Þið kannist við jólaköttinn,
– sá köttur var gríðarstór.
Fólk vissi ekki hvaðan hann kom
eða hvert hann fór.

Hann glennti upp glyrnurnar sínar,
glóandi báðar tvær.
– Það var ekki heiglum hent
að horfa í þær.

Kamparnir beittir sem broddar,
upp úr bakinu kryppa há,
– og klærnar á loðinni löpp
var ljótt að sjá.

Hann veifaði stélinu sterka,
hann stökk og hann klóraði og blés,
– og var ýmist uppi í dal
eða úti um nes.

Hann sveimaði, soltinn og grimmur,
í sárköldum jólasnæ,
og vakti í hjörtunum hroll
á hverjum bæ.

Ef mjálmað var aumlega úti
var ólukkan samstundir vís
Allir vissu´, að hann veiddi menn
en vildi ekki mýs.

Hann lagðist á fátæka fólkið,
sem fékk enga nýja spjör
fyrir jólin – og baslaði og bjó
við bágust kjör.

Frá því tók hann ætíð í einu
allan þess jólamat,
og át það svo oftast nær sjálft,
ef hann gat.

Þvi var það að konurnar kepptust
við kamba og vefstól og rokk,
og prjónuðu litfagran lepp
eða lítinn sokk.

Því kötturinn mátti ekki koma
og krækja í börnin smá
– Þau urðu að fá sína flík
þeim fullorðnu hjá.

Og er kveikt var á jólakvöldið
og kötturinn gægðist inn,
stóðu börnin bísperrt og rjóð,
með böggulinn sinn.

Sum höfðu fengið svuntu
og sum höfðu fengið skó,
eða eitthvað, sem þótti þarft,
– en það var nóg.

Því kisa mátti engan eta,
sem einhverja flíkina hlaut. –
Hún hvæsti þá heldur ljót
og hljóp á braut.

Hvort enn er hún til veit ég ekki,
– en aum yrði hennar för,
ef allir eignuðust næst
einhverja spjör.

Þið hafið nú kannski í huga
að hjálpa, ef þörf verður á.
– Máske enn finnist einhver börn
sem ekkert fá.

Máske, að leitin að þeim sem líða
af ljós-skorti heims um ból,
gefi ykkur góðan dag
og gleðileg jól.

Höfundarréttur mynda©Þórdís Tryggvadóttir

Grýla hét tröllkerling
leið og ljót
með ferlega hönd
og haltan fót.

Í hömrunum bjó hún
og horfði yfir sveit,
var stundum mögur
og stundum feit.

Á börnunum valt það,
hvað Grýla átti gott,
og hvort hún fékk mat
í sinn poka og sinn pott.

Ef góð voru börnin
var Grýla svöng,
og raulaði ófagran
sultarsöng.

Ef slæm voru börnin
varð Grýla glöð,
og fálmaði í pokann sinn
fingrahröð.

Og skálmaði úr hamrinum
heldur gleið,
og óð inn í bæina
– beina leið.

Þar tók hún hin óþekku
angaskinn,
og potaði þeim
nið’r í pokann sinn.

Og heim til sín aftur
svo hélt hún fljótt,
– undir pottinum fuðraði
fram á nótt.

Um annað, sem gerðist þar,
enginn veit,
– en Grýla varð samstundis
södd og feit.

Hún hló, svo að nötraði
hamarinn,
og kyssti hann
Leppalúða sinn.

Svo var það eitt sinn
um einhver jól,
að börnin fengu
buxur og kjól.

Og þau voru öll
svo undurgóð,
að Grýla varð hrædd
og hissa stóð.

En við þetta lengi
lengi sat.
Í fjórtán daga
hún fékk ei mat.

Þá varð hún svo mikið
veslings hró,
að loksins í bólið
hún lagðist – og dó.

En Leppalúði
við bólið beið,
– og síðan fór hann
þá sömu leið.

Nú íslensku börnin
þess eins ég bið,
að þau láti ekki hjúin
lifna við.

Höfundarréttur mynda©Þórdís Tryggvadóttir

Segja vil ég sögu
af sveinunum þeim,
sem brugðu sér hér forðum
á bæina heim.

Þeir uppi á fjöllum sáust,
– eins og margur veit, –
í langri halarófu
á leið niður í sveit.

Grýla var þeirra móðir
og gaf þeim tröllamjólk,
en pabbinn Leppalúði,
– það var leiðindafólk.

Þeir jólasveinar nefndust,
– um jólin birtust þeir.
Og einn og einn þeir komu,
en aldrei tveir og tveir.

Þeir voru þrettán
þessir heiðursmenn,
sem ekki vildu ónáða
allir í senn.

Að dyrunum þeir læddust
og drógu lokuna úr.
Og einna helzt þeir leituðu
í eldhús og búr.

Lævísir á svipinn
þeir leyndust hér og þar,
til óknyttanna vísir,
ef enginn nærri var.

Og eins, þó einhver sæi,
var ekki hikað við
að hrekkja fólk og trufla
þess heimilisfrið.

Stekkjarstaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
– þá var þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
– það gekk nú ekki vel.

Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
– Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.

Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.

Stúfur hét sá þriðji
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.

Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.

Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.

Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

Sá fimmti, Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
– Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.

Þau ruku upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti’ ann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.

Sá sjötti, Askasleikir,
var alveg dæmalaus. –
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.

Sjöundi var Hurðaskellir,
– sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér vænan dúr.

Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.

Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn o´n af sánum
með hnefanum braut.

Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
unz stóð hann á blístri
og stundi og hrein.

Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.

Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.

Tíundi var Gluggagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.

Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

Ellefti var Gáttaþefur,
– aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.

Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.

Ketkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag. –
Hann þrammaði í sveitina
á Þorláksmessudag.

Hann krækti sér í tutlu,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist stuttur
stauturinn hans þá.

Þrettándi var Kertasníkir,
– þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.

Hann elti litlu börnin
sem brostu, glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.

Á sjálfa jólanóttina,
– sagan hermir frá, –
á strák sínum þeir sátu
og störðu ljósin á.

Svo tíndust þeir í burtu,
– það tók þá frost og snjór.
Á þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.

Fyrir löngu á fjöllunum
er fennt í þeirra slóð.
– En minningarnar breytast
í myndir og ljóð.


Höfundarréttur mynda©Ólafur Pétursson

Einu sinni var lítill drengur
suður með sjó. –
Hann varð feginn og fjarska glaður
þegar faðir hans ýsu dró,
– hann hló, –
því þá fékk hann í magann nóg.
– En svo grét hann líka svo lengi,
þegar Lóa systir hans dó.

Litli drengurinn átti bát,
lítinn, bikaðan bát. –
Hann hratt honum oft út á hafið,
en hafði þó á því gát,
að báran bæri ‘ann að landi, –
svo beið hann í fjörusandi
og bjargaði bátnum frá strandi,
– þá dugði ekki fum eða fát.

Stundum var lítið um fiskinn
þar suður með sjó. –
Oft sat faðir hans allan daginn
og ekkert dró,
– og var hann þó orðlögð aflakló.
Og þegar hann kom að landi
voru allir svo ósköp daprir,
en enginn hló.

Svoleiðis var það einn vetur,
– nú versnar það betur, –
að ei fékkst einn einasti fiskur,
það var öldungis tómur hver diskur,
rétt fyrir jólin,
þegar rauðust var skammdegissólin.

Svo var það einn dag,
þegar pabbi var ekki heima,
en mamma að bera inn mó,
að litli drengurinn labbaði
niður að sjó,
og litla, bikaða bátinn
á eftir sér dró,
og ýtti ‘onum fimlega á flot
út á freyðandi öldubrot,
og hló. –

Og báturinn skreið út á djúpið
af sjálfu sér. –
Ekki hvarf hann í öldurnar
og ekki rak hann á sker.
– Allt var víst fullt af fiski
í hafinu hér,
en diskarnir tómir heima,
– því var nú ver, –
og jólin alveg að koma,
– guð hjálpi mér!

Drengurinn átti dálítið færi
og öngul við.
Nú fleygði hann önglinum fyrir borð
að sjómannasið,
því hér voru fiskimið.
– Svo beið hann, loppinn og leiður,
því löng og köld var sú bið.

Loks kippti eitthvað í öngulinn
þar suður í sjó. –
Þá kom nú fum á fiskidrenginn,
hann dró og dró
og hló og hló,
og lagðist út fyrir borðstokkinn,
sú litla aflakló.

Þá fór nú heldur að hallast,
börnin góð,
því hetjan steyptist á höfuðið
í hafsins flóð.
En flóandi í tárum
hans móðir á ströndinni stóð.

Nú haldið þið kannske,
að hann hafi drukknað,
því djúpur er saltur sjór. –
En það var nú ekki aldeilis,
sem betur fór.
Í djúpið hvarf hann að vísu
og drakk það eins og bjór
og varð svo votur og sljór.
– En þá kom þar einhver skepna,
svo skrýtin og gríðarstór,
sem heilsaði og bauð hann velkominn
í hafsins kór.

Og skepnan talaði mannamál
þar suður í sjó.
„Ég heiti Kobbi”, sagði ‘ún,
„minn faðir hét Faraó.
Hann átti Egyptaland,
– þar var óttalegt vanda-stand.
Þú mannst kannske um hann Móse,
sem stafnum í steininn sló,
og rétti hönd yfir hafið,
svo fólkið hans föður míns dó”.

Þá skyrpti saltinu út úr sér
hin unga aflakló,
kinkaði kolli og hló.
En Kobbi hélt áfram sögunni,
sem var nokkuð snjöll:
„Ég er nú einn af þessu fólki,
– selir urðum við öll.
Hérna niðri á hafsbotni
á ég fína, fallega höll.
Þar eru þaraskógar
og þar eru kóralfjöll,
og þar á ég fallega stúlku,
sem er hvít eins og vetrarmjöll”.

Og Kobbi þreif nú í drenginn
og lofti í hans lungu blés,
og synti með hann af stað,
– ég segi nú bara það.
En þá var komið kvöld
og koldimmt um Suðurnes.

Loks komu þeir að höllinni,
þar sem herra Kobbi bjó,
þar suður í sjó.
Fallegt var þar í kring
og af fiskinum var þar nóg.
Bráðum opnuðust dyrnar
og bjarma á móti þeim sló.
Dýrðlegt var þarna og heitt,
en drengurinn sagði ekki neitt,
því fámáll var hann löngum,
síðan Lóa systir hans dó.

Og drengurinn gekk í höllina,
en herra Kobbi skreið.
Það vildi til að ekki var það
löng leið.
Og hallarfrúin kom
í himinbláum kjól,
björt eins og sól,
brosfögur og heið.
En Kobbi lagði hreifana
um háls hennar og kyssti hana,
en fiskidrengurinn fölnaði,
fölnaði og beið.

Nú hrundi skepnuhamurinn
af herra Kobba strax,
og þar stóð fríður kóngssonur,
með mjúkt og fagurt hár
og mikið eins og fax,
sem hrópaði hárri raustu:
„Hjartað mitt! Sjóddu lax!”

En frúin og fiskidrengurinn
horfðust í augu um stund.
Svo rétti hún sína litlu
og ljómandi mund:
„Sæll vertu, elsku bróðir minn,
og velkominn á minn fund!”

En litli drengurinn grét af gleði,
um leið og hann hló,
og hallarfrúna að brjósti sínu
himinfeginn dró,
því þetta var þá hún systir hans
sem týndist suður með sjó,
svo enginn vissi um hana meir,
annað en það að hún – dó.

Nú varð kátt í höllinni
og meira en það,
því nú fóru allir selirnir
í sjónum af stað, og hópuðust saman,
– já, hvað það var gaman.
Þeir dönsuðu og sungu
um systkynin ungu,
– en kóngssonur mansöngva kvað.

Þetta gekk fram á jólakvöld,
– langt fram á jólakvöld.
Þá fór herra Kobbi í haminn aftur,
– en úti reis aldan köld, –
og með systkynin synti að landi
í svona líka ágætu standi.
Í fallegum fjörusandi
lék buslandi bárufjöld.

Og frúin og fiskidrengurinn
löbbuðu í kotið heim,
með lax í skinnbelgjum tveim.
En á malarrifi lá Kobbi
og mændi á eftir þeim.

En sú undrun í kotinu
þegar þau komu inn.
Karlinn missti tóbakið niður
og kerlingin askinn sinn.
Þau voru orðin svo þreytt af að gráta,
þessi gömlu skinn.

Nú var potturinn settur á hlóðir,
– þó það væri nú þó.
Öll settust niður og átu laxinn
og öll fengu meir en nóg,
stúlkan, sem dó,
drengurinn, sem hló,
karlinn, sem ekkert dró,
og kerlingin, sem bar mó.
– En nú voru líka jólin
þar suður með sjó.

En brátt varð litla hallarfrúin
hljóð og þungbúin,
auminginn.
Með tár í augum stóð hún upp
og kyssti á allra kinn,
og fór svo niður í fjöru
til að finna Kobba sinn.

– – –

Vakti á himni jólastjarna,
vindur af hafi blés.
Fallega syntu selirnir
við Suðurnes.

Myndir eftir Tryggva Magnússon (skoða æviferil Tryggva) ©Þórdís Tryggvadóttir