1915–1932
Á þessum árum stundar Jóhannes nám í lýðskólanum í Hjarðarholti og í Kennaraskólanum. Hann er mjög virkur innan ungmennafélagshreyfingarinnar, flytur ræður á samkomum og byrjar að yrkja af krafti. Fyrstu bækur hans líta dagsins ljós: Bí, bí og blaka (1926), Álftirnar kvaka (1929) og Ég læt sem ég sofi (1932). Jóhannes hlýtur verðlaun fyrir hátíðarljóð á Alþingishátíðinni 1930.
1933–1946
Jóhannes flytur til Reykjavíkur og snýr sér alfarið að ritstörfum. Barnabækurnar Jólin koma og Ömmusögur koma út og hann lýkur þjóðvísunni með Samt mun ég vaka (1935). Það harðnar á dalnum og ljóðin með. Nýr tónn er sleginn og byltingin á næsta leyti. Hart er í heimi (1937) og ljóð um söguhetjur Íslands: Hrímhvíta móðir (1939) koma út og eftir dvöl hans uppi á öræfum kemur út kvæðabókin Eilífðar smáblóm (1940). Hann sat síðan á Alþingi Íslendinga frá 1941 við óvenjulegar aðstæður. Á þessum árum yrkir hann Land míns föður, hátíðarljóðið í tilefni af stofnun lýðveldis á Íslandi og hlýtur fyrir verðlaun og lof.
1947–1970
Jóhannes fer til Svíþjóðar eftir stríðið og dvelst þar í eitt ár. Kynnir sér nýja strauma í ljóðagerð. Ljóðagerðin breytist smátt og smátt. Yrkir ljóð og birtir undir heitinu Anonymus. Snýr sér að skáldsagnagerð um skeið en 1955 kemur út ljóðabókin Sjödægra og Jóhannes yrkir nú órímað af krafti alveg til æviloka. Hans síðasta ljóðabók var Ný og nið sem kom út árið 1970.
Bréf, kort og ljóð
Nokkur sýnishorn af ljóðabréfum og bókum til konu hans Hróðnýjar, sem voru gjarnan skreytt ýmis konar teikningum (1929). Þá er ljóð til Svans (1939) sem hann yrkir þegar hann er í Kerlingarfjöllum en Svanur í sveit í Víðidalstungu. Ennfremur sýnishorn úr bréfi til Svans sama sumar.