í þessu ljóði biður hann t.d. móður guðs og manna að koma til sín „… að kemba ullu nýja.“ Sama heimild: 61 Tilvísun í þuluna Tunglið, tunglið taktu mig kemur fyrir í fleiri ljóðum Jóhannesar. Kvæðabálkurinn Mannssonurinn er að stofni til frá svipuðum tíma. Þar heitir síðasta ljóðið Móðirin og fjallar um Maríu. Annað síðasta erindi þess er þannig: „Móðirin, upphaf og endir mannanna sona/– allra sem rísa og líka hinna sem falla –/áfram um veg hinna eilífu þjáninga gekk.“ Jóhannes úr Kötlum 1973: 41. Þarna er því ort um Mater dolorosa (sjá síðar). Lokaerindið er einnig athyglisvert í ljósi þess að í Sjödægru ræðir Jóhannes um Maríu guðsmóður: „Hún var ei guðsmóðir, heldur sú fávísa kona,/heilög í anda, sem trúði og vonaði á alla,/en pínu og dauða síns ljúflings að launum fékk.“ Jóhannes úr Kötlum 1973: 41. Sjá og Hjalti Hugason 2004:83. Silja Aðalsteinsdótir (2004:236) hefur bent á að María hafi verið vinsælt viðfangsefni skálda um 1940. það er ugglaust rétt en skýrir þó ekki Maríu-skáldskap Jóhannesar úr Kötlum nema að litlu leyti og alls ekki í ljóði eins og t.d. Mater dolorosa.
10. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 43.
11. Jóhannes úr Kötlum 1976: 50.
12. Jóhannes úr Kötlum 1973: 11.
13. Sama náttúrudulhyggja kemur fram í Augnabliksmynd. Jóhannes úr Kötlum 1976: 89. Guðsmóðir er á gríska frummálinu theotokos sem stundum var þýtt með guðsgetandi í fornu máli íslensku. Benda má á að í ljóðinu nefnir skáldið bæði hjarta sitt og auga en hvort tveggja voru mikilvæg tákn í Sjödægru. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 41.
14. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 35.
15. Jóhannes úr Kötlum 1976: 33.
16. Jóhannes úr Kötlum 1976: 34.
17. Jóhannes úr Kötlum 1976: 34.
18. Eysteinn Þorvaldsson (1971: 36) bendir á hvernig ádeilubroddur ljóðsins skerpist við það að páfastóll lét fjöldamorðin á Gyðingum óátalin meðan á þeim stóð.
19. Matteusarguðspjall 26. 38. Markúsarguðspjall 14. 34.
20. Jóhannes úr Kötlum 1976: 52. Rósin er þekkt tákn Maríu og raunar fleiri kvendýrlinga í kristinni táknhefð („íkonógrafíu“). Dahlby 1977: 66-67.
21. Jóhannes úr Kötlum 1976: 64, 71-72. Hér er litið á þetta ljóð sem vitnisburð um sterkt kristið hugarþel. Eysteinn Þorvaldsson (1971:28) telur það vitna um „tryggð … og trúarkennd gagnvart tilfinningahelgidómi“. Varðandi tengsl skáldsins við móður sína í beinni og yfirfærðri merkingu sjá einnig ljóðið Tvö augu. Jóhannes úr Kötlum 1976: 37.
22. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 39.
23. Jóhannes úr Kötlum 1976: 64-65.
24. Skårderud 2004: 152. Að hyggju djúpsálarfræðingsins C. G. Jungs fól regression í sér afturhvarf einstaklings til róta tilveru sinnar, frumbernskunnar og þeirra kennda sem henni voru samfara, sem og aðlögun að innri veruleika sínum. Slíkt afturhvarf getur að hans hyggju bæði verið neikvætt, þ.e. leitt til félagslegrar hömlunar og sálfræðilegra truflana, og jákvætt, þ.e. haft það í för með sér að einstaklingurinn uppgötvi áður ómeðvitaða afstöðu eða tilfinningar og gefi þeim nýtt gildi. Hark 1999: 197-200.
25. Minna vinnubrögðin hér örlítið á Sóleyjarkvæði þótt vart kveði eins rammt að tilvitnunum hér og í því.
26. Trúin: sjá myndlíkinguna um að móðirin hafi borið hann upp himnastigann. Jóhannes úr Kötlum 1976: 63. Tungan: Sjá ummæli um að tunga móðurinnar hafi verið uppspretta ljóða hans. Sama heimild: 63. Sársaukinn yfir fórninni: Sjá sömu heimild: 67. Fegurðarskynið: Sjá sömu heimild 69-70. það er einkar mikilvægt að Jóhannes skuli líta svo á að hann hafi þegið bæði trú sína og list frá móður sinni þar sem hann var þeirra skoðunar að þetta tvennt gerði manninn að því sem hann er og aðgreindi hann frá öðrum tegundum. Hjalti Hugason 2004: 85. Af móður sinni telur hann sig því hafa þegið mennsku sína.
27. Jóhannes úr Kötlum 1976: 70. Sjá og sömu heimild: 72.
28. Jóhannes úr Kötlum 1976: 71.
29. Sjá Hjalti Hugason 2004: 78.
30. Oft er gert of lítið úr hinum trúarlega þætti í kveðskap Jóhannesar og litið á hann sem e.k. uppgerð við hátíðleg tækifæri og sem aðskotahlut í höfundarverkinu. Sjá t. d. Eysteinn Þorvaldsson 2002: 100, 105. Hér skal því aftur á móti haldið fram að um sé að ræða miðlægan þátt í kveðskap Jóhannesar. Þótt Jóhannes virðist ekki hafa litið svo á að hann hafi gengið í gegnum pólitísk sinnaskipti eða gagngera breytingu á lífsviðhorfum kannast hann við djúpstæða ósátt við sjálfan sig og ljóðagerð sína, sem og endurnýjunarþörf er sagt hafi til sín um miðjan 5. áratuginn eða mun síðar en hin meintu sinnaskipti hans hefðu átt sér stað. Sjá Eysteinn Þorvaldsson 1971: 29. Sú ófullnægja kann þó að hafa hrundið af stað víðtækari endurskoðun á lífsviðhorfum þótt Jóhannes hafi e.t.v. sjálfur gengið þess dulinn.
31. Erikson telur „hina heilögu nærveru“ leggja grunn að sérstökum tilfinningalegum tengslum í samspili móður og barns sem varðveitist í huga einstaklingsins eins og numinös (heilagur) þáttur og skapar frumlægasta grunn að upplifun og iðkun hins heilaga. Síðar á ævinni getur þessi reynsla orðið til að styrkja vitund einstaklingsins fyrir eigin sjálfi og samstöðu hans með öðrum t.d. í trúariðkun. Bergstrand 2004: 41- 49. Kann hér að vera komin skýring á hinni ríku samstöðu Jóhannesar með öllu lífi og sérstaklega því lífi sem þjáist.
32. Jóhannes úr Kötlum 1976: 66, 67, 70.
33. Jólahátíðin virðist hafa verið Jóhannesi afar hugstæð samanber þau mörgu jólaljóð og –kvæði sem hann orti. Kann það að sýna að bernskan og bernskuminningar hafi verið ríkur þáttur í hugarheimi hans en minningar um góð æskujól eru oft meðal helgustu minninga einstaklingsins. Á sama hátt geta dapurlegar minningar um jólahátíðina haft ævilöng neikvæð áhrif. Sjá t. d. Guðrún Friðgeirsdóttir 2002: 105-107.
34. Jóhannes úr Kötlum 1976: 67-68.
35. Segja má að þetta langa ljóð sé nokkurs konar hliðstæður þakkaróður til föður skáldsins og Mater dolorosa er lofgjörðaróður til móður þess. Í Tímanum 18/1 1940 leit Jónas Jónsson frá Hriflu á þetta ljóð sem háðkvæði. Sjá Eysteinn Þorvaldsson 2002: 96. það er með öllu rangt þar sem í raun er um mikla lofgjörð að ræða bæði um föður Jóhannesar og aðra almúgamenn sem háðu jafnharða lífsbaráttu og hann. Stíll kvæðisins er þó á köflum ákaflega léttur sem myndar andhverfu við þá angist sem það endurspeglar á köflum. Eysteinn Þorvaldsson (2002: 96) telur þetta „tilfinningaríka raunsæislýsingu á lífsbaráttu í örbirgð“ og má fullkomlega taka undir þau orð. Í kaflanum um hrakninga Jónasar föður skáldsins gætir mjög trúarlegra vísana og má þar nefna lokaerindi IV. kafla: „Sá páskadagur var prísund ein,/– ég sá polla af Jesú blóði./ Og þegar hann loksins var liðinn hjá,/ég lofaði guð í hljóði.“ Jóhannes úr Kötlum 1972: 17.
36. Jóhannes úr Kötlum 1976: 69.
37. Kristur er aftur á móti fyrirferðarmikill í öðrum ljóðabókum Jóhannesar. Hjalti Hugason 2004
38. Með dulhyggju er hér átt við trúarlegt fyrirbæri (mystik) sem birtist í því að hið innhverfa og tilfinningalega tekur yfirhönd í trúarlífinu. Með dulúð er aftur á móti vísað til hugmynda um eða tilfinningar fyrir hinu yfirnáttúrulega almennt. Dulúðin þarf því ekki að vera trúarleg heldur getur hún tengist óljósum hugmyndum um einhvern veruleika handan hins efnislega og stundum því sem kallað er hjátrú.
39. Jóhannes úr Kötlum 1976: 23.
40. Jóhannes úr Kötlum 1976: 23.
41. Passíusálmar 27. 11.
42. Jóhannes úr Kötlum 1974: 52-59
43. Hjalti Hugason 2004: 85-86.
44. Sbr. Tunglið, tunglið taktu mig.
45. Jóhannes úr Kötlum 1976: 72-73.
46. Hér getur ekki verið um orðaleik eða tvíræðni að ræða þar sem vísað væri til endurfunda foreldranna þar sem faðir Jóhannesar var enn á lífi.
47. Sjá: „… þræði ég feril/feðra minna/allrar skepnu/auðmjúkur þjónn“. Jóhannes úr Kötlum 1976: 19. Ljóðið kallast þannig á við fjölda þjóðsagna, þjóðlegra frásöguþátta og mannlífslýsinga. þá má benda á að t.d. Aðventa Gunnars Gunnarssonar (1. útg. á ísl. 1939) fjallar um sama stef þótt sögupersónan þar lifi af þrátt fyrir mikla hrakninga.
48. Jóhannes úr Kötlum 1976: 19. Sambærilegt dæmi er að finna í lok 7. erindis þar sem fönnin sem smalinn fellur í er nefnd „helgur dúnn“.
49. Jóhannes úr Kötlum 1976: 20.
50. Jóhannes úr Kötlum 1976: 96.
51. Hér má t.d. vísa til þess að í Mater dolorosa er litið á lömbin sem skorin eru í sláturtíð sem fórnarlömb. Jóhannes úr Kötlum 1976: 67. Þá má benda á ýmsa staði þar sem öreigar eða hermenn er falla í baráttu fyrir friði og frelsi eru álitnir deyja n.k. staðgengilsdauða, þ.e. koma fram sem fórnarlömb.
52. Lúkasarguðspjall 9. 60. Í könnun Eysteins Þorvaldssonar á Sjödægru frá 1971 virðist gæta þeirrar missagnar að lokaerindið úr Hann er kominn sé úr Næturróðri. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 51. Þá segir réttilega að Maríuvers sé úr Eilífðar smáblóm (1940). Eysteinn Þorvaldsson 1971: 36. það var þó síðar fellt úr þeirri bók og varð hluti af ljóðabálkinum Mannssonurinn (1966) og er líklega þekktast þaðan.
53. Jóhannes úr Kötlum 1976: 105. E.t.v. ber að líta svo á að karþasis-hugsunin komi hér fram þar sem slangan (höggormurinn) varpar „foreldrum hins ókomna“ á bál en í eldinum skírast þeir hlutir sem ekki brenna til ösku.
54. Jóhannes úr Kötlum 1976: 13.
55. Jesaja 11. 6-7.
56. Hjalti Hugson 2004: 86 og áfram.
57. Jóhannes úr Kötlum 1976: 13.
58. Sjá t.d. „… í deiglu skal brenndur úr oss/sorinn …“ Jóhannes úr Kötlum 1976: 48.
59. Bent skal á að Mósebækur eru safnrit sem steypt er saman úr misaldra heimildum eða frumritum. Í fyrstu köflum I. Mósebókar (Genesis (sköpun) er að finna tvær sköpunarsögur úr tveimur mismunandi heimildum. Sú fyrri (í fyrsta kap. bókarinnar) segir að Drottinn allsherjar hafi skapað heiminn á sex dögum með orði einu saman. Hin síðari (í öðrum kap.) segir að hann hafi mótað karlinn af leiri jarðar og blásið honum lífsanda í brjóst en síðan skapað konuna úr rifi hans.
60. Jóhannes úr Kötlum 1976: 48.
61. Jóhannes úr Kötlum 1976: 72.
62. Vera má að í ljóðinu gæti einnig óbeinnar vísunar í lokakapítula Prédikarans þar sem rætt er um „vondu dagana“ þegar silfurþráðurinn slitnar. Prédikarinn 12. 6. Jóhannes úr Kötlum 1976: 109-110. Ljóðið fjallar um aftöku Julius og Ethel Rosenberg sem voru tekin af lífi í rafmagnsstóli í Bandaríkjunum. Eysteinn Þorvaldsson 1971: 47. Voru þau fyrstu amerísku þegnarnir sem voru teknir af lífi fyrir meintar njósnir á friðartímum en þeim var gefið að sök að hafa veitt Sovétmönnum upplýsingar um Manhattanáætlun Bandaríkjamanna um smíði atómsprengjunnar. Ljóðið er því eitt af pólitískum ljóðum bókarinnar.
63. Matteusarguðspjall 4. 4. Jóhannes úr Kötlum 1976:86.
64. Matteusarguðspjall 5. 14. Lúkasarguðspjall 24. 36. Jóhannesarguðspjall 20. 19, 21. Jóhannes úr Kötlum 1976: 124.

Heimildir & hjálpargögn

Bergstrand, Göran, 2004: En illusion och dess utveckling om synen på religion i psykoanalytisk teori. 2. endursk. útg. Stokkhólmi, Verbum.

Biblían, Heilög ritning, 1981. Ný útg. Reykjavík, Hið íslenska biblíufélag.

Dahlby, Frithiof, 1977: De heliga tecknens hemlighet. Om symboler och attribut. 6. útg. með viðbótum. Stokkhólmi, Verbum, Håkan Ohlssons.

Eysteinn Þorvaldsson, 1971: „Könnun á Sjödægru. B. A. prófs ritgerð í íslenzku vorið 1970.“ Mímir. Blað stúdenta í íslenzkum fræðum. 10. árg. 1. tbl. maí 1971. Reykjavík. S. 27-54.

Eysteinn Þorvaldsson, 2002: Ljóðaþing. Um íslenska ljóðagerð á 20. öld. Baldur Hafstað og þórður Helgason önnuðust útgáfuna. Reykjavík, Ormstunga.

Guðrún Friðgeirsdóttir, 2002: Norðanstúlkan, –bernskusaga–. Reykjavík, höf. gaf út.

Hark, Helmut, 1999: Jungianska grundbegrepp från A till Ö. Med originaltexter av C. G. Jung. Stokkhólmi, Natur och kultur.

Hedlund, Tom, 2000: Att förstå lyrik. 3. útg. Stokkhólmi, Ordfront förlag.

Hjalti Hugason, 2004: „Kristur og framtíðarlandið. Trúarleg minni í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum 1926-1952.“ Andvari. Nýr flokkur XLVI. 129. ár. Reykjavík, Hið íslenska þjóðvinafélag. S. 77-100.

Jóhannes úr Kötlum, 1965: Vinaspegill. Reykjavík, Heimskringla.

Jóhannes úr Kötlum, 1972, 1973, 1974, 1976: Ljóðasafn. 2., 4., 5. og 7. b. Heimskringla, Reykjavík.

Jón Sigurðsson, 1999: „„– Ég finn ég verð að springa…“ Að boða og iðka af einlægni.“ Tímarit Máls og menningar. 60. árg. 4. h. Reykjavík. S. 25-50.

Kristinn E. Andrésson, 1949: Íslenzkar nútímabókmenntir 1918-1948. Reykjavík, Mál og menning.
Passíusálmar, 1977. Hallgrímur Pétursson. 70. prentun. Helgi Skúli Kjartansson annaðist útgáfuna. Reykjavík, Stafafell.

Sigfús Daðason, 2000: Ritgerðir og pistlar. Þorsteinn Þorsteinsson annaðist útgáfuna. Reykjavík, Forlagið.

Silja Aðalsteinsdóttir, 2004: Skáldið sem sólin kyssti. Ævisaga Guðmundar Böðvarssonar. 2. útg. Reykjavík, Mál og menning.

Skårderud, Finn, 2004: Känslosamma resor. En bok om livet i rörelse. Stokkhólmi, Natur och kultur.

| Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum | © 2007–2025