Fermingarveisla Svans 1943 í Frumskógum 10. Þarna má sjá tólf gamla Hvergerðinga. Fremri röð: Lóa Kristjánsdóttir veitingakona, kona Friðsteins, Herdís Einarsdóttir kona Daníels, Guðrún Jónsdóttir kona Guðbrands, Inga Dóra, Hróðný Einarsdóttir, Björg Jónsdóttir saumakona, Aðalbjörg Halldórsdóttir (Lóló) kona Helga, Randí Guðmundsson dóttir Kristmanns, Íris Vignir, Guðrún Jakobsdóttir kona Pálma, Guðrún Snorradóttir ljósmóðir í Hveragerði móðir Helga frá Þórustöðum, Anna Vignir kona Sigurhans Vignis ljósmyndara sem tók myndina. Aftari röð: Friðsteinn Jónsson bryti, Jóhannes úr Kötlum, Helgi Kristinsson frá Þórustöðum, Guðbrandur Jónasson verkamaður, séra Helgi Sveinsson, Svanur (á bak við hann sést á skallann á Jónasi afa), Ragnar Vignir, Daníel Tómasson húsasmiður, Pálmi Jónsson lögregluvarðstjóri, Kristmann Guðmundsson skáld, Beatrice Kristjánsson, norsk kona Guðm. Kristjánssonar. Aftast: Helgi Einarsson húsgagnasmíðameistari, Vildís dóttir Kristmanns og Guðmundur Kristjánsson myndskeri.

Á  þessari mynd eru Hveragerðisskáldin þrjú sem ortu Hveragerðisbraginn, Jóhannes, Séra Helgi og Kristmann, en þau tvö fyrrnefndu gerðu flestar lausavísur sem í gangi voru á þessu tímabili auk Kristjáns frá Djúpalæk nokkrum árum seinna.

Margir kannast við eftirfarandi vísu, sem sagt er að þeir vinirnir, Bertel Ó. Þorleifsson og Einar Hjörleifsson hafi kveðist á, er þeir voru stúdentar í Kaupmannahöfn.

Bertel:
Kveifarlega kveinar,
kvenmannlega veinar
– Einar.

Einar:
Getur ekkert gert vel,
gengur þó með sperrt stél
– Bertel.

Kristmann og Jóhannes
Hveragerðisskáldin, Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum voru að rifja upp vísu þessa, staddir á símstöðinni í Hveragerði.

Þá segir Jóhannes:

Lít ég einn sem list kann.
Löngum hafa þær kysst hann,
– Kristmann.

Kristmann svaraði samstundis:

Einkum þó vér ötlum,
að þær fari úr pjötlum
– í Kötlum.


(Frásögn þessi er tekin úr Útvarpstíðindum 6. hefti 5.árg. 1943. Jón úr Vör skáld og ritstjóri Útvarpstíðinda var staddur á símstöðinni með þeim skáldunum þegar þetta bar við)

Áritun á bók
Haukur Baldvinsson garðyrkjumaður í Lindarbrekku varð þrítugur 24. febrúar 1944, en þá sendi Jóhannes honum bókina Þingvísur, sem hann safnaði og gaf út 1943. Á bókina var rituð þessi afmælisvísa til Hauks:

Ef af mínum óskum hlýst
eitthvað milli þinga.
Þig við kjósum, það er víst.
Þingmann Hvergerðinga.

Um Kristmann
Þá var líka önnur vísa eftir pabba sem komst á kreik stuttu seinna. Ég heyrði hana fyrst á samkomu í Reykholtsskóla, en þar var ég við nám 1944-47. Pétur Sigurðsson erindreki Stórstúku Íslands hélt þar erindi fyrir nemendur, en sló á léttari strengi í lokin og fór m.a. með þessa vísu og sagðist hafa heyrt að hún væri eftir Jóhannes úr Kötlum:

Mjög þá skáldsins vandi vex,
en verst er þó fyrir konugreyin,
ef þær troðast allar sex
upp í til hans hinum megin.

(Þarna var náttúrlega átt við Kristmann Guðmundsson. Ég spurði föður minn um vorið hvort vísan væri eftir hann og hann sagði svo vera)

Séra Helgi
Einhverju sinni sá Jóhannes úr Kötlum séra Helga uppi á þaki húss síns að mála það rautt. Jóhannes kvað:

Hvítfágað mun hjartað þitt
hirðirinn minn góði,
fyrst hann þannig þakið sitt
þvær úr lambsins blóði.

Séra Helgi svaraði að bragði:

Þig að fága þýðir lítt,
þú ert ljóti kallinn,
á þér sést nú ekkert hvítt
eftir nema skallinn.

Á Yxnalæk í Ölfusi bjó Þorvaldur Ólafsson sonur séra Ólafs Magnússonar prófasts í Arnarbæli. Þorvaldur var mikill aðdánadi Einars Benediktssonar skálds og fór oft með ljóð hans Útsæ. Jóhannes gerði þá  vísu þessa um Þorvald:

Hann Þorvaldur minn þarna,
sem þylur Útsæ gjarna,
var áður í bæli arna
en yxnar nú á Læk.
(Lag: „Þegar hnígur húm að Þorra”. Lærði þessa vísu á unglingsárum)

Jóhannes í Ásum
Um það leyti sem Hveragerði var gert að sérstöku sveitarfélagi var Jóhannes Þorsteinsson í Ásum settur oddviti eftir mikla stjórnarkreppu. Sjálfstæðismenn og sósíalistar voru álíka sterkir í bæjarfélaginu og höfðu sína tvo fulltrúa hvor. Þetta leystist síðan eftir mikið fum og fuður með því að flokkarnir komu sér saman um Jóhannes í Ásum sem oddvita. Hann var rólegur maður og yfirvegaður og gat nú stjórnað öllu eins og hann vildi.

Við volum yfir veðrinu
og vesælir í kaun vér blásum,
en Guð hann stjórnar gerðinu
í gegnum Jóhannes í Ásum.
(Ármann Jóhannsson rafvirki, nú á Stöðvarfirði (systursonur Gunnars Benediktssonar) var þá formaður Sósíalistafélagsins í Hveragerði og segir hann að eftir þessa stjórnarkreppu hafi Jóhannes úr Kötlum ort þessa vísu um ástandið)

Á nýársdag 1950 fékk Ingimar garðyrkjubóndi í Fagrahvammi þessa kveðju frá vini sínum Jóhannesi úr Kötlum:

Manstu okkar morgunljós
mikið var þá gaman.
Ég var þyrnir – þú varst rós
þetta passar saman.
(Úr gestabókinni í Fagrahvammi)

Í tímaritinu Heima er best 2.hefti 1985 er viðtal við Ingimar Sigurðsson í Fagrahvammi. Blaðamaðurinn talar um skáld og listamenn í Hveragerði og Ingimar svarar: – „ Já, já, og það voru allt góðkunningjar mínir, sem komu hér daglega og keyptu mjólk, Kristmann, Höskuldur og Jóhannes úr Kötlum, sem vissi að ég var ekkert fyrir ljóð, eins og kemur fram í eftirfarandi vísum, sem hann orti til mín á fertugsafmælinu og færði mér og ljóðabækurnar sínar sem þá voru komnar út. En vísurnar eru svona:

Þú sem einkum elskar ljóð
eigðu þennan sparisjóð.
Þar sem ekta bolsablóð,
bunar fyrir land og þjóð.

Fertugum þér færir hann,
framtíðina og sannleikann,
þar er allt sem auðga kann
ungan sýslunefndarmann.

En ég komst aldrei í sýslunefndina, og var aldrei í framboði sem varamaður, ha, ha, ha, ha. Þetta var í mars (Ingimar átti afmæli 2. mars) og víst kosningar með vorinu og hann hefur reiknað með því að ég næði kosningu.” (Ingimar var fæddur 2. mars 1910)

Sjö eru hæðir….
Kristmann og kvenhylli hans var Jóhannesi oft ofarlega í huga þegar hann orti snemma á sjötta áratugnum þekkta vísu. Annað tilefni vísunnar var það að byggt var hús yfir héraðslækninn í Hveragerði, Magnús Ágústsson. Húsið þótti mikil glæsihöll og meðal annars voru á því sjö útidyr. Um svipað leyti mun Kristmann hafa gift sig í sjöunda sinn.

Magnús Ágústsson læknir, Hróðný Einarsdóttir kona Jóhannesar, Magnea Jóhannesdóttir kona Magnúsar og Jóhannes úr Kötlum.

Sjö eru hæðir sólarranns.
Sjö eru dalir, líka fjöll.
Sjö eru brúðir sama manns.
Sjö eru dyr á einni höll.

Á þessum árum var mikið um það að konur í Hveragerði fóru til Magnúsar læknis til þess að láta hann sprauta sig. Þetta hafa líklega verið vítamín- eða hormónasprautur, eða kannski bara við gigt. Þá kvað Jóhannes:

Linast kvöl í hrygg og hupp,
héraðslæknir tautar.
Lyftir faldi, læðist upp
lærið bert og sprautar
(Heimild: Inga Dóra Jóhannesdóttir)

Bræðraborg sem nú er Frumskógar 6 byggðu bræðurnir Kristinn og Ólafur Bjarnasynir, ættaðir úr Selvogi. Kristján Einarsson frá Djúpalæk bjó árin 1950-1961 í þessu húsi. Í þann tíð voru vínbúðir ekki á hverju götuhorni og því keyptu menn oft pyttlu fyrir vini sína ef þeir áttu leið til Reykjavíkur. Einhverju sinni hafði Jóhannes úr Kötlum lofað Kristjáni frá Djúpalæk að útvega honum eina flösku í bæjarferð. það misfórst og brást Kristján við með þessum hætti:

Kristján frá Djúpalæk, Inga Dóra og Jóhannes úr Kötlum.

Ég skal vaka fram á fjöru,
fantinn taka strax í kveld,
ég skal maka Jóa úr tjöru,
ég skal baka hann við eld.

Jóhannes lét hann ekki eiga lengi hjá sér og svaraði:

Að kveikja í Stjána er kostur rýr
og krónutap það yrði,
því tjaran er svo djöfull dýr
en drengurinn einskis virði.
(Heimild: Minnisblokk Magnúsar Ágústssonar læknis og vefsíðan <frumskogar.is.>)

Jóhannes úr Kötlum sá út um glugga hvar Kristján frá Djúpalæk var að aðstoða nágrannakonu sína, Guðfinnu að nafni, við garðyrkju. Hann sendi Kristjáni tóninn út um gluggann:

Finnfirðingur furðuslyngur
Finnu kringum dansar glatt.
Mokar, stingur, másar, springur
með sinn skringilega hatt.

Pabbi og KristjaÌ?n djuÌ?pa.jpg
Jóhannes og Kristján.

Kristján svaraði:

Meðan ég er að moka skít
meyja ást og virðing hlýt.
Skammir gegnum gluggann les
Goddastaða Jóhannes.

(Til skýringar:  Kristján var ættaður úr Finnafirði á Langanesi en Jóhannes var fæddur á Goddastöðum í Dölum vestur)

Úr gestabókinni í Breiðahvammi
Á fimmtugsafmæli Magneu Jóhannesdóttur læknisfrúar í Hveragerði, 5. nóvember 1954:

Ó kæra frú – hve árin okkar líða:
nú ættum við að fara í kröfugöngu
og neita því að eldast öllu meira
þú ert að vísu hætt því fyrir löngu.

Og mér er svo sem nógu heitt í hamsi
er hugsa ég um æskufegurð þína
þá er það sem ég öfunda hann Magnús,
en öfugt mun það vera um konu mína.

Já, maður má nú stundum stynja þungan
og standa bara álengdar og vona
en þegar þú svo augum á mann rennir
þá ertu reyndar heimsins besta kona.

Sem góðu barni Guðs á þessum degi
ég gef þér minna óska dúkkulísur
og mikið yrði ég kátur ef þú kæmir
og kysstir mig nú fyrir þessar vísur.

Úr minnisblokk Magnúsar Ágústssonar læknis
Á biðstofunni hjá Magnúsi Ágústssyni hittust einhverju sinni þeir Jóhannes úr Kötlum, sem var að fara í vítamínsprautur og Kristján frá Djúpalæk, sem ætlaði að kaupa sér lýsi og var því með tóma flösku með sér. Á meðan þeir biðu tókust þeir aðeins á í bundnu máli.

Kristján byrjaði svona:

Upp úr gamalgrónum haug
gleymska er óx í kringum,
Magnús hefur magnað draug
meður innspýtingum.

Jóhannes svaraði að bragði:

Öfugur rís á afturfót
illur hnísusvelgur,
kemur og frísar konum mót,
Kristján lýsisbelgur.

Þá koma vísurnar sem eru líka á frumskogar.is

Kristján:
Ég skal vaka fram á fjöru  og
Jóhannes:
Að kveikja í Stjána er kostur rýr,

Síðan hélt Kristján áfram:

Lagði eiturör á streng
alvön grenjaskyttan,
laumaðist að litlum dreng
lagði við og hitt´ann.

Jóhannes að lokum:

Á það getum við eflaust sæst
að þín gáfa rísi hæst,
rumbuþeysin og þembiglæst
þegar þú endurfæðist næst.

Í Fagrahvammi bjuggu hjónin Ingimar Sigurðsson, garðyrkjubóndi og Emilía Friðriksdóttir kona hans. Þau hjónin voru líkt og læknishjónin dugleg við að halda veislur á sínu heimili og var ýmislegt líka ort í gestabókina þeirra.

Á Þrettándanum 1958 í Fagrahvammi orti Jóhannes úr Kötlum svo:

Ingimar og Emilía,
ekki munu þau héðan flýja
þau eru eins og kjói og kría;
kann ég þau ekki sundur stía.

Á jólunum 1958 vorum við Ragnheiður kona mín hjá foreldrum mínum austur í Hveragerði, ásamt Einari syni okkar, sem þá var nokkurra mánaða gamall. Einnig var hjá þeim Helgi Einarsson, húsgagnasmíðameistari móðurbróðir minn. Helgi var nýskilinn við konu sína eftir margra ára hjónaband. Þeir höfðu um margt að tala mágarnir, en þegar þeir settust loks við kaffiborðið kvað Jóhannes:

Kalt er orðið kaffið nú
karlinn Helga vantar frú,
voldug þyrfti að vera sú
og vel í álnum, hana-nú.



Helgi Einarsson.

Sjaldan er gíll fyrir góðu

Næsta vísa hefur lengi gengið manna á milli í Hveragerði:

Sit ég hjá sólinni rjóðu
og halla mér blítt upp að henni
sjaldan er gíll fyrir góðu
nema úlfur á eftir renni.

(Heimild: Þórður Snæbjörnsson Hveragerði)

Björn Pálsson Hveragerði segist hafa heyrt vísuna svona:

Sit ég hjá rósinni rjóðu
halla mér blítt upp að henni.
Sjaldan er gíll fyrir góðu
nema úlfur á eftir renni.

Valgarð Runólfsson fv. skólastjóri í Hveragerði sendi  eftirfarandi frásögn um framangreinda vísu:
„Jóhannes fór með eftirfarandi vísu og sagði frá tilurð hennar á kvöldsamkomu Barna-og Miðskólans í Hveragerði (eins og hann hét þá) vorið 1959 eða ´60.
Hann kom gangandi eftir göngustíg og var á leið inn á Heilsuhæli NLFÍ þegar hann tók eftir einni undurfagurri snót sem sat þar á bekk. Hann sest hjá henni og segir með sinni tælandi röddu:

Sest ég hjá sólinni rjóðu
og halla mér blítt upp að henni.

En tók þá eftir ungum manni sem stefndi á bekkinn til þeirra, og bætti þá við í snatri:

Sjaldan er gíll fyrir góðu
nema úlfur á eftir renni.

….. stóð upp og fór sína leið.

Jóhannes tók fram að vísan væri með 2 stuðlum í hverri línu en enginn höfuðstafur.

Skýring á gíll: Aukasól, ljósblettur sem fer á undan sól og myndast við ljósbrot sólargeislanna: gíll og úlfur ganga á undan og eftir sólu og af því er dregið þetta orðtæki.

Í kveðjuhófi hjá læknishjónunum

Árið 1959 tóku Jóhannes úr Kötlum og Hróðný Einarsdóttir þá ákvörðun að flytja frá Hveragerði en þau höfðu þá búið þar á nítjánda ár og eðlilega eignast þar marga góða vini. Það voru því haldin kveðjuhóf víða um þorpið þeim til heiðurs.
Jóhannes úr Kötlum orti til Magneu, konu Magnúsar læknis, í slíku hófi hjá þeim hjónum í Breiðahvammi sumarið 1959. (Lag: Upp undir Eiríksjökli).

Nú tregt er mér tungu að hræra
vor tilvera er unaðsleg
Því Magnea má ekki vita
að Magnús öfunda ég.

Ó, að ég silungur yrði
í ánni hér niðurfrá
– þá gæti hún séð út um gluggann
er glampaði hreistrið á.

Og það yrði sannarleg sæla
sem seytlaði gegnum mig
er héldi hún niður að hylnum
með hægð til að baða sig.

Þá yrðu nú uggarnir heitir
og aumingja tálknin þreytt;
– en Magnús stæð´út´ í strengnum
með stöng og vissi ekki neitt.

Í kveðjuhófi hjá Ingimari Sigurðssyni og Emilíu Friðriksdóttur í Fagrahvammi sumarið 1959 orti Jóhannes:

Ef söknuður skyldi sækja
þar syðra að minni lund,
þá flýgur hugur minn hingað
í hvamminn á samri stund.

Er frúin gælir við grasið
í garðinum hljóð og ein,
ég sest þar í sólskinsskapi
og syng á fallegri grein.

Og Ingimar kankvís kallar:
Ég kannast við þetta lag,
en ekki ólukku fuglinn
sem er hér að tísta í dag.

Þá ansar hún Emilía
og ilmandi blómin les:
Æ, þú ættir nú að þekkja
að það er hann Jóhannes.

Með þessum línum sagðist Jóhannes úr Kötlum, fyrir hönd þeirra hjóna, þakka þeim Ingimari og Emilíu, átján ára óbrigðula vináttu.

Þegar ég kom nýlega í Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns hafði eftirfarandi vísa eftir föður minn verið lögð þar inn af Róbert H. Haraldssyni í Sagnfræði- og heimspekideild HÍ:

„Til Margrétar.

Níræð ertu – og ennþá skín
æskuglaða vonin þín.
Við skulum dansa frjáls og fín
fram í dauðann, ljúfan mín.

21. apr. 1964
Með hjartanlegum hamingjuóskum
Jóhannes úr Kötlum“

Róbert segir í bréfi sem fylgdi með, að Jóhannes hafi ort þessa vísu til langömmu sinnar  Margrétar Þorsteinsdóttur þegar hún varð níræð hinn 21. apríl 1964 og hafi vísan verið skrifuð með hans eigin hendi. Margrét hafi verið fædd 21. apríl 1874 en dáin 15. mars 1965. Hún bjó að Hlíð á Vatnsnesi. V-Hún., ásamt eiginmanni sínum Jónasi Jónassyni bónda þar, sem var fæddur 11. júlí 1850, en dáinn 13. maí 1925. Börn þeirra voru: Páll, Þorsteinn á Ljósalandi, Jón Ragnar, Þorvaldur, Gróa, Ragnhildur og Ketill Hlíðdal. Því er við að bæta að Margrét bjó að Bláskógum 13 í Hveragerði en sonur hennar Þorsteinn að Ljósalandi, Bláskógum 7. Börn hans og konu hans Agnar voru m.a. Jónas skipstjóri í Ameríku, nú nýlátinn og Margrét, sem var gift Hirti Jóhannssyni frá Núpum fv. sundlaugarstjóra í Laugaskarði, en dóttir þeirra er Jóhanna frístunda- og menningarfulltrúi Hveragerðis.

Hveragerði, 31. ágúst 2011
Svanur Jóhannesson