Þrettán jólasveinar

Fyrir þessi jól koma að nýju út jólakort Erlu Sigurðardóttur með myndum við vísur Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana en kortin hafa verið vinsæl í gegnum árin. Þau voru áður gefin út af Blindrafélaginu, en nú hefur fyrirtækið „Laxakort” ákveðið að gefa þau út.
Framan á hverju korti er teikning af einum jólasveini eftir Erlu, en innan í þeim eru svo tvær vísur Jóhannesar um þann jólasvein.
Jólasveinavísur Jóhannesar komu fyrst út árið 1932 í bókinni Jólin koma, sem Þórhallur Bjarnarson prentari gaf út, en hún hefur síðan verið endurútgefin mörgum sinnum og 25. prentun kom út 2008.
Margir hafa spreytt sig á að teikna jólasveinana og eru teikningar Tryggva Magnússonar þeirra þekktastar, en hann teiknaði í bókina Jólin koma.
Þá hafa verið birtar hér á heimasíðunni teikningar Ólafs Péturssonar sem teiknaði fyrir nokkrum árum jólasveinana fyrir Póstinn á sérstaka frímerkjaútgáfu hans í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóhannesar úr Kötlum.