Guðrún Jakobsdóttir og Pálmi Jónsson
Guðrún Jakobsdóttir
F. 24. júní 1906 – D. 17. júlí 1964.
Ljósið flæðir enn um ásýnd þína:
yfir þínum luktu hvörmum skína
sólir þær er sálu þinni frá
sínum geislum stráðu veginn á.
Myrkur dauðans megnar ekki að hylja
mannlund þína, tryggð og fórnarvilja
– eftir því sem hryggðin harðar slær
hjarta þitt er brjóstum okkar nær.
Innstu sveiflur óskastunda þinna
ennþá má í húsi þínu finna –
þangað mun hann sækja sálarró
sá er lengst að fegurð þeirra bjó.
Börnin sem þú blessun vafðir þinni
búa þér nú stað í vitund sinni:
alla sína ævi geyma þar
auðlegðina sem þeim gefin var.
Þú ert áfram líf af okkar lífi:
líkt og morgunblær um hugann svífi
ilmi og svölun andar minning hver
– athvarfið var stórt og bjart hjá þér.
Allir sem þér unnu þakkir gjalda.
Ástúð þinni handan blárra tjalda
opið standi ódauðleikans svið.
Andinn mikli gefi þér sinn frið.
J. (Jóhannes úr Kötlum)
Pálmi Jónsson
F. 3. desember 1900 – D. 30. júní 1968.
Horfinn ertu héðan, vinur,
hjartaprúður, stór í raun,
þú sem fyrir þelsins varma
þáðir oft hin dýrstu laun,
þú sem unnir, þú sem kunnir
þraut að sigra, veita skjól,
þú sem bljúgu barnsins hjarta
bjóst svo tíðum innri jól.
Æðrulaus þú gekkst um garða,
gerðir traustan heimareit:
þangað fró í fátækt sinni
fleiri sóttu en nokkur veit.
Börn þín muna – börn þín una
bjartri mynd af föðurhönd
sem þau leiddi, sem þeim greiddi
seint og snemma málin vönd.
Langt úr fjarska ber nú blærinn
blómailm og daggir heim
– það er kveðjan hljóð að handan:
hinztu bros og tár frá þeim
sem þú unnir, sem þú kunnir
sorg að firra, rétta hönd
ástúðlega eins og vorið
yfir bæði höf og lönd.
Öll við þökkum þína ævi,
þína sterku, tryggu lund
– sjáum þig úr hörðum heimi
halda á mildan gleðifund:
hún sem ann þér, hún sem fann þér
helgan stað í brjósti sér,
bak við tímatjaldið bláa
tekur sæl á móti þér.
J. (Jóhannes úr Kötlum)