Jólin koma – aftur og enn á ný

[dropcaps]J[/dropcaps]ólakvæði Jóhannesar úr Kötlum eru nú í 24. prentun, eiga 75 ára afmæli og tróna á toppi bóksölulista ljóðabóka. Hún er langvinsælasta bók skáldsins.

ÞAÐ var á Barónsborg á árunum kringum og eftir 1960 og biðin eftir jólunum jafn mikil þraut og hún hefur alltaf verið íslenskum börnum. Í þeim þjáningum var þó líkn. Það var dagurinn þegar stóra Lára, forstöðukona, litla Lára fóstra, og Kristín fóstra settust niður með krökkunum, og opnuðu litlu bókina sem eldri krakkarnir, sem þekktu hana vissu vel um. „Megum við sjá jólaköttinn?“ var spurt, og unaðshrollur fór um litla mannskapinn þegar allir fengu að sjá myndina af grábröndóttu óargadýrinu, með risastóra kryppu – óargadýri sem teygði svo hvæsandi fram klærnar og var til alls víst. Svo var það Grýla, með ferlega hönd og haltan fót, ekki var hún frýnilegri. Þetta var sannarlega hryllileg sæluvíma.
Svo kom það besta þegar byrjað var að syngja:

[pullquote]Stekkjarstaur kom fyrstur
stinnur eins og tré[/pullquote]

Þetta kunnum við öll, og kunnum vel. Ár eftir ár voru vísurnar sungnar og alltaf af jafn mikilli hjartans gleði og alltaf þokuðust jólin töluvert nær þegar bókin var opnuð ár hvert.

Á toppi ljóðabókalistans
Jólin koma, ljóðabók Jóhannesar úr Kötlum, hlýtur að vera mest lesna barnabók okkar fyrr og síðar. Enn í dag trónir hún á toppi bóksölulista yfir mest seldu ljóðbækurnar – enn í dag, 75 árum eftir að hún kom fyrst út árið 1932. Um tíma var bókin illfáanleg, en síðustu ár hefur hún komið með jólin í hillur bókabúðanna undanbragðalaust. Á vefnum um Jóhannes úr Kötlum, johannes.is, kemur fram að nú hafi þetta indæla kver verið prentað í 24. sinn. Skyldi það ekki vera einsdæmi með íslenskar bækur? Svanur Jóhannesson sonur skáldsins þekkir verk föður síns vel og gleðst yfir velgengni þessa sígilda skáldskapar.
„Ég var svo lítill þegar pabbi orti þetta og tildrög þess bar aldrei beint á góma,“ segir Svanur. „Hann orti kvæðin um það leyti sem hann flutti til Reykjavíkur og bókin kom út 1932, fyrsta útgáfan.
Ég skal ekki segja með tildrögin, en mér dettur í hug að jólasveinahefðin hafi verið rík í Dölunum, þar sem hann var. Hann starfaði þar sem kennari.“
Jólin koma var fyrsta bókin í röð barnabóka eftir Jóhannes úr Kötlum, en margir muna eflaust einnig eftir Ömmusögum og Bakkabræðrum úr sömu útgáfuröð. Fyrsta ljóðið í bókinni var Bráðum koma blessuð jólin, en þar voru líka Jólasveinakvæðið vinsæla, Grýlukvæði, Jólakötturinn og loks kvæðið Jólabarnið. „Jólin koma, er sú langvinsælasta þessara bóka. Þetta er látlausasta bókin á markaðnum í dag, en þó hans vinsælasta bók. Hún er nú búin að vera í hópi söluhæstu bóka fyrir jólin í nokkur ár, og ekkert lát virðist vera á því. Mér finnst það merkilegt á tímum hraða og breytinga.“

„Vandi er um slíkt að spá“
Og bókin lifir. Það kunna allir eitthvað úr þessari bók, og í hana er vitnað í tíma og ótíma, án þess að fólk geri sér jafnvel grein fyrir því.
„Mér fannst það merkilegt í fyrradag, að fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri skyldi taka sér í munn: „…vandi er um slíkt að spá,“ án þess að geta heimildanna. En þetta virðist vera ríkt í þjóðinni, og kannski ekki óeðlilegt.“

Jólasveinahefð í Dölunum
Svanur segir að á liðnum árum hafi oft verið reynt að gefa Jólasveinakvæðið í bókinni út á annan hátt í skrautlegra formi. „Ég segi ekki að það gangi ekki, en þetta form á bókinni virðist henta markaðnum. Þetta einfalda og gamla. Teikningar Tryggva Magnússonar slá allt út, enda var hann frábær teiknari. Tryggvi var sveitungi pabba.
Hann var úr Saurbænum en pabbi úr Laxárdalnum og þeir voru á svipuðu reki. Það segir til um það að í þeirra tíð þar hafi þessi jólasveinahefð verið til. Mér finnst þessi bók þurfi alltaf að vera til og vil ekki breyta henni. Það eru alltaf einhverjir sem vilja gera meira glamúr úr henni, en ég er búinn að reka mig á að það gengur ekki,“ segir Svanur.
„Við settum Jólasveinakvæðið inn á vefinn hans pabba núna, með myndum eftir Ólaf Pétursson sem teiknaði þær á frímerkjaseríu fyrir Íslandspóst, en myndirnar hans Tryggva eru þar líka.“

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. desember 2007 og er birt hér með góðfúslegu leyfi.)