Útgáfa dagbókar Jóhannesar úr Kötlum í tilefni af 60 ára afmæli KÍM
Komin er út Dagbók Jóhannesar úr Kötlum úr vináttuheimsókn til Kína árið 1952, en þá um haustið fór íslensk sendinefnd í fyrsta sinn til Kínverska alþýðulýðveldisins sem hafði verið stofnað aðeins fáeinum árum áður eða árið 1949. Jóhannes úr Kötlum var formaður þessarar nefndar, en með honum í för voru Þórbergur Þórðarson, Ísleifur Högnason, Nanna Ólafsdóttir, Skúli Þórðarson og Zóphonías Jónsson.
Í kjölfar ferðarinnar var Kínversk-íslenska menningarfélagið, KÍM, stofnað þann 20. október árið 1953 og er útgáfa bókarinnar í tilefni af 60 ára afmæli félagsins. Þýðing og útgáfa dagbókarinnar á íslensku og kínversku er samvinnuverkefni sendiráðs Íslands í Peking og Háskóla erlendra fræða í Peking (BFSU) þar sem íslenska er meðal námsgreina. Haldið var upp á útgáfuna með útgáfuhátíð og tónleikum kammertríós Guðrúnar Birgisdóttur, Selmu Guðmundsdóttur og Martial Nardeau í BFSU í Peking þann 28. október síðastliðinn.
Rektor BFSU, Han Zhen, flutti ávarp á útgáfuhátíðinni, ásamt Ragnari Baldurssyni sendifulltrúa, Arnþóri Helgasyni, vináttusendiherra og formanni KÍM, sem kom sérstaklega til Kína vegna útgáfunnar, og Xie Binbin, fulltrúa kínversku nemendanna sem þýddu bókina yfir á kínversku. Túlkur íslensku sendinefndarinnar sem hélt til Kína undir forystu Jóhannesar úr Kötlum árið 1952, frú Ying Manru, sem nú er 85 ára gömul, tók líka til máls og lýsti kynnum sínum af sendinefndarmönnum. Hún sagði að sér hefði þótt miður að geta ekki lesið ljóð Jóhannesar frá ferðinni á sínum tíma, þar sem þau voru á íslensku. Nú rúmlega 60 árum síðar væru þau komin í kínverska þýðingu svo að loksins gæti hún lesið þau. Svo las hún klökk upp þjóðhátíðarljóðið 1. október, við mikla hrifningu viðstaddra.
Fyrsti október
Dagurinn í dag er dagur daganna
Jörðin og himinninn eitt
Fólkið er í sólskininu
Sólskinið er í fólkinu
Og slíkan dag átti ég eftir að lifa
Skína meðal geislandi þúsunda
Sameinast fögnuði lausnarinnar
Tindra í litrófi nýrrar aldar
Sjá hvert auga loga
Af ást á frelsinu
Finna hvert hjarta brenna
Af þrá eftir friði
Orðvana berst ég með ljósflóðinu
Dagur daganna er dagurinn í dag
Auk Jóhannesar voru Þórbergur Þórðarson rithöfundur, Skúli Þórðarson sagnfræðingur, Nanna Ólafsdóttir bæjarfulltrúi, Zophanías Jónsson verkamaður og Ísleifur Högnason framkvæmdastjóri með í för. Frásögn Jóhannesar er nákvæmur og litríkur vitnisburður um gestrisni Kínverja og hvernig hópurinn sá og upplifði Kína á fyrstu árum Alþýðulýðveldisins.
Þýðing bókarinnar og undirbúningur útgáfunnar tók fjögur ár. Gísli Hvanndal Ólafsson, fyrrum sendikennari við Háskóla erlendra fræða í Peking, var ritstjóri verksins og var þýðingin unnin undir hans handleiðslu. Fyrstu íslenskunemendurnir við skólann þýddu efni bókarinnar í samráði við starfsmenn sendiráðs Íslands í Peking auk þess sem ýmsir aðrir komu að verkinu.