Inni á Gaflfellsheiði neðanverðri, um tíu kílómetra veg frá Ljárskógum í Dölum, liggur hjáleigan Miðsel (Ljárskógasel) sem var í byggð frá árinu 1833-1927. Þar áður höfðu verið selfarir frá Ljárskógum, sennilega um aldir, jafnvel allt frá landnámsöld. Þarna er gott undir bú en vetrarríki talsvert sem von er til, svo langt inni á heiði. Ekki voru þarna háreistar byggingar fremur en á öðrum heiðarbýlum þeirra tíma, útihús byggð úr torfi, baðstofan úr sama efni, en alþiljuð. Á miðju sumri 1899 féll þáverandi bóndi Magnús Kristjánsson frá og fór þá jörðin í eyði til næstu fardaga. Vorið 1900 fluttu þau hjónin Jónas Jóhannesson og Halldóra Guðbrandsdóttir í Selið ásamt tveimur börnum sínum, Guðrúnu sex ára og Jóhannesi Bjarna, (Jóhannesi úr Kötlum) sem var þá sex mánaða gamall. Þarna bjuggu þau næstu 24 ár. Tvíbýli var í Ljárskógaseli mest allan þann tíma sem þau voru þar og var bænum skipt í tvennt með gangi í miðju. Sambýlisfólk þeirra lengst af voru Guðmundur Jónsson og Guðfríður Guðmundsdóttir 1908-1913 og Þorsteinn Gíslason og Alvilda Bogadóttir 1913-1924 en þau bjuggu þar þangað til Ljárskógasel fór í eyði 1927.

Katlafoss í Fáskrúð. Bergið er ryðbrúnt að hluta.

Katlarnir
Laxveiðiáin Fáskrúð, sem margir kannast við, á upptök sín langt inni á Gaflfellsheiði og rennur skammt frá Ljárskógarseli. Í grenndinni er eitt fallegasta svæðið við ána, Katlarnir. Þar er fegursti foss árinnar, ásamt tilheyrandi hyljum, stöpum, klettum og gljúfrum. Þetta er friðsæll, fagur og hrífandi staður, ævintýraheimur sem Jóhannes leitaði oft til sín uppvaxtarár. Þegar Jóhannes gaf út sína fyrstu bók ,,Bí, bí og blaka” tók hann sér skáldanafnið Jóhannes úr Kötlum eftir þessu örnefni við ána Fáskrúð. Einnig var sú skýring sögð af þessari nafnbreytingu að annað skáld hefði komið fram á þessum tíma með mjög áþekku nafni og hefði Jóhannes viljað auðkenna sig greinilega frá öðrum með þessum hætti.

Í þættinum Úlfaldar og mýflugur á Rás eitt í gærmorgun mátti heyra fjallað um… „bók sem olli umtalsverðu fjaðrafoki í íslensku menningarlífi og varð tilefni mikilla blaðaskrifa árið 1957. Lögregluembættið hafði afskipti af henni og andans menn fordæmdu hana. Sumir töldu bókina upploginn þvætting og argasta klám en aðrir vegsömuðu hana fyrir löngu tímabæra hreinskilni í hvatalífs-lýsingum. Öll þessi umræða er ekki síst merkileg í ljósi þess að umrædd bók kom aldrei út á íslensku. Í þessum þætti verður því rætt um bók sem var í raun aldrei til nema í umræðunni. Hér er átt við íslenska þýðingu Jóhannesar úr Kötlum á skáldsögunni Sangen om den röde rubin, eftir Agnar Mykle, sem átti að fá nafnið: Söngurinn um roðasteininn á íslensku. Hér verður rakin saga þessarar umdeildu skáldsögu bæði hérlendis og erlendis og litið aðeins á bókmenntalandslag tímabilsins á Íslandi í leiðinni.”
Þáttinn má hlýða á hér í gegnum Vefvarp RÚV næstu tvær vikurnar.

Þriðja og síðasta greinin eftir Hjalta Hugason sem við birtum ber nafnið Hátíð fer að höndum ein og hefst þannig: „Í skáldskap Jóhannesar úr Kötlum (1899-1972) tvinnuðust saman tveir þættir sem í hugum margra eru andstæðir: Róttæk vinstristefna og kristin trúarhugsun. Hér verður brugðið ljósi á kveðskap Jóhannesar um jólahátíðina og kannað hvernig þessi stef endurspeglast í henni.” Greinin birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins – 24. desember 2005.

Nú birtum við aðra greinina af þremur eftir Hjalta Hugason og nefnist hún: Á mótum dulhyggju og félagshyggju — Kristin stef í Sjödægru Jóhannesar úr Kötlum. Hjalti heldur áfram að greina Jóhannes og ljóð hans með augum guðfræðings eða eins og höfundur segir: „…verður leitast við að greina trúarleg stef eða vísanir í ljóðunum án þess að loka með öllu augum fyrir öðrum þáttum þeirra enda verður að skilja ljóð heildstæðum skilningi þar sem eitt sjónarhorn kallast á við annað.” Greinin birtist áður í Ritröð Guðfræðistofnunar, Studia theologica islandica 21, Útgefandi: Guðfræðistofnun – Skálholtsútgáfan, Reykjavík. 2005.