Halldóra Kristín Thoroddsen

Halldóra Kristín Thoroddsen er ljóðskáld, rithöfundur og myndlistarmaður. Hún hefur meðal annars sent frá sér þrjár ljóðabækur, Stofuljóð (1990), Hárfínar athugasemdir (1998) og Gangandi vegfaranda (2005). Árið 2002 kom út örsögusafnið 90 sýni úr minni mínu. Halldóra hefur auk þess fjallað um menningarmál í útvarpi og sjónvarpi.

„Ljóðið sem ég vel, birtist í Tregaslag í kaflanum Stef úr glataðri bók. Í þessu ljóði finnst mér mikill kjarni fangaður. Hér yrkir Jóhannes um þjáningu mannsins, vonbrigði og bjargleysi, frammi fyrir fyrirheitnum fjöllum. Hyldjúp samlíðan einkennir skáldskap Jóhannesar og samhjálpin var köllun hans. Myndin er vægðarlaus og ber hugsjón skáldsins vitni.“

Það seytlar blóð

Það seytlar blóð úr heitri ólífsund
í dimmu dropatali
við rætur hinna fyrirheitnu fjalla

af jökli gegnum gisinn skógarlund
nú súgar haustsins svali
sem logar smáir lauf til jarðar falla

og það er eins og allt á samri stund
í hlustir mannsins hjali
nei þú ert einn hér þýðir ekki að kalla.