Jóhannes úr Kötlum talar um kúna í þættinum Dýraríkið, 9. október 1960. Í Gullkistunni á Rás 1 í dag var flutt gömul segulbandsupptaka úr safni Ríkisútvarpsins en þar fjallar Jóhannes um íslensku kúna og margt sem henni tengist frá fyrri tíð og fram á okkar daga sem forvitnilegt er að hlusta á.

Hér má hlýða á þáttinn næstu tvær vikurnar á vef Ríkisútvarpsins.

Nokkrar vísur hafa bæst við í lausavísnaþáttinn: Má þar nefna runhendu sem Jóhannes flutti Símuni av Skarði í Þrastalundi 1929. – Bragarhættirnir stefjahrun, gagaraljóð, dverghenda og stúfhenda, sem eru á netinu í Bragfræði Jóns Ingvars Jónssonar. Þá er birt gömul gangnavísa sem frænka mín Guðborg Aðalsteinsdóttir í Hveragerði benti mér á, en vísan er í bókinni Göngur og réttir, 4. bindi.

Mynd: Símun av Skarði (lengst til vinstri) ásamt Rasmus Rasmussen og Símun Pauli úr Konoy.

Sunnudaginn 28. október síðastliðinn var áhugaverður þáttur á Rás 1 sem bar nafnið Ársól, lög og ljóð. Njörður P. Njarðvík ræðir m.a. stuttlega um Jóhannes og les ljóð eftir hann. Hægt er að hlusta á þáttinn gegnum Vefvarp Ríkisútvarpsins út þessa viku gegnum þennan tengil.

Nú byrjar nýr þáttur í Skáldasetri Jóhannesar úr Kötlum en það eru minningarljóð hans sem hann fékkst við mest alla ævina. Meiningin er að safna þeim hér saman á einn stað. Það hefur komið í ljós að þau eru víða til, bæði í bókum hans, tímaritum og blöðum. Mörg þeirra birtust á sínum tíma í bókinni Vinaspegli, en hún er löngu uppseld. Þá eru mörg þeirra geymd í skjalasafni hans í Þjóðarbókhlöðunni, en víða er þau að finna í útfararskrám og sum jafnvel einungis til í einkaeign. Það er von okkar að sem flestir sendi okkur ljóð sem ekki hafa birst áður. Menn geta athugað hvort þau eru til í Þjóðarbókhlöðunni með því að smella í Ritaskrár hér til hliðar og fara í heildarskrá og þá er hægt að leita þar undir númerunum: 1-8, 1-9 og 1-10.