Jólakötturinn
Þið kannist við jólaköttinn,
– sá köttur var gríðarstór.
Fólk vissi ekki hvaðan hann kom
eða hvert hann fór.
Hann glennti upp glyrnurnar sínar,
glóandi báðar tvær.
– Það var ekki heiglum hent
að horfa í þær.
Kamparnir beittir sem broddar,
upp úr bakinu kryppa há,
– og klærnar á loðinni löpp
var ljótt að sjá.
Hann veifaði stélinu sterka,
hann stökk og hann klóraði og blés,
– og var ýmist uppi í dal
eða úti um nes.
Hann sveimaði, soltinn og grimmur,
í sárköldum jólasnæ,
og vakti í hjörtunum hroll
á hverjum bæ.
Ef mjálmað var aumlega úti
var ólukkan samstundir vís
Allir vissu´, að hann veiddi menn
en vildi ekki mýs.
Hann lagðist á fátæka fólkið,
sem fékk enga nýja spjör
fyrir jólin – og baslaði og bjó
við bágust kjör.
Frá því tók hann ætíð í einu
allan þess jólamat,
og át það svo oftast nær sjálft,
ef hann gat.
Þvi var það að konurnar kepptust
við kamba og vefstól og rokk,
og prjónuðu litfagran lepp
eða lítinn sokk.
Því kötturinn mátti ekki koma
og krækja í börnin smá
– Þau urðu að fá sína flík
þeim fullorðnu hjá.
Og er kveikt var á jólakvöldið
og kötturinn gægðist inn,
stóðu börnin bísperrt og rjóð,
með böggulinn sinn.
Sum höfðu fengið svuntu
og sum höfðu fengið skó,
eða eitthvað, sem þótti þarft,
– en það var nóg.
Því kisa mátti engan eta,
sem einhverja flíkina hlaut. –
Hún hvæsti þá heldur ljót
og hljóp á braut.
Hvort enn er hún til veit ég ekki,
– en aum yrði hennar för,
ef allir eignuðust næst
einhverja spjör.
Þið hafið nú kannski í huga
að hjálpa, ef þörf verður á.
– Máske enn finnist einhver börn
sem ekkert fá.
Máske, að leitin að þeim sem líða
af ljós-skorti heims um ból,
gefi ykkur góðan dag
og gleðileg jól.
Höfundarréttur mynda©Þórdís Tryggvadóttir