Bókin Ljóðaúrval, nýtt safn ljóða Jóhannesar úr Kötlum, sem gefin var út af Forlaginu/Mál og menningu, hefur selst vel undanfarnar vikur. Bókin er nú í þriðja sæti á lista yfir mest seldu bækur Forlagsins og  á metsölulista Eymundsson hefur hún hertekið sjötta sætið. Þetta verður að teljast góður árangur fyrir ljóðabók og vonandi merki um aukinn áhuga yngri kynslóða á Jóhannesi.

Hátíðardagskrá verður haldin sunnudaginn 9. maí til heiðurs Jóhannesi úr Kötlum í tilefni af útkomu nýrrar bókar með úrvali ljóða hans. Dagskráin fer fram í Bókasal Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu og er öllum opin.
Jóhannes úr Kötlum lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum heimsins og ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldarinnar á Íslandi yrði það næsta óhjákvæmilega hann. Ekkert íslenskt skáld sýnir eins vel þróun ljóðlistarinnar hér á landi og þessi fjölhæfi og afkastamikli höfundur. Næstkomandi sunnudag, kl. 16-18, verður Jóhannesarvaka í Bókasalnum þar sem höfundarverki hans verða gerð skil í tali og tónum. Fram koma meðal annarra Arnar Jónsson, Olga Guðrún Árnadóttir,  Silja Aðalsteinsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Þorsteinn frá Hamri.
Verið velkomin.

Síðastliðinn miðvikudag var Silja Aðalsteinsdóttir, útgáfustjóri Máls og menningar,  gestur Kiljunnar á RÚV. Silja ræddi við Egil Helgason um Ljóðaúrval, bók sem hún ritstýrði og ritar inngang að, en þessi útgáfa er að sögn Silju ætluð nýjum kynslóðum ljóðaunnenda sem aðeins hafa kynnst Jóhannesi að litlu leyti í gegnum sína skólagöngu. Aðrir þekkja Jóhannes helst vegna bókarinnar Jólin koma og kvæðanna þar um Jólasveinana, Grýlu og Jólaköttinn.
Bókin Ljóðaúrval er því kærkomin yfirsýn yfir helstu ljóð Jóhannesar og verður vonandi til þess að kynna hann á nýjan leik fyrir þjóðinni.
Í þættinum heyrist gömul hljóðupptaka í eigu RÚV en þar flytur Jóhannes sjálfur ljóðið Rímþjóð.

Þáttinn má skoða hér.

Þess má geta að myndasafnið hér á  johannes.is kom í góðar þarfir við gerð þáttarins og var veitt góðfúslegt leyfi vegna þess.

Í þætti Torfa Geirmundssonar á Útvarpi Sögu þann 14. apríl síðastliðinn var rætt við Valdimar Tómasson vegna útkomu Ljóðaúrvals Jóhannesar úr Kötlum en Valdimar er manna fróðastur um ljóð og ljóðabækur á Íslandi og á eitt stærsta safn íslenskra ljóðabóka í einkaeigu hér á landi. Valdimar og Torfi fóru yfir þær bækur sem Jóhannes gaf út í gegnum tíðina og ræddu um lífshlaup hans. Þáttinn má heyra hér.

Birt með góðfúslegu leyfi Torfa Geirmundssonar og Útvarps Sögu.