Krummasaga

Lítil var hönd og lítill var fótur
á litlu stúlkunni í Hlíð.
Hún var svo góð og hún var svo rjóð
og hún var svo ung og fríð.

Hún átti skeljar, hún átti horn,
hún átti bláan kjól,
og sitt hvað fleira sem segist ekki
– og svo komu loksins jól.

Kökur ilmuðu og kerti brunnu,
– fólk klæddist í allt sitt skart.
Og allt varð svo hlýtt og hátíðlegt
og hamingjusamt og bjart.

Þá krunkaði gamli krummi úti,
– hann krunkaði lengi og hátt,
og auðheyrt var á hans úfnu rödd,
að nú átti hann fjarska bágt.

Litla stúlkan með litla fótinn
og litlu höndina sat
í indælum kjól við indælt borð,
og át sinn jólamat.

En þegar hún heyrði krumma krunka
hún kastaði hnífi og skeið,
og út á hlaðið með hupp og magál
hljóp hún þá beina leið.

Krummi sat þarna, svangur mjög,
í sínum gamaldagskjól,
og átti ekki nokkurn ætan bita,
er aðrir héldu jól.

En litla telpan sá lítinn skafl
og lagði þar matinn sinn
og sagði svo góð og glöð og falleg:
„Í guðsfriði, krummi minn!”

Og hrafninn flaug út í hljóðan geiminn,
með hátíðarfenginn þann. –
Við mánaglætu og mikinn kulda
í matinn kroppaði hann.

Svo krunkaði hann svo fjarska feginn,
– hann fann að nú voru jól, –
og flögraði upp í frosið gil,
– þar fannst honum ágætt skjól . . .

– – –

Og árin liðu – og liðu hratt,
og litla telpan varð stór,
og eignaðist mann og eignaðist börn
– og allt saman vel það fór.

En „allt er í heiminum hverfult” löngum
og hverfulust lukkan þó. –
Loks mætti henni sú mikla sorg,
að maðurinn hennar dó.

Og eftir sat hún með átta börn
svo ung og rjóð og fríð.
Og nú varð lítið um björg og birtu
hjá börnunum þar í Hlíð.

Treginn var þungur og tíminn langur
og tilveran dimm og köld. –
Nú var ekki til neins að hlakka
hið næsta jólakvöld.

Börnin sátu í þungum þönkum,
– þau þráðu ljós og yl,
en vissu að nú var allt svo örðugt
og ekkert kerti til.

Enginn veit hversu allt er snautt,
þar sem enginn fögnuður vex.
Vindur gnauðaði á glugga og þaki,
en gamla klukkan sló sex . . .

Þá heyrðu krakkarnir krunkað úti
og krunkað lengi og hátt,
og enn var krunkað og aftur krunkað,
svo einkennilega dátt.

Húsfreyjan þekkti þá rámu raust
og rölti nú út á hlað,
til að segja krumma,
að hún ætti ekkert,
– hann yrði að hafa það.

En hissa varð hún er hrafnar margir
á hlaðinu sátu þar,
og hver þeirra lítinn,
léttan böggul í langa nefinu bar.

Þeir hneigðu sig allir hæversklega
og hoppuðu í bæinn inn,
og hver þeirra lagði í litla kjöltu
litla böggulinn sinn.

Svo ruku þeir allir aftur til baka
og út í buskann á ný
og krunkuðu hátt og hátíðlega
og hurfu langt upp í ský.

En inni varð heldur handafum,
– það var hlegið og masað og spurt,
því vonleysið fannst ekki framar þar,
– það var flogið með hröfnunum burt.

Sjá, bögglarnir opnuðust allir í senn
og allt varð svo hlýtt og bjart,
því þar voru kerti og þar voru spil
og þar var svo ótalmargt.

Og börnin æptu af undrun og gleði,
er úr einum bögglinum valt
heilmikil skriða af glóandi gulli,
– þau gáfu mömmu það allt.

Og móðirin góða grét og hló,
– því grunur hennar var sá,
að hér hefðu komið hrafnar nokkrir
himninum sjálfum frá.

– – –

En reyndar var þetta krummi karlinn,
með kolsvarta niðja-fjöld,
sem hún hafði forðum hjálpað um björg
á hlaðinu’ – eitt jólakvöld.

Myndir eftir Tryggva Magnússon (skoða æviferil Tryggva) ©Þórdís Tryggvadóttir