Jólakötturinn verður á ferli um miðborgina næstu vikur en síðastliðinn laugardag kveikti forseti borgarstjórnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir, á nýrri jólaskreytingu á Lækjartorgi sem er sjálfur Jólakötturinn. Hann er engin smásmíði, um fimm metrar á hæð og sex metrar á breidd og er lýstur upp með 6.500 LED-ljósum. Við athöfnina söng barnakórinn Graduale Futuri nokkur jólalög […]

Í byrjun sumars, daginn fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní, var haldið upp á 80 ára afmæli Bókmenntafélagsins Máls og menningar í menningarhúsinu Hörpu. Af þessu tilefni gaf félagið út bókina Sóley sólufegri, sem fjallar um Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum og tónstef Péturs Pálssonar.

Komin er út Dagbók Jóhannesar úr Kötlum úr vináttuheimsókn til Kína árið 1952, en þá um haustið fór íslensk sendinefnd í fyrsta sinn til Kínverska alþýðulýðveldisins sem hafði verið stofnað aðeins fáeinum árum áður eða árið 1949. Jóhannes úr Kötlum var formaður þessarar nefndar, en með honum í för voru Þórbergur Þórðarson, Ísleifur Högnason, Nanna Ólafsdóttir, Skúli Þórðarson og Zóphonías Jónsson.

Þessi unga pakistanska stúlka að  nafni Kanisha Riaz fékk óvænta gjöf frá Íslandi fyrir jólin, en hjónin Svanur Jóhannesson, sonur Jóhannesar úr Kötlum, og Ragnheiður Ragnarsdóttir kona hans, styðja þessa stúlku í gegnum ABC-barnahjálp. Kanisha fékk jólakort með mynd af Þvörusleiki og Jólin koma.

Jólasýning Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns var opnuð nú í byrjun desember en tilefni sýningarinnar er 80 ára útgáfuafmæli kvæðakversins Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum.

Skáldasetur á Facebook

Hér birtast sjálfkrafa innlegg og umræða af Facebooksíðu Skáldaseturs.

Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum

Ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldar á Íslandi yrði það nærri því óhjákvæmilega Jóhannes úr Kötlum. Hann lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum og um engan samtímamann hans í skáldahópi verður sagt með jafnmiklum sanni að hann hafi fundið til í stormum sinnar tíðar. Enginn fylgir heldur eins nákvæmlega þróun ljóðlistarinnar á öldinni. Hann hóf feril sinn sem nýrómantískt skáld á þriðja áratugnum, innblásinn af löngun til að efla hag landsins og ást þegnanna á því. Hann var líka einlægur trúmaður og þó að hann yrði síðar gagnrýninn á guð almáttugan hélt hann alla tíð vinskap sínum við Jesú Krist, eins og launkímni ljóðaflokkurinn Mannssonurinn (1966) er dæmi um. Á kreppuárum fjórða áratugarins var hann í broddi fylkingar róttækra skálda, knúinn áfram af löngun til að efla sjálfstraust alþýðunnar og örva hana til að berjast fyrir bættum kjörum.
Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum
Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum26. nóvember 2018
Jólakötturinn á ferli í skammdeginu…
Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum
Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum29. september 2018
Hér kemur mynd af þeim heiðurshjónum:
Jónasi Jóhannessyni bónda í Ljárskógarseli og Halldóru Guðbrandsdóttur konu hans, en þau áttu sama afmælisdag 29. september. Hann var fæddur 1866 en hún 1859.

Sigurður Nordal sagði, að þetta kvæði Jóhannesar um föður sinn væri eitt af hans bestu ljóðum, enda birti hann það í Íslenskri lestrarbók sem hann gaf út og kennd var í öllum helstu barnaskólum hér áður fyrr. - Jónas frá Hriflu var hins vegar á öðru máli og taldi að Jóhannes væri að vanvirða pabba sinn á allan hátt.

Hann pabbi er skrítinn og sköllóttur karl,
sem á skinnhúfu og tekur í nefið.
Og bleksterkt kaffi og brennivín
er það besta, sem honum er gefið.

Hann þvær sér ekki oft - og aldrei vel,
og er líka sjaldan á fundum.
Það er eins og hann geti ekki að því gert,
hvað óhreint hans skegg er stundum.

Hann snnýtti sér síðast á gólfið í gær,
- það var góður og hentugur staður, -
og hnerraði og bað guð að hjálpa sér,
eins og hákristinn dánumaður.

- - - - -

Brot úr kvæðinu „Karl faðir minn“ sem kom fyrst út í bókinni „Ég læt sem ég sofi“, árið 1932.
Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum
Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum9. september 2018
Bók vikunnar er Salamöndrustríðið eftir tékkneska höfundinn Karel Čapek, verk sem er mörgum eftirminnilegt, enda bæði hrollvekjandi og fyndið. Hér má heyra Guðrúnu Hannesdóttur lýsa verkinu fyrir Víðsjá. Gestir þáttarins á sunnudag eru Anna Ólafsdóttir Björnsson og Stefán Pálsson, en bókin hafði mótandi áhrif á þau bæði.
Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum
Skáldasetur | Jóhannes úr Kötlum12. júlí 2018
Vísa eftir Jóhannes sem Heiðdís Gunnarsdóttir á Selfossi kom með á fasbókina hjá Rögnu, 28. júní 2018 og sagði að svipaði til vísunnar um Ester (Yndisleg er Ester).

Að þjóðbjörg sé af Þjóðbjörgu
þarf nú ekki að vera.
En lofvísu um Lovísu
langar mig að gera.

Vísan er um tvær konur sem áttu heima í Hveragerði á árunum þegar Jóhannes bjó þar. (1940-1959).

Úr Íslendingabók:
Guðrún Þjóðbjörg Jóhannsdóttir 7. nóvember 1912 - 5. nóvember 1989. Húsfreyja í Hveragerði. Var í Sogni, Kotstrandarsókn, Árn. 1930.

Louisa Magnea Ólafsdóttir 12. desember 1891- 28.janúar 1989. Var í Arnarbæli. Kotstrandarsókn, Árn. 1930. Organisti í Kotstrandarsókn í Ölfusi og síðar í Hveragerðissókn. Síðast bús. í Hveragerðisbæ.